Flórinn er botnlaus

Ég sá þessa frétt fyrst á Eyjunni seint í gærkvöldi. Í ljós hefur komið að fyrrverandi forstjóri breska bankans Singer og Friedlander, sem Kaupþing  yfirtók í ágúst 2005, varaði breska Fjármálaeftirlitið (FSA) við Kaupþingsmönnum. En FSA virðist hafa verið alveg jafnsofandi og Fjármálaeftirlitið hér á landi og hlustaði ekki.

Íslenska Fjármálaeftirlitið var stolt af sínum bönkum og 1. desember 2005 var eftirfarandi frétt í Viðskiptablaðinu: 

Eignir bankanna þrefaldast á einu og hálfu ári

Á einu og hálfu ári frá fyrri hluta árs 2004 til seinni hluta árs 2005 hafa heildareignir íslensku viðskiptabankanna miðað við samstæðuuppgjör þrefaldast, sem skýrist fyrst og fremst af aukningu á starfsemi þeirra utan Íslands. Þetta kemur fram í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins.

Þar er rakið að Kaupþing banki hf. hóf útrás bankanna árið 1998 með stofnun Kaupthing Luxembourg S.A. Þá keypti Íslandsbanki hf. Raphael & Sons Plc. 1999 og Landsbanki Íslands hf. Heritable Bank árið 2000 í Bretlandi. Þessi fyrstu skref bankanna voru vísir að þeirri útrás íslensks fjármálamarkaðar sem orðið hefur á síðastliðnum árum. Búnaðarbanki Íslands hf. stofnaði síðan Bunadarbankinn International S.A. Luxembourg 2000 og árið 2002 varð til Kaupthing Sverige A.B. Árið 2003 keypti síðan Landsbanki Íslands hf. Bunadarbankinn International S.A. af Kaupþingi banka hf. og nafnbreytir í Landsbankinn Luxembourg S.A.

Næstu stóru skref í útrás bankanna verða á árinu 2004 þegar Kaupþing banki hf. kaupir FIH bankann í Danmörku og setur á stofn Kaupthing bank Oyj í Finnlandi og Íslandsbanki hf. kaupir Kreditbanken í Noregi. Viðburðaríkt ár í erlendri útrás bankanna er svo árið 2005 þegar Íslandsbanki hf. festi kaup á BN banken í Noregi, Landsbanki Íslands hf. keypti Teather & Greenwood í Bretlandi og Kepler Securities í Frakklandi og Kaupþing banki hf. kaupir Singer & Friedlander í Bretlandi. Þessi upptalning er þó ekki tæmandi listi yfir þá starfsemi sem viðskiptabankarnir stunda erlendis í dótturfélögum, útibúum eða skrifstofum.

Fannst virkilega engum grunsamlegt að eignir bankanna hafi þrefaldast á einu og hálfu ári? Í gærkvöldi kom síðan þessi frétt á Channel 4 sjónvarpsstöðinni í Bretlandi. Viðmælandi fréttakonunnar segir Kaupþingsmenn ekki hæfa til að reka búð með fisk og franskar, hvað þá banka.

Times Online fjallaði um málið...

Times Online 2. feb. 09

...og það gerði Eyjan líka.

Eyjan 2. feb. 09

Svo er borið við mannréttindum þessara manna, sem stálu öllu steini léttara og skildu okkur eftir í skítnum þegar rætt er um að leggja hald á eigur þeirra og hafa upp á þýfinu! Hvað með okkar mannréttindi, fórnarlambanna... heillar þjóðar? Eru mannréttindi okkar minni eða léttvægari en auðmanna? Eða er eitthvað annað á bak við þann fyrirslátt?

En nú er mig farið að lengja eftir umfjöllun um hina bankana tvo, Glitni og Landsbankann. Ég dreg stórlega í efa að flórinn sé minni þar - en af einhverjum dularfullum ástæðum berast bara flórfréttir af Kaupþingi þessa dagana.


mbl.is Var aðvarað vegna Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Já þetta er dularfullt, hversvegna aðeins Kaupþing er í fréttunum.  Ætli eigendur Kaupþings eigi ekki fréttastöð, eða dagblað?  Það voru víða aðvaranir sem voru algjörlega hundsaðar, bæði hér á Íslandi og víða erlendis líka. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 3.2.2009 kl. 03:21

2 identicon

Því miður þá erum við bara rétt að sjá í tærnar á því sem á eftir að koma. Landsbankinn er eftir og eitthvað af Glitnir. Lífeyrissjóðrnir eru líka eftir. Ég furða mig á því að Gunnar Páll og Þorvaldur Eyjólfsson hjá VR skuli ekki enn vera meira rannsakaðir. Ég heyrði það sl. haust að eiginkona Þorvalds, er enn hátt sett innan Kaupþings og börn þeirra í Bakkavör og Exista. Fjölskyldan fór mjög reglulega í stuttar ferðir til Zurich í Sviss, nokkur ár í röð. Þorvaldur var einn af þeim mönnum sem sátu á fundinum á Holtinu sem Ari Matt greindi frá í Silfrinu hér um daginn.

Það dugar ekki að bíða, það verður að hefja mjög viðamikla ranssókn hið fyrsta. Það er von á mörgum fox illum þjóðverjum til landsins í dag. Þeir ætla að fara inn í Landsbankann og heimta endurgreiðslu sparifé síns. Mér skilst að þeir ætli ekki að fara fyrr en þeir fá allt greitt. Einn þeirra kom hingað sl. haust og þá hugðust íslensk stjórnvöld hjálpa honum hið fyrsta en hann hefur ekkert heyrt frá þeim.

 Það er spurning hvort fleiri komi á eftir, frá Bretlandi, Belgíu og Hollandi?

Sigurlaug Ragnarsdóttir (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 04:40

3 identicon

Við þurfum úrvalsliðið í fjórflokknum áfram. Þau eru ómissandi líkt og gáfnaljósin - vinir þeirra - sem ráku íslenska banka?

Varið ykkur á nýjum framboðum.

Meira af því sama. það er galdurinn.

Rómverji (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 09:12

4 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Síðasta úrklippan þín segir mikla sögu. Þar sérðu "sameiningartákn íslensku þjóðarinnar", væntanlega að mæra dugnað íslenskra bankamanna við opnun starfsstöðvar í útlöndum.

Við áttum fyrsta kvenforsetann, fallegustu konurnar, sterkustu karlana, hreinasta loftið ... og hví ekki klárustu bankamennina? Forsetinn var jafn hrifinn af þessari glæsilegu frammistöðu og þú og ég. Það hvarflaði ekki að okkur fyrr en seinna að fara að rýna í tölurnar! Og nú vildu allir Lilju kveðið hafa, ekki satt?!?

Flosi Kristjánsson, 3.2.2009 kl. 09:47

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ætli rannsóknin muni ná til þess hvort bresk fjármálayfirvöld hafi hugsanlega "hleypt þessu í gegn" viljandi engu að síður, í þeim tilgangi að veiða okkur í gildru? Varla! En afhverju ættu þeir annars ekki að taka mark á því þegar megnið af stjórnunarliði Sing&Fried reyndi að vara þá við íslensku fjárglæframönnunum? Atburðarásin í kringum útibú bankanna í Bretlandi líkist alltaf meira og meira einhverju fyrirfram hönnuðu ferli, sem heppnaðist a.m.k. næstum því ef marka má skoðanakannanir undanfarið...

Guðmundur Ásgeirsson, 3.2.2009 kl. 10:23

6 identicon

Bretland er jú ekkert "Reykjavík á bökkum Thames". Þar eru vandamálin smá samanborið við hamfarirnar á Íslandi. Samt gera þeir mönnum að mæta fyrir "rannsóknarnefnd á vegum breska fjármálaeftirlitsins". Hvað skyldu margir hafa þurft að mæta fyrir svona nefnd, - á Íslandi?

sigurvin (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 11:29

7 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Flórinn er sannarlega botnlaus

Hólmdís Hjartardóttir, 3.2.2009 kl. 12:13

8 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Voru þessir gaurar á kóki allan þennan tíma, eða hvað? 

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 3.2.2009 kl. 12:39

9 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Þetta átti ekki að koma neinum á óvart. Ég set spurningarmerki við menntun háskólanna í viðskipta- og hagfræði.  Þýskukennarinn sem átti heima nokkrum húsum utan í bænum mínum sagði að þetta væri að fara allt til helvítis. Að ef fólk gerði ekki eitthvað í því að stöðva "útrásina" eða hvað hann nú kallaði fjármálapláguna mynd þetta allt keyra um koll. Þetta var tæpum 2 árum áður en allt hrundi á Mikjálsmessudag 2008.  Þetta sannarlega hreyfir hugann í átt að sögu Hans Christian Andersens um Nýju fötin keisarans en auðtrúa almenningurinn keypti þetta allt, fannst þetta frábært og skyldi ekki að hann lifði á tómu fé, inistæðulausum tékkum ráðamanna banka og ríkis. Skjóti gróðinn var eins og glópagull. Blekkti og enginn vildi hætta á fylleríinu. Svo voru það nokkrar svangar hjáróma raddir sem skyndilega sögðu: Já, enn hann er nakinn, Davíð er nakinn ... og .... og allir stjórnendurnir eru naktir.  Hí hí hí...  og loks skellti allt fólkið upp úr.  En skjótt kárnaði gamanið og veislunni var slitið.

Þýskukennarinn sagði að allir hefðu vitað, bara enginn sagði neitt!   Meðvirknin var fullkomin. Núna situr ein birturðin eftir.  Sjálfstæðismenn leiðir yfir því að fólk vill ekki vera "memm" lengur.  Nei þið eruð hrekkjusvín, stelið og ljúgið!

Baldur Gautur Baldursson, 3.2.2009 kl. 13:00

10 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Kjartan Gunnarsson, fyrrum framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, var formaður stjórnar Landsbanka Íslands.  Þegar Bjöggarnir keyptu bankann gerðist hann vara-formaður í þeim banka og alveg fram að falli bankanna.

Kjartan varð óhemjusár þegar Davíð Oddsson kallaði hann og fleiri óreiðumenn.

Eftir fræga ræðu DO á fundi hjá Viðskiptaráði hú í byrjun vetrar, táraðist Kjartan og sagðist betur hefði tekið mark á sínum raunsanna vini Davíð Oddssyni.

 Kjartan Gunnarsson situr í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins!

Þá lýsti Geir H. Haarde því yfir í viðtali að hann og Björgólfur Thor fengju sér gjarnan kaffi og spjall þegar Björgólfur væri á landinu.  Það sagði hann erindi Landsbankamanna til sín í aðdraganda falls bankanna.

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 3.2.2009 kl. 13:02

11 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Það vill gleymast í umræðunni að FSA og breska ríkisstjórnin eru engir vitleysingjar. Þeir eru ábyrgir í málinu og aðilar að því rétt eins og bankarnir. Það er íslenska þjóðin hins vegar ekki.

Þetta er stærsta glæpamál sögunnar.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 3.2.2009 kl. 17:06

12 identicon

Ætli endurskoðendur Kaupþings séu þeir sömu og hjá L.B. og Glitni heitnum?  Kannski snýst upplýsingagjöfin um heiðarleika þeirra sem eru að skoða málin?  Bara spyr.

IB (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 21:12

13 Smámynd: Hermann Bjarnason

Ég hallest helst þessa stundina að því að þetta sé heimagerður vandi þeirra Breta og árásin á Kaupthing til þess gerð að þyrla upp rmoðeyk. það gerir í sjálfu sér ekki ábyrgð okkar landsmanna minni. En þegar allt kemur til alls eru ekki Guernsey, Jersey, Isle of Man, og Bresku Jómfrúreyjar Breskar!?

Hermann Bjarnason, 4.2.2009 kl. 13:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband