Enn öflugri mótmæli

Líklega er rétt að þetta hafi verið fjölmennasti mótmælafundurinn til þessa og stemmningin ólýsanleg. Lögreglan segir 7.000, ég og fleiri giskuðum á 8-10.000. Þessi gríðarlega góða mæting sýnir að fólk hefur ekki látið blekkjast af óljósu loforði um kosningar í maí. Enginn hefur verið látinn axla ábyrgð og allir skúrkarnir sitja sem fastast. Spillingin er í algleymingi og því mótmælum við öll! Hvað ætli mæti margir næst?

Ræðumenn voru mjög góðir. Fyrstur var Magnús Björn Ólafsson með kraftmikla ræðu sem ég býst við að verði birt hér. Næst var Hildur Helga Sigurðardóttir húmoristi með meiru og hún er búin að birta ræðuna sína á blogginu - hér. Því næst flutti Jakobína Ólafsdóttir stutt ávarp sem hún birtir á blogginu sínu hér. Lestina rak síðan Guðmundur Andri Thorsson og ég ætla að stelast til að birta frábæru ræðuna hans sem ég fann á Eyjunni.

Mótmæli á Austurvelli 24.1.09

Ræða Guðmundar Andra á Austurvelli 24. janúar 2008

Við komum úr ólíkum áttum þjóðlífsins og eigum kannski ekki margt sameiginlegt og þurfum ekkert að eiga það en við sameinumst í takti. Við sameinumst í tilfinningu. Við sameinumst í æðaslætti. Við erum stödd hér á guði og gaddinum - atvinnulaust fólk sem veit ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér, háskólafólk sem horfir á grundvöll allra gilda gliðna, iðnaðarmenn sem fá ekki notið sinna handa, anarkistar, sósíalistar, markaðshyggjumenn, listamenn og vörubílstjórar, sjómenn, læknar, blaðamenn og kennarar, bálreiðar ömmur og hugstola afar, krakkar, mömmur, pabbar - fólk - fólk þar sem hver og einn kemur úr sinni átt þjóðlífsins og finnur hjarta sitt slá um stund hér á guði og gaddinum í takti við hjörtu samborgaranna í æðaslætti þúsundanna. Við erum þjóðin. Og við finnum til með ráðherrunum sem ganga í gegnum þrautir í lífi sínu, kvöl þeirra snertir okkur og við óskum þess að þeir beri gæfu til þess að sleppa takinu á valdataumunum. Við sendum þeim góða strauma og góðar óskir um góðan bata og óskum þess af öllu hjarta að þau átti sig á því að nú þurfa aðrir að stjórna landinu.

Við sameinumst í takti - í búsáhaldabúgganum sem er einfaldur og margslunginn í senn. Það var hér á Austurvelli sem þjóðin fann taktinn. Og takturinn kom úr eldhúsunum, eins og allt sem er gott og nærandi og grundvallandi. Þegar allt var komið í hönk gáði fólkið í eldhússkápana til að sjá hvað væri nú eiginlega til - og töfraði fram þennan takt út úr pottum sínum og pönnum. Hann er fjölbreyttur og tjáningarríkur - hann tjáir flóknar tilfinningar sem flæða um okkur í þessari martröð.

Hann tjáir fyrirlitningu okkar á þeim sem í því ofdrambi sem bara þekkingarleysið og heimskan geta skapað með samstilltu átaki hjá þeim sem fóru um Evrópu á einhvers konar blindafylleríi með okkar góða nafn og drógu það í svaðið með kaupæði á rekstri sem þeir höfðu ekki hundsvit á svo að nafn Íslands er nú tengt við græðgi og hálfvitagang og viðvaningslega glæpi.

Þessi taktur tjáir reiði okkar í garð þeirra stjórnvalda sem stóðu eins og stoltir foreldrar og fylgdust með þessu smánarlega fjöreggjakasti og neituðu að grípa inn í út af löngu afsönnuðum hagfræðikreddum um að réttlætið sé alltaf rangt, og ranglætið sé alltaf rétt.

Þessi taktur tjáir sorg okkar yfir áföllunum sem dynja yfir heimilin, samlíðan okkar og löngun til að takast í hendur hér á guði og gaddinum, hjálpast að, taka til, henda út drasli, rækta, byggja upp.

Því þessi taktur sem verður til þegar lamið er í potta og pönnur með sleifum og skeiðum tjáir ekki bara reiði okkar, örvæntingu og sorg, og hrópið Vanhæf ríkisstjórn! tjáir ekki bara niðurrif og andstyggð yfir því ábyrgðarleysi taktlausra valdhafa að sitja og sitja og sitja - og láta sitja og sitja og sitja þá sem ekki gátu og ekki kunnu - og ekki geta og ekki kunna - og munu ekki geta og munu ekki kunna - í þessum takti og í þessu hrópi er ekki bara reiði, örvænting, beiskja og sorg heldur hvatning. Þar er er ekki bara nei heldur líka já. Þar er ekki bara höfnun heldur líka von.

Lengi höfum við skimað eftir andlitum hrunsins. Við höfum horft á vanhæfa ríkisstjórn sem nú er senn á förum. Við höfum horft á Seðlabankann þar sem enn situr... og situr... og situr... og situr sjálfur höfundur íslenska efnhagsundursins og glundursins, Davíð Oddsson og hefur sér til fulltingis og eftirlits bankaráð þar sem situr sjálfur talsmaður íslenska efnahagsundursins, sjálfur grillpinni íslensku útrásarinnar. Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Við höfum reynt að horfa á Fjármálaeftirlitið en komum aldrei auga á það. Við höfum horft á hina svokölluðu auðmenn sem á daginn kom að áttu aldrei rassgat heldur smugu um innviði íslensks samfélags eins og veggjatítlur - og átu þá.

Gagntekin og hálflömuð höfum við mænt á ásjónur valdsins og vanhæfninnar og enn um hríð munum við þurfa að horfa á sum þeirra sem neita að standa upp og greiða þannig fyrir endurreisn Íslands. En aðeins um hríð. Við erum ekki bara þessir fáu einstaklingar sem halda dauðahaldi í sína stóla. Það eru hérna þrjú hundruð þúsund manns! Landið er fagurt og frítt og gjöfult og við rétt að fara að læra á það. Við eigum fullt af auðlindum og hugviti, eitthvað svolítið af menningarverðmætum sem enn hafa ekki verið étin upp af veggjatítlum auðvaldsins... við eigum menntun, áræði, sköpunarkraft - og hvert annað. Þegar ásjónur hrunsins hafa farið sinn óhjákvæmilega veg, vonandi fyrr en síðar, þá þurfum við að beina sjónum okkar að því að finna andlit vonarinnar. Þau andlit finnum við með því að horfast í augu við okkur sjálf, horfa hvert á annað - hlusta á taktinn, renna inn í tilfinninguna, skynja æðasláttinn og orku þúsundanna, við erum þjóðin - við erum vonin.

_________________________________________________________

Ég má til með að segja ykkur svolitla sögu. Ég á heima alveg við miðbæinn. Um helgar fer um götuna góðglatt fólk á leið á djammið (og heim aftur undir morgun) og eins og allir vita finnst Íslendingum gaman að syngja þegar þeir eru komnir í glas. Venjulega eru kyrjaðir drykkjusöngvar ýmiss konar, slagarar, dægurlög og fleira þvíumlíkt. Hópur fólks gekk niður götuna um eittleytið í nótt og söng við raust. En það var enginn slagari - það var þjóðsöngur Íslendinga, sá hinn ósyngjanlegi. Þau sungu hann samt á leið á djammið. Þetta hef ég aldrei heyrt áður og gat ekki á mér setið að fara út í eldhúsglugga og horfa brosandi á þau hverfa syngjandi niður götuna.

En hér eru svo sjónvarpsfréttir kvöldsins um mótmælin sem haldin voru víða um land og umfjöllun um nýtt lýðveldi - og nýtt framboð.

Stöð 2 - 24. janúar 2009

RÚV - 24. janúar 2009


Og nokkrar myndir af Austurvelli í gær

Mótmæli á Austurvelli 24.1.09Mótmæli á Austurvelli 24.1.09Það mótmæla fleiri en mannfólkið


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Lára Hanna og allir hinir. Mótmælin eru að virka. Leigubílstjóri í Uzbekistan óskaði okkur Íslendingum góðs gengis fyrir 2 dögum. Hann hafði fylgst með þeim í fréttunum í Tashkent.

Geir og Solla og alt hitt spillingarliðið, grefur sína gröf eingöngu dýpri. Þess lengur sem það situr. Og orðspor þeirra breiðist um alla heimsbyggðina.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 05:20

2 identicon

Því miður sýnist manni sem mótmælin séu hjá býsna mörgum mótmælanna vegna og menn viti ekki hvert sé stefnt. Ef það skiptir ekki máli að meginmarkmiðið um kosningar hafi náðst, eins og nú heyrist hjá ýmsum, til hvers er þá barist? Hvert er stefnt?

Gaius (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 07:45

3 identicon

Gaius Incognitus, hálft loforð um kosningar er ekki nóg. Kröfur Radda fólksins eru skýrar.

  1. Burt með ríkisstjórnina
  2. Burt með stjórnir Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins
  3. Kosningar svo fljótt sem unnt er (http://raddirfolksins.org)

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 08:32

4 identicon

Nákvæmlega Carlos. Þetta er bara hálfur sigur.

Nú þarf að halda áfram og klára þetta.

Burt með spillingarliðið.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 08:57

5 Smámynd: Guðmundur Björn

Af hverju segir þú bara ekki að 100 þúsund milljónir mættu og löggan sé bara fífl og fávitar.  Það er grátbroslegt hvað þið leggið í það að vera ósammála löggunni sem hefur mikla reynslu í þessu. 

Já, og ég átti að skila baráttukveðju frá frímerkjasafnara í Bhutan og hellagerðamanni í Afganistan.

Guðmundur Björn, 25.1.2009 kl. 09:41

6 Smámynd: Héðinn Björnsson

Nú er Björgvin búinn að segja af sér og forsvarsmenn FME farnir. Nú getum við farið að raða hæfu fólki inn í þessar stofnanir og ef þau hefðu bara gert þetta fyrr, en það virðist ætla að vera slagorð þessarrar ríkisstjórnar að gera alltaf of lítið of seint.

Áfram Ísland!

Héðinn Björnsson, 25.1.2009 kl. 11:27

7 Smámynd: Einar Indriðason

Ræðan hans Guðmundar Andra er ekkert verri þó mar lesi hana sjálfur, í staðinn fyrir að heyra hann lesa hana sjálfur.   Batnar bara, ef eitthvað er.

Mér fannst Austurvöllur vera stappaður, og fullur af fólki.  En... ég held við gætum bætt við, ef á þarf að halda, á gangstéttirnar fyrir aftan og umhverfis.  

Ég kom örlítið of seint á svæðið, og það var gaman að fylgjast með og finna, hvernig dynjandinn af lófatökunum og hrópunum barst um umhverfið.

Besta mál!

Einar Indriðason, 25.1.2009 kl. 11:33

8 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þrístingurinn virkar

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.1.2009 kl. 11:34

9 Smámynd: Einar Indriðason

Lára Hanna, verður þú í framboði fyrir grasrótina?

Ég er því miður í röngu kjördæmi... myndi kjósa þig samt.  (Ætla samt að skila löglegum kjörseðli.)

Einar Indriðason, 25.1.2009 kl. 11:57

10 Smámynd: Anna Einarsdóttir

VANHÆF RÍKISSTJÓRN.....bommbaromm bomm - bomm bomm bomm. 

Stemmingin var frábær    ...... en fann þig ekki Lára Hanna. 

Anna Einarsdóttir, 25.1.2009 kl. 13:28

11 identicon

"Ísland er land þitt" ætti að vera þjóðsöngur Nýja Íslands. Núverandi þjóðsöngur er jafn stífur og yfirborðlegur og Gamla Ísland... auk þess gat enginn venjulegur maður sungið hann alveg eins og engin venjulegur maður hefur verið í takt við Gamla Ísland.

Nýja þjóðsöng og þá fallegast lag sem til er "Ísland er land þitt".

Aldís B. (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 13:55

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir ræðurnar hef ekki getað spilað fundinn á rás2.  Takk fyrir mig.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.1.2009 kl. 14:27

13 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

flottur texti hjá Guðmundi Andra. búinn að heyra fólk dásama ræðu hans. sjálfur átti ég ekki heimangengt og vil því þakka þér fyrir að birta hana hér.

mér finndist vel við hæfi að endurnýja allt heila gillið: stjórnarskrána, stjórnskipulagið og já, þjóðsönginn.

Brjánn Guðjónsson, 25.1.2009 kl. 15:39

14 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Jafnvel hundarnir mótmæla. Frábært!

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.1.2009 kl. 17:25

15 identicon

En hvað ætlar fólk svo að gera?.  Hvernig skal byggja upp Ísland?.  Ekki má gleyma að öðrum þjóðum er slétt sama um okkur og hjá þeim snýst þetta um fjármagn sem og hjá okkur.  Nú þarf hugsuði/pælara í málið og hörku til að stoppa glæpona meðal okkar.  Sennilega lagabreytingar.  Fer einhver í það???

itg (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 19:22

16 identicon

 Thank YouTakk og aftur takk. Búin að segja það áður en ætla samt að segja það aftur. Það þýðir auðvitað bara að þá ætlar maður að fara fram á meira . Er nokkur möguleiki að þú getir fundið og sett inn ræðuna hans Guðmundar Andra þannig að hægt sé að hlusta á hana. Virkar ekki á ruv þó merkið við fundinn á laugardaginn sé þannig að hægt eigi að vera að spila. Hef eins og þú sérð endalausa trú á þér og þinni tæknifærni. Mín er nefnilega engin.





Solveig (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 02:35

17 Smámynd: Guðmundur Björn

Jæja fólk...ef þið hafið fylgst með jafnvel eins lítið og ég, þá er nú alltaf verið að breyta stjórnarskránni.  Hún er alltaf til endurskoðunnar á þingi.  Hvað á ný stjórnarskrá að gefa ykkur? Hugarró?  Síðan er talað um nýtt lýðræði?  Hvað meinið þið með því?  Ísland er eitt lýðræðislegasta land jarðar?  Hvernig "nýtt" lýðræði viljið þið?  Fleiri kaffihús? Leikhús? Listasöfn? Eða eruð þið bara svona fúl út í Davíð?

Nú spyr bara sá sem ekki veit hvað "þið hin" viljið eiginlega, enda erfitt að átta sig á því.

Guðmundur Björn, 26.1.2009 kl. 08:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband