Peningar um peninga frá peningum til hvers?

Þetta var yfirskrift pistils sem ég skrifaði 5. desember sl. og fjallaði m.a. um hina yfirgengilegu peningadýrkun í samfélaginu. Hún kemur fram alls staðar - það er varla til neinn þáttur í umhverfinu sem ekki er smitaður af peningadýrkun sem ég vil frekar kalla græðgisvæðingu.

PeningarÍ framhaldi af myndbandinu í síðasta pistli varð mér hugsað til þess sem ég skrifaði fyrir tæpum 8 mánuðum - fyrir gengisfall, hrun á verð- og hlutabréfamarkaði, svokallaðan samdrátt og krepputal - en eftir a.m.k. eitt stjörnuhrap. Ég ákvað að endurbirta pistilinn og um leið vara við hugtakinu "fjárfestir" og tengdum orðum - hvort sem sá er innlendur eða erlendur. Fjárfestum fylgir alltaf krafan um hámarkshagnað af viðkomandi fjárfestingu og þar eru hagsmunir almennings aldrei hafðir í huga. Svokölluð samkeppni verður fyrr en varir að fákeppni, verð hækkar og þjónusta versnar. Slíkt virðist vera eðli einkavæðingar þrátt fyrir fögur fyrirheit einkavæðingarsinna um annað.

Í þessu sambandi bendi ég á athugasemdir nr. 1 og 11 við síðasta pistil eftir þá Sævar og Bjarna. Ef þetta er satt sem þeir segja voru óprúttnir menn ansi nálægt því að selja og einkavæða orkuauðlindir okkar. Hrollvekjandi tilhugsun. Verum á verði, vörumst spillta stjórnmálamenn og gráðuga, samviskulausa eiginhagsmunaseggi. Eins og Ásgeir segir í athugasemd nr. 8 við áðurnefndan pistil er það OKKAR að breyta ástandinu með aðhaldi, þrýstingi og atkvæðum okkar.

_________________________________________________

 

Ég hef lengi furðað mig á fréttamati fjölmiðla hvað varðar peninga og auðmenn. Allt annað í lífinu virðist vera hjóm eitt hjá því hver græðir hve mikið og á hverju, hver hlutabréfavísitalan er eða hvað þær nú heita þessar úrvalsauravísitölur, hvað hefur hækkað og hvað lækkað hverju sinni.

Sérstök innslög eða fréttatímaaukar eru um "markaðinn" eins og t.d. hjá PeningarStöð 2 í kringum hádegið - kl. 12:15 í dag var Markaðurinn hádegi og kl. 12:31 var Hádegisviðtal markaðarins. Síðan var Markaðurinn kl. 18:20.

Bankar og aðrar fjármálastofnanir eru með fréttir oft á dag um hvernig peningamarkaðurinn er að gera sig þá stundina og fréttir af hve margar milljónir, milljónatugir eða milljarðar gengu kaupum og sölum þann daginn tröllríða öllum fréttatímum á öllum fjölmiðlum. Það þótti auk þess tilefni í sérstaka frétt þegar viðskiptaþátturinn Í lok dagsféll niður kl. 16:20 þann 3. des. sl. eins og sjá má hér.

Í gærkvöldi var fyrsta frétt í sjónvarpsfréttum Ríkissjónvarpsins mannaskipti auðmanna hjá FL Group. Það var þriðja frétt í kvöldfréttum Stöðvar 2 og fyrsta frétt í sexfréttum Ríkisútvarpsins.

FL GroupMenn hverfa frá störfum með tugmilljóna starfslokasamninga, sagt er frá þeim nýjasta hér. Þó var maðurinn sagður með 4 milljónir á mánuði á meðan hann gegndi starfinu og hefði líkast til getað lagt aura til hliðar fyrir mögru árin eins og við hin þurfum að gera.

Á sama tíma les maður þetta... og þetta... og þetta... svo dæmi séu nefnd. Þessar sögur nísta í gegn um merg, bein og hjarta og maður spyr sig hvað þarf til að snerta við réttlætiskennd almennings og fjölmiðlafólks. Af hverju er svona mikið fjallað um auðmennina í fjölmiðlum en svona lítið um fátæktina... um þá sem minna mega sín og þjóðfélagið kemur illa fram við?

Ísland best í heimi... hvað?

Ég hef verið að reyna, ásamt mörgum öðrum, að benda á þá firringBorholur á Skarðsmýrarfjalliu sem á sér stað í virkjanafíkn og stóriðjuæði vissra aðila í þjóðfélaginu og afleiðingar þeirrar skammsýni. Afleiðingarnar snerta hvert einasta mannsbarn á Íslandi í formi loftmengunar, lyktmengunar, eyðileggingar á þeirri dásamlegu náttúru sem við höfum öll hlotið í arf frá forfeðrum okkar og -mæðrum ásamt þenslu, verðbólgu, hækkandi vöxtum, innflutningi tugþúsunda erlendra verkamanna og almennt versnandi lífskjörum. Fáir hlusta og fjölmiðlar sofa á verðinum. Enginn fjölmiðill virðist tilbúinn til að kryfja málið og fjalla um það á vitrænan hátt og í heildstæðu samhengi. Fréttablaðið hefur gert heiðarlegar tilraunir, en þær nægja ekki til að gera svo gríðarlega alvarlegu og yfirgripsmiklu máli nauðsynleg og verðskulduð skil.

Ég minni á að fyrir síðustu alþingiskosningar var eftir því tekið að upp spruttu umhverfisverndarsinnar í öllum flokkum sem mærðu náttúruvernd og lofuðu öllu fögru. Nauðsynlegt er að breyta lögum, að minnsta kosti tvennum, en hver er að sinna því? Enginn á þingi eftir því sem ég best veit.

AndræðiÁrið 2004 kom út merkileg ljóðabók eftir Sigfús Bjartmarsson sem hann kallaði Andræði. Bókin er leikur með orð og Sigfús leikur af mikilli snilld. Bókin skiptist í 11 kafla og hver kafli hefur inngangsljóð. Ég ætla að leyfa mér að birta hér tvö ljóð ásamt inngangsljóðum hvors kafla. Það var erfitt að velja því ljóðin eru hvert öðru betra og beinskeyttara.

 

5
Svo mælti
maður við annan mann
sem hjá hlutafjármarkaðarins hástökksmethafa
í flokki hörmangarafélaga vann:
Sá skal mæra samkeppnina
sem hana kaupir upp.

Og ljóðið sjálft er svona og ég tileinka það Hannesi Smárasyni og öðrum tugmilljóna-auðmönnum:

Vit er
veraldar
gengi.

Og
gott
er hátt
gengi en
hættar þó
en lágu við
að lækka
lengi.


vit er
vandmeðfarið
og valt.

Kúlið
getur óðara
orðið svo
kalt.

9
Svo mælti
maður við annan mann
sem hjá innsta aðstoðarkoppi æðstaráðsritara
landseigendaflokksins vann:
Fjórðungi bregður til flokks
en frekar bregður hinum
til hagsmuna
hans.

Ljóðið hljóðar svo - ég tileinka það Alþingi og ríkisstjórn, sem með réttu ættu að fara með stjórnartaumana - og sem lofa öllu fögru fyrir kosningar:

Í upphafi
skal efndirnar
skoða.


fagurt
galar formaður
sem fögnuðinn vill
fólki sínu
boða.

Og
ljúft er
að leggja svo
með lygasögnum
slag eftir
slag.


sjaldan
lifir kosningaloforð
kjördag.

Og
marga
mun sverja
eiðana sá
sem alla
svíkja
má.


enginn
tryggir atkvæðin
eftir á.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Indriðason

Mæltu manna heilust!

Það virðist vera, með suma (alla?) af þessum "auðmönnum" að þeir eigi sameiginlegan hroka.  "Ég mun lifa að eilífu", en þeir gleyma því, að fyrr eða síðar, þá mun maðurinn með ljáinn heimsækja þá.  Og, það er nú bara þannig, þrátt fyrir óskhyggju "auðmannanna", að jarðnesk auðæfi fara ekki með manni yfir móðuna miklu.

Væri ekki nær að byggja aðeins meira og betur undir það sem næsta kynslóð, og sú næsta, og sú þar næsta ....... munu hafa til að spila úr?  Hætta að hugsa svona gjörsamlega um sjálfan sig, og opna hugann aðeins?

Hvað skildu t.d. margir "auðmenn" borga reglulega í einhver góðgerðarmál?  Og þá á ég ekki við, til þess að þvo peninga, eða fá skatta-afslátt, eða ... eitthvað annað sem mun "hagnast" auðmanninum beint eða óbeint. 

Hvað er langt t.d. síðan að Amnesty, eða UNICEF, eða UNIFEM, eða ABC barnaþorp, eða "fátækir leikarar á götunni", eða Konukot, eða Karlakot, eða Barnaspítali Hringsins, eða..... fengu nafnlausa gjöf, upp á góða og rausnarlega upphæð?  Án þess að viðkomandi standi upp, og berji sér á brjóst, og bendi á "sjáið hvað ég er góður" (og svo fæ ég skattaafslátt af þessu)?

Einar Indriðason, 20.7.2008 kl. 12:24

2 Smámynd: halkatla

heyr heyr. 

halkatla, 20.7.2008 kl. 12:34

3 Smámynd: Brattur

... ég segi það enn og aftur... stjórnmálamenn hafa engin völd lengur, völdin hafa færst til auðmanna landsins, þeir ráða ferðinni og eftir þeim dansa pólitíkusarnir... enda styrkja þeir kosningabaráttu flokkanna svo ekki má styggja blessaða auðmennina... það er bara svona... sum fyrirtæki eru orðin ríki í ríkinu og haga sér eins og þau vilja... svo koma forsvarsmenn þessara fyrirtækja og gefa Mæðrastyrksnefnd góða peningaupphæð og eru svo svakalega góðir... en fyrir mér eru þeir hræsnarar... slá ryki í augu fólks... en ganga bara um naktir eins og keisarinn hans H.C... og fólk klappar...

Brattur, 20.7.2008 kl. 14:09

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Það er okkar, fólksins í landinu að breyta þessu verðmætamati.  Stundum efast ég um að nokkur sjái eitthvað athugavert við yfirþyrmandi upphafningu fjármagns og auðmanna.

Takk fyrir þessa samantekt Lára Hanna.

Jenný Anna Baldursdóttir, 20.7.2008 kl. 14:20

5 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Já, þessi peningahyggja er afar ógeðfelld. Og enn verra er hve mikið fólkið í landinu dást að þessu og vonast að komast í kjötkatlana líka. Það sem þarf er hugarfarsbreyting hjá fólkinu: Hvar eru þau verðmæti í lífinu sem skipta máli? Enginn tekur eina einasta krónu með í næsta lífið. Síðasta skyrtan á ekki neina vasa.

Úrsúla Jünemann, 20.7.2008 kl. 14:54

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Enn meira heyr!

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.7.2008 kl. 17:07

7 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

já, með þessar markaðs- og viðskiptafréttir og þætti. hófst sú þvæla ekki um aldamótin? þegar nýja hagkerfið var og hét. síða þá tröllríður þetta heiðarlegum, saklausum og áhugalausum borgurum þessa lands. ég hef enn engan fundið sem hefur svo mikið sem snefil af áhuga fyrir þessu, en ég skal láta ykkur vita þegar og ef ég rekst á einhvern.

Brjánn Guðjónsson, 20.7.2008 kl. 19:30

8 Smámynd: Steingrímur Helgason

Mæl þú kvenna heilluzt...

Ég læt þessar fánýtu markaðsfréttir líka hrízlast um pirrurnar á mér, Brjánn.

Steingrímur Helgason, 20.7.2008 kl. 20:27

9 identicon

Góður pistill!

ég gleymi aldrei viðbjóðnum sem ég fann fyrir þegar ákveðnum manni var slett á forsíðu DV þar sem fyrirsögnin var "fæddist með gullskeið í munni". Í viðtalinu sjálfu kom fram að maðurinn hafði átt fjölmörg fyrirtæki sem urðu gjaldþrota eitt af öðru og hann málaður sem fjármálasnillingur sem hafði hvað eftir annað byrjað með "2 hendur tómar" þar til hann kom af stað vinsælli verslunarkeðju hér á landi sem hann seldi svo fyrir ansi margar milljónir. Hver heilvita maður skilur ekki hvernig gjaldþrota maður getur keypt og byggt upp hvert fyrirtækið á fætur öðru en þetta eru svo margir að gera - koma fyrirtækjum á keyptri kennitölu á hausinn, borga ekki laun til starfsmanna sinna, skrifa eignir á fjölskyldumeðlimi áður en til gjaldþrots kemur og síðan haldið áfram að stofna fyrirtæki á eftir fyrirtæki! Og honum er hrósað fyrir þetta á forsíðu dagblaðs??? Það byrjar enginn með 2 hendur tómar þegar það kostar lágmark 500.000 þúsund króna höfuðstól að koma fyrirtæki á koppinn. Það virðist engu máli skipta í dag hvernig fólk hagnast.

Venjulegu Jón og Gunna sem yrðu gjaldþrota vegna óborganlegrar skuldsetningar væru sett á svartan lista og gætu varla fengið debetkort - hvað þá kredit til að stofna fyrirtæki! Og launin þeirra yrðu gerð upptæk ef þau voguðu sér að skulda meðlög, bifreiðagjöld eða önnur opinber gjöld. 

Það hefur aldrei farið mikið fyrir langtímaplönum hjá ríkisstjórninni, þetta hefur alltaf gengið út á hvað sé hægt að blóðmjólka kúnna mikið áður en hún drepst. Spara aurinn og eyða krónunni. Svo er keypt statusspurning hjá Gallup og snúið út úr niðurstöðunum og auglýst að við séum hamingjusamasta þjóð í heimi. Hvernig stendur þá á því að stór hluti vinahóps landsmanna og þeir sjálfir þurfa bókstaflega að horfa í hverja einustu krónu og lifa frá mánaðarmótum til mánaðarmóta? En það má ekki gleyma því að margt fólk sem lifir við efnahagslega fátækt leggur þeim mun meira upp úr þeim auðæfum sem eru ekki af veraldlegum gæðum í staðinn. Er alveg sammála að það þarf að færa fókusinn á aðra hluti en tóma auðsöfnun.

Ömurlegt að lesa um reðursafnið, Fjölskylduhús og kjör öryrkja. Og varðandi öryrkjakjörin þá var verið að breyta frítekjumarkinu í 100.000 krónur á mánuði og er það gott og blessað - en - það eru margir sem eru bókstaflega öryrkjar og geta ekki unnið! Hvernig á sá hópur að geta bætt kjör sín? Gætu þau fengið að kaupa sér kennitölu og skráð útgjöld til heimilis, húsaleigu og annan rekstrarkostnað til frádráttar frá innkomunni - eins og fyrirtækin geta? Það væri bara frábært!

Martha Elena Laxdal (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 20:39

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Svona hlutir geta gerst hávaðalaust þegar eitt tiltekið stjórnmálaafl undirbýr jarðveginn, setur leikreglur og skipar réttum mönnum í eftirlitsstofnanir.

Við þurfum ekki lengur að láta þýða fyrir okkur fréttir af stjórnarfari bananalýðvelda. Þó eru þar að vísu notaðar frumstæðari aðferðir svo sem pyndingar og morð. Sú þróun sem hér á sér stað segir okkur að þess verði ekki langt að bíða að við förum að finna smjörþefinn af því hér.

Árni Gunnarsson, 20.7.2008 kl. 22:21

11 Smámynd: Bumba

Óhugnanlegt, þakka þér samt fyrir þennan pistil. Með beztu kveðju.

Bumba, 20.7.2008 kl. 23:23

12 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Huu, jamm, já.

Mér finnast greinarnar þínar um umhverfismál vera betri. Í stað þess að fara yfir allan pistilinn, ætla ég að skoða tvær málsgreinar. Áður en ég geri það vil ég segja þér frá gömlum bónda sem ég ræddi eitt sinn við. Hann var fjölfróður og afskaplega gaman að hlusta á hann. Hann var með kenningu: "Leiðsögumenn eru rugludallar, sem ekki nenna að hanga heima hjá sér. Eru óþolandi í sambúð og finna lausnina í vandamálunum með því að flýja upp á fjöll, með ferðamenn, og blaðra þar um hluti sem þeir hafa sáralitla þekkingu á. Ónytjungar samtímans." Ég tók andköf, og andmælti. " Þessi stétt er að verða ein sú mikilvægasta í íslensku atvinnulífi, og munu verða enn mikilvægari á komandi árum." Hann studdi kenningu sína fjölmörgum rökum, flestum afar fróðlegum og skemmtilegum, en hann sannfærði mig ekki.

Ég hef svipaða tilfinningu nú. Skemmtileg grein, en brothætt.

 Tökum af handahófi hluta úr blogginu:

Ég ákvað að endurbirta pistilinn og um leið vara við hugtakinu "fjárfestir" og tengdum orðum - hvort sem sá er innlendur eða erlendur.

1. Fjárfestum fylgir alltaf krafan um hámarkshagnað af viðkomandi fjárfestingu og þar eru hagsmunir almennings aldrei hafðir í huga.

2. Svokölluð samkeppni verður fyrr en varir að fákeppni, verð hækkar og þjónusta versnar. Slíkt virðist vera eðli einkavæðingar þrátt fyrir fögur fyrirheit einkavæðingarsinna um annað.

Hugleiðing um lið 1.

Við erum í raun öll fjárfestar. Sum okkar fjárfesta í menntun, aðrir í húsgögnum, málverkum, hugverkum, húsnæði og aðrir í hlutabréfum eða fyrirtækjum. Erum við þá öll með kröfuna um hámarksarðsemi og að hagsmunir almennings séu aldrei hafðir að leiðarljósi. Undirritaður hef verið ráðgjafi fjölda fyrirtækja og fjárfesta, og alhæfingin sem í þessu bloggi kemur kemur ekki heim og saman við reynslu mína. Margir stórauðugir einstaklingar hafa allt önnur gildi í huga þegar þeir fjárfesta.

Hugleiðing um lið 2.

Á Vesturlöndum hefur mest verið lagt upp úr samkeppninni. Hækkar þá verð þar mest. Er þar þá vesta þjónustan.  Verður öll samkeppni þar að einokun? Er mesta hagsæld almennings þar sem minnst er einkavæðingin?

Það hættulegasta í pólitískri umræðu, er að pólitíkin er of lítið fagleg og of mikið lík trúarbrögðum. Fólk étur allt of mikið upp vitleysuna eftir hvort annað til þess að þjóna flokkspólitíkum hagsmunum, í stað þess að nálgast viðfagsefnið á faglegan hátt.

Skemmtileg grein, og hugleiðingar en þú ert hér að fara inn á svið sem áhugamanneskja og niðurstöðurnar eru í samræmi við það.

Með bestu kveðjum.

Sigurður Þorsteinsson

Sigurður Þorsteinsson, 20.7.2008 kl. 23:40

13 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Lára Hanna þú ert snillingur.-  Þakka þér enn og aftur fyrir frábæran pistil.  -

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 21.7.2008 kl. 01:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband