Aprílgabb forsætisráðherra

Ég var að grúska í gullastokknum eina ferðina enn og rakst á ummæli forsætisráðherra frá 31. mars þar sem hann sagði að nú væri botninum náð. Daginn eftir var 1. apríl og hann hélt áfram að gaspra í Kastljósi, því sama og sýnt var brot úr í fréttum RÚV í gærkvöldi. Erlendur sérfræðingur hafði sagt m.a. í fréttatímanum á undan að ríkissjóður væri of smár miðað við bankana, en því var Geir aldeilis ekki sammála! "Þetta er gagnrýni sem stundum heyrist, að bankakerfið sé orðið of stórt fyrir íslenska ríkið, en ég tel ekki að svo sé". Æ, æ, Geir. Það voru ótalmargir búnir að segja þetta og nú súpum við seyðið, meðal annars af því sem Geir neitaði að viðurkenna í aprílgabbi sínu.

Daginn eftir þetta viðtal voru Geir og Ingibjörg Sólrún að fara á NATO-fund og höfðu leigt sér einkaþotu til fararinnar. Geir réttlætir þá ákvörðun með því að tími þeirra sé svo mikils virði að það borgi sig. Hann sér enga möguleika á að nýta biðtímann eins og fólk þarf nú að gera almennt þegar það er í viðskiptaerindum erlendis. Svo er hann hálfmóðgaður við Sigmar fyrir að hnýta í þetta - það voru jú 4 sæti laus og fjölmiðlum boðið að nota þau! Þá eiga þeir ekkert að vera að gagnrýna fjáraustur hins opinbera.

Lokaorð í aprílgabbi Geirs eru þau, að þegar líður á árið og kemur fram á það næsta muni rofa til. Forsætisráðherra er greinilega ekki spámannlega vaxinn og hefur tekist, með dyggri aðstoð félaga sinna í Flokknum, ríkisstjórnar, alþingismanna, embættismanna í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti, bankamanna - að ógleymdum útrásarauðmönnum sem margir vilja gera útlæga - að koma heilli þjóð á vonarvöl með betlistaf í hendi. Þrátt fyrir það sitja allir stjórnmálamenn og embættismenn ennþá í sínum mjúku stólum og þiggja fyrirtakslaun (og svo eftirlaun) af fólkinu sem þeir sviku - en sem vill alls ekki hafa þá áfram í vinnu og heimtar afsögn þeirra. Hvað þarf til að þeir skilji kröfur almennings?

Páll Skúlason sagði í ágætu viðtali við Evu Maríu í gærkvöldi að þrátt fyrir ólíka reynslu okkar og upplifun af efnahagshruninu sé sameiginleg reynsla okkar sem Íslendinga og sem þjóðar sú, að öryggisnetið okkar, ríkið, hafi brugðist. Ríkið sá ekki til þess að grundvallarhagsmunir okkar væru tryggðir heldur hafi það verið notað sem tæki til að sundra okkur í stað þess að sameina okkur. Þetta er hárrétt hjá Páli og ég kann ríkisstjórninni litlar þakkir fyrir. En hér er aprílgabb forsætisráðherra. Ég lenti í svolitlum vandræðum með vinnsluna og verið getur að tal og mynd fari ekki alveg saman.

Ég hlakka til að sjá yfirlit sjónvarpsstöðvanna yfir fréttir ársins. Við fengum örlítið sýnishorn á RÚV.

Að lokum spillingarfréttir hjá Stöð 2. Ég man þegar millifærslumálið kom fyrst upp fyrir um 2 mánuðum. Ekkert virðist hafa gerst í því og það er að koma aftur upp núna. Ég tek undir með Ragnari í seinni fréttinni sem spyr fyrir hverja forstjóri lífeyrissjóðsins og formaður stéttarfélagsins vinna. Og hvernig getur launakostnaður lífeyrissjóðsins verið 270 milljónir á einu ári? Fram kom um daginn að forstjórinn er með vel yfir 2 milljónir í mánaðarlaun og Gunnar Páll er með 1,7 milljónir á mánuði hjá stéttarfélaginu. Lægstu taxtar VR eru um 140.000 á mánuði. Í þessa hít er fólki skylt að borga samkvæmt lögum. Hvað yrði gert við mann ef maður neitaði að borga í svona sukk? Þetta verður að taka með í reikninginn þegar stokkað verður upp á nýtt og gefið aftur í framtíðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Tek undir það Ragnar sýnir elju og við megum taka þor hans til fyrirmyndar.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 29.12.2008 kl. 01:56

2 identicon

Mér fannst svör sjálfstæðismanna skera sig úr. Allt virtist í himnalagi hjá þeim og þeir voru stórorðir í garð efasemdarfólks. Nú hefur komið í ljós að allt sem Geir, Illugi og Þorgerður Katrín sögðu var rangt (Var þeirra málflutningur "af annarlegum hvötum"?) en þeir sem vöruðu við, höfðu rétt fyrir sér. "Þegar öllu er á botninn hvolft", Hvaða afsökun hefur fólk fyrir því að styðja flokkinn þeirra?

Guðna er greinilega ekki alls varnað og Ingibjörg var ekki jafn sannfærð og sjallarnir í trúnni. 

Ef tíminn hjá Geir og Ingibjörgu var svona dýrmætur, hvað í fjáranum voru þau þá að eyða tíma í að fara á NATO fund til að greiða atkvæði með uppsetningu eldflauga í Tékklandi, sem yfir 70% tékka eru mótfallnir? Af hverju notuðu þau ekki sinn dýrmæta tíma frekar til gagns hér heima? 

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 01:56

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Lára Hanna enn og aftur vil ég þakka þér fyrir tilskrifin. Ég vona svo sannarlega að við þú, ég og allir hinir náum að byggja upp réttlátara samfélag þegar við höfum komið spillingaröflunum frá.  Þá verði ekki flokkadrættir, frændsemi eða vinátta, heldur samhyggð almennings  í þessu landi til að breyta bæta og skapa nýtt gott Ísland. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.12.2008 kl. 01:57

4 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir góðann pistil, og upprifjunina.  Spillingarliðið er að komast í þröng, svona upprifjanir hjálpa fólki að sjá vandann og spillinguna. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 29.12.2008 kl. 02:03

5 Smámynd: Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir

Takk Lára Hanna enn og aftur, ég tek heilshugar undir það sem hún Ásthildur segir hér fyrir ofan.

Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 29.12.2008 kl. 02:13

6 Smámynd: Benedikt Bjarnason

Það fer að verða dálítið skrautlegt að sjá glefsur frá árinu sem nú er senn liðið. Hvað menn gátu verið veruleikafirrtir og hvað menn menn gátu verið þrjóskir alveg endalaust fram á síðustu stundu er alveg með ólíkindum. Vísbendingar sem koma fram aftur og aftur eru hunsaðar og alltaf reynt að berja hausnum við steininn. Auðvitað gat enginn séð fyrir þá atburði sem urðu á fjármálmörkuðum heimsins á fárra vikna tímabili nú í haust þegar hver bankinn af öðrum fer yfirum. Enda held ég að enginn málsmetandi maður sé að kenna ríkisstjórninni um það. En íslensku bankarnir voru margfalt of stórir fyrir okkar hagkerfi og allt of stórir fyrir seðlabankann. Hann gat aldrei varið þá þótt því hafi verið haldið fram á sínum tíma. Fyrirhyggjuleysið og andvaraleysið mánuðina á undan algert.

Viðtalið við Pál Skúlason var alveg frábært. Hann gagnrýndi stjórnvöld, eftirlitskerfið, útrásina og ýmislegt sem tengist þeirri stöðu sem við erum nú í. Allt sem hann sagði var mjög málefnalegt, án hroka og hleypidóma, sett fram af rökfestu og skynsemi. Verulega frambærilegt. 

Benedikt Bjarnason, 29.12.2008 kl. 02:24

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Það er hreinlega skelfilegt að hlusta á Geir og alveg sérstaklega með svörin í hönd.

Þvílíkur hroki, vissa um eigið ágæti og skortur á sjálfsgagnrýni.

Burt með þetta lið.

Jenný Anna Baldursdóttir, 29.12.2008 kl. 02:55

8 identicon

Elsku Lára Hanna. Takk fyrir þetta.

Þetta er bara enn einn nagli í kistu fráfarandi stjórnar sem hefur dregið okkur á asna eyrunum alt frá síðustu kosningum!

Guði sé lof fyrir fólk eins og þig, og eftir að hlusta á bullið í Geir gíruga, frá 1 apríl. Skil ég betur af hverju, RUV. er fjársvelt og Páll Magnússon  rekur hvern starfsmanninn á fætur öðrum.  Einfaldlega svo enginn þori að vinna sína vinnu og sýna þessi viðtöl.

Ef þetta hefði verið sýnt þjóðinni sama dag og bankarnir féllu, hefði fólk réttilega farið um götur og krafist afsagnar Geirs og hans stjórnar. Þessi viðtöl sem þú hefur sýnt hér og í fyrri færslum, sanna svo ekki verður um villst, einlægan brotavilja og vitneskju allrar stjórnar okkar í þessu stærsta svikamáli Íslandssögunnar.

Svei þessu pakki! Og öll sitja þau enn og láta sem enginn hafi vitað neitt. Og bruðlið og snobbið, fljúgandi um á NATÓ fundi í einkaþotum. Á sama tíma og okkar Björgunarsveitir og Landhelgisgæsla er fjársvelt. Og þarf að stóla á ölmusu í formi flugeldakaupa o.s.f.r.v. Þau geta  ekki einu sinni andmælt Bretum fyrir að setja á okkur ''Hriðjuverkalög'' Eða hafa kjark til að lýsa okkur sem sjálfstæðri þjóð utan hernaðarbandalaga. Eins og NATÓ, þó að þau terroræsi okkur.

Hvers vegna? Jú ætli Bretar viti ekki meira upp á þetta pakk en við almúginn. Þau eru sennilega of djúpt sokkin sjálf. Enda hlær Davíð kóngur alla leið í bankann. Hann vissi þetta líka og þess vegna gerir Geir ekki neitt.

Enda hvað sagði hann í viðtalinu? "Stundum er best að gera ekki neitt"

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 03:03

9 identicon

  Gaman verður að sjá hvort þetta verði líka eitt af Apríl göbbum Geirs. Þetta sýnist mér vera 250.000.000 kr. á genginu í dag. Þrjú ár í röð takk.

Ísland stofnar sjóð fyrir eyríki

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/09/23/island_stofnar_sjod_fyrir_eyriki/

Þökk sé Útrásargleði ISG!    Hvernig væri að fá svör við því hvað þetta fáránlega framboð hennar kemur endanlega til með að kosta okkur.  Ofaná alt hitt sukkið?

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 03:57

10 identicon

Hvers vagna skapaðist þessi mikla þörf á auknum gjaldeyrisforða? Hvers vegna hrópuðu bankarnir hástöfum á auknar lántökur ríkisins? Jú, það var vegna þess að bankarnir og eigendur þeirra (útrásarliðið) fluttu hvern einasta gjaldeyri sem kom inn í landið jafnharðan til fyrirtækja sinna erlendis.

Í ársskýrslu seðlabankans fyrir 2007 segir að mikil aukning hafi orðið á stofnun fyrirtækja erlendis í eigu Íslendinga, "vegna skattalegs hagræðis" í sömu skýrslu segir að útlán bankanna til "erlendra aðila" hafi aukist um 143% á því ári. Í árslok 2007 voru 59% af heildarútlánum bankanna til "erlendra aðila". Þessi þróun hélt áfram af auknum krafti frameftir árinu 2008. Fróðlegt væri að sjá hverjar heilarskuldir "erlendra aðila" eru við bankana, ég hef ákveðna hugmynd en hún er alltof skrautleg.....og hver eru veðin?

Arnór talar um að Bretar hafi sett "hriðjuverkalög" á OKKUR. Ég hef aldrei skilið þessa tuggu. Bretar áttu lög sem þeir settu á sínum tíma til að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuvekastarfsemi. Þessi lög eru aðallega um fjármagnsflutninga. Þeir beittu þessum lögum gegn tveimur íslenskum (alþjóðlegum?) BÖNKUM, ekki OKKUR. Þeir gripu til þessara laga vegna þess að þau höfðu tafarlausa virkni til að koma í veg fyrir fjármagnsflutninga (kannski var ástæða til). Engin lög voru sett gegn íslenska ríkinu né Íslendingum sem þjóð. VIÐ erum ekki bankarnir og bankarnir ekki VIÐ.

Hugsanlega verður farið í mál við Breta vegna þessa (Kaupþing). Ég hef þó enga trú á því, ýmislegt óhreint, og óþægilegt fyrir suma, gæti komið í ljós við þau málaferli.

sigurvin (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 05:30

11 Smámynd: Júlíus Björnsson

Svona eftir á að hyggja, hvernig er hægt að réttlæta aðila? Annað hvort eru þeir svona lágreindir eða forhertir vitorðsmenn. Þriðji möguleikinn: Bæði lágreindir og forhertir vitorðsmenn. Því miður er ekki hægt að fyrirgefa þeim sem iðrast ekki. Ég er ein af þeim fjölmörgu sem allan tíman fannst eitthvað meir en lítið bogið við hlutina hvort sem það kallast siðspilling eða vítavert kæruleysi. Að kjósendur séu leiksoppar með skammtíma minni er regla sem gengur alls ekki upp þegar að kreppir.

Júlíus Björnsson, 29.12.2008 kl. 06:14

12 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Enn og aftur takk

Hólmdís Hjartardóttir, 29.12.2008 kl. 08:46

13 identicon

Allt er hægt ef að vilji er fyrir hendi.

Nú þarf að taka höndum saman og mynda stjórnmálaafl þar sem innanborðs væru trúverðugar persónur úr atvinnulífinu og fagmenn og bjóða fram í næstu kosningum.
Samstaðan er eina og jafnframt sterkasta vopnið gegn núverandi valdhöfum.
Ríkisstjórnin og Alþingi starfa ekki lengur í umboði kjósenda.

Viljum við hafa þessa vitleysu gangandi áfram,þar sem komið er fram við okkur eins og við séum fífl eða hvað viljum við gera?

Ef að við sem þjóð gerum ekkert,þá fyrst erum við búin að gera okkur að fíflum.
Viljum við að Ísland verði áfram þrælakista fyrir loddara og fjárglæfrahyski?
Ég segi nei takk!

Kristján Blöndal (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 09:31

14 identicon

Góð samantekt sem bætist við margar góðar sem þú hefur tekið saman. RÚV og St2 ættu að fá að spila safn þitt. Það myndi nægja... og væntanlega spara. Illugi alveg úti á túni og BB (jr) virðist vita meir en hann sagði 28. sept.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 11:31

15 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Ég held að það sé kominn tími til að hætta að borga, held að við komum þessu liði ekki út fyrr. Það verður náttúrlega sjálfgert þegar fjöldi manns missir vinnu og á að lifa á bótum. Ef fólk þarf að velja að gefa sér og fjölskyldunni að borða eða borga í bankann er ekki spurning hvort er valið.

Vil persónulega ekki nýja flokka við erum of lítil, reka sjoppuna eins og fyrirtæki. Það virðist vera sami rassinn undir flestöllum sem komast til valda hér þeir missa ráð og rænu. Eins og það sogist allt vit og skynsemi úr fólki. Fuss og svei.

Rut Sumarliðadóttir, 29.12.2008 kl. 12:00

16 Smámynd: Villi Asgeirsson

Allt er breytt og enginn sá neitt fyrir. Þetta er allt einhverjum öðrum að kenna. Takk fyrir að minna okkur á þetta, Lára.

Manstu eftir færslunni sem þú skrifaðir í sumar með yfirskriftinni "Engin spilling á Íslandi"?

Villi Asgeirsson, 29.12.2008 kl. 12:45

17 Smámynd: Villi Asgeirsson

Erlingur, ég efast ekkert um að þú og fleiri hafi séð þetta fyrir. Ég var á Íslandi í vor og skildi hvorki sinnuleysi stjórnvalda né almennings. Bloggið var fullt af fólki sem grátbað um aðgerðir í allt sumar, en ráðherrar höfðu víst eitthvað meira og mikilvægara að gera í útlöndum.

En þetta með Geir og hótelherbergið í London. Væri hann virkilega starfi sínu vaxinn, hefði hann notað tímann og hitt Brún eða Elskuna. En honum fannst engin þörf fyrir það, enda engin sérsök vandamál í gangi. Svo sagði hann að ríkisstjornin og seðlabankastjórn væru í stöðugu sambandi. Þegar þetta viðtal var tekið hafði viðskipta(banka)ráðherra ekki talað við seðlabankastjóra í marga mánuði og myndi ekki tala við hann fyrr en eftir yfirtöku bankanna.

Villi Asgeirsson, 29.12.2008 kl. 13:34

18 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Ég skora á Rúvað sýna allar samklippurnar þínar og samantektir áður en áramótaávarp forsætisráðherra verður flutt og svo aftur á undan nýársávarpi forsetans. Þá verður hverju mannsbarni ljóst hvílíkur glæpakór þetta er og allir sem einn munu landsmenn flykkjast út á götur og ekki unna sér hvíldar fyrr en spillingarliðinu hefur verið komið frá og helst á bak vil lás og slá.

Og Lára Hanna þú ert bjargvættur og kona ársins að mínu mati. Takk takk og aftur takk fyrir þína frábæru vinnu. Sjáumst í byltingunni..hvet alla til að taka þátt í göngunni á gamlárs frá stjórnarráðinu klukkan 13. 30. Mætið með blys og byltingarskapið!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 29.12.2008 kl. 14:14

19 identicon

Sigurvin.  Rétt er það að lögin voru sett á bankana.  En vegna fádæma aumingjaskaps og klúðurs stjórnvalda okkar (hvort sem það var með ráðum gert eður ei, kemur vonadi einhverntíma í ljós).

Þá gáfu yfirvöld einhverjum gosum bankana til að arðræna þá, en þeir voru samt okkar, þjóðarinnar þegar kom að því að borga. Því getur maður sagt að Bretar hafi sett lögin á okkur. Það erum við þjóðin sem kemur til með að bera skaðann. 

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 14:17

20 Smámynd: Sólveig Kristín Gunnarsdóttir

Kæra Lára Hanna. Takk fyrir alla vinnuna sem thú leggur í thessar einstaklega gódu færslur thínar. Vona ad sem flestir lesi thær. Kærar kvedjur frá dk.

Sólveig Kristín Gunnarsdóttir, 29.12.2008 kl. 16:32

21 Smámynd: Harpa Björnsdóttir

Takk eina ferðina enn Lára Hanna - þú klikkar aldrei .......

Þetta var frábær samantekt og í henni má glöggt sjá að íslensk stjórnvöld flutu sofandi að feigðarósi. En það var eitt sem ég saknaði og það var þegar Geir var spurður af fréttamanni hvers vegna hann héldi að Bretar hefðu sett á okkur hryðjuverkalög. Hann skildi það ekki, sagði að ef hugmyndin hefði verið að stöðva fjármagnsflutninga af Icesave-reikningum Landsbankans frá Bretlandi þá hefði ekki verið um neina slíka flutninga að ræða, frekar um flutning fjármagns FRÁ Íslandi og það frá Kaupþingi. Svo þarna strax vissi Geir um þetta, trúlega frá Fjármálaeftirlitinu, en lagði ekki saman tvo og tvo, ekkert frekar en við hin, Fjármálaeftirlitið og skilanefndirnar. Þetta er vandamálið  í hnotskurn held ég, að við öll vorum ekki nægilega fróð um það hvað var að gerast í þessu bankaumhverfi, sama þótt við séum flest meðalgreind og með góða menntun. Meira að segja hagfræði- og viðskiptamenntað fólk átti fullt í fangi með að skilja hvaða fléttur var verið að vefa í bankaheimum. Vilhjálmur Bjarnason skildi að það var eitthvað gruggugt, en hvað það var nákvæmlega var ekki alltaf hægt að benda á. Núna, þegar þræðirnir eru smátt og smátt að rakna upp er auðveldara að skilja hin ýmsu plott, þó við höfum ekki haft neina getu til þess á meðan hlutirnir voru að gerast, ekki heldur Fjármálaeftirlitið, ekki ríkisstjórnin, bara hinir innvígðu skildu og fóru fram úr okkur með svikum og prettum......

En nú þarf að vinna í því að láta þessa fjárhættuspilara fá makleg málagjöld. Hvenær verður það?

p.s. Það er líka athyglisvert að lesa umræður sem fram fóru í bresku lávarðadeildinni um hryðjuverkalögin, þær umræður útskýra margt og ég er ekkert hissa á þessum lögum lengur. En það er líka erfitt að sjá eftir þann lestur að Geir sé lengur sætt á forsætisráðherrastóli................. 

Harpa Björnsdóttir, 29.12.2008 kl. 19:02

22 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Úffff. Mig er farið að verkja í sálina...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 29.12.2008 kl. 19:33

23 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Lára Hanna þú varst flott í Kastljósinu...!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 29.12.2008 kl. 21:04

24 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Einmitt mig langaði til að segja þér að þú varst rosaflott í kastljósinu í kvöld. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.12.2008 kl. 21:42

25 identicon

Arnór. Áróður bæði stjórnvalda og auðmanna gengur útá að koma sök á Breta. þetta gera þeir til að beina athyglinni frá eigin sök. Bankarnir voru í einkaeign, en það er rétt hjá þér að svo var um hnúta búið, af einhverjum ástæðum, að hrun þeirra lendir á okkur.

Hafi þessir fjármagnsflutningar átt sér stað, sem margt bendir til, hverjir voru þá að flytja fjármagn? og til hverra? og aðalatriðið: frá hverjum var verið að flytja fjármagn? Ég skal svara þér því - frá OKKUR.

"Þjóðin kemur til með að bera skaðann" segir þú og átt þá væntanlega við "skaðann(?)" af lagasetningu Breta. Er ekki vel hugsanlegt að í ljós komi, þegar upp verður staðið, að þessi lagasetning hafi BJARGAÐ einhverju af OKKAR fjármunum? og þ.a.l. minnkað okkar tjón?

sigurvin (IP-tala skráð) 29.12.2008 kl. 22:22

26 identicon

Sigurvin, þetta eru stórar spurningar og ég er í meginatriðum sammála þér.

En ansi er ég hræddur um að fyrst stjórnin felur gerðir þessara manna í bankaleynd, og takmarkar fé og krafta til að upplýsa þessi mál. Samanber það að hærri fjárhæðir fari í P/R stunt pakkann og Norska hernaðarsérfræðinginn. Sýnist mér að við fáum engin svör svo lengi sem þessi spillingar stjórn er við líði.

En ekki gleyma því að aðgerðir Breta lentu harkalega á miklu fleirum en bara bönkunum. Flest okkar útflutnings og innflutnings fyrirtæki t/d. Urðu fyrir skaða í ljósi viðskifta vilda og hefts fjárflæðis þeim að ósekju. Rétt eins og allur almenningur sem var á ferðalögum gat ekki lengur notað kort sín, með tilheyrandi kostnaði og leiðindum. Námsmenn voru frystir án hjálpar erlendis og fl. og fl.

Þannig að þeir brutu meðalhófsreglur, og notuðu fallbyssur sínar til að drepa mýflugu bankana okkar. Það er það sem ég á við með að  "Þjóðin kemur til með að bera skaðann"

Þess vegna er það lykil atriði að losna við spillingaröflin strax. Og fá í gang óháða rannsókn. Miljónir skipta ekki nokkru máli lengur, stærðirnar eru orðnar svo gríðarlegar sem lenda á þjóðinni hvort sem er.  Hér má ekkert til spara til að freista þess að fá eitthvað upp í hítina. Og það er með ólíkindum að okkar pínulitla F.M.E. skuli ekki hafa verið margfaldað frá fyrsta degi og efnahagsbrotadeild sömuleiðis. En þvert á móti, skilst mér að verið sé að skera hana niður.

Einnig grunar mig að Björn B. vilji ólmur frekar fjölga í "Herliði sínu" því hann sá sennilega þetta fyrir. Enda lengi lagt áherslu á það að geta frekar barið niður byltingar en að ná hvítflibba glæponum.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 10:41

27 Smámynd: Árni Gunnarsson

Tek undir með Rut. Svelta melrakkana út úr greninu.

Árni Gunnarsson, 30.12.2008 kl. 16:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband