Af hverju EKKI Bitruvirkjun?

Morgunblaðið í gær var uppfullt af Óskari Bergssyni, bjargvætti Helguvíkurálvers, Sjálfstæðisflokks, verktaka og gróðahyggju. Maður fann næstum áþreifanlega fyrir návist Alfreðs Þorsteinssonar, guðföður Framsóknarmanna í Reykjavík og fyrrverandi einvalds Orkuveitu Reykjavíkur til ótalmargra ára. Eins og sjá má hér styður aðeins um fjórðungur kjósenda nýjasta meirihlutann í Reykjavík. Íslenskt lýðræði í hnotskurn?

Bitruvirkjun var nefnd 25 sinnum í blaðinu - geri aðrar framkvæmdir betur! Nú er talað eins og virkjunin sú sé það eina sem geti komið efnahag Íslendinga til bjargar. Það er þó fjarri lagi. Í myndbandinu hér að neðan er upprifjun á sögu baráttunnar gegn Bitruvirkjun frá 30. október 2007 til 21. maí 2008. Takið sérstaklega eftir tilvitnun í orð Óskars Bergssonar í lok myndbandsins. Þar á hann einn skoðanabróður sem sagt er frá hér. Ég á ekki von á að fleiri séu svona miklir kjánar - eða upplýsa það að minnsta kosti ekki á opinberum vettvangi. Væntanlega mun ég á næstunni endurbirta bloggfærslur mínar frá þessari baráttu. En byrjum á þessu:


Ég minni á skoðanakönnun frá 24. júní sl. þar sem fram kom að meirihluti Íslendinga vill ekki fleiri virkjanir og meiri stóriðju. Fólk er almennt ekki svo vitlaust að halda að stóriðja bjargi efnahag landsins og það er farið að átta sig á, að jarðhitavirkjanir eru hvorki hreinarendurnýjanlegar þegar virkja á með þeim hætti sem fyrirhugað er, þ.e. stunda rányrkju á orkulind allra landsmanna og selja úr landi á útsöluverði.
 
Fréttablaðið 24. júní 2008
Að lokum er hér veggspjaldið sem við Petra Mazetti létum prenta og dreifa á eigin kostnað í öll hús í Ölfusi og Hveragerði í maí í því skyni að hvetja íbúana til að mótmæla því, að náttúruperlu yrði breytt í iðnaðarsvæði. Sveitarstjórn Ölfuss hefur enn ekki upplýst hve mörg nöfn voru á mótmælum og athugasemdum sem bárust, en vitað er með vissu að þau voru langt yfir eitt þúsund. Á kjörskrá í Ölfusi voru 1.029 og á bak við meirihlutann eru 495 atkvæði. Íslenskt lýðræði í hnotskurn?
 
Veggspjald - Ölkelduháls

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Fín færsla, flottar myndir og góðir linkar.

takk 

Sigurður Þórðarson, 17.8.2008 kl. 12:30

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Það virðist sem baráttan sé töpuð fyrir þessari virkjun.. ekkert stoppar Framsókn og sjálftektarflokkinn þegar þeir finna þef af völdum og peningum.

Óskar Þorkelsson, 17.8.2008 kl. 13:45

3 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Ætli þið umhverfisverndarsinnar finnið ykkur ekki einhverjar aðrar framkvæmdir til þess að berjast gegn. Gallinn við umhverfisverndarsinna almennt er sá að þeir eru ekki tilbúnir til þess að sættast á neinar málamiðlanir. Ég er virkjanasinni og finnst að ef að hægt er að virkja orku til þess að skapa störf, betri lífskilyrði fyrir fólk og já peninga þá eigi að virkja orkuna. Á milli mín og umhverfisverndarsinna er væntanlega einhver málamiðlun. En gallinn við umhverfisverndarsinna er að þeir sættast ekki á málamiðlanir. Það er alltaf annað hvort sigur eða dauði.

Jóhann Pétur Pétursson, 17.8.2008 kl. 15:04

4 Smámynd: Einar Indriðason

Jóhann Pétur... er ekki búið að virkja nóg, í bili?  Þarf endilega að virkja hvern einasta möguleika núna, ekki síðar en í fyrradag?  Má ekki aðeins staldra við, og hugsa sinn gang? 

Lára Hanna... ég var með pínu pistil inni hjá mér, mátt kíkja á hann ef þú vilt.  Sennilega næst efsti pistillinn minn. 

Einar Indriðason, 17.8.2008 kl. 15:51

5 Smámynd: Þröstur Unnar

Er ekki meira en málamiðlun á milli þín og umhverfissinna Jóhann? Mér sýnist það vera haf.

Góður pistill Lára Hanna.

Þröstur Unnar, 17.8.2008 kl. 16:53

6 identicon

Jóhann minn, það er eins og hjá virkjunnarsinnum sem það sé annaðhvort virkjun eða dauðinn! Ég er 22 ára gamall, ég get sagt fyrir mitt leyti ég er ekki að fara að vinna hvorki í álverum, olíuhreinsistöðvum eða virkjunum. Mér finnst dónaskapur að það haldi bara allir að okkur ungukynslóðinni finnist sjálfsagt að fara að vinna í eitthverjum verksmiðjum. Nei held nú síður, held að ungt fólk í dag sjá ekki sig ekki í framtíðinni í verksmiðjum. Hverssvegna þarf að virkja? Ennþá og enn sem komið er er bara 1,1% atvinnuleysi á Íslandi. Þó að nú kreppi saman þá er ekki þar með sagt að það eigi að fara að virkja hverja einustu á og hvern einasta hver sem finnst! Þetta eru bara skammtímalausnir! Reynum að fara að hugsa 50ár fram í tímann ekki bara næsta kjörtímabil...

Takk fyrir mig yfir og út

Lára Hanna, takk fyrir! Haltu áfram því ég veit að þú ert farin að hafa áhrif! ;)

Unnsteinn (IP-tala skráð) 17.8.2008 kl. 17:07

7 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Ótrúlegt að þurfa að þola þetta hringl - maður upplifir nákvæmlegu sömu spillingu og undanskot og var í kringum Kárahnjúkavirkjun. Þakka þér fyrir Lára Hanna fyrir að láta ekki deigan síga þótt stundum þetta virðist vera algerlega vonlaus barátta.

Birgitta Jónsdóttir, 17.8.2008 kl. 17:10

8 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

flott færsla hjá þér, as usual.

ég hef aldrei verið heitur í þessum málum, líklega nenni ég því bara ekki  finnst reyndar alveg í lagi að virkja á stöku stað.

ég man eftir einum frönskum ferðamanni, sem hafði mikinn áhuga á jarðhitamálum hér, en líklega eru þó fæstir ferðamenn að spá í það. kannski svona álíka hlutfall ferðamanna og fylgi Framsóknarflokksins er í Reykjavík. kannski það skýri orð Óskars?

Brjánn Guðjónsson, 17.8.2008 kl. 17:13

9 Smámynd: Geir Guðjónsson

Sæl veriði,

 getur einhver skýrt út fyrir mér hví margir málsmetandi og skynsamir menn halda fram að jarðgufuvirkjanir "hafi talist, og séu vistvænni " en vatnsaflsvirkjanir ???? Og þar af leiðandi auðveldara að koma þeim upp, jafnvel með velþóknun náttúruverndarsinna, þar til skipulagsstofnun kvað upp sinn "dauðadóm yfir áframhaldandi virkjun jarðvarma í landinu" ef vitnað er í ummæli sumra fylgendja Bitruvirkjunar. Ég held nefnilega að þessu sé öfugt farið, það er að vatnsaflsvirkjanir séu vistænni en jarðvarmavirkjanir í núverandi mynd t.d. á Hengilssvæðinu. En þá komum við að skilgreiningaratriðum, til dæmis hvort er óvistvænna, að gefin orkuöflun hafi annars vegar í för með sér að land fari undir uppistöðulón af tiltekinni stærð (staðbundin áhrif ?) eða hinns vegar tiltekna árslosun gróðurhúsalofttegunda á öllum starfstíma jarðvarmavirkjunar, sem og mengun frá brennisteinsvetni og affallsvatni, og erum við þá að tala um aðeins stærra samhengi.  Ef einhver getur bent mér á hvað mér yfirsést varðandi minni neikvæð umhverfisáhrif jarðvarmavirkjana umram vatnsaflvirkjanir þá vinsamlegast uppfræðið mig þar um, því ég virðist einn fárra á þessari skoðun.

Kv. Geir Guðjónsson

Geir Guðjónsson, 17.8.2008 kl. 18:50

10 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Takk fyrir þetta. Það er alltaf gott og fróðlegt að rifja upp fréttir gærdagsins og ummæli sem fóru fram þá.

Við verðum að stand þétt saman og vera vel á verði um okkar fallega land. Sú fullyrðing að jafn margir ferðamenn koma hingað til þess að skoða virkjunarframkvæmdir á Íslandi eins og að njóta náttúrunnar Íslands er auðvitað eintóm steypa!  Ég er búin að vinna sem leiðsögumaður lengi og veit hvað ég er að tala um.

Úrsúla Jünemann, 17.8.2008 kl. 21:17

11 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Halló Lára mín. Kveðja frá Flodira. Her er allt stórt og mikið. Veit ekki alveg hvort þetta er minn kaffibolli, eins og þar stendur. Góð færsla eins og venjulega. kveðja Ragnheiður.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 17.8.2008 kl. 22:43

12 identicon

Takk fyrir að berjast gegn frjálshyggjubrjálæðinu!

Valsól (IP-tala skráð) 17.8.2008 kl. 23:09

13 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Takk fyrir þetta Lára Hanna, hjartans þakkir.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 18.8.2008 kl. 00:23

14 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Frábær samantekt. Það er vitlausasta málefni sem þeir velja til að auka fylgið sjallar og framarar. Held að það sé fullur vilji almennings að vernda Hengilsvæðið til útivistar. Takk fyrir. Mbk, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 18.8.2008 kl. 00:47

15 Smámynd: Sigurður Hrellir

Takk fyrir þetta Lára Hanna - þörf áminning. Vonandi verður upplýsingamiðlun þín til þess að stjórnmálamenn hætti að treysta á minnisleysi kjósenda. Það er sorglegt að fylgjast með framferði þessara "fulltrúa okkar"...

Sigurður Hrellir, 18.8.2008 kl. 09:29

16 identicon

Lára mína, voðalega líður þér (og skoðanasystkinum þínum) illa út af þessum nýja meirihluta.  Væri einhver annar möguleiki betri í stöðunni?

Og afhverju eruð þið svona mikið á móti því að nýta náttúruauðlindir landsins?  Það er aumt að búa í landi sem ekki má nýta auðlindir þess til hagsældar fyrir þjóðina.

Eitt veit ég, að ef Lára Hanna og skoðanasystkuni hennar væru við völd hér á landi og réðu gangi efnahagsmála, þá væri hér mikið atvinnuleysi og almment hallæri.  Þetta var einmitt sú efnahagsstefna sem stunduð var hér á tímum nýlendustjórnar dana, allt stóð hér óhreift, engar framkvæmdir, aðeins nauðþurftarlandbúnaður og fiskveiðar. 

Njáll Ó. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 09:40

17 identicon

Ef þessar Gufuaflsvirkjanir eru svona náttúruvænar eins og fram hefur verið talið, af hverju eru þá öll möstrin á Hellisheiði að ryðga í tætlur ???  Þetta eru möstur sem hafa verið þarna í fjólda ára án þess að ryðblettur sjáist á þeim, sem og ný möstur sem ættu ekki að byrja að ryðga strax.  Er magn Brennisteinssýru í útgufuninni kannski meiri og skaðlegri en áður var talið.   Og er gufan kannski ekki eins hættulaus og framámenn Orkuveitunar hafa haldið.  Og kannski, er þá verið að nota bestu fáanlegu mengunarvarnir á þessar virkjarnir, er yfir höfuð hægt að setja mengunnarvarnir á þær.  
Jaaaa, spyr sá sem ekki veit.   Kannski er búið að spyrja út í þetta, langar bara að varpa þessu fram.

Kv. Örvar

Örvar Már Kristinsson (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 10:50

18 Smámynd: Villi Asgeirsson

- Jóhann Pétur: "Gallinn við umhverfisverndarsinna almennt er sá að þeir eru ekki tilbúnir til þess að sættast á neinar málamiðlanir. Ég er virkjanasinni og finnst að ef að hægt er að virkja orku til þess að skapa störf, betri lífskilyrði fyrir fólk og já peninga þá eigi að virkja orkuna." Skemmtilega til orða tekið. Ég hefði sagt; Gallinn við virkjanasinna almennt er sá að þeir eru ekki tilbúnir til þess að sættast á neinar málamiðlanir og vilja virkja allt hugsunarlaust. Ég er umhverfisverndarsinni og finnst að ef að hægt er að nota hugmyndaflugið til að skapa fjölbreytt störf, betri lífskilyrði fyrir fólk og já peninga þá eigi að virkja landann.

- Njáll, ertu alveg viss um? Hvernig geturðu sagt að hér væri hallæri og atvinnuleysi án stóriðjustefnunnar? Auðvitað eiga einhverjar virkjanir rétt á sér, en það er engin ástæða til að virkja allt, skikka alla til að vinna í verksmiðjum og vera sáttur við kommúnismann sem hægri vængurinn setti á fót í landinu bundna. Það að líkja landi með fjölbreytta atvinnustefnu við einokunarverslun dana sýnir að þú hefur ekki hundsvit á því sem þú ert að tala um, eða ert að snúa útúr.

Villi Asgeirsson, 18.8.2008 kl. 11:23

19 identicon

Villi, þú virðist ekki skilja hugtakið "atvinnulíf" og svo langar mig til að spyrja þig er einhversstaðar fjölbreytt atvinnulíf annars staðar en á Suð-Vesturhorninu?  Þú virðist greinilega ekki gera þér grein fyrir þessu því sennilega ferðu ekki mikið út fyrir 101 Reykjavík þegar þú kemur heimsókn erlendis frá.  Það að hér sé stóriðja er hluti af fjölbreyttri atvinnustarfsemi landsins. 

Sú efnahagsstefna sem vinstrisinnaðir umhverfisöfgamenn vilja hér á landi myndi einungis stuðla að hallæri og fjöldaatvinnuleysi hér á landi nema einna helst á Suðvesturhorninu.  Þetta er í samræmi við "fagnaðarerindið" um Fagra Ísland, en skv. því á að gera alla landsbyggðina að einum allsherjar þjóðgarði og útivisitarsvæði sem einungis er opið ca. 3-4 mánuði á ári.  Þannig á að taka stór og gjöful svæði á landsbyggðinni í gíslingu til að sjá til þess að aldrei verða gerðar neinar atvinnuskapandi framkvæmdir þar.

Sjáðu t.d. þessa fáránlega framkvæmd á Vatnajökulsþjóðgarðinum.  Bróðurpartur starfa (bein sem og afleidd störf) sem Vatnajökulsþjóðgarður hefur gefið af sér hefur orðið til á Reykjavíkursvæðinu t.d. öll yfirstjórn Vatnajökulsþjóðgarðsins.  Yfirstjórn þjóðgarðsins hefðir í raun átt að vera sem næst sjálfum þjóðgarðinum t.d. á Höfn í Hornarfirði eða þá í Mývatnssveit, en ekki á Höfuðborgarsvæðinu.

Ég þekki margar sem vinna t.d. í álverinu fyrir austan og eru mjög ánægðir með það.  Þetta fólk hefur ekki verið þvingað til að vinna þar.  Það vinnur þar að fúsum og frjálsum vilja og vill heldur gera það heldur en að vera neytt til yfirgefa heimili sín og að flytja suður á Mölinu og leigja sig inn dýrum dómum í blokkar-gettó í einum af úthverfum Höfuðborgarsvæðisins að kommúniskum sið eins og skoðanasystkini þín á vinstri-vængnum vilja heldur.

Við eigum að nýta auðlindir landsisns, ekki vernda þær.  Það er aumt að eiga ríkulegar auðlindir sem ekki má nýta.  Er það virkilega svo að í framtíðinni verður farið að framleiða rafmagn hér á landi með kolum, olíu eða jarðgasi, nú eða því sem er enn "betra"; kjarnorku??? - einfaldlega til að þóknast háværum hópi svokallaðra umhverfissinna sem eru á móti virkjunum umhverfisvænnar orku hér á landi.

Njáll Ó. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 13:57

20 Smámynd: Villi Asgeirsson

- Njáll. Ég er sammála þér að atvinnumál á Íslandi eru í ólestri. Stefna síðustu ára að hafa allt í Reykjavík er kolröng. Það að kvótakerfið hefur ekki verið endurskoðað svo að atvinna við fiskverkun fari aftur út á land, þar sem stutt er á miðin, er ekkert annað en skandall. Það að eitt fyrirtæki á næstum allar matvöruverslanir á Íslandi er dæmi um spillingu. Sömu spillingu og hefur gert bankana ótrúlega ríka á kostnað almennings. Það er svo mikið að á Íslandi, en stóriðja mun ekki laga ástandið. Hugarfarsbreyting er svarið.

- Það eru sömu flokkar sem vilja stóriðju og hafa verið að grafa undan landsbyggðinni á undanförnum árum. Fyrst stela þeir lífsviðurværi landsbyggðarinnar, svo koma þeir og bjóða þér eitthvað annað að láni með vöxtum.

Villi Asgeirsson, 18.8.2008 kl. 14:13

21 Smámynd: Sævar Helgason

Sátt um virkjanir ?   Er ekki alveg heilmikil sátt um flestallar okkar virkjanir ?  

- Búrfellsvirkjun og allar þær virkjanir sem  henni eru tengjar ofar á svæðinu - er þar ekki sæmileg sátt ,kannski  Kvíslaveiturnar  með nokkra gagnrýni.?

- Virkjanir við Sogið- kannski Steingrímsstöð í gagnrýni vegna stór urriðans í Þingvallavatni ?

-Nesjavallavirkjun - bara gott mál

- Svartsengi og Reykjanesvirkjanir- er ekki sátt þar ? 

- Almennt er hlutleysi með væntanlega Hverarhlíðarvirkjun.

- Fáir eru sáttir við hönnun og frágang við Hellisheiðarvirkjun.

- Blönduvirkjun- sennilega yrði veruleg gagnrýni á ýmislegt henni tengt- nú í dag 

- Kárahjúkavirkjun verður seint tekin í sátt meðal stórshluta þjóðarinnar. 

- Fyrirhuguð virkjun á Ölkelduhálsi - svokölluð Bitra. Hún skorar ekki hátt og verður vonandi aldrei að veruleika...

Er þetta svo slæmt álit frá umhverfissinna og útivistarmanni sem ég er  ? 

Síðan er alveg heilmikil gagnrýni á það í hvað orkan fer til og á hvaða verði og hversu lítill okkar virðisauki er við þau viðskipti... 

Sævar Helgason, 18.8.2008 kl. 15:28

22 identicon

Sæll Villi. 

 Er svo innilega sammála þér í athugasemd nr. 21.  Er loksins sáttur við þig  :

Njáll Ó. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 16:18

23 Smámynd: Árni Gunnarsson

Auðvitað snúast þessar deilur ekki um það að við andófsfólkið viljum ekki að neitt sé virkjað á Íslandi. Þessi deila snýst um það að það er ekki sæmandi einni kynslóð að rífa í sig helst allar auðlindir þessa lands og selja orkuna fyrir smánarprís. Það er komin alger geðbilun í þetta stóriðjutal og þegar ræddar eru leiðir til atvinnusköpunar og gjaldeyristekna þá benda stjórnvöld einungis á þessa eða hina stórvirkjunina! Þetta er beinlínis uppgjöf fyrir þeirri skelfilegu kvöð að hugsa.

Á að viðhalda verkefnum fyrir stórvirk vinnutæki upp á milljarða fjárfestingu örfárra undangenginna ára og skapa verkefni fyrir flesta byggingakrana í heimi-miðað við fólksfjölda?

Ef það er stefnan þá er verið jafnframt að undirbúa stærsta efnahagshrun sjálfstæðrar þjóðar í allri sögu heimsbyggðarinnar.

Við eigum að hætta að trúa á ráðgjöf Hafró og auka tvöfalda þorskveiðarnar með uppbyggingu strandbyggðanna í huga. Við höfum verið að draga saman þessar veiðar svo mikið á fjórðungi aldar að nú veiðum við aðeins þriðjung þess sem þá var veitt. Og þrátt fyrir að allir firðir séu fullir af þorski!

Yrðu læknislyf notuð í 25 ár ef þrefalt fleiri sjúklingar létust í hlutfalli við það ár sem byrjað var að nota lyfið? Þessi ábending mín á fullan rétt á sér því við erum að tala um leiðir til atvinnusköpunar og gjaldeyrisaukningar,-ekki satt?

En líkt og í umræðunni um stóriðju þá leyfist víst ekki nema ein skoðun á þessu máli. 

Árni Gunnarsson, 18.8.2008 kl. 16:57

24 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Frábært hjá þér Lára Hanna að minna okkur kjósendur á að vera gagnrýnin í hugsun og vita hvað raunverulega skiptir mestu máli, nefnilega Umhverfisvernd. Stöndum saman um málefnið og kjósum ekki stóriðjuna sem eina kostinn til búsetu á Íslandi. Ó, hvað ég vildi aftur sjá blómstrandi mannlíf til sjávar og sveita. Það er ekki forsvaranlegt að veiðiheimildir skuli aðeins vera á fárra höndum og allt þetta kvótabrask sem því fylgir.

Íslenska lambakjötið er loksins orðið eftirsóknarvert í Ameríku, það væri stórkostlegt ef sú þróun heldur áfram. Ullin, tískan, hönnunin, allt þetta sér íslenska, skyrið, lýsið, fólkið, þarf byr undir báða vængi, stuðning sem hægt er að reiða sig á, þá blómstrar allt. Öll heilnæmu íslensku grösin í lyf, mat og snyrtivörur eru orðin eftirsótt útflutningsvara. Það má kasta fé í eitthvað af viti, til frekari rannsókna t.d. En stóriðjumengun, olíuhreinsunarstöð og annað þvíumlíkt er augljóst bann hér eftir sem hingað til á mínu heimili.  Takk fyrir mig, áfram Lára Hanna

Eva Benjamínsdóttir, 18.8.2008 kl. 18:04

25 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Sæl Lára, var með smá samantekt um næstu 4 gufuaflsvirkjanir í máli og myndum hér:

KRAFLA, GJÁSTYKKI, ÞEISTAREYKIR OG ÖLKELDUHÁLS - MYNDIR OG KORT http://photo.blog.is/blog/photo/entry/615764/

Kjartan Pétur Sigurðsson, 18.8.2008 kl. 18:28

26 identicon

Mér finnst punkturinn hans Kjartans í færslunni hans um Kröflu, Gjástykki, Þeistareyki og Ölkelduháls mjög mikilvægur. Við þurfum að halda vöku okkar með Bitruvirkjun en passa um leið upp á að ekki sé unnið í skjóli myrkurs annars staðar á meðan sú barátta er í gangi.

En burtséð frá því þá er það náttúrulega með ólíkindum að Bitruvirkjun skuli vera komið á dagskrá aftur.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 21:20

27 Smámynd: Víðir Benediktsson

Ég hef alltaf haldið að „Fagra Ísland“ gengið væru bjargvættar Helguvíkur. Össur Skarphéðinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Björgvin G. Sigurðsson. Þau hafa allavega haft sig mest frammi og umhverfisráðherra skrifað upp á pakkann athugasemdalaust. Reyndi svo að fá syndaaflausn veð því að hrekkja Húsvíkinga en það er í lagi, þetta eru bara landsbyggðabjálfar.

Víðir Benediktsson, 18.8.2008 kl. 22:16

28 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir innlit og athugasemdir, öllsömul.

Það er gott að eiga góða að þegar maður hefur ekki tíma til að sinna blogginu og svara athugasemdum. Ég sé að hér eru margir búnir að svara Jóhanni og Njáli alveg frábærlega og ég tek undir orð þeirra.

En mig langar að leiðrétta Jóhann Pétur aðeins. Ég skrifa um náttúruvernd, ekki umhverfisvernd. Vildi gjarnan takast á við umhverfisverndina líka en hef haft nóg með náttúruna. Þarna er grundvallarmunur á þótt þetta skarist hér og hvar.

Mér fannst innlegg Unnsteins mjög athyglisvert. Þarna skrifar ungur maður sem ekki vill láta þröngva sér til að vinna í álverum, virkjunum eða olíuhreinsistöðvum. Ég fullyrði að þetta sé almennt viðhorf hjá ungu fólki - það sér fyrir sér aðra framtíð. Hverjir koma þá til með að vinna þessi störf sem verið er að fórna náttúrunni og orkuauðlindinni fyrir? Hverjir reisa virkjanirnar og verksmiðjurnar? Hverjir reistu Kárahnjúkavirkjun og Hellisheiðarvirkjun? Ekki Íslendingar. Af hverju er Alcoa á Reyðarfirði alltaf að auglýsa eftir starfsfólki ef þetta eru svona eftirsótt störf?

Geir Guðjónsson hefur komið með mjög góð innleg við síðustu pistla mína. Mig langar að benda honum á eldri pistla mína um brennisteinsvetnismengunina af jarðhitavirkjunum. Þennan, þennan og svo þennan. Mér heyrist að við séum að hugsa á svipuðum nótum.

Njáll... mér líður ekkert illa út af meirihlutanum. En ég er ævareið og álit mitt á stjórnmálamönnum sekkur æ dýpra. Og já, ég get ímyndað mér aðra möguleika sem mér þættu betri í stöðunni.

Þú virðist vera að lesa bloggið mitt í fyrsta sinn - annars vissirðu að ég hef aldrei sagst vera á móti því að nýta náttúruauðlindir landsins. Það er rányrkjan á auðlindunum sem ég er mjög mótfallin. Asinn, hamagangurinn og lætin við að virkja allt sem virkjanlegt er án þess að búið sé að hugsa fyrir mengunarvörnum og fleiru sem nauðsynlegt er að gera strax á fyrstu stigum. Ég er alfarið á móti því að þurrausa allan jarðvarmann okkar á örfáum áratugum og skilja ekkert eftir handa afkomendum okkar. Lestu þennan pistil, þá skilurðu kannski betur hvað ég á við.

Ég er líka mótfallin því að við bindum nánast alla orkuframleiðslu okkar í þjónustu álvera í eigu erlendra auðhringa sem, þegar þeir hafa náð tangarhaldi á efnahag okkar og gert okkur háð sér, geta farið með landið að vild. Og pakkað saman og farið ef þeim sýnist svo og skilið okkur eftir - búnir að gjörnýta orkuna. Sagt er að eftirspurn eftir orku sé að snaraukast. Af hverju ættum við þá að selja orkuna okkar - alla í einu - á útsölu? Getur einhver sagt mér hvaða vit er í því? Njáll...?

Eg er innilega sammála ykkur Villa að atvinnumál á Íslandi séu í ólestri.  Kvótakerfið er hneyksli og ekkert annað en einkavæðing á einni af okkar stærstu auðlindum.

En á meðan fólk hleypir við gylliboðum, fögrum loforðum og auglýsingaherferðum fyrir kosnigar breytist ekkert. Við erum heldur ekki nógu dugleg að mótmæla - láta í okkur heyra og mynda þrýsting. Það má ekki láta stjórnmálamenn komast upp með að stilla landsbyggðinni upp gegn þéttbýlinu. Við erum bara 300.000 og við eigum að geta haft hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Við eigum allt landið saman og eigum að geta búið hér saman í sæmilegri sátt.

Lára Hanna Einarsdóttir, 19.8.2008 kl. 00:52

29 Smámynd: Kári Gautason

Það virðist vera mjög útbreiddur misskilningur meðal íslendinga að aldamótakynslóðin sé öll æst í að vinna í þungaiðnaði. Ég tek undir með manninum hérna á undan sem sagðist ekki vilja vinna í olíuhreinsunarstöð, álveri eða virkjun. Ég held að þó að það séu alltaf einhverjir sem vilja það þá sé það hálfger geggjun að setja niður álver í hvurjum firði til að "bjarga" landsbyggðinni.

Sérstaklega þegar orkan er gefin til ógeðslegra iðnaðarrisa sem eru með skítaslóðina eftir sig um allan heim. Svo finnst mér ísland varla geta lagst lægra heldur en að fá glæpafyrirtækið Bechtel til að reisa álverið. 

Kári Gautason, 19.8.2008 kl. 08:58

30 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Frábært hjá þér Lára Hanna að minna okkur kjósendur á að vera gagnrýnin í hugsun og vita hvað raunverulega skiptir mestu máli þegar upp er staðið. Náttúruvernd til framtíðar.

Stöndum saman um málefnið og kjósum ekki Stóriðjuna sem eina kostinn til búsetu á Íslandi.

Eva Benjamínsdóttir, 19.8.2008 kl. 11:40

31 identicon

ALCOA auglýsti mikið fyrri part þessa árs eftir fólki, því verið var að gangsetja álverið.  Álverið náði hámarksafköstum í apríl/maí sl. síðan þá hefur ekki verið mikið um auglýsingar frá þeim, svona ekki meira en gengur og gerist hjá fyrirtæki sem telur næstum 500 starfsmenn.  Ágætlega hefur gengið að manna störf hjá ALCOA-fjarðaráli, mestmegnis íslendingum, bæði karlar og konur - (ca. 35% starfsfólks þar eru konur).

Nú um stundir eru álver málið í íslenskri atvinnustefnu.  Gagnaver, sem talin eru vera "græn" stóriðja eru líka farin að líta dagsins ljós, en því miður bendir allt til þess að þau rísi öll á Suð-Vesturhorinu, þar sem reyndar er nóg af öllu fyrir. 

Eftir 10 ár er eitthvað annað sem verður málið í íslenskri atvinnustefnu.  Kannski verður það orkuframleiðsla í formi vetnis sem selt yrði á erlenda markaði í fljótandi formi, en þá munu líklega koma upp deilur um þar, hvar þessi starfsemi eigi að vera og hvar eigi að virkja.  Einhverjum mun líða mjög illa yfir því ef slík starsemi ætti að verða úti á landi.  Líklega verður gerð "krafa" um það að slík starfsemi verði á Suð-Vesturhorninu.

Vandamálið með atvinnurekstur hér á landi er að svokölluð hátæknifyrirtæki vijla ekki setja upp starfsemi annars staðar en á Höfuðborgarsvæðinu, Marel vill það ekki, heldur ekki Actavis, hvað þá Össur svo dæmi séu tekin.  Sjávarútvegur er deyjandi starfsemi að því leytinu að hann safnast saman í nokkrum byggðalögum.  

Það er enginn að tala um að setja upp álver í hverjum firði, það er barnaskapur að halda slíku fram.  Heldur er verið að tala um að setja upp áliðnað í kannski einum fjórðungi í viðbót, nefnilega Norð-Austurkjrödæmi, þ.e. Húsavíkursvæðið.  Á hinn bóginn er verið að tala um að byggja 3-4 áliðnaðarfyrirtæki á Suð-Vesturhorninu - (eitt í Helguvík, og a.m.k. tvö í Þorlákshöfn).  Enginn virðist telja það vera tiltökumál, en að byggja álver úti á landsbyggðinni finnst fólki hinsvegar vera alveg hræðilega vitlaust.

Ferðamannaiðnaður yrði t.d. aldrei berandi ativnnugrein í hinum dreifðu byggðum m.a. vegna legu þeirra og samgönguleysis, auk þess að ferðainðaðurinn er alltaf árstíðaratvinnugrein.  Það er því tómt mál að tala um að dreifbýlið eigi að einbeta sér að ferðaiðnaðinum í staðinn fyrir t.d. áliðnaðinn.  Ferðaiðnaður yrði hinsvegar alltaf fín búbót á vissum svæðum. 

Það sama má segja um fjallagrasatínslu, slík atvinnustarfsemi yrði einungis fín búbót, en ekki berandi atvinnugrein því ef fjallagrasatínsla er orðin berandi atvinnugrein, þá erum við farin að tala um stóriðju í þeim efnum, og það orð (þ.e. orðið "stóriðja) er bannorð hjá umhverfis- og náttúruverndarsinnum.

En að gera Ísland, og þá sérstakelga landsbyggðina, að einum allsherjar þjóðgarði og útivistarsvæði (les = náttúruvernd) er ekki góð latína og myndi aldrei gefa af sér neinar tekjur að ráði, sérstaklega ekki hinum dreifðu byggðum landsins.   Að byggja hér borgríki (eins og allt bendir til að hér verði) hefur margvísleg vandamál í för með sér, m.a. mengun og umhverfis- og skipulagsslys.  En margir vilja að Ísland verði borgríki svo að afgangurinn af landinu verði bara náttúra upp á punt.

Njáll O. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 19.8.2008 kl. 15:09

32 identicon

Ég dáist af þér og þínu framtaki!

Heiðrún (IP-tala skráð) 21.8.2008 kl. 15:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband