Orðheingilsháttur og titlíngaskítur

Halldór Laxness"Því hefur verið haldið fram að íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls." Mér komu þessi orð Halldórs Laxness úr Innansveitarkroníku í hug þegar ég skoðaði viðbrögðin við frásögn minni af útifundinum og óvæntri heimsókn til fjármálaráðherra sem ég sagði frá í síðasta pistli. Nokkrir netmiðlar fjölluðu um málið auk Bylgjunnar og bloggara.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með viðbrögðunum. Það kom mér á óvart hvað þau voru mikil og sterk. Túlkun manna er ólík og jafnvel er hártogað út og suður það, sem ég taldi einfalda og skýra frásögn. Afskaplega misjafnt hvað fólki fannst vera kjarni málsins og það finnur jafnvel engan kjarna. Kannski er hér við sjálfa mig að sakast - kannski ekki.

Ég get ekki með nokkru móti svarað öllu sem sagt hefur verið, reyni það ekki. Enda öllum frjálst að hafa sínar skoðanir og tilfinningar. Mér finnst aftur á móti verra þegar verið er að gera mér upp skoðanir og leggja mér orð í munn. Segja mig meina eitthvað sem ég hef ekki einu sinni gefið í skyn, hvað þá sagt og fráleitt hugsað. Svo er alltaf talsvert um að fólk lesi ekki einu sinni textann eða hafi svo afleitan lesskilning að ætla mætti að það hafi villst á bloggpistlum þegar það tjáir sig.

Ég kallaði þá sem mættu á fundinn hetjur. Sagði að hetjurnar hefðu mætt.  Þýðir það að allir aðrir séu gungur? Ekki aldeilis. Ég mæti t.d. sjálf ekki á útifundinn næsta laugardag. Líkast til ekki þarnæsta heldur. Er ég þá gunga? Nei, ég bara kemst ekki, svo einfalt er það. Ef maður segir að einhver sé fallegur - eru þá allir aðrir ljótir? Eða ef hópur fólks er talinn gáfaður - eru þá allir aðrir heimskir? Nei, alls ekki. Lífið er ekki svo svart-hvítt eða pólaríserað og því hef ég aldrei haldið fram. Þótt ég hafi skýrt málið enn frekar í athugasemd nr. 8 við pistilinn virðist fólk ekki hafa tekið eftir því og heldur áfram í hártogunum. Ég skrifaði ekki ósvipaða ádeilu hér - í janúar - en minnist þess ekki að hafa séð viðlíka útúrsnúninga þá. Meira að segja gáfumennið, uppáhaldið mitt og rithöfundurinn Guðmundur Andri fellur í þessa gryfju hér. Orðheingilsháttur og titlíngaskítur? Maður spyr sig...

Mikið var gert úr því, að Steingrímur J. skyldi leggjast svo lágt að fá einhvern bloggara til að birta tölvupóstana. "Lauma bréfasnifsum að Steingrímur J. Sigfússoneinstaklingum til að birta á bloggi..." Ég tek hjartanlega undir með þeim sem gagnrýna Steingrím fyrir að hafa ekki birt þá fyrr, og þá í útbreiddum fjölmiðlum bæði hefðbundnum og á netinu. Og ég spyr hvort fjölmiðlamenn hafi beðið Steingrím um skjöl máli sínu til stuðnings. Hitt er svo annað mál að Steingrímur bað mig ekki að birta póstana. Ég bað hann um að fá að birta þá. Á þessu er grundvallarmunur. Steingrímur hafði ekki hugmynd um að ég kæmi með Herði Torfa, ég tók fram í pistlinum að ég hefði verið boðflenna, svo varla var þetta vandlega undirbúið stönt eins og sumir hafa látið að liggja. Gengur þeim eitthvað til sem kjósa að mistúlka hlutina á þennan hátt? Maður spyr sig...

Einhverjir sögðu að Hörður hafi verið "tekinn á teppið". Það fannst mér bráðfyndið, sérstaklega af því það voru öfgahægrimennirnir hjá "fremsta fréttaskýringavef landsins", AMX sem sögðu það. Ég hef lært, ef ekki á langri ævi þá að minnsta kosti í ölduróti vetrarins, að spyrja sjálfa mig ævinlega: Hver segir hvað? Af hvaða hvötum? Í þágu hvaða hagsmuna? Í umboði hvaða stjórnmálaafla? Það hefur reynst mér nokkuð vel í tilraunum mínum til að skilja hina ómálefnalegu og þröngsýnu umræðu sem einkennist af... jú, einmitt... orðheingilshætti og titlíngaskít.

Að gefnu tilefni vil ég taka fram að ljósritið af tölvupóstunum sem ég fékk í hendur var með nöfnum og netföngum allra viðkomandi aðila. Ég var ekki beðin um að klippa textann þannig að þau kæmu ekki fram. Það tók ég algjörlega upp hjá sjálfri mér. Miðað við andrúmsloftið í samfélaginu óttaðist ég að fólk í slæmu jafnvægi myndi senda þessum mönnum tölvupósta með miður notalegum athugasemdum. Þótt púkanum í mér hafi fundist það bara gott á þá komst ég að þeirri niðurstöðu, að slíkt væri íslensku þjóðinni ekki til framdráttar um þessar mundir.

Það sem mér finnst einna verst við umræðuna um þennan pistil er, að þrumuræða Jóhannesar Þ. Skúlasonar virðist hafa fallið í skuggann. Hana birti ég í pistlinum en fáir virðast hafa tekið eftir henni. Ég vil því hvetja fólk til að kíkja aftur á pistilinn og lesa ræðu Jóhannesar.

Að lokum langar mig að biðja lesendur að hlusta á Krossgötuþáttinn sem ég hengi neðst í pistilinn. Þar ræða þau Páll Skúlason og Vigdís Finnbogadóttir meðal annars um skort á almennilegri rökræðu og rökræðuhefð á Íslandi, hræðslu við að ástunda gagnrýna hugsun og hættSjö töframenn - Halldór Laxnessulegt vald stjórnmálanna.

Ég lýk máli mínu með annarri tilvitnun í Halldór Laxness, lýsingu á íslensku þjóðarsálinni um aldir - að þessu sinni úr Sjö töframönnum. Ósigur ítalska loftflotans í Reykjavík 1933: "Það er álitið að fáar þjóðir hafi þolað kúgun og yfirgang af meiri kurteisi en Íslendingar. Um aldaraðir alt fram á þennan dag lifðu þeir í skilníngsríkri sáttfýsi við kúgun, án þess að gera nokkru sinni tilraun til uppreistar. Eingri þjóð var byltíngarhugtakið jafn hulið. Ævinlega voru Íslendingar reiðubúnir að kyssa þann vöndinn er sárast beit og trúa því að kaldrifjaðasti böðullinn væri sönnust hjálp þeirra og öruggast skjól."


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mér finnst þú besti fréttamaðurinn á Íslandi í dag, ég held að ég sé ekki hlutdræg.  Hjá þér hef ég fengið fréttirnar, frá öllum hliðum í vetur, vor og sumar. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 23.6.2009 kl. 02:45

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Fínn pistill hjá þér og mjög svo tímabær, Lára Hanna.

Og svo um þetta þarna í lokin: Innlegg Páls Skúlasonar, fyrrv. háskólarektors, í þeim Krossgötuþætti var mjög athyglisvert, en hefur eiginlega ekkert verið í umræðunni eins og hins vegar hans fleygu ummæli í eldri þætti (í haust?), um landráð af gáleysi (takið eftir: ég set þetta ekki í gæsalappir! – ekki frekar en hegningalögin gera það í 90.–92. gr.!).

Jón Valur Jensson, 23.6.2009 kl. 04:00

3 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Frábær grein hjá þér.

Þráinn Jökull Elísson, 23.6.2009 kl. 06:43

4 identicon

Lára Hanna ! ! !

þú ert okkar lands og þjóðar,  sverð og skjöldur.

J.þ.A (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 08:02

5 Smámynd: Dúa

Hellú

Ertu ekki að taka aðeins of nærri þér hvað fólk segir í kommentakerfinu?

Færslan þín var um þrjú atriði: mætinguna á Austurvöll, ræðurnar og fundinn með Herði og Steingrími.

Þegar ég les blogg geri ég oft ekki athugasemdir við öll efnisatriði færslunnar heldur kannski bara eitt og skiptir engu hvort ég er sammála eða ósammála.

". .Af hverju ætti fólk svosem að nenna niður í bæ í klukkutíma til að berjast fyrir framtíð sinni og barnanna sinna þegar hægt er að dúlla sér í Kringlunni, Smáralind, sumarbústaðnum eða bara liggja í sófanum og horfa á sjónvarpið? Það er svo þægilegt að láta aðra um púlið og njóta bara afrakstursins."

Finnst þér skrýtið að fólk hafi skoðun á þessu upphafi færslunnar hjá þér? Og líka því að Steingrímur hringir í Hörð?

Við erum sem betur fer öll ekki alltaf sammála en þér detta m.a. orðin orðhengilsháttur og tittlingaskítur um þær athugasemdir sem þú fékkst og efast líka um lesskilning fólksins. Einnig að það fatti ekki hver kjarni færslunnar var.

Eins og ég sagði þá var hún skv. mínum lesskilngi um þrennt en þú virðist ekki hafa viljað komment um nema það sem þú kallar kjarnann. Ég hélt að fólk mætti tjá sig um öll atriði færslunnar og jafnvel vera ósammála. Mér finnst þú vera að gera úlfalda úr mýflugu.

Las allt og skildi það þokkalega vel en fannst þeir sem mættu á Austurvöll ekki vera hetjur og fannst líka skrýtið að Steingrímur hringdi í Hörð. Tók m.a.s eftir pistli Jóhannesar en var búin að sjá hann annars staðar og birta sjálf.

Úps, var þetta kannski ekki kjarni þessarar færslu?

Dúa, 23.6.2009 kl. 09:11

6 Smámynd: Hallur Magnússon

Góð!

Hallur Magnússon, 23.6.2009 kl. 09:51

7 identicon

Takk fyrir frábæran pistil!

Ef maður vill stela í í þjófafélagi, þá verður að stela samkvæmt lögum; og helst að hafa tekið þátt í að setja lögin sjálfur.

- Halldór Kiljan Laxness , 26. kafli Organistinn við Uglu

Sigurlaug (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 09:55

8 identicon

Hverju orði sannara, Lára Hanna.

Guðmundi Andra hefur tekist betur upp en í pistlinum sem þú vísar til. Sú bábilja er á lofti að tap sparifjáreigenda í Bretlandi og Hollandi velti á því að Íslendingar sæti afarkostum breskra og hollenskra stjórnvalda og keyri samfélag sitt í sárafátækt. Að almenningur á Íslandi taki á sig höggið fyrir fólk sem hefur þegar rænt hann eignum og æru og lífsviðurværi. Það er ekki svo. Vita menn hverjir eiga þessar kröfur nú? 

Talið um einangrun er fráleitt. Nær væri að óttast það sem liggur í augum uppi, að enginn vill lána þeim sem hefur skuldsett sig upp fyrir haus. Fjármagnseigendur eru alltaf að leita að hentugum lántakendum. Eins er víst að okkar skyldustu nágrannar myndu ekki ganga í lið með hollenskum og breskum stjórnvöldum og AGS ef kæmi til þess að "handrukkarinn" vildi standa við hótanir sínar.

Frammistaða íslenskra stjórnvalda í málinu er jafnslök fyrir og eftir hrun. Semja þarf við bresk og hollensk stjórvöld þannig að það hafi ekki í för með sér hættu á stórkostlegri eyðileggingu íslensks samfélags. Engin ríkisstjórn hefur umboð til þess. Ellegar verður að fara með málið fyrir dómstóla.

Ísland er fullvalda ríki. Ríkisstjórnin verður að útskýra málstað okkar, forsætisráðherra að tala við forsætisráðherra, utanríkisráðherra við utanríkisráðherra. Það er yfirgengilegt að ríkisstjórnin skul láta gott heita að gera út fákunnandi bílífismann úr utanríkisþjónustunni til að skrifa þegjandi og hljóðalaust undir skilyrðislausa uppgjöf undir hótunum. Er ríkisstjórn Samfylkingar og Vg. vanhæf?

Heiðvirt fólk, fólk yfirleitt, vill standa við skuldbindingar sínar, skila því sem það fær lánað, standa við orð sín. Barnaskapur er hins vegar að setja Icesave-málið þannig upp að það snúist einfaldlega um slíkt.

Mæli með grein Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur um málið:

http://blog.eyjan.is/sigurbjorg/2009/06/22/island-skuldum-vafid-hver-vill-nefna-thig/

P. S.

Eðlilegra hefði verið að Steingrímur J. Sigfússon kæmi umræddum upplýsingum á framfæri við almenning og í gegnum fjölmiðla. Skyldi hann luma á fleiru.

Rómverji (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 10:00

9 Smámynd: Loopman

Það er langt síðan ég hef kommentað á moggabloggið.

Mér langar að þekka þér fyrir bloggið þitt Lára. Þitt blog ber af á moggablogginu allavega og þótt víðar væri leitað.

Þessi pistill þinn er mjög góður.

Hér er annað gott blogg sem ég rakst á gegnum facebook

Aðalsíðan efri linkurinn og svo fréttin sjálf sem ég fann á facebook.

http://icelandtalks.wordpress.com/

http://digg.com/business_finance/The_Icesave_fraud_case

Loopman, 23.6.2009 kl. 11:47

10 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Að flestu leyti sammála Dúu hér í athugasemd að ofan (nr. 5). Þú ert alltof hörundssár Lára Hanna. Rómverji segir í athugasemd hér fyrir ofan að eðlilegra hefði verið fyrir Steingrím að koma umræddum upplýsingum á framfæri við almenning í gegnum fjölmiðla. Ekki sammála. Hvaða fjölmiðla? Svokallaðir útbreiddir fjölmiðlar eru ekkert síður á valdi allskyns áhrifa en aðrir. Ná kannski til fleiri í einu en sannleikurinn kemst til skila að lokum.

Sæmundur Bjarnason, 23.6.2009 kl. 11:59

11 Smámynd: Loopman

Ég get ekki tekið undir að Lára sé hörundssár.

Það er alveg ótrúlega mikið af fólki sem lætur undirlægjuhátt og bjánaskap ráða sínum skoðunum og gjörðum.

Lesið aftur þessi tvö innlsög í byrjun og enda greinarinn eftir Halldór Laxness. Það þarf ekki að segja meira en það.

Halltu þínu striki Lára og láttu ekki fávitana slá þig útaf laginu.

Loopman

Loopman, 23.6.2009 kl. 12:08

12 identicon

Sæmundur.

Með "fjölmiðlum" átti eg við fjölmiðla sem komast næst því að ná til almennings á Íslandi, rúv, Stöð2 t.d. Eg var ekkert að spá í á hvers valdi fjölmiðlar eru, enda kemur það málun ekki beinlínis við. Tel sem sagt almenning eiga rétt á upplýsingunum sem Steingrímur var að mjatla í Hörð.

Lára Hanna virðist mér ekki vitund hörundsár. Svarar bara fyrir sig. Sjálfum finnst mér Íslendingar almennt latir og ábyrgðarlausir sem borgarar. Aumir. Það skýrir efnahagshrunið að hluta.

Rómverji (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 12:37

13 identicon

Ég held að það hefðu allir gott af því að lesa Innansveitarkróniku Halldór Laxness. Sá maður sýndi okkur þjóðarsálina í verkum sínum, betur en nokkur rithöfundur hefur gert.

Já og svo ætlum við að halda áfram að kyssa á vöndinn!

´Þórkatla Snæbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 13:04

14 identicon

„Þá sté Napóleon á bak hestinum góða og hélt snjalla ræðu svo að heyrðist um allan herinn; sú tala var þannig: [...] Opt hefir það orðið, að fjölmenni hefir sigrað fámenni, og opt hefir það orðið að óhraustir menn hafa hraustan unnið; en opt hefir það einnig orðið, að fáir hafa fjölda manna sigrað, og því skyldi það eigi opt hafa orðið, að hraustir hafa óhrausta unnið? Sigr og sæmd er eigi undir fjöldanum komið; en dáð og dugnaðr, þrek og þol, afl og ágæti, trygð og drenglyndi, hreysti og hollusta — hyggið að, þar liggr heiðrinn falinn. Hyggið að, þér sem mig kusuð til að lifa frjálsir und fólkúngs hendi og öruggir undir arnarvæng, hvenær hafið þér viljað þrældóm þola? Þér hafið eigi viljað þola hann af mönnum úr yðar eigin þjóð; munduð þér hað heldr vilja, að útlendir harðstjórar legði á yðr ánauðar ok og þrælkuðu yðr með erlendum knefum? Hyggið að því, að ef þér verðið sigraðir hér, þá er yðr sú ánauð búin, sem hægra er í að komast en úr; en ef þér sigrið hér, þá fáið þér ekkert nýtt land, og engu fé mun eg yðr heita; en þér fáið heiður og frama; en heiðr og frami er á frelsi grundvallað, og heiðr og frelsi verðr eigi keypt meðr fé og fögrum aurum, heldr með afli og ágæti, brandi og blóði. Hyggið að því, að sá sem fellr, hann deyr eigi, ef hann berst með hreysti og fyrir heiðri sínum og sinna, en hann mun lifa meðr ókomnum öldum, og ófæddir ættmenn munu nefna þann, er hné til moldar á Heljarslóð.“

Benedikt Gröndal: Gamansögur. Sagan af Heljarslóðaorrustu. Þriðja útgáfa. Reykjavík, 1921, bls. 64-66.

Gunnar Hinriksson (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 13:17

15 identicon

Sæl Lára Hanna.

Ég vil taka undir með fólki,  bloggið þitt er gott. Það er í valdi hvers og eins að skilja hismið frá kjarnanum. Tel þig vera komna vel á skrið að ekki verður aftur snúið. Hef á mínum síðum bent á þessa síðu til að uppfræða fólk, svo ég hvet þig áfram á sömu braut. Það sem skrifað er hér eru annars konar fréttir en við fáum í gegnum í hina opinberu fjölmiðla.

Með kveðju, Helga Dögg

Helga Dögg (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 17:03

16 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Tek undir með Dúu og Sæmundi Þú ert oft beitt og ákveðin í skoðunum eins og vera ber en orðin sem Dúa vitnar i hljóta að kalla á andsvör. Það er ekki hægt að skilja þau öðru vísi en svo að þú gerir lítið úr þeim sem ekki komu til að mótmæla. Hvað þá líklega ef menn eru hreinlega ekki sammála mótmælendunum. Ég sé ekki að það þjóni nokkrum tilgangi að setja upp svo skarpar andstæður. Ég held að flestir Íslendingar hafi áhyggjur af framtíð þjóðarinnar og ekki sé hægt að skipta fólki í góða og vonda fólkið þó menn séu ósammála.

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.6.2009 kl. 17:54

17 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þú ert samt alveg æði Lára!

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.6.2009 kl. 18:26

18 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Sæl Lára Hann  ég hef að líkindum gert mig seka um að færa fram tittlingaskít á blogginu þínu og skynjað annan kjarna en þann kjarna sem þú varst að koma á framfæri.

Hvað varðar bréfasnifsin sem þú komast á framfæri kom innihald þeirra mér ekkert á óvart vegna þess að ég hef aldrei skrifað upp á þá kenningu að hugmyndin um leynd Icesave samningsins væri runnin undan öðrum rifjum en Hollendinganna og Bretanna.

Það þýðir hins vegar ekki að Ríkisstjórnin hafi þurft að samþykkja þessa leynd. Hollendingar og Bretar ráða því ekki hverju Ríkisstjórn Íslands leynir fyrir íslenskum kjósendum. Þótt Ríkisstjórn Íslands geti komið fram og talið fólki trú um að hún sé einhvers konar leiksoppur þá hef ég of mikið vit á stórnsýslu til þess að kaupa það.

Ég el börnin mín þannig upp að það er ekki afsökun fyrir því að gera eitthvað af sér að einhver annar hafi sagt manni að gera það.

Mér finnst framganga stjórnvalda (úr hvaða flokki sem þeir hafa komið) í Icesave deilunni hafa verið lágkúrulegt og ófagleg á öllum stigum málsins. Ég þarf ekki að fara í neinar skotgrafir til þess að mynda mér þá skoðun.

Þakka annars ágætt blogg og birtingu þessar bréfasnifsa sem eru hvað sem örðu líður mjög athyglisverð gögn í þeirri atburðarrás sem er í gangi núna.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.6.2009 kl. 19:39

19 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæl Lára,  bloggið þitt sé áhugavert og mikið lesið. Ég spyr mig samt að því hvort þú sért að lesa of mikið í skúbbið þitt?  Ástæður þess eru eftirfarandi: Steingrímur væri ekki þar sem hann er í dag nema vegna þess að hann á auðvelt með að ná til almennings og koma þeim skilaboðum á framfæri sem hann vill. Í annan stað eru þessir menn með aðstoðarmann og fjölmiðlafulltrúa á hverjum fingri m.a. til að sinna fjölmiðlum sem eltast við þá kvölds og morgna. 

Nú tek ég þig og Steingrím trúanleg en ég er samt hugsi yfir þessari leynd og það í allan þennan tíma. Það hefur verið upplýst að það voru ekki Íslendingar sem afléttu leyndinni heldur Hollendingar. Þá var það borið á ríkisstjórnina í umræðum á Alþingi að ekki væri skýrt satt og rétt frá en ekki svarað, ekki fyrr en á blogginu þínu!  Ég er ekki að halda því fram að það sé tortryggilegt en það er a.m.k. óvenjulegt. 

p.s. Varðandi netföng þingmanna þá er óþarfi fyrir þig að halda þeim leyndum enda er auðvelt að nálgast þau á alþingisvefnum ásamt símanúmerum þeirra flestra.  Ef menn vilja ekki fá tölvupósta frá tilteknum aðilum þá bjóða öll póstforrit uppá að hægt sé að loka á tiltekin netföng eða þau sett sjálfkrafa í ruslpóst. 

Sigurður Þórðarson, 23.6.2009 kl. 20:40

20 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Sælt veri fólkið,

Ég er alveg sallaróleg yfir þessu öllu saman. Ég tek umræðuna ekkert nærri mér og er ekki hörundsár. Mér finnst alveg sjálfsagt að fólk viðri skoðanir sínar, gagnrýni og sé ósammála. Þegar maður skrifar á opinberum vettvangi eins og bloggið er, og að auki um umdeild mál, þá borgar sig engan veginn að vera of viðkvæmur.

En alltaf er þó skemmtilegra að fólk fari rétt með og mér er meinilla við að fólk leggi mér orð í munn eða geri mér upp skoðanir. Ég er eflaust ekki ein um það. Og ég er ekki bara að vísa í athugasemdir hér á mínu bloggi, þær voru víðar og snerust reyndar margar um persónu Harðar Torfasonar.

Sigurður... ég leit nú ekki á birtingu tölvupóstanna sem skúbb. Hef ekki tileinkað mér þá hugsun blaðamannsins, enda er ég ekki einn slíkur. Í mínum huga voru þetta bara upplýsingar sem ég fyrir tilviljun fékk í hendur og hafði vettvang til að koma þeim á framfæri. Og þetta með netföngin... Þarna var ekki um að ræða netföng þingmanna, heldur nöfn og netföng erlendu samningamannanna tveggja, þess hollenska og breska.

Ef fólk hefur áhuga á að skoða mismunandi framsetningu netmiðlanna á þessum pistli mínum er hér Eyjan, Pressan og Vísir. Ég veit ekki hvort fleiri fjölluðu um málið. Aðeins Eyjan leyfir athugasemdir og það er oft mjög athyglisvert að fylgjast með hvernig umræður þróast í löngum athugasemdahölum þar. Ég sé ekki betur en að í restina þarna sé fólk farið að ræða um ESB.

En mér finnst alltaf áhugavert að bera saman mismunandi túlkun fjölmiðla á hlutunum og hvernig þeir meðhöndla frumheimildir. Það segir mikla sögu. Í þetta sinn var ég í þeirri óvenjulegu aðstöðu að vera frumheimildin og gat því verið krítískari en ella.

Svo er líka gaman að lesa kaffistofuspjall eins og þetta þar sem þessi pistill hér er dreginn sundur og saman í háði - og ég auðvitað í leiðinni. Ég hló þegar ég las þetta. Fannst þetta eiginlega lýsa kaffistofukörlum Pressunnar miklu betur en mér. Og þeir föttuðu ekki laxnesskuna.

Lára Hanna Einarsdóttir, 23.6.2009 kl. 23:06

21 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæl Lára,  það er rétta viðhorfið að gefa húmornum gott rými og losa sig við alla viðkvæmni.

 Ég er áreiðanlega mjög pólitískur en alls ekki flokkspólitískur. (Þetta segi ég af því að þú veltir fyrir þér hvötum viðmælenda)

Ég hef rosalega miklar áhyggjur af Íslandi t.d. út af Icesave sem við getum aldrei borgað vegna þess að skuldirnar eru í gjaldeyri og viðskiptajöfnuðurinn stendur ekki undir því.  Ein af ástæðum þess að ég hef gaman af að lesa bloggið þitt er að þú ert gagnrýnin. Við verðum að vera það því reynslan sýnir að ráðamenn okkar þurfa aðhald öðru fremur ekki síst frá velvildarmönnum sínum.  (sá er vinur...)

Á okkur standa nú öll spjót eitt af því sem gæti orðið okkur að falli er flokks- og foringjahollustan. 

Ég fagnaði því innilega að fá nýja ríkisstjórn. "En tvisvar verður t sá feginn sem á steininn sest"   

Mér þykir vænt um landið okkar og þjóðina og væri til í að vinna hörðum höndum, borða harða skorpu og drekka vatnsþynnta mjólk til að leggja mitt fram.  Get þar af leiðandi tæplega hugsað mér lakari kost en forsætisráðherra sem styður skuldasamning við erlent ríki sem ekki verður hægt að standa við og ætlar síðan að leiða þjóðina á hnjánum inn í Evrópusambandið þar sem hún verður að afhenda náttúruauðlindir sínar til skuldajöfnunar. Dapurlegra getur það varla verið.

Sigurður Þórðarson, 23.6.2009 kl. 23:58

22 Smámynd: Jón Valur Jensson

http://eyglohardar.blog.is/blog/eygloh/entry/899073/#comment2476682

Nú þurfa allir að lesa þessa vefsíðau Friðjóns R. Friðjónssonar með ýtarlegu, stórmerkilegu bréfi Péturs Richter. Bréfið rekur Icesave-málið, einkum á síðustu vikum, ákaflega vel, séð frá sjónarhóli verkfræðings sem leggst í djúpa athugun á öllu málsferlinu og fer þar í saumana á hlutum, sem menn hafa varla áttað sig á ennþá. Hvílíkt tundur þetta bréf hans er, sést t.d. á þessu broti þaðan:

"... Stjórnvöld virðast líka hafa gleymt að lesa alla skýrsluna. Á blaðsíðu 13 er farið yfir áhættuþætti varðandi mat á hvað fáist upp í skuldbindinguna. Þar kemur fram að það sé líklegt að aðrir kröfuhafar fari í mál til að reyna að fella neyðarlögin (þar sem innlán voru sett í hóp forgangskrafna) og ef þau falli er líklegt að það fáist eingöngu 33% upp í kröfuna !!!"

Jón Valur Jensson, 24.6.2009 kl. 15:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband