Nauðgun á réttlætiskennd heillar þjóðar?

Ég hef verið að bisa við að vinna en get ekki með nokkru móti einbeitt mér að vinnunni. Silfri dagsins og fréttum er um að kenna og þeim tilfinningum sem hellast yfir mann á hverjum einasta degi. Silfrið var yfirþyrmandi. Þar talaði hver á fætur öðrum um ýmsar hliðar á því sem er að gerast í þessum skrifuðu orðum og snertir okkur öll, framtíð okkar, barnanna okkar, barnabarna og annarra afkomenda. Sjokkið verður meira með hverjum deginum - hverjum klukkutímanum liggur mér við að segja. Hvað er hægt að bjóða okkur mikið og hve lengi?

Ég setti inn allt Silfrið fyrr í dag hér, náði svo að horfa á það allt sjálf og hef verið að skoða sumt aftur. Þegar þátturinn er svona þéttur og fjölmennur þarf maður að taka inn svo mikið í einu að eitthvað hlýtur að fara fram hjá manni. Heilinn, að minnsta kosti minn, ræður ekki við þetta svo ég tók á það ráð að horfa aftur og hlusta betur eftir hinn daglega hörmunga- og spillingarskammt í fréttunum. Ég hef líka verið að lesa netmiðla og bloggsíður. Svei mér ef bloggið er ekki orðin besta fréttaveitan og greiningardeildin á landinu í dag auk sumra netmiðla og pistlaskríbenta.

Í augnablikinu er þetta efst í huga - viðtalið við Vilhjálm Bjarnason. Hlustið á hann aftur - vandlega - hvert einasta orð.

Hér er viðtalið við Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, sem fékk 300 milljónir fyrir það eitt að fara fram úr rúminu og mæta til vinnu. Það eru brúttótekjur mínar fyrir nóvember í 3.000 ár. Vilhjálmur skírskotar til viðtalsins. Takið sérstaklega eftir því að viðtalið er 21. september, nákvæmlega 8 dögum fyrir hrun bankans.

Hér eru svo þrjú lítil dæmi um það sem Vilhjálmur var að tala um. Mennirnir sem komu Íslandi og þar með þjóðinni allri á kaldan klakann, gerðu okkur gjaldþrota og eyðilögðu orðstír okkar virðast eiga næga peninga. Þeir þrýsta á að skuldir þeirra séu felldar niður í gömlu bönkunum og ætla sér nú að kaupa allt góssið aftur. Leika sama leikinn, fara sama hringinn. Þeir hafa ekki verið látnir sæta neinni ábyrgð þótt í raun ætti að handtaka þá alla og bankastjórnendurna líka og fara ofan í saumana á gjörðum þeirra og blekkingarvefnum sem þeir spunnu. Gera allar eignir þeirra upptækar og leita uppi falda bankareikninga þeirra. Hve háum fjárhæðum skutu þeir undan sem liggja nú í bönkum í erlendum skattaparadísum og bíða þess að þeir kaupi Ísland aftur og leiki sama leikinn? Ég minni á umfjöllun Kompáss hér og viðtalið við danska blaðamanninn hér. Og greinarnar frá því á fimmtudaginn hér. Sama fólkið að gera sömu hlutina, bæði í bönkunum og viðskiptalífinu. Og nú pottþétt með leyfi, vitund og blessun stjórnvalda sem réðu sama liðið til starfa við "nýju" ríkisbankana og klúðruðu þeim gömlu. Tvö af þremur endurskoðunarfyrirtækjum sem nú eru að fara yfir bókhaldið störfuðu fyrir gömlu bankana og eru því að rannsaka eigin vinnubrögð og dæma í eigin sök. Traustvekjandi?

Um mögulega sölu TM og Kaupþings í Lúxemborg.


 Um hið dularfulla skúffufyrirtæki Stím sem notað var til að auka verðmæti banka á pappírunum.

Hér er fréttaskýring Morgunblaðsins um Stím og svargrein Jóns Ásgeirs sem birtist ekki í Morgunblaðinu heldur í Fréttablaðinu. Lesið þetta í tengslum við það mál allt. Ætla stjórnvöld virkilega ekki að stöðva þennan farsa? Á að ræna okkur alveg upp á nýtt með þeirra blessun?

Ég veit ekki með ykkur - en réttlætiskennd minni er miklu, miklu meira en misboðið. Mér líður eins og henni hafi verið nauðgað ítrekað af Seðlabanka, Fjármálaeftirliti, bankastjórnendum, útrásarbarónum og það sem verst er - þeim sem áttu að gæta mín og minna, okkar allra - stjórnvöldum. Sagt er að fyrirgefningin sé okkur eðlislæg en mér er aldeilis engin fyrirgefning í huga, nema síður sé. Það eru liðnir tveir mánuðir og ekkert hefur gerst, enginn hefur axlað ábyrgð, sama sukkið og spillingin í gangi. Þau vissu þetta öll fyrir löngu. Það var búið að vara þau við - margoft - bæði af Íslendingum og útlendingum en þau gerðu ekkert. Lyftu ekki litlafingri til að bjarga þjóðinni sinni frá þessum hörmungum og létu hana fara til andskotans með lokuð augu. Hvers vegna? Getur einhver komið með frambærilega skýringu á því?

Ef ríkisstjórnin, seðlabankastjóri, forsvarsmenn Fjármálaeftirlitsins og þingmenn mæta ekki ÖLL á borgarafundinn í Háskólabíói í kvöld til að tala við okkur verður það lokahnykkurinn á veruleikafirringu þeirra og sýnir svo ekki verður um villst fyrirlitningu þeirra á "skrílnum" - þ.e. þjóðinni. Okkur - Litlu-Gunnu og Litla-Jóni.

Íslendingar flýja land - Framtíðarsýn Spaugstofunnar

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Réttlætiskennd minni er líka stórlega misboðið. Þjáningin, réttlát vandlætingin og reiðin sem ég upplifi þess vegna rænir mig einbeitingunni sem ég þarf svo mikð á að halda í minni vinnu. Ég finn til djúprar sorgar og niðurlægingar sem þegn í landi sem önnur eins svívirðing og siðspilling og þjóðin er að upplifa núna er látin viðgangast. Þetta tvennt og svo áhyggjurnar yfir því hvert þetta mun leið okkur nagar mig svo að ég á í erfiðleikum með að útiloka þetta og snúa mér að hversdagslegri iðju.

Ég hef lengi verið nokkuð pottþétt á því að það sé einn alvarlega persónuleikatruflaður einstaklingur sem hefur komið sér svo vel fyrir í íslenskri pólitík að það hefur leitt hann inn í eitt af æðstu embættum landsins. Núna er ég hins vegar farin að velta því alvarlega fyrir mér hvort það sé eitthvert samasemmerki á milli þess að komast til valda og dómgreindarskerðingar. Það er a.m.k. ljóst að gjörðir núverandi ríkisstjórnar eru langt frá því að byggjast á heilbrigrði skynsemi hvað sem veldur!

Ég hef einmitt velt spurningunni varðandi það hvað stjórnvöldum þessa lands gengur til með leiða okkur svona „til andskotans“. Ég skil það engan veginn! en ég verð að viðurkenna að mér hefur dottið ýmislegt í hug. Hugurinn hefur m.a. nokkrum sinnum hvarflað að illa auganu í Hringadróttinssögu í þessu sambandi. Þó það sé ljótt að segja það þá finnst mér ríkisstjórnin haga sér eins og fulltrúar hennar séu hreinlega á valdi einhverra eyðingarafla...

evileye

Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.11.2008 kl. 04:06

2 Smámynd: Heidi Strand

Þakka þér fyrir allt þitt starf til að upplýsa okkur. Mér liður hörmulega yfir hvernig er farið með okkur og hef ég heldur ekki getað einbeitt mig frá því hörmungarnar byrjuðu.
Ég hef verið að hugsa um hvers vegna þetta fær að halda áfram og mér dettur í hug að það er verið að yfirhylma. Sökudólgarnir eru margir og við megum ekki komast að því. Fyrir hverjum degi verður allt miklu skýrara og nú verður fréttamann að standa í lappirnar.
Gott er að eiga bloggið og erlendum fjölmiðlum.
Það sem ég ekki skil er að nokkur maður eða kona skuli styðja stjórnina eftir allt sem undan er gengið.

Heidi Strand, 24.11.2008 kl. 07:09

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ég get tekið undir hvert einasta orð hérna...ég hef ekki getað bloggað um upplifun mína á mótmælunum sl laugardag og þeirri djúpu undiröldu fólks sem ég fann svo fyrir... sem finnst því hafa verið svivirðilega misboðið á allan hátt ...og svo þeirri uppákomu sem ég varð vitni að síðar við lögreglustöðina. Nú hefur komið í ljós að lögreglan gerði mistök og fór ekki að lögum. set hér inn hugleiðingu sem ég fann á blogginu um það mál allt saman. Ég spyr mig..hvers konar samfélagi búum við eiginlega í..og það er enn fullt af fólki sem stendur með yfirvöldum og vil gefa þeim næði fyrir björgunaraðgerðir sínar og halda áfram með þetta ógeðslega rugl og spillingu sem hér viðgengst.

Mér hreinlega fallast hendur!!!!

Ekki bara handtakan!

Það er ekki aðeins handtakan á Hauki Hilmarssyni sem var illa tímasett og úr takti við aðstæður heldur einnig viðbrögð lögreglunnar við mótmælunum við lögreglustöðina á Hlemmi.

Myndin fræga af 16 ára stelpunni sem var fyrir piparúða (eða réttara sagt piparbunu) lögreglunnar er nú komin í fjölmiðla í útlöndum. Danska blaðið Politiken birtir myndina í umfjöllun um atburðinn og leggur í fréttinni áherslu á að mótmælendur hafi ekki verið varaðir við (Gas, gas, gas-hrópandi löggan frá í sumar var því ekki eins vitlaus og af var látið).

Sjá http://politiken.dk/udland/article601755.ece 

Svo virðist sem lögreglan hafi ekki farið eftir eigin reglum þegar hún sprautaði piparóþverranum yfir fólk. Einnig má segja að það að ræða ekki við mannskapinn, heldur fela sig á bak við læstar dyr, hafi verið mikil taktísk mistök lögreglunnar.

Hún á greinilega enn mikið lært varðandi rétt viðbrögð við mótmælum, sem eflaust eiga frekar eftir að aukast en hitt.

Eitt dæmi þess hversu illa lögreglan stendur sig er það, að hvergi er að finna varnaðarorð um hvernig fólk eigi að bregðast við þegar það fær slíkan úða framan í sig.

Danska lögreglan hefur hins vegar gefið út slíkar leiðbeiningar sem ég birti hér óþýddar (það læra jú allir dönsku í skóla):

 

Øjenkrampe: Efter cirka ét sekund er det umuligt at holde øjnene åbne. Det gælder, selv hvis personen havde øjnene lukket under påvirkningen. Før eller siden vil øjet blinke, og væsken vil få kontakt med øjet. Ubehandlet vil virkningen vare 40 minutter, og der vil være udtalt lysfølsomhed i 120 minutter.

Hudsvien: Kort efter påvirkningen opleves en kraftig svien og brændende fornemmelse på huden. En varm og svedig person vil opleve virkningen væsentlig forstærket i forhold til en person, der påføres stoffet i koldt vejr, da hudporerne il være lukkede.

Slimhindeirritation: Umiddelbart efter påvirkningen vil der fra næse og svælg afgives en langtrukken klar slim i større mængder. Personen vil automatisk hoste og spytte.

Luftvejspåvirkning: Hvis påvirkningen er uventet, vil det ikke kunne undgås, at der indåndes chilipeber, hvilket udløser kraftig hoste. Lungerne vil automatisk rense sig, og der hostes voldsomt med hele kroppen i en krampelignende tilstand. Personen vil i de fleste tilfælde krumme sig sammen som en naturlig reaktion.

 

Auk þess má benda á að piparúði þessi er stórhættulegur og stór spurning hvort ekki eigi að banna notkun hans. Danska heilbrigðisstofnunin hefur bent á að í USA hafi margir látist (Amnesty segir um 60 manns) eftir að hafa orðið fyrir úðun, sérstaklega þeir sem voru með asma. Þá eru til skýrslur um að úðinn geti skemmt hornhimnu augans og var það m.a. til umræðu á danska þinginu (upplýsingar frá þáverandi dómsmálaráðherra).

Mér finnst eðlilegt og sjálfsagt að dómsmálaráðherra verði spurður á Alþingi og/eða af fjölmiðlafólki út í notkun þessa tækis og hverjar vinnureglur lögreglunnar séu í raun.

Almenningur hlýtur að eiga kröfu á að vita það, enda á allt að vera svo gagnsætt að mati ráðherrans!

Ingibjörg Sólrún segir að nú sé tímabært að setja sérhagsmuni flokksins til hliðar og hugsa fyrst og fremst um fólkið..hahaha.

Hélt hún einhverntímann í alvörunni að fólk hafi kosið Samfylkinguna samfylkingarinnar vegna en ekki vegna hagsmuna almennings???? Henni gefst tækifæri í kvöld að hitta blessað fólkið sem liggur margt á hjarta og hefur eflaust margar spurningar fyrir hana. Það verður æpandi þögnin og fjarvera þeirra ráðamanna sem kjósa að mæta ekki í háskólabíó í kvöld til að tala beint við fólkið í landinu.  Og mjög skýr skilaboð um hvar þeir standa raunverulega gagnvart fólkinu í landinu. Og eftir að hafa fengið af því fregnir að ríksistjórnin hafi ætlað að hundsa vantraustsyfirlýsinguna og umræðurnar í dag um hana og að það ætti ekki að sjónvarpa frá henni beint eins og öðrum umræðum á alþingi var mér allri lokið. Hins vegar eftir kröfturg fjöldamótmæli og áskoranir á netinu til forseta alþingis og fréttastjóra rúv hefur verið fallið frá þessu. Mótmælin og samstaðan eru nefninlega að virka og nú ríður á að gefa ekki tommu eftir og halda þetta út. Sjáumst í Háskólabíó í kvöld.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 24.11.2008 kl. 08:48

4 Smámynd: Einar Indriðason

Sauron í Svörtuloftum.... Þið vitið hver það er.

Heidi... Það virðist vera algjör heilaþvottur sem eigi sér stað í Valhöll, og hjá þeirra fylgismönnum.  Það var skoðanakönnun í Fréttablaðinu núna um helgina eða í síðustu viku.  Hverjir styðja stjórnina.  Að vísu voru ekki of margir einstaklingar bak við.  En samt.  Það voru grátlega margir D lista-menn sem sögðust styðja D listann, sama hvað tautar og raular.  Sama hversu mikið bankadraslið hefur (eða, kannski hefur ekki?) áhrif á þá.  Það virtist ekki skipta nokkru einasta máli, að Þjóðarskútunni hefur ekki bara verið siglt á sker, heldur á stærðar ísjaka líka, með rifu eftir allri síðunni, það eina sem stendur upp úr er skuturinn.  Og þetta gerðist á vakt D listans.  En, nei.  Dugir ekki til, til að hrista skynsemi í D fólk.  Það heldur áfram í sínu veruleikafirtu veisluflippi, og neyslufylleríi.

Og krónan?  Þessi arfa-aumingja gjaldmiðill okkar?  Sem í dag er ekki virði pappírsins sem hún er prentuð á.  Hvað á að halda lengi í þennan gjaldmiðil, bara af því að Davíðsarminum þóknast svo, og LÍÚ?

Nei, við skulum frekar bara taka botnlokurnar úr okkar Titanic, og flýta bara fyrir því að sökkva.  Það skiptir D lista-fólk hvort sem er engu.  Spurning bara hvort við getum komið þessu þannig fyrir að það verði nánasta bara D-fólk sem sökkvi, en aðrir komist af.  (Óskhyggja, ég veit.  En, það má alltaf vona.)

Arrr... þetta er orðið of langt innlitskvitt hjá mér núna.  Læt þetta því nægja í bili.

Einar Indriðason, 24.11.2008 kl. 08:50

5 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Fyrirsögnin þín segir allt.  Yfirhylmingar eru án efa rót þess hve alt gengur hægt.  En spilliging virðist ganga yfir svo mörg fyrirtæki...........kannski er ótti við að allt atvinnulíf hrynja að koma í veg fyrir að menn séu teknir til yfirheyrslu.

Hólmdís Hjartardóttir, 24.11.2008 kl. 09:03

6 Smámynd: Sævar Helgason

Því er haldið fram að auðfélög kaupi í raun forseta BNA og stóran hluta þingmanna , með greiðslum í kosningasjóði þeirra. 

Síðan eru mikilvægar ákvarðanir tengdar þessum greiðslum. Gott dæmi eru hagsmurni olíufélaga varðandi stríðið í Írak. 

Hvað með stjórnmálalífið hér ? Hefur íslenska þjóðin verið keypt ? Og allt heila góssið ?

Þær gríðarlegu skuldir sem bundnar hafa verið þjóðinni af þessum viðskiptamönnum eru 12-14 x landsframleiðsla þjóðarinnar- hvar eru allir þessir peningar ? 

Fyrirtæki hafa verið mergsogin með skuldsetningum- allir fjármunir horfnir.  Hvar eru þessir fjármunir ? 

Eru þeir í skattaparadísum og bíða þess að þrotabúið Ísland sé fallt  á brunaútsölu.  Allavega er alveg ljóst að  styrkur þjóðarinnar um stjórnmálaöflin er enginn... máttleysið það er algjört.  

Og nú er fv stjórnarformaður Kaupþings að kaupa þrotabú bankans í Luxemburg- hann hefur greinilega fullar hendur fjár....

Sævar Helgason, 24.11.2008 kl. 09:14

7 identicon

Þú ert meiriháttar!

Ég hef líka verið að reyna að vinna undanfarið en lítið orðið úr verki eftir að þessar náttúruhamfarir af mannavöldum hófust. Það sem helst hefur létt mér lífið er bloggið auðveldar manni mjög að fylgjast með. Og af öllum bloggunum stendur þitt uppúr þar sem þú birtir eða vísar á flest sem máli skiptir.

Kærar þakkir.

Sigurður Karlsson (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 09:48

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk Lára Hanna mín, þú ert ein af þeim sem hjálpar minni andlegu líðan þessa dagana.  Ég segi sama og fleiri hér, er hætt að sofa almennilega ég er svo reið.  Reið út í alla þessa aðila, en sérstaklega reið út í Ingibjörgu Sólrúnu og Geir, þau hafa í hendi sér alla vitleysuna sem hefur viðgengist, og þykjast vera í einhverjum björgunarleiðangri, svei því bara.  

Og hvað með Ólínu Þorvarðar ?  Fékk hún tiltal.  Allt í einu þagnaði sú rödd, spillingarliðið burt sést ekki lengur,  ekki hvatning til að fara á Austurvöll.  Og eitthvað moð í kastljósi, hvorki né.  Mér datt svona í hug að hún hefði fengið tiltal um að hafa sig hæga.  Leitt er svo er,  og ennþá verra ef sú flotta kona hefur látið kúga sig til þagnar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.11.2008 kl. 10:46

9 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Fólki er misboðið, og er örvæntingarfullt.  Takk fyrir góða samantekt

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 24.11.2008 kl. 10:55

10 identicon

Vilhjálmur segir að Lárus hafi ekki kannast við FS37. Það er rangt hjá honum, Lárus gefur engan veginn út á það, segir reyndar að það sé eflaust viðskiptamaður hjá þeim.

Andri (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 11:05

11 identicon

Mikið er ég sammála þér Lára og þakka þér fyrir bloggið þitt þetta er frábær síða og ætti að vera skyldulesning. Maður er gjörsamlega orðlaus yfir þessu öllu saman og ef þjóðin vaknar ekki núna af værum blundi þá gerir hún það aldrei. Sukkið og svínaríið er svo yfirgengilegt að það tekur ekki nokkru tali og það versta af öllu er að við almenningur eigum að borga fyrir þetta. Ég segi nei takk fyrir, það geri ég ekki og nú ríður á að fólk þjappi sér saman og berjist fyrir rétti sínum við megum ekki láta kúga okkur.

Páll Valur Björnsson (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 11:19

12 identicon

Sammála öllu því sem hér kemur fram.  Ég hef verið ötull í skrifum mínum um það sem ég kalla Fjárglæpamenn Íslands (í stað útrásarvíkinga - Íslendingar hafa alltaf litið á víkinga sem hetjur, þótt þeir hafi stundum farið ránshendi um lönd og lýði), ég setti eina slíka færslu á blogsíðu mína í dag þar sem nöfn þeirra eru tilgreind.  Vinsamlega bætið við listann ef einhverja vantar. 

Blogsíðan er    lucas.blog.is

 Sjáumst í kvöld. 

Guðjón Baldursson (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 11:40

13 identicon

Sæl Lára Hanna

Mikið er þetta skeflilegt.  Ég er nú búin að senda linkinn út um víðan völl - jafnvel á Alþingi.  Skyldi fólkið þar lesa blogg ?

Það er greinilega eitthvað mikið að ...  og ef ekki væri "blogg" þá værum við illa upplýst.

Ég er með hnút í maganum.

Nú bara verður að stöðva þetta.

Hvað er að gerast ?  

Brynhildur J. Gisladottir (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 11:51

14 identicon

Kæri NN

Gæti ég fengið nafnið þitt ?

Brynhildur J. Gisladottir (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 11:55

15 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Þetta er svo frábærlega gert hjá þér. Einmitt þetta hefur manni sviðið svo að undanförnu. Það er kominn tími til að eitthvað breytist.

Steingerður Steinarsdóttir, 24.11.2008 kl. 12:04

16 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Mér finnst skuggalegt að fréttir berist af því að fulltrúar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks séu þessa dagana úthluta þessum mönnum fyrirtækin á ný þegar búið er að aflúsa þau af skuldum.

Fólk mun ekki sætta sig við þetta.

Sigurjón Þórðarson, 24.11.2008 kl. 12:15

17 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Þeir sem starfa svona hafa hvorki siðferðiskennd né samfélagskennd, það er klárt mál.

Rut Sumarliðadóttir, 24.11.2008 kl. 12:19

18 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

'Eg tek undir með Ásthildi varðandi Ólínu Þorvarðardóttur. Hún hefur talað mikið um spillingu og óréttlæti en snarþagnar núna eftir fundinn með Ingibjörgu Sólrúnu. Skömm er að þessu og sýnir líka svart á hvítu hversu grunnt er á því að þetta lið snúsit eina ferðina enn að gömlu úreltu flokksgildunum. Svei.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 24.11.2008 kl. 12:24

19 Smámynd: Árni Gunnarsson

Takk fyrir mig! Mér líður ekki vel eftir þessa atburði undangengnar vikur og veit að ég er ekki einn um það.

Hvort er þetta ógnarstjórn Ingibjargar Sólrúnar? (ríkisstjórnin starfar í hennar umboði)

Eða er þetta herforingjastjórn Björns Bjarnasonar?

Engum dettur í hug að Geir Haarde verði gerður ábyrgur fyrir öðru en bílstjóranum sínum.

Katrín Oddsdóttir gaf ríkisstjórninni viku í viðbót á laugardafinn.

Árni Gunnarsson, 24.11.2008 kl. 13:19

20 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Katrín Snæhólm og fleir eru enn að setja útá viðbrögð lögreglunar sem kemur þessu máli bara ekkert við. Hvað á lögregla að gera þegar æstur múgur er búinn að brjóta sér leið inn í lögreglustöð. Bið fólk að blanda ekki skrílslátum saman við. Fólkið á Hlemmi var með spýtur að reyna að brjóta innrihurð lögreglustöðvarinnar. Lögreglu bara að verja húsið. Punktur. Og spurning hvort að maður ætti að kæra móður sem mætir með barnið sitt í framlínu mótmælaaðgerða. Fólk verður að taka afleiðingum gerða sinna.

Skil ekki hvað Katrín á við með að vara fólk við? Fólkið var að brjóta hurð.

En þessi myndvinnsla Hönnu hér á síðunni er til fyrirmyndar og hefur oft hjálpað manni að sjá heildarmynd úr öllu bullinu sem er í gangi.

Magnús Helgi Björgvinsson, 24.11.2008 kl. 13:36

21 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Tilgangur ríkisstjórnarinnar í dag er að þreita okkur. Þeir vilja að við förum að venjast þessu ástandi, þ.e.a.s. að vakna á hverjum degi við ný hneikslis mál.

Góðar spurningar eru:

Hversu mikil framlög fengu ríkisstjórnarflokkarnir frá eignarhaldsfélögum sem áttu bankanna fyrir síðustu kosningar?

Hversu mikil framlög vænta ríkisstjórnflokkarnir að fá frá þeim sömu fyrir næstu kosningsar?

Hvernig stýra þessar væntingar því hvernig bönkunum er stjórnað nú af ríkisstjórninni í gegnum milliliði og stöðuveitingar?

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 24.11.2008 kl. 13:39

22 Smámynd: kiza

Lára Hanna; 

Fyrst og fremst vil ég þakka fyrir góða pistla og fyrir að standa vaktina fyrir okkur.  Það er oft erfitt að finna sig í öllu þessu rugli og þá er gott að geta leitað hingað og fá yfirsýn yfir alla steypuna.

En ég verð að biðja þig um eitt, frá einni konu til annarar:   Viltu please ekki nota orðið 'nauðgun' yfir það sem er að gerast í samfélaginu núna.  Það er rétt að ákveðnum hlutum hefur verið þröngvað upp á þjóðina gegn hennar vilja, en að nota orðið nauðgun til að lýsa einhverju sem er engan veginn nálægt upprunalegri meiningu tel ég að geri lítið úr hinum hrikalega verknaði sem nauðganir eru.   Ég veit að nú fæ ég líklegast gusur yfir mig fyrir að vera 'hypersensitívur feministi' eða eitthvað álíka, en ég hef bara tekið eftir þessari óþægilegu þróun á mörgum stöðum, og fæ sting í magann í hvert skipti sem einhverju er lýst sem 'nauðgun', sem er það í raun og veru ekki.  

Þú ræður auðvitað alveg sjálf hvernig þú skrifar færslurnar þínar, en ég vildi bara koma með minn vinkil á þetta.  Það er fullt af fólki til sem fær í magann og sálina af því einu að lesa þetta orð, því það er oftast tengt allt öðrum atburðum.  

Enn og aftur takk fyrir góða pistla.

-Jóna. 

kiza, 24.11.2008 kl. 14:06

23 Smámynd: Anna

Var það Jón Ásgeir sem réði þetta Lárús jólasvein sem bankastjóra. Ég er að sjá það meir og meir hvess vegna þjóðfélagið sé farið til helvítis.

Maður er orðin orðlaus yfir spillinguni í þjóðfélaginu.

Og hvar er rannsóknarlögreglan. Af hverju er hun ekki að rannsaka bankana.

Almenningur þar að leggja fram kæru á hendur bönkunum. Eftir hverju eru allir að bíða. Sagði ekki B.B. Dómm. að það sé ekki hægt að hefja rannsókn nema kæra liggur fyrir. Almenningur þarf að fá lögfræðing í málið og það sem fyrst eða ætlum við að bíða í 6 mánuði á meðan rannsóknarnefn kemur með var.

Eigum við að láta bankanna komast upp með að stela af okkur spariðféð. Hvar er Vikingarblóðið í Íslendingum.

Útlindingar skilja ekki hvess vegna við tökum þetta þegandi og hljóða laust. 

Anna , 24.11.2008 kl. 14:27

24 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

þettu eru ekki neinar aðvaranir sem ég setti hér inn fyrir ofan heldur vinnureglur sem lögreglan ætti að hafa þegar hún ákveður að nota piparúða. Ég mæli hvergi með því að fólk skemmi eigur eða brjóti sér leiðir og hvef ekki tekið þátt í eninu slíku né hef ég hug á því...en mér finnst það grundvallaratriði að yfirvöld fari að lögum og hafi mjög skýrar reglur til að vinna eftir. Það hefði líklega breytt öllu ef lögreglustöðin hefði ekki verið læst og lögreglan talað við Þá sem þarna komu um kröfur þeirra. Mér finnst rétt að vekja athygli á hvar brotalamir eru..bæði fyrir almenning og yfirvöld. Og víst kemur það málinu við þegar ástand þjóðar er til skoðunar og líðan fólks..hvernig og í hvaða átt það getur beint reiði sinni og ótta og hvernig við því á að bregðast þegar upp úr sýður hjá sumum.  Sú framkoma og virðingarleysi sem stjórnvöld hafa sýnt fólki undanfarnar vikur er fyrir neðan allar hellur og eðlilegt að fólki svíði sárt að vera hundað algerlega þaegar það biður um svör sem snerta grunnöryggi þeirra , fjöskyldna og framtíðarmöguleika. Á einhverjum tímapunkti fær fólk einfaldlega NÓG!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 24.11.2008 kl. 14:49

25 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ríkisstjórnin starfar ekki fyrir okkur, hún starfar fyrir eignarhaldsfélögin. Myndbrotin að ofan segja okkur það.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 24.11.2008 kl. 15:03

26 Smámynd: Sporðdrekinn

Ó hvað mann er farið að þyrsta í sannleikann, sanngirni og réttlæti.

Sporðdrekinn, 24.11.2008 kl. 15:11

27 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Arnar: hvernig líst þér á landráð af gáleysi. Ég meina ef þeir verða sakaðair um landráð þá bregða þeir ögurgglega fyrir sig skort á ásetningi en landráðin sem þeir frömdu liggja í augum upp þannig að ég sting upp á LANDRÁÐ AF GÁLEYSI

Má ég svo benda á undirskriftarlistann kjosa.is Nú eru 5358 búnir að skrifa undir hann og óska þannig eftir nýjum kosningu.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.11.2008 kl. 16:28

28 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Þakka þér fyrir mig Lára Hanna, þú ert skýr og uppfræðandi bloggari. Ég er búin að grandskoða myndböndin og er undrandi á að sjá hvað málið er lítið flókið. Stjórnarmenn eru greinilega í afglapakeyrslu ennþá og halda að '' heimskur'' almúginn átti sig hvergi. Burt með spillinguna!

Eva Benjamínsdóttir, 24.11.2008 kl. 17:15

29 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Arnar: Tek heilshugar undir það sem þú segir um reiðina. Virkjum hana rétt. Ef við byrgjum hana inni þá er hætt við að hún yfirtaki skynsemina og brjótist út í ofbeldi. Þeir sem hafa lært að nota reiðina rétt vita að hún nýtist vel til að skerpa hugsunina og krydda talandann.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.11.2008 kl. 18:00

30 Smámynd: Laufey Ólafsdóttir

Takk eina ferðina enn Lára Hanna fyrir þessa góðu samantekt. Þetta hefur verið að gerast fyrir augum okkar svo lengi og enginn þorað að segja múkk fyrr en núna þegar spilaborgin er fallin. Fólkið sem áður varði þessa menn með kjafti og klóm er núna gaggandi í allar áttir eins og vængbrotnir fuglar. Athyglisvert.

Laufey Ólafsdóttir, 24.11.2008 kl. 19:24

31 identicon

ég er til í að skoða fyrirgefningu þegar sökudólgar eru búnir að axla ábyrgð og lofa því að koma ekki nálægt fjármálaviðskipti næstu 10 ár og sinna ræstistörfum á meðan...

george hollanders (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 14:28

32 identicon

Takið eftir að Lárus Welding notar mikið orðið "áhugavert". Þegar menn auglýsa t.d. það sem síðar kemur í ljós að eru handónýtar fasteignir þá er þetta hugtak stundum notað. Auðvitað eiga þessir menn ekki að ganga lausir og allsekki að eignast fyrirtækin aftur með neinum hætti!

Eyþór H. Ólafsson (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 21:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband