Athyglisverð grein til íhugunar

Ekki get ég nú tekið undir allt sem Gunnar segir hér, en mér finnst þó vert að íhuga ýmislegt sem hann setur hér fram.

Gunnar Karlsson - Fréttablaðið 25.2.09

Þessu tengt festi ég við hér að neðan brot úr Krossgötuþætti Hjálmars Sveinssonar frá í dag þar sem hann minnist m.a. á grein Gunnars og ræðir við Svan Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði, um lýðræðið og hve það er brothætt. Allur þátturinn í samhengi hér þar sem einnig er rætt við Sigrúnu Davíðsdóttur og Einar Mar Þórðarson auk þess sem vitnað er í Biederman og brennuvargana og hliðstæðna við atburði hér.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af hverju er alltaf talað um Samfylkinguna sem samansafn af einfeldningum? Óvitarnir væri réttnefni á slíkan flokk.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 17:59

2 identicon

Sammála síðasta ræðumanni.

TH (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 18:03

3 identicon

Gunnar lýsir hér á vandaðann hátt þeirri okun sem við Íslendingar búum við og bendir á leiðir út úr þeirri villu. Takk Lára Hanna.

hann (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 18:42

4 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Gunnar telur hér að lýðræðið sé ekkert sérstaklega til góðs. Að þrískipting valdsins sé ekkert grundvallaratriði. Að flokksræði sé ekkert til trafala. Að markaðsvæðing í samfélaginu sé af hinu illa. 

Hvers konar samfélag vill Gunnar þá taka upp? Samfélag þar sem lýðræði skiptir litlu eða engu máli. Þar sem framkvæmdavaldi, dómsvaldi og löggjafarvaldi er öllu ruglað saman. Þar sem flokksræði er dýrkað og markaðsvæðing er litið á sem djöfulegt afl. Gamla austantjaldsrómantíkin endurlífguð.

Lára Hanna er þetta það þjóðskipulag sem þú ert sammála Gunnari með?  

Sigurður Þorsteinsson, 28.2.2009 kl. 18:58

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Tek undir það sem Gunnar setur fram í spurningaformi um vilja þjóðarinnar. Þegar fólk hefur viðurkennt að svarið við þeim spurningum er "nei", þá fellur 99% af bullinu sem á þessari bloggsíðu birtist, eins og spilaborg.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.2.2009 kl. 19:05

6 identicon

Þetta var snöfurmannlega mælt og rétt,en söguskilningur manna er ekki eins hjá öllum og mér finnst alltaf tveir puntar í stjórnmálasögunni vera vanmetnir,annað var snemma á þriðja áratugnum þegar Jónas Jónsson breytti framsóknarflokknum úr stjórmálaflokki í bófaflokk sem hann er enn.

Hitt var þegar Geir Hallgrímsson lék sama leikinn við sjálfstæðisflokkinn við brotthvarf Jóhanns Hafsteins.

Kveðja.

Sölvi Kjerulf (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 19:08

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Sigurður... ég endurtek það sem ég sagði í upphafi færslunnar: "Ekki get ég nú tekið undir allt sem Gunnar segir hér, en mér finnst þó vert að íhuga ýmislegt sem hann setur hér fram." Ég treysti þjóðinni betur en Gunnar virðist gera, en ég geri þá líka ráð fyrir upplýstri umræðu og almennilegum, hlutlægum upplýsingum og staðreyndum.

Þótt hlutir séu íhugunarverðir er maður ekki endilega sammála þeim. Og stundum eru fyrstu viðbrögð við hugmyndum ekki þau sem maður endar á eftir íhugun. Ég sé að þú skilur Gunnar á annan hátt en ég.

Svo mæli ég með hlustun á Krossgötuþáttinn líka því þar er líka fjallað um lýðræðið. Í grein Gunnars og viðtalinu við Svan er fjallað um svipaða hluti á ólíkan hátt.

Hver og einn leggur svo sitt mat á hlutina.

Lára Hanna Einarsdóttir, 28.2.2009 kl. 19:24

8 identicon

Mjög athyglisverð grein, takk fyrir að setja hana hér Lára.

íris (IP-tala skráð) 28.2.2009 kl. 21:25

9 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæl Lára Hanna

Það eru vissulega punktar í þessu hjá Gunnari, en heildarmyndin hjá honum geðjast mér ekki. Lýðræðið er vissulega ófullkomið. Hópurinn sem mótmælti á Austurvelli var afar misleitur. Ég get fallið inn í hluta hans, en alls ekki annan. Samþykki ekki ofbeldi og grímur, en styð að fólk lýsi yfir óánægju sinni.

Lára Hanna þú beittir þér gegn stóriðjuframkvæmdum og hafðir betur. Það sýnir okkur að lýðræðið getur virkað. Ég hef rætt þessi stóriðjumál við lykilfólk í nokkrum flokkum. Málflutningurinn fer á trúarbragðastigið hjá bæði þeim sem eru harðir með virkjunum og þeim sem eru á móti. Á því stigi þarf enga hugsun. Mælikvarðinn á virkni lýðræðisins hefur m.a. verið metinn eftir því hversu auðveldlega við getum sett fram skoðanir okkar án þess að eiga á hættu að vera refsað á einhvern hátt. Ég óttast að í allnokkurn tíma hafi ástandið í þjóðfélaginu verið orðið þannig að fólk þorði ekki að halda fram skoðunum sínum.

Þegar Ingibjörg Sólrún lýsti því yfir að einn fundargestur í Háskólabíói gæti ekki talað fyrir alla þjóðina, þá hafði hún rétt fyrir sér. Það er mikilvægt að hún geti sagt þá skoðun sína án þess að fá refsingu í einhverju formi, sem hún reyndar fékk. Rétt eins og það að við höfum leifi til þess að mótmæla áforum þeirra sem trúa á álfversguðinn.

Sigurður Þorsteinsson, 28.2.2009 kl. 23:49

10 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Ég held ég sé meira sammála Gunnari (nei, ekki Gunnari Th, úff!) en ansi margir hér. Það eru til margar leiðir til að laga ástandið, spurning hver gengur betur en flokkakerfi. Ég er satt að segja skíthrædd við einstaklingskosningar því þar inni rúmast þvílíkt skelfingar lýðskrum.

Kíkið á þetta. Í fullri alvöru.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 1.3.2009 kl. 01:06

11 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Bara að minna fólk á að þó það væru teknar upp einstaklingskosningar þá yrðu hér eftir sem áður flokkar. EN það sem mundi breytast að fólk gæti ekki treyst því að það vissi í hvaða hópi/flokki frambjóðandi yrði eftir kosningar. Nema að hann biði síg fram fyrir ákveðinn flokk og þá erum við að tala um tiltölulega lítið breytt kerfi nema að prófkjörin yrðu færð inn í kjörklefann. Minni fólk á að stjórnmálaflokkar og framboðslistar eru nálægt því norm í heiminum. Aðrar aðferðir hafa gefist illa.

Held að mun brýnna sé að skerpa á stjórnarskrá og tryggja völd Alþingis. Þar held ég að vandamálin liggi. Það þarf að hefta völd ráðherra og gera ákvarðanir þeirra háðari samþykkt Alþingis. Þannig var þetta hugsað í upphafi. Eins þá á að opna á að stærri mál eigi að leggja fyrir þjóðina. Og að þjóðin geti farið fram á þjóðaratkvæða greiðslur ef að 25 til 30% þjóðarinnar óskar. Enda á þessum tíma ætti það ekki að vera erfitt. Er ekki um 90% þjóðarinnar með aðgang að netinu?

Magnús Helgi Björgvinsson, 1.3.2009 kl. 01:22

12 identicon

Gunnar Karlsson prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands fer mikinn í umræddri grein. Að hætti "fræðimanna" við HÍ talar hann niður til pöpulsins ("Umræða á villigötum") og gerir föðurlega tilraun til að " beina umræðunni inn á brautir sem eru vænlegri til árangurs". Ekkert nýtt í þessu viðhorfi GK; enn einn háskólaprófessorinn sem segir Íslendingum að halda kjafti, hlýða og vera góðir.

Hver er svo ástæðan fyrir því að GK bregður sér í hlutverk "Grumpy Old Man"? Jú, honum " finnst að umræðan á mótmælavettvanginum hafi lent átakanlega á villistigum og farið að snúast í sífelldri endurtekningu um allt annað en kjarna málsins". Halló, hver hefur verið helsta umræða á mótmælavettvangnum undanfarna mánuði? Rifjum það upp fyrir prófessorinn: "Ríkisstjórnin burt, stjórnir Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans burt og kosningar svo fljótt sem verða má".

Er þetta í huga prófessorsins "umræða á villigötum"? Hvað sem um skynvillu GK má segja er ljóst að kröfur mótmælenda hafa allar náð fram að ganga - takið eftir því, allar. Nú höfum við því sett fram nýjar kröfur sem taka á helstu réttlætismálum líðandi stundar: "Frystum eignir auðmanna, afnemum verðtrygginguna og færum kvótann aftur til þjóðarinnar". Er þetta etv. líka "umræða á villigötum" í huga sófaspekingsins GK?

Nei, vandamálið telur GK vera:

1. Lýðræðiskrafan: Að mati GK eru kröfur almennings um virkt lýðræði nánast hættulegar (" ég held að við ættum að minnsta kosti að prófa að tala okkur í átt til lausnar innan þess í stað þess að einblína á að hafna því fyrir eitthvað sem við vitum lítið hvert kann að leiða"). Og prófessorinn tekur snilldardæmi: " Hugsum okkur að á árið 2007 hefði verið efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um útrásina, hvort ætti að halda henni áfram eða leggja bönd á hana... Útrásin hefði fengið ótvíræða traustsyfirlýsingu hjá þjóðinni. Beint lýðræði hefði engu bjargað". Tekur einhver eftir rökvillu GK? Að sjálfsögðu hefði "útrásin fengið ótvíræða traustyfirlýsingu þjóðarinnar af því að við búum ekki við virkt lýðræði. Við búum ekki við opið flæði upplýsinga sem er grunnforsenda þess að geta tekið yfirvegaðar og ígrundaðar ákvarðanir. Við búum hins vegar við ofuráróður auðmanna (Morgunblaðið/Fréttablaðið) og RÚV sem til skamms tíma hefur verið í vasa Flokksins. Nei, GK - vandamálið er ekki lýðræðiskrafan.

2. Stjórnarskrárvillan: Krafan um nýja stjórnarskrá er, að mati GK, " reist á furðumiklum misskilningi". Stjórnkerfi BNA er "hálfgert klúður" og sem dæmi um það þarf forsetinn að "semja við þingið um að koma í gegn tillögum" (sic). Já, háskólaprófessorum finnst sannarlega slæmt að þurfa semja um hluti. Breska þingræðið er svo litlu skárra. " Þingið getur því haft gersamlega öll völd sem það vill gagnvart framkvæmdarvaldinu" og aumingja ráðherrarnir verða að sitja og standa samkvæmt geðþótta þingsins. Niðurstaða prófessorsins?: " Kenningin um þrískiptingu ríkisvaldsins er því úrelt hjá okkur, og ég sé engar líkur til að það mundi leiða til góðs að taka hana upp". M.ö.o., á mannamáli: Ekki breyta neinu - þetta er ekki kerfinu að kenna, heldur ykkur sjálfum.

3. Flokkavillan: Nú fyrst hleypur GK verulega kapp í kinn. Það voru nefnilega ekki flokkarnir sem leiddu okkur út í forarmýrina, heldur " afsöluðu [þeir] sér valdi yfir stofnunum eins og ríkisbönkunum, seldu þá og létu markaðsöflum eftir að stýra þeim út í skuldafenið". Þarna kemst GK að vísu í mótsögn við sjálfan sig, en bjargar sér á röksvigi:

"En voru það ekki flokkarnir sem gerðu þetta? Ekki allir. Það var umfram allt Sjálfstæðisflokkurinn með hjálp hagsmunaklíku sem kallaði sig Framsóknarflokk. Vissulega gekk Samfylkingin af furðumikilli einfeldni inn í þetta þrotabú nýfrjálshyggjunnar árið 2007, þegar Framsókn þótti ekki nothæfur lengur. En kjarni málsins er samt sá að það var Sjálfstæðisflokkurinn og stefna hans sem stýrði út í ófæruna".

Eigum við að staldra aðeins við og skoða þessa tilgátu aðeins nánar? GK heldur því fram að flokkarnir hafi ekki orsakað hrunið - það hafi "markaðsöflin" gert. Að vísu hafi flokkarnir styrkt markaðsöflin til valda - þó ekki allir, heldur umfram allt Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin og.... En GK sér semsagt ljósið í skiptingu valds milli auðvalds og ríkisvalds.

4. Úrræðið (The Grand Solution). Að hætti sófaspekinga er GK með lausnina á reiðum höndum. "Nú þarf umfram allt að taka ríkisvaldið varanlega af Sjálfstæðisflokknum" og " næsta skref upp á við hlýtur að verða stjórnarsamstarf Samfylkingar og Vinstrigrænna". Semsagt, góðir hálsar, hugsum í flokkum en ekki lausnum. 

ps. Mér skilst að Háskóli Íslands vilji stefna að því að komast í hóp 500 virtustu háskóla heims. Það virðist því miður vera langtímamarkmið.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 1.3.2009 kl. 09:50

13 identicon

Það er nokkuð skondið að það er enginn þjóðin í þessu öllu og það getur nákvæmlega enginn talað í nafni þjóðarinnar því þá þurfa 320 þúsund manns að vera sammála honum. Það er í raun satt. Einhver minnihluti af 320 þús verður aldrei þjóðin því menn vilja skilgreina þjóðina sem "alla einstaklinga landsins sem eru allir sammála einhverju máli", sem í raun er ekki mögulegt(hér eru menn alltaf sammála og ósammála eins og gefur að skilja). Af því leiðir semsagt að enginn er þjóðin. Ef maður gefur sér allt þetta er þetta vissulega niðurstaðan.

En svo er bara hægt að segja frá öðrum forsendum að bara allir séu þjóðin því við erum öll jafngild. Ég er þjóðin, þú ert þjóðin, þessi hópur er þjóðin, hinn hópurinn sem er ósammála hinum hópnum er líka þjóðin, við erum öll þjóðin, stök sem representera heildina hvert f. sig.

Ari (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 02:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband