Hvað er ólýðræðislegt við að láta í sér heyra?

MótmæliMikið hefur verið fjallað um hinn sögulega borgarstjórnarfund á fimmtudaginn og mótmælin sem þar voru viðhöfð og sýnist sitt hverjum. Ég hef sett inn athugasemdir á ýmsum bloggsíðum þar sem ég fagna þessum mótmælum og finnst þau alls ekki í ætt við skrílslæti eins og sumir vilja vera láta. Ég sat límd fyrir framan sjónvarpið á meðan á þessu stóð, skipti ört milli stöðva og fannst risið ekki hátt á forsvarsmönnum nýja meirihlutans. Loksins, loksins lét fólk í sér heyra og það eftirminnilega, enda þorra Reykvíkinga, og reyndar landsmanna allra, gróflega misboðið með valdaráninu. Frekar ætti að kenna valdaránið við skríl en mótmæli almennings sem hefur fengið sig fullsaddan af siðlausum embættisveitingum, baktjaldamakki, hrossakaupum, ábyrgðarleysi stjórnmálamanna og fáránlegri sóun á skattpeningum.

Í Vikulokunum á Rás 1 í morgun var Hallgrímur Thorsteinsson með þrjá gesti, þau Kjartan Magnússon úr Sjálfstæðisflokki, Oddnýju Sturludóttur úr Samfylkingu og Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðing, sem væntanlega var þar sem hlutlaus áhorfandi. "Hvað finnst ykkur um það sem gerðist þarna?" spurði Hallgrímur viðmælendur sína. Þau Kjartan og Oddný höfðu skiljanlega ólíka sýn á atburðinn.

EinarMarSvo spurði hann Einar Mar "Var þetta vanvirða við lýðræðið?" og Einar Mar svaraði eitthvað á þessa leið: "Nei, veistu ég held ekki. Ég er nú svolítið hrifinn af svona mótmælum og þegar almenningur lætur til sín taka. Við köllum þetta óhefðbundna stjórnmálaþátttöku... (Innskot Oddnýjar: Borgaralega óhlýðni.) ...eða borgaralega óhlýðni í stjórnmálafræðinni. Íslendingar eru alveg rosalega latir að láta til sín taka og alveg ómögulegir í þessari borgaralegu óhlýðni. Þannig að ég eiginlega bara dáist að fólki þegar það mætir svona og lætur í sér heyra. Mér finnst það bara hið besta mál."

Ég sá einhvers staðar að Jenný Anna, sá stórkostlegi nýyrðasmiður, kallar þetta "hljóðsettan lýðræðisgjörning" sem á jafnvel enn betur við hér en borgaraleg óhlýðni eða óhefðbundin stjórnmálaþátttaka.

Þetta finnst mér vera kjarni málsins og til að bæta um betur birti ég hér að neðan pistil Illuga Jökulssonar úr 24 stundum í dag. Ég hef verið mikill aðdáandi Illuga um langt árabil þótt ekki þekki ég hann neitt persónulega. Honum er einkar lagið að orða hlutina þannig, að mér finnst hann hafa lesið hug minn og hjarta og það gerir hann nú sem endranær.

Vonandi var atburðurinn í Ráðhúsi Reykjavíkur á fimmtudaginn bara forsmekkurinn að því sem koma skal - að landsmenn noti lýðræðið og taki virkan þátt í að móta líf sitt og umhverfi.


Pistill Illuga
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Góður pistillinn hans Illuga einsog hans er von og vísa.  Nokkuð ljóst, að Sjálfstæðismenn í Borgarstjórn fremja með þessum gjörningi pólitískt sjálfsmorð.  Og ég, sem hélt, að það gerðu menn bara einu sinni!!!

Ásgeir Kristinn Lárusson, 26.1.2008 kl. 16:46

2 identicon

Alveg merkilegt hvernig hægt er að spinna sig frá öllum hlutum í pólitík, enda virðast fjölmiðlar birta ummæli manna án þess að velta upp báðum hliðum málsins. Vonandi verður opinber umræða hér á landi ekki í ætt við CNN / FOX fréttamennsku þar sem skoðanabræður/systur eru fengnir til að "rökræða" mál sem þeir eru allir sammála um í öllum meginatriðum.

Umræðan um þessi meintu skrílslæti er hreinlega þannig að meirihlutinn gerir allt sem á þeirra valdi stendur að "endurskrifa" söguna sér í hag, láta þessi mótmæli daga uppi sem skrílslæti óagaðra óferjandi unglinga sem hafa ekki vit á pólitík. Kannski var hægt að segja það sama um mótmælin á torgi hins himneska friðar, mótmæli hippakynslóðarinnar (ungt fólk) gegn Víetnam stríðinu o.s.frv. Churchill hafði svipaða nálgun þegar hann sagði að sagan myndi fara um hann fögrum orðum, enda hyggðist hann skrifa hana sjálfur.

Þetta er kynslóðin sem hefur tíma aflögu til að mótmæla, aðrir djöflast áfram í stanslausum önnum myrkranna á milli, þar sem þenslan hefur lamið menn áfram fram að þessu. Kaffihúsin, bloggið og fjölskylduboðin eru vettvangur hinna sem eldri eru.

Þökkum unga fólkinu fyrir, að gefa sér tíma til að berjast gegn óréttlætinu fyrir okkar hönd.

Snorri Marteinsson (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 16:50

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Með því að láta umræðuna snúast um að þetta hafi verið skrílslæti, er umræða um hvernig staðið var að hinum nýja meirihluta, kæfð. Mér virðist það vera að takast. Fólk sem var misboðið með þeirri atburðarás þorir sumt hvert ekki annað en að taka undir að þarna hafi verið farið offari í mótmælum. Í mínum huga skiptir það engu máli þó einstaka menntskælingur hafi farið yfir strikið. Mótmælin áttu rétt á sér og tilgangur mótmæla er að vekja athygli á málstaðnum, það tókst.

Mér finnst mikilvægt að láta ekki villa okkur sýn á hvað eru aðalatriði í málinu. Það er klárlega ekki aðalatriði í brogarstjórnarmálum á Íslandi þó örfáir menntaskólanemar hafi hátt á ráðhúspöllum. Veltum frekar tilefninu fyrir okkur, afhverju var fólki svona misboðið.

Kristjana Bjarnadóttir, 26.1.2008 kl. 17:08

4 Smámynd: Steingrímur Helgason

Á góðum degi heitir skríllinn oft 'kæra atkvæði'.

Steingrímur Helgason, 26.1.2008 kl. 18:13

5 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Ef það voru skrílslæti á pöllum borgarstjórnar - hvað kallast þá hróp og köll breskra þingmanna þegar þeim mislíkar það sem fram kemur í ræðustól þar? Ekki minnist ég þess að orðið "skrílslæti" hafi verið viðhöfð yfir þau ósköp sem þar eru viðhöfð.

Pistill þinn er frábær Lára Hanna.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 26.1.2008 kl. 20:29

6 identicon

Ég hef sagt það einhvers staðar á öðru bloggi að margt af þessu hneykslaða fólki talar eins og þessi svokölluðu "skrílslæti" séu eitthvað einstakt, einhver atburður sem aldrei hafi gerst fyrr. Þegar ég var á mínum menntaskólaárum fyrir einhverjum tugum ára var þetta kallað að mótmæla, as simple as that!

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 23:31

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir falleg orð í minn garð en síðan hvenær hefur lýðræði þurft að praktiserast með hvísli.  Meira bölvað ruglið. Áfram með svona aðgerðir. 

Jenný Anna Baldursdóttir, 27.1.2008 kl. 13:20

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég held að þú sért stórlega vanmetinn síðuritari Lára Hanna.

Árni Gunnarsson, 28.1.2008 kl. 14:56

9 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Flottir pistlar Lára Hanna: Þinn og Illuga. Takk fyrir.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 29.1.2008 kl. 16:38

10 Smámynd: Villi Asgeirsson

Sammála öllu að ofan. Ef eitthvað er, mættu íslendingar taka oftar til hendinni þegar stjórnmálamenn gera hluti í okkar nafni. Íraksstríðið kemur mér í hug.

Lýðræði getur ekki virkað nema lýðurinn taki þátt í því. 

Villi Asgeirsson, 29.1.2008 kl. 22:30

11 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Sæl Lára,

Þar sem þú spurðir um "kvittið" mitt; vcd

- vaya con dios eða gakk þú með guði, farðu með guði eða í guðsfriði (eftir því hver þýðandinn er).   

- í raun varð þetta að lenzku hjá mér eftir orðaskipti við einn ágætan guðsmann.

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 30.1.2008 kl. 21:35

12 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Lára, þetta er gott hjá ykkur Illuga báðum! Tók mér það bessaleyfi að setja hlekk á síðuna þína af boggi hjá mér áðan.

Var að blogga um mál sem ég hvet þig til að fylgjast með: Nú á að hrinda Búðarhálsvirkjun í farmkvæmd með veitu úr Tungnaá í gegnum Búðarháls. Þarf að passa að Landsvirkjun sölsi ekki Þjórsárverin undir sig í framhaldinu. Áform þeirra eru að veita líka af Þjórsárverum úr Norðlingaölduveitu inn í þessa virkjun.

Soffía Sigurðardóttir, 31.1.2008 kl. 02:35

13 Smámynd: Jens Guð

  Er ekki bara hressandi að "lýðurinn" sé virkur? 

Jens Guð, 2.2.2008 kl. 04:31

14 Smámynd: halkatla

ég er búin að vera sjúkur aðdáandi Illuga í mörg ár, ég sá hann einu sinni og það leið næstum yfir mig - en annars er ég líka sammála þér um allt hitt!

halkatla, 2.2.2008 kl. 23:47

15 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Fyrirgefðu að ég er svona alveg út úr Q og virka kannski algjörlega sama um allt sem heitir lýðræði..... en hvar er myndin tekin sem prýðir hausinn hjá þér?

Hrönn Sigurðardóttir, 3.2.2008 kl. 20:39

16 Smámynd: Dofri Hermannsson

Flottar greinar - eins og þín er von og vísa.

Ég er, eins og Hrönn, líka forvitinn um stuðlabergið.

Dofri Hermannsson, 6.2.2008 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband