Blygðunarlaus spilling og einkavinavæðing

Þessi færsla er gagngert birt til að vekja athygli á öðru bloggi - grafalvarlegu hneykslismáli sem Jón Steinar Ragnarsson skrifar um og vekur athygli á. Pistill Jóns Steinars er ítarlegur, vandaður og vel rökstuddur. Þótt ég birti pistilinn hans í heild sinni hér að neðan hvet ég fólk til að fara á bloggið hans og setja inn athugasemdir sínar þar. Ég hvet líka aðra bloggara sem hafa áhuga á - kannski ekki bara málefnum áfengissjúkra, heldur eru líka andsnúnir svona blygðunarlausri spillingu og einkavinavæðingu - að afrita pistil Jóns Steinars og linka í hann til að vekja enn meiri athygli á þessu máli og öðrum svipuðum. Ekki tauta og tuða úti í horni eða á kaffistofunni, heldur láta yfirvöld vita að fylgst sé með þeim og að svona málatilbúnaður sé fordæmdur og lendi ekki í gleymskuskjóðunni fyrir næstu kosningar.

Ég hef enga persónulega reynslu af SÁÁ, hef verið heppin í lífinu. En ég þekki fjölmarga sem annaðhvort eiga þeim sjálfir líf sitt að launa eða einhverjir þeim nákomnir. Í lok pistils síns hvetur Jón Steinar fólk til að horfa á heimildarmynd Michaels Moore, SICKO, sem fjallar um spillingu og skelfilega meðferð á sjúklingum í einkareknu heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna. Ég horfði á myndina í ársbyrjun og mér varð illt, ég varð miður mín. Viljum við slíkt kerfi hér á Íslandi? Ætlum við að líða að heilbrigðiskerfið, sem foreldrar okkar, afar, ömmur, langafar og langömmur börðust fyrir með blóði, svita og tárum verði einka(vina)vætt í laumi á bak við tjöldin?

En hér er pistill Jóns Steinars. Lesið til enda - þetta er sláandi úttekt.

 

Falin einkavæðing á heilbrigðiskerfinu
og opinber spilling

AlkinnÉg bið ykkur sem hafið áhuga á málefninu að gefa ykkur tíma til að lesa þetta, þótt í lengra lagi sé.  Þetta er mál, sem varpar ljósi á hvernig innviðir hins opinbera starfa og hvernig opinberir starfsmenn og þjóðkjörnir fulltrúar misnota aðstöðu sína, sér og venslamönnum til hagsbóta.

Nýlega féll úrskurður í máli SÁÁ vegna umkvartanna um úthlutun þjónustusamninga Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar til einkahlutafélagsins  Heilsuverndarstöðvarinnar / Alhjúkrun, sem áður hét  Inpro (sem vert er að hafa í huga hér síðar). Umsóknaraðilar voru fjórir, SÁÁ, Samhjálp, Heilsuverndarstöðin / Alhjúkrun og Ekron.
SÁÁ
Þjónusta þessi laut að sólarhringsvistun, stuðningi og framhaldsúrræðum fyrir áfengis og vímuefnaneytendur að lokinni meðferð. Þetta hefur reynst einn af grundvallarþáttum í endurhæfingu þessara sjúklinga og oft nauðsynlegur áfangi í að sjúklingar nái að verða fullgildir þegnar samfélagsins að nýju.

Þorleifur Gunnlaugsson borgarfulltrúi og velferðarráðsmaður sendi erindi til innri endurskoðanda fyrir hönd Reykvíkinga  vegna málsins þegar úthlutunin var tilkynnt á sínum tíma, enda er þarna um ráðstöfun almannafjár með óeðlilegum hætti að hans mati.

Þórarinn TyrfingssonM.a. var umkvörtunarefnið að tilboð Heilsuverndarstöðvarinnar var þriðjungi hærra en SÁÁ. (33 millj. á móti 57 millj., sem greitt verður nálægt  jöfnu af Reykjavíkurborg og Ríkissjóði) Auk þess taldi hann að óeðlileg hagsmunatengsl þeirra, sem að ákvörðuninni komu, væru í meira lagi vafasöm og  krafðist hann endurskoðunar á því.  Það átti heldur ekki aðfara framhjá neinum að 30 ára reynslu og sérfræði SÁÁ í áfengis og vímuefnalækningum, hafði verið hafnað með ófullnægjandi rökum og algerlega reynslulausum og ósérfróðum um  falið verkið.
Heilsuverndarstöðin
Niðurstöður innra eftirlits og Velferðarsviðs voru engu að síður á sama veg eftir endurskoðun: Heilsuverndarstöðin /Alhjúkrun (áður Inpro) þótti vænni kostur þrátt fyrir allt og engin merki um spillingu að sjá að mati eftirlitsins.

Skoðum málið nánar.

PeningarÞað húsnæði, sem Heilsuverndarstöðin bauð til þessarar þjónustu stendur enn í fokheldu ástandi og ekki er séð hvort úr rætist í náinni framtíð, ekki síst vegna þess að þetta sama húsnæði er fast í gjaldþrotaskiptum, sem ekki er séð fyrir endann á.  SÁÁ stóð klárt með sitt húsnæði og alla aðstöðu. Engin kaupsamningur eða löggiltur leigusamningur um húsnæði þetta virðist vera fyrirliggjandi. Úrræðið er því ekki fyrir hendi og ljóst að fyrirtækið hefur ekki greint heiðarlega frá í umsókn sinni. Auk þessa hafa íbúar í nánd við fyrirhugað, hálfkarað áfangaheimili, mótmælt staðsetningu þess í miðju íbúðahveri,  m.a. með tilliti til þess að þar býr barnafólk, sem hefur áhyggjur af þessu.  Það má kannski má skrifa á ákveðna og fordóma og  vanþekkingu, en er þó skiljanlegt.  (Misjafn sauður er í mörgu fé.) Það mál er þó óleyst að því er ég best veit.  Á meðan bíður gatan sjúklinganna.
Alkóhólsjúkdómar
Með undanþágu var þessi úthlutun velferðarráðs ekki háð reglum um opinber útboð og var vísað til Evrópulaga þess efnis, sem kveða á um  að slíka undanþágu megi gefa í tilfellum, þar sem um viðkvæma málaflokka er að ræða, svo að tryggt yrði að sérhæfni réði um niðurstöður, en ekki  lægsta tilboð.   Þessi undanþága var hinsvegar nýtt til þess að velja ekki þann aðila sem mesta aðstöðu og þekkingu hafði, heldur einvörðungu til að sneiða hjá kvöðum um lægsta tilboð.

SÁÁ er óumdeilanlega hæfasti aðilinn bæði hvað varðar sérþekkingu, reynslu, samhæfingu úrræða og aðstöðu. Kröfur í auglýsingu voru þessar: 
  1. Þekking  til að veita hlutaðeigandi einstaklingum félagslega heimaþjónustu með virkni og þátttökuhugmyndafræði að leiðarljósi.
  2. Aðgangur að faglegum stuðningi eftir þörfum.
  3. Þekking á fíknivanda.
Group therapyFyrsti liðurinn höfðar augljóslega til SÁÁ. Nákvæmlega þessa þjónustu hafa þeir veitt í áratugi.  Nýyrðið “Þátttökuhugmyndafræði” er hinsvegar óljóst, en vísar líklega til þátttöku vistmanna í rekstri athvarfsins m.a. í hreingerningum og umhirðu. Það er nákvæmlega það módel, sem SÁÁ hefur starfað eftir.

Annar liðurinn vísar til þess starfs, sem þegar er innan SÁÁ, þ.e. nýtingu þjónustu í samvinnu við opinbera heilbrigðis og félagsþjónustu, auk þess að benda á og nýta kosti í menntakerfi og atvinnumiðlun m.a.
Fjölskylda
SÁÁ rekur afvötnun, eftirmeðferð, göngudeild og eftirfylgni, áfangaheimili, námskeið fyrir sjúklinga og aðstandendur, ráðgjöf um úrræði í starfsþjálfun, atvinnuleit, fjármálum, sálfræðihjálp og margt fleira, sem er í boði að hluta hjá þeim og á vegum hins opinbera og óháðra félagasamtaka. 150 sérfræðingar og sérfróðir starfa hjá SÁÁ í þessum efnum auk þess sem kröftugt félagslíf er rekið innan veggja samtakanna.  Það ætti að uppfylla kröfur 3. liðsins og vel það. Aðhaldið er algert allt meðferðarferlið, hvort sem það tekur vikur eða ár. 
  • Það sem Velferðarsviði þótti þó álitlegra hjá Heilsuverndarstöðinni / Alhjúkrun er þetta:
Alhjúkrun“Sérstaklega var litið til þess að hjá Heilsuverndarstöðinni/Alhjúkrun starfa sérfræðingar sem m.a. hafa mikla reynslu af vinnu við starfsendurhæfingu  en starfsendurhæfing er mjög mikilvægur þáttur í stuðningi og aðstoð við einstaklinga í þessum aðstæðum til að gera þeim kleift að taka virkari þátt í samfélaginu.Heilsuverndarstöðin/Alhjúkrun þótti því geta uppfyllt þennan þátt best af þeim aðilum sem sóttust eftir samstarfi.”
Trúarlækning
Takið eftir hvað ræður úrslitum hér.  Hér er talað um "sérfræðinga, sem hafa reynslu af starfsendurhæfingu."  Starfsendurhæfing er í grunninn iðjuþjálfun , sem beinist helst að þjálfun slasaðra eða fólks með skerta andlega eða líkamlega getu. Þetta hefur ekki verið lykil-þjónustuþáttur við endurhæfingu alkóhólista, nema að þeir hafi slíka andlegar eða líkamlegar hömlur. Í slíkum tilfellum hefur SÁÁ vísað slíku til sérfræðinga um þau efni, enda eru sérhæfðar stofnanir fyrir slíkt.

Starfsþjálfunarvinna SÁÁ hefur miðast að endurheimt líkamsstyrks, hvatningar og leiðbeininga um betra mataræði, ögun og þjálfun huga og þreks. Einnig hefur SÁÁ leiðbeint um opinber sérúrræði í endurmenntun og námsbrautum auk námskeiðshalda innan eigin veggja. Úrræði SÁÁ eru algerlega á hreinu, en fátt, ef nokkuð, er sagt um hvað felist nákvæmlega í þessu hjá Heilsuverndarstöðinni/Alhjúkrun. 
  • Annað og eitt það undarlegasta í rökum innra eftirlits á málinu er þessi klásúla:
“Velferðarsvið taldi það einnig skipta máli að með því að velja aðila sem ekki rekur meðferðarstofnun megi ætla að auðveldara verði að nýta meðferðarúrræði þeirra aðila sem það gera, þ.e. Samhjálp og SÁÁ, allt eftir þörfum einstaklinga í hvert sinn."

Þetta er undarleg öfugmælavísa og þarf sterka þvermóðsku til að voga sér að setja slíkt fram. Ég skal þýða þetta: Það þykir kostur að velja aðila, sem ekki rekur meðferðarúrræði eða hefur sérþekkingu á því sviði,  svo að sá aðili, sem fyrir vali verður,  geti nýtt sér úræði þeirra, sem reka meðferðarúrræði og hafa sérþekkingu til!

TöfralækningÞarna er Samhjálp nefnd og er augljós undirtónn í því að kristileg dogmatísk innrætingarprógrömm skuli vera valkostur óháð meðferð.  Það eru engar hömlur á þeim valkosti gagnvart þeim sem nýta sér eftirmeðferðarúrræði SÁÁ og áfangaheimili. Þar er öllum frjálst að iðka sína trú, sækja samkomur og biblíulestur. Hvað annað?  Það hefur ekkert með endurhæfinguna að gera í grunnatriðum að hlutast til um andlega iðkun og heimsýn vistmanna. Þó það nú væri!

Það er vert að nefna að þetta úrræði er að hlut tilkomið til að fylla Byrgiðskarð trúarmeðferðar Byrgisins sem myndaðist vegna gríðarlegs hneykslis, sem flestum er í fersku minni.   Ég ætla annars að láta hjá líða að ræða þau meðferðarúrræði sem gera biblíulestur og bænahald að skilyrðum fyrir hjálp og miða helst að því að reka út illa anda í fullri samvinnu og með samþykki og fjármögnun hins opinbera.  Ég þekki þann valkost vel af eigin reynslu og sting kannski niður penna varðandi það síðar. 
  • Að lokum er enn ein klásúlan í rökstuðningi velferðarráðs, sem gagnrýnd hefur verið. Hún hljóðar svona:
"Í þessu samhengi var jafnframt litið til þess að með því að leita til þessa samstarfsaðila er Velferðarsvið að styðja við þróun og samkeppni á markaði í félags- og heilbrigðisþjónustu…" 

SamhjálpEnn ein öfugmælavísan. Því hefur alfarið verið hafnað að siðlegt eða æskilegt sé að hvetja til samkeppni í viðkvæmum málaflokkum og var undarþága frá hefðbundnu útboði einmitt fengin til að komast hjá slíku..  Þ.e. að velja besta kostinn, en ekki þann ódýrasta. Það var jú meginréttlæting þess gjörnings.  Þetta er því í hrópandi þversögn við gefin markmið.  Í samhengi þróunar á heilbrigðissviði, er varla til jafn skínandi dæmi en 30 ára þróun, samhæfing, rannsóknir, rannsóknasamstarf og stöðug endurskoðun úrræða hjá SÁÁ.

Starf SÁÁ hefur verið notað sem fyrirmynd á norðurlöndunum og víðar og er stöðugur straumur til þeirra af erlendum sérfræðingum og starfsmönnum sem vilja kynna sér þetta undur á Íslandi.

SÁÁ hefur hlotið styrki til rannsókna frá Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna og frLæknir og sjúklingurá Evrópusambandinu.  Einnig er ítrekað leitað eftir samvinnu frá háskólum í USA. Margir ráðgjafa SÁÁ hafa einnig starfsréttindi í USA. Þórarinn Tyrfingsson hefur m.a. verið í stjórnum alþjóðasamtaka vímuefnalækninga og verið beðinn um að taka forsæti þar. Sú staðreynd virðist þó blikna í samanburði við tiltölulega nýstofnað fyrirtæki, sem aldrei hefur komið að málaflokknum.  Það er raunar óskiljanlegt hvað menn eru einbeittir í að sveigja sig að þessari hróplegu niðurstöðu.

Jórunn FrímannsdóttirJæja, og þá að meintri spillingu eða vanhæfi, þeirra sem um málið fjölluðu.  Innra eftirlit, sem er bókhaldsleg skoðun á hagsmunatengslum, segist engin merki finna um hagsmunatengsl Jórunnar Frímannsdóttur formanns Velferðaráðs, né Ástu Möller fulltrúa í heilbrigðisnefnd, eins og gert var að umkvörtunarefni, en staðfestir þó, óbeint, aðkomu þeirra að tengdum fyrirtækjum, sem þær höfðu  síðar losað sig frá.  Svona eru þessi tengsl í einföldu máli: (smellið í tvígang á flæðirit hér til áréttingar).

Jórunn Frímanns, Sjálfstæðisflokki og formaður velferðarrÁsta Mölleráðs, seldi Ástu Möller þingmanni Sjálfstæðisflokki fyrirtækið Doctor.is árausnarlegar 17 milljónir .Ásta  Möller, situr svo í heilbrigðisnefnd og átti sjálf og stofnaði fyrirtækið Liðsinni sem síðar rann ásamt Doctor.is inn í Inpro, sem er forveri Heilsuverndarstöðvarinnar - Alhjúkrun.  (Nafnabreytingar og kennitöluskipti eru kjörin til að fela slóðir)  Hér eru þær stöllur því að hygla hver annarri og voru á kafi í einkarekstri, sem tengdist beint opinberu ábyrgðarsviði þeirra. Rekstur sem nýtur tugmilljóna framlaga af ríki og borg. Ármann Kr. Ólafsson, flokksbróðir Ástu og Jórunnar var í fjárlaganefnd, félagsmálanefnd og félags- og tryggingamálanefnd. á umræddum tíma og einnig einn eiganda Inpro, sem keypti fyrirtækin af þeim stöllum.  Hann þrætti fyrir hlutdeild sína, en skjöl úr fyrirtækjaskrá, sýna að hann var einn stjórnarmanna í umræddu ferli í lok árs 2007 og er hann því beinn hagsmunaaðili í þessu máli og sagði ósatt frá.

Tengslanet í þjónustusamningi 2Er hægt að reiða sig á hlutleysi í þesskonar tengslum? Er hægt að segja að þetta sé hafið yfir allar efasemdir? Ég kalla þetta í besta falli hróplegt vanhæfi allra þessara aðila og í versta falli viðurstyggilega spillingu. Það ætti að vera lágmarkskrafa að þessi gjörningur verði endurmetinn, samningum rift hið snarasta og auglýst að nýju, auk þess sem hlutlaus nefnd verði sett í að leggja mat á og skera úr um málið.

Það er algerlega ótækt að framkvæmdavaldið hafi innan vébanda sinna fólk, sem leikur tveimur skjöldum og hefur bein hagsmuna, persónu og áhrifatengsl, í þeim fyrirtækjum, sem ríki og borg skipta við.  Einhver Úr fyrirtækjaskrálög hljóta að gilda þarna um. Í fljótu bragði má nefna eftirfarandi:Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, ber sveitarstjórnarmanni að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. sömu laga gildir ákvæðið einnig um hæfi fulltrúa í nefndum ráðum og stjórnum á vegum sveitarfélags eftir því sem við á. Af 6. mgr. 19. gr. má ráða að almenna reglan er sú að sveitarstjórnarmaður víki einungis úr fundarsal á meðan tiltekið mál er til meðferðar í sveitarstjórn en taki að öðru leyti þátt í afgreiðslu þeirra mála sem meðferðar eru á fundi sveitarstjórnar.

Ég hef sjálfur reynslu af meðferðum og kröftugu starfi SÁÁ og veit hvað ég er að segja varðandi þjónustuna. Ég dvaldi um langt skeið á áfangaheimili þeirra og réði það úrslitum um líf mitt og framtíð.  Ég hef einnig bitra reynslu af öðrum úrræðum eins og úrræðum landspítalans, seÁrmann Kr. Ólafssonm byggir að mestu á lyfjagjöf og er í deild innan geðdeildar, sem hefur engin sértæk og viðurkennd úrræði og þekkingu í þessu tilliti. Þar eru engin viðtöl, rágjöf eða hópvinna, bara vistun og lyfjagjöf.  Það er mín reynsla.  Ég hef einnig reynslu af langtímavistun á Kristilegri meðferðarstöð, sem endaði með alvarlegu áfalli og geðdeildarvistun, sem  rekja má beint til þeirrar vitfirringar, sem þar eru kallaðar lækningar.

Þögn stjórnvalda um þetta, sem önnur hitamál, er óskiljanleg og hef ég aldrei upplifað stjórn  sem er jafn aflimuð frá þjóðinni og þessi.  Var það kannski það sem átt var við með heitstrengingum um gagnsæi? Var það sagt í merkingunni ósýnilegur?  Annað getur maður ekki lesið út úr þessu, ef litið er til yfirhylminga og yfirklórs í nefndu máli. Ekkert er aðhafst þegar himinhrópandi líkur benda til spillingar innan stjórnkerfisins, en utan þess eru slík mál sótt af fullri hörku.

Hér er á ferðinni einkavinavæðing, sem virðist þykja sjálfsagt, eftir viðbrögðum að dæma. . Skýrslur innra eftirlits og velferðaráðs eru þóttalegur útúrsnúningur og dæmi þess hvernig opinber spilling hossar sínum.  Þær stofnanir, sem liggja undir ákúrum, eru sjálfar látnar meta og skera úr um réttmæti gagnrýninnar. Engin raka velferðaráðs standast skoðun.

DrykkjumaðurEf þetta verður liðið, þá höfum við gefið hinu opinbera grænt ljós á spillingu og innherjatengsl og viðurkennt að einkavinavæðingin og sjálfhyglin megi blómstra óheft án afskipta okkar.  Það eru dapurleg fyrirheit, sem við fáum líklega að kenna á fyrir fyrr eða síðar. Það sem er svo sorglegast í þessu, er að fárveikt fólk og aðstandendur þess líða fyrir. Áratuga uppbyggingarstarf, þróun og hugsjónastarf SÁÁ, sem er kröftugasta og skilvirkasta úrræðið hér við þessum vandmeðfarna sjúkdómi, er nú ógnað með því að liða það í sundur og skipta því upp á krásaboði einkaframtaksins.

Hagnaðarvon kjörinna leiðtoga, eða venslamanna þeirra, eru forgangsatriði en ekki hagur sjúklinga.  Þetta mál má ekki þegja í hel eins og sviðuð mál hafa gert undanfarið. Þá verður þetta regla fremur en undantekning og það veitir á illt í komandi framtíð. Kynni menn sér afleiðingar í einkavæðingar heilbrigðismála í USA, þá munu menn skynja hvað okkar bíður.  Vert er að fara út á videoleigu og kíkja t.d. á mynd Michael Moore "SICKO" í því samhengi.

P.S. (Ég hef undir höndum bæði matskýrslu innra eftirlits og rök velferðarsviðs í málinu, sem of langt mál hefði verið að gera ítarlegri skil hér, en mun glaður skella þeim inn í athugasemdarkerfið, ef það hvarflaði að einhverjum að ég sé að taka eitthvað úr samhengi hér. Meginrökin eru sett fram í greininni og eru ekki burðugri en þetta, hvort sem menn trúa því eður ei.) 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég svaraði hjá honum Jóni Steinari, þetta er svakaleg spilling og er Sjálftektarflokkurinn þar fremstur í flokki... eins og vanalega.

Við getum bara refsað fyrir svona óforskammaða spillingu í kosningum því yfirvöld eru sofandi... 

Óskar Þorkelsson, 25.6.2008 kl. 19:13

2 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Flott í fréttunum á stöð 2! Ánægð með þig

Þessi færsla hér er líka alger snilld. Að sækja fjármagn til ríki og borgar til að reka sjálfsagða þjónustu við fólk sem á þarf að halda er eins og að kreista blóð úr steini. Svo kíkir maður á ýmsan rekstur og verkefni sem eru að fá þvílíkar fjárhæðir....

Þessi gullfiskatjörn er ansi gruggug oft á tíðum.

Laufey Ólafsdóttir, 25.6.2008 kl. 19:25

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Flott áðan stelpa.

Var búin að sjá þetta.  Flott grein og ég segi bara; það verður að stöðva þessa konu sem ætlar að einkavæða Droplaugarstaði líka.

Íhaldið í borginni ætlar engu að eira.

Og ég persónulega á SÁÁ líf mitt að launa eins og þúsundir annarra.

Jenný Anna Baldursdóttir, 25.6.2008 kl. 19:31

4 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

...er búin að fara inn hjá Jóni Steinari og kommenta...

Laufey Ólafsdóttir, 25.6.2008 kl. 19:40

5 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Jórunn hefur svarað hjá jóni Steinari.. en ég trúi ekki hennar málflutningi.

Óskar Þorkelsson, 25.6.2008 kl. 19:50

6 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Droplaugarstaðir hafa verið í svelti svo lengi að það liggur við að maður fagni einkavæðingu....en þú varst góð á skjánum

Hólmdís Hjartardóttir, 25.6.2008 kl. 19:52

7 Smámynd: corvus corax

Það skiptir engu máli hvað sjálfgræðgisflokksliðið gengur langt í spillingu og þjófnaði frá almenningi því þessi sami almenningur nýtur þess að láta taka sig í þurrt ra......... og mun glaður kjósa þennan glæpalýð yfir sig aftur og aftur og aftur og aftur og........

corvus corax, 25.6.2008 kl. 20:00

8 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Ég setti þakkir á síðu Jóns Steinars. Takk fyrir að benda mér á þessa frábæru grein.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 25.6.2008 kl. 21:14

9 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Bloggið er frábær miðill, án þess hefði þetta farið fram hjá mér. Takk fyrir.

Kristjana Bjarnadóttir, 25.6.2008 kl. 22:48

10 identicon

Ég hef verið að fylgjast með þessu máli sem Jón Steinar ræðir um, þ.e.a.s. því sem fram hefur komið í blöðum. Ég get ekki betur séð heldur en að hér sé verið að misnota illilega pólitískt vald.  Svo er sagt að það sé svo lítil spilling á Íslandi! Ég held að það verði að fara að koma upp einhverju óháðu rannsóknarbatteríi sem hefur vald til að koma í veg fyrir að stjórnmálamenn geti farið svona með vald.

En að öðru: Ég vissi ekki að þú hefðir verið í sjónvarpinu fyrr en ég las kommentin. Ég var náttúrulega fjarri góðu gamni, að horfa á leik en ekki Stöð 2 en skoðaði áðan á VefTV. Þú varst alveg svakalega flott (eins og þín er von og vísa)

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 26.6.2008 kl. 00:50

11 Smámynd: Sólveig Klara Káradóttir

Það er eins gott að einhverjir eru vakandi yfir spillingunni á Íslandi. Tek undir komment Önnu 'Olafsdóttur um að það þyrfti að vera óháð rannsóknarbatterý sem fylgist með svona málum. Mér finnst samkeppnisstofnun til að mynda hafa staðið  sig nokkuð vel og þeirra afskipti skipt máli. Það er bara verst að dómskerfi okkar er svo mistækt og allt of lítið um refsingar þar sem þær eiga við.

Það allavega hjálpar að fleiri séu meðvitaðir um alla þá spillingu sem er í kerfinu. Mér hefur fundist að þættir eins og Kastljós og aðrir slíkir taki oft á svona þörfum málaflokkum og er það vel.

Sólveig Klara Káradóttir, 27.6.2008 kl. 01:31

12 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég hvet fólk sem hingað kemur og les þetta að fara inn á pistilinn á bloggsíðu Jóns Steinars og fylgjast með umræðunni þar. Þegar þetta er skrifað eru komnar 47 athugasemdir hjá honum og fróðlegt að lesa þær - og ekki síst frekari málflutning Jóns Steinars í athugasemdakerfinu.

Lára Hanna Einarsdóttir, 27.6.2008 kl. 10:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband