Skyldulesning

Í Mogganum í dag er mjög athyglisverð umfjöllun um lýðveldið og endurnýjun þess. Í viðtali við Gunnar Helga Kristinsson, stjórnmálafræðing, kemur fram að alls ekki sé óeðlilegt eða óalgengt að lýðræðið sé endurmetið og því jafnvel bylt á um 70 ára fresti og bendir hann í því sambandi á Frakkland og Bandaríkin. Hér er þetta - afskaplega holl lesning sem sýnir svo ekki verður um villst að við erum svo sannarlega á hárréttri leið með öll mótmælin og aðgerðirnar um þessar mundir þótt ríkjandi valdhafar hrópi "skrílslæti" og neiti að hlusta. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Lýðveldið Ísland ungt og í mótun

Lýðveldið Ísland í mótun


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Við hljótum að byrja að mestuleyti uppá nýtt. Það er allt efnahagskerfið hrunið.

Mér finnst alveg upplagt að byrja á því sem upphafinu olli- Kvótakerfinu.  Þegar fáum útvöldum voru færðar að gjöf 100 milljarðar/ári - byrjaði spillingin og þar með niðurbrot á þjóðfélaginu sem nú er hrunið...    Síðan kemur allt hitt svona í humátt á eftir..

Sævar Helgason, 26.11.2008 kl. 16:45

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Við byrjum upp á nýtt.  Alveg á hreinu og tíminn má ekki fara til spillis.

Jenný Anna Baldursdóttir, 26.11.2008 kl. 16:53

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég tek undir með þeir röddum sem vilja hreinsa borðið eins og kemur fram í athugasemdum mínum hér að neðan. Ýmsir vilja verja kerfi sem elur á spillingu með ráðum og dáð. Það er til merkis um vanmátt þeirra að þeir geta ekki beitt rökum heldur uppnefna fólk.

Ef við brjótum ekki upp stjórnmála- og kosningakerfið núna munu spillingaröflin halda veldi sínu. Umræðan og samtakamáttur almennings er það tæki sem mun ná að vinna á meinsemdinni.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 26.11.2008 kl. 16:54

4 identicon

Auðvitað þarf að byrja upp á nýtt, landið og þjóðin sem það byggir er í molum. Við þurfum bara að ákveða hvernig við byrjum og með hverjum. Hvaða flokki eða flokkum. Stofnum við nýja flokka? Breytum kosningakerfinu? Breytum stjórnskipulagi? Breytum kjördæmaskipan? Eða hvað viljum við eiginlega?

Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 17:37

5 Smámynd: Baldvin Jónsson

Ég er sammála því að nú sé tími aðgerða, en hvað hyggist þið fyrir?  Skrifa meira?

Ég vil standa að hreyfingu, hvort sem er núverandi t.d. með Ómari eða nýrri, sem hefur það sem sitt stærsta kosningamál að breyta stjórnarskránni þannig að í fyrsta lagi flokkaframboð verði aflagt eða gjörbreytt og í öðru lagi að þing verði strax aflagt eftir kosningar þannig að hægt sé að semja samstundis um þessar stjórnarskrárbreytingar.

Það verða að koma til nýjir aðilar til verksins. Engum núverandi flokka er treystandi til þess þar sem að þeir eru allir hlutar af kerfi þar sem að þeir græða á nefndum og sporslum.

Eftir 17 ára samfellda valdatíð Sjálfstæðisflokksins og eftir að hafa verið við völd að mestu síðan flokkurinn var stofnaður einfaldlega verður að koma honum frá. Ég trúi því einlæglega að flokkurinn hafi aldrei tekið ákvörðun um að spillast, flokkar bara einfaldlega spillast hægt og rólega af völdum og á endanum sér það enginn innanborðs að eitthvað sé óeðlilegt.

Hámarksseta á þingi, bæði flokka og fólks, þyrfti einmitt að vera hluti af breytingunni.

Ef þú vilt vera samferða í slíkri hreyfingu þá endilega sendu mér póst á baddiblue@gmail.com  Við verðum að láta í okkur heyra hér og á öðrum vettvangi. En nú verðum við líka að ganga skrefinu lengra og taka við stjórninni með lýðræðislegum hætti.

Baldvin Jónsson, 26.11.2008 kl. 18:56

6 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Það er nauðsynlegt að stokka allt upp............annað er bara ekki í boði

Hólmdís Hjartardóttir, 26.11.2008 kl. 19:35

7 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég tek undir þetta Baldvin. Það þarf vald inn á þing sem vill breytingar.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 26.11.2008 kl. 19:40

8 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

grunnforsenda þess að losa um spillingakerfið er að afnema flokkakerfið, að hluta eða að öllu leiti. Ég hef ekki sett mig inn í þau mál að alvöru en eftir því sem mér skildt gætu einmenningskjördæmi leitt af sér tveggja floka kerfi, sem ég er ekki viss um að sé það sem fólk vill. Þýska leiðin, blöndu af hvoru tveggja virðist mér vænlegri.

Alla vega. Fólk þarf að geta, með einhverjum hætti, að geta kosið menn óháð flokkum.

Annað er alger aðskilnaður framkvæmda- og löggjafavalds. Hið þrískipta vald byggir á dómsvaldi, löggjafavaldi og framkvæmdavaldi. meðan löggjafavaldið er afgreiðsluapparat fyrir framkvæmdavaldið, eins og hér er, er ekki um þrískipt vald að ræða.

Kjósa ætti fólk beinni kosningu, kannski í bland við flokkakosningu.

Þingmenn, starfsmenn löggjafarvaldsins, ættu ekki að mega starfa fyrir framkvæmdavaldið. Hugsanlega með einni undantekningu, forsætisráðherra.

Ríkisstjórn ætti því að vera faglega skipuð, en ekki pólitískt. Ekki frekar en stjórnarmenn fyrirtækja sinni framkvæmda- eða fjármálastjórn þeirra.

Skilgreina þarf leið fyrir almenning að geta knúið fram kosningar, rétt eins og hluthafar fyrirtækja geta knúið fram hluthafafund.

Þetta er ekki flókið. Við erun eigendur fyrirtækisins Ísland og við höfum engar leiðir til að skipta út stjórn fyrirtækisins, nema á fjögura ára fresti. Eina leiðin til að stjórn láti af störfum er að hún ákveði það sjálf.

Hvers konar er það? Að hafa ekki einu sinni yfirráð yfir eigin eigum.

Brjánn Guðjónsson, 26.11.2008 kl. 20:43

9 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ég vil algera upppstokkun og ég er sannfærð um að við eigum rosalega gott fólk í allar stöður sem við þurfum að manna...til að byggja algerlega nýtt samfélag. Hér þarf að rífa allt illgresið sem hefur búið um sig á Íslandi upp með RÓTUM!!! Mér finnst eins og stjórnvöld hafi nú farið yfir eitthvað strik..strikið þar sem fólki verður ekki boðið upp á meira rugl og ógeðsspillingu. Æ fleiri eru orðnir bjrálaðir eins og þeir segja sjálfir og kröfur um valdbeitingu og jafnvel ofbeldi heyrast æ oftar. Mér er ekki rótt yfir  ótrúlegum seinagangi ráðamanna. Ætli þeir geri sér grein fyrir því hvernig fólkinu er farið að líða??? Hvað þarf eiginlega til að þeir átti sig á alvöru málsins???

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 26.11.2008 kl. 21:39

10 identicon

Það er alveg á hreinu, stórra breytinga er þörf til að uppræta spillinguna. Og þeir sem mótmæla því og vilja ekki höggva á vald flokkakerfanna sama hvaða flokki þeir koma úr.

Hljóta í mínum augum þá að vera þeir sem lifa á spillingu sinna flokka. Þarna gæti hnífurinn staðið í beini á kúnni. því mig grunar að þeir séu ansi margir á landi hér.

Og gleymum ekki heldur að samhliða þarf að setja lög og reglur um opinber embætti, eins og td. Seðlabankastjórn, Forseta og fleiri.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 21:41

11 identicon

Lára Hanna, takk einnig fyrir frábært blogg og nauðsynlegt aðhald við kerfið. Á þeim tímum sem fjölmiðlar flestir og blaða og fréttamenn. Virðast hafa yfirgefið þjóðina og gengið á hönd spilltra stjórnvalda eða auðvaldsklíkunnar.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 21:49

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það að fylgjast með röddum fólksins hér á þessum vettvangi eftir sjálfsmorðsárás græðgisvæðingarinnar á samfélag okkar hefur fyllt mig nokkurri bjartsýni. Í þeirri bjartsýni hafa nokkrir verið aflvakar umfram aðra og flestir þeirra hafa átt sér viðkomustað á þessari bloggsíðu. Lára Hanna og Baldvin Jónsson eru nöfn sem ég hef mikinn áhuga á að sjá í forystu nýs stjórnmálaafls með breiða pólitíska sýn til nýrra tíma þar sem megináherslan er samspil manns og náttúru í gagnkvæmri sátt. Ég sendi ykkur ákall frá mörgum viðmælendum mínum með sömu sýn. Ég hef lengi verið pólitískur vonbiðill Katrínar Fjeldsted læknis sem um skeið var alþingismaður og í forystusveit Sjálfstæðismanna. Katrín féll í ónáð hjá Flokknum vegna hlýleika síns til íslenskrar náttúru, auk þess sem hún þótti sýna ótilhlýðilega tilburði í átt til samfélagslegrar miskunnsemi gegn alræði fjármagnsins og valdspillingu.

Mér þætti vænt um ef ég sæi ykkur þrjú taka af skarið og blása til sóknar gegn okkar grautfúnu stjórnmálaflokkum þar sem allt logar í innbyrðis deilum og hnífstungum. Það verður að hafa hraðar hendur og fá góðan skipuleggjanda til að kalla saman trúverðugt fólk og koða hvort hægt verður að fella saman skoðanir og áherslur.      Þvi nú óttast ég það mest að stjórnvöld hafi hratt á hæli og taki ákvarðanir sem vísa í sömu átt og fyrr. 

Árni Gunnarsson, 26.11.2008 kl. 22:30

13 identicon

Lýðveldið Ísland í mótun - já hljómar mjög vel, maður lifnar bara allur við.  En það situr hroll að þegar hljómurinn þagnar...

Hvað sagði forsætisráðherrann Geir Hilmar þegar hann greiddi atkvæði sitt í fyrradag um  vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar . "Herra forseti. Í umræðunum í dag hefur verið leitt í ljós að tillaga stjórnarandstöðunnar, eða réttara sagt hluta hennar, á engan rétt á sér. Glapræði væri við núverandi aðstæður að samþykkja hana. Ég segi nei".

Jón Gunnarsson sagði: "Við þessar aðstæður að láta sér detta í hug að það besta sem geti komið fyrir þjóðina við aðstæðurnar sem uppi eru í samfélagi okkar sé að efna til kosninga"
 

Ég reyndar skoðaði þessi ummæli þegar ég hafði heyrt Jón Magnússon ræða áhyggjur sínar sama dag á alþingi:  "Í 1. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir: „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.“ Hvað þýðir það? Það er þingið sem ræður því ef það verður að þola ríkisstjórnina og það er þessi þingræðislegi réttur sem við í stjórnarandstöðunni erum að nýta okkur með því að bera fram þá tillögu sem hér er til umræðu. Það er ekki flóknara en það. Við erum að nýta okkur lýðræðislega möguleika okkar í þingræðisríki" .

Þarna er lögmaðurinn Jón Magnússon að fræða félaga sína á alþingi um það hvað lýðræði m.a. stendur fyrir, en greinilega er mikil þörf á fræðslu þeirra .

Ég endurtek: Geir H Haarde sagði: “Á ENGAN RÉTT Á SÉR ?

Jón Magnússon er þriðji lögmaðurinn sem kemur fram í fjölmiðlum á þremur dögum og lýsir áhyggjum sýnum af mismunandi atlögum hér að lýðræðinu á  stuttum tíma. 

Höldum vöku okkar !   Kveðja Hákon Jóhannesson



Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 22:39

14 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

þrátt fyrir að vilja ríkisstjórnina frá, ásamt mörgum öðrum, tel ég vantrauststillöguna hafa verið vanhugsaða.

T.d. leggur saksóknari ekki fram ákæru nema telja líkur til að vinna málið. Þessi vantrauststillaga var dauðadæmd frá upphafi og ekki til þess fallin að efla málstað okkar sem vilja breytingar. Hún kallaði einungis á sex tíma kjaftæði og tuð.. Orkunni væri betur varið.

Brjánn Guðjónsson, 27.11.2008 kl. 00:06

15 identicon

Ég er ekki sammála Brjánn. Ef stjórnarandstaðan og fólkið í landinu lætur ekki stjórnina fá þessi skýru skilaboð. þá bara situr pakkið það sem eftir lifir kjörtímabils og felur það sem það þarf, þangað til að skammtímamynni kjósenda hefur tekið við. Þetta skref var nauðsynlegt í það móment sem þarf að byggja til að fá stjórnina burt, með góðu eða yllu.

Og það má ekki ske. Spillingarliðið burt strax.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 00:54

16 identicon

Sorry   ''Og það má ekki ske"  hér ofan átti að vera á eftir "þangað til að skammtímamynni kjósenda hefur tekið við"

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 01:03

17 Smámynd: Sigurður Hrellir

Ég setti á bloggið mitt "Boðorðin 10" sem gætu orðið grunnur að nýju stjórnmálaafli. Kíkið endilega á þau og setjið inn athugasemdir. Ég tók á sínum tíma þátt í stofnun Íslandshreyfingarinnar ásamt Baldvini og veit hvað það er hrikaleg vinna að koma fullgildu framboði á lappirnar í öllum kjördæmunum sex. Hins vegar er ekkert sem heitir ef fólk vill fá að kjósa eitthvað annað en sömu gömlu flokkana.

Svo hef ég reyndar ásamt góðu fólki stofnað annan stjórnmálaflokk í millitíðinni sem heitir Græningjaflokkur Íslands og er aldrei að vita nema hann gæti orðið hluti að nýrri hreyfingu.

Sigurður Hrellir, 27.11.2008 kl. 01:44

18 identicon

Sorglega fáir stjórnmálamenn og konur þora, geta eða vilja sýna sjálfstæði og dug gagnvart klíkunni sem þau tilheyra, og fylgja því flokknum sínum eins og húsbóndahollir kjölturakkar af ótta við að lenda utangarðs og verða í kjölfarið fyrir bæði leyndu og ljósu aðkasti annara flokks- og innanbúðarmanna. Því verða þau oftast viljalaus verkfæri sinnar flokksforrystu og þeirra stefnumála sem oft er stjórnað af gjörspilltum þrýstihópum á eiginhagsmunavaktinni. Það er erfitt að sjá hvar almenningur og hagur fólksins rúmast inn í svo vonleysislega sorglegu og spilltu kerfi sem ver hagsmuni flokkselítunnar fyrst og fremst. Þetta á sér stað innan allra flokka, sama hvaða nafni hann nefnist eða bókstaf hann ber.

Virðist slíkt frekar eiga sér stað innan þeirra flokka sem hvað mesta áherslu leggja á að fylgja ákveðinni stefnu, og vill hún þá oft, ásamt þeirri áherslu sem á hana er lögð verða að nokkurskonar trúarbrögðum innan flokksins, þar sem leiðtoginn og/eða flokksformaðurinn er settur uppá stall og allt að því tilbeðin af flokksmönnum, nokkurskonar gullkálfur. Trúarhitinn og trúarsannfæringin verður oft heiftarlega sterk og er ógn við lýðræðið með sinni tryllingslegu, og mestmegnis óskiljanlegu, dýrkun á leiðtoganum, flokknum og stefnunni. Téðir leiðtogar slíkra flokka, sem svo mikið leggja uppúr stefnunni, virðast oft meðvitað og viljandi ýta undir slíka hegðun. Því það er þeirra hagur og hagur flokksins að breiða út "boðskapinn" og auka vald sitt.

Þessi hlýðni við flokk og stefnu vinnur gegn frjálsu og lýðræðislegu samfélagi og breytist oft þetta skrímsli þ.e. ofsafylgnin við stefnuna í "trúarbragðabaráttu" sem skiptir samfélaginu í fylkingar. Þar sem almenningur sem oft aðhyllist ekki neina sérstaka stefnu eða flokk, fremur einstök mál eða málaflokka, neyðist til að velja sér "lið" til að halda með. Auðveldlega getur svo myndast múgæsing þar sem margir kjósendur hrífast með, og eru þá algerlega á valdi áróðurs og frekar vafasamra upplýsinga. Skyndilega er allt sem einn flokkur segir tekið sem heilagögum sannleik, en frá hinum koma aðeins uppspuni og lygar. Þannig fljóta margir hugsunarlaust og illa upplýstir með tískustraumum stjórnmálanna vegna t.d. rangra og villandi upplýsinga, órökstudds áróðurs spunameistara flokkanna/stefnunnar sem stillt er upp sem sérfræðingum, slakra fjölmiðla, fjárstyrk hagsmunaaðila, ræðusnilli og persónutöfrum leiðtogans og svo algerum og oft á tíðum hættulegum skorti á gagnrýnni hugsun.

 

Við höfum margoft séð og orðið vitni að þeim ömurlega fylgifisk flokkakerfisins, þar inni þrífst ekki sjálfstæð hugsun, þar er sjálfstæð hugsun einfaldlega ekki æskileg. Og með tíð og tíma sogast menn, sem áður voru jafnvel ferskir og framsæknir hugsjónamenn, niður í hyldýpi flokkshollustunnar og eiga sér litla eða enga von um björgun úr þeim dauðsvolaða sérhagsmuna pitt, enda vilja þeir ekki láta bjarga sér þaðan því þar er að finna öryggi og skjól fyrir vindum sjálfstæðrar og gagnrýnnar hugsunar. Skjól fyrir eðlilegri sjálfsskoðun og nauðsynlegri sjálfsgagnrýni.

Þar finna þeir einnig skjól fyrir því sem allir valdhafar í lýðræðisþjóðfélagi eiga að hræðast, þ.e. ef allt er eins og það á að vera og lýðræðið er virkt. En hér er lítill ótti við kjósendur, heldur virðist almenningur bara fara alveg óstjórnlega mikið í taugarnar á stjórnvöldum. Innan flokksins og undir hans verndarvæng fela þeir sig fyrir kjósendum og sífelldri heimtufrekju og gagnrýni almúgans. Botnlausar frekjur og vanþakklátir vandræðagemsar sem alltaf vilja meira af þessu, betra hitt, sanngjarnara svona og stærra hinsegin. Gerast jafnvel svo djarfir að fara fram á upplýsingar um störf valdhafa. Það þola þeir ekki, hvernig dirfist lýðurinn að reyna eiga samskipti við stjórnmálamennina utan kosninga, þeir hafa ekki tíma fyrir svona vitleysu. Hroki almennings getur verið yfirgengilegur, hann getur bara komið og talað við okkur eftir 2 og hálft ár þ.e. í næstu kosningum.

En þá er nú gott að geta smeygt sér inn í höfuðstöðvar flokksins, þar sem allir eru vinir þínir og skoðanabræður, allir eru sammála um allt og alla, þeim finnst vanilluís góður, þér finnst vanilluís góður, þú drekkur pepsí, og þeir drekka pepsí, þeir eru hlynntir kvótakerfinu og þá ert þú náttúrulega hlynntur kvótakerfinu, og allir eru ofsalega hamingjusamir með það eitt að fá að vera memm. Það er svo gaman að vera partur af "gengi" eða valdaklíku. Þér líður eins go þú sért kominn í hóp svölu krakkanna í skólanum og ekki séns að þú farir að hætta á útlægð úr þessum félagsskap.

Allt sem þú gerir uppfrá þessu hættir að snúast um hvað þér finnst, eða öllu heldur hvað þér fannst. Aðeins hvað FLOKKNUM finnst og hvað flokkurinn vill, því nú ert þú flokkurinn og flokkurinn þú. Örlög ykkar eru nú upp frá þessum degi svo alfarið og algerlega samtvinnuði og samofin, að þú hættir að vera hver svo sem þú varst. Þú veist ekki lengur hvar þú endar og flokkurinn byrjar, og þú hættir að hugsa sjálfur. Þú manst varla hvernig tilfinning það er að komast að niðurstöðu af sjálfsdáðum, hvað þá hvernig það var að skipta um skoðun. Þú ert orðinn holdi klætt vélmenni án snefils af sjálfsvirðingu, enda innanholur því sjálfið er horfið ofaní hið gapandi svarthol hinnar sorglegu og gagnrýnislausu húsbóndahlýðni flokksmanna. Siðferðiskennd þinni og rökréttri hugsun hefur nú verið skipt út fyrir málefnaskrá flokksins og boðskap stefnunnar sem flokkurinn mun fylgja fram í rauðann dauðann.  

Stefna þeirra er meitluð í stein og henni verður aldrei haggað, því ef flokkurinn myndi nú breyta stefnu sinni í einhverju máli þá yrði nú aldeilis uppnám. Flokksmenn gætu nefnilega við þær aðstæður átt á hættu að hugsa, vega og meta stefnubreytinguna sjálf, og guð forði okkur nú frá því að einhver yrði ósammála. Hér þarf enginn að hugsa, hér eru allir sammála, hér verða aldrei stefnubreytingar, hér er maður verndaður fyrir ruglinu sem kallast rök og skoðanaskipti. Hér skal enginn rugga bátnum, ekki rugga bátnum.

Eins og allir ættu að vita eru það ein mestu og stærstu svik sem þú fremur gagnvart sjálfum þér þau að skipta um skoðun. Skítt með nýjar upplýsingar sem jafnvel gera leikskólabarni fullljóst að afstaða þín er röng. Skítt með breyttar aðstæður sem knýja á um breytta hugsun og að fólki endurmeti afstöðu sína í nýju ljósi. Skítt með hagsmuni almennings, ef þeirra hag yrði best borgið ef þú skiptir um skoðun. Skítt með allt! ...nema flokkshollustuna.

Klíkan á sameiginlegan óvin, svona eins og Hells Angels og Banditos nema bara flokkurinn gengur í jakkafötum, en rétt eins og í átökum mótorhjólagengja liggja saklausir borgarar í valnum, but who cares!! Þessi saklausu grey áttu engann aur svo þau skipta engu máli, höfðu ekkert og hafa ekkert að segja, geta ekki borgað verndargjaldið, svo af hverju hefðu þau þá átt að njóta verndar. Það eru aðrir sem borga betur, meira að segja miklu betur.

Af hverju að sætta sig við klink þegar maður getur fengið seðla. Ég veit að einhverjir myndu segja "ahh en siðferðiskenndin?" Siðferðiskenndin er örugglega góð og blessuð og allt það og það er alls ekki málið að hún rúmist ekki innan flokksins. Siðferðiskenndin rúmast nefnilega ekki innan stjórnmálanna. Það væri lítið gaman að stjórnmálum ef allir þyrftu nú að fara að bæta á sig áhyggjum af góðu siðferði, það myndi setja allt kerfið í uppnám, þess vegna er bara best að taka það út úr jöfnunni. Pópúllinn getur verið með þann andskotans hausverk yfir helvítis siðferðiskenndinni. Sem ekkert gerir nema flækja hlutina, veldur eintómum barlóm og bölmóð.

Ahhhh Flokkurinn, hann er frábær, einhverskonar lögleg mafía siðblindra hvítflibbagangstera og narsisista. Enginn innan flokksins er að minna þig á einhver leiðinda kosningaloforð sem þú meintir hvort eð er ekki og sagðir bara í hálfkæringi við einhvern bóndadurg sem ætlaði að greiða þér atkvæði sitt ef að þú gerðir eitthvað.bla bla bla.....hver í helvítinu man það, og hverjum er ekki drullu sama. Hafði ekki einusinni hvarflað að mér að standa við skít né skán,  ég man það ekki einusinni lengur hvaða spunabulli ég lofaði.

Get samt ímyndað mér að það hafi verið eitthvað á þessa leið. "Örugg stjórn efnahagsmála" það er alltaf klassískt og sauðirnir lepja það upp eftir manni hugsunar og hikstalaust, þau biðja ekki einusinni um rök. Enda er blind flokkshollusta meirihluta kjósenda hlægilega órökrétt, hjörð sem maður gæti rekið fram af fjallsbrún no questions asked! og samt væri maður enn með atkvæði þeirra í áskrift, manni dettur í hug svona "battered wife syndrome". Dásamlegt alveg. Ég gæti örugglega sagt þeim að jörðin værir flöt og VOILA!! jörðin er flöt. Það er líka góð taktík í svona flokkabaráttu að endurtaka oft sömu "lygina" aftur og aftur og áður en þú veist af er orðin til mjög lífseig mýta, t.d. "þeir kunna ekki að fara með peninga" og "þær eru á móti öllu" eða "við lækkum skatta" sem er auðvitað haugalýgi, þitt fyrsta verk verk verður að hækka skatta, þú gerir það bara á ská með því að afnema einhverja vísitölutengingu eða setja smá nefskatt á eitthvað.  

Og regla númer eitt tvö og þrjú, ef eitthvað gengur vel, alveg sama hvað, þá skaltu eigna þér heiðurinn og reyna að sviðsetja "photo op" þar sem þú klippir á borða eða klappar barni á kollinn.  Með því móti  færðu kannski einhverja til að halda að þú sér "gull af manni" eða jafnvel "vinur litla mannsins". Mundu líka að tala alltaf eins og þú "skiljir" hinn venjulega vinnandi mann, að þú "náir því" hvernig sé að lifa á skammarlega lágum tekjum. 

En eitt skaltu muna, þegar illa fer og ljótir hlutir koma fram í dagsljósið þá berð ÞÚ enga ábyrgð, sama hvað. Alltaf benda á annann innan stjórnkerfisins, þeir munu sjálfir gera það og þú skal líka gera það. Almenningur fylgir þá bara bendingunum í eilífa hringi og á endanum nennir hann ekki lengur að spá í þessu og fólk fer að gleyma......á þá er kominn tími til að hefjast aftur handa á sama sukkinu.....

Sölvi Borgar Sighvatsson (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 04:28

19 identicon

Ástandið hér á landi mun ekki lagast fyrr en flokkarnir verða lagðir niður. Þó að við kjósum yfir okkur nýja stjórn sé ég lítið breytast, hef bara ekki trú á því. Ég vil fá að kjósa fólk af lista sem býður sig fram, punktur. Hef aldrei nokkurn tímann verið sáttur við þann flokk sem ég hef kosið í gegnum tíðina því á þeim lista hafa alltaf verið aðilar sem ég ekki kunnað við. Hef alltaf strikað út fólk en það hefur aldrei haft nein áhrif nema að því leyti sem ég hefði óskað. Ég er búin að fá ógeð á þessum stjórnarháttum, ógeð,ógeð,ógeð, vægt til orða tekið. 

Einn af skrílnum.

Þórólfur Jóhannesson (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband