Ólafur Ragnar og útrásin

Ólafur Ragnar GrímssonÉg hef aldrei haft mjög sterkar skoðanir á Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, hvorki til eða frá... nema kannski hárgreiðslunni. Mér hefur aldrei fundist hann vera fulltrúi minn, hvorki innanlands né utan, og alls ekki eftir að hann byrjaði að messa um "hreina og endurnýjanlega" orku Íslendinga. Í þeim efnum þarf Ólafur Ragnar að vinna heimavinnuna sína betur. Ég held að það sé svolítið langt í að nokkur komist með tærnar þar sem Vigdís Finnbogadóttir hafði hælana í þessu embætti, þótt auðvitað hafi hún ekki verið fullkomin frekar en aðrir. Mér heyrist að flestir Íslendingar sem upplifðu forsetatíð hennar líti ennþá á hana sem Forsetann - með stóru effi.

Nú er mikið talað um samband og samskipti Davíðs og Ólafs Ragnars í tilefni af sögu forsetans sem er að koma út í bók. Vonandi fær maður tækifæri til að glugga í hana einhvern tíma. Ólafur Ragnar var gagnrýndur harðlega af ýmsum fyrir þjónkun við auðmenn í útrásinni, ferðalög í einkaþotum þeirra og hvernig hann smurði þá lofi við hvert tækifæri fullkomlega gagnrýnislaust. Ekki var forsetinn þó einn um þetta dálæti á útrásarbarónunum og þar ættu ráðherrar, þingmenn, ýmsir embættismenn og fleiri að líta í eigin barm.

Ólafur Ragnar ræddi ástandið í þjóðfélaginu og þessa þátttöku sína í blekkingarvef útrásarinnar í Kastljósi 13. október sl. Segja má að þetta hafi verið einhvers konar vísir að uppgjöri við þetta tímabil og eðlilega reynir forsetinn að fegra sinn þátt, það er svosem bara mannlegt þegar mistök eru viðurkennd. En lítum á viðtalið.


Í ljósi þessa er forvitnilegt að rifja upp fyrirlestur sem forsetinn flutti í fyrirlestraröð Sagnfræðingafélagsins 10. janúar 2006, fyrir tæpum þremur árum, þegar útrásin var á fullu skriði. Ég veit ekki hvort fyrirlestur þessi er birtur í bókinni, en þetta er líka sagnfræði og ber að halda til haga. Myndskreytingar eru mínar.

ÚTRÁSIN:
UPPRUNI - EINKENNI - FRAMTÍÐARSÝN

Fyrirlestur forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar
í fyrirlestraröð Sagnfræðingafélagsins 10. janúar 2006

Umræðan um útrás hefur birst okkur í mörgum myndum. Sumir ræða um hana sem afmarkað og skilgreint fyrirbæri, hjá öðrum gætir undrunar og efasemda, spurt er hvort þessi þróun fái staðist til lengdar, hvort hún sé byggð á sandi, glæfraspil sem komi þjóðinni í koll; fjármunir að mestu Glópagullfengnir að láni og senn komi að skuldadögum.

Útrásin er þó staðfesting á einstæðum árangri Íslendinga, fyrirheit um kröftugra sóknarskeið en þjóðin hefur áður kynnst, ekki aðeins í viðskiptum og fjármálalífi heldur einnig í vísindum, listum, greinum þar sem hugsun og menning, arfleifð og nýsköpun eru forsendur framfara.

Útrásin er byggð á hæfni og getu, þjálfun og þroska sem einstaklingar hafa hlotið og samtakamætti sem löngum hefur verið styrkur okkar Íslendinga. Nauðsyn þess að allir komi að brýnu verki var kjarninn í lífsbaráttu bænda og sjómanna á fyrri tíð, fólkið tók höndum saman til að koma heyi í hús meðan þurrkur varði eða gerði strax að afla sem barst á land.

Það er forvitnilegt umræðuefni hvernig menning og saga móta útrásina, hvernig eiginleikar sem eiga sér rætur í arfleifð okkar gefa Íslendingum hugsanlega forskot á alþjóðavelli, hvernig vitund og venjur sem um aldir mótuðu samfélagið hafa reynst útrásarsveitinni haldgott veganesti.

Raunar má leika sér með þá hugsun að landnámsöldin sé á vissan hátt upphafið að þessu öllu saman og þjóðveldið hafi fært okkur fyrirmyndir sem efldu sóknaranda.

Hinir fyrstu Íslendingar voru sannarlega útrásarfólk, jafnvel svo afgerandi Víkingurað þau sem nú gera garðinn frægan blikna í samanburði. Landnámsmenn yfirgáfu ættaróðul í öðrum löndum og héldu hingað í óvissuna, gerðu úr óbyggðum dölum blómlegar sveitir, lögðu grundvöll að samfélagi laga og réttar sem þúsund árum síðar vekur enn aðdáun víða um heim og varð reyndar grundvöllur sjálfstæðisbaráttunnar á sínum tíma, að ógleymdum bókmenntunum sem lýsa ævi og örlögum þessa stórbrotna fólks.

Liðssveitin sem hér nam land var hluti af samfélagi víkinganna, þjóðflokkum sem voru á árabilinu 800 til um 1000 víðförlasta fólkið í veröldinni, hikaði ekki við að sækja frægð og frama langan veg, fór um Evrópu alla, upp stórár Rússlands og til Miklagarðs, suður um álfu til Miðjarðarhafsins, yfir úfið haf til Íslands og Grænlands og dvaldi um skeið í Ameríku.

Þótt sagnfræðin sem skrifuð var í anda sjálfstæðisbaráttunnar hafi gert landnámsmenn að Íslendingum nánast strax við upphaf byggðar þá var raunin sú að fólkið sem hingað kom var hluti af menningarheild sem sótti nýjan efnivið á framandi lendur, hélt í langferðir í leit að betri tækifærum, bar í brjósti svipaðan útrásaranda og mótað hefur árangur okkar að undanförnu.

Sumum kann að þykja langsótt að tengja landnámstímann við greiningu á útrásinni en menningin á sér nú einu sinni djúpar rætur og þessi arfleifð eins og hún er túlkuð af samtímanum hefur mótað okkur öll. Þjóðarvitund Íslendinga er sprottin af frásögnum um fólkið sem hér kom fyrst og sjálfstæðisbaráttan gaf þessum tíma æðra líf. Þjóðveldið, menning þess og bókmenntir, lög og réttur voru kjarninn í sögulegri réttlætingu á kröfum Íslendinga um að vera metnir til jafns við aðrar þjóðir.

Leifur heppni EiríkssonSamskiptin við önnur lönd aldirnar sem liðu frá þjóðveldistíma til lýðveldisára voru reyndra til muna meiri en oft er talið og einangrunin ekki eins afgerandi og stundum er látið. Vesturferðir höfðu einnig á sínum tíma mikil áhrif, einmitt í kjölfar þess að Íslendingar fengu stjórnarskrá og breytingar á landbúnaði og sjávarútvegi fóru að láta á sér kræla. Í Kanada og Ameríku kynntust landar nýrri veröld, framförum og tækni sem voru annarrar ættar en þekktist á Fróni, fluttu í bréfum ítarlegar fréttir af reynslu sinni, gáfu út bæklinga og blöð sem bárust hingað og létu til sín taka í framfarasókn. Stofnun Eimskipafélagsins með þátttöku þeirra var forsenda útrásar sem skilaði Íslendingum margvíslegum ávinningum á fyrstu tugum liðinnar aldar.

Öll þessi reynsla er sameign okkar og mótar viðhorf og hugsun á ýmsan hátt, gerir okkur kleift að nýta fljótt og vel tækifærin sem hin breytta heimsmynd færir okkur.

Lykillinn að árangrinum sem útrásin hefur skilað er fólginn í menningunni, arfleifðinni sem nýjar kynslóðir hlutu í vöggugjöf, samfélaginu sem lífsbarátta fyrri alda færði okkur, viðhorfum og venjum sem eru kjarninn í siðmenningu Íslendinga.

Útrásin á sér djúpar rætur í sögu okkar, heimanfylgjan sótt í sameiginlega þjóðarvitund þótt vissulega hafi breytingar í veröldinni lagt þar lóð á vogarskálar.

Endalok kaldastríðsins opnuðu öllum nýjar dyr, leystu úr fjötrum ótal krafta, skópu tengsl í flestar áttir, gerðu okkur kleift að sækja inn í lönd sem áður voru að mestu lokuð og eignast þar öfluga bandamenn.

Alþjóðavæðingin gerði heiminn að einu markaðssvæði og eyddi mörgum þeirra hindrana sem áður voru í vegi, gaf fyrirtækjum sem spruttu upp í litlum löndum tækifæri til að verða stór á skömmum tíma, jafnvel ná í fremstu röð á sínu sviði. Enn er þó verulegum hluta jarðarbúa vegna eymdar, sjúkdóma, menntunarskorts eða annarra erfiðleika meinað að njóta kostanna sem þessi breyting skapar.

Upplýsingabyltingin færði okkur ný tæki í hendur og gerði kleift að tengja Gutenbergsaman einstaklinga og vinnustaði hvar sem er í veröldinni. Allir geta nú á sömu stundu átt sams konar aðgang að upplýsingum, hvort sem í hlut eiga tíu menn eða milljarður jarðarbúa, þótt fátækt og hindranir í krafti ríkisvalds komi enn í veg fyrir að hundruð milljóna geti nýtt sér þessa ávinninga. Hver og einn af okkur hinum getur hindrunarlaust komið hugsun og ætlan áleiðis hvenær sem er á sólarhringnum. Tækifærin til að skapa samvinnuheildir hafa aldrei verið slík; áhrifamáttur Gutenbergs bliknar í samanburði.

Þessari þróun hefur verið lýst í frábærri bók Thomasar Friedman The World is Flat en hið merka blað Financial Times kaus hana bestu bók liðins árs enda höfundurinn margverðlaunaður blaðamaður New York Times. Hann lýsir hvernig samspil upplýsingabyltingar og alþjóðavæðingar hafi gert að engu drottnunarvald sem risavaxin skrifræðisbákn stórra ríkja og framleiðslujöfra nutu áður. Nú geti hver og einn, unglingur í indversku þorpi eða frumkvöðull í íslenskri sveit, haft sömu áhrif til nýsköpunar og þeir sem að forminu til eru valdamenn, hvort heldur er í viðskiptalífi eða alþjóðamálum. Frumkvæði geti nú komið úr öllum áttum.

Sama hugsun hefur á undanförnum árum iðulega leitað á mig og ég reifað hana í samræðum við erlenda gesti sem biðja um skýringar á því sem þeir nefna íslenska undrið. Einnig hef ég leitast við að lýsa henni í erindum og málflutningi í ýmsum löndum, kannski einna fyrst á ítarlegan hátt í fyrirlestri sem ég hélt við Harvard háskóla fyrir tæpum fjórum árum og fjallaði um tækifæri smárra ríkja, bar heitið „Opportunities for Small States in the Age of Globalisation: The Icelandic Experience".

Að vísu má finna ræturnar að þessari hugsun í innsetningaræðu við embættistöku 1. ágúst 1996 en þar sagði ég meðal annars:

„Við eigum að vera bjartsýn þegar við hugum að möguleikum okkar sem þjóðar í náinni framtíð. Þróun heimsmála, vísinda og tækni er okkur á margan hátt hagfelld. Við blasir ný veröld sem einkennist fremur af opnum samskiptum enÍslandskort Ortelíusar 1590 af lokuðum valdakerfum. Hæfni og hugvit skipta meira máli en stærð og styrkleiki. Hinn smái getur haft til að bera snerpu og knáleik sem oft dugar ekki síður en afl risans við að hagnýta tækni nútímans.

Við Íslendingar eigum því einstæða möguleika. Við erum allstaðar boðin velkomin til samstarfs við nýfrjálsar þjóðir og þróunarríki. Enginn þarf að óttast okkur vegna stærðar eða hugsanlegs yfirgangs. Einangrun vegna fjarlægðar og samgönguhindrana er að mestu úr sögunni og tækifæri bíða í öllum heimshlutum."

Það er ánægjulegt að geta nú litið til baka og borið vitni um að þessi framtíðarsýn er orðin að kraftmiklum veruleika, skapandi og ólgandi framrás sem fært hefur viðskiptalífi og vísindastarfi, listum og menningu okkar Íslendinga nýtt blómaskeið.

Í fyrirlestrinum við Harvard háskólann vakti ég athygli á að iðnbyltingin hefði skapað vaxtarskeið hinna stærri ríkja og fjöldaframleiðslan verið helsta tækið til sóknar. Upplýsingabyltingin og alþjóðavæðingin hefðu á hinn bóginn breytt leikvellinum og nýjungar gætu nú birst úr öllum áttum, frumkvæði einstaklinga og sköpunargáfa gert fyrirtækjum hvar sem væri í veröldinni kleift að verða á skömmum tíma áhrifamikið afl á heimsmarkaði. Andlegar afurðir, sérhæfð þjónusta og upplýsingakerfi sem yrðu til í smærri ríkjum gætu innan tíðar orðið arðbær á veraldarvelli. Vöxtur fyrirtækja væri ekki háður sömu hindrunum og áður var. Þau gætu í krafti alþjóðavæðingar fljótt orðið risavaxin. Ný öld færði smærri þjóðum tækifæri til að blómstra. Aldrei fyrr hefðu þær átt slíka möguleika á hagsæld og framfararsókn.

Í fyrirlestrinum benti ég einnig á að í hinu nýja hagkerfi heimsins gætu smáríki á ýmsan hátt verið vænlegur vettvangur til nýsköpunar. Þar væri auðveldara að sjá samhengi hlutanna, öðlast aðgang að upplýsingum og finna lausnir á flóknum vanda, skapa samvinnu ólíkra aðila án mikillar fyrirhafnar eða flókinna samninga.

Smáríkið gæti verið eins konar tilraunastofa, einkum á sviðum sem helst Tilraunastofamyndu setja svip á framþróun heimsins á komandi árum, sviðum sem byggð eru á hugsun og hæfni, frumkvæði og getu til nýsköpunar. Það sem reynist vel á smáum heimavelli gæti átt mikla möguleika á heimsmarkaði. Hin nýja heimsmynd geti fært smáum ríkjum nýtt blómaskeið og á margan hátt væri þróunin þeim hliðhollari en gömlum áhrifaríkjum.

Ég nefndi í lokaorðum að margt benti til að menning hefði í framtíðinni mikil áhrif á samkeppnishæfni þjóða heims, sköpunarkrafturinn yrði sá þáttur sem úrslitum réði, ekki fjárhagsstyrkur eða framleiðslugeta, því hægt væri að fá aðgang að slíku á auðveldan hátt. Nægir peningar væru til í veröldinni, en frumleg og skapandi hugsun af skornum skammti. Einnig að þessu leyti gætu hin smáu ríki öðlast lykilstöðu því sagan sýndi að nýsköpun og áfangar í þróun siðmenningar gætu birst með skýrum hætti í fámennum samfélögum. Flórens og Feneyjar á tímum endurreisnar, Aþena og Róm til forna myndu á okkar tímum teljast til smæstu ríkja heims.

Allt á þetta erindi í umræður um útrásina og ég hef hvað eftir annað áréttað mikilvægi menningar og siðvenja til skýringar á árangri Íslendinga; nýlega í erindum bæði í London og New York og nokkru áður í Kaupmannahöfn en í þessum borgum er oft spurt hvernig á því standi að íslenskir athafnamenn beri sigurorð af öðrum, nái árangri sem tíðindum sætir og það í greinum þar sem þjóðin var áður lítt að verki svo sem í lyfjaframleiðslu, fjármálastarfsemi og alþjóðlegum bankarekstri, í viðskiptum með tískuvörur og í smásöluverslun, í framleiðslu á gervilimum og í rekstri símafyrirtækja svo að nokkur dæmi sé nefnd auk flugrekstrar og markaðssetningar matvæla þar sem við hefðum áður sýnt hvað lítil þjóð getur gert.

Í erindum austan hafs og vestan hef ég stundum nefnt tíu eiginleika sem gert hafa íslensku útrásina glæsilega - og flestir eru þeir mótaðir af menningu okkaSjómaðurr, samfélagi og arfleifðinni.

Í fyrsta lagi vinnusemi sem ef til vill er arfur frá samfélagi þar sem allir þurftu að leggjast á árar, bæði bændur og sjósóknarar, og ekki var spurt um tímafjölda þegar lífsbjörgin var í húfi.

Í öðru lagi áhersla á árangur frekar en feril ákvarðana, að ganga beint til verks og ljúka því á skömmum tíma, spyrja hvenær frekar en hvernig og láta sér ekki vaxa í augum þótt tíminn sé naumur.

Í þriðja lagi að eiga auðvelt með að taka áhættuna, að þora þegar aðrir hika, kannski vegna þess að lífi sjómannsins fylgir jafnan hætta og útrásin er eins konar róður á ný mið. Við vitum líka að ætíð er hægt að hverfa aftur heim til Íslands ef illa fer í leiðangrinum og eiga hér hið besta líf því öryggisnetið sem velferðarsamfélagið veitir okkur tryggir öllum sama rétt til menntunar og umönnunar óháð efnahag. Athafnamenn í sumum öðrum löndum verða hins vegar oft að leggja velferð fjölskyldunnar á vogarskálar áhættunnar.

Í fjórða lagi að flækjur skrifræðisbákna hafa aldrei þvælst fyrir okkur Íslendingum; við erum vön að eiga beint við einstaklinga. Kannski hefur smæðin blessunarlega komið í veg fyrir að virkisveggir skrifræðis risu hér; við höfum einfaldlega ekki haft mannskap til að hlaða þá.

Í fimmta lagi hin ríka áhersla á að treysta hvert öðru, að orðheldni sé mikil dyggð, enda formlegir samningar oft óþarfir í litlu samfélagi. Það gerir fólki kleift að vinna saman og ná árangri hraðar en þeir sem vanist hafa skriflegri og flókinni umgjörð um samstarf áður en verkið sjálft er hafið.

Í sjötta lagi hve auðvelt er að mynda samstarfshópa sem stefna að sama marki, að skapa iðandi keðju bandamanna í ákvörðunum og ná þannig forskoti á fulltrúa hinna stóru sem bundnir eru af þunglamalegu og flóknu kerfi.

Í sjöunda lagi hinn íslenski athafnastíll þar sem stjórnandinn sjálfur er í fremstu röð, líkt og skipstjóri í brúnni sem deilir örlögum og áhættu með áhöfninni. Fyrirtækin öðlast svipmót frumkvöðlanna, persóna hans eða hennar verður ráðandi afl og slíkt stuðlar að ábyrgð og forystu í ríkara mæli en þar sem stjórnendur standa í skjóli af stærri heildum.

Í áttunda lagi arfleifðin sem ég nefndi í upphafsorðum, landnámið og tími Úr Hávamálumvíkinganna, sem færði okkur fyrirmyndir, hið djúpstæða viðhorf að sá sem heldur á ókunnar slóðir verðskuldi heiður, að leggja á hafið og nema lönd færi virðingu og sóma. Athafnamenn okkar tíma eru ærið oft metnir á slíkan kvarða og litið á þá sem arftaka hefðar sem á sér rætur í upphafi Íslandsbyggðar.

Í níunda lagi og einnig þar eru tengslin við forna tíma skýr, Eddukvæðin, Hávamál: „Deyr fé,/ deyja frændur,/ deyr sjálfur hið sama./ En orðstír / deyr aldregi / hveim er sér góðan getur." Við vitum að mannorðið er dýrmætara en flest annað og slík hugsun er vænlegra leiðarljós um ókunna vegu á heimsmarkaði en regluverk eða flókin vegakort sem aðrir hafa samið. Það dugir Íslendingum lítt til sæmdar að brjótast áfram í öðrum löndum með aðferðum sem eru vafasamar því orðstírinn kann að tapast í slíkri för.

Í tíunda lagi áherslan á sköpunargáfu; virðing sem hinn frumlegi nýtur á heimaslóð og öndvegið sem skáldin sátu forðum hafa fylgt okkur um langan veg. Orðið athafnaskáld er lýsandi dæmi um hvernig þessi hugsun hefur fengið gildi í samtímanum. Þeim sem eru skapandi í hugsun, móta nýjan texta, nýja reynslu, nýtt verkasvið, nýjan athafnavöll er skipað í virðingarsess.

Skáldgáfa, sköpunargleði í fjölbreyttum myndum, hefur alltaf verið styrkur Íslendinga og það nýtist okkur vel í nútímanum enda hafa margir kunnáttumenn fært fyrir því rök að það sem á ensku er nefnt „creativity" verði í vaxandi mæli ráðandi um afkomu og árangur þjóða, afdrifaríkara en fjárhagsstyrkur eða framleiðslugeta.

En sköpunarkrafturinn er á engan hátt sjálfgefinn. Hann verður ekki til í krafti reiknilíkans eða sóttur í bankahólfin. Sköpunarkrafturinn er afrakstur menningar, afurð samfélagsins, þjóðarminnis og margs konar hefða. Hann er gjöf sem fyrri ár og aldir hafa fært nútímanum og verðmætasti höfuðstóll útrásarinnar.

Gestir sem skoða Ísland með glöggum augum undrast sköpunarkraftinn sem hér birtist, ekki aðeins í viðskiptalífi og umsvifum athafnaskálda, heldur einnig í listum og menningarlífi, í vísindum og rannsóknarstarfi.

Íslenskt listalíf hefur aldrei fyrr staðið í slíkum blóma og útrásin er einnig þar boðorð dagsins.

Íslensk tónlist er orðin víðkunn í veröldinni, verk tónskálda, söngvarar, hljómsveitir, bæði Sigur Rós og Sinfónían, og fjölsótt tónlistarveisla Iceland Airwaves er tákn um gróskuna meðal unga fólksins.

Heimurinn að fótum okkarÍslensk myndlist vekur í vaxandi mæli áhuga kunnáttufólks í mörgum löndum og útrás málaranna hefur opnað þeim nýjar leiðir. Aldrei hafa jafn margir íslenskir rithöfundar átt traustan lesendahóp utan landsteinanna og nýsköpunin í bókmenntunum er jafnóðum komin á erlendar tungur. Hin unga kynslóð leikhúsanna hikar ekki við að leggja Lundúni að fótum sér og Íslenska dansflokknum er reglulega boðið að sýna í ýmsum löndum. Kvikmyndagerðin er í vaxandi mæli alþjóðleg og erlendir stórleikarar birtast nú í íslenskum myndum.

Útrásin hefur einnig umskapað háskólana, vísindastarfið og rannsóknirnar. Víðtæk samstarfsnet við fræðimenn í öðrum álfum setja nú svip á þekkingarsamfélagið. Framlag Íslendinga til nýsköpunar í vísindum og tækni er umtalsvert og í mörgum greinum. Það var staðfesting um nýja tíma að forseti Indlands skyldi á liðnu ári óska eftir því að í opinberri heimsókn hingað yrði dagskráin einkum byggð á árangri sem náðst hefur með íslensku vísindastarfi. Tengsl okkar við Indland og Kína, en líka Bandaríkin og evrópskar slóðir, byggjast í æ ríkara mæli á útrás vísindanna, á nýsköpun þekkingar sem er öðrum nauðsynleg til framfara á þeirra heimaslóð.

Útrás og sköpunarkraftur eru burðargreinar af sama meiði og hvorug getur án hinnar verið.

Það er einnig merkilegt og kann að vera kjarni máls þegar leitað er skýringa á útrásinni að á Íslandi er skapandi gerjun á ólíkum sviðum - í viðskiptum, vísindum, menningarlífi - og umsvif og nýsköpun á einu þeirra hafa áhrif á önnur; hin gagnkvæmu áhrif mynda skapandi heild. Smæðin gerir það að verkum að gerendur á öllum sviðum - athafnafólk, listmenn, vísindamenn og rannsakendur - eru í nánara samneyti en tíðkast víða annarsstaðar, blanda geði á ýmsan hátt og tengjast hringiðu daglegs lífs á gamla Fróni. Í öðrum löndum byggja stærðin, mannfjöldinn og hefðirnar múra og skipa fólki á ólíka bása sem kunna að hindra gagnkvæm áhrif.

Að þessu leyti er Ísland á vissan hátt samfélag renaissansins, endurreisnar, þar sem blómaskeiðið byggist jöfnum höndum á viðskiptum, vísindum og listum, samfélagi fólks sem skarar framúr á ólíkum sviðum.

Reynslan hefur sannfært mig um að návígi viðskipta, vísinda og menningar hér á heimavelli er mikilvæg skýring á árangri útrásarinnar; hin gagnkvæma vitneskja um afrakstur á einu sviði hvetur til atorku á öðru; sköpunarkraftur eins sækir næringu í það sem vel tekst hjá öðrum. Án þessa nána sambýlis viðskipta, vísinda og lista yrði útrásin aðeins svipur hjá sjón.

Forsenda hins glæsilega sóknarskeiðs er þó umfram allt menntunin sem hinÚtrásarvíkingur yngri kynslóð hefur hlotið, fólkið sem nú er á besta aldri. Íslendingar hafa kappkostað að veita öllum aðgang að langskólanámi og á síðari áratugum hafa þekking og þjálfun verið sótt til margra landa, fólk farið til náms við hin bestu lærdómssetur. Útrásin byggir á að læra af öðrum, sjá tækifærin sem víða gefast, flytja heim þekkingu og reynslu sem kunna að verða að nesti í næsta leiðangri.

Aldrei fyrr í sögu okkar hafa Íslendinga stundað nám í jafn mörgum löndum og í jafn fjölþættum greinum og sú ánægjulega staðreynd að þorrinn snýr aftur heim hefur skapað hér sífelda gerjun á þekkingarsviði; hið nýjasta er sífellt að ögra því sem fyrir er í fleti. Við fáum til okkar rjómann af því sem þekkist í fremstu lærdómssetrum veraldarinnar og hinir eldri þurfa að vera á tánum til að standast nýliðum snúning.

Í þessum efnum er smæðin okkur einnig ávinningur því í stærri löndum er tilhneiging til að fara ekki út fyrir túngarðinn heima, en við vitum vel að „Sá einn veit / er víða ratar", svo aftur sé vitnað til Hávamála. Við erum neydd til að leggja lönd undir fót og færum svo lærdóminn með okkur heim; þannig var það á blómaskeiði ritlistar og fræða á tólftu og þrettándu öld og þannig er það enn á okkar tímum. Ísland er vettvangur sífelldrar endurnýjunar á þekkingarsviði og gerjunin og nýsköpunin sem í kjölfarið kemur hafa lagt grundvöll að útrásinni.

Þegar spurt er um framtíðarhorfur, hvort útrásin muni daga uppi eða halda áfram á sóknarbraut, þá felst svarið fyrst og fremst í menntuninni. Verður háskólum og þekkingarsókn til annarra landa áfram gert kleift að standast ítrustu kröfur? Verður mælikvarði á heimsvísu áfram markmið í menntastefnu Íslendinga?

Svarið er líka fólgið í því að vel sé hugað að undirstöðum, að hin metnaðarfulla útrásarsveit haldi ávallt áttum, glati ekki jarðsambandi þótt vel gangi, meti áfram að verðleikum samfélagið sem þau hefur fóstrað og komi fram af virðingu og sanngirni ekki aðeins við íslenska þjóð heldur einnig við íbúa annarra landa, gleymi ekki að útrásin byggir í grunninn á sögu, menningu og siðviti Íslendinga.

Hin fjölþætta útrás sem orðið hefur drifkraftur nýsköpunar á mörgum sviðum hefur alla burði til að verða veigameiri í framtíðinni; hún getur skapað undirstöður blómlegrar tíðar og haft jákvæð áhrif á hagsæld allra íbúa landsins, á allaTraustar stoðir?r byggðir, stéttir og starfsgreinar. Útrásin er ekki einkamál þeirra sem ryðja brautir. Hún litar samfélagið allt, opnar augu landsmanna fyrir tækifærum á mörgum sviðum, dregur fram það sem gerir Íslendinga í stakk búna til að eflast og styrkjast í veröldinni. Hin breytta heimsmynd er okkur hliðholl og tækifærum fjölgar ört.

Blómaskeið með rætur í útrásinni - blómaskeið í viðskiptum, vísindum og listum - er sú framtíðarsýn sem hæglega getur orðið að veruleika og þótt ætíð sé gott að hafa varann á sér, efast um ágæti þess sem fyrir augu ber og árétta nauðsyn þess að stoðir útrásarinnar verði áfram traustar, bendir fátt til annars en að útrásin muni á komandi árum færa okkur sífellt nýja landvinninga og gefa öllum Íslendingum kost á að njóta betra lífs.

Útrásin hefur margháttuð áhrif á líf þjóðarinnar, líka fólksins sem finnur ekki í fljótu bragði samhljóm með fréttum af landvinningum í fjarlægum löndum. Hún hefur leitt til þess að lífskjör Íslendinga hafa batnað þótt margir landsmenn búi því miður enn við þröngan kost. Útrásin getur, ef vel er á haldið, skapað hér meiri hagsæld en við höfum áður haft í augsýn.

Helsti ávinningurinn er þó fólginn í því að útrásin veitir ungu fólki ótvíræða sönnun þess að besti kosturinn er að sameina íslenskar rætur og athafnasemi á alþjóðavelli, að krafturinn sem Ísland gefur er vænlegt veganesti, að hægt er að vera í senn skapandi Íslendingur og áhrifaríkur heimsborgari.

____________________________________________

Rúsínan í pylsuendanum fyrir þá sem nenntu að lesa alla leið hingað er umfjöllun um fyrirlesturinn á Kistunni eftir Sigurð Gylfa Magnússon. Sigurður Gylfi segir m.a. í umsögn sinni:

"Ræða Ólafs Ragnars var nefnilega pólitísk ræða. Hann skipar Sigurður Gylfi Magnússonsér í flokk með þeim hópi fólks sem nefnast nýkapitalistar og hafa verið á sveimi um heiminn allt frá síðari hluta níunda áratugarins og fram til dagsins í dag. Í kjölfar Reagan tímans í Bandaríkjunum lék þessi lýður lausum hala, ruddist inn í rótgróin fyrirtæki og splundruðu þeim og gengu út með ofsagróða. Eftir sátu oft tugþúsundir starfsmanna sem unnið höfðu hjá þessum sömu fyrirtækjum með sárt ennið og atvinnulaust. Hollywood framleiðendur hafa gert þessu tímabili í sögu heimsins - tímabili græðginnar - ágæt skil í myndum eins og Wall Street þar sem Michael Douglas lék aðalhlutverið ásamt fleiru góðu fólki.

Heldur forseti Íslands virkilega að þessir einstaklingar sem eru að ryðjast inn í fyrirtæki í útlöndum í nafni „Íslensku útrásarinnar" og kaupa þau upp og selja svo aftur séu eitthvað öðru vísi innrættir vegna þess að þeir séu „strákarnir okkar" - afkomendur víkinga, landkönnuða og uppfinningamanna, eins og hann komst að orði árið 2000?

Ég velti fyrir mér á þessum fyrirlestri í hádeginu í dag, þegar forsetinn var að telja upp þá eiginleika sem hann taldi sig finna í fari Íslendinga og að framan eru nefndir, hversu stórt hlutverk minnimáttarkenndin léki í skýringum ráðamanna - og reyndar einnig fjölmiðlafólks - á ágæti Íslendinga. Ég er ekki frá því að hún hafi verið allt að því yfirþyrmandi þáttur í málflutningi Ólafs Ragnars Grímssonar í hádeginu hjá Sagnfræðingafélagi Íslands."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Nennti ekki að lesa alla ræðuna, hef víst heyrt þær allar áður og lofsönginn um útrásarvíkingana. Blómaskeiðið var svo bara arfabeð eftir allt saman. Fullt af njólum.

Rut Sumarliðadóttir, 21.11.2008 kl. 16:07

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ég kaus ekki ÓRG. ´Gamlir pólitíkusar eiga ekki að fara í þetta embætti.......um þá skapast aldrei friður. Nennti ekki að lesa þetta allt núna.  Sjáumst á Austurvelli á morgun.

Hólmdís Hjartardóttir, 21.11.2008 kl. 16:43

3 identicon

Ég held að athugasemd Sigurðar Gylfa sýni í raun hvernig afkomendur víkinga líta út í augum þeirra sem þeir heimsóttu í hinum síðari víkingi. Smiðshöggin hétu Icesave og Edge. Hið síðara var líkast til réttnefni því að víkingarnir, útrásarmenn, "strákarnir okkar" skilja eftir sig sviðna jörð og blæðandi undir.

Merkileg orð ÓRG í fyrstu málsgrein ræðunnar. Hann gerði sér ljóst að útrásin var byggð á sandi og var í raun spilaborg. Vildi bara ekki viðurkenna að endirinn væri nærri. Kannski fangi eigin ræðusnilldar.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 17:59

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ólafur Ragnar Grímsson hefur staðið sig vel sem forseti þjóðarinna. Hann hefur ætíð verið umdeildur maður og mun trúlega verða áfram. Hvaða skoðun sem við höfum á útrásinni þá var hann að fylga eftir þegnum þjóðar sinnar sem vildu freysta þess að auka samskipti við útlönd sem hefur hingað til verið talið jákvætt. Ég tel mig ekki hafa leyfi til að dæma neinn af þeim sem í útrásinni tóku þátt, að svo miklu leyti sem þeir fóru að gildandi lögum í landinu á hverjum tíma. Það er svo dómstóla að leyða slík mál til lykta.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 21.11.2008 kl. 20:01

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Jenný Anna Baldursdóttir, 21.11.2008 kl. 20:21

6 Smámynd: Sigurveig Eysteins

 Vá... þetta var efni í bók, prenta þetta út og les um jólin,(ég fæ aldrei bók í jólagjöf)

Sigurveig Eysteins, 21.11.2008 kl. 21:40

7 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Manni var innrætt að bera virðingu fyrir forestaembættinu, og þar með persónunni sem gegndi því. 

Enda er til þess ætlast að það sé vammlaus persóna sem fær þá miklu tiltrú þjóðarinnar að vera æðsti fulltrúi hennar.

Mér hefur aldrei líkað sérlega vel við ÓRG sem forseta.

Ég held að hann hafi í þó byrjun embættisferils sína á vissan hátt getað sótt í þann sjóð virðingar sem embættið hafði áður notið, hjá mér og öðrum.

Í tíð Vidísar, sem var alltaf þjóðinni til mikils sóma, það geislaði af henni hvar sem hún kom, var borin mikil virðing fryri þessu embætti.

Embættinu var vel sinnt í tíð Kristjáns Eldjárn og þar áður Ásgeirs, frænda mína, þó þeir hafi rækt embættið á annan hátt en Vidís, af meiri formfestu má líklega segja, enda breyttist tíðarandinn mjög á meðan hún var forseti. Ásgeir mun hafa verið umdeildur áður en hann tók við embættinu, en ég held að hann hafi aldrei leyft stjórnmálferli sínum að hafa árhrif á eða yfirskyggja embættisskyldu sína sem forseti.

Ég hugsa að Sveinn Björnsson hafi líka rækt embættið af alúð.

Þetta finnst mér ekki hægt að segja um Ólaf Ragnar Grímsson nú. Hann hefur farið mjög frjálslega með embættið, staðið í persónulegum væringum við forsætisráðherra, sem hann átti þó að hafa samstarf við, þar er þó ekki við hann einan að sakast, báðir hafa sýnt af sér hroka í þessu tilliti. Mér finnst embættið hafa verið misnotað, einnig vegna tengslanna við jakkafataterroristana, eins og ég kalla þá, og að það hafi sett mikið niður í forsetatíð núverandi forseta.

En við hverju er annars að búast þegar þjóð velur þann mann forseta sinn sem hefur látið sig hafa það að viðhafa orðbragð eins og það að tala um "skítlegt eðli" andstæðings síns í pólitík úr ræðustóli á Alþingi? Þó svo að langt sé um liðið, þá breytist ekki svo glatt innræti þess manns sem slíkt gerir, jafnvel þó hann vandi framgönguna svo hún verði slétt og felld, leggi andlitið í réttar skorður og kembi, núorðið, silfurhærurnar.

Ég vil þó taka það fram og leggja áherslu á það að mér hefur fundist báðar forsetafrúranar hans aðdáunarverðar konur.

Greta Björg Úlfsdóttir, 21.11.2008 kl. 21:45

8 identicon

Ég kaus ÓRG þegar hann bauð sig fyrst fram. Vonaði að hann gerði embættið að einhverju sem skipti máli. Hef ekki haft þörf fyrir rándýrar táknmyndir og því alla tíð mótfallinn forsetaembættinu. ÓRG olli mér fljótlega vonbrigðum og á endanum varð hann náttúruklega skandall sem nánast beinn þátttakandi í útrásarruglinu - kannsk truflaðisti þátttakandinn. Það má segja að eins sem hann gerði af viti í starfinu var að vísa fjölmiðlalögunum í dóm kjósenda. 

Þó ÓRG sé ekki beinlínis orsakavaldur Íslandskreppunnar eins og Davíð, Geir o.fl. þá hefur þáttur hans í ruglinu gert út af við þann trúverðugleika sem hann kannki átti eftir. Hann á því að fjúka eins og hinir.

Ari (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 22:07

9 identicon

Ég hef aldrei fílað Óla, hann hefur næstum pirrað mig alla tíð.
Hann var þó skárri en peace 2000 fígúran ;)

Mér finnst að það eigi að leggja þetta embætti af, við höfum ekkert að gera með að vera með einhverja útvalda skrautdúkku... nota peningana í annað held ég bara, sleppum líka við fullt af leiðinda ræðum :)

DoctorE (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 22:09

10 identicon

Ó, þú Ólafur, ó, þú, þú Ólafur, orðskrúð þitt er eins og fallandi lauf af trjám sem hægt er baða sig uppúr, eða margir litlir lækir sem sameinsast í eina heita sturtu svo maður er alveg að drukkna í orðum. Orðskrúð og orðmælgi forsetans er eins og hvert orð sé einn regndropi og svo safnast regndroparnir saman í steypiregn. Ég hef stundum hugsað sem svo að hann er akkúrat maðurinn sem hægt er að fá til að lýsa venjulegri manneskju og eftir þá lýsingu væri sú manneskja orðin eins og drottning, og ekki bara drottning , heldur stjarna í sólkerfinu. Má ég þá biðja um minna orðskrúð og meira af venjulegu mannamáli. Held að forsetinn okkar sé fyrir löngu kominn svo langt frá grasrótinni í landinu, hinum venjulega baslandi manni, að hann gæti átt það til, ef hann væri minntur á það, farið af stað með miklu orðskrúði í anda Shakespears út í skóg að leita að þessum aumingja vesalings baslandi manni og endað svo í leikritinu með Ó, mig auman, ég finn ekki þennan eina baslandi manní landinu, Ó , Dorritt, hvar er gullkeðjan mín? Ég vil líta vel út á mynd þegar ég gef út yfirlýsingu og já, skýrsluí 20 köflum um leit mína. Ó, mig auman, ó, Dorritt.Ó, aumingja Ísland, landið mitt, besta land í heimi , blablablabla ---- svo sofna allir.

Nína S (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 22:17

11 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Takk fyrir þetta - gat ekki klárað mig í gegnum þetta; varð hálf ómótt. Tók samt steininn úr er ég sá kápumynd nýju forsetabókarinnar í dag. Þvílíkt og annað eins!

Ásgeir Kristinn Lárusson, 21.11.2008 kl. 22:18

12 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Held að þeir sem hafa fyrir því að skrifa komment um þessa ræðu ættu sjálfir að lesa hana til enda - - og hafa í huga um leið að hún er flutt í ársbyrjun 2006 - - og að efni til eldri eins og sjá má á því sem vitnað er til.   Ræðan er efnislega viðamikil og yfirgripsmikil tilraun til að staðsetja þjóðarsál og einkenni "'islendingsins" - í nútíma með sögulegri skírskotun - - kannski svolítið upphafið?  

Ekki nokkur málsgrein í ræðunni gefur tilefni til að draga þær ályktanir sem Sigurður Gylfi gerir (enda bendir hann ekki á dæmi) - - mér virðist hann detta í einhvers konar áróðurskór gegn ÓRG sem forseta.

Ekki vann ég fyrir hann í upphaflegri kosningabaráttu en virði hann og störf hans mikils - - það var ekki hann sem skapaði leikreglur einkavæðingarinnar - ekki hann sem átti að setja regluverkið  - - og alls ekki hlutverk forsetans að setja takmarkanir á umsvif bankanna - - þar voru aðrir aðilar með agavald - en kusu að beit ekki sínum tækjum.    Slíkt átti næstum allt og eingöngu við eftir þann tíma sem ræðan er flutt.

Látum forsetann og embættið endilega njóta sannmælis  - þrátt fyrir að ORG hafi ekki lifað við eintóma lognmollu

Benedikt Sigurðarson, 21.11.2008 kl. 22:34

13 Smámynd: Arnþór Helgason

Það hefur vafalítið þurft sterk bein til þess að standast ánauð auðvaldsins á þessum tíma. Ókosturinn við forsetaembættið er sá að flestir forsetar reyna að gera flestum landsmönnum til hæfis. Í því ljósi las ég ræðuna. Ég heyrði hana eða las á sínum tíma og þótti fullmærðarleg. Nú finnst mér hún nær marklaus.

Arnþór Helgason, 22.11.2008 kl. 00:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband