Snilldarsilfur að venju

Mér finnst hann Egill toppa Silfrið á hverjum sunnudegi. Hvar endar þetta eiginlega? Viðmælendur frábærir og umræðuefnin í þætti dagsins koma okkur öllum við eins og venjulega. Vettvangur dagsins var svo fjölmennur og langur að ég skipti honum í tvennt. Marinó G. Njálsson hélt fína ræðu á Austurvelli í gær og ég hengi hana neðst í færsluna. Hann fjallar um vanda heimilanna, sem er gríðarlega mikilvægur málaflokkur. Það gerir Ingólfur H. Ingólfsson líka og það var athyglisvert að heyra sögu hans um viðbrögð bankanna - bæði fyrir og eftir hrun. Egill talaði við Gauta B. Eggertsson í síma um tillögu sænska ráðgjafans og formanns nefndar um endurreisn fjármálakerfisins - sjá hér - sem Vilhjálmi hjá SA líst ekkert á.

Í seinni hluta Vettvangsins voru þau Atli Gíslason, Björg Eva Erlendsdóttir og Einar Már Guðmundsson. Atli og Björg Eva töluðu um fjárflutninga auðmanna úr landi og meint peningaþvætti hér og takið eftir hvað Atli segir: "Það þarf ekki nema venjulegan mann með þokkalega réttlætiskennd til að sjá að það er eitthvað galt í Danmark." Einar Már talar m.a. um tillögur sínar í greininni sem ég birti hér. Ræðu forsetans sem Einar Már minnist á setti ég í bloggfærslu í nóvember ásamt Kastljósviðtalinu við hann.

Sigrún Davíðsdóttir hefur flutt marga stórfína pistla í Speglinum á RÚV um fjárböðun, fjárflutninga og þvíumlíkt. Ég held að hægt sé að lesa og hlusta á þá alla - eða flesta - hér. Sigrún var einmitt tilnefnd til verðlauna Blaðamannafélagsins fyrir pistla sína um daginn. Ábending: Sigrún minnist oft á fyrirtækið Novator, sem er í eigu Björgólfs Thors. Fyrir ári keypti ég mig frá því að auglýsa fyrir hann á bloggsíðunni minni. Nú er auglýsingin komin aftur inn og ég ætla að kaupa mig frá henni aftur ef þess gerist þörf. Ég kæri mig ekki um að auglýsa fyrir Björgólf Thor eða aðra auðkýfinga af hans sort. En þið hin? 

Svo kom einn af mínum uppáhaldsfjölmiðlamönnum, Hjálmar Sveinsson. Þátturinn hans á Rás 1, Krossgötur, sem útvarpað er klukkan 13 á laugardögum, finnst mér með því albesta sem ég heyri í útvarpi. Enda hef ég tekið upp nokkurn veginn hvern einasta þátt. Hjálmar hefur mikið fjallað um skipulagsmál í Reykjavík og víðar og hann hlaut verðlaun fyrir þá umfjöllun fyrr í vetur, verðskulduð mjög. Þeir sem ekki þekkja Krossgötuþættina ættu endilega að kynna sér þá hér.

Síðastur var Eiríkur Tómasson, lagaprófessor, og talaði um breytingar á stjórnarskránni og stjórnlagaþing. Auðvitað þarf að endurnýja stjórnarskrána, þó það nú væri. Hlustið vel á Eirík. Hlustið líka á hljóðskrá sem ég festi við hér að neðan þar sem Eiríkur talar í Spegilsviðtali frá 5. febrúar sl. um hve einfalt sé að breyta kosningalögunum svo unnt sé að taka upp persónukjör. Um viðtalið segir á vefsíðu Spegilsins: "Það þarf ekki stjórnarskrárbreytingu til að koma á persónukjöri í alþingiskosningum, segir Eiríkur Tómasson lagaprófessor. Með einfaldri breytingu á kosningalögum má heimila flokkum að stilla upp óröðuðum framboðslistum. Kjósendur myndu þannig sjálfir velja þá frambjóðendur sem þeim hugnast best og prófkjör eins og við þekkjum þau í dag yrðu úr sögunni. Rætt verður við Eirík í Speglinum." Mjög athyglisvert eins og Spegilsins er von og vísa.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Varð hugsi eftir Silfrið í dag eins svo oft áður. Viku eftir viku kemur í þáttinn fólk sem bendir á rannsóknarefni tengd bankahruninu, bendir á leiðir til að rannsaka, rannsakar jafnvel sjálft. Það kemur fólk sem bendir á lausnir eða er a.m.k. með hugmyndir að lausnum fyrir heimili og fyrirtæki. Það koma fram sterk rök fyrir ýmsum breytingum sem almenningur kallar á t.d. á kosningalögum og stjórnarskránni. Hvernig stendur á því að svo hægt gengur í öllum þessum atriðum sem raun ber vitni? Hvers vegna þessi seigfljótandi tregða að bregðast við æpandi vanda? Er það samkrull hagsmunaaðila, óeðlilegt samband viðskipta og stjórnmála? Er þetta afleiðing ráðherraræðis sem gert hefur aðra þætti kerfisins veika? Embætti og stofnanir sem vinna jafnvel á móti núverandi stjórn? Vil helst ekki trúa því en maður spyr sig.

Solveig (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 22:30

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Solveig, ég hefur verið að benda á alls konar atriði í 2 ár hér á blogginu án þess að ná eyrum réttra aðila.  Eftir hrunið í haust birti ég færslu eftir færslu um úrræði, með ábendingum og tillögum.  Sumar rötuðu inn til félagsmálaráðuneytis, aðrar hafa farið inn á borð þingmanna, en það er bara því miður þannig að svo virðist helst sem ráðherrar síðustu ríkisstjórnar hafi annað hvort verið í losti eða þeim verið bannað að gera eitt eða neitt.  Það var eins og bara hafi mátt sinna málum, sem voru einhverjum tilteknum aðilum þóknanleg, í staðinn fyrir að einblína á það sem var þjóðinni til góða. 

Afraksturinn af starfi síðustu ríkisstjórnar (frá bankahruni) var nánast enginn.  Innantómar aðgerðir sem skiluðu engu.  Úrræði fyrir námsmenn sem varla nokkur gat nýtt sér.  Afnám stimpilgjalda sem gilti í 5 vikur og þar af voru jól á þeim tíma.  Endurgreiðsla vörugjalda af útfluttum bifreiðum (fyrir heimilin!) sem kom bröskurum til góða.  Svona mætti lengi telja.  Hvar eru niðurstöðurnar úr vinnu neyðarhópanna sem Ásmundur Stefánsson stýrði? Af hverju héldu þessir hópar ekki áfram að vinna?  Af hverju voru ekki kallaðir saman fleiri vinnuhópar?  Það er svo margt vitlaust í þessu að maður hreinlega skilur ekki svona vinnubrögð.

Marinó G. Njálsson, 22.2.2009 kl. 23:23

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Takk Lára Hanna

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.2.2009 kl. 23:34

4 identicon

Fín grein hjá þér.

Það vantar ekki að í þjóðfélaginu er fólk á öllum stigum með frábærar hugmyndir um ábendingar og aðgerðir sem eru vel framkvæmanlegar. 

Hvað er að ráðamönnum sem hlusta ekki og framkvæma.  Eru þeir með svona vonlausa ráðgjafa eða er ekki sama hvaðan gott kemur ? 

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 00:13

5 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Ég held að það sé algjörlega ljóst að sjálfstæðisflokknum hafi verið síðst treystandi til að stjórna þessu landi. Sér í lagi síðustu misseri. hugmyndalegt gjaldþrot var því óhjákæmilegt hjá þessum gjörspillta valdaflokki sem nú er orðið að veruleika. Mér er sama hver segir en sú ríkisstjórn sem nú er starfandi hefur komið mun fleirri hlutum í verk en betur má ef duga skal, en eins og Maríno gat til eru ráðamenn íslensku þjóðarinnar farnir að hlusta og eru það mikil framfaraskref.

Brynjar Jóhannsson, 23.2.2009 kl. 01:29

6 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

TAkk fyrir mig.  Ég missti af Silfrinu í dag og ætla núna að hlusta á það. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 23.2.2009 kl. 01:38

7 identicon

Það er eitt atriði sem ég hef tekið eftir í öllu þessu fyrirtækjakraðaki þessara auðmanna. Það er að varla nokkur þeirra eru að skapa verðmæti. Þarna verða menn auðkýfingar á ofurlaunum aðeins við það að færa "fjármagn" á milli hólfa. Stundum mörgum sinnum fram og til baka sömu leiðina. Er þetta ekki sjúkt? Eru þessir auðmenn þá ekki bara sníkjudýr á okkur hinum, því þeir eru að njóta góðs af verðmætum sem þeir eiga sjálfir engan þátt í að skapa?

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 02:44

8 identicon

Ein skýring á gæðum Silfursins er sú að Egill hefur stórlega dregið úr því að fá til sín stjórnmálamenn.  Það gerir gæfumuninn!

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 10:24

9 identicon


Eg held að vinna Marinós og fleiri sé um það bil að skila sér. Þeir sem
halda að verðtrygging sé óbrigðul vörn eru farnir að átta sig.
Ekki seinna vænna. Gjaldþrota heimili borga ekki.

Annars hafa þessi samtök grasrótarhópa sennilega hitt á brýnustu málin í
okkar samfélagi. Vek sérstaka athygli á þessu:

"Trúverðug rannsókn undir stjórn og á ábyrgð óháðra erlendra sérfræðinga á
íslenska efnahagshruninu verði hrundið af stað og fari fram fyrir opnum
tjöldum."

http://www.samstada.blog.is/blog/samstada/entry/808842/

Rómverji (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 11:12

10 identicon

Sammála Marino að íslenskir stjórnmálamenn vinna ótrúlega hægt úr góðum hugmyndum og yfirleitt ná þeir að klúðra flest öllu sem þeir koma nálægt.  Á meðan blæðir "einstaklingum & fyrirtækjum út".  Ég nefndi strax (í lok september 2008) að ég vildi að fjármálaráðherra (stjórnvöld) beitu sér fyrir því að fólki yrði gert kleift að fá borgað út sinn "séreignasparnað...!!!"  Ég sagðist ekki skilja kerfi sem horfir upp á fólk fara í "gjaldþrot" - fólk sem á ekki mat fyrir sig & börnin sín, en þetta sama fólk á kannski inni tugi eða hundruð þúsunda inn á séreignareikningi.  Ég reyndi að útskýra fyrir stjórnmálamönnum að "mér væri að blæða út - ég væri skuldugur og stefndi í gjaldþrot en með því að veita mér aðgang að MÍNU FÉ þá gæti ég náð að bjarga málum og þessi aðgerð myndi einnig styrkja stöðu bankanna.  Ég og aðrir sem vilja borga burt slæm lán gætum þá gert það o.s.frv.  Það er búið að taka stjórnvöld 4 og hálfa mánuð að klára málið.  Samt var hægt að setja lög um bankanna á einni nóttu þegar sú spilaborg hrundi, en þegar HEIMILIN eru að HRYNJA þá á ég og aðrir góðir íslendingar að bíða í ca. 22 vikur á meðan verið er að vinna í málinu...

Alveg eins og núverandi stjórnvöld eru ENNÞÁ að velta fyrir sér HVORT saknæmt athæfi hafi átt sér stað hjá "fyrverandi bankastjórum, bankastjórnum & eigendum bankanna.." Íslenskum stjórnmálamönnum virðist vera fyrirmunað að koma málum STRAX í réttan farveg.  Það eru "fábjánar" á flestum sviðum þjóðfélagsins, skiptir þá engu hvort um er að ræða "stjórnmál, bankamál eða viðskiptarekstur" - þessum aðilum virðist fyrirmunað að skila ARÐI til samfélagsins, en þeir eru færir í því að "skilja eftir sig sviðna jörð, hérlendis og erlendis".  Ég tilheyri þeim hóp sem er sannfærður um að ástandið á bara eftir að "versna" áður en það skánar með svona einstaklinga upp í brúni!

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 11:26

11 identicon

Takk fyrir bloggsíðuna þína og vinnuna sem þú leggur á þig!

Kveðjur

Hallgrímur Óskarsson (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 12:14

12 Smámynd: Eysteinn Þór Kristinsson

Já, maður kemur sjaldnast að tómum kofanum hér. Enn einn snilldarpistillinn. Einhversstaðar stendur "Góðir hlutir gerast hægt" en öllu má jú ofgera.

Eysteinn Þór Kristinsson, 23.2.2009 kl. 12:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband