Er þetta spurning um siðferði þegar upp er staðið?

Money makes the world go around...Það er með ólíkindum hvað viss öfl í þjóðfélaginu eru óskynsöm, fyrirhyggjulaus og svífast einskis til að fá sínu framgengt, hvað sem það kostar og hvaða afleiðingar sem það hefur fyrir núlifandi kynslóðir og þær sem á eftir koma - okkur og afkomendur okkar. Engu er eirt, siðferði er hunsað, sveigt fram hjá lögum og reglum með milljarðahagnaðinn að leiðarljósi. Þetta framferði hefur tíðkast lengi í íslensku þjóðfélagi. Fjármagn er vald og vald er fjármagn - eða eins og ég heyrði lítinn gutta segja í leik fyrir nokkrum árum: "Sá sem er ríkastur ræður auðvitað."

Sumir stjórnmálamenn spila með, hagræða og veita nauðsynlega fyrirgreiðslu til að allt gangi nú eins og smurt og sá sem raunverulega valdið hefur fái það sem hann vill og geti hagnast enn meira - því mikið vill alltaf meira. Það virðist vera lögmál. En greiðar eru ekki ókeypis og oft hef ég spáð í hvað hinn greiðasami stjórnmálamaður fái í sinn hlut - eitthvað fær hann, það er ég handviss um. Spilling og mútur? Aldeilis ekki! Það er engin spilling á Íslandi, er það?Kjartan Magnússon

Ég hef alltaf furðað mig á því af hverju Sjálfstæðismenn voru tilbúnir til að leggjast svo lágt sem raun bar vitni til að ná völdum aftur í borginni. Það var eitthvað á bak við þetta, eitthvað stórt sem enn hefur ekki komið fram í dagsljósið. Það er ég sannfærð um. Ég held að möguleg loforð gefin verktaka- og lóðabröskurum eða öðrum hafi ekki ráðið úrslitum. Ég held að það hafi verið Orkuveita Reykjavíkur. Tekið skal fram að ég hef ekkert fyrir mér í því annað en grun... tilfinningu sem ég losna ekki við. Engin skjöl, enga pappíra, engin orð hvísluð í eyra - ekkert. En það fyrsta sem nýr meirihluti gerði var að skipa Kjartan Magnússon formann Orkuveitu Reykjavíkur. Áður en skipað var í nokkrar nefndir var formennskan í OR á hreinu! Og samkvæmt fréttum var Kjartan Magnússon einn aðalhvatamaður valdayfirtökunnar. Hvað lá svona á að komast til valda... ekki í borginni endilega, heldur í Orkuveitu Reykjavíkur? Getur einhver upplýst mig um það?

SpegillinnÉg hlustaði á Spegilinn í gærkvöldi. Hef mikið dálæti á þeim þætti og reyni að missa ekki af honum. Spegillinn er einn af albestu fréttatengdu þáttunum í íslensku útvarpi og vinnubrögð umsjónarmanna vönduð, sama hvað fjallað er um og þeir kalla gjarnan sérfræðinga til skrafs. Fastir umsjónarmenn spegilsins eru fréttamennirnir Friðrik Páll Jónsson, Gunnar Gunnarsson og Jón Guðni Kristjánsson. Mér heyrðist það vera Jón Guðni sem ræddi í gærkvöldi við Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði við Háskóla Íslands um nýtingu jarðhita. Í inngangi viðtalsins sagði Jón Guðni:

"Við fjöllum að lokum um hvernig eigi að nýta jarðvarma - með hámarkshagnað í huga til skemmri tíma litið eða með það í huga að jarðvarminn nýtist komandi kynslóðum eins og okkur. Og hvað vitum við um nýtingarþol auðlindarinnar?"

Þarna er strax komið inn á einn stærsta þáttinn sem keyrir virkjanamálin áfram - græðgina og gróðasjónarmiðin. Hámarkshagnað á eins skömmum tíma og mögulegt er, sama hvað er í húfi og hvaða afleiðingar það hefur. Á vefsíðu Spegilsins stendur þetta um málið:

"Áætlanir um raforkuframleiðslu frá jarðvarmavirkjunum byggjast á Stefán Arnórsson, prófessortakmörkuðum rannsóknum, hugmyndir um að nýta jarðhitasvæði í ákveðinn árafjölda og hvíla þau svo meðan þau jafna sig byggjast á ágiskunum en ekki þekkingu eða reynslu. Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði, telur affarasælast að virkja jarðhitann í smáum skrefum fremur en stórum, ef ætlunin er að varðveita auðlindina, komandi kynslóðum til afnota."

Ég hef gagnrýnt lögin um mat á umhverfisáhrifum, þar sem framkvæmdaraðilinn - í þessu tilfelli Orkuveita Reykjavíkur - sér um matið, fær til liðs við sig ráðgjafafyrirtæki sem getur haft beina hagsmuni af því að virkjunin verði reist og síðan sjá sömu aðilar um að meta athugasemdirnar, þ.e. dæma í eigin máli. Hvorugur aðilinn getur með nokkru móti verið hlutlaus. Ég vil að hlutlausir aðilar sjái um matið á umhverfisáhrifum framkvæmda, t.d. menn eins og Stefán og fleiri sem eiga engra hagsmuna að gæta og geta nálgast viðfangsefnið af þeirri hlutlægni og vísindalegu þekkingu sem nauðsynleg er.

Stefán segir "...að tvö sjónarmið séu ríkjandi um nýtingu jarðvarma. Annað er að nýta hann með hámarkságóða í huga yfir ákveðið tímabil og þá er gjarnan miðað við afskriftatíma mannvirkja sem nýta orkuna. Hitt er að nýta hann með sem næst sjálfbærum hætti þótt full sjálfbærni náist aldrei. Full sjálfbærni þýðir að nýting hefur engin umhverfisáhrif og þannig er ekki hægt að nýta auðlindir í jörðu. Það er hins vegar hægt að hafa það að leiðarljósi, að auðlindirnar nýtist sem lengst - ekki aðeins núlifandi kynslóðum, heldur komandi kynslóðum einnig. Þegar upp er staðið er það siðferðileg spurning hvort sjónarmiðið er haft að leiðarljósi."

Ég lýsi eftir siðferði stjórnarmanna Orkuveitu Reykjavíkur, sveitarstjórnar Ölfuss, borgarfulltrúa í Reykjavík, þingmanna, ráðherra í íslensku ríkisstjórninni og almennings á Íslandi.

Annaðhvort vita menn hjá Orkuveitunni þetta ekki eða þeir loka augunum fyrir því. Kannski er þeim uppálagt að gera það. Í virkjununum á Hengilssvæðinu og Hellisheiði er fyrirhuguð hámarksnýting og áætlað er að unnt sé að nýta jarðhitann þar í ja... segjum 30 til 40 ár. Síðan er sagt að það þurfi að hvíla svæðið á meðan það nær upp jarBorholur á Skarðsmýrarfjalliðhita að nýju - kannski í önnur 30-40 ár? Það er einfaldlega ekki vitað, en það á SAMT að gera það. Þeir viðurkenna að nýtingin sé ágeng en ætla SAMT að virkja. Í frummatsskýrslu OR og VSÓ um umhverfisáhrif af Bitruvirkjun segir: "Framkvæmdaraðili skilgreinir fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir á Bitru sem ágenga vinnslu en að vinnslustefnan sé engu að síður sjálfbær." (kafli 19.7, bls. 67). Ágeng en engu að síður sjálfbær? Hvernig kemur það heim og saman við það sem Stefán Arnórsson segir í viðtalinu? Endurnýjanleg orka???

Stefán segir að best sé að virkja í smáum skrefum en auðvitað séu það þarfir þeirra sem nýta orkuna sem á endanum ráða virkjanahraðanum. Þar komum við að spurningunni um þörfina. Til hvers þarf að virkja svona mikið? Fyrir hvað og hvern? Álver sem nú til dags eru nánast hvergi reist nema í fátækum þriðja heims ríkjum? Hverja vantar störf í þjóðfélagi sem þarf að flytja inn erlent vinnuafl í tugþúsundatali? Ég er svo treg að ég skil þetta ekki. Getur verið að áherslan sem lögð er á að virkja sem mest og sem hraðast og ganga eins mikið á auðlindina og hægt er sem fyrst tengist á einhvern hátt þeim þrýstingi sem var á Sjálfstæðisflokkinn að ná völdum aftur í Reykjavík og þar með yfir Orkuveitunni? Spyr sú sem ekki veit.

Undir lok viðtalsins kom Stefán inn á mengunina af jarðhitavirkjunum. Borholur á SkarðsmýrarfjalliHann segir að efnamengun frá virkjunum og umhverfisáhrif þeirra yfirleitt hafi verið mjög vanmetin. Þar sé mest áhersla lögð á að draga úr sjónmengun og jarðraski virkjana á háhitasvæðum en að áhrifin séu engu að síður miklu, miklu víðtækari. Efnamenguninn sé í raun alvarlegust og erfiðust til langs tíma litið - bæði lofttegundir sem eru í jarðgufunni og fara út í andrúmsloftið og eins ýmis efni í vatninu sem geta blandast yfirborðsvatni eða skemmt grunnvatn. Þetta er fyrir utan hljóðmengun og margt, margt fleira. Hrein orka???

Í þessu sambandi minni ég á Hveragerðispistlana mína tvo frá í apríl, þennan og þennan. Þeir fjalla um brennisteinsvetnismengunina frá jarðhitavirkjununum sem verður gríðarleg og hefur áhrif á alla íbúa suðvesturhornsins, mest þó á Hvergerðinga. Ég minni líka á Spegilsviðtölin í tónspilaranum ofarlega til vinstri á þessari síðu - við Þorstein Jóhannssson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun og Sigurð Þór Sigurðarson, lækni og sérfræðing í öndunar- og umhverfissjúkdómum. Viljum við virkilega að þetta gerist við bæjardyrnar hjá okkur sem búum á suðvesturhorni landsins? (Við erum 2/3 landsmanna, gleymið því ekki. Það eru mörg atkvæði á landsvísu þegar þar að kemur.) Hvað knýr þessa menn áfram við að framkvæma í slíkri blindni? Er eftirsóknin eftir auði og völdum svo siðblind að öllu og öllum - ef ég væri nógu dramatísk segði ég landi og þjóð - sé fórnandi fyrir skyndigróða?

Ýmislegt fleira merkilegt kemur fram í viðtalinu við Stefán. Ég setti það í tónspilarann - það er næstefsta viðtalið - og hvet alla til að hlusta vandlega á það. Þarna talar maður með þekkingu og reynslu sem á engra hagsmuna að gæta.

Annars hef ég verið að lesa lög í dag. Það er leiðinlegasta og tyrfnasta lesning sem hugsast getur - en stundum þarf að gera fleira en gott þykir sagði mamma mín alltaf...  Wink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær pistill hjá þér Lára Hanna að vanda.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna alltaf þarf að keyra allar framkvæmdir í gegnum skipulag og mat með svo miklu hraði. Hvers vegna er ekki farið aðeins hægar í sakirnar? Eftir lestur þessa pistils þá held ég að svarið snúist um kjörtímabil. Pólitískt kjörinn fulltrúi hefur tíma fram að næstu kosningum til að koma sér og sínum áfram. Málið er nefnilega eins og þú segir svo réttilega í pistlinum að auður og völd gera oft ágætasta fólk svo gersamlega siðblint að því finnst réttlætanlegt að fórna öllu fyrir skyndigróða.

Þú átt samúð mína alla varðandi laga lesturinn gætir samt kannski kíkt á L.nr. 73/1997 12,gr. 6,mgr.

Gunnar Jónsson (IP-tala skráð) 15.5.2008 kl. 03:24

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Hressilegt blogg að vanda. Held að hægt sé að skoða umhverfismál einnig út frá hagrænum sjónarmiðum. Þ.e. að það borgi sig að vera taka umhverfismálin betur á dagskrá. Þetta er langhlaup.

Sigurður Þorsteinsson, 15.5.2008 kl. 07:28

3 identicon

Það er ekki að spyrja að því, stórgóðir pistlar hjá þér og vekja virkilega upp spurningar sem þarft er að fá svör við. 

Kv. Örvar

Örvar Már Kristinsson (IP-tala skráð) 15.5.2008 kl. 09:08

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þú kemur mér alltaf til að hugsa LH, það er auðvitað afrek út af fyrir sig.

Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.5.2008 kl. 09:45

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Bloggarar eru áhugaverður hópur. Eru þeir eins og fólk er flest og geta þeir talist spegilmynd af umræðunni og áherslunni í samfélaginu? Sjá lillo.blog.is.

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.5.2008 kl. 11:10

6 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Linkaði á þig líka.

Jenný Anna Baldursdóttir, 15.5.2008 kl. 12:47

7 identicon

Mjög áhugavert. Það þarf virkilega að skoða þessa hluti vel, í samhengi og af hlutlausum aðilum áður en rokið er af stað í fleiri virkjanir.

Petra Mazetti (IP-tala skráð) 15.5.2008 kl. 14:20

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"....stórgóðir pistlar hjá þér og vekja virkilega upp spurningar..." segir Örvar Már.

Ég get ekki séð að þær veki neinar spurningar hjá viðhlæjendum þínum hér Lára Hanna. Þú svarar þeim flestum sjálf, líka þeim sem eru hjúpuð óvissu, og athugasemdirnar sem koma á síðuna þína eru flestar um það hvað þú ert frábær, tilvonandi Fálkaorðuhafi og ég veit ekki hvað!

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.5.2008 kl. 17:36

9 identicon

ok

MAGNUS FINNUR HAUKSSON (IP-tala skráð) 15.5.2008 kl. 17:54

10 identicon

Þetta er vafalítið hárrétt kenning. Meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks snérist um Orkuveitu Reykjavíkur og hverjum ætti að hleypa að orkulindunum. Og hann sprakk vegna ágreinings um þau mál. Með myndun núverandi meirihluta ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að stýra orkulindunum í hendurnar á réttum aðilum. Í þeirra huga er samfélagsleg eign aðeins millibilsástand og á það jafnt við um Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun. Undirbúningur að einkavæðingu Landsvirkjunnar hefur staðið lengi yfir og við erum þegar byrjuð að sjá leikfléttur sem miða að því að koma Orkuveitu Reykjavíkur í hendurnar á einkaaðilum. Hér er til mikils að vinna því þeir sem eignast orkulindirnar munu trjóna á toppnum í íslensku samfélagi um ókomin ár. Vinnubrögðin og siðblinduna verður að skoða í ljósi þessa.

Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 15.5.2008 kl. 18:04

11 Smámynd: Linda Samsonar Gísladóttir

Lára Hanna, ég verð nær orðlaus af pirringi yfir framferði gróðabrallaranna sem þú nefnir í blogginu þínu. Nær gráti nær yfir græðginni og yfirgangseminni.  Þessa menn varar ekkert um aðra en sjálfa sig og "vini" sína.  Þessir menn eru væntanlega allir sem einn jafn falir og tóbak úti í sjoppu, bara enn hættulegri. 

Ég þakka þér fyrir skörunglegt blogg. Mikið er gott að hafa orðsnilldarkonu eins og þig "réttum megin"

Linda Samsonar Gísladóttir, 15.5.2008 kl. 18:39

12 Smámynd: Einar Indriðason

Wow... maður bregður sér rétt af bæ, og á meðan, þá færðu bara rit-ræpu.... ég á eftir að lesa þetta allt saman.  Veit ekki hversu mikið ég kommenta svosem.... Segjum sem svo að þetta kvitt sé ekki bara innlitskvitt, heldur for-innlitskvitt líka.

Einar Indriðason, 15.5.2008 kl. 20:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband