Löglegt en siðlaust... eða kolólöglegt og siðlaust í þokkabót?

Hér fyrir neðan er samkomulag það, sem Orkuveita Reykjavíkur og Sveitarfélagið Ölfus gerðu með sér í apríl 2006 þar sem OR kaupir blygðunarlaust samvinnu sveitarstjórnar og loforð þess efnis að framkvæmdaleyfi verði veitt fyrir virkjunum og greitt fyrir flýtimeðferð gegn því að OR kosti ýmsar framkvæmdir í Ölfusi. Samkomulagið er gert löngu áður en lögbundið ferli hófst við umhverfismat og breytingu aðalskipulags sem krafist er við svona miklar framkvæmdir, svo ekki sé minnst á hvað þær eru umdeildar.

Samkomulagið er metið á 500 milljónir króna sem eru greiddar úr vasa Reykvíkinga - þeir eiga jú Orkuveitu Reykjavíkur. Ekki lækka orkureikningar þeirra við það. Matsupphæðin er fengin úr fundargerð Sveitarfélagsins Ölfuss sem sjá má hér undir lið g.

Í viðtali í kvöldfréttum Sjónvarpsins 1. desember sl. gagnrýndi Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sveitarstjórnir harðlega fyrir að taka ekki nægilegt tillit til náttúruverndarsjónarmiða við skipulagsákvarðanir. Hún sagði jafnframt að náttúrunni væri of oft fórnað fyrir atvinnusjónarmið. Orðrétt sagði Þórunn einnig: "Ég fæ ekki séð hvernig fyrirtæki, hvort sem það er ríkisfyrirtæki eða annað, geti lofað þjónustubótum sem eru í raun á hendi ríkisins."

Samkomulag OR og Ölfuss er nákvæmlega svona. Þarna er opinbert fyrirtæki í eigu Reykvíkinga að lofa sveitarfélagi ljósleiðara, uppgræðslu, hesthúsum, raflýsingu á þjóðvegum og fleiru og fleiru til að horft verði fram hjá skaðsemi framkvæmdanna og öllu ferlinu flýtt eins og kostur er.

Nú þegar hefur verið bent á gríðarlega lyktarmengun sem hljótast mun af þessu virkjanaæði. Ólíft getur orðið í Hveragerði 70 daga á ári. Reykvíkingar hafa nú þegar fundið fyrir töluverðri lyktarmengun og magn brennisteinsvetnis í mælingum við Grensásveg hefur farið yfir hættumörk þótt enn sé aðeins búið að reisa tvær virkjanir af fimm eða sex fyrirhuguðum. Virkjanirnar endast ekki nema í 40 ár, nýting þeirra einungis 12-15% þannig að 85-88% fer til spillis og aðeins er fyrirhugað að framleiða rafmagn, ekki heitt vatn til húshitunar eða annarra verkefna. Þetta eru því jarðgufuvirkjanir, ekki jarðvarmavirkjanir.

En hér er samkomulagið - dæmið sjálf hvort þetta séu siðlausar mútur eða eðlileg meðferð á fjármunum Reykvíkinga. Ég ætla að taka fyrir einstakar greinar í seinni færslum og kryfja þær nánar. Allar frekari upplýsingar, studdar gögnum, væru vel þegnar.
___________________________________________________

Samkomulag milli Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagsins Ölfuss um ýmis mál sem tengjast virkjun á Hellisheiði

1. grein
Orkuveita Reykjavíkur er að reisa fyrsta áfanga Hellisheiðarvirkjunar og stefnir að enn frekari uppbyggingu orkuvera á Hellisheiði og Hengilssvæðinu.  Um er að ræða framkvæmdir vegna stækkunar virkjunar og framkvæmdir vegna nýrra virkjana til raforku- og varmaframleiðslu.  Fyrirséð eru mannvirki tengd vélbúnaði og stjórnstöð, borteigar, safnæðar, skiljustöðvar, aðveituæðar, kæliturnar og önnur mannvirki aukist á svæðinu.  Framkvæmdin felur í sér vinnslu jarðhita, vegi, borholur, vatnsöflun, gufuveitu, stöðvarhús, kæliturna, niðurrennslisveitu og efnistökusvæði.  Framkvæmdatími getur numið allt að 30 árum og stærð virkjana orðið samtals um 600 - 700 MW.

2. grein
Bæjarstjórn Ölfuss veitir framkvæmdaleyfi og greiðir fyrir skipulagsmálum eins hratt og unnt er vegna umræddra framkvæmda enda byggi þær á lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrir hvern áfanga og viðkomandi verkþætti.  Orkuveita Reykjavíkur greiðir Sveitarfélaginu Ölfuss skv. 11. grein fyrir aukið álag og vinnu sem framkvæmdirnar kalla á hjá sveitarfélaginu.  Þetta gerir sveitarfélaginu kleift að hraða öllum umsögnum og leyfisveitingum sem þörf er á.

3. grein
Orkuveita Reykjavíkur sér um og ber allan kostnað af hugsanlegum málaferlum og skaðabótakröfum sem rekstur og framkvæmdir tengdar Orkuveitu Reykjavíkur leiða til, sama hvaða nafni þær nefnast.  Þetta á einnig við um hugsanleg skaðabótamál á hendur Sveitarfélaginu Ölfuss sem rekja má til virkjunarframkvæmda og orkuvera á Hellisheiði.

4. grein
Aðilar eru sammála um að sérstök ráðgjafanefnd sem skipuð verði um uppgræðsluverkefni skili tillögum til beggja aðila um uppgræðslu í Sveitarfélaginu Ölfusi.  Ráðgjafanefndin verði skipuð þremur aðilum, einum frá Orkuveitu Reykjavíkur, einum frá Sveitarfélaginu Ölfusi og aðilar koma sér saman um einn fulltrúa eftir nánara samkomulagi.  Fulltrúi Sveitarfélagsins Ölfuss verður formaður nefndarinnar.  Um er að ræða uppgræðsluverkefni í sveitarfélaginu, til að mæta bæði því raski sem verður vegna virkjana og til almennra landbóta.  Miðað er við að Orkuveita Reykjavíkur verji til þessa verkefnis 12,5 milljónum á ári fram til 2012.  Þá verði leitast við að fá fleiri aðila að verkinu.  Þá mun Orkuveita Reykjavíkur leggja að auki til starf unglinga til landbóta í sveitarfélaginu.  Haft verður í huga í landgræðsluverkefnunum að vinna gegn losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

5. grein
Vegna framkvæmda Orkuveitu Reykjavíkur tekur hún að sér að byggja upp nýja fjárrétt og hesthús við Húsmúla sem notuð er til smölunar á afrétti Ölfusinga skv. fyrirliggjandi teikningum.  Orkuveita Reykjavíkur mun annast viðhald þessara mannvirkja.  Þessi aðstaða nýtist fyrir ferðamennsku á svæðinu í annan tíma.  Þá sér Orkuveita Reykjavíkur um að byggja upp og lagfæra það sem snýr að smölun og afréttarmálum sem virkjunarframkvæmdirnar hafa áhrif á.  Miða skal að 1. áfanga verksins þ.e.a.s. bygging fjárréttar, verði lokið fyrir göngur haustið 2006.

6. grein
Orkuveita Reykjavíkur gerir Sveitarfélaginu Ölfuss tilboð í lýsingu vegarins um Þrengsli, frá Suðurlandsvegi í Þorlákshöfn fyrir 14 milljónir á ári (verðtryggt með neysluvísitölu, janúar 2007).  Innifalið er lýsing á veginum með ljósum sem eru með 50 m millibili, allur fjármagnskostnaður, orka og viðhald er innifalið í tilboðinu.  Fylgt verður kröfum og reglum Vegagerðarinnar.  Verkinu verði lokið á árinu 2006 að því tilskyldu að öll leyfi liggi tímanlega fyrir.

7. grein
Orkuveita Reykjavíkur mun greiða Sveitarfélaginu Ölfuss fyrir jarðhitaréttindi í afréttinum á Hellisheiði samkvæmt sömu reglum og notaðar voru við önnur landa- og réttinda kaup af landeigendum í Ölfusi.  Þetta verður gert ef og þegar óbyggðanefnd eða eftir atvikum dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að afrétturinn sé fullkomið eignarland sveitarfélagsins, allur eða að hluta.  Náist ekki samkomulag um bætur skal úr skorið af 3 manna gerðardómi þar sem hvor aðili skipar einn mann en oddamaður verði tilnefndur af sýslumanni Árnessýslu.

8. grein
Verði niðurstaða óbyggðanefndar, eftir atvikum dómstóla, sú að afrétturinn allur eða að hluta sé þjóðlenda mun Orkuveita Reykjavíkur bæta tjón vegna jarðrasks, missi beitilanda, umferðarréttar, og röskunar á afréttinum eftir nánara samkomulagi.  Náist ekki samkomulag um bætur skal úr skorið af þriggja manna gerðardómi þar sem hvor aðili um sig skipi einn mann en oddamaður verði tilnefndur af sýslumanni Árnessýslu.

9. grein
Á árinu 2008 hafi Orkuveita Reykjavíkur lokið lagningu ljósleiðara um þéttbýli í Þorlákshöfn og fyrir árið 2012 verði lagningu ljósleiðara lokið um aðgengilegan hluta dreifbýlis Ölfuss skv. nánara samkomulagi er liggi fyrir áramót 2006/2007.

10. grein
Kannað verði til hlítar hvort aðkoma Orkuveitu Reykjavíkur að Sunnan 3 sé áhugaverður kostur fyrir verkefnið og þá aðila sem að verkefninu standa.  Markmið verkefnisins er að nota rafrænar lausnir til að efla búsetuskilyrði á svæðinu.

11. grein
Aðilar eru sammála um að bæjarstjórn Ölfuss þurfi að fylgjast með reglubundnum hætti með virkjunarframkvæmdum innan sveitarfélagsins m.a. til að geta svarað spurningum sem upp kunna að koma og beint verður til bæjarstjórnar.  Í þessu skyni koma aðilar sér saman um að halda reglulega fundi á framkvæmdatíma, allt að 4 fundum á ári, þar sem m.a. verður farið í skoðunarferðir um vinnusvæðið.  Aðilum er ennfremur ljóst að umsvif og álag á bæjarstjórn og bæjarstjóra Ölfuss mun fyrirsjáanlega aukast meðan framkvæmdir við virkjanir á Hengilssvæðinu standa yfir í sveitarfélaginu.  Samkomulag er um að Orkuveita Reykjavíkur greiði Sveitarfélaginu Ölfusi fyrir þann kostnað sem af þessu hlýst með fastri heildargreiðslu, kr. 7,5 milljónir á ári árin 2006 til 2012, 1. september ár hvert.  Þessar greiðslur verða notaðar til að kappkosta við að afgreiðsla umsagna og leyfa verði eins hröð og hægt er. 

Ölfusi 28. apríl 2006 

Undir skrifa Ólafur Áki Ragnarsson og Hjörleifur Brynjólfsson fyrir hönd Ölfuss og Guðmundur Þóroddsson og ólæsileg rithönd fyrir hönd OR.

_________________________________________________


Ég kref Orkuveitu Reykjavíkur svara við því, hvernig hún telur sig þess umkomna að gefa Sveitarfélaginu Ölfusi 500 milljónir - hálfan milljarð - af peningum Reykvíkinga. Orkuveita Reykjavíkur er opinbert fyrirtæki í eigu útsvarsgreiðenda í Reykjavík og þeir eiga heimtingu á að fá skýr svör frá OR.

Svo væri einnig mjög fróðlegt að vita nákvæmlega í hvað gjafaféð sem þegar hefur verið reitt af hendi hefur farið. Það þykir mér forvitnilegt og nú stendur upp á sveitarstjórn Ölfuss að gefa nákvæmar skýringar á hverri einustu krónu.

Eins og fram kom í einni af fyrri færslum mínum er meirihlutinn í Sveitarstjórn Ölfuss skipaður 4 einstaklingum sem hafa alls 495 atkvæði á bak við sig. Athugasemdir við og mótmæli gegn fyrirhugaðri Bitruvirkjun voru rétt um 700. Ef allt er talið snertir ákvörðunin um virkjanir á Hellisheiði og Hengilssvæðinu um það bil 200.000 manns beint í formi spilltrar náttúru, lyktar-, loft- og sjónmengunar og alla landsmenn í formi ofurþenslu, verðbólgu og vaxtahækkana.

Ég lýsi eftir lýðræðinu í þessum gjörningi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Vó hvað það brakaði í höfðinu á mér við lesturinn, en mikið skelfing er ég þakklát fyrir að útskýra málin, því þú gerir það á einfaldan hátt.

Takk og góða nótt.

Jenný Anna Baldursdóttir, 10.12.2007 kl. 23:53

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég á eftir að útskýra málin enn nákvæmar, grein fyrir grein. Það er mjög mikilvægt að fólk átti sig á því hvað verið er að gera hérna. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 11.12.2007 kl. 00:02

3 Smámynd: Sigurður Hrellir

Takk fyrir að vekja máls á þessu á skýran og skiljanlegan hátt. Ég benti fréttamanni Útvarpsins á þennan samning fyrir rúmum 2 vikum síðan og hvatti hann til að gera úr þessu frétt. Fréttin kom merkilegt nokk 3 dögum síðar (26/11) en þá var einungis rætt við Ólaf Áka sem sá vitaskuld ekkert athugavert við samkomulagið. Hvers vegna var ekki rætt við einhvern fulltrúa umhverfissamtaka? Einhvern úr bæjarstjórn Hveragerðis? Sérfræðing í umhverfisrétti?

Því miður finnst mér RÚV standa sig hroðalega illa í umfjöllun um virkjana- og umhverfismál. Af nógu er að taka og spillingarfnykurinn er langt yfir viðmiðunarmörkum! Reyndar er Mogginn líka mjög slæmur því að annað slagið virðist hann fjalla um umhverfismál á sanngjarnan hátt en svo tekur ritstjórnin sig til annað slagið og gengur til liðs við virkjanaöflin svo að um munar. Grein sem ég skrifaði um miðjan nóvember hefur t.d. beðið birtingar í 3 vikur og er eiginlega orðin úrelt. Ég gafst loksins upp á biðinni og setti hana á bloggsíðuna mína.

Sigurður Hrellir, 11.12.2007 kl. 00:43

4 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Takk fyrir að birta þetta, Lára.

Ég hnaut um þennan samning á sínum tíma, en svo datt það einhvernveginn uppfyrir að ég fylgdi málinu eftir. Ætla að bæta úr því, eftir þetta olnbogaskot frá þér.

Ætla líka að kanna hvernig gengur að efna önnur loforð í samningnum, en þessi með að: "Þessar greiðslur verða notaðar til að kappkosta við að afgreiðsla umsagna og leyfa verði eins hröð og hægt er."

Takið eftir að samningurinn er undirritaður rétt fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar! Mönnum dettur ýmislegt í hug á slíkum stundum!
 

Soffía Sigurðardóttir, 11.12.2007 kl. 15:53

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Kærar þakkir fyrir stuðninginn og áhugann.

Því miður hefur reynst gagnslítið að reyna að vekja athygli á þessu máli og öðrum því tengdum á lítt þekktri bloggsíðu sem fáir vita af eins og þessari. Það sem til þarf er að kjarkmikill fjölmiðill taki málið að sér, skoði það ofan í kjölinn, spyrji nærgöngulla spurninga og gangi hart á eftir skýrum svörum. Og geri það á mannamáli sem allir skilja.

Ég er ekki úrkula vonar um að það gerist áður en yfir lýkur.

Lára Hanna Einarsdóttir, 11.12.2007 kl. 16:01

6 identicon

Takk fyrir þessa færslu! Það er nákvæmlega það sem þarf – málefnaleg umræða gjarnan í útvarpsþætti sem skoðar málið nákvæmlega.

 

Ef stóriðjusinnar fá það sem þeir vilja þá verða bráðum 2 álver á Reykjanesinu, a.m.k. 5 virkjanir á Hengilssvæðinu og miklar rafmagnslínur á milli þessara staða og svo rörin á Hengilssvæðinu sem sjást nú þegar (heyrði frásögn móður 11-ára dóttur um daginn þar sem hún hafði þurft að útskýra fyrir stelpunni hvað þessi mikli reykur var að gera þarna innan um fjöllin. Þegar það var búið kom “en af hverju þarf svona stórt og ljótt hús til að gera þetta?” Seinna, á leiðinni heim, sá stelpan rörin stóru hægra megin við veginn og þurfti að fá útskýringu á því og sagði svo “en á ekki að moka yfir þetta?” svarið var nei og þá kom “en þetta er rosalega ljótt!”. Þarna er 11-ára stelpa að meta þetta einungis út frá sjónmengun, en svo eru hinar hliðarnar...

 

En það sem ég ætlaði eiginlega að skrifa um var þessi álver, virkjanir og fleira sem þeim tengjast. Þegar erlendir gestir koma til landsins, hvort sem þeir eru túristar eða aðrir, þá heimsækja þeir yfirleitt Reykjavík, oft Bláa Lónið o.fl. á Reykjanesinu og ef þeir hafa meiri tíma þá fara þeir austur fyrir fjall á Gullfoss og Geysi. Á þessari leið sjá þeir í dag eitt álver og a.m.k. tvær virkjanir. Er það ekki nóg? Við getum ennþá sagt við þessu að það er mikill kostur fyrir íslendinga að geta hitað húsin sín með heitu vatni. En það er ekki hægt að segja það um fleiri jarðgufuvirkjanir. Ef áætlanir ganga eftir þá koma þeir – gestirnir – til með að sjá rafmagnslínur nánast alla leiðina frá því að þeir lenda í Keflavík, á ferð um Reykjanesið og hvert álverið eða virkjunin á eftir annarri ásamt hitavatnsleiðslum þangað til að þeir koma í Hveragerði – og þegar þeir stíga út úr bílnum þar, geta þeir ef til vill lent í brennisteinslykt.

 

Er þetta myndin sem við viljum að erlendir gestir fá af Íslandi??? Það er verið að kynna landið sem hreint og fagurt og með ósnortna náttúru! Hvernig kemur þetta heim og saman? Þetta er alla vega allt önnur mynd heldur en ég fékk af Íslandi þegar ég kom hingað fyrir 18 árum síðan – ég ætlaði bara að vera eitt sumar, en þau urðu fleiri og svo urðu þau mörg ár – og það er alveg ljóst að það var ekki út af því að ég sá fyrir mér framtíð í stóriðju!

 

Það kann að vera að það eru ekki sömu aðilarnir sem vinna að landkynningu og þeir sem skipuleggja stóriðju en ég hélt samt að ríkisstjórnin ætti að vera með markaða stefnu í báðum þessum málum. Alla vega er þetta grundvallarspurning sem menn verða að komast að niðurstöðu um, eins og Gunnar Kristjánsson segir í grein sinni Stríð streymir Jökla (hún er að finna á síðunni www.hengill.nu undir Greinar og “Viljum við óbyggðir eða ekki? Um þetta verður að nást þjóðarsátt því að landið er sameign þjóðarinnar.” Þetta er frábær grein sem ég mæli með að allir lesi sem eru ekki þegar búnir að því.

 

Petra Mazetti (IP-tala skráð) 11.12.2007 kl. 18:28

7 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Takk fyrir þetta- allt er þetta með ólíkindum og spillingin og hrokinn skína í gegnum gjörninginn allan. Spurning, hvort hér á landi fyrirfinnist „kjarkmikill“ fjölmiðill til að fara í saumana á máli sem þessu. Í þessu míkró samfélagi, þar sem allir eru tengdir og skyldir öllum, virðist það ógerlegt. Kannski ráð að fara með svona mál í erlenda fjölmiðla. Hvað er annars Sunnan 3?

Ásgeir Kristinn Lárusson, 12.12.2007 kl. 12:11

8 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég tek undir með Petru - greinin hans Gunnars Kristjánssonar er perla. Með betri greinum sem ég hef lesið um þetta málefni.

Ásgeir Kristinn... Þótt margt sé liðið í skjóli persónulegra tengsla eru takmörk fyrir öllu. Sunnan 3 er verkefni á vegum Byggðastofnunar í samvinnu við Ölfus, Hveragerði og Árborg. Lesa má um verkefnið hér og velta fyrir sér hvort Orkuveita Reykjavíkur eigi nokkuð með að eyða peningum Reykvíkinga í þetta verkefni. Aðkoma Byggðastofnunar ætti að nægja.

Lára Hanna Einarsdóttir, 12.12.2007 kl. 12:25

9 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Kvitta fyrir reglulegu innliti.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 12.12.2007 kl. 12:31

10 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Takk - Sunnan 3 hljómar ágætlega - mun betur en fárviðrið, sem geysar á Hellisheiðinni.

Ásgeir Kristinn Lárusson, 12.12.2007 kl. 16:38

11 identicon

Enn og aftur Lára Hanna.  Bestu þakkir fyrir skýra framsetningu í þessu alvarlega máli.  Í mínum huga kemur þú að kjarna með þessu innleggi og sýnir með birtingu samningsins hversu fráleitt það er að sveitarfélög og einstaka landeigendur geti haft úrslitaáhrif þegar meta á hvort og hvenær landi skuli fórna fyrir atvinnusköpun, stundum mjög vafasama. 

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 11:21

12 identicon

Takk fyrir Lára Hanna. Það þyrftu að vera fleiri jafn vel vakandi og þú í umhverfismálum. Áfram svona mín kæra! kveðja Ása Björk

Ása Björk Snorradóttir (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 19:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband