Miðborgarrölt í hitasvækju

Ég fattaði fyrir löngu af hverju ég valdi að fæðast á Íslandi... ja, sumir segja að maður velji sér foreldra og fæðingarstað, hvað svo sem til er í því. Ástæðan hlýtur að vera sú að ég þoli ekki hita. Um leið og hitastigið er komið yfir 20 gráður verður mér ómótt, ég verð máttlaus, finnst ég ekki geta andað og heilastarfsemin hrynur. Sellurnar bráðna líklega. Þetta er ekki þægilegt. Maður getur þó klætt af sér fjárans kuldann.

Mér var of heitt í gær og ég fann fyrir verulegri vanlíðan og heiladoða. Ég gat ekki með nokkru móti unnið og viftan sem ég hef alltaf í gangi í vinnuherberginu gerði ekkert gagn. Það endaði með því að ég fór út og tók Kötlu hvolp með mér. Katla er Vestfirðingur, alsystir Skutuls, flutti til mín 4. júlí og er að venjast borgarlífinu. Ég hélt að kannski yrði auðveldara að anda úti. Það reyndist tálvon.

Ég kippti myndavélinni með og tók nokkrar myndir af því sem á vegi mínum varð í hverfinu mínu, miðbænum.

Það er mikið rætt um nýjan Listaháskóla og hve illa byggingin passar inn í götumyndina við Laugaveg. Hér er slíkt dæmi sem er langt komið - skrímslið á bak við Naustið við Vesturgötuna. Ég mun aldrei skilja af hverju þetta var leyft.

Nýbygging bak við Naustið

 

Þegar búið var að rífa kofaskriflin sem voru á bak við Naustið kom í ljós einstaklega falleg bakhlið sem ég vonaði að fengi að vera í friði. En svona lítur svo bakhlið nýbyggingarinnar út - norðurhliðin Tryggvagötumegin, og felur hina fallegu bakhlið Naustsins. Mikið er Reykjavík að verða grá, svört og glerjuð. Allur sjarmi að hverfa.

Nýbygging - norðurhlið

 

Hann Hjálmtýr V. Heiðdal sendi mér nokkrar myndir sem hann tók af bakhlið Naustsins sem ég minnist á að ofan. Hér sést svo greinilega hvað hún er skemmtileg - með kvistum, kýraugum og ég sé ekki betur en að grunnar allra húsanna séu hlaðnir. Er þetta nú ekki fallegri sjón og betur við hæfi í þessum borgarhluta en svarta báknið í myndinni á undan?

Naustið bakhlið - Ljósm.: Hjálmtýr V. Heiðdal

 

Við gerðum okkur ferð inn í Alþingisgarðinn. Hann er mjög gróinn og fallegur, algjör vin í miðbænum. Þar sat einn maður á bekk og las. Á Austurvelli sást hins vegar varla í gras, svo þéttsetið var þar. Inn í garðinn kom svo fólk sem var að leita að bekk í skugga... á Íslandi.

Alþingisgarðurinn

 

Þetta fólk horfði út um gluggann á Alþingishúsinu í átt að Ráðhúsi Reykjavíkur og hugsaði sjálfsagt sitt í hitasvækjunni.

Gægst á glugga Alþingis

 

Öndum og gæsum við Ráðhúsið virtist standa alveg á sama um borgarstjórnarraunir mannfólksins og voru afslappaðar við sólböð undir suðurgluggum hússins.

Endur og gæsir við Ráðhúsið

 

Hér hefur hjólreiðamaður komið sér vel fyrir á bekk í Fógetagarðinum og fengið sér lúr. Þetta er sjaldgæf sjón í Reykjavík.

Hjólreiðamaður sefur á bekk

 

Katla gerði sér dælt við hjólabrettastráka á Ingólfstorgi og einn vildi leyfa henni að prófa. Hún þorði ekki og forðaði sér bara í skuggann. Henni var líka heitt.

Viltu prófa hjólabrettið mitt?

Beint í skuggann til að kæla sig

 

Í Fischersundi gerði svart villidýr árás úr launsátri á Kötlu. Það var með naumindum að mér tókst að bjarga henni frá klóm fnæsandi, svarta kattarins sem virðist ráða þar ríkjum. Við vorum báðar dauðskelkaðar og ætlum að muna að fara ekki aftur á þessar slóðir.

Svarta villidýrið í Fischersundi t.v.

 

Við enduðum göngutúrinn á Landakotstúni sem oftar. Þótt Kristskirkja sé falleg bygging finnst mér gamla kirkjan eiginlega fallegri - á sinn hátt.

Landakotskirkja hin eldri

 

Að lokum - Katla að spóka sig á Austurvelli.

Katla á Austurvelli


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Mikið er hún Katla annars mikið krútt - og lík bróður sínum, honum Skutli.  Hann skríður meðfram skuggum þessa dagana, og er hreinlega að deyja úr hita. Stjúpmóðir hans (dalmatíutíkin hún Blíða)  velur sér hinsvegar heitustu sólarblettina til þess að leggjast og hagar sér eins og værðarlegur köttur.

Já, þetta er nú meiri veðurblíðan. Bestu kveðjur úr hitamollunni í Skutulsfirðinum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 31.7.2008 kl. 15:27

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Yndislegar stemmingsmyndir villingurinn þinn. 

Rosalegt monster er þetta á bak við Naustið.

Þessi hvolpur er dásmlegur krúttmoli.  Knúsaðu hann frá mér.

Við aðstoðarkonu borgarsjóra hef ég hins vegar ekkert að segja.

Jenný Anna Baldursdóttir, 31.7.2008 kl. 15:52

3 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Þakka þér fyrir þessar góðu myndasögur Lára Hanna. Hvolpurinn Katla lofar góðu, ég sé það á henni.

Eva Benjamínsdóttir, 31.7.2008 kl. 15:53

4 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Aldrei hef ég séð Landakotskirkju hina eldri áður.... en ég er hugfangin.  Ofboðslega falleg bygging.

Katla er bæði glaðleg og gáfuleg. 

Anna Einarsdóttir, 31.7.2008 kl. 16:00

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Já, hún Katla er mikið krútt, mannelsk, kelin og skemmtileg... lærir eitthvað nýtt á hverjum degi og er fljót að því! Eldklár.

Landakotskirkja hin eldri held ég að hafi nú "bara" verið talin kapella hér áður fyrr og um áraraðir var hún notuð sem spítali - áður en Landakotsspítali var byggður. En falleg er hún, hvort sem hún var kirkja eða kapella.

Jenný... ég bið aðstoðarkonu borgarstjóra að skila hjartans kveðju til Borgarstjóra frá þér...    Verst að ég man ekki lengur hvað hún heitir.

Lára Hanna Einarsdóttir, 31.7.2008 kl. 16:13

6 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Sammála, þetta er hroðalegt skrímsli við Vesturgötuna. Og ekki langt síðan til stóð að leyfa jafnvel hávaxna hótelbyggingu steinsnar frá.

Mér finnst sorglegt að leyfa ekki birtunni og ylnum og umhverfinu að njóta sín þar sem við á.

Berglind Steinsdóttir, 31.7.2008 kl. 16:51

7 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Skemmtilegar myndir....en hræðileg bygging sem er bakvið naustið, er ansi hrædd um að svona muni útkoman vera á laugaveginum ef skólin verður reistur þar.

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 31.7.2008 kl. 18:11

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er skondið að ég fór líka í svona hitasvækjugöngutúr í gær og tók líka mynd af gamla Naustinu. Þeim er alltaf að fjölga þessum svörtu þunglamalegu húsum í bænum. Merkilegt hvað það er yfirleitt miklu léttara yfirbragð á gömlum húsum.

Emil Hannes Valgeirsson, 31.7.2008 kl. 18:41

9 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég er í nettu sjokki yfir mörunni sem liggur á Naustinu. Ertu samt viss um að það sé góð hugmynd að segja fólki að miðbærinn sé þitt hverfi? Nú mun hrynja yfir þig "101 lýðurinn" bulli.

Villi Asgeirsson, 31.7.2008 kl. 21:37

10 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Villi, heh, nei, maður missir strax málfrelsið, tala nú ekki um ef maður er listamaður...

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 31.7.2008 kl. 23:21

11 identicon

Sem eigandi svarta villidýrsins og systur hans í Fischersundinu biðst ég innilegrar afsökunar á þessum ruddaskap!  Veit ekki afhverju hann er farinn að stunda þessar skyndiárásir á hundgrey sem voga sér upp sundið hans, en dýralæknir bendir á aldurinn,svo líklega er hann bara geðillt gamalmenni. Hef séð menn með stærðar hunda taka þá í fangið og leggja á flótta á meðan ég berst við köttinn með eldhúskúst eða úðabrúsa að vopni...  En hann er ljúfasta grey við fólk og situr alla daga í sundinu og bíður eftir klappi.

Vona að hvolparófan hún Katla sé búin að jafna sig og sendi henni kveðju úr Grjótaþorpinu. Vona að hún þori aftur í heimsókn síðar.

Hildur Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 23:39

12 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Já hún er falleg gamla byggingin á Landakotstúninu. Ég er ólík þér.....elska hita og finnst ekkert hlýtt fyrr en komið er yfir 20 stigin

Hólmdís Hjartardóttir, 1.8.2008 kl. 00:58

13 Smámynd: Einar Indriðason

Landið er lítið!  Kvörtun undan köttum í Fischersundi, veldur því að eigandinn kommentar við færsluna, og tautar eitthvað uppbyggilegt :-)

Gaman að þessu

Einar Indriðason, 1.8.2008 kl. 01:06

14 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég ætla rétt að vona að þessu risastóra Listaháskólahúsi verði ekki troðið á Frakkastígsreitinn. Svona stór bygging á alls ekki heima þar. Ég vísa í orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í fréttum Stöðvar 2 í kvöld og síðan í Íslandi í dag. Hann færir mjög góð rök gegn því.

Skondin tilviljun, Emil...    Já, þessum svörtu, þunglamalegu húsum fjölgar ört. Og glerhúsunum. Þetta eru dimmar og drungalegar byggingar - og allar risastórar. Ætla mætti að verið væri að veita magnafslátt af einhverju sérstöku byggingarefni. Okkar sérstaða hefur hingað til falist mikið til í litskrúði húsanna og þakanna. Ekki lengur - því miður.

Villi...  Ég hef aldrei leynt því í mínum skrifum hvar ég á heima. Og í sjónvarpsviðtölunum sem ég hef verið í hefur það líka komið fram. Ég stend enda fast á þeirri skoðun minni að Ísland sé okkar allra og fer ekki ofan af því, hvað sem hver segir. Ég hef heldur aldrei mótmælt því að fólk á landsbyggðinni hefur fullan rétt á að hafa skoðun á því sem er verið að gera í höfuðborginni - og öfugt.

Ég er á móti hreppapólitík og vil að við lítum á allt landið sem heild. Það sem einn landshluti gerir hefur áhrif á alla hina, svo ég tali nú ekki um að ef fara á fram rányrkja á orkuauðlindum okkar þýðir það að ekkert verður eftir handa börnunum mínum og barnabörnunum. Það samþykki ég aldrei.

Ég læt því allt hjal um "lattelepjandi kaffihúsapakk í 101" eins og vind um eyru þjóta (reyndar drekk ég ekki latte og fer næstum aldrei á kaffihús þó að ég hafi urmul á þröskuldinum), rétt eins og fíflaskapinn um að þeir sem ekki vilji virkja hvern hver og hverja sprænu á Íslandi vilji fara aftur í torfkofana og tína fjallagrös. Svona málflutningur er ekki boðlegur í siðaðra manna samfélagi og sæmilega upplýstum samræðum.

En ég er ekki listamaður svo ég losna að minnsta kosti við þann stimpil - ekki Hildigunnur.

Hildur... þú bara játar eins og ekkert sé!   Hvað er kötturinn þinn gamall? Ég hefði haldið að kettir yrðu frekar værukærir en agressívir í ellinni. Þetta var í annað sinn sem við Katla lentum í villidýrinu þínu. Í hitt skiptið komum við gangandi Mjóstrætið frá Vesturgötunni og kisa var þá á mótum Mjóstrætis og Fischersunds. Þegar hún sá Kötlu koma, úr góðri fjarlægð, setti hún upp kryppu og hvæsti svo hátt að við heyrðum það. Ég tók Kötlu þá strax í fangið og gekk varlega áfram. Þá róaðist kisa aðeins. En viti menn - niður Fischersundið kom fólk með einn STÓRAN hund og þrjá pínulitla og kisa sneri sér að þeim. Allir stoppuðu, stjarfir af hræðslu, bæði dýr og menn. Fólkið með hundana hörfaði og komst ekki áfram. Þá bar að unga konu sem tók kisu og vippaði henni inn í garðinn hjá litla steinbænum og allir hröðuðu sér í burtu. Þetta var skondin uppákoma.

En Katla jafnaði sig furðufljótt - eða þegar við vorum komnar yfir Garðastrætið. Ég þurfti síðan að fara til baka af því í látunum hafði annað glerið í gleraugunum mínum dottið úr umgjörðinni. Katla beið hin spakasta í innkeyrslunni að Bárugötu 2 á meðan ég fór og leitaði að glerinu (fann það). Þá tók ég myndina af köttunum.

Ég sé þig í anda með kústinn og úðabrúsann... 

Þú ættir að eiga heima sunnar, Hólmdís. Ég valdi mér þó land eftir hitaþoli... 

Já, Einar...  Örlítið land og það er virkilega gaman að þessu. Hvernig Hildur datt hingað inn veit ég ekki. Hildur...? En nota bene - ég var að segja frá, ekki kvarta. Kettir eru alls konar, rétt eins og hundar og mannfólk og þetta er eitthvað sem ég kannast við frá fyrri tíð þegar ég átti hinn hundinn minn. Það er svo mikið af köttum í hverfinu.

Stór spurning hvort við Katla þorum að hitta villidýrið Mala sem réðst á saklausan föður sinn um daginn - sjá hér:

Lára Hanna Einarsdóttir, 1.8.2008 kl. 01:15

15 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Linkurinn virkaði ekki - sagan er hér:  http://nimbus.blog.is/blog/nimbus/entry/598377/

Lára Hanna Einarsdóttir, 1.8.2008 kl. 01:19

16 Smámynd: Einar Indriðason

Já, rétt.  Frásögn, ekki kvörtun.  Skemmtilegt samt sem áður :-)

Einar Indriðason, 1.8.2008 kl. 01:25

17 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ég er sammála þér með Listaskólabygginguna. Hún á ekki heima á Laugaveginum. Þannig að ég er sammála Ólafi F. Gæti þessi bygging ekki staðið hjá Norræna Húsinu, eða í Laugardalnum gegnt Glæsibæ? Mér sýnist húsið fallegt.........en það þarf rými og passar ekki á Laugaveginn.

Hólmdís Hjartardóttir, 1.8.2008 kl. 03:00

18 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Hæ,

Mikið er annars heimurinn lítill ... :)

Var að snarla með vinkonu minni á Mexíkanska veitingastaðnum sem er við hliðina á Café Reykjavík. Ég var að sjálfsögðu að fylgjast með umferðinni niður Vesturgötuna og kemur þá ekki þessi glæsilega dama (of mikið klædd í þessum hita... ) gangandi niður Lauga... á krókudílaskóm með lítinn svartan hund í bandi. Ég bara bókstaflega sat og gapti á meðan þessi kona leið fram hjá glugganum og hvarf að lokum fyrir næsta horn ... og það án þess að virða mig viðlits. Á meðan rann súpan út úr munnvikinu á mér aftur ofan í súpuskálina.

Þar sem að ég er mjög stríðin af eðlisfari, þá var ekki laust við að það þytu nokkrar hugmyndir í gegnum hugan á mér, hvernig ég gæti nú mögulega strítt svona blásaklausri konu sem var þarna á ferð í góða veðrinu.

Þar sem þetta var nú svo góður dagur, þá ákvað ég að setja símann aftur niður, enda var ég með hugann við að kveðja aðra dömu sem var á leið til Danaveldis næsta dag.

Ég fór að ræða það við vinkonuna hvað Ísland væri nú annars lítið og að þar þekktust allir meira og minna.

Sem dæmi, að á meðan ég sat og kláraði súpuna, þá náði Hjörleifur Guttormsson, eftirlaunaþegi á stuttbuxum, að labba tvisvar fram hjá með bakpokan sinn (eins og Tinni í Tinnabókunum) sem mér fannst einhvernvegin að ætti frekar heima uppi á fjöllum í viðkomandi múnderingu. Skömmu síðar kom svo Andrés Magnússon, sjálfstæðisblaðasnápur arkandi niður götuna með símann límdan við eyrað á sér og blaðrandi brúnaþungur. Mig grunaði nú einhvernveginn að hann gæti hafa verið að ræða við bróður sinn um stöðu OR eða þær hremmingar sem flokkurinn væri komin í. Þegar hann kom nær glugganum hjá mér, þá tók ég eftir því að það var slökkt á símanum :)

Ætli það sé ekki á svona degi sem allir fara og sýna sig og sjá aðra?

Kjartan Pétur Sigurðsson, 1.8.2008 kl. 03:12

19 identicon

Ég, landsbyggðarrottan tek þig á orðinu og ætla að lýsa skoðun minni á þessari bakhlið Naustsins. Mér finnst þetta eitt sorglegt dæmið enn um skipulagsákvörðun þar sem ekkert var hugsað um heildir, bara hvernig nýta mætti reitinn sem "best". Svo sakna ég upprunalega litarins á Naustinu, fannst það svo virðulegt með þeim lit.

Svo ætla ég líka að lýsa skoðun minni á 101-myndunum, þær eru alveg ferlega skemmtilegar

Ok, ok, ok ... þó að ég eigi ekki heima í 101 þá hef ég líka skoðun á Kötlu: Hún er krútt.  

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 03:21

20 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

alveg hörmulegt að sjá þetta hús bak við Naustið. húsið er ekki endilega ljótt 'í sjálfu sér'. gæti alveg sómað sér einhversstaðar. þó ekki þarna. í þessu umhverfi verður það afskaplega ljótt. það mætti halda að þegar fólk ákveður að leyfa svona byggingar, horfi það einungis á teikningar af byggingunni sjálfri án þess að sjá hana í samhengi við fyrirhugað nágrenni sitt.

er það skammsýni, þröngsýni eða sér fólk kannski bara ekki út fyrir boruna á sér?

veitiggi.

Brjánn Guðjónsson, 1.8.2008 kl. 03:47

21 Smámynd: Anna Þóra Jónsdóttir

Hef ekki kíkt hér inn fyrr og langaði bara að kvitta fyrir mig.

Skemmtileg lesning, fínar myndir úr borgarstemmingunni af fólki og misflottum húsum .....og Katla - það fer sko ekki fram hjá neinum - er algjört ofurkrútt.

Anna Þóra Jónsdóttir, 1.8.2008 kl. 09:58

22 identicon

Sem latte lepjandi miðborgarrotta, grípur allt sem snertir miðbæinn minn augað og þess vegna kíkti ég á síðuna þegar hún poppaði upp á forsíðu mbl. Og það kom skemmtilega á óvart þegar allt í einu birtist mynd af Steinka og Rósu Halarófu.

Fann mig því knúna til að gangast við kvikindinu og biðja forláts... á að hann hafi hrist svona uppí friðsælum göngutúr, en erfitt að taka á sig sökina þegar kemur að því að köttum sé illa við hunda. Tel mig heppna að hann hafi ekki enn hitt einn sem svarar fyrir sig! Steinki er annars um 13 ára gamall, hann fylgdi íbúðinni á sínum tíma og því erum við ekki alveg  viss.

Kveðja  

Hildur Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 10:31

23 identicon

Skemmtileg lesning. Ég er búsett í útlöndum og hafði verið að velta því fyrir mér hvernig lífið væri í hitanum í Reykjavík þessa dagana. Takk fyrir gott blogg.

Margret Agustsdottir (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 13:36

24 identicon

Er það virkilegt.. fáum við að velja hvar við fæðumst; Djö eru þá sumir vitlausir ;)

DoctorE (IP-tala skráð) 1.8.2008 kl. 14:53

25 Smámynd: Villi Asgeirsson

Doksi, það er rétt. Þú valdir Ísland þar sem þú getur verið ósammála almættinu. Í sumum löndum væri búið að hengja þig upp, flengja og steikja á teini.

Villi Asgeirsson, 1.8.2008 kl. 20:24

26 Smámynd: Eyþór Árnason

Flottar myndir hjá þér Lára Hanna mín, en ég er ekki sammála þér með hitann. Mér hefur sjaldan liðið betur!!!

Eyþór Árnason, 2.8.2008 kl. 00:33

27 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Ef Lára Hanna ljúfa snót í bænum,

labbitúr sér fær er von á góðu.

Þá lifnar bara allt í einum grænum

sem áður kúldraðist í þokumóðu!

Magnús Geir Guðmundsson, 2.8.2008 kl. 02:32

28 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég ólst upp á Vesturgötunni og er í sjokki yfir skrímslinu á bak við naustið. Það breytir líka og spillir hinni gömlu og fallegu sjónlínu þegar horft er austur eftir Vesturgötu, frá t.d. horninu á Ægisgötu og Vesturgötu. Og svo var það ekki hann Mali sem réðst á hana Kötlu þó hann sé að vísu tryllt og bítandi vllidýr!

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.8.2008 kl. 13:41

29 Smámynd: Heidi Strand

Svarta húsið er hræðilegt á þessum stað.

Ekki er það eftir sama arkitektinn sem hefur hannað Listháskólaskrimslið?

Heidi Strand, 2.8.2008 kl. 18:03

30 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Það er margt fallegt í miðbæ Reykjavíkur og margt hefur farið þar miður. Ég get hins vegar engan veginn séð einhverja nítjándu aldar mynd á Laugaveginum eins og borgarstjórinn talar um að vernda. Laugavegurinn er eitt allsherja kaós, margra alda bygginga og misfagurra. Hins vegar vil ég vernda Njálsgötu, Grettisgötu og Bergþórugötu, þar eru nítjándu aldar hús og þeirrar tuttugustu sem þarf að vernda.

Haraldur Bjarnason, 2.8.2008 kl. 18:17

31 Smámynd: Guðrún Helgadóttir

Takk fyrir skemmtilegan rúnt um miðborgina!

Guðrún Helgadóttir, 7.8.2008 kl. 14:36

32 identicon

Stórgóðar myndir, takk fyrir...

Símon Ólafsson (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband