Sagan hans Ara Matt í Silfrinu

Ég heyrði þessa sögu og fleiri slíkar fyrir þó nokkru síðan. Fundurinn sem Ari sagði frá er langt í frá sá eini sem haldinn var og sumir hafa kallað fundina námskeið því á þeim var mönnum kennt að flytja stórar fjárhæðir úr landi og fela þær. Hve mörg hundruð eða þúsund milljarðar af kvótapeningum t.d. ætli séu faldar í skattaparadísum? Og sjávarútvegurinn þó veðsettur í topp, sem svara margra ára afla, og bankarnir að afskrifa skuldirnar - sem þýðir að skattborgararnir borga brúsann á meðan milljarðamæringarnir halda öllu sínu skattlaust. Sanngjarnt?

Þetta á langt í frá aðeins við sjávarútveginn og kvótapeningana eins og við vitum. Skemmst er að minnast dularfullra millifærslna úr bönkunum korteri fyrir hrun og undarlegra hlutabréfakaupa fursta frá Austurlöndum. Vitað er að þúsundir milljarða af eigum þjóðarinnar eru faldar á leynireikningum einstaklinga og skúffufyrirtækja erlendis. Kannski nógu mikið til að borga skuldirnar sem þessir menn skildu okkur eftir með. Ég legg til að framtíðarstjórnendur landsins beiti öllu því valdi sem unnt er til að ná í þessa peninga - hverja einustu krónu, hvern einasta dollara, hverja einustu evru, jen, franka eða í hvaða mynt sem er. Þetta eru okkar peningar sem var stolið af okkur og það á að endurheimta þá.



Ég minni á viðtalið við Jón Steinsson í Silfrinu 7. desember sl. í þessu samhengi. Það var sláandi - og ætti að vera öllum ógleymanlegt.
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er verulegt áhyggjumál að það hafi ekki verið tekið á þessum óreiðumönnum  - gerendum - sem hafa sett efnahag landsins á hausinn með alls kyns rugli. 

Enginn hefur enn axlað ábyrgð á gjörðum sínum eða verið látinn axla ábyrgð..

Við lestur þessa pistils fæ ég enn og aftur ælu í hálsinn við tilhugsunina um græðgina og miskunnarleysið sem þessir einstaklingar , þessi siðlausu reköld hafa sýnt í verki.

Þetta eru landráðamenn sem hafa með siðlausum og í mörgum tilfellum glæpsamlegum gjörningum hafa rústað efnahag landsins.

Núna þarf að fókúsera á að stöðva áframhaldandi "óreiðu" og ekki eingöngu með gjaldeyrishöftum heldur setningu laga og reglugerða sem fyrirbyggja áframhaldandi rugl. Með rugli á ég m.a. við gjörninga s.s. útgáfu "skuldabréfavafninga", óeðlileg krosseignatengsl, veðsetningu eigna í almannaeign, aumkunarverðum feluleik eiganda hlutafélaga, undankomu gjaldeyris, millifærslur fjármuna í skattaparadísir og fl. og fl.

Þessum gjörningum mannleysanna verður að gera skil á opnum mótmælafundum, en ekki bara að hamast í stjórnvöldum.

Þá verður að stöðva.

- Greiðum ekki vanskilaskuldir óreiðumanna -

Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 12:45

2 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Yes, yes og yes!

Rut Sumarliðadóttir, 26.1.2009 kl. 13:05

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Og ekki múkk heyrist frá valdhöfum að á þessu verði tekið. Ekki eitt orð. Nú eru þingflokkarnir að funda og skoða framhaldið. Við bara megum ekki láta þá sem staðið hafa vörð um þessa þjófnaði halda völdum lengur.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 26.1.2009 kl. 13:06

4 Smámynd: Offari

Mér var líka boðið að flytja mína peninga í erlenda banka. Ég rak þann mann á dyr.

Offari, 26.1.2009 kl. 14:41

5 Smámynd: hvutti

Þetta er mjög athugavert !

Fylgist með eins vel og hægt er í öllum fjölmiðlum og hef þó kannski misst af því en hefur einhver af stjórnendum landsins svo mikið sem kommentað þessa "viðskiptajöfra" landsins ? Þessa menn sem nefndir eru með nöfnum í silfrinu. Sem allir vita hverjir eru. Sem eyðilagt orðstír landsins í langann tíma, og e t v valdið svo miklum skaða að ekki verði við gert nokkurn tímann. 'Eg les með hrilling það sem blaðamaður einn skrifar í sænsku blaði um að 'Island sé ekki miklu lengur sjálfstætt land, og að þessar skuldir ef að ríkið verði að axla séu "síðasti naglinn í kistuna". Getur það skeð ?

Verður mjög áhugavert að fylgjast með þegar kærunum fer að fjölga.

Vona að allir kæri sem geti og átt hafa hlutabréf í loftköstulunum. Kannski að eitthverjir dollarar þá finni leiðina heim aftur. Getur ríkið kært ? Ekki má bíða. Allir eru á fullu að fela allt sem hægt er.

Og hvar er Davíð ? 'A hann líka sumarbústað á Cayman ?

hvutti, 26.1.2009 kl. 15:00

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já við skulum vera vakandi og skoða verk nýrrar stjórnar en ekki bara innantóm orð.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.1.2009 kl. 15:12

7 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Eins og Jón Steinsson bendir á þá er búið að fjarlægja allt regluverk til að handjárna þessa glæpamenn. Í Bandaríkjunum(Enron hneykslinu) voru þeir eltir uppi, járnaðir og fengu þunga dóma. Hér eru þeir að gera sig klára í brunaútsölurnar.

Ævar Rafn Kjartansson, 26.1.2009 kl. 15:31

8 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Það þarf að breyta lögum svo hægt sé að sækja alla þessa útrásarbaróna til saka.  Og síðan á að gera eignir þeirra upptækar og leita allra leiða til þess að hafa uppá peningunum sem þeir millifærðu í skattaskjólin. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.1.2009 kl. 15:43

9 Smámynd: Hjalti Tómasson

Spurning með hvaða hætti unnt er að ná þessum peningum til baka.

Ég man ekki betur en ég hafi lesið um stofnun í Sviss sem sérhæfði sig í að ná til baka peningum og eignum gyðinga eftir stríð, fjármunum sem komnir voru í hendur manna og fyrirtækja sem störfuðu í skjóli þriðja ríkisins en létu sig hverfa í stríðslok. Þetta fólk starfaði líka eftir þeim lögum sem giltu í Þýskalandi nasismans en í ljós kom að þessi lög stóðust ekki alþjóðalög.

Hvort þetta er eitthvað sem við ættum að taka til athugunar ?

Í það minnsta þá ætti að kanna hvort þessi eða sambærilegar stofnanir eru enn starfandi og hvort alþjóðalög ná yfir þessar gjörðir íslenskra fjármálamanna ef íslensk lög gera það ekki.

Hjalti Tómasson, 26.1.2009 kl. 16:13

10 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Þetta verður eitt af aðalverkefnum nýrrar stjórnar á næstu árum að ná þessu til baka ásamt því að handtaka og dæma landráðamennina því þá geta þeir ekki notið þeirra.

Arinbjörn Kúld, 26.1.2009 kl. 21:25

11 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Líklega er þetta ca. 5.000.000.000.000 (Fimmþúsund Milljarðar eða 5.000 Billjónir á ensku) sem útvaldir fengu að ryksuga upp hjá þjóðinni á 7 ára tímabili og allt í boði "Ráðamanna".

Því miður er það með ólíkindum að það skuli vera svona komið fyrir þjóð sem á svona mikið af auðlindum þar sem gull drýpur nánast af hverju strái!

Kjartan Pétur Sigurðsson, 27.1.2009 kl. 11:42

12 identicon

Þessir peningar eða það sem eftir er af þeim verða að nást, með góðu eða illu. Við getum ekki sætt okkur við að ræningjar fari hér um og taki allt, laust og fast og láti sig síðan hverfa til bresku Jómfrúreyjanna.

Maður verður hálf máttlaus, þetta var allt í boði fólks sem við kusum til að fara með fjöregg þjóðarinnar.

Kolbrún (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband