Það er engin spilling á Íslandi, er það?

PeningarÞað er engin spilling á Íslandi, er það? Og hér tíðkast ekki mútur, er það? Hvaða vitleysa! Nýleg, erlend könnun sýnir Ísland í 6. sæti yfir minnsta spillingu í heiminum - hrapaði þó úr 1. sæti. Um það má lesa hér og skoða spillingarlistann í heild sinni. Fólk hlær almennt að þessu, því varla fyrirfinnst sá Íslendingur á fullorðinsaldri sem ekki hefur beina eða óbeina reynslu af spillingu á Íslandi í ýmsum birtingarmyndum, opinberri eða óopinberri. En það má bara ekki kalla það spillingu. Það má heldur ekki minnast á mútur, það er bannorð. Við greiðum ekki mútur og við þiggjum ekki mútur. Slíkur ósómi tíðkast bara í útlöndum. Á Íslandi er svoleiðis greiðasemi kölluð til dæmis "fyrirgreiðsla" eða spegilmyndin "að greiða fyrir málum". Fallegt og kurteislegt orðalag. En ekki mútur, alls ekki... það er ljótt og eitthvað svo óíslenskt. Eða hvað?

Svo eru það hagsmunaárekstrarnir og vanhæfið. Hvenær er maður vanhæfur og hvenær er maður ekki vanhæfur. Hagsmunaárekstrar og vanhæfi eru mjög viðkvæm mál á Íslandi - rétt eins og spilling og mútur - og ekki algengt að sá vanhæfi viðurkenni vanhæfi sitt. Hann þrjóskast við og neitar fram í rauðan dauðann þótt staðreyndir blasi við. Tökum tvö heimatilbúin (en möguleg) dæmi og eitt mjög raunverulegt.
Peningar
1. Lögfræðingur flytur mál fyrir héraðsdómi. Dæmt er í málinu og því áfrýjað til hæstaréttar. Í millitíðinni er lögfræðingurinn skipaður hæstaréttardómari. Má hann dæma í sama máli þar eða er hann vanhæfur? Ég hefði haldið það.

2. Jón á hlut í banka. Bara lítinn - svona stofnfjárhlut sem hann lagði til málanna þegar bankinn átti bágt, kannski 100.000 krónur eða svo. Mörgum árum seinna er Jón kosinn á þing og situr þar í nefnd sem á að ákveða hvort það má selja bankann og hvers virði hver hlutur er. Jón gæti hagnast um tugmilljónir með því einu að rétta upp hönd. Er hann vanhæfur við afgreiðslu málsins í nefndinni? Ég hefði haldið það.

Peningar3. Sveitarstjóri gerir samning við fyrirtæki um framkvæmdir. Samningurinn er metinn á 500 milljónir - hálfan milljarð króna. Til að uppfylla ákvæði hans þarf að fara í gegnum alls konar lagalegt ferli, tímafrekt og leiðinlegt - en lög eru lög og ekki hjá því komist. Ein hindrunin er lög um mat á umhverfisáhrifum, en það er allt í lagi. Fyrirtækið sem sveitarstjórinn gerði samninginn við sér hvort sem er um matið og ræður auðvitað niðurstöðu þess, enda dómari í eigin máli. Ekki vandamál, bara svolítið tafsamt. Enginn vanhæfur þar, eða hvað?

Svo þarf að auglýsa breytingu á skipulagi og gefa einhverjum almenningi kost á að tjá sig og halda að hann hafi áhrif á niðurstöðuna. En það er allt í lagi, sveitarstjórinn er búinn að ákveða þetta og því verður ekki breytt. Það eru svo miklir peningar í húfi. Hvaða vit hefur þessi almenningur svosem á peningum? Ekki vandamál, bara svolítið tafsamt og stundum örlítið ergilegt. Sveitarstjórinn þarf kannski að svara óþægilegum spurningum fjölmiðla og svoleiðis. En þetta reddast að íslenskum sið og hvaða vit eða áhuga hefur svosem fjölmiðlafólk á slíkum alvörumálum? Það hefur bara áhuga á Britney Spears, Gilzenegger og þeim best eða verst klæddu!

Ein greinin í samningi sveitarstjórans og fyrirtækisins kveður á um að ár hvert, frá 2006-2012, borgi fyrirtækið sveitarstjórninni 7,5 milljónir í rPeningareiðufé til að standa undir álaginu við að keyra þetta allt í gegn fyrir fyrirtækið - alls 52,5 milljónir á sjö árum. (Að ónefndum framkvæmdum við lagningnu ljósleiðara, byggingu hesthúsa, lýsingu vega og þannig smotterís.) Upplýsingar um í hvað allar milljónirnar fara liggja ekki á lausu en leiða má líkur að því, að þær fari í vasa einhverra, enda stendur orðrétt í samningnum "...að umsvif og álag á bæjarstjórn og bæjarstjóra mun fyrirsjáanlega aukast..." og samkomulag er um að fyrirtækið greiði sveitarfélaginu fyrir þann kostnað sem af þessu hlýst. Rúsínan í pylsuenda samningsins hljóðar síðan svo: "Þessar greiðslur verða notaðar til að kappkosta við að afgreiðsla umsagna og leyfa verði eins hröð og hægt er." Spilling? Nei, guð sé oss næstur! Ekki á Íslandi. Mútur? Þvílík firra! Íslensk stjórnsýsla er hrein og tær eins og fjallalækur. Er það ekki?

Engu að síður mætti ætla - miðað við lög og reglur - að sveitar- eða bæjarstjórinn og það af hans fólki sem þegið hefur hluta af fénu nú þegar, eða 14 milljónir samtals, væri vanhæft til að afgreiða umsagnir og leyfi þau sem hér um ræðir, þar sem búið er að semja fyrirfram um að umsagnir verði hliðhollar fyrirtækinu og leyfin verði samþykkt - hvað sem hver segir - enda byrjað að þiggja fyrir það fé - og enn eru 5 greiðslur eftir x 7,5 milljónir = 37,5 milljónir. Spilling og mútur? Auðvitað ekki! Þetta er Ísland, munið þið? 

PeningarÍ 19. grein Sveitarstjórnarlaga nr. 45 frá 1998 er fjallað um hæfi sveitarstjórnarmanna. 1. málsgrein hljóðar svo: "Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af."

Ég hefði haldið að þegar umsagnir eru afgreiddar, ákvörðun tekin um réttmæti athugasemda og hvort veita eigi fyrirtækinu framkvæmdaleyfi, starfsleyfi eða hvaða leyfi sem er samkvæmt téðum samningi væru a) þeir sem skrifuðu undir samninginn við fyrirtækið og b) þeir sem hafa - eða hafa haft - beinan fjárhagslegan ávinning af samningnum fullkomlega vanhæfir til að fjalla um málið af þeirri fagmennsku og hlutleysi sem með þarf. Eða hvað? Er ég að misskilja eitthvað hérna? Er ég ekki nógu þjóðlega þenkjandi?

Til að bæta gráu ofan á svart eru 500 milljónirnar sem samningurinn er Peningarmetinn á - þar af tugmilljónirnar sem verið er að greiða bæjarstjórn og bæjarstjóra vegna aukinna umsvifa og álags - í raun eign skattgreiðenda annars bæjarfélags. Þeir voru auðvitað aldrei spurðir hvort þeir kærðu sig nokkuð um að dæla öllu þessu fé í sveitarfélagið til að fyrirtækið fengi að ráðast í sínar framkvæmdir. Kannski hefðu þeir heldur viljað að 500 milljónirnar væru notaðar til að greiða niður þjónustu fyrirtækisins við þá. Hvað veit ég? Ég var ekki spurð.

PeningarEn nú hef ég tækifæri til að segja skoðun mína og það ætla ég að gera. Ég ætla að senda inn athugasemd í mörgum liðum og mótmæla þessari spillingu og hinu sem má ekki nefna á Íslandi en byrjar á m.... Ég ætla að mótmæla því hryðjuverki sem á að fremja á undurfallegri náttúruperlu og menguninni sem af hlýst. Ég skora á fólk, hvar sem það býr á landinu, að gera slíkt hið sama. Nálgast má upplýsingar á Hengilssíðunni og í öðrum pistlum mínum á þessari bloggsíðu. Frestur til að skila inn athugasemdum rennur út á þriðjudaginn, þann 13. maí. Ég er boðin og búin að aðstoða fólk ef með þarf.

Ef einhver er ekki búinn að átta sig á því - þá er ég auðvitað að tala um fyrirtæki okkar Reykvíkinga, Orkuveituna, Sveitarfélagið Ölfus og sveitarstjóra þess. Framkvæmdin er fyrirhuguð Bitruvirkjun og samninginn sem um ræðir má lesa í heild sinni hér. Mikið þætti mér fróðlegt að heyra álit lesenda þessa pistils á samningnum, lögmæti hans og framkvæmd og ef lögfróðir menn geta lagt sitt af mörkum hér eða í tölvupósti væri það vel þegið.

En það er samt engin spilling á Íslandi, er það? Né heldur hitt sem ekki má nefna en byrjar á m.... eða hvað?

Nátengdir pistlar m.a. hér, hér og hér og listi yfir fjölmarga pistla hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er sko engin spilling á íslandi ... bara að grínast: Einu áhyggjur íslendinga af spillingu er að komast ekki í hana sjálfir.
Enn verra er þegar ofan á þetta bætist að menn eru algerir viðvaningar í öllu sem þeir gera, menn pota bara eitthvað út í loftið og vona það besta, svo þegar það gerist ekki þá: DUH það voru önnur öfl sem orsökuðu þetta, botninum er náð, kúfnum er náð, hækkum vexti.
Ísland, landið sem þeir segja lúta allt öðrum lögmálum en önnur lönd og geti því ekki verið í klúbb með öðrum löndum er allt í einu farið að lúta sömu lögmálum og önnur lönd en samt getum við ekki verið með þeim í klúbb því þá kæmist kannski upp um helling af spillingu.
Menn eru einnig svo ódannaðir og skilningssljóir að þeir skilja ekki að fólk verði pissed þegar þeir fara á einkaþotum að mingla við erlendar elítur þegar þjóðin er í klessu, þeir hafa ekki tíma til þess að bjóða vörubílstjórum í kaffi, menn neita að tala við vörubílstjóra og segja þá hryðjuverkamenn, skella sér svo í einkaþotu til þess að hitta fullt af alvöru hryðjuverkamönnum.
Menn segja að allir verði að taka á sig glapræði bankanna sem þó eru að sýna hagnað.
Menn verða bara fúlir ef minnst er á að taka á ofureftirlaunum þeirra eða að minna á loforð, menn kalla til sparívarnarsveit upp á 100millur brot úr ári en með allt galopið meirihluta ársins til að montast fyrir öryggisóráðið.
Menn ráða vini sína á ofurlaun og afsaka það með að hafa sparað svo lengi á meðan aðrir hafi ekki gert það sama.
Menn rífa stólpa kjaft ef gefið er í skyn að klíka ráði ráðningum, verða dýrvitlausir.

Sem sagt spillingin hefur verið lengi en algert getuleysi hefur bæst í.


Jæja ég lét puttana aðeins taka völdin og hugsanlega næstum út fyrir efnið ;)

Góða nótt

DoctorE (IP-tala skráð) 10.5.2008 kl. 01:59

2 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Er spilling á Íslandi?

Kjartan Pétur Sigurðsson, 10.5.2008 kl. 09:03

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Góð að vanda. Übergóð reyndar.  Þetta er svona sirkabát það sem ég vildi sagt hafa en þú gerir það auðvitað best sjálf.

Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 10.5.2008 kl. 09:48

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

einkavinavæðing og sjálftekt er sjálfsögð í íslenskri pólitík og þá sérstaklega innan SJÁLFTEKTARFLOKKSINS án þess þó að ég telji að "hinir" séu saklausir.. þeir eru bara ekki eins áberandi stórtækir og Geir Haarde og hans flokksystkyni..  Góður pistill hjá þér sem endranær Lára.

Óskar Þorkelsson, 10.5.2008 kl. 10:18

5 Smámynd: Einar Indriðason

Ó já!  Sammála bæði þér, Lára Hanna, og eins DoctorE.  Spilling?  Augljós hverjum þeim sem getur opnað augun.  Að veita embætti, út á tengsl, frekar en láta kalt hæfnismat ráða?  Ekkert annað en spilling.  Skipan viss aðila í visst dómarasæti?  Spilling.  Ekkert annað.

Lára Hanna, þessi dæmi sem þú tekur, þau eiga ekki bara við þá aðila sem þú nefnir í restina.  Þetta á við um svo miklu fleiri aðila. 

Hugsanlega er hluti af vandanum það hvað landið er lítið.  Hérna þekkja flestir flesta, og það er ekkert óalgengt að "þú klappar mér, ég skal klappa þér síðar".

En spilling.  Já, Ísland er spillt.  Hvort það er gjör-spillt skal ég ekki segja, en það er spillt!

Einar Indriðason, 10.5.2008 kl. 10:31

6 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Lára Hanna.  Þú ert snillingur í konulíki.  Þessa grein áttu að senda í Kompás, því mér finnst að viðkomandi  aðilar þessa samnings hafi gott af því að svara fyrir þessi vinnubrögð.  Ekki spurning.  Ísland er gjörspillt og spillingin er orðin svo rótföst að það er hæpið að lagfæringar á því geti átt sér stað, nema á 100 árum eða svo.  Það á auðvitað að vera krafa okkar sem búum í þessu landi að pólitískar stöðuveitingar verði aflagðar nú þegar.  Þau vinnubrögð tíðkast hvergi nema í bananalýðveldum.    Með hliðsjón af því hve Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið lengi við völd, má leiða að því líkum að sjálfstæðismenn séu komnir í langflestar valdastöður á Íslandi.  Erum við þá með hlutlaust dómskerfi ? 

Í Kompás með þetta. 

Anna Einarsdóttir, 10.5.2008 kl. 10:43

7 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Tek undir orð Önnu hér á undan - Ég vil sjá Kompásþátt um þessi mál á sömu nótum og þeir fjölluðu um fyrirhugaða olíuhreinsistöð fyrir vestan. 

Það er lítil von til þess, að Ríkissjónvarpið fjalli um þessi „bitru“ mál á sínum vettvangi, frekar að Hjálmar Sveinsson taki þau fyrir í sínum ágæta Krossgötuþætti.

Oft var þörf, en nú er nauðsyn.  Þjóðin, í þessu máli sem mörgum öðrum, stendur á krossgötum og þau eru fleiri en tölu verður á komið, kýlin, sem þarf að stinga á og uppræta. 

Ásgeir Kristinn Lárusson, 10.5.2008 kl. 12:11

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

 Fyrsti liðurinn um hæstaréttardómarann er klárt bull. Til þess að verða skipaður dómari við Hæstarétt, þarf viðkomandi að hafa verið héraðsdómari í 3 ár. Héraðsdómarar þurfa sérstakt leyfi til að stunda önnur störf með dómarastarfinu. Ef sakborningur í Hæstarétti eða lögfræðingur hans telur að um vanhæfi dómara sé að ræða, þá gerir hann athugasemd þar að lútandi. Ef viðkomandi dómari er tengdur máli á einhvern hátt, þá er hann vanhæfur samkvæmt lögum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.5.2008 kl. 13:07

9 Smámynd: Víðir Benediktsson

Hvað segirðu Gunnar? Hvar og hvenær var Jón Steinar héraðsdómari?

Víðir Benediktsson, 10.5.2008 kl. 13:35

10 identicon

Já! Og hvað varð um lyðræðið? Ef athugasemdir verða fleiri en atkvæðin á bak við meirihlutann - hvar er lyðræðið ef bæjarstjórnin tekur ekki tillit til athugasemda?

Petra Mazetti (IP-tala skráð) 10.5.2008 kl. 14:26

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

II. kafli. Hæstiréttur Íslands.
7. Hefur starfað í minnst þrjú ár sem héraðsdómari, hæstaréttarlögmaður, prófessor í lögum, lögreglustjóri, sýslumaður, ríkissaksóknari, vararíkissaksóknari, saksóknari, ráðuneytisstjóri, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu eða umboðsmaður Alþingis eða hefur um jafnlangan tíma gegnt öðru líku starfi sem veitir hliðstæða lögfræðilega reynslu.

Eitthvað af þessu þarf hann að vera reyndar, en eftir stendur að ef vafi leikur á vanhæfi þá er tekið tillit til þess um ákvörðun hverjir eru skipaðir dómarar. Mörg dæmi eru um að dómari annaðhvort biðjist undan sjálfur að vera dómari í tilteknum málum vegna tengsla við málið, eða er sjálfkrafa talinn vanhæfur. Dómarar eru 3-7 eftir mikilvægi mála og í undantekningartilfellum 1, ef málið er ekki talið varða hagsmuni að ráði. Að mínu mati fellur þessi fullyrðing um spillingu að þessu leiti um sjálfa sig.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.5.2008 kl. 14:28

12 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mig langar að benda á að pistillinn fjallar um hvort spilling og mútur viðgangist í íslenskri stjórnsýslu og samning nokkurn sem gerður var fyrir tveimur árum og atburði í framhaldi af honum.

Nefnd eru tvö heimatilbúin (en kannski möguleg) dæmi - og eitt mjög raunverulegt og grafalvarlegt dæmi sem er að gerast þessa dagana, vikurnar og mánuðina - og um það dæmi snýst pistillinn, ekkert annað. Það hélt ég að lægi í augum uppi.

Ég er ekki með neinar fullyrðingar sem geta fallið um sjálfar sig, staðhæfi ekkert nema það sem er skjalfest, augljóst og borðliggjandi. Ég spyr hvort spilling og mútur tíðkist á Íslandi. En það getur ekki verið, eða hvað?

Mig langar að biðja fólk að halda sig við umræðuefnið sem er mikið alvörumál og snertir þjóðina alla, drepa ekki umræðunni á dreif eða vera með útúrsnúninga í þeim tilgangi að leiða umræðuna frá kjarna málsins og koma af stað tilgangslausu hnútukasti um hluti sem eru ekki til umræðu hér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.5.2008 kl. 15:03

13 identicon

Kvitt fyrir innlit.

Kveðja frá Sviss

Sonurinn

Gunnar Berg Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.5.2008 kl. 16:10

14 identicon

Kvitt fyrir innlit.

MAGNUS FINNUR HAUKSSON (IP-tala skráð) 10.5.2008 kl. 16:22

15 Smámynd: Víðir Benediktsson

Fyrirgefðu Lára mín en ég kom bara inn í umræðuna þar sem verið var að saka þig um "klárt bull" með vafasömum rökum svo ekki sé meira sagt.  Það misskildist ekkert að um tilbúin dæmi  væri að ræða einmitt til að benda á alvarleika málsins. Þetta á ekki að geta gerst í réttarkerfinu. Þannig að það ætti ekki heldur að geta gerst í stjórnsýslunni. En því miður er það ekki svo. Það skortir heiðarleikann víða í pólitíkinni.

Víðir Benediktsson, 10.5.2008 kl. 16:41

16 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ber er hver að baki nema sér bróður eigi og gafst Víðir mér vel. Hann vann á manni en er þó ósár sjálfur. Og var hann mér hinn hallkvæmasti í öllu því er hann mátti. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.5.2008 kl. 16:49

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það hníga allar niðurstöður alþjóðlega rannsókna að því að spilling sé með minna móti hér miðað við annarsstaðar í veröldinni. Þú kemur með dæmi um hið gagnstæða, fullyrðingum þínum til stuðnings. Ég dreg út eitt dæmið og bendi á að það sé vitleysa, en þá er ég sakaður um að drepa umræðunni á dreif!

Merkilegt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.5.2008 kl. 17:10

18 identicon

Ef það er ekki  er til spilling hér á landi þá veit ég ekki hvað orðið spilling þýðir.

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 10.5.2008 kl. 19:44

19 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Góð.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 10.5.2008 kl. 20:04

20 identicon

Sigríður í Brattholti kemur orðið upp í huga minn í hvert sinn sem mér verður hugsað til þess hvað þú ert einlæg og hörkudugleg í baráttunni. Takk

Helga (IP-tala skráð) 10.5.2008 kl. 20:46

21 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Nú bíður maður eftir sunnudags Mogganum

Haraldur Bjarnason, 10.5.2008 kl. 20:48

22 Smámynd: Víðir Benediktsson

Þakka þér fyrir Lára. Þetta er held ég skemmtilegasta komment sem ég hef fengið á lífsleiðinni. Samlíkingin ekki sótt í neina bjálfa. Það er öruggt að ég kaup sunnudags Moggann. Hér fyrir norðan er til hugtak sem heitir verktakalýðræði, veit ekki hvort þið kannist við það.

Baráttukveðjur VB

Víðir Benediktsson, 10.5.2008 kl. 20:57

23 identicon

Já, það er ekki að spyrja að því.  Snilldar blogfærsla að vanda.

Ég er alveg pottþéttur á því að spilling hér sé ekkert minni eða meiri en annars staðar.   Hún er kannski ekki alltaf í beinum mútufærslum eða beinum vina tengslum heldur til komin af smæð landsins. 
Sér í lagi þessi með að klóra bakið á náunganum gegn því að vera klórað síðar sjálfur.  Það held ég að flestir kannist við af einhverju leiti að eigin raun.   Svo er bara spurning hvernær verður svona bak-klór að ólöglegum gjörning og hvenær ekki.  Skilin er ekki alltaf svo greinileg.

Það væri fróðlegt að sjá hvernig Kompás tæki á þessu máli.

Örvar Már Kristinsson (IP-tala skráð) 10.5.2008 kl. 22:06

24 Smámynd: Sigurður Hrellir

Stórkostleg drápa. Þú ert heldur betur komin í gírinn. Það þarf að sýna þessum kónum hvað Davíð keypti ölið. Bæjarstjórnin í Ölfusi, my ass!

Ég hlakka til að sjá Moggann á morgun. 

Sigurður Hrellir, 10.5.2008 kl. 23:08

25 Smámynd: Jens Guð

  Hvers vegna féll Ísland niður í 6.  sætið?

Jens Guð, 11.5.2008 kl. 01:04

26 identicon

Þetta er gaman að lesa - Og vonandi er mannskapurinn að vakna til vitundar að líða ekki þessa spillingu, umræðan er jú alltaf byrjunin  - Hvað varðar spillingu, þá veit ég persónulega um dæmi sem eru svo einkennilega spillt, að ég held að ekki einu sinn hinum bananalýðveldunum hafi dottið þau í hug (maður á kannski ekki að vera kenna þeim "júníkina" sem er hér)...

Nefni samt fá dæmi af mörgum: Einstaklingur sótti um gjafsókn vegna málaferla sem viðkomandi stóð í. Fékk synjun, en einn af nefndarmönnum var enginn annar en Ásgeir Thoroddsen, einn af eigendum lögfræðifirmans sem var með málið fyrir bílasöluna Ingva Helgason, sem sveik bíl inn á bjánann sem þurfti að leita eftir gjafsókn og var svo vitlaus að halda að það væri einhver neytendavernd hér.

Og vitið þið bara hvað - Björn Bjarnason er búinn að fá lögunum þannig breytt að það er varla fyrir nema milla að fá úthlutað úr sjóði sem á að liðsinna þeim sem fjárhagslega hafa ekki bolmagn til að sækja mál sín fyrir dómstóla (allavega "réttan" lit eða skoðun).

Og vitið þið bara hvað, þessi sami einstaklingur uppggötvaði það að Intrum innheimtir dráttavexti þannig að þeir eru lagðir við höfuðstól árlega, ekki á 12 mánaða fresti. - sem þýðir að sé skuld í desember í vanskilum hjá einhverjum, þá eru dráttarvextirnir lagðir 1. janúrar í næsta mánuði við skuldina og svo er dráttavaxtareiknað - innan mánaðar - ekki 12... - hvað haldið þið að margir hafi lent í þessu sem skulda jafnvel miljónir... og dómstólarnir dæma þessa ræfla sem skulda í hendurnar á þessu liði...

kveðja og vonandi förum við nú að hrista af okkur slenið...

Akp

Anna Kr. Pétursdóttir (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 02:19

27 Smámynd: Villi Asgeirsson

Frábær pistill. Þú segir það sem margir vita en á svo auðskiljanlegan hátt að restin ætti að ná því núna. Lika 100% sammála DoctorE og það sem Anna sagði, sendu þetta í Kompás.

Villi Asgeirsson, 11.5.2008 kl. 11:26

28 Smámynd: Bragi Ragnarsson

Loksins, betra seint en aldrei. Var að lesa Moggann og þú ert frábær þar, eins og alltaf.

Bragi Ragnarsson, 11.5.2008 kl. 11:31

29 Smámynd: Villi Asgeirsson

Gunnar TH, geturðu sagt okkur hvað þér finnst um liði 2-3 í færslunni?

Villi Asgeirsson, 11.5.2008 kl. 13:41

30 identicon

Góð og jafnframt sláandi grein hjá þér Lára Hanna !    Það er nokkuð ljóst að víða er pottur brotinn í meðferð fjármuna almennings og full þörf að fá öfluga málefnalega umræðu í gang varðandi skilgreiningu á því hvað flokkast undir spillingu og hvað telst eðlileg fjársýsla.  Þú nefnir sláandi dæmi og vil ég leggja til umræðunnar mál sem ég uppgötvaði fyrir tilviljun nýverið og er að vinna í um þessar mundir.

Í Mosfellsbæ eru tvö golfíþróttafélög, bæði innan GSÍ og ÍSÍ, annarsvegar golfklúbburinn Kjölur og hinsvegar golfklúbbur Bakkakots, í Kili eru rúml. 500 meðlimir og skattgreiðendur og í Bakkakoti rúml. 300 meðlimir og skattgreiðendur.

Bæjarstjóri Mosfellsbæjar Haraldur Sverrisson er meðlimur í Kili og fyrrverandi formaður klúbbsins, hann hefur jafnframt verið sæmdur og þegið heiðursorðu frá klúbbnum.  Formaður íþrótta og tómstundanefndar í bænum er fyrrverandi stjórnarmaður í klúbbnum og núverandi nefndarmaður, en bæði Haraldur og síðarnefni aðilinn eru af lista sjálfstæðismanna í bænum.  Stjórn Kjalar heldur árlega svokallað bæjarstjórnagolf, eða mót sem aðeins bæjarstjórnamenn taka þátt í ásamt stjórnamönnum og völdum meisturum, mótið fer að sjálfsögðu fram með tilheyrandi veitingum mönnum að kostnaðarlausu.  Í bónus fá bæjarstjórnamenn að spila fríspil á vellinum samkvæmt upplýsingum frá forseta bæjarstjórnar Karli Tómassyni em er af lista Vinstri Grænna.

Síðan kemur að fjárveitingum til gofíþróttarinnar í bænum eða til beggja félaga og til að gera langt mál stutt þá vil ég benda á upplýsingar úr ársreikiningum Kjalar fyrir 2006 og 2007, en þar kemur fram að Kjölur klúbbur bæjarstjóra hefur fengið á þessum 2 árum sem nemur rétt um 100 milljónum frá bænum og auk þess var tilkynnt í fréttatilkynningu um 120 millj. króna aukafjárveitingu til "golfþíþróttarinnar" en þegar að var gáð þá fara þeir fjármunir ekki til félaganna beggja, þeir fara allir, hver króna til að byggja fínna klúbbhús hjá félagi bæjarstjóra, Kili.

Hitt félagið Bakkakot, sem hefur ekki þessi ítök hjá bænum hefur á sama tíma fengið sem nemur nokkur hundruð þúsun frá bænum þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um aðstoð,  á móti 220 millj. króna framlagi til Kjalar.  Að auki eru mörg atriði varðandi tækjakaup, landnýtingu, veðsetningar lands og fleira sem ég ætla ekki að tíunda hér.

Ég sendi bæjarstjórn erindi og bar fram ýmsar spurningar varðandi þessar fjárveitingar og þá misskiptingu sem þar er í gangi, ein af spurningunum var svohljóðandi:  " er einhver áætlun til sem ekki hefur komið fram sem er til þess fallin að jafna að einhverju leiti aðstöðumun félaganna ? "  Svarið sem kom frá bæjarstjórn var þannig: " þar sem ekki er allskostar hægt að skilja spurninguna, er ekki hægt að svara henni " !!.. já svo mörg voru þau orð.

Ég spyr, er það eðlileg fésýsla með almannafé að hygla tengdum aðilum og velgjörðarmönnum ?  Í mínum huga er þetta ekki einungis spilling, heldur sauðspilling, dæmin eiga það til að sanna regluna. 

Ég hvet þig eindregið áfram Lára, umræðan er verulega þörf.

Ólafur Ragnarsson, Hvarfi, 270 Mosfellsbæ (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 14:34

31 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Villi, í lið 2 er væntanlega verið að vísa í Pétur Blöndal og aðkomu hans að SPRON og fl. einkavæðingarmálum í bankakerfinu. Ef hann réði málum einn, þá væri það spilling. Það að hann láti álit sitt í ljós og það er stutt haldbærum rökum og meirihluti atkvæðabærra manna er honum sammála, þá sé ég ekkert athugavert  við málið.

Um lið 3 er það að segja að ef allt þar sem fram kemur væri sannleikanum samkvæmt í raunheimum, þá væri hægt að túlka það sem spillingu. En þar sem nokkur atriðið í þessari "dæmisögu" eiga ekki við rök að styðjast og eru bara fabúleringar sem settar eru fram til að lokka fólk til fylgilags við andstöðuna gegn Bitruvirkjun, þá er þessi ágæta skáldsaga ekki marktækt innlegg í umræðuna um málið. Þessum ásökunum í lið 3 verður eflaust svarað af þeim sem málið varða ef þurfa þykir. En þar sem dæmisagan er ekki tengd neinu sérstöku máli, þá sleppur Lára Hanna auðvitað við ákæru um meiðirði.

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.5.2008 kl. 14:35

32 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

6. sætið væri betra í Eurovision.  Það er ekki amarlegt að öðrum finnist þetta um okkur. 

En eins og alltaf.  Mér finnst reyndar alveg makalaust hvað hægt er að "spillingast" mikið í 300.000 manna samfélagi. 

Annars, þetta heitir ekki spilling.  AÐ VERA VEL TENGDUR!!!

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 11.5.2008 kl. 14:39

33 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það vita samt auðvitað allir hvaða sveitarstjóra Lára Hanna er að tala um í dæmisögu sinni. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.5.2008 kl. 14:39

34 Smámynd: Víðir Benediktsson

Það sem er raunverulegt er ekki dæmisaga og ég bara get ekki séð að hér sé verið að fela neitt. Í upphafi pistilsins stendur þetta

"Tökum tvö heimatilbúin (en möguleg) dæmi og eitt mjög raunverulegt"

Hinsvegar verður þú, Gunnar að fá prik fyrir framúrskarandi athyglisgáfur úr því þú áttaðir þig á við hvaða sveitastjóra var átt, því í niðurlaginu stendur þetta.

"Ef einhver er ekki búinn að átta sig á því - þá er ég auðvitað að tala um fyrirtæki okkar Reykvíkinga, Orkuveituna, Sveitarfélagið Ölfus og sveitarstjóra þess

Þessi yfirnáttúrulega uppgötvun hjá þér hlýtur að flokkast undir snilligáfu og ég mæli með að þú stefnir henni ekki seinna en strax.

  

 

Víðir Benediktsson, 11.5.2008 kl. 20:09

35 Smámynd: Steingrímur Helgason

Já, til hamíngju með þína menn í enska boltanum, greinin er snilld, upp að ákveðnu marki sem að ég segji ekki meir um, eins & þú líklega veist. 

Steingrímur Helgason, 11.5.2008 kl. 20:13

36 Smámynd: Haraldur Bjarnason

ok. United er meistari.........til hamngju !!!!

Haraldur Bjarnason, 11.5.2008 kl. 20:32

37 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Kærar þakkir fyrir innlit, stuðning og hvatningu, öllsömul. Ég skal ekki segja hvort þetta sé mál fyrir Kompás þótt ekki skaði að senda þeim slóðina, þeir Kompásmenn meta það síðan.

Ég sé á athugasemdunum að fólk er almennt sammála um að spilling fyrirfinnist í íslenskri stjórnsýslu og víðar í samfélaginu og sumir nefna dæmi. Spillingin gengur auðvitað undir ýmsum nöfnum og hér hafa nefnd til sögunnar samtrygging, einkavinavæðing, sjálftekt og "að vera vel tengdur". En kjarninn er sá sami, það er bara huggulegra að nota hin kurteisari nöfnin sem hafa ekki jafn neikvæðan stimpil.

Ég veit ekki af hverju Ísland hrapaði úr 1. sæti í það 6., Jens. Ef þú smellir á linkinn í Moggafréttinni sem ég tengi á efst í pistlinum er sagt efst á listanum: "A country or territory's CPI (Corruption Perceptions Index) indicates the degree of public sector corruption as perceived by business people and country analysts...). Neðst er síðan listi yfir stofnanir, fyrirtæki og vefsíður sem kallaðar eru "Sources" eða heimildir - en þar er engin íslensk nöfn að því er ég best fæ séð. Aldrei hef ég heldur orðið vör við að fjölmiðlar færu nánar í saumana á þessum könnunum, þeir birta þetta bara gagnrýnislaust. En vonandi misminnir mig þar.

Víðir nefnir verktakalýðræði... það orð hef ég aldrei heyrt áður en þykist vita að hann sé að vísa í völd og áhrif verktaka í skipulagsmálum, jafnt norðan sem sunnan heiða. Verktakarnir láta fé af hendi rakna í kosningasjóði og fá lóðir og fleira í staðinn langt umfram aðra - og það sem eðlilegt getur talist. Slíkt athæfi flokkast pottþétt undir spillingu og mútur, ekki spurning.

Í dæminu sem Anna Kr. Pétursdóttir nefnir er klárlega um vanhæfi nefndarmanns að ræða, sem hafnar gjafsókn gegn fyrirtæki sem hann er sjálfur fulltrúi fyrir. Svona nokkuð á auðvitað ekki að líðast. Þó að við séum fámenn þjóð má alltaf finna einhvern ótengdan og óvilhallan í slíkum tilfellum.

Eins hljómar dæmið sem Ólafur Ragnarsson nefnir skuggalega, en þar sem ég hef hvorki vit á golfi né bæjarmálum í Mosó get ég ekki tjáð mig mikið um málið. Ég kannast hins vegar við sögu Bakkakotsvallar og umhverfið þar er yndislegt.

Hallgerður... ég er svo athyglifælin að það hálfa væri nóg. Með því að æða fram á ritvöllinn undanfarna mánuði er ég að ganga hressilega fram af sjálfri mér og kannski fleirum.

Ég þakka hamingjuóskir piltanna í athugasemdum nr. 39 og 40...     Mínir menn urðu meistarar í dag og það er gaman.

Og Steingrímur...  já, ég veit og skil mjög vel. Forláttu mér samt.

Lára Hanna Einarsdóttir, 11.5.2008 kl. 21:42

38 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já, ég gleymdi þessu Víðir, þegar ég las þetta yfir í annað sinn.... En vertu nú ekki að hengja þig í smáatriði.

"Ein greinin í samningi sveitarstjórans og fyrirtækisins"....

"Upplýsingar um í hvað allar milljónirnar fara liggja ekki á lausu en leiða má líkur að því, að þær fari í vasa einhverra"

"..bæjarstjórinn og það af hans fólki sem þegið hefur hluta af fénu nú þegar, eða 14 milljónir samtals,..."

Ekki stefni ég Láru Hönnu, Víðir, enda er hún ekki að væna mig um þetta, en hún vænir hins vegar bæjarstjórann og einhverra óskilgreinda aðila aðra um að þiggja mútur.

En orkar þetta ekkert tvímælis hjá Láru Hönnu:

"Frestur til að skila inn athugasemdum rennur út á þriðjudaginn, þann 13. maí. Ég er boðin og búin að aðstoða fólk ef með þarf".

Að gera athugasemdir fyrir annað fólk!! Fólk sem þekkir hvorki haus né sporð á málinu! Er þetta lýðræðið í verki hjá náttúruverndarsinnum?

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.5.2008 kl. 21:52

39 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Svo er náttúrulega með ólíkindum fullyrðingarnar í þessum pistli hér.

"Nú þegar hefur verið bent á gríðarlega lyktarmengun sem hljótast mun af þessu virkjanaæði. Ólíft getur orðið í Hveragerði 70 daga á ári"  Ýkjur?, já ég trúi ekki öðru

 "magn brennisteinsvetnis í mælingum við Grensásveg hefur farið yfir hættumörk þótt enn sé aðeins búið að reisa tvær virkjanir af fimm eða sex fyrirhuguðum".  Rangt, ef miðað er við hættumörk WHO

"Virkjanirnar endast ekki nema í 40 ár," Rangt, Nesjavallavirkjun er talin endast eins lengi og menn vilja og um hinar ríkir óvissa, en meiri líkur en minni að þær endist eins og Nesjavallavirkjun og munu gera það ef farið er með skynsamlegum hætti í nýtingu þeirra.

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.5.2008 kl. 22:40

40 identicon

Ég veit kannski ekki alveg hvernig maður skilgreinir mútur og spillingu en þegar fyrirtæki ber pening á sveitarfélög til að liðka fyrir samningum og lofa að standa svo undir málaferlum og skaðabótamálum sem gætu hugsanlega átt sér stað(45 millur er það ekki ???) plús náttúrulega að byggja hesthúsahverfi, leggja ljósleiðara í þorpið/sveitarfélagið, lýsa upp þrengslaveg, leggja 75 miljónir í skógrækt, og byggja fjárrétt(eru réttir ekki að leggjast af), þá fer maður nú að hugsa sig um, er það ekki ???  Sér í lagi þar sem að fyrirtækið hefur ekki lagt þetta í vana sinn hingað til.

Þeir segja að það sé alls ekki verið að kaupa sér leið inn í skipulagið ... mér er spurn, hvað er þá verið að gera.  Ég er bara ekki alveg að skilja þetta.  Er fyrirtækið á tímum sem stjórnvöld hvetja til sparnaðar að sóa opinberum peningum í allt öðru sveitafélagi uppá grínið ????   Hafa þeir ekkert betra við peninginn að gera.  Ég reikna með að þeir geri þetta þó svo að af byggingu Bitruvirkjunar verði ekki.  Þeir eru jú ekki að reyna að tryggja sér leið inn í skipulagið.

Það er sem ég segi, það getur verið erfitt að greina á milli hvenær gjafir eru orðnar of miklar og farnar að flokkast undir eitthvað óheiðarlegt eða ólöglegt. 

Örvar Már Kristinsson (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 22:47

41 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Sagði um daginn að þínar færslur væru með þeim bestu á Moggabloggi. Það er rangt. Þær ERU bestar.

Það versta við góðar færslur er að þær krefjast tíma, ég á eftir að þaullesa þetta betur og efnið í kring. Einnig Moggann. Engu að síður þú hefur sannað fyrir mér réttmæti þíns málflutnings.

Kristjana Bjarnadóttir, 11.5.2008 kl. 23:16

42 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Já, Örvar Már... þetta er spurning um hvernig maður skilgreinir mútur og spillingu. Ætli það fari ekki svolítið eftir réttlætiskennd hvers og eins. Svo er spurning hvernig gjafafé er skattlagt... það þarf jú að greiða sérstakan skatt af öllu gjafafé sem fer yfir einhverja X upphæð - er það ekki?

Takk fyrir falleg orð, Kristjana, og vonandi geturðu gefið þér tíma... hann er ekki auðfundinn nú til dags.

Lára Hanna Einarsdóttir, 12.5.2008 kl. 01:29

43 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

[Einu áhyggjur íslendinga af spillingu er að komast ekki í hana sjálfir] DoctorE.
Þetta er bara málið, ekki flókið.

Góður pistill og góð umræða, sem væri síðri ef Gunnar Th. stæði sig ekki svona vel.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 12.5.2008 kl. 15:26

44 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Einu sinni var ég að rífast við nágranna minn í næstu íbúð á sömu hæð í fjölbílishúsi.  Þetta var seint um kvöld og við báðir við skál og hávaðinn mikill.

Þá stakk eldri, skapvond kona í íbúðinni á móti hausnum út um dyrnar hjá sér og æpti á okkur: "Ef þið hættið ekki þessu rifrildi, þá klaga ég ykkur fyrir DV!"

Það sema segi ég við ykkur hér að ofan.

Kær kveðja, Björn bóndi.

Sigurbjörn Friðriksson, 12.5.2008 kl. 22:38

45 identicon

Sá þessa skemmtilegu bloggfærslu áðan:

http://kari-hardarson.blog.is/blog/kari-hardarson/#entry-544917

Ef þetta er ekki spilling þá veit ég ekki hvað ;)

Örvar Már Kristinsson (IP-tala skráð) 20.5.2008 kl. 19:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband