Öflug og löngu tímabær umræða um skipulagsmál

Þessa dagana fer fram öflug umræða um skipulagsmál - og ekki seinna vænna. Ýmis öfl í samfélaginu hafa unnið að því hörðum höndum undanfarin ár að eyðileggja miðborg Reykjavíkur og nágrenni hennar, elstu hluta borgarinnar, í þeim tilgangi einum að græða fé - og það mikið. Þeir hafa náð nokkrum árangri, en ef sú von mín rætist að nú sé að eiga sér stað hugarfarsbreyting bæði hjá almenningi og borgaryfirvöldum er þeim niðurlægingarkafla í sögu Reykjavíkur að ljúka.

Það hefur staðið til hjá mér um tíma að skrifa um þessi mál þar sem mér eru þau afskaplega hugleikin og ég hef staðið í baráttu, ásamt nágrönnum mínum, við skipulagsyfirvöld í Reykjavík og nokkra misvitra stjórnmálamenn sem mér er fyrirmunað að skilja.

Kári Halldór ÞórssonEn áður en lengra er haldið langar mig að biðja fólk sem hefur áhuga á þessum málum að hlusta á sterkan málflutning Kára Halldórs Þórssonar í Vikulokunum á Rás 1 á laugardagsmorgun. Margir hafa séð Kára Halldór í fréttum undanfarna daga þar sem hann hefur talað fyrir hönd íbúa við Bergstaðastræti og nágrenni um skipulagsklúðrið þar, búsetu útigangsfólks í gámi og yfirgang vertaka. Þátturinn er hér og það er um miðbik hans sem umræður hefjast um skipulagsmál. Ég bendi sérstaklega á umræðuna um verktaka, meint tengsl þeirra við stjórnmálamenn og greiðslur í kosningasjóði. Ef satt er myndi svona nokkuð kallast forkastanleg spilling í öllum siðuðum lýðræðisríkjum og viðkomandi stjórnmálamönnum væri ekki sætt í sínum mjúku stólum. Þættinum lýkur síðan með umræðu um málið sem ég skrifaði um í síðustu færslu.

Einnig er hér fyrir neðan kafli úr Silfri Egils frá 13. janúar sl. þar semSigmundur Davíð Gunnlaugsson Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, skipulagshagfræðingur, greinir frá rannsóknum sínum og niðurstöðum á vel og illa heppnuðu skipulagi borga. Ég veit um fólk sem skipti algjörlega um skoðun á málunum eftir að hafa horft og hlýtt á áhrifaríkan málflutning Sigmundar Davíðs.

Ég heyrði fyrst í Sigmundi Davíð á fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í fyrra þar sem hann var með fyrirlestur og sýndi myndir máli sínu til stuðnings. Hann hefur einnig haldið fyrirlestra um skipulagsmál á Ísafirði, Akureyri og sjálfsagt víðar, því það sem hann hefur fram að færa kemur öllum við - jafnt smáum sem stórum samfélögum. Fagleg umfjöllun hans, dæmin sem hann tekur, myndirnar sem hann sýnir, rökin sem hann færir fyrir máli sínu... allt er þetta afskaplega vel fram sett og gríðarlega sannfærandi.

Við viljum öll að okkur líði vel og að umhverfi okkar sé notalegt og aðlaðandi. Sigmundur Davíð er með niðurstöður, hugmyndir og lausnir sem svo sannarlega er vert að taka mark á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Það er rétt, að almenningur er að vakna til vitundar um skipulagsmál og þýðingu fallegs umhverfis. Er enn í sjokki eftir að hafa keyrt niður Laugaveginn s.l. föstudag og séð hvernig er komið fyrir götunni minni (bjó þar í 6 ár).  Ýmsu var ábótavant þegar ég bjó þar, en jösses, afturförin er geigvænleg.

Takk fyrir ítarefnið.

Knús

Jenný Anna Baldursdóttir, 30.3.2008 kl. 10:14

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Það er löngu tímabært að fá samhengi í tengsl flokkanna og einstakra stjórnmálamanna við verktakafyrirtæki. Fjármögnun í prjófkjörsbaráttu kemur augljóslega ekki úr vösum frambjóðendanna sjálfra nema í undantekningartilfellum. Hvernig á það að líðast að kjörnir fulltrúar fólksins í landinu reki erindi einstakra fyrirtækja og umbuni þeim við hvert tækifæri.

Húsið umtalaða við Bergstaðastræti 20 var fyrir nokkrum árum ekki ósvipað mörgum öðrum bárujárnsklæddum timburhúsum við sömu götu. Núverandi eigandi er Þ.G. verktakar, Fossaleyni 16, 112 Rvk. Á heimasíðu fyrirtækisins má sjá að hér er á ferðinni mjög stórt fyrirtæki sem hefur fengið mörg góð verkefni, m.a. við byggingu Hellisheiðarvirkjunar og höfuðstöðva OR. Það vekur upp áleitnar spurningar um hugsanleg tengsl við stjórnmálamenn. En hvaða afsökun hefur svo stöndugt fyrirtæki fyrir því að sjá ekki betur um eigur sínar í miðbænum?

Sumir verktakar láta gömlu húsin sín drabbast niður og sjá til þess að útigangsfólk og eiturlyfjasjúklingar hafi greiðan aðgang að þeim. Þetta er ekkert annað en glæpsamlegt framferði. Svo eru þeir með "fulltrúa okkar" í hinum vasanum og treysta því að enginn stoppi þeirra siðlausa "uppbyggingarstarf".

Er ekki bara orðið tímabært að íbúar miðbæjarins leyfi þeim að finna fyrir eigin vopnum?

Sigurður Hrellir, 30.3.2008 kl. 10:25

3 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Hef heyrt þetta annars staðar frá með greiðslur verktaka í kosningasjóði.  Heyrði haft eftir konu sem var lengi innsti koppur í búri framsóknarmanna í Reykjavík að Reynisvatnsás hefði kostað 20 milljónir í kosningasjóð framsóknarmanna.  Það má kaupa nokkur jakkaföt fyrir þann pening...

Sigríður Jósefsdóttir, 30.3.2008 kl. 10:27

4 identicon

Reykjvíkurborg leið í mörg ár fyrir að einn aðili stjórnaði borginni og annar landinu, þeas. andstæð pólitísk öfl. En nú sitja fulltrúar verktaka og peningamanna í forsæti í bænum. Er þá allt veggjakrotið og niðurníðslan, sem vissulega hefur aukist núna undanfarnar vikur og mánuði, ábending sömu verktaka um að víxillinn sé fallinn, tími kominn til að leysa út ávísunina sem lögð var í kosningasjóðinn? Er bærinn ekki bara í höndum misyndismanna, og landið, er það ekki bara stóra planið!? Þarf maður að vera vænissjúkur vinstrimaður til að koma auga á þetta?

Hermann (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 13:21

5 identicon

Frábær pistill Lára Hanna. Hagsmunatengsl milli kjörinna fulltrúa í borgum og bæjar og verktaka eru líklega það versta sem komið fyrir skipulag borga og bæja.

Hér á Akureyri höfum við einn slíkan stóran verktaka sem hefur fengið að reisa hvert skipulagsslysið á fætur öðru og í mínum huga og mjög margra annarra sem hér búa er ástæðan sú að hann er besti vinur aðal og greiðir feitt í kosningasjóði.

Þessi aðili er núna búinn að festa kaup á ógrynni af úr sér gengnum fasteignum og stökum gömlum húsum við strandlengjuna niðri á því sem kallað er Eyrin og svo er hann byrjaður að versla eignir austan megin við Krossanesbraut sem er svona strandlengjugata. Og nú er hann búinn að deiliskipuleggja auðan reit sem hann vill byggja á 7 hæða háhýsi í 1-2 hæða hverfi ... og hann mun fá það í gegn ... því miður ... og í mínum huga er enginn vafi að ástæðan er hagsmunatengsl ... Þegar hann er svo búinn að fá þetta í gegn er hann búinn að skapa fordæmi fyrir háhýsabyggð á svæðinu og getur haldið áfram. Það er því engin tilviljun að hann er búinn að kaupa lóð hinum megin við götuna. Þar mun, af því að hann fær allt sem hann vill, í framtíðinni rísa háhýsalengja við strandlengjuna (svona Skúlagötubragur).

Geymdu þetta komment mitt Lára Hanna og drögum það svo fram eftir svona ca 5 ár og sjáum hvort eitthvað af þessu hefur ekki gengið eftir.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 14:19

6 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Þeim mun meiri umræða því betra. Sigmundur hefur sýnist mér farið í nám í borgarskipulagsfræðum og það sem hann segir er svona í hnotskurn það sem hann lærði í náminu. Og ágætt að miðla því áfram út í þjóðfélagið. 

Varðandi spillinguna þá má það vera stærsta skrefið að upplýsa þjóð um hvað er að ske á bak við tjöldin. Lýðræði hefur ekki efni á að pólitíkusar séu til sölu eins og bananar. 

Ólafur Þórðarson, 30.3.2008 kl. 15:31

7 Smámynd: Óðinn Þórisson

Ef við berum saman Kópavog annarsvegar og Reykjavík hinsvegar út frá fagurfræðilegu sjónarmiði hefur Reykjavík farið halloka.  
Málsmetandi menn hafa bent á það réttilega að það megi rekja upphaf að niðursveiflu í Reykjavík til þess tímabils sem R-listinn fór með völd og náði litlum árangri og þróaði borgina lítið sem ekkert áfram og skildi í raun bogina eftir sig í því ástandi sem við stöndum frammi fyrir í dag.
Hversvegna er Kópavogur eins fallegur bær og kraftmikill þar sem vel hefur tekist að gera hlutina og uppbygging hefur verið gríðarleg og allt gert í miklu samkomulagi við okkur Kópavogsbúa. 
Er skýringin væntanleg ekki sú að hér hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið við völd án aðkomu vinstriflokkana.
Sagan hefur sýnt okkur að Reykjavík og Reykvíngum vegnar best þegar Sjálfstæðisflokkurinn er við völd og helst með hreinan meirihluta.
Ég vona að Reykvíkingar beri þá gæfu að gefa nú Sjálfstæðisflokknum i kosningunum 2010 skýrt umboð til að vinna áfram vel eins og gert er í dag með hagsmuni Reykvínga og Reykjavíkur að leiðarljósi.
Reykjavík getur aftur orðið falleg borg sem Reykvingar geti verið stoltir af.

Góðar stundir.

Óðinn Þórisson, 30.3.2008 kl. 17:49

8 Smámynd: Bumba

Lára Hanna, ég bara spyr: Hvernig er hægt að breyta þessu og afstýra hverju hneykslinu á fætur öðru hvað skipulagsmál snertir, ekki bar hér í Reykjavík heldur um allt land? Tengingarnar verktaka og auðmanna í garð stjórnmálamanna í ÖLLUM flokkum, þetta er eins og illkynjað krabbamein. Að maður tali nú ekki um arkitektana suma og byggingameistarana. Mér er þetta svoleiðis gjörsamlega óskiljanlegt. Hjálpa þú fáfræði minni.  Ég sé enga lausn. Með beztu kveðju.

Bumba, 30.3.2008 kl. 17:54

9 Smámynd: Heidi Strand

Þetta er afleiðing yfirstandandi græðgivæðingar.

Heidi Strand, 30.3.2008 kl. 19:47

10 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég er alls ekki sammála þér, Óðinn Þórisson, um að Kópavogur sé fallegri bær en Reykjavík. Vissulega eru til falleg hverfi í Kópavogi en mér nægir kannski að nefna Hamraborgina og Smárann og nágrenni sem mér finnst ömurleg fyrirbæri. Í Kópavogi hafa sömu græðgisöflin tekið völdin og í Reykjavík, það er byggt mikið, hátt og ódýrt til að kreista sem mest út úr hverjum fermetra. Samkomulagið við Kópavogsbúa er nú ekki meira en svo, að stofnuð hafa verið samtök íbúa til að berjast gegn yfirvofandi skipulagi eins og t.d. í Vesturbæ Kópavogs.

Það er hins vegar alveg hárrétt hjá "málsmetandi mönnum" að niðurlægingarskeið Reykjavíkur hið nýjasta hófst í tíð R-listans, því ber ég síst á móti því sjálf hef ég reynslu af samskiptum við einstaklinga innan hans sem stóðu að skipulagsmálum í Reykjavík í valdatíð listans.

Aftur á móti get ég engan veginn tekið undir að Sjálfstæðisflokkurinn sé að vinna vel í dag með hagsmuni Reykvíkinga í huga. Borgarstjórinn er flokkslegur munaðarleysingi sem lítið sést eða heyrist í og þegar í honum heyrist segir hann ekki neitt, afgangurinn af meirihlutanum hefur verið í felum og stofnanir borgarinnar í sárum og því magnvana. Framgangur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkur á þessu kjörtímabili hefur síst verið til fyrirmyndar.

Auðvitað gæti Reykjavík orðið falleg borg ef almennilega væri staðið að skipulagsmálum og hagsmunir borgarbúa látnir hafa forgang í stað auðsöfnunar nokkurra gráðurgra verktaka sem sýna kosningasjóðum einstaklinga eða flokka fádæma örlæti gegn greiðasemi þeirra eftir kosningar. Eða hvers vegna er mönnum svo í mun að ná völdum að þeir selja sálina, prinsippin og kosningaloforðin fyrir stólana?

"Varðandi spillinguna þá má það vera stærsta skrefið að upplýsa þjóð um hvað er að ske á bak við tjöldin. Lýðræði hefur ekki efni á að pólitíkusar séu til sölu eins og bananar."  Ég tek heilshugar undir þessi orð veffarans hér að ofan. Eins og fram kom í máli Kára Halldórs í Vikulokunum - og hann veit orðið ansi margt eftir langa baráttu við skipulagsyfirvöld - er spillingin á bak við tjöldin og kaup og sala stjórnmálamanna með eindæmum.

Sömuleiðis tek ég undir orð ykkar hinna - og því meira sem þessi mál eru rædd á opinberum vettvangi, því betra.

Lára Hanna Einarsdóttir, 30.3.2008 kl. 20:55

11 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Ég heyrði einmitt viðtalið við Kára Halldór um daginn. Alveg stórmerkilegt, og í raun grafalvarleg mál sem hann velti upp þar.

Góður pistill .

Heimir Eyvindarson, 30.3.2008 kl. 22:30

12 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég held það sé ekki bara einhverjar greiðslur í kosningasjóði sem eru vandamálið, hérna koma líka til hagsmunir bæjaryfirvalda gagnvart verktökum og stórum fyrirtækjum, þeir vilja ekki missa þá úr sveitarfélaginu og fyrirtækin geta´hótað þeim, stillt upp við vegg og så vidare. Bryggjuhverfið til dæmis hérna inní Grafarvogi hefur verið í herkví stórfyrirtækja, við losnum ekki við sanfyrirtækið Björgun. Reykjavíkurborg (Fyrst R-listinn svo Sjálfstæðisflokkurinn) hefur verið algjörlega varnar og getulaus gagnvart þeim og jafnvel farið gegn almennum réttindum borgara. Og vandamálið er líka þar -eru einnig íbúarnir sjálfir sem vilja ekki fara í hart, ekki ræða klutina opinberlega svo að íbúðirnar falli ekki í verði. En þær gera það þó samt! Það sem ég er að segja að þarna spila alls konar þættir saman, og það þarf að fara ofaní öll lög og reglugerðir um skipulagsmál. Björn Ólafsson var með góða punkta um ákveðna hluti hjá Evu Maríu til dæmis. Mér er líka sagt að á opnum fundi um skipulagsmál í Hafnarfirði fyrir viku eða svo hafi komið fram að formaður skipulagsnefndar, var og er í starfi hjá einum stærsta verktakanum í bænum. Svo víða er pottur brotinn og stjórnmálaflokkarnir flestir á kafi í einhverju sem kannski ekki varðar við lög af því lög hafa ekki verið smíðuð sem ná yfir alls konar siðleysi.

María Kristjánsdóttir, 30.3.2008 kl. 23:56

13 Smámynd: María Kristjánsdóttir

öll er þessi athugasemd full af ásláttarvillum svosem á einum stað átti að standa : sandfyrirtæki. Fyrirgefðu Lára Hanna.

María Kristjánsdóttir, 30.3.2008 kl. 23:58

14 Smámynd: AK-72

Þessi umræða hefur áður ratað í fjölmiðla en við lítinn áhuga og horfið jafnsnöggt. Þráinn Bertelsson minntist á vinnubrögð uppkaupanda í reiðilegum bakþönkum þar sem mafíosa-taktíkum var lýst. Þar sem ég kannast við einn sem bjó við Hverfisgöutna og lenti í þeim taktíkum, að þá get ég tekið undir þessar lýsingar og eiginlega sagt að þetta voru ekki verstu kaupaðferðir þeirra fasteignasala og verktaka sem voru að sölsa undir sig svæðið.

Hér mál sjá frétt hjá 24 stundum fyrr í vetur og hérna er fyrri pistill Þráins Bertelssonar um aðferðarfræði sem beitt hefur verið þarna og svo annan pistil í tengslum við leigjendur sem þurfit að losna við eftir að búið var að kaupa hús.

AK-72, 31.3.2008 kl. 00:02

15 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Já, María... vandinn liggur víðar, ekki síst vegna þess að við virðumst ekki hafa nein lög eða reglur um spillingu, siðleysi og óeðlilega hagsmunagæslu, hvað þá viðurlög við slíkum ósóma.

Mér verður hugsað til þingmanns í Englandi sem nýverið var gert að taka pokann sinn af því hann hafði verið með son sinn á launaskrá hjá sér. Það er í sjálfu sér ekki saknæmt, breskir þingmenn hafa úr fé að spila til að greiða fólki fyrir aðstoð og ýmis verkefni sem vinna þarf. En málið var að sonurinn hafði ekki skilað neinu fyrir peningana, bara þegið fé hjá pabba gamla. Þingmaðurinn var rekinn af þingi og úr flokknum. Hann þótti vera uppvís að spillingu og hafa misfarið með almannafé.

Mér eru í fersku minni þessir pistlar Þráins Bertelssonar, AK-72... og fleiri til. Ég gróf upp hjá mér lítið viðtal í Mogga sem ég get ekki linkað á því Mogginn er læstur. Ég afrita bara fréttina hingað inn:

Sunnudaginn 23. september, 2007 - Innlendar fréttir

Áform ekki kynnt íbúum

Íbúðareigandi á Skúlagötu 32 ósáttur

 
Kristófer Már Kristinsson
VIÐ vitum næsta lítið og þetta hefur ekkert verið kynnt hér," sagði Kristófer Már Kristinsson, íbúi á Skúlagötu 32, um hugmyndir fasteignafélagsins Samson Properties um uppbyggingu á Barónsreitnum.

VIÐ vitum næsta lítið og þetta hefur ekkert verið kynnt hér," sagði Kristófer Már Kristinsson, íbúi á Skúlagötu 32, um hugmyndir fasteignafélagsins Samson Properties um uppbyggingu á Barónsreitnum. Fasteignafélagið hefur þegar keypt fjölda húsa á reitnum en Skúlagata 32-34 er í eigu einstaklinga og fyrirtækja. Hvort þau hús víkja fyrir nýbyggingum ræðst af því hvort Samson Properties nær samkomulagi við eigendur þeirra, að því er fram kom í Morgunblaðinu í gær.

Kristófer Már sagði að íbúum íbúðanna tólf á Skúlagötu 32 hefði ekki verið boðið á kynningu um uppbyggingu Barónsreits. Hann kvaðst hafa skoðað áformin á Netinu.

"Ég get ekki betur séð en að þessi verslunarmiðstöð eigi m.a. að rísa ofan á íbúðinni minni. Mér þykir það alls ekki sniðugt!" Kristófer kvaðst ekki vera mótfallinn því að reist yrði verslunarmiðstöð og það fylgi því að búa í borg að hús séu í kringum mann. Húsið sem hann býr í var byggt upp úr 1950 sem iðnaðarhúsnæði. Það var gert upp árið 2000 og því breytt í íbúðarhúsnæði.

"Það sem ég skil ekki er að maður skuli horfa á eitthvert fólk í sjónvarpinu kynna áætlun um að útrýma heimili manns. Ég næ því ekki. Mér datt t.d. í hug að það væri ekki vitlaust að boða til blaðamannafundar og kynna útilífsmiðstöð í Kleppsholtinu þar sem Björgólfur Guðmundsson býr. Ég skil ekki hvernig einhver í hans nafni hefur umboð til að ráðstafa því sem ég hélt að ég ætti og við höldum að sé heimili okkar. Einhver af umboðsmönnum hans sagði að við "hefðum hreiðrað hér um okkur"," sagði Kristófer. Íbúum hafa verið gerð tilboð í eignir sínar en Kristófer sagði að hann og fleiri hefðu ekki viljað selja. Hann kvaðst óttast að þarna yrði beitt þekktri brellu úr evrópskum borgum sem ýmist er kölluð "Brusselvæðing" eða "eyðing borga á friðartímum". Þá kaupa framkvæmdamenn upp gömul hverfi og láta þau drabbast niður. Þegar fólki fer að ofbjóða ástandið er ráðist í endurbyggingu með nýju sniði.

Lára Hanna Einarsdóttir, 31.3.2008 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband