ESB eða ekki ESB?

Ísland í ESB?Auðvitað var ekkert bara verið að kjósa um Evrópusambandið. Halda stjórnmálamenn það virkilega? Sér er nú hver þröngsýnin, segi ég nú bara. Við upplifðum efnahagshrun í haust, flest hefur gengið á afturfótunum, atvinnuleysi í sögulegu hámarki, fyrirtæki og heimili að hrúgast á hausinn, spilling grasserar hjá flokkum og frambjóðendum og fólk lætur aðildarviðræður við ESB flækjast fyrir stjórnarmyndun. Þvílíkt rugl.

Ég sæi launþega og atvinnurekendur í anda gera slíkt hið sama. Setjast bara alls ekki að samningaborði af því þeir væru búnir að gefa sér fyrirfram að samningar næðust ekki eða yrðu óhagstæðir öðrum hvorum aðilanum. Eða bara hvaða aðilar sem er þar sem sættir eru samningsatriði.

Auðvitað eigum við að fara í viðræður með ákveðin samningsmarkmið og bera síðan útkomuna undir þjóðina. Mér finnst það einhvern veginn segja sig sjálft. Verið getur að kostirnir vegi margfalt þyngra en gallarnar og mig grunar að svo sé fyrir allan almenning til lengri tíma litið. Hugsum um framtíð barnanna okkar og barnabarnanna. Hér er samantekt um mögulega kosti, galla og óvissuþætti sem stemmir ekki við það sem kemur fram í þættinum hér að neðan. Kosning um hvort við eigum að fara í viðræður er fullkomlega tilgangslaus þar sem ekki væri vitað um hvað væri í raun verið að kjósa. Ekki möguleiki að réttlæta kostnað við slíka atkvæðagreiðslu.

Verið er að endurskoða sjávarútvegsstefnu ESB. Hún hefur ekki virkað sem skyldi og ekki er hægt að afskrifa fyrirfram að ný stefna muni henta okkur. Aðrar auðlindir, þ.e. orkuauðlindir okkar, yrðu áfram í okkar eigu. Það er þegar ljóst. Eins og fram kemur í myndbandinu hér að neðan eiga t.d. Bretar sína olíu sjálfir og Finnar eiga skógana sína. Og ekki hef ég orðið vör við að Portúgalar séu eitthvað minni Portúgalar eða Ítalir minni Ítalir þótt löndin séu í ESB. Af hverju ættum við að verða minni Íslendingar? Svona umræða er bara bull. Reyndar væri okkur líkt að verða bara ennþá meiri Íslendingar og kaupa enn meira af íslenskri framleiðslu. Kæmi mér ekki á óvart. Og ef verðtryggingin myndi hverfa með aðild - væri þá ekki öllum sama hvort myntin heitir króna eða evra? Vill fólk halda áfram að láta lánin og verðlagið sveiflast upp og niður með gengi krónunnar? Ekki ég.

Kjarni málsins er að við vitum ekki hvað fælist í aðild. Umræða um ESB var bönnuð á Íslandi í stjórnartíð Hins Mikla og Ástsæla Leiðtoga. Síðan fór hún í skotgrafir og virðist föst þar. Umræðan ber keim af trúarofstæki og er afskaplega ómarkviss. Hlustum á Pál, Vigdísi og Hjálmar í þessum Krossgötuþætti og íhugum vandlega hvort ekki sé kominn tími á vitrænar, upplýstar rökræður í stað slagorðakenndra fullyrðinga og sleggjudóma. Takk fyrir.

Þennan fína þátt um ESB eða ekki ESB gerði sólargeisli Stöðvar 2, Lóa Pind Aldísardóttir. Hann var sýndur í Íslandi í dag 8. apríl sl. Horfið, hlustið og hugsið málið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Þó að Danir séu áfram Danir innan ESB, þá eru þeir ekki fullvalda. Við yrðum áfram sjálfstæð þjóð innan ESB, en alls ekki fullvalda. Vald í þeim málaflokkum sem ekki falla undir EES samninginn færist til Brussel, í mörgum þeirra erum við litla samleið með sambandinu. Og það er algjört ábyrgðarleysi að afgreiða þetta sem eitthvað smámál.

Annars ætti pólitík dagsins í dag að snúast um það sem Jón Gunnar Jónsson fjallaði um í Silfrinu og birt er í færslunni hér á undan. Þessi ESB vitleysa má alveg fara í salt þar til Lissabon samningurinn hefur verið afgreiddur innan Evrópusambandsins.

Haraldur Hansson, 27.4.2009 kl. 13:50

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Mér líst ekki á þróunina í stjórnarmyndunarviðræðum í dag.

Svo er mér sagt að það sé önnur stjórnarmyndun í gangi á bak við tjöldin (Samfó).

Jenný Anna Baldursdóttir, 27.4.2009 kl. 14:10

3 identicon

Getið þið ekki hugsað ykkur það hversu mikil hjálp það væri í framtíðinni fyrir venjulegt fólk að ganga í ESb. Ég tók 18 miljón króna lán til 40 ára. Ég þarf að borga það 17 falt til baka þ.e. 300 miljónir þegar upp er staðið. En vegna andstöðu fólks út af einhverjum þjóðernisrembing, þá verð ég að sætta mig við að borga þetta lán svona. Vaxtalækkunin sem þjóðin fengi í gegn um það að fara í ESB eru litlar 228 þúsund miljónir, já 228 miljaraðr sem hemilin og fyrirtæki landsins fengju í lækkun. En því miður vegna andstöðu fólks og þjóðerniosrembings, þá verðum við að leggja á okkur ómælda vinnu til að standa skil á þessum vöxtum. Hvað er svona hræðilegt að skoða þessi mál eins og flestar aðrar þjóðir hafa gert í kring um okkur? Ég heyrði í manni sem þekkir þessi mál mjög vel, að ESB væri einn stór félagsmálapakki sem héldi utan um fólk og fjölskyldur og passaði upp á mannréttindi og velferð. ESb gerir líka það að verkum að pólitíkusar hér á landi, sem hafa verið Sjálfstæðismenn hingað til, sem hafa ráðsgast með landsins gagn og nauðsynjar, eins og þeim sýnist. En vegna fólks sem er fullt af þjóðernisrembing þá verðum við að sætta okkur við að henda lottómiðanum án þess að kíkja á tölurnar.

Valsól (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 14:17

4 Smámynd: Héðinn Björnsson

Jóhanna hefur stjórnarmyndunarumboðið og ekki Árni Páll eða Ingibjörg Sólrún. Ég hef því engar áhyggjur af því að Samfylkingin fari að starfa til hægri eins og hún valdi eftir síðustu kosningar. Hvað varðar ESB að þá þarf að samþykkja aðildarumsókn áður en hægt er að hefja viðræður og ég tel best fara á því að þjóðin stígi það skref saman og ekki gegnum flokkana, en það verður að taka þá umræðu á Alþingi og hún á ekki að standa í vegi fyrir stjórnarmyndun.

Héðinn Björnsson, 27.4.2009 kl. 14:23

5 identicon

Legg til að við setjum okkur samningsmarkmið og sækjum um. Forgangsverkefnið eru þó aðgerðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimila. Borgarahreyfingin er með bestu tillögurnar í þeim efnum.

Leyfi mér að benda á blogg Marinós um esb og úrslit kosninganna:

http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/864344/

Rómverji (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 14:31

6 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Mér finnst alveg lágmark að setja sér einhver samningsmarkmið áður en farið er að æða út í umsókn. Það mætti gjarnan bera þau samningsmarkmið undir þjóðina áður en farið er af stað, eða ganga einhvern veginn úr skugga um að samningsmarkmiðin séu ekki í algerri andstöðu við vilja þjóðarinnar. Síðan þurfa óháðir aðilar að kynna niðurstöður samningsins fyrir þjóðinni áður en gengið er til endanlegrar atkvæðagreiðslu. Eða getur það verið að Samfylkingin sé með einhverja leynisamninga við Brusselvaldið? Spyr sá er ekki veit, en ákefðin hjá Samfó er allavega nógu mikill til að búa til fullt af samsæriskenningum.

Sigríður Jósefsdóttir, 27.4.2009 kl. 15:08

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

...að opinbera samningsmarkmið áður en sest er að samningaborði er í viðskiptaskólanum bls 1 merkt sem afspyrnuheimska...

Ég kaus Samfó í þar síðustu kosningum vegna ESB.. þau sviku það 48 stundum eftir kosningar... þess vegna kaus ég ekki samfó í þessum kosningum.. heldur vildi fá fram lýðræðislegar umbætur og valdi því XO.. ESB kemur hvort sem þumbarnir þumbist við...

Án ESB mun AGF hirða af okkur auðlindirnar þegar kemur að skuldadögum sem við getum ekki staðið við í náinni framtíð.. fyrst landsvirkjun.. svo miðin.. 

Óskar Þorkelsson, 27.4.2009 kl. 17:10

8 Smámynd: Róbert Viðar Bjarnason

Það er grundvallarmunur á aðildarumsókn og almennum viðræðum við ESB um hvað væri okkur þar í boði.  Aðildarumsókn er mjög stórt skref fyrir þjóðina og ætti ásamt samningsmarkmiðum að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en sótt er um.  Hér er yfirlit yfir þetta flókna ferli sem við færum í, og frá manni sem virðist vera mjög meðmæltur ESB aðild, http://eyjan.is/goto/kristjan/

Ótrúlega margir sem ég hef talað við halda það að "aðildarviðræður" séu sama og almennar viðræður þar sem við bara sendum nokkra fulltrúa til Brussel í kaffi til að spjalla um hvað við fengjum út úr því...  Þetta er 1-3 ára ferli og mjög stórt skref fyrir þjóðina, skref sem um það bil helmingur þjóðarinnar er á móti að taka. Það er áhugavert að hugsa til þess að ef að stjórnarskráarbreytingar hefðu gengið í gegn hefðu 15% þjóðarinnar getað krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB umsókn og þarmeð væri þessa ESB stjórnarkreppa ekki til staðar í dag...

Róbert Viðar Bjarnason, 27.4.2009 kl. 17:40

9 identicon

Þetta er einstaklega vel unninn þáttur. En hafið þið Íslendingar ekki fengið nóg af frjálsum markaðsöflum í bili? Ætlið þið virkilega að fara úr klóm sjálfstæðismanna og beint í gin innra markaðarins? Þetta hlýtur að vera einskonar fjárhagslegt Stokkholms-heilkenni. Eða kannski bara ofsatrú kratanna á töfralausn að utan, áður frá Ameríku, núna frá Evrópu. Vandinn er bara sá að ástandið er ekki mjög glæsilegt þar heldur og evran er ekkert töfratól. Á Spáni er atvinnuleysið 17,4 % og vaxandi. Nóvember 2008 var atvinnuleysi meðal ESB-landa sem hafa tekið upp evruna 7,8 % að meðaltali en 7,2 % í ESB-löndum án evru. Ætli það hafi batnað mikið síðan? Á meðal umsækjenda atvinnuleysisbóta hérna í Noregi eru 10% íbúar ESB-landa. Hér er atvinnuleysi 2,7% (mars 2009). Okkur finnst það mikið!

Gro Tove Sandsmark (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 18:11

10 Smámynd: Hrannar Baldursson

Málið er að Samfylkingin telur inngöngu í Evrópusambandið vera mikilvægt skref fyrir Íslendinga í leið sinni út úr þeim ógöngum sem óreiðumenn hafa komið okkur í . Ég kaus ekki Samfylkinguna, en gæti ekki verið meira sammála þeim, eins og ég rökstyð hér. Við verðum að átta okkur á ástandinu áður en við tökum ákvörðun. Það er ljóst. En ástandið er þannig að við höfum glatað sjálfstæði okkar. Leiðin sem Samfylkingin stingur upp á er eina færið sem við höfum til að ná sjálfstæði okkar aftur. Þetta er ekkert voðalega flókið þó að erfitt getur verið að átta sig á því. Að sjálfsögðu á ekki að kjósa um hvort við förum í aðildarviðræður, við ættum að fara í viðaldarviðræður og það strax, og hugsanlega ekki bara við Evrópu - hugsanlega við Bandaríkin líka og fá samanburð!

Hrannar Baldursson, 27.4.2009 kl. 18:21

11 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Vönduð og skorinort úttekt hjá Lóu Pind, þar sem flest sjónarmið fengu að koma fram.  Eiríkur er heldur ekkert að fegra báknið, það er frekar staðreyndir og skynsemi sem endurspegla hans málflutning.

Hef ekkert á móti því að fólk spili í Happadrætti, en ég trúi ekki á happadrætti og allra síst þegar þjóðfélagið og auðlindir þess og eigur fá að lúta lögmálum Happadrætti örfárra útvaldra, sem fá að spila með.

Þannig urðu fiskiauðlindir Íslendinga að happadrættisvinning örfárra útgerðamanna, sem eins og margir sem vinna stóra vinninginn, náðu að glutra vinningnum niður og sitja uppi slippir og snauðir og auk þess stórskuldugir.

Þannig varð einkavinavæðing ríkisbankana að happadrættisvinning örfárra útvaldra, sem kunnu ekki fótum sínum forráð, glutruðu vinningnum og drógu íslenska hagkerfið með sér niður í svartnættið.

Fyrir mína parta, þá nenni ég ekki að lifa önnur oddhvöss 20 ár, í gengi, verðbólgu og óstöðugleika.  Getur verið að aðrir hafi þolinmæði til þess, en þeim fer fækkandi hratt og örugglega.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 27.4.2009 kl. 21:06

12 identicon

Ísland er hluti af innri markaðnum nú þegar gegnum EES-samninginn. Opinber almenn samningsmarkmið þurfa að liggja fyrir áður en lagt er af stað. Viðskiptaskólasamningatækni er ágæt svo langt sem hún nær, en ekki umfram það.

Annað og brýnna:

Eg ræddi tillögur Borgarahreyfingarinnar í húsnæðislánamálum við einn besta hagfræðing landsins. Sagði honum sem satt er að menn spyrðu iðulega í sambandi við tillögurnar, með frekjutón: "Hver á að borga færslu vísitölunnar á húsnæðislánum aftur til janúar 2008!?"

Hann ráðlagði mér að spyrja á móti með sama þjósti: "Hvar á að bera kostnaðinn af greiðsluþroti þúsunda heimila!?" 

Rómverji (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 22:17

13 Smámynd: Einar Indriðason

Gott hjá þér Lára Hanna.  Undanfarin ár, áratugi.... þá hefur ekki mátt nefna "ESB", þá hefur bláa höndin slammað fast í hnakkann á viðkomandi.

Vandamálið með ESB, er að við íslendingar vitum ekkert hverjir eru kostir og gallar við að vera inni eða vera ekki inni.  Við vitum ekkert hvað við fáum, og hvað við þurfum að gefa frá okkur.

Við VITUM EKKI.  Og afhverju ekki?  Afhverju vitum við ekki?  Jú, sérhagsmunaaðilar hafa verið í mjög öflugri hagsmunagæslu fyrir því að ESB væri bannorð, ljótt að tala um ESB, má ekki.  Það hefur ekki einu sinni mátt taka saman lista yfir kosti og galla, með og á móti.

Það að hefja samningsviðræður við ESB er ekki það sama og gerast meðlimir í ESB.  Þarf ég að endurtaka þessa setningu, fyrir þessa treggáfuðu? 

Það að tala við ESB er ekki sama og ganga inn í ESB.

Kannski (og kannski ekki) verða kröfur ESB á okkar hendur þannig að við getum (ekki) sætt okkur við þær, á meðan við þurfum að láta (of mikið / of lítið) frá okkur í staðinn?  Við vitum þetta ekki, nema kanna málið.  Kanna málið, takk, og eftir það, þá getum við skoðað hvort við eigum að sækja um eða ekki.

Þannig er það nú.

Og, ég skal segja þetta einu sinni enn, því ég veit að treggáfaðir lesa ekki svona langlokur:

Tala við ESB er ekki endilega það sama og sækja um inngöngu í ESB.

Einar Indriðason, 27.4.2009 kl. 22:18

14 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Takk fyrir að benda á þessa þætti, búin með sjónvarpsútgáfuna, á Krossgötur eftir. Eiríkur Bergmann var góður, laus við að fegra þetta um of. Svona á að ræða þetta. Gera sér grein fyrir kostum og göllum og sleppa upphrópunum.

Kristjana Bjarnadóttir, 27.4.2009 kl. 22:22

15 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ekki virkaði þessi samantekt til að gera mig jákvæðari gagnvart ESB-aðild. Held mig því við fyrri afstöðu sem er sú að ég er á móti aðild!

Skil enn síður hvernig Eiríki tekst að framleiða alla þessa ESB-sinnuðu háskólastúdenta uppi á Bifröst miðað við það sem hann segir í þessari samantekt!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.4.2009 kl. 23:50

16 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég held að þátturinn sé ekki gerður til að gera fólk jákvæðari eða neikvæðari gagnvart aðild, heldur til að velta upp spurningum og sýna andstæð sjónarmið.

Eftir stendur að mínu mati, að við vitum ekki hvað við fáum og fáum ekki nema fara í viðræður. Í þættinum kemur fram að við erum nú þegar með stóran hluta ESB reglna í gegnum EES - en hvað felst í rest? Hverjir eru kostirnir og hverjir gallarnir?

Við þurfum upplýsta umræðu og ég þakka öllum fyrir innleggin hér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 27.4.2009 kl. 23:59

17 Smámynd: Óðinn Þórisson

Sem ESB andstæðingi hræðist ég ekki að þetta fari þjóðaratkvæðagreiðslu - því fyrr því betra

Óðinn Þórisson, 28.4.2009 kl. 20:09

18 Smámynd: GRÆNA LOPPAN

Vel gert hjá Lóu Pind. Væri Bráðbirgðamat á aðildarhæfni... möguleiki? Það kynni að binda enda á óvissuna án nokkurra skuldbindinga, sem þarf að vera á hreinu frá upphafi. EF í framhaldinu verður farið í aðildarviðræður mega þær ekki felast í afsláttarsamningum eins og tíðkast í stóriðju- og öðrum auðlindamálum. Þar hefur alltaf gilt að ef veitt er rannsóknarleyfi er það ávísun á langtum meira... Þegar litli fingur er réttur fer allur handleggurinn... Hamast fyrst og hugsað svo...

GRÆNA LOPPAN, 29.4.2009 kl. 21:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband