Í sátt við náttúruna? - Þjórsárpistill og áskorun

Hinn þreytti frasi virkjana- og álverssinna um að virkjað sé "í sátt við náttúruna" er alveg einstaklega kaldhæðnislegur. Þeim finnst allt í lagi að stúta náttúrunni og virkja bæði jarðhita og fallvötn - af því það er svo mikið "í sátt við náttúruna". Náttúran er semsagt mjög sátt við að láta leggja sig í rúst. Jæja, já.

UrriðafossÉg hafði ekkert sett mig inn í virkjanamálin í neðri hluta Þjórsár en vitað af umræðunni. Hef haft meira en nóg á minni könnu við að kynna mér og skrifa um virkjanir á Hellisheiði og Hengilssvæðinu auk þess að fylgjast með umræðunni um fyrirhugaða olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Inn á milli reyni ég svo að finna tíma til að vinna fyrir mér.

En mér var boðið austur í síðustu viku til að kynna mér málið svolítið og ég hef eiginlega verið í hálfgerðu sjokki síðan. Ekki vitað hvernig ég ætti að nálgast málið, svo skelfilegt er það. Svo las ég viðtal í Morgunblaðinu á sunnudag við Björn Sigurbjörnsson í Gróanda, Grásteinum í Helgadal. Í viðtalinu segir Björn m.a. frá því þegar faðir hans, sem stundaði garðyrkju í Fossvoginum eða á Bústaðablettinum, var hrakinn frá lífsstarfi sínu af yfirvöldum í Reykjavík, þá 65 ára að aldri. Þetta var árið 1966 og það átti að byggja. Jarðýtur óðu yfir æskuheimili Björns.

Ég sé ekki betur en að svipað sé að gerast við Þjórsá. Þar er valtað yfir Þjórsábændur og aðra landeigendur, þeir þvingaðir til að samþykkja að landinu þeirra verði drekkt og smánarlegar bætur greiddar af Landsvirkjun, sem hefur her lögfræðinga til að neyða fólk til samninga. Einhverjir bændanna þurfa að hætta búskap um nokkurra ára skeið á meðan framkvæmdir standa yfir en er sagt að þeir geti svo komið aftur og haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Semsagt - hypjaðu þig að heiman og frá lífsviðurværinu, svo geturðu komið aftur þegar við erum búnir að athafna okkur. Hvað á að gera við féð og kýrnar á meðan? Getur bóndi, kannski á efri árum, bara farið sisvona og komið svo aftur seinna og tekið upp þráðinn? Hve mikið af landi hans, túnum og ökrum verður þá komið undir vatn? Eitthvað hljómar þetta nú ólíklega. 

Hér er nefnilega ekki verið að tala um virkjanir og uppistöðulón í óbyggðum eins og Kárahnjúka, heldur í byggð - og það fallegri og blómlegri byggð. Þjórsá er lengsta fljót á Íslandi, um 230 km. Það er mun lengri vegalengd en frá Reykjavík til Víkur í Mýrdal (186 km) og örlítið styttri en frá Reykjavík til Blönduóss (244 km). Nokkrar virkjanir eru í efri hluta Þjórsár, næst hálendinu, en nú er ætlunin að virkja á láglendi - í byggð. Áhrifin ná alla leið suður fyrir þjóðveg nr. 1 þar sem Urriðafoss drynur skammt sunnan við nýju Þjórsárbrúna. Hann mun hverfa.

ÞjórsáHópnum sem ég var í samfloti með var boðið í mat á lífræna búinu í Skaftholti. Hjónin Guðfinnur Jakobsson og Atie Bakker voru höfðingjar heim að sækja og mig langar að koma þangað aftur... og aftur. Eftir matinn komu heimamenn til skrafs yfir kaffisopa og einn af þingmönnum Sunnlendinga, Björgvin G. Sigurðsson (sá sem tók skóflustunguna, munið þið?) mætti og ræddi stuttlega við fólkið áður en hann rauk í burtu aftur. Björgvin kvaðst mótfallinn virkjunum í neðri hluta Þjórsár - en tók engu að síður skóflustungu að álverinu í Helguvík sem mögulega gleypir orkuna sem framleidd verður í þeim virkjunum. Skrýtið.

Ýmislegt kom fram á þessum stutta fundi með heimamönnum og greinilegt að þeir voru mjög ósáttir við framgang Landsvirkjunar og málið allt. Hver vill sjá heimahögunum og lifibrauðinu drekkt með uppistöðulóni? Landsvirkjun hefur auk þess komið þannig fram við fólk að enginn treystir fyrirtækinu eða orðum lögfræðingahers þeirra. Nú þegar hafa þeir gengið á bak orða sinna - af því eitthvað hentar þeim betur en það sem áður var lofað. Traust fyrirtæki?

Sem dæmi um slíkt er fyrirhugað Hagalón. Upphaflega var áætlað að það yrði 114 metra (yfir sjávarmáli) en Landsvirkjun breytti því í 116 af því það hentaði þeim betur. Það munar um tvo metra. Gerir fólk sér grein fyrir hvað 116 metrar eru gríðarlegt dýpi? Snúum þeim yfir á borgarmál. Flestir íbúar höfuðborgarsvæðisins kannast við glerturninn sem reistur hefur verið við Smáratorg í Kópavogi. Hæð hans er 78 metrar. Hallgrímskirkjuturn er 72 metrar. Ef gert er ráð fyrir um 3 metrum á hverja hæð jafnast 116 metra djúpt lón á við 38 hæða íbúðarhús. Það er ekkert smáræði.

Hér er mynd af svæðinu sem drekkt verður fyrir Hagalón. Þarna eru ægifagrar, vel grónar eyjar úti í ánni þar sem búfé hefur aldrei verið beitt svo gróður hefur fengið að vaxa þar óáreittur. Aðeins smábrot af stærstu eyjunni mun standa upp úr lóninu eins og agnarlítið sker því þarna verður lónsdýptin 10-12 metrar (4 hæða hús). Vinstra megin, þar sem birtan hamlar sýn, er Hekla og horft er til suðurs.

 Þjórsá

 

Miðað við þær upplýsingar sem fram komu, og þær voru töluverðar, er Þjórsármálið afskaplega flókið og að mörgu að hyggja. Ég þekki ekki nema brotabrot af því - en það brotabrot nægir mér til að ákveða að leggja mitt af mörkum. Ég er ekki nema eitt atkvæði, eitt bréf, ein athugasemd - en við höfum séð nú þegar hverju samtakamátturinn getur áorkað. Íbúar við Þjórsá þurfa hjálp og stuðning okkar hinna. Og eins og segir í auglýsingunni um breytingu á aðalskipulagi Flóahrepps: "Þeir sem ekki gera athugasemdir innan tilskilins frests teljast samþykkir tillögunni". Ég vil alls ekki teljast samþykk tillögunni og skora á alla sem vilja það ekki heldur að senda inn athugasemd. Þetta tekur kannski 10-15 mínútur af lífi ykkar, kostar ferð í pósthús eða póstkassa og eitt frímerki.

Mér skilst að það sé of seint að gera athugasemdir við framkvæmdir í Skeiða- og Gnúpverjahreppi - norðan þjóðvegarins - en ekki sunnan hans, í Flóahreppi þar sem Urriðafossvirkjun er fyrirhuguð. Tillagan gengur í stórum dráttum út á að heimila virkjun og allt það rask sem henni fylgir. Hér er vefur Flóahrepps og þar getur fólk kynnt sér tillöguna nánar. Hér er Þjórsárvefurinn þar sem hægt er að lesa sér til um málið og framgöngu þess. Hér getur fólk séð uppkast af athugasemd við tillögunni til að senda Flóahreppi. Skriflegum athugasemdum skal skila til Flóahrepps, Þingborg, 801 Selfoss - merkt aðalskipulag - fyrir 1. ágúst 2008. ÞAÐ ER NÆSTA FÖSTUDAG! Nú þarf að hafa hraðar hendur og drífa í þessu.

Ég byrjaði pistilinn á að tala um frasann "að virkja í sátt við náttúruna".  Ég hef aldrei heyrt talað um "að virkja í sátt við fólkið í landinu". Aldrei. Er ekki kominn tími til að taka tillit til fólksins í landinu (kjósendanna - atkvæðanna) og ná sáttum við það? Er ekki kominn tími til að spyrja til hvers á að virkja og fyrir hvern áður en ætt er áfram og einstök náttúra Íslands lögð í rúst? Það finnst mér.

Eins og ég sagði fyrr í pistlinum hef ég ekki sett mig nægilega vel inn í Þjórsármálin svo ég á ekki mikið ítarefni um þau. En þetta átti ég - álit Ragnhildar Sigurðardóttur, vistfræðings, um mögulegt hrun laxastofnsins í Þjórsá ef af virkjun verður. Þetta er aðeins ein af mörgum viðvörunum sem komið hafa fram varðandi afleiðingar virkjana í neðri hluta Þjórsár.

 

Ég átti líka í fórum mínum þessa frétt um kostnað við störf í stóriðju - því auðvitað fer rafmagnið sem framleitt verður í Þjórsá til stóriðju. Stóriðjusinnar sjá ekkert annað, engar aðrar lausnir.

 

Hér er svo samantekt úr fréttum af moldroki við Hálslón. Þetta er fylgifiskur uppistöðulóna. Viljum við að hin búsældarlegu héruð á Suðurlandi hverfi í þykkan mökk? Hvað segja nágrannasveitarfélögin um það?



 
Viðbót 9. ágúst 2008:

Mbl. 9. ágúst 2008

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Sæl Lára,

Flott samantekt hjá þér. Hér er eitthvað meira af myndum af svæðinu handa þér:

http://photo.blog.is/blog/photo/entry/576326/

og svo flaug ég þarna aftur yfir fyrir stuttu og tók þá þessar myndir hér:

http://www.photo.is/08/07/10/index_17.html S

Kjartan Pétur Sigurðsson, 28.7.2008 kl. 08:36

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæl Lára. Mjög góð samantekt. Ætla að fara austur í vikunni og skoða svæðið nánar. Svo eru aðgerðir okkar. Treysti Landsvirkjun frekar illa.

Smá ábending. Sá sem fékk mig til þess að hugsa um umhverfismál er Sjálfstæðismaður. Þú segir:

"Stóriðjuflokkurinn sér ekkert annað, engar aðrar lausnir. " Einhvers staðar las ég að 40% Sjálfstæðismanna vildu ekki, það er mín skoðun að það sé ekki málstaðnum til framdráttar að smala náttúruvini í réttir og draga í dilka eftir hvað menn kjósa í kosningum. Flokkarnir eiga mig ekki og mér finnst það tímaskekkja að nota svona flokkun. Hitler gamli notaði annars konar flokkun, þ.e. hina æðri og óæðri. Passar a.m.k. mér ekki.

Sigurður Þorsteinsson, 28.7.2008 kl. 08:49

3 Smámynd: Neddi

Takk fyrir þennan fína pistil.

Ég hef frá upphafi verið lítið spenntur fyrir þessum virkjunum en eftir að hafa lesið þetta og gert mér grein fyrir því hvað þetta er gríðarlega  umfangsmikið og hvað umhverfisspjöllin verður mikil er ég alfarið á móti þessu.

Þegar að Kárahnjúkavirkjun var byggð réttlættu menn það með því að það væri bara urð og grjót sem færi undir vatn (sem að var náttúrulega bull og vitleysa því að stór hluti af lónsstæðinu var gróið land en urðin og grjótið er það sem að eftir stendur upp úr vatninu) en nú geta menn ekki notað þá afsökun.

Neddi, 28.7.2008 kl. 09:22

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég ek þessa leið þegar ég fer í Landmannalaugar og bendi þá túrhestunum á hvað mun gerast á þessu svæði innan skamms.. og er þeim brugðið, því ísland á ekkert of mikið til af grónu landi og að taka það sem er þarna undir virkjun er ekkert annað en glæpsamlegt athæfi..  við þurfum ekki á öllum þessum álverum að halda.

Óskar Þorkelsson, 28.7.2008 kl. 09:45

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir myndaslóðir, Kjartan. Ég fæ kannski að nota myndirnar ef á þarf að halda.

Sæll, Sigurður...  Ég breytti orðalaginu í pistlinum, bara fyrir þig...    Auðvitað eru náttúruunnendur í Sjálfstæðisflokknum, ég dreg það síður en svo í efa. En forsvarsmenn flokksins, ráðherrar hans og þingmenn, eru miklir virkjana- og stóriðjusinnar og fara ekki leynt með það auk þess sem forstjóri Landsvirkjunar er í Sjálfstæðisflokknum. Þessum mönnum er í lófa lagið að draga í land en þeir gera það ekki og lítið sem ekkert heyrist í þeim sjálfstæðismönnum sem eru mótfallnir virkjunum og stóriðju. Hvar eru þessi 40% sem þú segir ekki vilja þetta? Er ekki tímabært að þeir láti í sér heyra fyrst loksins er óhætt að vera á öðru máli en forystan?

Neddi... þá er að senda inn athugasemd til Flóahrepps ef þú ert ekki sáttur! Eins og Óskar segir: "Við þurfum ekki á öllum þessum álverum að halda" og Búkolla bendir réttilega á hræsnina sem lýsir sér í því að hrekja fólk frá heimilum sínum og lífsviðurværi en kaupa sér svo skika, jafnvel í sömu sveit, til að hvíla lúin bein.

Lára Hanna Einarsdóttir, 28.7.2008 kl. 09:54

6 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Þú ert stórkostleg Lára Hanna. Rökföst, velupplýst og vel máli farin. Betri talsmann getur íslensk náttúra ekki fengið.

Steingerður Steinarsdóttir, 28.7.2008 kl. 10:05

7 identicon

Takk fyrir fróðlegan pistil og baráttukjark. Og takk fyrir að auðvelda leiðina til að senda inn athugasemd.

Hulda Hákonardóttir (IP-tala skráð) 28.7.2008 kl. 10:08

8 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Takk fyrir góðan pistil og að upplýsa okkur hin sem ekki vitum.

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 28.7.2008 kl. 10:34

9 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Eitt er  hæð  yfir  sjávarmáli og annað er  dýpi lónsins. Rétt er að  hafa staðreyndir að leiðarljósi.

Eiður Svanberg Guðnason, 28.7.2008 kl. 10:37

10 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Eiður... ég tók þetta fram í pistlinum. Kannski kom ekki nægilega skýrt fram að það er yfirborð lónsins sem verður í 116 metra hæð yfir sjávarmáli þótt lónið sjálft verði ekki "nema" 12-14 metra djúpt. Ég hélt að þetta skildist.

Lára Hanna Einarsdóttir, 28.7.2008 kl. 10:57

11 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæl Lára Hanna. Takk fyrir breytinguna, þetta er allt annað

Sigurður Þorsteinsson, 28.7.2008 kl. 11:03

12 identicon

Hanna  Lára,


Þú verður að fara rétt með staðreyndir.

Þetta mundu sumir kalla  " að mála skrattann á vegginn".

Þeir sem  gagnrýna  verða líka að  virða  staðreyndir.

Orðin "116 metra  djúpt  lón"  verða ekert misskilin.

Lóndýpið  hefur ekkert með  h.y.s.  að gera.

Þú skrifar:

"Ef gert er ráð fyrir um 3 metrum á hverja hæð jafnast 116 metra djúpt lón á við 38 hæða íbúðarhús. Það er ekkert smáræði og umfangið eftir því."

Ps:  Svo er lofthæð í venjulegum húsum  ekki  3 metrar !!!!

Eiður (IP-tala skráð) 28.7.2008 kl. 11:06

13 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Eiður... 116 metrar frá sjávarmáli ER á við 38 hæða íbúðarhús og mér finnst nauðsynlegt að taka það fram af ýmsum ástæðum. Þér finnst það kannski ekki.

Ég tek líka fram í pistlinum að dýpt Hagalóns verði 12-14 metrar, eða á við 4 hæða íbúðarhús. Lofthæðina hef ég eftir arkitekt sem varaði fólk við því að trúa verktökum í Reykjavík þegar þeir töluðu um fjölda hæða í húsum og horfa frekar á hæðina í metrum þar sem í venjulegum íbúðarhúsum væri lofthæð um 3 metrar. Ég á upptöku með þessum orðum arkitektsins sem hann lét falla í útvarpsviðtali.

Annars ætla ég ekki að þrátta um þetta. Ég tel að pistillinn sé alveg nógu skýr og ég er alls ekki að mála skrattann á vegginn - nema síður sé. Til að fyrirbyggja frekari misskilning tók ég út "umfangið" og vona að þú sért þá sáttur.

Lára Hanna Einarsdóttir, 28.7.2008 kl. 11:19

14 identicon

Fyrirgefðu Lára  Hanna, en þegar þú  talar um  116 metra  djúpt lón  þá  ferðu  rangt með staðreyndir. Það er málstað þínum ekki  til  framdráttar.  Það á  ekki að segja  fólki ósatt, þegar er  verið að berjast  gegn  framkvæmdum.

Sannleikurinn er alltaf  sagna bestur. Svo einfalt er það nú.

Lóndýpt er eitt, hæð yfir  sjávarmáli  er allt  annað. Þessu   á  ekki að  rugla  saman.

Mínum   athugasemdum    er lokið.

Finnst  afar  sérkennilegt þegar ekki er  hægt að  fara rétt með  staðreyndir.

Þá er málstaðurinn   ekki nógu  góður.

Eiður (IP-tala skráð) 28.7.2008 kl. 11:32

15 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir mig.  Þú fræðir mig helling í hvert skipti sem þú skrifar.  Núnorðið er ég ekki "umhverfisblind" eða þannig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 28.7.2008 kl. 12:24

16 identicon

Takk fyrir að minna á athugasemdafrestinn og benda á uppkast að athugasemdum. Hef fylgst með Þjórsárvirkjunarmálum í fjölmiðlum. Þar hefur hið rétta andlit Landsvirkjunar heldur betur komið í ljós. Þeir svífast greinilega einskis í þessu máli.  

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 28.7.2008 kl. 12:33

17 identicon

Takk fyrir góða samantekt. Ég hef greinilega alist upp við allt of rómantíska hugmynd um íslenskt samfélag því ég á ennþá erfitt með að trúa því að svona yfirgangur ríkisvalds og fyrirtækja geti viðgengist, hér hjá okkur.

Baráttukveðjur til ykkar fyrir austan og ég vona að sem allra flestir sendi inn athugasemdir. 

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 28.7.2008 kl. 12:48

18 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Kæra Lára. Hafðu þökk, enn og aftur, fyrir að upplýsa okkur á mannamáli um þessi málefni. Þú leggur mikla vinnu og orku í að kynna þér málin á faglegan hátt. Sumir eru aftur á móti þeirrar gerðar að þeir þurfa alltaf að vera með e.k. orðhengilshátt; kannski til að leiða athyglina frá aðalatriðinu sem eru sem sagt: Umhverfisslys í uppsiglingu við neðri hluta Þjórsár.  Ég mun hvetja alla sem ég þekki til að senda inn mótmæli við þennan gjörning Landsvirkjunar.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 28.7.2008 kl. 14:15

19 identicon

Takk fyrir góða fræðslu um þessi mál - héðan fara 3 athugasemdir fyrir lok dags ;)

Martha Elena Laxdal (IP-tala skráð) 28.7.2008 kl. 15:07

20 identicon

Takk fyrir góða pistla. Það er gott að sjá skrifað um þessi mál á mannamáli.

Arna Ösp Magnúsardóttir (IP-tala skráð) 28.7.2008 kl. 16:41

21 identicon

Sæl Lára Hanna

Ég ætla að gerast smá frekur og líta á þessa færslu sem almenna umræðu um náttúrúvernd og leggja orð í belg í því samhengi þar sem mér finnst fyrirhuguð náttúrúspjöll í Reykhólahreppi ekki hafa fengið athygli í samræmi við umfang.

Þar á að slátra skógi sem er eldri en landnám og er á náttúrúminjaskrá, nánast loka tveimur fjörðum með uppfyllingu með tilheyrandi afleiðingum fyrir fjölskrúðugt vaðfuglalíf, taka af a.m.k. tvö arnarvörp auk þess að spilla almennt þeirri stórkostlegu náttúru og dýralífi sem þarna er að finna. Auk þess er talið að á Hallsteinsnesi sé að finna merkar órannsakaðar fornminjar frá landnámsöld sem malbikað verður yfir.

Það skrítna er að Landvernd hefur bent á leið sem forðar öllum þessum spjöllum, leið sem er bæði hagkvæmari og kostnaðarminni. Um það má lesa á heimasíðu Landverndar svo og áskorun sem þeir sendu þingmonnum 2005 og er nokkurskonar hjálparbeyðni f.h. náttúrunnar, þingmenn hafa sennilega verið uppteknir við annað og ekki mátt vera að því að lesa þessa áskoru, í engum þeirra hefur heyrst um málið svo ég minnist.

Fararstjórar fara ekki með ferðamenn á þessar slóðir í dag, en með söguna þína um garyrkjubóndann í Fossvogi í huga og þessvegna hugsandi 40 ár fram í tímann, tel ég víst að þetta svæði muni hafa mikið aðdráttarafl - óspillt.

kveða og þakkir

sigurvin (IP-tala skráð) 28.7.2008 kl. 16:56

22 Smámynd: Villi Asgeirsson

Lára Hanna, ef þú ákveður einhvern tíma að gera heimildamynd um svæðið og taka viðtöl við fólk, er ég meira en til í að hjálpa. Ég kem þá með HD kameruna og tek upp hvað það sem þú segir mér að taka upp. Þetta er farið út í rugl. Grænustu sveitir landsins eiga að fara undir lón? Fallegir fossar líka. Fattettekki.

Villi Asgeirsson, 29.7.2008 kl. 12:08

23 identicon

Mér  finnst merkilegt  að sú staðreyndabrenglun að  fyrirhugað  lón sé   116 metra  djúpt skuli ekki  leiðrétt.  Fráleitt er að  rugla saman lóndýpt og  hæð yfir  sjó.Góður  málstaður á ekki að þurfa á  svona rangfærslum að halda.

Enn furðulegra  er að þegar á þetta er  bent , skuli það kallað  "e.k. orðhengilsháttur"

Það er ekki orðhengilsháttur að  vilja að rétt sé  farið með  tölur.

Það  spillir  fyrir málstaðnum  að   hafa  svona villu í mikið lesinni bloggfærslu.

Eiður (IP-tala skráð) 29.7.2008 kl. 13:02

24 identicon

Þeir sem mestar áhyggjur hafa af því að baráttufólk spilli fyrir málstaðnum eru andstæðingar þess. Dálítið spes...

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 29.7.2008 kl. 13:29

25 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mér er eiginlega meinilla við að skrifa á bloggið og í athugasemdirnar á meðan ég hef ekki mitt útlit... vanafestan að drepa mig.

En Eiður... við erum bæði búin að gera grein fyrir máli okkar hér í athugasemdunum og ég held að það ætti að nægja. Þú ert að minnsta kosti rækilega búinn að benda á téða "staðreyndabrenglun" svo ætla mætti að skilaboðin hafi náð augum og eyrum lesenda pistilsins. Eigum við ekki að láta gott heita. Ég vil trúa því að fólk sé ekki svo skyni skroppið að það skilji ekki hvað við er átt.

Sigurvin... Sjálfsagt að líta á færsluna sem almenna umræðu um náttúruvernd, það er gjarnan gert og ekkert nema gott um það að segja. Ég er innilega sammála þér - fyrirhuguð náttúruspjöll í Teigsskógi hafa farið allt of lágt og lítið verið um þau fjallað. Þau verðskulda miklu meiri umfjöllun.

Í þessu sambandi bendi ég á tvö Spegilsviðtöl sem eru í tónspilaranum hér ofarlega til vinstri - þegar búið er að laga bloggið og allt komið inn aftur. Þetta eru viðtöl við Guðrúnu Helgadóttur, prófessor í menningartengdri ferðaþjónustu við Háskólann á Hólum í Hjaltadal. Guðrún segir m.a. að Íslendingar séu ekki á miklu hærra menningastigi þegar kemur að varðveislu á og virðingu fyrir fortíðinni og menningarverðmætum en þeir Talíbanar sem sprengdu í loft upp mörg hundruð ára Búddalíkneski.

Eins og með Þjórsármálin hef ég ekki haft tök á að kynna mér fyrirhugaðar framkvæmdir í Reykhólasveit en hef þó fylgst nokkuð með umræðum um málið og skoðað á vef Landverndar. Ég get ekki með nokkru móti séð að fólk læri af reynslunni. Íslendingar hafa eyðilagt ótalmikið af menningarverðmætum, bæði hvað varðar jarðfræðileg fyrirbæri, menningarleg, söguleg o.s.frv. og stjórnvöld hverju sinni virðast ekki hika við að halda því áfram þrátt fyrir hávær mótmæli og ábendingar um skaðsemi þess fyrir framtíðina og komandi kynslóðir sbr. viðtölin við Guðrúnu.

Eva... ég held að Eiði gangi ekkert illt til og ég vil ekki stimpla hann andstæðing náttúruverndar því ég hef ekki séð hann tala gegn henni. Hann er bara ósammála framsetningu minni í pistlinum og það má hann alveg. Við erum einfaldlega ekki sammála um orðalag.

Villi... svara þér í tölvupósti.

Lára Hanna Einarsdóttir, 29.7.2008 kl. 13:41

26 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Það er fátt sem kemur mér á óvart þegar ég les málflutning Eiðs Svanbergs Guðnasonar. Læt það nægja í bili. Hvet þig reyndar til þess að svara ekki útúrsnúningum og orðhengilshætti, Lára mín. Slíkar athugasemdir eru ekki svaraverðar.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 29.7.2008 kl. 14:08

27 Smámynd: Theódór Norðkvist

Landdrekkingarstefna núverandi stjórnvalda fær mann óhjákvæmilega til að efast um geðheilsu æðstu ráðamanna. Það verður að stöðva þessa bilun.

Ég er búinn að senda athugasemdabréfið á Þjórsárvefnum í mínu nafni.

Ég bætti við:

Það er erfitt fyrir litla hreppa að standa í lappirnar gegn mengandi fjölþjóðarisum, sem hafa heilu ríkisstjórnirnar í vasanum. Hreppsstjórninni ber engu að síður skylda til að standa vörð um hagsmuni íbúa sinna og landeigenda, sem eiga á hættu að jörðum þeirra verði sökkt.

Rétt er líka að minna á þá ábyrgð sem á hreppnum hvílir að geta opnað dyrnar fyrir mengandi stóriðju í nærliggjandi sveitarfélögum og skert þannig loftgæði og lífskjör íbúa þeirra.

Ég minni á að lítill bær á alþjóðavísu, Hafnarfjörður, setti fjölþjóðlegum álrisa stólinn fyrir dyrnar. Við getum það líka.

Theódór Norðkvist, 29.7.2008 kl. 15:11

28 Smámynd: Bumba

FYRIRTAK! Með beztu kveðju.

Bumba, 29.7.2008 kl. 20:21

29 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Frábært hjá þér Lára Hanna að vekja athygli á þessu brýna málefni. Ég var einmitt í Flóahreppi í gær og fólk er annað hvort slegið yfir óörygginu sem framtíðin bíður uppá ef af verður eða neitar að trúa þessari vitleysu. Ég er ekki hissa á því enda þvílík firra að láta sér detta þessa náttúruperlu í hug á kafi af manna völdum. Ég er búin að senda mína athugasemd. Takk fyrir mig.

Eva Benjamínsdóttir, 29.7.2008 kl. 21:01

30 Smámynd: Árni Gunnarsson

Við eigum að auka þorskkvótann og bæta við 100 þúsund tonnum í það minnsta. Og þessari aukningu á að stefna á handfæra- og línuveiðar fyrir smærri skip og báta utan höfuðborgarsvæðisins. Þegar sjávarþorpin á landsbyggðinni fá auknar aflaheimildir breytist vonleysið í bjartsýni og þarna skapast útflutningstekjur jafnframt atvinnu. Við erum að líkindum búin að tapa þúsundum milljarða á rangri fiskveiðráðgjöf. Þessi þjóð þarf að skilja það að Hafró er vandamál sem við höfum ekki efni á. Ef þessi leið yrði farin gætum við óhikað slegið öllum stórvirkjunum á frest.  

Kynnið ykkur málið í rólegheitum áður en þið afskrifið tillöguna. Kynnið ykkur ráðgjöf um þorskveiðar í Barentshafi aldamótaárið, 110 þús. tonn var ráðgjöfin. Þetta var að engu haft og norsk og rússnesk skip veiddu þrefalt meira. Og eiga núna ráðgjöf upp á milli 400 0g 500 þúsund tonn.

Varðar okkur virkilega svo lítið um þetta að það taki því ekki að ræða það?

Allir firðir og djúpmið eru svo full af þorski að skipin sem eru að reyna að veiða upp ýsukvótann eru að gefast upp á flóttanum undan þorskinum sem ekki má veiða. Er svo komið að fiskveiðar séu aukaatriði hjá íslenskri þjóð þegar rætt er um atvinnusköpun?

Það væri ekki talið lofsvert ef læknisráðgjöf í heilsufarsvandamáli þjóðarinnar skilaði álíka árangri og ræktun þorskstofnsins við Ísland. Og heilsufarið hefði á 30 árum versnað um 67%!

Eða hvað?

Árni Gunnarsson, 30.7.2008 kl. 00:57

31 identicon

alva (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 02:20

32 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Takk fyrir góðan pistil

Hólmdís Hjartardóttir, 30.7.2008 kl. 10:39

33 identicon

Sæl Lára  Hanna Við getum sjálfsagt verið sammála  um ýmislegt þótt okkur  greini á um þessa framsetningu , en þannig er það bara. Ég virði  skoðanir þínar , þótt ég sé ekki sammála þér.

Hin smekklega  kveðja  frá  Ragnheiði Davíðsdóttur starfsmanni   VÍS í athugasemdadálkinum  þínum kom mér  hinsvegar nokkuð á óvart. Hún á alla mína samúð því henni líður  greinilega    ekki  vel.

Eiður (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 22:38

34 identicon

Bestu þakkir fyrir finnan pistil sem ég rakst á af tilviljun.

En ég verð að taka undir við Eið:

"Ef gert er ráð fyrir um 3 metrum á hverja hæð jafnast 116 metra djúpt lón á við 38 hæða íbúðarhús"

Þessi setning er út af fyrir sig rétt, en að tala um 116 metra djúpt lón í þessu samhengi er mjög misvísandi. 

Douglas Brotchie (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 08:35

35 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Sæl, Lára mín. Ég er svo innilega hamingjusöm og ánægð vegna alls þess góða og málefnalega fólks sem sent hefur inn athugasemdir á bloggið þitt. Mér líður vel að vita að til er fólk sem viðhefur skynsemi og rök í máflutningi sínum; fordómalaust og jákvætt.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 31.7.2008 kl. 09:55

36 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Aðalatriði þessa máls eru þær framkvæmdir sem til stendur að fara í við neðri hluta Þjórsár - og vinnubrögðin sem tengjast þeirri framkvæmd. Eiður Svanberg bendir hér á misvísandi orðalag varðandi lónsdýpt annarsvegar og hæð yfir sjávarmáli hinsvegar. Allt í lagi með það, það er í sjálfu sér réttmælt athugasemd - og ekkert að því að benda á þetta atriði, svona einu sinni.

En, þegar menn koma fimm sinnum inn á eina og sömu athugasemdasíðuna til að endurtaka það sem þeir hafa áður sagt og veitast að öðrum sem hafa eitthvað um málið að segja - þá er eitthvað skrýtið á seyði.

Ragnheiður Davíðsdóttir fær hér harðskeytta og ómálefnalega gusu frá þessum manni. Ég hef lengi fylgst með bloggskrifum Ragnheiðar Davíðsdóttur og framgöngu hennar á opinberum vettvangi. Hún er rökföst og málefnaleg, vel máli farin og brautryðjandi í umferðarforvörnum á Íslandi - rétt eins og Lára Hanna er brautryðjandi í umræðu um umhverfismál. Þessar tvær konur eru bloggvinkonur enda sækjast sér um líkir.

Eiður má hafa sínar skoðanir á líðan þeirra eða persónuleika - en hann ætti að halda þeim fyrir sjálfan sig þegar við ræðum um umhverfismál og halda sig við málefnin.

Hver er annars þessi Eiður Svanberg Guðnason? Er þetta Eiður Guðnason, fyrrverandi ráðherra?  

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 31.7.2008 kl. 10:44

37 identicon

Þakka þér Lára Hanna fyrir þína baráttu og góða kynnoingu á náttúruverdarmálum. Þú átt marga (þögla) stuðningsmenn sem styðja heishugar baráttu þína fyrin náttúruvernd.

Þassi kynning þín á neðri hluta þjórsá er sú besta sem ég hef séð um málið og ætti að vekja marga til umhugsunar þó ekkert jafnist á við að fara um svæðið og upplifa. Skil vel að þú hafir verið "í hálfgerðu sjokki" eftir þá reynslu, hafði svipaða tilfinningu í fyrra þegar ég skoðaði svæðið.

Þú gerir betur en heil náttúruverndarsamtök (datt þetta í hug í tengslum við síðustu athsemd) sem varla hefur heyrst í varðandi Teigskógarspjöllin, þrátt fyrir grófar rangfærslur ráðamanna um málið.

Bestu kveðjur

sigurvin (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 14:10

38 identicon

Sæl og takk fyrir!  Takk fyrir að halda svona vel um umræðuna um verndun náttúruna.  Nema hvað ég var bara að lesa þennan pistil og sá að ég var greinilega of seinn til að senda í pósti athugasemd, en ég sendi nú samt tölvupóst enda finnst mér alveg út í hött á tölvuöld að fólk megi ekki senda tölvupóst.  Gæti verið að þeir í stjórn Flóahrepps séu hræddir um að tölvupósthólf þeirra myndi drukkna?  (eins og landsvæðið mun kannski gera?)

Mig langar bara að koma til skila einnar athugarsemdar sem ég fékk frá vini mínum er vinnur á Skipulagsstofnun.   Íslendingar geta vel stoppað framkvæmdir samanber þessa og eins og sannaði sig á því þegar fólk lét póstinn duna rétt áður en það átti að fara að rústa Hengilsvæðinu...

Okkur vantar síðu, þar sem allar svona tilkynningar eru birtar svo að við getum sýnt skjót viðbrögð og mótmælt með því að senda inn athugasemdir.  Það er víst eina leiðin á þessum tími til að fá stjórnmálamenn til að taka marka á manni.

Takk enn og aftur! 

Unnsteinn (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 23:19

39 Smámynd: Sigurjón

Fyrir 1970, áður en LV reisti Búrfellsvirkjun, flæddi Þjórsá á hverju vori svipað og fyrirhugað lón við Haga mun flæða.  Þá fóru sumsé ,,náttúruverðmæti" í kaf á hverju ári.

Lón fyrir rennslisvirkjanir á borð við þær sem fyrirhugaðar eru í Þjórsá eru ekki sama marki brunnar og t.d. Hálslón.  Ástæðan er sú að rennsli í Þjórsá hefur verið jafnað með efri virkjununum og munu lónin því lítið breytast árið um kring.  Moldrok verður því hverfandi.

Aftur á móti var sandfok í Þjórsárdalnum algengt fyrir nokkrum áratugum síðan, áður en LV fór að græða upp sandana, sem hún hefur náð góðum árangri í og lagt nokkuð ríka áherzlu á.  Fátt er því svo með öllu illt að ei boði neitt gott.

Góðar stundir. 

Sigurjón, 1.8.2008 kl. 00:49

40 Smámynd: Sigurjón

...og eitt örstutt:  Að tala um 116 metra djúpt lón, er nokkuð ruglandi orðalag, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Kveðja frá vesturbakka Þjórsár.

Sigurjón, 1.8.2008 kl. 00:53

41 Smámynd: Gísli H. Friðgeirsson

Sæl Lára Hanna.

Ég var að renna yfir Moggann og las þinn pistil, sem er góður eins og aðrir sem ég hef séð frá þér. Auðvitað tók ég eftir þessum hæðartölum en það er búið að ræða nóg um það held ég. Það sem skiptir máli þegar upp er staðið er það land sem fer undir vatn og við munum umræðuna um nokkra metra til eða frá uppi við Þjórsárver, þar gat einn metri ráðið því hvort stór flæmi færu undir vatn eða ekki.

Ég fer ekki í pósthús héðan af, það er margt sem þarf að gera í dag. Hins vegar er ég ekki sáttur við að ég teljist samþykkur þrátt fyrir það. Hver getur leyft sér að halda því fram og leggja á mig kvaðir um að verða virkur mótmælandi til þess að verða svo hundsaður. Ég kaus Islandshreyfinguna og mundi gera það aftur nú.

Svona til gamans vil ég geta þess að lokum að langafi minn Magnús Friðriksson á Selparti í Flóa var ferjumaður yfir Þjórsá.

Gísli H. Friðgeirsson, 1.8.2008 kl. 11:03

42 identicon

Sæl verið þið öll.

Það hefur verið fróðlegt að renna yfir þennan þráð. Með þessa umræðu fer ,eins og svo oft gerist að  með-og mótmælendur taka sér stöðu og sendir síðan hvor hópur hinum skeyti, oft á tíðum færð í stílinn, sem síðan elur af sér orðhengilshátt sem í fara margir póstar á kostnað málefnalegrar umræðu. Ég tel mig hvorki til stóriðjusinna né andstæðinga virkjana. Ég er einungis hluti af þessari þjóð, og sem slíkur veg og met þá kosti sem sem í boði eru til að hafa lífsviðurværi í þessu landi og þá líka gallana sem þeim kostum fylgja. Það er búið að skera niður kvóta, við lifum ekki eingöngu af fjármálaþjónustu eins og undanfarið hefur komið í ljós og hvað er þá til ráða ? Þessa röksemdafærslu getur maður ímyndað sér að hafi verið notuð á ráðherra Samfylkingarinnar af samstarfsmönnum til að knýja fram þær gjörðir þeirra sem ég á  erfitt með að sjá að samrýmist þeirra flokks stefnumáli "Fagra Íslandi" og löggð var fyrir kjósendur fyrir síðustu kosningar . Svo fögur voru þau fyrirheit. Við erum í mótsögn við okkur sjálf þegar að þessum þætti kemur. Svo kallaðir stóriðju sinnar benda á þá kosti sem við höfum til að tryggja áframhald á þeim lífskjörum sem við höfum sett okkur og segja um leið , með nokkrum sanni  að mínu mati að þeirra andstæðingar bendi ekki á sannfærandi kosti til að tryggja þessi umtöluðu lífskjör.  Til að skýra mitt mál nefni ég dæmi. Margumræddir og fjölsóttir tónleikar Bjarkar og Sigurrósar gegn stóriðju og virkjunum í sumar. Þegar tekið var viðtal við tónleikahaldara í sjónvarpi mátti sjá í bakgrunn hvar verið var að reisa hljómleikasviðið, ogjú úr álstillönsum Og hve margar kílóvattstundir ætli hafi farið í að koma þessum tónleikum til skila ? Hver voru þá í raun skilaboð þessa fólks.....ég ætla að halda áfram að nota ál og rafmagn en ég vill ekki sjá neinar óæskilegar afleiðingar nálægt mér??? quote "Meðlimur Saveing Iceland meiddist á höfði er álstangir sem notaðar voru við mótmælin féllu á hann" (mbl.is) ????  Er álbræðslan kanski betur komin í mið-ameríku knúin raforku frá kolakynntu álveri ?? Nei auðvitað er það ekki hugsun þessa upplýsta og vel meinandi hóps sem að tónleikunum stóðu, heldur eins og kom fram í máli Einars Arnar að fá fólk til að hugsa málið í heild upp á nýtt!!! Er jafnvel málið að lækka aðeins standardinn ? Vitum við hvað þarf mikið ál í einn Prius, hjólhýsi, eðahvaðþaðnúalltheitirsemviðerumaðkaupaalladaga.... Ég ætla í lokin að koma her með einn þreyttan en sígildan frasa sem máske einhver mér fróðari hefir snúið á Íslensku,    THINK GLOBALY, ACT LOCALY. Samkvæmt nýjustu skýrslum lærðra, og Þórunn-umhverfis hefur kynnt landslýð er talað um hluti sem kalla á aðgerðir, aðgerðir sem krefjast þess að við hugsum hlutina í víðara samhengi og tökum fleiri þætti til skoðunar en lónhæðir eða óæskileg sjónræn umhverfisáhrif þó ég geri síður en svo lítið ur þeim þáttum. Þat eru bara fleiri breytur í jöfnunni.   Fagra Ísland>Fagra Veröld ?

Með umhverfis kveðju...

Geir Guðjónsson

Geir Guðjónsson (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband