Já, þessi kona verður á náttúrutónleikum um helgina

Það má mikið gerast fyrir laugardaginn svo ég láti tónleika Bjarkar, Sigur Rósar og fleiri fram hjá mér fara. Líklega held ég til einhvers staðar í jaðri mannfjöldans því ég fæ innilokunarkennd í þvögum. Kannski ég mæti klukkan 17, því þá mun minn gamli samstarfsmaður, Finnbogi Pétursson, hljóðlistamaður, í samstarfi við Ghostigital (Einar Örn Benediktsson og Curver Thoroddsen) hefja tónlistarflutning og spila til kl. 19.

Finnbogi PéturssonMér er mjög minnisstætt þegar ég sat fund uppi á Stöð 2 endur fyrir löngu í litlu, gluggalausu fundarherbergi. Við vorum búin að sitja þar í smástund þegar við áttuðum okkur á lágværum hljóðum sem bárust einhvers staðar frá. Í ljós kom að Finnbogi hafði sett þar upp hljóðlistaverk sem samanstóð af mörgum, litlum hátölurum sem hengdir voru upp á vegg og frá þeim bárust lágvær hljóð í ákveðnu mynstri eða formi. Þetta var magnað og alveg ótrúlega þægilegt og róandi. Ég væri alveg til í að hafa svona hljóðlistaverk í stofunni heima hjá mér sem ég gæti kveikt og slökkt á að vild. En ég hlakka til að heyra hvað Finnbogi er að fást við núna í samstarfi við félaga sína. 

Sigur Rós stígur svo á svið klukkan 19, Ólöf Arnalds er næst á eftir þeim og að lokum kemur Björk Guðmundsdóttir fram með sína mögnuðu rödd sem hefur fylgt mér síðan Björk var á barnsaldri eins og ég sagði frá hér. Hvað sem fólki finnst um tónlist þessara listamanna hvet ég alla til að mæta, þótt ekki sé nema til að sýna hug sinn til náttúru Íslands og sýna þeim sem ólmir vilja leggja hana í rúst að andstaðan sé mikil - kannski meiri en þeir ráða við. Öll erum við jú atkvæði fyrir kosningar, ekki satt?

En hér er brot úr Íslandi í dag frá í gærkvöldi fyrir þá sem voru til dæmis að horfa á boltann og misstu af öllu öðru. Þetta viðtal var einmitt sent út þegar fyrstu mörkin tvö voru skoruð - ég missti af þeim því ég hafði skipt yfir á Stöð 2!

 


 
Myndbandið um olíuhreinsistöðina er komið á YouTube.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gulli litli

Þú ert töffari!...

Gulli litli, 26.6.2008 kl. 01:50

2 Smámynd: Guðrún Ágústa Einarsdóttir

Þetta var frábært hjá þér, ég styð þig 100% Kv Gunna.

Guðrún Ágústa Einarsdóttir, 26.6.2008 kl. 02:29

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Æi ég verð að vinna. Mikið mátt þú vera ánægð með þig. Þú leggur heilmikla vinnu á þig.  Þó mér finnist Fálkaorðan farin að missa sjarma (því fólk fær hana fyrir að vinna vinnuna sína) datt mér í hug að þú ættir að fá hana fyrir að berjast fyrir fósturjörðinni

Hólmdís Hjartardóttir, 26.6.2008 kl. 03:08

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þetta er húrrandi skemmtilegt, þ.e. að tónleikarnir skuli vera að bresta á.  Ég ætla að mæta.  Það er á hreinu.

Þannig að "þessi" kona hér ætlar líka að mæta.

Jenný Anna Baldursdóttir, 26.6.2008 kl. 08:08

5 Smámynd: Himmalingur

Sorglegt að í fréttum í dag virðist álver á Bakka ætla að verða staðreynd!

Himmalingur, 26.6.2008 kl. 14:10

6 Smámynd: 365

Ég er nú samt sem áður ánægður fyrir hönd Húsvíkinga með síðustu undirskrift, en spyr á móti, hvar er fagra Ísland Samfó?

365, 26.6.2008 kl. 16:07

7 Smámynd: Sigurður Hrellir

Þú ert flott í þessu viðtali. Sérlega ánægjulegt að sjá hvað Stöð 2 sinnir fréttaflutningi af þessum málum af meiri áhuga en RÚV. Því miður virðist Bláa höndin vera alls ráðandi hjá ríkisfjölmiðlinum og þá sérstaklega sjónvarpsmegin.

Sigurður Hrellir, 26.6.2008 kl. 16:54

8 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Þetta myndband er frábært og sýnir okkur vel hvílíkt brjálæði þessi olíuhreinsistöð á Vestfjörðum er.  En sem betur fer má telja nokkuð öruggt að hún verður aldrei reist.  Það er verið að tala um 500 störf en í svipuðum stöðvum erlendis eru starfsmenn 40-50.  Svo má ekki gleyma öllum störfunum sem tapast, því svona stöð mengar svo mikið að fiskveiðar munu leggjast af á Vestfjörðum og víðar einnig landbúnaður.  Hafstraumar bera þessa mengun úr Arnarfirði og norður með landinu.  Þetta fer í fiskinn og hann syndir um allt og ber þá mengunina með sér.  Einnig eru uppeldisstöðvar loðnunnar út af Vestfjörðum.  Þetta myndi líka þýða það að við gætum hvergi í heiminum selt okkar fiskafurðir eða annað.  Ég veit ekki í hvaða heimi hann lifir þessi blessaði bæjarstjóri í Vesturbyggð.  Ég vil líka benda þér á síðuna BBV,blog.is en þar erum við nokkur að skrifa um Vestfirði og m.a. þetta olíurugl.

Jakob Falur Kristinsson, 26.6.2008 kl. 18:14

9 Smámynd: Óskar Þorkelsson

þú ert langflottust Lára 

Óskar Þorkelsson, 26.6.2008 kl. 18:56

10 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ragnar Jörundsson...  Ég skora á þig að tíunda rækilega það sem þú nefnir í þínum dómi - að þetta séu "soddan hallelújaskrif, rangfærslur og sleggjudómar..." Hvar eru hallelújaskrifin? Hvar eru rangfærslurnar? Hverjir eru sleggjudómarnir?

Maður kastar ekki svona fram án þess að rökstyðja mál sitt.

Ég last grein Þórólfs, sem er fráfarandi sýslumaður á Patreksfirði og yfirlýstur stuðningsmaður þess, að reisa olíuhreinsistöð í Arnarfirði. Þrátt fyrir ára- eða áratugalanga búsetu á Patró þóttist hann ekki hafa vitað að finnski bærinn Naantali væri vinabær Vesturbyggðar. Það eitt gerir grein hans afskaplega ótrúverðuga. Og ef Þórólfur vill gjarnan vera í návist olíuhreinsistöðvar og kolaorkuvers þá verði honum að góðu. Ég vil það ekki.

Lára Hanna Einarsdóttir, 26.6.2008 kl. 21:25

11 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Æi Lára Hanna, mér finnst þessir tónleikar svoldið gervi.....ekki svona heill hugur á bak við. Ég ann íslenskri náttúru og hef gert mitt til að jafnvægi sé í henni og eðlilegt umhverfi á allan hátt. - Þetta er öðurvísi, ísbirnir sem stofustáss, þeir eru ekki lifandi, ísbirni má ekki skjóta. - Ég einfaldlega skil ekki Björk frekar en fyrri daginn.

Haraldur Bjarnason, 26.6.2008 kl. 23:49

12 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þarna er ég ekki sammála þér, Haraldur. Ég held að bæði Björk og Sigur Rós séu mjög einlæg í vilja sínum til að vernda íslenska náttúru og þau vekja athygli á náttúruvernd á sinn hátt - sem tónlistarmenn.

Allir strákarnir í Sigur Rós eru náttúrubörn, það sást t.d. glögglega þegar þeir héldu tónleikaröð sína um allt land fyrir tveimur árum - ókeypis, undir berum himni víðast hvar og jafnvel á afskekktum stöðum eins og Djúpuvík á Ströndum. Myndbandið Heima var gert í þeirri ferð og sýnir heilmikið af íslenskri náttúru og þeir hafa sagst sækja andagift fyrir tónlist sína í hana. Fjölmörg myndböndin við lögin þeirra eru líka óður til náttúrunnar og gerast úti í náttúrunni.

Björk hefur alltaf talað máli náttúrunnar - en hún gerir það á sinn hátt eins og henni er einni lagið. Hún hefur að mínu viti ævinlega verið einlæg í sinni listsköpun og því sem hún hefur tekið sér fyrir hendur og sagt. Lastu svargrein hennar til Árna Johnsen í Mogganum um daginn? Hún var góð.

Fólk velur sér oftast þann tjáningarmáta sem því hentar best, í þeirra tilfelli er það tónlist og það vill svo vel til að þau eru öll mjög góðir listamenn og á þau er hlustað. Það er síðan misjafnt til hverra fólk höfðar. Ekki geta allir höfðað til allra, það er ógerlegt.

Björk og strákarnir í Sigur Rós hafa verið gagnrýnd fyrir að tjá sig almennt um málefni hér á landi af því þau hafa verið svo mikið erlendis. Þetta finnst mér vera reginmisskilningur. Það er einmitt búseta í öðrum löndum og heimshlutum sem opnar oft augu fólks fyrir þeim forréttindum sem við Íslendingar búum við - að hafa þessa dásamlegu náttúru í hlaðvarpanum hjá okkur.  Í þessum pistli sagði ég m.a.: "Sínum augum lítur hver silfrið og þeir eru æði margir Íslendingarnir sem kunna ekki að meta það sem þeir hafa í bakgarðinum en mæna aðdáunaraugum á allt í útlöndum of finnst það taka öllu öðru fram. Þetta er alþjóðlegt hugarfar - eða alþjóðleg fötlun - eftir því hvaða augum maður lítur silfrið".

Flestir kannast við þetta. Til dæmis hafa fjölmargir íbúar Parísar aldrei farið upp í Eiffelturninn, á Louvre-safnið eða í Versali. Þetta er of nálægt þeim. Við tökum ekki eftir því sem við höfum fyrir augunum dags daglega - eða okkur finnst það ekkert tiltakanlega merkilegt. Þetta er þarna bara, hefur alltaf verið þarna og verður líkast til um aldur og ævi... höldum við.

Ég vissi jú til dæmis að norðurljósin væru falleg, ekki spurning. En þetta fyrirbæri hafði ég haft fyrir augunum á hverjum vetri frá því ég man eftir mér og kippti mér ekkert upp við það. Svo fór ég að fara með erlenda ferðamenn í norðurljósaferðir fyrir nokkrum árum. Var brautryðjandi í slíkum ferðum. Þá fyrst áttaði ég mig á hversu stórkostlegt náttúrufyrirbrigði þau voru. Fólk hló, grét, tók andköf og gaf frá sér undarleg hljóð yfir þessu hversdagslega fyrirbæri að mínu mati. Þessi mögnuðu viðbrögð hinna erlendu gesta voru hugljómun.

Ég hef sömu eða svipaða sögu að segja um ótalmargt í íslenskri náttúru. Þótt ég hafi alltaf virt hana og metið mikils hef ég lært ótrúlega mikið á því að ferðast um með útlendinga og horfa á umhverfið með þeirra augum. Þannig hafa venjulegustu og hversdagslegustu hlutir í náttúrunni orðið óvenjuleg og stórbrotin eins og hendi væri veifað. Sú upplifun er engu lík.

Nei, tónleikarnir eru ekki gervi... ég held að þessum tónlistarmönnum sé innilega annt um náttúruna, hvort sem það er þeim meðfætt og eðlislægt eða að þau kunni betur að meta hana af því þau hafa verið svo mikið í burtu frá henni. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur og vonandi þurfum við Íslendingar ekki að harma örlög íslenskrar náttúru þegar við erum búin að leggja hana í rúst.

Lára Hanna Einarsdóttir, 27.6.2008 kl. 00:35

13 identicon

Lára Hanna!!! Takk fyrir að vera til!!!!

alva (IP-tala skráð) 27.6.2008 kl. 00:41

14 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Kæra Lára Hanna, mig langar hreinlega til að gráta yfir þeirri skammsýni og almennri fáfræði sem við höfum orðið vitni að á undanförnum árum í kringum þessa umræðu og framkvæmdir. Það er grátlegt hvað Íslendingar upp til hópa eru ómeðvitaðir um hvað verið er að gera og hversu óhagstætt það er okkur að uppnýta allar okkar auðlindir og mengunarkvóta í hráefnisframleiðslu. Hvað er að fólki?

Mjög góð umfjöllun þarna og þú alveg frábær. Haltu áfram!

Þessi kona hér mun að sjálfsögðu líka láta sjá sig á morgun.

Laufey Ólafsdóttir, 27.6.2008 kl. 10:08

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Enn við sama heygarðshornið Lára.... þú gefst ekki upp

Ég tek undir með Ragnari Jörundssyni. Sæmilega óbrjálaður Íslendingur sér rangfærslurnar, sleggjudómana og hin villandi skilaboð sem myndbandið hefur fram að færa. En vissulega sjá þetta ekki allir.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.6.2008 kl. 14:02

16 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég get ekki sagt í einlægni að ég hafi saknað þín, Gunnar Th. - og ég hef enga ástæðu til að gefast upp nema kannski þá, að barátta mín hefur verið gríðarlega tímafrek og lýjandi auk þess sem hún hefur haft mikil áhrif á tekjur mínar sem eru komnar niður fyrir fátæktarmörk.

En ef þú ætlar að taka undir með Ragnari Jörundssyni kref ég þig um sömu rökfærslur og ég krafði hann, en hann hefur ekki séð sér fært að koma með, enda sjálfsagt afar erfitt.

Og ekki veit ég hvort myndbandið þú ert að tala um - úrklippuna úr Íslandi í dag með viðtalinu við mig eða myndbandið sem ég setti saman um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum þar sem téður Ragnar er aðalleikarinn og þá væntanlega sá sem með rangfærslurnar fer.

Eða hvað?

Lára Hanna Einarsdóttir, 27.6.2008 kl. 14:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband