Viðhorf Helgu Völu - Þetta er ekkert grín!

Hér fyrir neðan er úrklippa úr 24 stundum í dag þar sem Helga Vala Helgadóttir varar við sinnuleysi fólks gagnvart þeirri hugmynd að reisa olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum, annaðhvort í Arnarfirði eða Dýrafirði.

Helga Vala lýsir yfir áhyggjum sínum af hugmyndinni og sinnuleysinu og vitnar í orð fólks sem segir að það taki því ekki að ergja sig yfir þessari umræðu - þetta sé bara grín.

EN ÞETTA ER EKKERT GRÍN!

Ekki frekar en þær hugmyndir að reisa álver í Helguvík, eyðileggja náttúruperlur á suðvesturhorninu með óarðbærum, brennisteinsspúandi jarðvarmavirkjunum, leggja háspennumöstur um þvert og endilangt Reykjanesið og flytja inn enn fleiri erlenda farandverkamenn eins og Helga Vala kallar þá réttilega. Svo ekki sé minnst á þensluna, vaxtaokrið og verðbólguna sem óhjákvæmilega fylgir öllum þessum framkvæmdum.

Íslendingar verða að átta sig á því, að mönnum sem haldnir eru virkjana- og stóriðjufíkn er fúlasta alvara. Þeim er ekkert heilagt. Þeim virðist vera nákvæmlega sama um hvers konar mengun af völdum framkvæmdanna og þeir hafa sannfært sjálfa sig um að þetta sé "þjóðhagslega hagkvæmt" (aur í eigin vasa?). Og að það þurfi "að skapa störf" í þjóðfélagi þar sem er ekkert atvinnuleysi og fluttir hafa verið inn um eða yfir 20.000 erlendir farandverkamenn á örfáum árum til að þræla á lágum launum svo græðgisvæðingin geti orðið að veruleika og sumir fengið meira í vasann.

Ætla mætti að þjóðin sé reynslunni ríkari eftir Kárahnjúkaklúðrið - það var alvara þó að fáir tryðu því til að byrja með. Við verðum að taka mark á svona fyrirætlunum og kæfa þær í fæðingu. Náttúra Íslands er of stórfengleg og dýrmæt til að henni sé hvað eftir annað fórnað á altari gróðahyggjunnar og Mammons.

Vestfirðirnir eru dýrgripur sem við eigum öll að standa vörð um ásamt öðrum náttúrugersemum á Íslandi. Getur einhver með góðu móti séð fyrir sér Kría_í_Arnarfirðispúandi olíuhreinsunarstöð í þessu umhverfi hér á myndinni?



 

 




 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég tek heilshugar undir orð Helgu Völu í greininni hér að neðan, færi henni mínar bestu þakkir fyrir að halda vöku sinni, og skora á alla sem hafa skoðun á málinu að taka þetta mjög alvarlega, eigi síðar en strax, og láta í sér heyra - hátt og snjallt.

Viðhorf Helgu Völu Helgadóttur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heidi Strand

Takk fyrir frábæran pistil og blaðagrein. Þetta er sko ekkert grín.

Heidi Strand, 15.2.2008 kl. 15:54

2 identicon

Þakka þér  fyrir þennan frábæra pistil.  Blaðagrein Helgu Völu er sannarlega orð í tíma töluð.  Þetta er nefnilega svo óskaplega fráleit hugmynd að maður neitar að trúa þessu.  Til hvers í ósköpunum eigum við að reisa mengunarspúandi hreinsistöð á milli fjallana fögru?  Og flytja svo inn farandverkamenn til að vinna  þar?  Er þetta skynsamlegt?  Það er erfitt að fyrirgefa þeim sem kom með þessa hugmynd.   Þó illa ári vestra þá er samt von um betra tíð með blóm í haga.  Menn mega ekki missa móðinn.  Halldór bæjarstjóri ber vonandi gæfu til að taka aftur upp  hugmyndina um að Vestfirði verði stóriðjulausir.  Og menn fylkja sér um þá framtíðarsýn.

Auður Matthíasdóttir (IP-tala skráð) 15.2.2008 kl. 16:24

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Það er hverju orði sannara hér er ekkert grín á ferð. Þegar þessi ferill fer af stað á eru vissir menn komnir með dollara merki í augun og búnir að sjá út stórgróða fyrir sjálfa sig. Hér er ekki verið að tala bara um Olíuhreinsistöð heldur líka Risa Olíutanka.  Þessir olíutankar munu þekja fjörðinn eða plássið þar sem þessar framkvæmdir eiga að vera og ekki bara það. Fólk verður blekkt. Skip sem notuð eru til íshaf siglinga eru sérstaklega smíðuð með styrkingar og þætti þér ekki ólíklegt að hér yrðu umskipunar höfn þ.e. dælt á milli land olíutanka og skipa. Stock piling. Svo er heimskautaísskipið sent aftur norður yfir pólinn og einbyrðingar eða léttari skip taka við farminum áfram til neytenda.

Mér finnst þetta allt mjög gruggugt og væri álver barnaleikur miðað við þetta. Olíumengunarslys eru ekkert grín og þessir firðir eru allt of litlir fyrir risa olíuflutningaskipin. Vetrar og síðla sumars Vindar eru það sterkir að illmögulegt verður að hemja þessi skip. Mig hrís hugur bara að hugsa um þetta mál.

Valdimar Samúelsson, 15.2.2008 kl. 17:34

4 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Þakkir til ykkar beggja fyrir að vekja athygli á þessu, var reyndar búin að lesa greinina á hundavaði í morgun.

Það er nefnilega ekki síst hættan á olíumengunarslysi sem ber að hafa í huga. Líklega er það ekki spurningin um "hvort" heldur "hvenær" slíkt slys verður, ef farið er út í þetta.

Kristjana Bjarnadóttir, 15.2.2008 kl. 18:04

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Af öllum stóriðjuáformum finnst mér þetta vera eitt það versta sem mönnum hefur dottið í hug. Ég vona enn að þetta sé bara lélegur brandari.

Emil Hannes Valgeirsson, 15.2.2008 kl. 18:46

6 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Frábær grein, sammála hverju orði. Á ekkert að læra af Austfjörðum, það var eini fjórðungur landsins þar sem íbúum (með íslenskt ríkisfang) FÆKKAÐI í fyrra. Ég efast stórlega um að Kínverjarnir og Portúgalirnir muni setjast hér að til frambúðar.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 15.2.2008 kl. 19:05

7 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Það, sem einkennir hugsun og gjörðir stóriðjufíklnna og þeirra leikbræðra, er mengað og vanþroskað hugarfar. Bráðvanti hreinsistöð, þá væri það hreinsistöð fyrir þetta mengaða hugarfar.

Ásgeir Kristinn Lárusson, 15.2.2008 kl. 20:41

8 Smámynd: Steingrímur Helgason

Alltaf sagt & skrifað, ekki þetta, ekki þarna.

Steingrímur Helgason, 15.2.2008 kl. 21:04

9 Smámynd: Einar Indriðason

Nú þegar er Ísland sð spúa út gróðurhúsalofti í slíku magni, að Ísland er í 3. (ÞRIÐJA!!!) sæti á lista yfir "mengun per höfðatölu".  Á undan okkur eru Ameríka og Kanada.

Miðað við þennan yfirgang á stóriðju-sinnum.... þá skulum við barasta kaupa eina stóra og öfluga kjarnorkusprengju, og klára dæmið.  Taka ísland út af kortinu.  Þá er málið dautt.  Búið.  Og stóriðjusinnar geta þá hrært í leyfunum eins og þeim sýnist, þar sem enginn verður hvort sem er eftir til að standa á móti þeim.

Það er algjörlega, með öllu móti, óskiljanlegt að fylgjast með málflutningi stóriðjumanna.  Algjörlega.  Óskiljanlegt.  Með öllu!

Olíuhreinsistöð.  Halda Vestfirðingar virkilega.... virkilega... að Olíuhreinsistöð muni bjarga Vestfjörðum?  Hell, nei.  Hvað með þá sem þurfa að flytja búferlum á Vestfjörðum, bara til að geta farið í vinnuna í olíuhreinsistöðinni?  Hvað með... þegar olíuskip rekst á eitthvað... og það verður mengunarslys.  (Þegar, segi ég, því ég sé fram á að *eitthvað* mun gerast, bara spurning um hvenær.)

Hvað með allt annað sem mun þá hörfa *frá* Vestfjörðum?  Langar ferðamenn (íslenska sem erlenda) virkilega að heimsækja náttúru, þar sem "rétt hinu megin" er olíuhreinsistöð?  Með öllu sínu tilheyrandi dæmi?  Höfn, stór olíuskip, mengun, sjónmengun, loftmengun?  Byrjar þá nýr grátkór, þegar ferðaþjónusta dettur niður?  Á að "leysa" það vandamál, með nýrri olíuhreinsistöði?

Er ekki komið nóg af þessari stóriðjusótt sem virðist hrjá allt of marga.  Og, virðist hrjá fylgjendur sumra stjórnmálaflokka meira en aðra.  (Nefni engin nöfn, en fyrstu stafirnir eru D og B.)

Nei, klárum dæmið bara.  Kaupum kjarnorkusprengju, og sprengjum Ísland í tætlur.

Argh!

Einar Indriðason, 16.2.2008 kl. 00:11

10 identicon

Veistu það Lára Hanna að ég var á sínum tíma virkilega farin að trúa því að Vestfirðingar ætluðu að standa við það að verða stóriðjulaus landshluti og standa vörð um þá hugmyndafræði hvað sem tautaði og raulaði. Þess vegna fór ég að hlæja þegar einhver álfur kom fram í sjónvarpinu og skellti þessari hugmynd framan í andlitið á mér. Það er nú ekki í lagi með þennan - veit hann ekki að Vestfirðingar vilja ekki svona skrímsli inn í firðina sína.

Það er þeim mun sorglegra að verða vitni að því að verið er í alvöru að velta fyrir sér þessum viðbjóði þarna vestu frá.  Arrrrrggggg!!!!

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 16.2.2008 kl. 02:10

11 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Þörf og góð áminning við verðum að halda vöku okkar.

Steingerður Steinarsdóttir, 16.2.2008 kl. 12:42

12 identicon

Kærar þakkir fyrir þessar birtingar! Sigurður Hr. var að reyna ræða þetta um áramótin og fannst mér rökfærslur hans mjög góðar þegar hann segir "Vonandi hugsið þið ykkur um tvisvar og horfið frekar til framtíðar með tækifærin í huga fremur en vandamálin" og telur upp lista um hugmyndir sem hafa tekist vel í mismunandi löndum þó þær virtust brjálaðar frá byrjun. Sjálfsagt eru ekki allir sammála honum eins og sjá má hér  http://www.rjor.blog.is/blog/rjor/entry/400749/#comments . En akkurat núna þegar verið er að ítreka að það þurfi að bíða með stórframkvæmdir til að efnahagskerfið jafni sig - er þá ekki tíminn til að bíða aðeins og reyna aðeins lengur að leggja hausinn í bleyti til að finna lausnir aðrar en stóriðju. Lára Hanna sagði mér gott dæmi frá Englandi um daginn þar sem er verið að nota allt landið, best að þú endursegir það sjálf Lára Hanna en mér fannst það til umhhugsunar.

Sama og Helga Vala segir um farandverkamennina hef ég heyrt frá staðkunnugum um Bakka-álverið - það koma sárafáir heimamenn til með að vinna þarna.

Petra Mazetti (IP-tala skráð) 16.2.2008 kl. 20:04

13 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir innilit og innlegg. Þetta er undarlegt mál og alveg ótrúlegt að nú þegar sé búið að eyða milljónum í einhverjar frumrannsóknir - og það eru ekki framkvæmdaraðilarnir sem borga heldur opinberir aðilar. Ekki hafa enn fengist upplýsingar um hvaða fjárfestar standa á bak við Ólaf Egilsson og Hilmar Foss, sem eru hugmyndasmiðirnir og hafa þrýst mjög á þessa framkvæmd.

Ef litið er til framtíðar hlýtur að vera skynsamlegra fyrir Vestfirðina að halda í stóriðjulausa ímynd. Nú er ég að undirbúa svolitla myndasýningu sem verður í næstu færslu. Dæmi þar hver fyrir sig.

Lára Hanna Einarsdóttir, 16.2.2008 kl. 21:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband