Ómar Ragnarsson og Andræði Sigfúsar

Ekki er nóg með að ég sé stundum lengi að hugsa, heldur er ég langt á eftir í fréttahlustun og -áhorfi þessa dagana. Ég var núna fyrst að horfa á rúmlega vikugamalt Kastljós þar sem Ómar Ragnarsson sat á spjalli með Bolla Kristinssyni. Það er reyndar rangt að kalla þetta spjall. Þeir höfðu svo stuttan tíma að varla gafst tækifæri til að klára setningar, hvað þá að kafa af einhverju viti í málin.

Það sem fyrst vakti athygli mína voru orð Ómars sem voru í fullkomnum stíl við sitthvað sem ég skrifaði í færslunni hér á undan og í athugasemdakerfinu. Ómar sagði meðal annars:

Ómar Ragnarsson"Mér finnst mjög algengt að þingmenn láti eins og lög sem eru í gildi hafi dottið af himnum ofan frá Guði sjálfum. En það voru nú bara þeir sjálfir sem sömdu þessi lög og þeir sjálfir eru þarna í vinnu til þess að breyta þessum lögum. Það er að verða þingvetur liðinn og það hefur ekkert verið gert til að breyta þeim lögum sem var lofað að breyta. Breyta þeim lögum sem gera einstöku sveitarfélögum og hreppum kleift að fara með heimsverðmæti eins og ekkert sé."

Þarna er Ómar að vísa í lög sem meðal annars gera sveitarfélögum kleift að ráðskast með náttúruauðlindir ef þær eru innan  landamerkja viðkomandi sveitarfélags (sjá athugasemd 18 við síðustu færslu mína). Sem dæmi má nefna er Sveitarfélagið Ölfus nú búið að auglýsa breytingu á aðalskipulagi þar sem til stendur að breyta Bitru/Ölkelduhálsi á Hengilssvæðinu - sem er á náttúruminjaskrá og einnig skilgreint sem grannsvæði vatnsverndar - í iðnaðarhverfi. Þetta er undurfagurt svæði þar sem sjá má sýnishorn af flestu því sem prýðir íslenska náttúru. Svæðið er vinsælt meðal ferðamanna og til dæmis segir Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Líffræðistofnun Háskóla Íslands, að Hengilssvæðið sé næstverðmætasta útivistarsvæðið á suðvesturhorni Íslands - næst á eftir Þingvöllum. Lesa má viðtal við Þóru Ellen um málið hér. Þetta svæði ætlar 2.000 manna sveitarfélag að eyðileggja fyrir 200.000 íbúum suðvesturhornsins með tilheyrandi brennisteinsvetnismengun - og framkvæmdaraðilinn borgar sveitarstjórninni fyrir greiðann. Nánar um það mál á baráttusíðu Hengilssvæðisins hér, kynnið ykkur endilega málið.

Bolli "athafnamaður" var aldeilis ekki á sama máli og Ómar, vill endilega látaBolli Kristinsson reisa álver, en segir samt að það eigi að fara eftir Ómari Ragnarssyni og öllu því góða fólki sem vinnur með honum! Bolli sagði jafnframt: "En ég náttúrulega er alveg sammála Ómari af því það veit náttúrulega enginn meira en hann um okkar fallegu náttúru - að passa hana eins og hægt er..."   Í málflutningi Bolla kemur svo greinilega fram þetta undarlega skilningsleysi þeirra sem reisa vilja stóriðju út um víðan völl - þeir sjá ekki hlutina í samhengi. Þeir fást ekki til að skilja, að álver þarf rafmagn, mjög mikið rafmagn, og til þess að framleiða orkuna þarf að leggja óspillta náttúru í rúst - í þessu tilfelli dásamlega perlu á náttúruminjaskrá í hlaðvarpa meirihluta íslensku þjóðarinnar. Við þurfum greinilega að bjóða Bolla og fleirum í skemmtilega gönguferð í sumar til að reyna að opna augu þeirra.

En hitt er auðvitað rétt hjá Bolla - vitanlega á að hlusta á Ómar Ragnarsson og fara að ráðum hans hvað varðar náttúruna. Ég efast ekkert um að hann sé sá Íslendingur sem þekkir landið einna best, bæði af láði og úr lofti. Hann hefur líklega séð og farið um hvern fermetra þess sem fær er - og jafnvel þá sem ófærir eru, það væri honum líkt. Og umfram allt þykir honum undurvænt um landið sitt og kann manna best að meta það og óviðjafnanlega náttúru þess.

Mig langar að tileinka stóriðjusinnum ljóð úr ljóðabókinni Andræði eftir Sigfús Bjartmarsson sem ég fjallaði um hér.

Virkjun
er verðugum
vinna og minnis-
varði.

Og
virkjun
er veisla
með vinum
og varla nema
von að margur
góðglaður við
veitingum
gapi.

Og
vatnsafls-
virkjun gefur
vistvænan gróða
og stórvirkjun gefur
þá stórvistvænan með
stórvistvænu tjóni
og tapi.


margur
verður af álverum
api.

Þetta ljóð úr sömu bók tileinka ég alþingismönnum okkar og ráðherrum með þeim varnaðarorðum að treysta ekki framar á gullfiskaminni kjósenda:

Með
lögum
skulu landsfeður
ólögum sínum
eyða.


alltaf
skal hætta
hverjum leik
þá hallar
undan
fæti.

Og
ranga
reglu má
rétta úr sínu
ráðherra-
sæti.


aldrei
er lýðurinn
lengi með
læti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jamm, að sjálfsögðu ætti að breyta þessum lögum, eins og þú rökstyður hér að ofan, Lára mín Hanna.

En þó Ómar Ragnarsson hafi víða farið ég held að þeir séu nú ansi margir steinarnir hérlendis, sem enginn maður hefur stigið fæti sínum á, fyrr eða síðar. Hér hafa alltaf fáir búið, lengst af um fimmtíu þúsund manns, en landið er meira en tvisvar sinnum stærra en hið þéttbýla Holland, og þar hefur trúlega margoft verið traðkað á hverri þúfu.

Hér eru hins vegar um þrír íbúar að meðaltali á hvern ferkílómetra, svipað og í Ástralíu. Og vegna fámennis hér eru að öllum líkindum fleiri tré á hvern mann hérlendis en í hinu þéttbýla og nokkuð skógivaxna Þýskalandi, þótt ótrúlegt megi virðast.

En Ómar Ragnarsson er snillingur á mörgum sviðum, til dæmis í fréttamennsku og þekkingu á náttúru landsins. Það verður varla af honum skafið.

Steini Briem (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 03:43

2 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Trikkið hjá stjórnvöldum með því að færa valdið heim í hérað einfaldar alla ákvarðanatöku hjá hinum "ábyrgu" stjórnvöldum. Þau vita sem víst að hreppapólitíkin gerir nákvæmlega það sem hentar hverju sinni, enda áhrifagjörn með eindæmum. Því munu skammtímasjónarmið verða ríkjandi á meðan svona ólög ríkja og hin raunverulegu stjórnvöld sem settu lögin geta alltaf sagt "Ekki benda á mig" :)

Kjartan Pétur Sigurðsson, 14.4.2008 kl. 08:23

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég hjó eimitt eftir skorti á að geta sett hlutina í samhengi, þegar ég hlustaði á Bolla.

Takk annars fyrir enn einn frábæran pistil Hanna Lára.

Jenný Anna Baldursdóttir, 14.4.2008 kl. 10:40

4 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Flottur pistill. Sumir pólitikúsar ættu að vera skyldir að lesa hann amk. þrisvar, helst læra hann orðrétt.

Úrsúla Jünemann, 14.4.2008 kl. 13:57

5 identicon

Ja ja, glaub'ich auch, Frau Jünemann!

Steini Briem (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 14:43

6 identicon

Frábær pistill Lára Hanna, eins og þín var von og vísa. Ég horfði á þennan Kastljósþátt og finnst alltaf jafnsorglegt að finna fyrir þessu skilningsleysi, þ.e.  að fatta ekki samhengi álvers og orkuþarfar og þar með náttúruspjalla. Beitt ljóð eftir Sigfús bekkjarbróður minn úr MR. Honum tekst oft snilldarlega að draga upp sterkar myndir í fáum orðum.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 18:54

7 Smámynd: Brattur

... eitt fer alltaf í taugarnar á mér þegar talað er um náttúru Íslands og staðarval virkjana:

"Það er allt í lagi að virkja þetta svæði af því að það eru svo fáir sem hafa komið á þennan stað"

Þetta eru einhver lélegustu rök sem virkjanasinnar geta borðið á borð...

Annað sem Framsóknarflokkurinn, með Jón Sigurðsson í broddi fylkingar hélt fram var fyrir síðustu kosningar var "að sveitastjórnirnar ráða hvort þeir vilja virkjun eða ekki"...
... eiga ríkisstjórnir Íslands bara að yppa öxlum og láta sveitastjórnirnar fara sínu fram í álversbyggingum?

Fannst það rosalega sorglegt að sjá Þórunni Sveinbjarnardóttur í færslunni hérna á undan hjá þér Lára Hanna... þarna segir hún nákvæmlega það sama og Framsóknarflokkurinn fyrir kosningar... og Samfylkingin er bara stikkfrí í umhverfismálum...

Er ekki Fagra Ísland að breytast í Ó-Fagra Ísland?

Brattur, 14.4.2008 kl. 19:25

8 identicon

Hún heitir Lára og Hanna,
hana ætti barasta að banna,
hún er of sexí,
í henni vil rex'í,
og öll hennar innstu lög kanna.

Steini Briem (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 21:29

9 identicon

Hvað ætla menn að gera í vitlausu veðri með tankskip við vestfirði? Þau hafa bilað rétt eins og önnur skip. Kíkjum á öll strönd skipa og báta við vestfirði, þau hafa orðið vegna þess að þarna er veðravíti. 

Það er hollt að skoða hvað hefur verið að gerast á Norðursjónum í vondum veðrum.  Þar hefur ekki skort stóra dráttarbáta til að aðstoða, samt hafa  hvað eftir annað orðið óhöpp.  Hvað gerum við með olíuna fljótandi yfir þau gjöfulu fiskimið sem eru undan fjörðunum.  Eða er fiskur liðin tíð fyrir vestan? Þetta er bull og ekkert nema bull sagði skipstjóri sem sigldi fraktskipi á ströndinni árum saman.

Ása Björk (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 18:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband