Ótrúlegur yfirgangur og ósvífni

SumarhúsMig hefur aldrei langað að eignast sumarbústað. Kannski ekki gefin fyrir að fara alltaf á sama staðinn. En ég myndi þó gjarnan þiggja að hafa aðgang að bústað svona einu sinni, tvisvar á ári. Ekki væri verra að hafa fallegt umhverfi en fyrst og fremst myndi ég vilja ró og næði. Eina tónlistin sem ég myndi vilja heyra væri söngur náttúrunnar. Engin önnur hljóð fyrir utan þetta bráðnauðsynlegasta - bíl í fjarska (miklum fjarska) og kannski óm af mannamáli í álíka miklum fjarska. En helst ekki samt. Best þætti mér að vera óralangt frá öllum mannabústöðum og njóta algjörrar kyrrðar.

"Er allt falt fyrir peninga á Íslandi?" spyr Jenný Anna í fínum pistli umÞingvellir þetta sama mál. Fólki er leyft að troða niður sumarbústöðum, eða ætti maður frekar að segja glæsivillum, á helgasta blett okkar Íslendinga, þjóðgarðinn á Þingvöllum. Svæði sem er sameign þjóðarinnar og ætti að vera friðhelgt og verndað fyrir ágangi sem þessum. En nei, allt virðist falt fyrir peninga á Íslandi og samkvæmt þessari frétt á mbl.is er verið að reisa þó nokkar nýjar villur rétt við það allra helgasta og þar er fólk ekkert að spá í að fara eftir reglum.

ÞyrlaAð þurfa að upplifa hávaða frá þyrlum á þessum stað eru í mínum huga helgispjöll og það mjög alvarleg. Hávaðinn og áreitið í umhverfinu, þar á meðal frá þyrlum, er alveg nóg svo ekki sé ruðst með þessi tæki inn á þau svæði þar sem fólk vill vera í friði og ró með náttúrunni.

Í fréttinni á mbl.is segir m.a.: "Þingvallanefnd hefur kynnt eigendum sumarhúsalóða innan þjóðgarðsins á Þingvöllum drög að nýjum reglum um sumarhús. Þar er lagt bann við nýbyggingum og girðingum um einkalóðir." Ég hélt satt að segja að löngu væri búið að setja þessar reglur því það er svo langt síðan ég heyrði um þær fyrst. Þingvallanefnd virðist ekki vera sérlega snör í snúningum og spurning hvernig eftirlitinu er háttað hjá nefndinni.

En hér er fréttin og viðtalið við Bjarna Harðarson, alþingismann. Hann er greinilega ekki par ánægður með ástandið og það sem hann hefur séð þarna þótt hann sé varkár í tali. Ætli hann sé í Þingvallanefnd? Að öðru leyti vísa ég í áðurnefndan pistil Jennýjar Önnu.

 

Viðbót: Þetta myndband birtist með frétt á mbl.is í dag. Þarna er farið allt aftur til ársins 1980 og rifjað upp hvað var verið að tala um á þeim tíma. Kannski ekki furða að ég hafi haldið að löngu væri búið að setja reglurnar en nú spyr ég: Hvað er Þingvallanefnd eiginlega að gaufa?

Viðbót 2: Þetta gerðist þriðjudaginn 15. júlí - Þingvallanefnd bannaði þyrluflug í þjóðgarðinum á Þingvöllum til 1. október nk. Nefndin tók við sér eftir að kvartanir bárust.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Mér tókst ekki að spila.....en er sammála auðvitað á ekki að leyfa sumarhús í þjóðgarðinum

Hólmdís Hjartardóttir, 10.7.2008 kl. 00:31

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Það er í lagi með myndbandið, Hólmdís. Ég er búin að prufukeyra það á tveimur vöfrum. Kannski geturðu spilað þetta í Mbl-fréttinni sem ég linka í.

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.7.2008 kl. 00:35

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Lára Hanna, villtu eyða þessari ég linkaði inn á vitlausan link.

Jenný Anna Baldursdóttir, 10.7.2008 kl. 00:39

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég linkaði á pistilinn þinn í mínum, Jenný.

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.7.2008 kl. 00:42

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hehe, sá það of seint og óð inn í stjórnborðið, ég held ég fari að lúlla.

Takk fyrir færslu.

Jenný Anna Baldursdóttir, 10.7.2008 kl. 00:43

6 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Tókst að spila þetta núna....Sammála Bjarna....skil ekki afhverju fólk kemst upp með þetta inni í Þjóðgarðinum.

Hólmdís Hjartardóttir, 10.7.2008 kl. 00:59

7 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Ég kom inní eina af þessum „glæsihöllum“ í þjóðgarðinum „okkar“ fyrir nokkrum árum. Þar var allt til alls, flatskjáir og fjarstýrð gluggatjöld, eldhúsinnrétting uppá eina og hálfa milljón og annað eftir því. Fyrir utan risastóran stofugluggann lágu um 20 hræ smáfugla á harðviðarsólpallinum. Þeir höfðu flogið í sínu þjóðgarðssakleysi á glerhafið og mér varð hálf flökurt yfir mannanna verkum. Og hroka...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 10.7.2008 kl. 09:19

8 Smámynd: Andrea

Alveg hissa á því að það skuli ekki einhver vera búin að koma hingað og segja þér að þú sért bara abbó af því að þú hefur ekki efni á þessu;)

Andrea, 10.7.2008 kl. 11:04

9 identicon

Fínt að eiga sumarhús á Þingvöllum, ef ég ætt skít nóg að  $$$ væri ég ekkert á móti að eyða fleiri stundum þar (í eigin husi) þeir sem eiga hús þarna njóta öruggleg hverrar stunar þarna uppfrá, er ekki lagi að þeir geri það?
Eins og andrea segir, bara abbó hjá ykkur

Arnbjörn (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 15:02

10 identicon

Ég held að mér sé bara nokk sama um þetta allt saman.  Mín vegna mættu fleiri auðmenn byggja á Þingvöllum.  Lög og reglur hafa aldrei hindrað þá sem eiga pening eða pólitíska velvild.  Ef ekki Þingvellir, þá yrði það bara einhvers staðar annarsstaðar.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 15:51

11 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Þetta er alveg með ólíkindum, ég hélt líka að lögin frá 1980 stæðu fyrir sínu og svona mundi ekki gerast.  -  Ég spyr því hvar er Þingvallanefnd ? - Og hver veitti byggingaleyfi ? Hvað segir Skipulagsnefnd Ríkisins?  Og allt þetta apparat sem maður hélt að væri sett til að starfa og vernda stað eins og Þjóðgarðinn á Þingvöllum. -

Hverjir sitja í Þingvallanefnd núna?  - Og hverjir sátu í Þingvallanefnd á undan þessari nefnd. - Hversvegna hefur ekki farið fram grenndarkynning á breyttu skipulagi í Þingvallasveit, eins og skylda er að gera ef veitt eru leyfi á byggingum innan Þjóðgarðsins.  

Og samkv. landslögum má ekki loka af aðgang að vatninu s. s. sýnt er að gert er samkv. þessari mynd.

GRRRRRR .......

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 10.7.2008 kl. 21:33

12 identicon

Það var kosið síðast í nefndina í október 2007

Aðalmenn: Björn Bjarnason, Kjartan Ólafsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Bjarni Harðarson, Lúðvík Bergvinsson.
Varamenn: Birgir Ármannsson, Björk Guðjónsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Illugi Gunnarsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Guðjón A. Kristjánsson, Katrín Júlíusdóttir.

Þetta mál er skandall!!!

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 22:25

13 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Það kom einn og sagði mig eða okkur afbrýðisöm. Það hlaut að gerast. Eina skýring sumra á því að ekki eru allir með græðgisglampa í augum og eyðandi í tóma vitleysu.

Takk fyrir upplýsingarnar, Anna. Ég sé þarna að Bjarni Harðar ER í Þingvallanefnd. Kannski hann geti gert eitthvað af viti þar, hann talaði að minnsta kosti af viti í fréttinni.

"Lög og reglur hafa aldrei hindrað þá sem eiga pening eða pólitíska velvild."  Alveg hárrétt hjá H.T. Bjarnasyni.

Lára Hanna Einarsdóttir, 10.7.2008 kl. 23:55

14 identicon

Sammála síðasta ræðumanni - algjör skandall og til skammar fyrir okkur öll!!

Edda (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 23:58

15 Smámynd: Víðir Benediktsson

lögmál frjálshyggjunnar er, ef þú átt fyrir því máttu það, það er frelsi. Pólitísk velvild spillir ekki. þeir sem ekki eiga fyrir því hafa ekkert með frelsi að gera því þeir geta ekki notað það. "Engin getur þjónað tveimur herrum"

Víðir Benediktsson, 12.7.2008 kl. 09:55

16 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þegar efnt var til sérstaks þjóðgarðs á Þingvelli fyrir réttum 80 árum með sérstökum lögum, voru önnur viðhorf en nú eru uppi í samfélaginu. Sá sem átti drjúgan þátt í að stofna þjóðgarðinn var Jónas frá Hriflu. Hvort það hafi verið skammsýni hans eða framsýni að úthluta ýmsum aðilum íslensks samfélags landspildur innan þjóðgarðsins skal ekki fullyrt. Alla vega hefði verið unnt að stjórnvöld gengju betur frá skilyrðum t.d. að þarna yrði aldrei leyft að byggja stærri og veglegri hús en fyrir væru og um nálægð þeirra við Vatnið skyldi fara eftir landslögum eins og þau eru á hverjum tíma.

Ein ástæðan fyrir úthlutun Jónasar var að á þessum tíma var farið að huga að virkjun Sogsins enda fullnægði Elliðaárvirkjunin hvergi nærri þeirri orkuþörf sem þá var orðin. Þá var töluvert talað um röskun vegna starfsemi virkjunarinnar og þá tók fyrir eðlilega laxgegnd í Elliðaánu. Þetta er því sem Jónas sér fyrir og með því að úthluta landspildunum ýmist til pólitískra samherja eða andstæðinga þá var hann að koma upp því sem nafni hans Kristjánsson ritstjóri Dagblaðsins nefndi „þrýstihóp“. Með þessu taldi Jónas frá Hriflu að tryggð væri að þessi hópur kæmi í veg fyrir hugsanlegs rasks á bakka Þingvallavatns vegna virkjana. Á þetta reyndi við stíflun útfallsins við efstu virkjunina, Steingrímsstöð fyrir um 50 árum og voru ýmsir til að benda á þá hættu sem af þeim framkvæmdum kunnu að stafa. Í ljós hefur komið að þessir náttúrufræðingar höfðu rétt til síns máls.

Nú skulu þeir ekki gagnrýndir sem ekki geta með nokkru móti varið sig sökum þess að þeir eru horfnir af sjónarsviðinu. Það er okkar hlutverk að finna sanngjarna leið út úr þessum vanda en einkennilegt má það heita, að fremur sé útplöntun barrtrjá innan þjóðgarðsins gagnrýnd en stórbyggingar auðmanna sem nú spretta eins og gorkúlur út um hvippinn og hvappinn á vesturströnd þjóðgarðsins. Svona er margt einkennilegt og undur að barrtrén eru burthöggvin rétt eins og kotbændurnir sem hraktir voru án nokkurrar miskunnar brott en látið við sitja að stórhýsi fjármálamanna og annarra höfðinga séu byggð án þess að rönd verði við reist.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 12.7.2008 kl. 14:02

17 Smámynd: Heidi Strand

Heidi Strand, 13.7.2008 kl. 22:08

18 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Víðir hittir naglannl á göfuðið eins og svo oft áður.

Óskar Þorkelsson, 14.7.2008 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband