Járnkrumlur einvaldsins

Okkur er mörgum í fersku minni þegar Sovétríkin voru að liðast í sundur og Austantjaldsríkin fengu frelsi hvert á fætur öðru. Mörg þeirra höfðu lotið stjórn einræðisherra um áratugaskeið og ferill þeirra kóna var ófagur í besta falli. Fólkið var frelsinu fegið og Vesturlönd samglöddust því. Þótt illa hafi farið sums staðar um skeið eins og í gömlu Júgóslavíu var engu að Frelsisíður bjartara yfir og maður fann léttinn sem þjóðirnar upplifðu alla leið hingað upp eftir. Við fordæmdum ekki einu sinni Rúmena þegar þeir tóku Ceausescu-hjónin af lífi á jóladag 1989. Við skildum þá því við vissum hvað þeir höfðu þurft að þola undir þeirra stjórn.

Fátt hefur komist að hjá okkur Íslendingum undanfarna mánuði annað en efnahagshrunið, hneykslis- og spillingarmál, ótrúlegustu uppákomur, flórmokstur, áhyggjur, kvíði og óvissa um framtíðina. Við fengum litlar sem engar upplýsingar um stöðu og ástand því ríkisstjórnin hélt öllu slíku út af fyrir sig. Sagði ekkert og gerði ekkert. Smátt og smátt lærðum við að mótmæla og mættum þúsundum saman viku eftir viku á mótmælafundi því okkur líkaði ekki hvernig tekið var á málunum. Við mótmæltum meðal annars því að ríkisstjórn, stjórnir Seðlabankans og Fjármáleftirlitsins og fleiri embættismenn sætu áfram í stólum sínum þrátt fyrir augljósa ábyrgð á því sem aflaga fór.

Búsáhaldabyltingin sem hófst með setningu Alþingis 20. janúar skipti sköpum. Loksins komust skilaboðin til hluta þeirra sem þau voru ætluð. Við fengum nýja ríkisstjórn sem ætlaði að bretta upp ermar og bylgjur feginleika fóru um allt samfélagið. Þótt þessi nýja ríkisstjórn væri svosem ekki draumastjórnin gátum við loksins, eftir fjögurra mánaða baráttu, andað örlítið léttar. Við eygðum vonarglætu þó að við vissum að staðan væri slæm. Jafnvel margfalt verri en við gerðum okkur grein fyrir. En loks voru einhverjir að gera eitthvað. Og stefndu meira að segja að því að gera ýmislegt sem þjóðin hafði verið að fara fram á - sem er algjört nýmæli á Íslandi. Einhver virtist hafa verið að hlusta á okkur...

Það mátti samt ekki sitja með hendur í skauti því óralangt var í land. Búsáhaldabyltingin - 20. jan. 09Svo margt sem þurfti að taka á og ein af aðalkröfum mótmælenda - og samkvæmt skoðanakönnun 90% allra Íslendinga - var eitt aðalspillingarvígið eftir: Seðlabankinn.

Svo lengi sem ég man, og það er langt aftur, hefur Seðlabankinn verið notaður sem geymslustaður fyrir  stjórnmálamenn sem flokkarnir þurftu að losna við. Þar hafa þeir átt náðuga daga á fínum launum, greiddum úr vösum skattborgara, og hætt svo þegar þeir komust á aldur. Ég minnist þess ekki að neinn þeirra hafi gert stóra skandala - nema sá sem nú situr og neitar að haggast.

Hann setti Seðlabanka Íslands á hausinn, hvorki meira né minna. Líklega fyrstur Seðlabankastjóra veraldar - að minnsta kosti á Vesturlöndum. Samt segist hann ekkert hafa gert af sér. Lesið pistil Marinós hér. Marinó talar reyndar um alla bankastjórana þrjá og stjórnina líka og hefur rétt fyrir sér í því. Ég vil hins vegar spyrja hvort einhver sem hefur fylgst með ferli Davíðs Oddssonar viti til þess að hann hafi leyft öðrum að ráða því sem hann vildi ráða sjálfur.

Hann gerði ótalmargt annað af sér þótt hann sjái það ekki sjálfur. Ég hef verið að sjá þennan lista á fjölmörgum bloggsíðum í kvöld. Sagt er að Helgi Hjörvar hafi sett hann saman:

1. Seðlabankinn er gjaldþrota. Stjórnendur hans töpuðu 150 milljörðum í óvarlegri lánastarfsemi til svokallaðra „óreiðumanna" í því sem kallað var ástarbréfaviðskipti. Þetta jafngildir hálfri milljón króna á hvert mannsbarn í landinu.
2. Seðlabankinn nýtti ekki góðu dagana til að byggja upp gjaldeyrisvaraforða í samræmi við vöxt fjármálakerfisins, þrátt fyrir ábendingar um nauðsyn þess, m.a. frá Þorvaldi Gylfasyni. Viðbúnaður bankans við fjármálakreppu var því í skötulíki.
3. Jafnvel í vor synjaði bankinn láni frá J.P. Morgan sem bauðst á góðum kjörum og nam hærri fjárhæð en aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nú. Lýsir það ótrúlegu vanmati á viðbúnaðarþörf.
4. Bankinn áttar sig ekki á hlutverki sínu í fjármálastöðugleika og beitti ekki stjórntækjum sínum til að hemja vöxt bankanna, heldur lækkaði þvert á móti bindiskyldu sem var mjög misráðið.
5. Seðlabankinn hefur nær aldrei náð verðbólgumarkmiði sínu frá því honum var sett það í upphafi aldarinnar.
Búsáhaldabyltingin - 20. jan. 096. Bankinn vanmat augljóslega áhrif of sterks gengis á neyslu og fjárfestingagleði og þar með þenslu.
7. Að geyma gjaldeyrisforða þjóðarinnar á Englandi eftir að Icesave-vandinn var ljós og hætta á frystingu hans, er líkt því að vera í sjóorrustu hjá skipstjóra sem gleymdi púðrinu í landi. Yfirsjónin ætti að varða við þjóðaröryggi.
8. Óviðunandi er að stjórnendur Seðlabankans hafi frétt það í London í febrúar sl. að íslensku bankarnir væru í alvarlegum vanda. Ætlast verður til þess vegna stöðu og hlutverks bankans að hann hefði átt að uppgötva það sjálfur og fyrr.
9. Óskiljanlegar eru ívilnanir hinn 15. apríl í tengslum við bindiskyldu vegna útibúa erlendis eftir þær upplýsingar sem Seðlabankinn hafði fengið í London.
10. Hafi Seðlabankinn fengið svo greinargóðar upplýsingar um stöðu bankanna í London er skýrsla bankans um fjármálalegan stöðugleika frá maí sl. beinlínis villandi upplýsingagjöf.
11. Ófaglegt er að engin viðbragðsáætlun hafi verið til í bankanum vegna fjármálakreppu.
12. Lækkun og hækkun vaxta á víxl jók ekki trúverðugleika.
13. Óheppilegt var og trúlega viðvaningsháttur að Seðlabankinn keppti við viðskiptabankana um fjármagn, m.a. með skuldabréfaútgáfu og í lánalínum.
14. Viðvaningsháttur var að bankinn þagði þegar fréttir bárust af því að hann væri ekki með í samningum norrænu seðlabankana við þann bandaríska. Að bankinn skyldi ekki ná samningum við þann bandaríska var nógu slæmt en þögnin jók á ótta og óvissu og gróf enn frekar undan trúverðugleika á ögurstundu.
15. Ákvörðun um ríkisvæðingu Glitnis var stórslys. Svo röng var hún að stjórnvöld vonuðust fljótlega eftir þroti bankans svo ekki þyrfti að efna samninga! Hve illa er þá komið fyrir trúverðugleika Seðlabankans?
16. Fum og fát í gengismálum dró enn frekar úr trúverðugleika og fagmennsku í Seðlabanka Íslands. Ákvörðun um að festa gengið við 175 stig verður lengi kennd sem hrapaleg mistök, enda lifði „staðfesta" bankans í gengismálum aðeins í tvo daga, því oftrúin á krónuna var svo víðs fjarri veruleikanum á gjaldeyrismarkaði. Hún hefur síðan fallið um tugi prósenta.
17. Kastljósviðtal við formann bankastjórnar hjálpaði ekki til við að verja stærsta fyrirtæki landsins, Kaupþing, falli.
18. Þyngra er en tárum taki ótímabær yfirlýsing Seðlabankans um svokallað Rússalán. Bæði spillti það mjög þeim lánasamningum sem Geir Haarde hafði átt frumkvæði að og einnig orðspori okkar á alþjóðavettvangi.
19. Fyrrnefnt Kastljósviðtal, sem m.a. var birt í Wall Street Journal, dró nokkuð úr trúverðugleika íslensks fjármálakerfis á viðkvæmu augnabliki. Einkum þau ummæli sem voru þýdd svo:...Iceland is „not going to pay the banks' foreign debts".
20. Óheppilegt var að seðlabankastjóri skyldi hóta stjórnarformanni stærsta fyrirtækis landsins knésetningu.
21. Óheppilegt er að seðlabankastjóri dylgi um viðskipti einstaklinga við bankakerfið og ástæður beitingar hryðjuverkalaga.
22. Óheppilegt er að seðlabankastjóri aflétti einhliða trúnaði af fundum sínum með forystumönnum ríkisstjórnarinnar og samningum við IMF.
23. Óheppilegt er að seðlabankastjóri veiti seðlabankastjórum annarra ríkja tilsögn í mannasiðum.

Ég fæ ekki betur séð en að þetta sé allt sannleikanum samkvæmt. Og þá er ekki einu sinni allt upp talið því þjóðkunn er sú járnkrumla einvaldsins sem Davíð hefur haldið bæði flokki sínum og þjóðinni í í 20 ár. Hann refsaði þeim harðlega sem mæltu gegn honum og voguðu sér að vera á annarri skoðun. Fjölmargar sögur hafa flogið um langrækni, hefnigirni og ægivald Davíðs. Manns, sem virtist nærast á því að niðurlægja aðra og tala niður til þeirra. Hann hefur að minnsta kosti alltaf talað niður til mín. Alltaf. Þessi pistill tæpir á ýmsu sem er manni í fersku minni.

Bréfið frá Davíð til forsætisráðherra í gær var eins og blaut tuska framan í þjáða og kvíðna þjóð sem hafði eygt örlitla von. Hann skýtur föstum Davíð Oddssonskotum sem öll hitta hann sjálfan fyrir - því ferill hans er skrautlegri en flestra. Davíð veit ofurvel að 90% þjóðarinnar vill hann burt úr Seðlabankanum og annað eins hlutfall vill hann ekki aftur í pólitíkina. Þjóðin er búin að fá nóg af járnkrumlu Davíðs og vill frelsi. Frelsi til að tjá sig að vild án þess að eiga hefnd hans yfir höfði sér. Líka Sjálfstæðismenn. Aðeins fjórðungur kjósenda flokksins vill sjá hann aftur. Meirihluti þjóðarinnar þráir líf án Davíðs en honum er nógu andskoti illa við þjóð sína til  að neita að láta það eftir henni. Það getur ekki verið neitt annað en mannvonska.

Flokknum hans Davíðs er ekkert sérlega hlýtt til þjóðarinnar heldur. Það sést á blaðrinu og bullinu sem veltur upp úr þingmönnum hans og ýmsum öðrum jafnt innan þings sem utan. Þingmenn Flokksins virðast ætla að leggja stein í götu allra góðra verka sem ný ríkisstjórn er að reyna að framkvæma í þágu þjóðarinnar og samkvæmt vilja hennar. Það verður þeim ekki fyrirgefið og heldur ekki öðrum sem það gera.

Ég veit ekki hver getur komið vitinu fyrir Davíð Oddsson. Kannski enginn. Kannski þorir enginn einu sinni að reyna það. En maðurinn verður að víkja úr Seðlabankanum. Það eru flestir sammála um - bæði innanlands sem utan, fólk úr öllu litrófi stjórnmálanna og öllum flokkum. Fyrr getum við ekki einu sinni byrjað að byggja upp og endurreisa trúverðugleika sem Davíð, ásamt mörgum öðrum, tókst að rústa jafn fullkomlega og raun ber vitni.

Ég lýsi því hér með yfir að ef ríkisstjórnin setur lög sem koma Davíð Oddssyni út úr Seðlabankanum og hindra að ónýtir stjórnmálamenn setjist þar inn í framtíðinni gerir hún það svo sannarlega í mínu nafni og með mínum vilja.

Búsáhaldabyltingin heldur áfram - við Seðlabankann í þetta sinn. Friðsamleg vona ég - en hávær.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Lára Hanna! Þú ert sú sem þorir, vilt og getur! Ég tek minn ímyndaða hatt ofan fyrir þér fyrir það

Ég ætla að treysta hugrökkum mótmælendum eins og þér til að koma skilaboðunum um vilja minn og greinilega fjölda annarra til Davíðs Oddssonar. En auðvitað ætti ég frekar að mæta með ykkur fyrir framan Seðlabankann á morgun þó ég búi fyrir norðan. Málefnið er nefnilega afar brýnt!

Það er rétt sem þú segir að við getum ekki byrjað að byggja upp allt það sem er brotið og beyglað fyrr en Davíð Oddsson víkur sínu sæti. Ég ætla að treysta Jóhönnu Sigurðardóttur til að koma honum frá. Hún hefur nefnilega þá einurð, skynsemi og styrk sem til þarf þegar átt er við svo veikan einstakling sem Davíð sýnir með framkomu sinni að hann hefur að geyma.

Ég er viss um að Jóhanna kann að meta þann stuðning sem hún fær frá staðföstum mótmælendum í gegnum einstaklega uppbyggilegan og taktvísan slátt búsáhaldanna!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 9.2.2009 kl. 06:18

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Enn einn frábæri pistillinn þinn Lára Hanna.  Takk fyrir mig.

Sigrún Jónsdóttir, 9.2.2009 kl. 07:06

3 identicon

Beittur pistill og vel skrifaður. Skyldu seðlabankastjórar heimsins ekki klóra sér í kollinum ef þeir lesa þetta embættisbréf? Karlinn opinberar dómgreind sína, hæversku og innsta eðli vel með bréfinu. Hann hnykkir enn á sérstöðu sinni í hópi seðlabankastjóra og verður sennilega heimsfrægur fyrir vikið.

Nú verður vel fylgst með því hvort Flokkurinn tefur fyrir bráðnauðsynlegri endurhæfingu Seðlabanka og Fjármáleftirlits. Þá kemur nefnilega í ljós hvort þjóðin eða Flokkurinn er framar í forgangsröðinni. Jafnframt hvort Flokkurinn er enn í álagafjötrum Davíðs?

sverrir (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 07:48

4 identicon

Hvað með Framsóknarflokk og Samfylkingu?

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 08:11

5 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Flottur pistillo g svo sannur..farin á hólinn með pottinn minn og ausuna. Nú verður sko lamið hressilega svo heyrist alla leið inn í heilabú svörtuloftsmanna.

 Og eins lengi og þarf.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 9.2.2009 kl. 08:58

6 identicon

Ég kem á þína síðu flesta daga og les þína góðu pistla, og vill ég þakka fyrir hér með.

Davíð var í Kastljósviðtali í sept 2006  þar sem hann lýsti vanhæfni sinni sem seðlabankastjóri. Hvernig er það Lára, getur þú grafið upp þetta viðtal og sett það á vefinn?

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 10:34

7 Smámynd: Rut Sumarliðadóttir

Mínu líka.

Rut Sumarliðadóttir, 9.2.2009 kl. 11:41

8 identicon

Sveinn hinn ungi, eru þetta sönn ummæli? Mig minnir að einhver hafi falsað þetta.

Ari (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 12:57

9 identicon

Góð samntekt hjá Friðriki, þetta eru bréfaskriftirnar. Þá eru símtölin eftir t.d. þetta. Ætli þetta sé ekki einsdæmi í hinum vestræna heimi. Forsætisráðherra Belgíu hrökklaðist frá fyrir að reynta að hafa áhrif á dómara, það þótti alvarlegt. Hvar skyldi hótun við umboðsmann alþingis vera á alvarleikaskalanum?

sigurvin (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 13:28

10 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Mér sýnist Sjálfsstæðisflokkur, Framsókn og nú síðast með dyggri aðstoð Samfylkingar hafa með ÖLLUM sínum aðgerðum miðað að því að koma þjóðinni til andskotans.

Þeir voru margir sem voru tilbúnir til meðreiðar með Davíð en vilja núna að það gleymist.

Virðingarleysi fyrir mannréttindum hefur verið víðtækt undanfarin ár og þar er samfylkingin ekki undanskilin.

Virðing fyrir mannréttindum þýðir að velferð einstaklinga er ekki fórnað að geðþótta valdhafa.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 9.2.2009 kl. 14:16

11 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

takk fyrir þetta

Hólmdís Hjartardóttir, 9.2.2009 kl. 14:40

12 identicon

Ari (athugasemd 8): Já, þessi ummæli Davíðs um eigin vanþekkingu viðhafði hann sjálfur í Kastljósi í viðtali hjá Evu Maríu.

Aftur á móti voru einhverjir grínarar að ýkja þetta og snúa út úr, ég held að það hafi verið Baggalútur eða sambærilegir.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 15:49

13 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Takk

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 9.2.2009 kl. 19:46

14 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Listinn (23 skref til aukins þekkingarleysis á starfsemi seðlabanka) hefst á þessu skrefi: "Seðlabankinn er gjaldþrota."

Ekkert getur verið meira rangt en þetta. Alvöru seðlabankar (eins og Seðlabanki Íslands er) verða ALDREI gjaldþrota. Þeir hafa himneskt og beint samband við skattgreiðendur landsins sem þeir þjóna í gengum ríkissjóð. Þess vegna verða þeir ALDREI gjaldþrota. En staðan í dag - og undanfarna mánuði - er sú að seðlabankar eru einmitt einu bankarnir sem menn og mýs treysta.

Einungis gerfi-seðlabankar eins og t.d. í myntbandalögum og í myntráðum geta orðið gjaldþrota eða jafnvel gert ríkissjóð peningalega gjaldþrota því þeir geta ekki prentað peninga og því ekki skaffað ríkissjóði líflínu ef lokað er á fjárstreymi til viðskiptabankana. Þetta er einmitt ástandið á Spáni núna og var einnig ástandið í Argentínu á myntráðsdögum Argentínu. Þá gaf ríkisstjórn Argentínu út "I owe you"

miða til þess að geta greitt opinberum starfsmönnum laun því það var ekki hægt að prenta peninga: I Oowe You miðar Argentínsku ríkisstjórnarinnar undir myntráði

Listinn (23 skref til aukins þekkingarleysis á starfsemi seðlabanka) er það heimskulegasta sem ég hef ennþá séð á skrift um starfsemi seðlabanka.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 9.2.2009 kl. 19:56

15 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl, alltaf góð Hanna Lára, þessi vika verður mjög spennandi mtt sögu  DO. En eins og Jóhanna segir, hún hefur þarfari hnöppum að hneppa en að munnhöggvast við Davíð. Ef það er eitthvað sem tryllir DO þá eru það svona ummæli. Nú hitti fjandinn ömmu sína. Söguritarar hljóta að vera slefandi eftir næsta leikþætti í Matthildi.

Gunnar Skúli Ármannsson, 9.2.2009 kl. 20:00

16 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Að lesa hinn gríðarvirta og gjöfula hagspeking GR, sem ötullega og óumbeðið (og já alveg ÓKEYPIS!?) er ekki aðeins mjög fróðlegt heldur alveg bráðskemmtilegt og það þótt hann hafi ekki í frami neina leikræna tilburði eða brandara á takteininum eins og nýsjálenski starfsbróðir hans í Háskólabió á dögunum!

Nú bíð ég því líkt og eflaust þúsundir annara eftir að hann fræði okkur líka um hve hin 22 aftriðin séu vitlaus og röng, því það hlýtur hann fluggáfaður og vitur maðurinn að viðurkenna, að ekki er sniðugt í rökfræðinni, að benda einungis á eitt atriði sem rangt og halda því fram þar með að þar sé allt annað í sama dúr og þurfi ekki útskýringa við!?

Trúi ekki öðru.

En samkvæmt þessari fyrstu skilgreiningu, fæ ég ekki betur séð en að sjálfur guð almáttugur geti á sinn hátt orðið gjaldþrota, en kirkjan hans hérna verði það aldrei!?

Magnús Geir Guðmundsson, 9.2.2009 kl. 20:55

17 identicon

Látið ekki Þjóðminjasafnið og Árbæjarsafn plata út úr ykkur pottana og sleifarnar! 

"GAMLI potturinn sem þú greipst með þér til að mótmæla á Austurvelli er orðinn sagnfræðilega mikilvægur og vonandi safngripur," segir Gerður Róbertsdóttir, deildarstjóri varðveisludeildar á Árbæjarsafni." 

"Bæði Þjóðminjasafnið og Árbæjarsafn hafa lýst áhuga á að komast yfir áhöld úr nýliðinni búsáhaldabyltingu [...]"

Þetta er kjaftæði. Byltingin er rétt að byrja. 

Þið sem hafið látið vopn ykkar af hendi, náið þeim aftur. Látið ekki narra þau útúr ykkur og umbreyta í safngripi. 

Rómverji (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 21:10

18 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Magnús: gerðu svo vel - framhald hér (now, you owe me = YOM)

Gunnar Rögnvaldsson, 9.2.2009 kl. 21:51

19 Smámynd: Óskar Þorkelsson

GR er eins og vanalega að stimpla sig inn í spillingaflokk landsins.. það verður tekið á móti honum með opnum örmum í Valhöll í vor þegar hann flýr ESB til sæluríkisins íslands :)  ég er fyrir löngu hættur að lesa það sem frá þessum mikla gáfumanni kemur því þetta virðist allt saman vera botnlaust þvaður þegar við skoðum rústir frjálshyggjunar .. ekki bara íslandi heldur um allan heim... þvílíkir snillingar sem þessir menn eru. GR og hans skoðanabræður.

btw frábær pistill hjá þér Lára enn og aftur.. 

Óskar Þorkelsson, 9.2.2009 kl. 22:06

20 identicon

Sjálfstæðismenn kunna að nota "smjörklípuaðferðina" sem felst aðalega í út úr snúning og HROKA í garð andstæðinga.  Vissulega má setja út á að þessi 23 atriði sem Helgi Hjörval seti fram á sínum tíma og einn Seðlabankastjórinn svaraði flestum þeim atriðum.  Svör bankastjórans voru yfirleitt bara "hálfur sannleikurinn" - svona álíka góðar útskýringar hjá honum eins og þegar félagi Hannes Hómsteinn Gizzurason útskýrir fyrir fólki mikilvægi "ný frjálshyggju". 

Davíð getur ekki flúið frá eftirfarandi staðreyndum:  "Sem fyrrum forsetisráðherra fór einkavinnavæðingin bankanna af stað og það var Davíð sem ÁKVAÐ að hverjur fengju hvaða banka, óháð hæfni þeirra til að reka slíka starfsemi - það var Davíð sem ákvað að breyta "leikreglum bankasölunnar á glórulausan hátt" - auðvitað sagði Ari sig út úr einkavæðingarnefndinni því honum OFBAUÐ HROKI & SIÐBLINDA Davíðs - honum fannst þessi leið sem farin var í bankasölunni "glórulaus" en Davíð fékk sitt fram.  Nú sjá allir afleiðingar þessa - eða eins og einn bankastarfsmaður í UK sagði: "The Icelandic bank managers were not fit to run a fish & chip shop, left alone a bank".  Núna eftir á segir síðan Davíð & Sjálfstæðisflokkurinn: "Ég gaf þeim (óreiðumönnunum) FRELSI sem þeir misnotuðu."  Halló - halló - Björgólfur eldri hafði hlotið DÓM í réttarkerfinu, en Davíð fannst það EKKI gera hann óhæfan til að eiga banka.  Frekja & hroki Davíðs (Bláa höndin) fékk sitt fram eins og ávalt!!!

Sem Seðlabankastjóri ákvað Davíð (eftir að hafa hlustað á ráð Hannesar Hómsteinar í stjórn Seðlabankans) að íslenski Seðlbankinn skyldi fara þá leið að lækka bindisskildu bankanna (ekkert máti hefta vöxt þeirra) á sama tíma ákvað Seðlabankastjóri Ísrael að hækka bindisskildu bankanna þar upp í 25% til að bremsa þá NIÐUR...!  Davíð ákvað FRELSI til bankanna í stað HAFTA....!!!!  Þetta frelsi til ÓREIÐUMANNA (allir sáu að þetta voru óábyrgir einstaklingar) leiðir síðan til þess að Seðlabanki Íslands varð TÆKNILEGA GJALDÞROTA - vægast sagt ótrúlegt afrek.  Síðan vita allir að t.d. "peningastefna bankans hefur verið joke", "verðbólgumarkmið aldrei náðst", og síðan var auðvitað BILUN að HORFA upp á hvernig BLÁA HÖNDIN ákvað að leysa vandamál Glitnis sem leitar til þeirra rúmum 2 vikum ÁÐUR en skuldabréf fellur á bankann!  Sú meðhöndlun Davíðs var MEIRIHÁTTAR KLÚÐUR og auðvitað hrundi allt kerfið.  Ekki hjálpaði svo til allt RUGLIÐ sem kom út úr Davíð í fjölmiðlum.  Þeir sem halda því fram að íslensku Seðlabankatjórarnir hafi staðið sig vel, lifa í einhverjum "sýndarheimi" - ekki heil brú í slíku bulli. 

Þannig að skortur á TRAUSTI í garð Seðlabankans, bæði hérlendis & erlendis skrifast algjörlega upp á Davíð Oddsson, hans verkstjórn og hans hroka!  Maður hefur því miður sýnt það í mörg ár að hann er STÓRHÆTTULEGUR, þ.e.a.s. ákvarðanir hans eins og t.d. "kvótakerfið, Decode svikamyllan, einkavinnavæðing bankanna, einkavinnavæðing fjölda ríkisfyrirtækja og einhliða ákvörðun um stuðning við stríð við Írak o.s.frv."  Allt ákvarðanir sem munu tryggja að sagan mun gefa honum FALL EINKUNN í tengslum við hans stjórnmálaferil.  Þegar bankasagan verður ÖLL gerð upp þá efa ég ekki að "Bláa höndin" fái einnig þar algjöra falleinkunn.  Það þýðir lítið að nota smjörklípu aðferðina og segja m.a. "ég gaf óreiðumönnum frelsi & þeir brugðust" - rétt hjá Davíð að þeir brugðust ÞJÓÐINNI svo sannarlega.  En þjóðin velur sér stjórnmálamenn til að tryggja það að svona "bull & rugl gerist ekki".  Sorglegt hversu ÖMURLEGA stjórnmálamenn við eigum.  Svo kemur í ljós að framkvæmda-, banka- og aðrir stjórar okkar hafa nú ekki tekið gáfulegar viðskipta ákvarðanir svona heilt yfir.  Þannig að kannski er bara ALHEIMNUM orðið ljóst sú augljósa staðreynd að á þessari EYJU (þrælaeyjan - IceSLAVE) er þjóð sem í dag er stimpluð sem "fábjánar & óreiðumenn"! 

Bankastjórnirnar og ca. 10-40 útrásar víkingar (hringrásar víkingar - peninga fíklar) hafa þannig náð með "blekkingum, lygum & svikum" að fá lánað fé í sínar svikamyllur (skuldsetar yfirtökur) og með sínum athöfnum hafa þeir vissulega rústað TRÚVERÐUGLEIKA  þjóðarinnar á erlendri grundu.  Erlendir lánadrottnar líta nú á íslendinga sem HEIMSMEISTARA í að "ljúga & svíkja út pening". Það TJÓN verður seint metið til fjár!  "Can YOU believe it!  THEY are NOT going to PAY..! Eftir situr fjöldi fólks (erlendis & hérlendis) sem er ekki bara að upplifa eignamissi, heldur upplifa margir eigna atvinnuleysi!  Þeir sem halda vinnunni lækka svo í launum um 10-20% og þorri almennings upplifir það að vera komið í "skuldafangelsi".  En "Bláa höndin" og "óreiðumennirnir" (meðvirkir fíklar) eru nú ekki á því að þeir eigi að axla ábyrgð á einu eða neinu.  Slík hrokaframkoma svíður rosalega..!  Ég held þó í VONINA um að sá DAGUR komi að þeir muni biðja þjóðina afsökunar og að þeir taki síðar þátt í að byggja upp betra samféalg.  Vegurinn fram á við er KÆRLEIKUR og BRÆÐARLAG, ég vona svo sannarlega að okkur sem þjóð beri gæfa til að næstu spor okkar verði "gæfuspor".....:).

kv. Heilbrigð skynsemi

Jacob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 22:14

21 identicon

Sæl Lára Hanna

þú ert kraftaverk netheima. Enginn er fundvísari á það sem máli skiptir fyrir umræðuna og dugnaðurinn við að miðla öllu þessu góða efni út á vefinn er aðdáunarverður. Takk fyrir síðuna þína. Það eru skrif af þessu kaliberi sem standa undir skoðanamyndun og vitrænni umræðu í landinu. Fjölmiðlar án netumræðunnar væru þunnur þretándi. 

Axel Birgir Knútsson (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 22:27

22 identicon

"Ég lýsi því hér með yfir að ef ríkisstjórnin setur lög sem koma Davíð Oddssyni út úr Seðlabankanum og hindra að ónýtir stjórnmálamenn setjist þar inn í framtíðinni gerir hún það svo sannarlega í mínu nafni og með mínum vilja."

 Amen!!

Alda (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 11:10

23 Smámynd: Árni Gunnarsson

Smjörklípuaðferð finnst mér nú óþarflega dramatískt orð yfir hroka, afneitun og heimsku. Flest sem þessi mannbjálfi hefur látið út úr sér á undangengnum árum hefur orðið að einhverjum "eftirminnilegum spakmælum" svona eins og eitthvað sem Shakespeare skildi eftir sig fyrir komandi kynslóðir.

Má ég biðja um meiri þungavigt í speki handa þjóðinni að hafa á takteinum en þá sem hrýtur af vörum þessa undarlega fyrirbrigðis í samfélaginu.

Bendi þar á Sölva Helgason ljóslifandi fyrirmynd Davíðs Oddssonar í sögu nítjándu aldar. Margt af því sem hann skildi eftir í munnmælum rímar vel við þessa mennt, eins og ég hef áður bent á.

Árni Gunnarsson, 10.2.2009 kl. 18:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband