Er Ísland gjaldþrota?

Hver er staða þjóðarbúsins? Er Ísland gjaldþrota? Við gengum til kosninga um helgina án þess að vita svör við þessum spurningum, merkilegt nokk. Upplýsingar sem fram hafa komið eru afar misvísandi, svo ekki sé meira sagt, og hagspekingar virðast ganga út frá mismunandi forsendum í útreikningum sínum. Stjórnmálamenn forðast umræðuna.

Þann 16. febrúar sl. var Borgarafundur í Háskólabíói undir yfirskriftinni Staðan-Stefnan-Framtíðin. Þar var einn frummælenda Haraldur Líndal Haraldsson, hagfræðingur. Haraldur var tvisvar í Silfri Egils í vetur, sjá hér og hér. Í erindi sínu á Borgarafundinum birti hann og rökstuddi mjög vel ískyggilegar tölur um stöðu þjóðarbúsins. Glærur úr erindi Haraldar hafa verið aðgengilegar hér.

Sama kvöld var viðtal við Tryggva Þór Herbertsson í Kastljósi, sjá hér. Hann nefndi tölur sem voru svo miklu lægri en tölur Haraldar að salurinn í Háskólabíói bókstaflega hristist af hlátri þegar það var upplýst - að mig minnir af fundarstjóra. Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, var í pallborði og sagði aðspurður eitthvað á þá leið að rétt tala væri líklega mitt á milli - færi eftir hvaða forsendum menn gengju út frá. Sem er auðvitað grundvallaratriði.

Í gær var haldinn fundur í Félagi viðskipta- og hagfræðinga undir yfirskriftinni Hver er staða þjóðarbúsins? Er Ísland gjaldþrota? Þar fluttu þeir erindi, Haraldur Líndal og Tryggvi Þór. Fleiri voru í pallborði og lesa má um fundinn á bloggsíðu Marinós G. Njálssonar. Fundurinn fékk eina og hálfa mínútu í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi en ekki var minnst á hann á RÚV...

Hann fékk svolítið pláss í Mogganum í dag en heilsíðu (myndir innifaldar) í Fréttablaðinu...

Mikill vaxtakostnaður - Moggi 29.4.09

Segir skuldir bankanna þjóðinni ofviða - Fréttablaðið 29.4.09

Að lokum fékk fundurinn 9 mínútur og 17 sekúndur í Speglinum í gærkvöldi, sjá viðhengi neðst í færslunni. Svo mörg voru þau orð og svo mikill áhugi á að miðla almenningi sannleikanum um stöðu þjóðarbúsins og því, hvort Ísland sé gjaldþrota.

Ég ætla því að gera svolitla tilraun sem ég veit ekki til að hafi verið gerð áður á neinu bloggi. Haraldur Líndal Haraldsson hefur góðfúslega fallist á að svara spurningum áhugasamra hér í athugasemdum við þessa færslu í kvöld milli kl. 20 og 22. Þau sem vilja bera fram spurningar eru beðin að kynna sér það efni sem tiltækt er - m.a. eru hér glærur Haraldar frá fundinum í gær. Ég bendi líka á greinar Ragnars Önundarsonar hér,  Andrésar Magnússonar hér (einkum Naust), bloggsíðu Tryggva Þórs hér og hvaðeina sem fólki dettur í hug að benda á og tengist þessu umræðuefni. Ef einhver treystir sér til að grafa upp upplýsingar á vefsíðu Seðlabankans er hún hér.

Það verður gaman að vita hvernig til tekst. Haraldur er ekki bloggvanur, athugasemdakerfið stundum viðsjált - einkum fyrir þá sem ekki eru á Moggablogginu - og ég gæti þurft að koma svörum hans til skila í athugasemdirnar, en við sjáum til hvernig gengur. Ég bið þá sem vilja taka þátt í þessari tilraun að reyna að hafa spurningar stuttar og hnitmiðaðar. Spyrja og svara eins og verið sé að útskýra málin fyrir 10 ára barni (mér, t.d.). Við erum ekki öll talnaglögg og glúrin í hagfræði.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Lára Hanna. Það er alveg ljóst að æskilegt hefði verið að efnahagsmálin hefðu orðið aðalefni þessara kosninga. Umræðan var mjög brýn. Samkvæmt Eyjunni hans Egils Helgasonar var óstaðfest frétt, að Jón Ásgeir Jóhannesson komið fréttum af svokölluðum styrkjamálum inn á Stoð 2 (sem hann reyndar á) síðan var þetta mál málanna næstu 10 daga. Einhversstaðar hefði þótt saga til næsta bæjar að einn Útrásarvíkinganna stjórni umræðunni í framhaldi af hruninu. Þessari umræðu var síðan haldið uppi af þeim sem umræðan gagnaðist, VG, Samfylkingu og Borgaraflokknum. Óþægilegu málin bíða tíma eftir kosningar. Að mínu mati er þessi frestun afar slæm fyrir kjósendur en ekkert síður fyrir flokkana. Höggið sem kemur á komandi stjórnarflokka kemur og það má öllum vera ljóst.

Sigurður Þorsteinsson, 29.4.2009 kl. 16:19

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mig langar að spurja Harald að því hvaða áhrif hann telji það hafa á efnahagsreikning bankanna, ef gengisbundin lán reynast ólögleg og þeim verður gert að breyta þeim í lán í íslenskum krónum en halda áfram að bjóða LIBOR vexti í samræmi við skilmála lánanna.

Marinó G. Njálsson, 29.4.2009 kl. 16:30

3 Smámynd: Davíð

Mig langar að vita hvort að Haraldur hefur skoðað það ef tekin yrði upp t.d. Evra hér á landi hvort að hætta væri á gjaldeyrisþurrð í landinu?

Gætu t.d. Evrur klárast og ef hvaða afleiðingar hefði það ?

Minnstu munaði að íslenskar krónur kláruðust í bankahruninu og þá var hægt að láta prenta fleiri krónur þó að það tæki vissulega tíma en ef sama staða kæmi upp með Evru hvað væri þá hægt að gera ?

Davíð, 29.4.2009 kl. 17:19

4 identicon

Haraldur segir að erlendar skuldir bankana séu íslenska hagkerfinu ofviða og leggur til að samið verði upp á nýtt við kröfuhafana.  Hvernig sér hann fyrir sér að leiðrétta stöðu þeirra sem eru með verðtryggð lán?  Þarf ekki líka að semja upp á nýtt þar?  Hefur Haraldur einhverja hugmynd um af hverju Samfylkingin vill bara lengja í lánum en ekki leiðrétta þau?  Getur það tengst því að hún ætli sér að láta almenning taka á sig allan skaðann, þ.e.a.s. hún nær að hækka álögur með þessum hætti og ná inn pening því hún lætur þann hluta af afskriftunum ekki ganga til lánaþola (ég leyfi mér að opinbera nýyrðið  LÁNAÞOLI) jafnvel þó að greiðsluvilji almennings sé að fuðra upp?

Beta (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 17:39

5 identicon

Nokkrar spurningar til Haraldar:

1) Er Ísland gjaldþrota? (Að því gefnu að ríkið ábyrgist allt sem það virðist hafa lofað.)

2) Hversu miklar tekjur getur ríkið haft á þessu og næsta ári (raunhæf ágiskun)?

3) Hvað með jöklabréfin? Hvernig falla þau inn í myndina?

4) Hvað með lífeyrissjóðina? Erlendar eignir þeirra... munu/geta þær hjálpað?

Úlfar Erlingsson (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 17:44

6 identicon

Ein spurning til Haraldar.

Ertu að tala um skuldir gömlu bankanna eða þeirra nýju? Ef svarið er gömlu bankanna, er þá ekki einmitt trixið í neyðarlögunum að þær verða skildar eftir í gömlu bönkunum og verða almennar kröfur þar þegar þeir verða lýstir gjaldþrota?

Björn (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 17:50

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Bendi á viðtal RÚV við Gylfa Magnússon frá 18. febrúar sl. þar sem Gylfi segir vaxtaberandi skuldir ríkissjóðs vera 700 milljarðar í lok árs 2009.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 29.4.2009 kl. 17:52

8 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Hér er líka ágætis samantekt frá Samtökum atvinnulífsins sem m.a. inniheldur greinargerð fjármálaráðuneytisins.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 29.4.2009 kl. 17:54

9 identicon

Sæll Marinó,

Ég tel að það myndi hafa jákvæð áhrif og í raun raunhæfustu aðgerð í efnahagsmálum eins og staðan er nú.  Ég legg til að gengistryggðum lánum verði breytt í verðtryggð lán miðað við gengisvísitölu á lántökudegi viðkomandi láns.  Með þessu yrði komið í veg fyrir fjölda gjaldþrota hjá fyrirtækjum og heimilum og hjól atvinnulífsins gætu farið að snúast að nýju.

Sæll Davíð,

Ég hef varað við mikilli skuldsetningu íslenska þjóðarbúsins í erlendri mynt.  Greiðslugeta okkar við útlönd mun alltaf þurfa að taka mið af viðskiptajöfnuði okkar við útlönd ef við ætlum ekki að borga afborganir og vexti með nýjum lánum þá skiptir ekki máli hvort við erum með evru ef skuldir okkar eru það miklar að afgangur okkar af viðskiptum við útlönd stendur ekki undir greiðslum vegna lána við útlönd.

Sæl Beta,

Ég skrifaði grein í Fréttablaðið, sem birtist 28. mars. s.l. með yfirskriftinni Vandi vegna gengis- og verðtryggðra lána.  Í greininni færi ég rök fyrir því leiðrétta beri vísitölu neysluverðs vegna þess m.a. að bankarnir voru að taka stöðu gegn ísl. kr. sem hafði þá afleiðingu að innflutningur hækkaði með hækkandi áhrif á vísitöluna og þá lán sem henni tengjast.  Einnig tel ég að neyslumynstrið sem nú er er allt annað en vísitalan er að mæla.  Einnig tel ég að bankahrunið sem slíkt hafa haft mikil áhrif til hækkunar á vísitölunni.  Þetta ber að leiðrétta.  Að öðru leyti vísa ég í grein mín.

Sæll Úlfar,

1)       Bankarnir eru gjaldþrota en ekki Ísland.  Hins vegar getur það haft alvarlegar afleiðingar hvernig tekið verður á málum.  Ég hef óttast það að við gætum verið að taka á okkur ábyrgð sem okkur ber ekki ef ekki verður rétt haldið á málum.  Ég vara við því að íslenska ríkið sé að taka á sig skuldbindingar vegna gjaldþrot banka.

2)      Skv. fjárlögum í ár er áætlað að tekjur ríkissjóð verði 402 ma. kr.  Ég óttast að þær gætu orðið lægri ef ekki tekst að koma hjólum atvinnulífsins í gang. 

3)      Ég átta mig ekki á þessum svo kölluðum jöklabréfum.  Hver eða hverjir eiga þessi bréf og hverjir skulda þau? 

4)      Að sjálfsögðu geta lífeyrissjóðir komið að lausn mála en með þá fjármuni verður að fara varlega með.

Sæll Björn,

Ég er að tala um heildar skuldir banka, þá bæði gömlu og nýju.  Ég vara við að eignir í nýju bönkunum verði ofmetnar ef það gerist mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir okkur í framtíðinni.  Nýju bankarnir gætu lent í miklum og alvarlegum vandræðum.

Haraldur L. Haraldsson (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 18:52

10 Smámynd: Ólafur Ágúst Guðmundsson

Þessi umræða hér heima hefur verið ansi firringarkennd síðan í nóvember/desember. Hver einasti erlendur fjölmiðill sem fjallaði um stöðu Íslands hefur notað orð eins og "bankrupt" sem merkir gjaldþrota. Þögn stjórnvalda síðan hefur því augljóslega fallið undir "crowd control", þ.e. að hafa stjórn á tilfinningum fólks með ritskoðun.

Enn síður hefur umræðan um "failed state" verið eðlileg. "Hrun Íslands" myndi vera sambærilegt, og heiðarlegt væri að taka þá spurningu inn í umræðuna, ekki síst þar sem ákvðin öfl reyna að sleppa þessu innra uppgjörii en fara beint í "appeasement" eins og Chamberlain í München forðum.

"Peace in our time" :=)

Ólafur Ágúst Guðmundsson, 29.4.2009 kl. 19:04

11 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Grein Haraldar í Fréttablaðinu frá 28. mars er hér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 29.4.2009 kl. 19:24

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Haraldur, ég veit þetta um að breyta í verðtryggð lán, en hvað ef þau yrðu áfram á LIBOR vöxtum, eins og skilmálar lánanna segja til um.

Marinó G. Njálsson, 29.4.2009 kl. 19:36

13 identicon

Tvær spurningar til Haraldar:

Hversu mikilvægt verður það á næstunni að fá erlenda kröfuhafa til þess að gerast eigendur í nýju bönkunum og ná hagstæðum samningum við þá um það?

Skiptir máli í því sambandi hvort þessir hugsanlegu erlendu rekstraraðilar banka hér á landi sjái fram á að gengið verði í ESB og tekin upp evra hér í framtíðinni?

Guðmundur Karlsson (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 19:39

14 identicon

Sæll Einar,

Ég vil bara leggja áherslu á að eins og staðan er í dag er íslenska ríkið ekki gjaldþrota en það eru hins vegar gömlu bankarnir.   Því skiptir miklum máli hvernig tekið verður á málunum.  Ef ríkið fer að taka á sig skuldbindingar vegna gömlu bankanna og ef ekki tekst að koma hjólum atvinnulífsins af stað aftur getur illa farið því skiptir miklu máli hvað stjórnvöld gera.  Það er mín skoðun að við eigum ekki að taka á okkur skuldbindingar vegna Icesave né annarra skulda gömlu bankanna og ef tekið verður á skuldamálum heimila og fyrirtækja á næstu vikum þá fari að rofa til.  Ég bendi á svar mitt við fyrirspurn Marinós og Betu hér að framan hvað á að gera í skuldamálum fyrirtækja og heimila.

Sæll aftur Marinó,

Eftir á að hyggja tel ég að það hafi verið mistök að farið var að lána gengistryggð lán og alveg ljóst að okkar hagkerfi gat ekki og getur ekki staðið undir slíkum lántökum erlendis.  Því tel ég að hverfa beri frá slíkum lánveitingum hjá bönkum og það verði m.a. gert með því að gengistryggð lán verði breytt í verðtryggð lán.  Verðtryggð lán eru veitt á forsendum hér heima, þ.e. hvaða vexti þarf bankinn að greiða innistæðueigendum, því tel ég að sömu reglur verði að gilda um öll verðtryggð lán þannig að ég tel að það verði erfitt að færa rök fyrir því að gengistryggð lán sem breytt verður í ísl. verðtryggð lán haldi LIBOR vöxtum.  Ég viðurkenni þó að ég hef ekki hugleitt þetta fyrr en nú þegar þú spyrð og er alveg tilbúinn að skoða frekari rök í málinu.

Haraldur L. Haraldsson (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 19:54

15 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Takk fyrir að minna á viðtalið, Vilhjálmur. Þetta var bútur úr miklu lengri umfjöllun Spegilsins kvöldið áður, 17. febrúar. Hengi hljóðskrá með þeirri umfjöllun neðst í færsluna.

Grein um efnahagsstjórn í Mogganum 18.4. eftir Jóhönnu Sigurðardóttur hér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 29.4.2009 kl. 19:56

16 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ef ríkið fer að taka á sig skuldbindingar vegna gömlu bankanna og ef ekki tekst að koma hjólum atvinnulífsins af stað aftur getur illa farið því skiptir miklu máli hvað stjórnvöld gera.  Það er mín skoðun að við eigum ekki að taka á okkur skuldbindingar vegna Icesave né annarra skulda gömlu bankanna...

Haraldur, gætirðu skýrt betur þetta orðalag um að taka á sig skuldbindingar eða skuldir gömlu bankanna.  Ertu þá að tala um eitthvað annað en innistæðutryggingu á vegum Tryggingasjóðs innstæðueigenda?

Vilhjálmur Þorsteinsson, 29.4.2009 kl. 20:08

17 identicon

Tek undir spurningu Vilhjálms til Haraldar. Þó ég vara við bjartsýni er alveg óþarfi að vera með bölmóð.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 20:18

18 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Athyglisvert Haraldur og þakka þér fyrir að útskýra málin. En auðvitað erum við ekki gjaldþrota meðan við eigum lífeyrisjóðina. Hvað finnst þér um að nota það fé til að koma okkur útúr þessum ógöngum sem gjaldmiðillinn er í?  Er pólitíkusum treystandi til að yfirtaka og ráðstafa þessum framtíðarsjóð núna?  Ég tel það alla vega raunhæft. Þjóðin er enn nógu ung til að byggja upp lífeyrissparnað að nýju ef hagkerfið fær innspýtingu í formi eigin fjár í stað lána eins og því frá AGS

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 29.4.2009 kl. 20:22

19 identicon

Hvað þolir þjóð mikla skuldsetningu?

Professor Rogoff nefndi 60% af þjóðarframleiðslu (vergri) í viðtali við Boga Ágústsson.

Hver verður skuldastaða Íslands í þessu samhengi???

Bárður (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 20:25

20 identicon

Sæll Guðmundur,

Ég tel það vera mjög mikilvægt og það er eðlilegt.  Þannig er það ef fyrirtæki verða gjaldþrota eru það kröfuhafarnir sem eignast fyrirtækið, eða þrotabúið.  Ég tel að við eigum miklu frekar að fara þá leið að bjóða þeim eignarhlut í nýjum bönkum frekar en að ríkið sé að taka á sig skuldbindingar vegna gömlu bankanna.  Það er margt jákvætt við það að erlendir aðilar verði eigendur í nýju bönkunum.  En margt sem er að gerast þar tel ég að geti fælt þá frá.  Í því sambandi bendi ég á grein mína í Fréttablaðinu 16. janúar s.l.

Sjái þeir fram á að Ísland ætlar að ganga í ESB tel ég að það muni hafa jákvæð áhrif á áhuga erlendra aðila til að koma að íslenskum bönkum.

Sæll Einar aftur,

Eins og ég hef skilið að þá er sagt að 70% muni fást upp í kröfurnar eftir einhver ár (3 til 5 ár) þegar efnahagur heimsins verður farinn að batna.  Menn hafa sagt að á endanum verði skuldin um kr. 70 ma. kr.  Það hefur ekki verið dregið til baka að við þurfum að taka lán í dag að upphæð 600 til 700 ma. kr. sem síðan muni greiðast niður með sölu eigna á einhverjum árum.  Ég hef varað við því að slíkt lán verði tekið því það mun bera vexti.  Ef við gefum okkur að vextirnir séu 5% þarf að greiða í vexti á ári af láni sem er 650 ma.kr. um 32,5 ma. kr.  Í þrjú ár gerir það 97,5 ma. kr.  Ég tel að við höfum ekki efni á því.  Hins vegar væri það annað mál ef lánið bæri enga vexti.  Skv. fjárlögum í ár er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af tekjuskatt séu um kr. 100 ma. kr.  Þetta þýðir að af hverjum 100.000 kr. sem við greiddum í tekjuskatt færu 32.500 kr. í að borga vexti vegna framangreinds lán.  Ég tel að við þurfum að nota þennan skattpening til að byggja upp íslensk hagkerfi eða til að draga úr því að skera niður í velferðaþjónustu.

Stjórnvöld hafa ekki gefið upp þessar tölur.

Sæll Vilhjálmur og Gísli,

Í öllum mínum málflutningi hef ég eingöngu rætt um Icesave skuldbindingar og kemur það skýrt fram á þeim glærum og greinum sem ég hef skrifað og mig minnir Vilhjálmur að ég hafi svarða þessari fyrirspurn þinni á fundinum í gær.  Það hefur aldrei komið fram hjá stjórnvöldum að þau telji okkur eiga að taka annað á okkur.  En ég tel hins vegar að við eigum ekki að taka Icesave skuldbindingar á okkur.

Haraldur L. Haraldsson (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 20:30

21 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

p.s Takk fyrir Lára Hanna að halda úti þessu bloggi. Það hefur nú þegar öðlast gildi sem sagnfræðileg heimild í ljósi þess að margir sem áttu hlut að máli í aðdraganda og framkvæmd hrunsins hafa kosið að eyða markvisst öllum digital sönnunum en þökk sé þér þá eru þessar sannanir til hér

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 29.4.2009 kl. 20:32

22 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Langar aðeins að koma hér inn. Haraldur er ekki staðreynd að stjórnvöld í Bretlandi eru nú þegar búin að borga úr Icesave skuldirnar? Þannig að við skuldum breskum stjórnvöldum nú. Er það ekki staðreynd að við erum ekki búin að semja við þau um eitt eða neitt? Hvernig getur þú þá sagt að við séum að takast á hendur lán með einhverri vaxtaprósentu? Væri ekki til í dæminu að bretar fengju greiðslur jafnt og þétt eftir því sem eignir á móti kæmust í verð. Og eru það ekki líka lán sem bera vexti?

Magnús Helgi Björgvinsson, 29.4.2009 kl. 20:39

23 identicon

Spurning:

 Hvað með að gullbinda krónuna?

 Sbr. þessa grein hérna: http://vald.org/greinar/081117.html

Páll (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 20:40

24 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Haraldur afhverju er svona lítið rætt um þann möguleika að taka upp Dollar eða hengja krónuna við Dollar og svo einnig samning við Nafta.Mér finnst ekki skynsamlegt að færa sjálfstæði okkar til Brussel og taka upp Evru?hver veit hvað hún lifir lengi þegar allt er að hrynja hjá þeim þjóðum sem hafa tekið upp Evru.

Marteinn Unnar Heiðarsson, 29.4.2009 kl. 20:44

25 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Takk fyrir skýrt svar, Haraldur, þá er enginn ágreiningur um þetta atriði.  En ég vek athygli á að samningaviðræður vegna Icesave eru í gangi og við verðum að vona að Bretar og Hollendingar komi að einhverju leyti til móts við okkur, þar sem þeir bera ákveðna ábyrgð; í fyrsta lagi er tilskipun ESB/EES um innstæðutryggingar ekki alveg skýr og í öðru lagi olli beiting svonefndra hryðjuverkalaga af hálfu Breta verulegu viðbótartjóni umfram það sem annars hefði orðið.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 29.4.2009 kl. 20:45

26 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Viðtal Boga Ágústssonar við Kenneth Rogoff sem Bárður nefnir í aths. nr. 21 er hér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 29.4.2009 kl. 20:57

27 identicon

Sæll Jóhannes,

Ég vil ítreka það sem ég hef sagt hér áður í kvöld að við verðum að fara varlega með lífeyrissjóðina.  Treysti mér ekki til þess á þessari stundu til að hafa skoðun á því hvernig þeir ættu að koma að málinu.

Sæll Bárður,

Þetta er rétta spurninginn að spyrja.  Fyrst á að skoða þetta og síðan að taka ákvarðanir en ekki fyrst að skuldsetja þjóðina og spyrja svo.  Árið 2004 voru heildar erlendar skuldir þjóðarbúsins 1.663 ma. kr. og verg landsframleiðsal 915 ma. kr.  Þannig voru skuldirnar um 180% af vergri landsframleiðslu.  Ég tel að þetta sé nokkuð hátt hlutfall.  Við megum ekki gleyma því að við þurfum erlenda mynt til að borga vexti og afborganir af erlendum lánum.  Útflutnings tekjur okkar í fyrra voru 467 ma. kr.  Þannig að það er ekki mikið upp á að hlaupa.  Ef þú skoðar glæru tvö sem ég var með á fundinum í gær og Lára er með á vefnum.  Þá sérðu neðstu tölurnar undir árinu 2008, þar segir skuldir opinberra aðila, sem eru ríki og sveitarfélög, eru samtals kr. 533 ma. kr.og svo aðrir 1.754, þar af er seðlabankinn með 371 ma. kr.  Aðrir þar eru væntanlega orkufyrirtæki sem skulda um 700 m.a. kr. í erlendri mynt.  Ég tel að þessar skuldir séu að mestu ríkistengdar skuldir sem við munum standa við. Einnig eru væntanlega þarna með talin stór ísl. fyrirtæki sem gátu tekið lán beint erlendis.  Samtals eru þetta skuldir upp á kr. 2.288 ma. kr. eða um 150% af vergri landsframleiðslu,  þannig að það er ekki mikið eftir til að fara upp í 180%.  Ef við gerum ráð fyrir að vextir af þessum skuldum séu um 5% gerir það 114 ma. kr. í vaxtagreiðslur á einu ári.  Þetta eru skuldir sem ég geri ráð fyrir að við séum að borga af í dag.  Þessar skuldir eru að setja mikinn þrýsting á krónuna í dag.    Þannig að það skal enginn undrast að krónuna á erfitt uppdráttar.

Haraldur L. Haraldsson (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 21:05

28 identicon

Sæll Magnús,Þetta er einmitt málið.  Ég er að vara við því að við förum að taka þetta lán.  Ég hef gefið mér ákveðnar forsendur um vexti ef lánið yrði tekið.  Hér fyrr í kvöld hef ég bent á að málið horfi örðuvísi við ef vextir verða 0.   Þrátt fyrir það vara ég við þessari lántöku.  Ég vona að það sé rétt hjá þér að stjórnvöld séu ekki búinn að semja um neitt.  Á endanum hlýtur það að vera alþingi sem samþykkir lántöku ef sú leið verður farinn.  Sæll Páll,Ég held að það verði erfitt. Sæll Marteinn,Ég held að það sé vegna þess að við teljum okkur vera Evrópuþjóð sem við í reynd erum.  Sömuleiðis má spyrja um dollar ef Kínverjar hætta að treysta á hann.

Haraldur L. Haraldsson (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 21:21

29 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Set hér inn tengla á glærur 2-12, hverja fyrir sig, en það eru þær sem máli skipta.

Glæra 2 - glæra 3 - glæra 4 - glæra 5 - glæra 6

glæra 7 - glæra 8 - glæra 9 - glæra 10 - glæra 11 - glæra 12.

Lára Hanna Einarsdóttir, 29.4.2009 kl. 21:21

30 identicon

Sæll Haraldur.

 Já, ég bjóst ekki við að það væri auðvelt. Þætti vænt um nánara svar.

Páll (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 21:28

31 identicon

Sæll Haraldur,

Nú er ríkið að taka á sig miklar kvaðir vegna skulda sem það stofnaði ekki til.

Í skaðabótamálum á sá sem verður fyrir tjóni kröfu á þann er veldur. Á ríkið möguleika á að fara í mál við einhvern eða einhverja vegna bankahrunsins og heimta þaðan bætur fyrir tjóninu?

Vinsamlegast

Daði (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 21:40

32 identicon

Sæll Daði,

ÉG er ekki lögfræðingur og treysti  mér því ekki til að svara þessari spurningu.

Sæll Páll,

Ég vildi fá að skoða þetta mál frekar til að svar því nánar.

Haraldur L. Haraldsson (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 22:01

33 identicon

Sæll aftur Haraldur

Ég rakst á þessa grein og hef velt þessu nokkuð fyrir mér. Gæti þetta verið lausnin???

Spekingar landsins hvattir til að kynna sér þetta mál.

Páll (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 22:14

34 identicon

Sæll Páll,

Ég skoða geinina. 

 Ég þakka ykkur öllum fyrir málefnalega umræðu í kvöld.

Haraldur L. Haraldsson (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 22:39

35 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Var fyrst að uppgötva þenna spurningatíma núna. Þetta er alveg frábært framtak og hugmynd um upplýsandi umræðu, Lára Hanna; og þakkir einnig til Haraldar.

María Kristjánsdóttir, 29.4.2009 kl. 23:31

36 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég vil þakka öllum fyrir þátttökuna í þessari tilraun til upplýsingamiðlunar. Þetta gekk framar vonum, spurningar voru skýrar og málefnalegar og svör Haraldar skilmerkileg og upplýsandi. Vonandi eru fleiri en ég einhverju nær.

Haraldi þakka ég vitaskuld sérstaklega fyrir.

Kannski væri ekki úr vegi að prófa þetta aftur og fjalla þá um eitthvað annað sem brennur á fólki. Tillögur, einhver?

Lára Hanna Einarsdóttir, 30.4.2009 kl. 01:16

37 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Frábært framtak.

Kær kveðja,
Þórður

PS.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa talað fyrir samskonar tillögum og Haraldur varðandi lánamál heimilanna.  Áhugasömum er bent á www.heimilin.is

Þórður Björn Sigurðsson, 30.4.2009 kl. 02:02

38 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Fleiri mál sem brenna á þjóðinni:

Lýðræðisumbætur
Verðtrygging
Auðlindamál

Þórður Björn Sigurðsson, 30.4.2009 kl. 02:07

39 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Tillaga að umræðuefni:

ESB aðild raunverulegir kostir og gallar? Vitræn umræða um málið! 

Magnús Helgi Björgvinsson, 30.4.2009 kl. 08:32

40 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Þakka þér fyrir mikið og gott framtak að efna til svona tiltölulega vitrænnar umræðu um mikilvægt mál.

Svo dáist ég að því hvernig þú heldur utan um alla umræðuna. Ef mig vantar eitthvað þá athuga ég fyrst hjá þér. Þetta er frábært!

Hólmfríður Pétursdóttir, 30.4.2009 kl. 09:04

41 Smámynd: Jón Halldór Eiríksson

Takk fyrir Lára Hanna.   Þú ert snillingur.     Fróðlegt að lesa pistilinn þinn og umræðurnar.     Eftir stendur í mínum huga að íslenska krónan er "de facto" handónýt.    Það er hræðilegt til þess að hugsa að ein meginástæðan fyrir gjaldþrotum og landsflótta verða lánin í erlendri mynt.    Krónan er ekki að leiðrétta sig nema síður sé.   Tillaga Haraldar um að bakfæra allt heila klabbið verður sennilega aldrei farin.    Af hverju er ekki búið að ræða þá leið á vettvangi stjórnmálanna?   Það er vegna þess að sú leið verður ekki farin.   

Það sem mér finnst vanta í umræðuna er að fara yfir sögu okkar ylhýra gjaldmiðils á Íslandi.   Þetta er ekki í fyrsta skipti sem krónan er að valda íslendingum vandræðum og hrikalegum búsyfjum.   Eignir heilu kynslóðanna hafa áður fuðrað upp á örskotsstundu í verðbólgu og gengissveiflum líkt og er að gerast núna.

Ég fæ ekki séð að íslensku krónunni verði bjargað.   Jafnvel þeir sem eru á móti ESB sjá það líka.   Það er talað um að gullbinda krónuna.  Það er talað um að binda krónuna dollar eða taka upp dollar og svona mætti lengi telja.    

Jón Halldór Eiríksson, 30.4.2009 kl. 09:06

42 identicon

Ef þú fengir Hudson eða Wade til að taka þátt í svona á ensku þá væri það ekki leiðinlegt ;)

Jóhann (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 09:51

43 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Þessi færsla og umræðurnar hér eru áfellisdómur yfir fjölmiðlum í sjálfu sér...  Afar athyglisverð leið til uppfræðslu og samræðu almennings - algerlega massívt dæmi!

Aðalheiður Ámundadóttir, 30.4.2009 kl. 13:14

44 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Ja hérna, frábært framtak Lára Hanna. Eintóm snilld, sammála Aðalheiði, áfellisdómur yfir fjölmiðlunum. Meira svona.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 30.4.2009 kl. 18:11

45 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Ég fékk þetta af bloggsíðu Halldóru Hjaltadóttir

Heillar mig Eistland?

Eistland er lítið land í N-Evrópu sem margir kannast eflaust við úr umræðunni um Evrópumál. Mikill fjöldi Íslendinga hefur einnig sótt landið heim, jafnvel í árshátíðarferðum.

Þá er förinni yfirleitt heitið til Tallinn höfuðborgar Eistlands, gist á fínum hótelum, farið í skoðunar og verslunarferðir og almennt njóta Íslendingar þess að skoða athyglisverðar byggingar í fallegu veðri.

Aðal atvinnugrein Eista er einmitt ferðaþjónusta en fast á hæla hennar koma vændi og dópsala. Landbúnaðurinn á undir högg að sækja.

Eistland gekk í Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið árið 2004 og höfðu íbúar landsins ákveðnar væntingar og vissu um jákvæðar breytingar í kjölfar aðildar. Menn bundu vonir sínar á að skipaflotinn myndi endurnýjast og fiskveiðar aukast.

Mörgum manninum var brugðið þegar ekkert gerðist, engin endurnýjun varð í skipaflotanum og fiskveiðar lögðust að mestu af.

Atvinnuleysi jókst í kjölfarið, vændi varð umfangsmeira, fíkniefnasala blómstraði og svartamarkaðsbrask er mjög algengt. 

Sumir hverjir sem ekki njóta þess að vera á meðal 40% þjóðarinnar sem rétt hefur ofan í sig og á, ganga svo langt að óska þess að vera ennþá undir oki Sovétríkjanna sálugu en Þá gátu Eistar selt sinn fisk til Rússlands og haft út úr því a.m.k. einhverjar tekjur.

Atvinnuleysi í Eistlandi var 9% árið 2004, en sú prósenta hefur undið upp á sig á síðustu misserum og þrátt fyrir alla uppsveifluna í efnahag þjóðanna.

Hagstofa Evrópu EUROSTAT getur birt tölur um atvinnuleysi sem ekki standast ,til að mynda mældist atvinnuleysi í Eistlandi 5,9% árið 2006 og 4,7% árið 2007.

Nú er atvinnuleysi komið upp í 15 % og er mikið áhyggjuefni af þróun atvinnumála.

Það má með sanni taka það skýrt fram að þessar tölur eru langt frá raunveruleikanum, þar sem kerfið er meingallað. Maður sem missir vinnuna sína getur farið á atvinnuleysisbætur sem eru yfirleitt 50% af fyrri launum í 6 mánuði, en eftir þann tíma dettur sá hinn sami maður af bótum og af skrá. Raunverulegt atvinnuleysi gæti því verið nærri 30% í Eistlandi.

Skólakerfið er einnig gallað, þar sem 70 % nema þurfa að greiða að fullu sinn námskostnað, en um 30 % fær fullan styrk frá ríkinu. Unga fólkið leggur mikið að sjálfsögðu mikið á sig til þess að vera hluti af þeim sem fá nám sitt ríkisstyrkt.

Unga fólkið sem nær ekki settu marki varðandi námið, nýtur ekki tækifæris til þess að mennta sig, fær ekki vinnu og hefur ekki hug á að selja líkama sinn eða fíkniefni flyst úr landi.

Ungur maður býr hér á Íslandi. Hann telur að Íslendingar hafi ekki hugmynd um hvernig ástandið er almennt í Eystrasalts löndunum.

Að hans sögn er gott að búa á Íslandi, þrátt fyrir mikla erfiðleika sem fylgja hruni bankanna.

Hann getur núna kostað mjólkina sem amma hans vill fá á hjúkrunarheimilinu í Eistlandi, en öll umfram mjólk getur kostað aukalega þar í landi.

Hann elskar landið sitt og óskar þess að geta búið þar, en hann hefur enga vinnu og engin tækifæri.

,,Þið vitið ekki hvað þið hafið það gott " Sagði hann af mikilli einlægni.

Marteinn Unnar Heiðarsson, 30.4.2009 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband