Auðlindir á tombólu

Hér er stórfínn pistill Bjargar Evu af Smugunni - með hennar leyfi.

Auðlindir á tombólu

Fyrsta orkufyrirtækið  á Íslandi sem verður einkavætt að fullu, verður að stórum hluta til í erlendri eigu.  Magma Energy heitir kanadíska fyrirtækið sem vill eignast 32 prósenta hlut í Hitaveitu Suðurnesja á móti Geysi Green Energy.

Björg Eva ErlendsdóttirTilboð Magma Energy rennur út á morgun, en í því er gert ráð fyrir að Orkuveitan kaupi hlut Hafnarfjarðar sem Orkuveitan má ekki eiga samkvæmt úrskurði Samkeppniseftirlitsins.  Orkuveitan tapar 1,3 milljörðum króna á viðskiptunum, en HS orka sem verður þá að nærri hálfu í eigu erlendra aðila leigir nýtingarrétt orkunnar til allt að 130 ára.  Auðlindin verður að öllu leyti úr höndum almennings í talsvert á aðra öld og HS orka greiðir 30 milljónir á ári í leigu fyrir auðlindina. Það svarar húsaleigu fyrir sæmilegt skrifstofuhúsnæði á þokkalegri hæð í miðbænum.  Það er tíu sinnum lægri upphæð en réttlætanlegt þótti að greiða einum útrásarvíkingi fyrir að fallast á að taka að sér stjórnunarstarf  í banka.

Undanfarna mánuði hafa Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn skýrt mikla andstöðu sína við Icesavesamningana að hluta  með því að samningarnir gætu leitt til afsals Íslendinga á auðlindum þjóðarinnar.  Samhliða þessum málflutningi hafa bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og  fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar í borgarstjórn Reykjavíkur unnið markvisst að gerð samninga sem afsala almenningi yfirráðum yfir orkuauðlindum á Reykjanesi fyrir gjafverð.

Reykjanesbær framselur nýtingarréttinn

Í júlí seldi Reykjanesbær 34,7% hlut sinn í HS orku til fyrirtækisins Geysir Green Energy, sem þekkt varð  í átökunum um  Reykjavík Energy Invest, REI málinu,  á genginu 6,3. Geysir Green seldi  í kjölfarið 10% hlut til Geysir Green Energykanadíska fyrirtækisins Magma Energy á sama gengi og varð Magma Energy þar með fyrsti erlendi eigandinn í íslensku orkufyrirtæki.

Í viðskiptunum fólst einnig sala á auðlindum HS orku til Reykjanesbæjar til þess að tryggja að auðlindirnar yrðu í opinberri eigu.  Sömuleiðis varð gerður samningur um framsal Reykjanesbæjar á nýtingaréttinum á auðlindinni til HS orku. Samningurinn er 65 ára með möguleika á framlengingu um 65 ár til viðbótar - í raun samningur til 130 ára. Nýtingarréttinn leigir HS orka  af Reykjanesbæ fyrir 30 milljónir króna á ári. Með einkavæðingu HS orku verða 30 milljónirnar einu tekjur almennings af auðlindinni  sem fyrirtækið virkjar til orkusölu. Tekjur HS orku, sem eru að mestu tilkomnar vegna orkusölu, voru rúmir 5,4 milljarðar króna í fyrra.

Eftir viðskiptin var HS orka komin í meirihlutaeigu einkaaðila, fyrst íslenskra orkufyritækja. Geysir Green átti tæp 56,7% og Magna Energy 10,7%. Orkuveita Reykjavíkur átti 16,6%, Hafnarfjörður 15,4 og Grindavíkurbær, Sandgerðisbær, Garður og Vogar samanlagt um 1,3%.

Einakvæðing án umræðu

Í byrjun mars 2007 auglýsti fjármálaráðuneytið 15,2% hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja til sölu. Í auglýsingunni var það tekið sérstaklega fram að vegna samkeppnissjónarmiða mættu Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur ekki ekki bjóða hlutinn. Hæsta tilboðið kom frá nýstofnuðu fyrirtæki, Geysir Green Energy, sem lýsti sig tilbúið til að kaupa hlutinn á genginu 7,1. Árni SigfússonTilboðinu var tekið og þann 3. maí undirritaði þáverandi fjármálaráðherra, Árni Mathiesen, samning um söluna. Þar með stefni í að Geysir Green yrði fyrsti einkaaðilinn til þess að eiga í íslensku orkufyrirtæki.

Mikil umræða skapaðist um kaup Geysis Green á hlutnum vegna þess að þar var orkufyrirtæki að færast í hendur einkaaðila. Í byrjun júlí ákváðu Grindavíkurbær og Hafnarfjarðarbær að nýta sér forkaupsrétt sinn í hlut ríkissins og selja hann  til Orkuveitunnar.  Jafnframt  ákvað Grindavík að selja 8,51% hlut sinn til Orkuveitunnar.  Auk þess gerði Orkuveitan bindandi kauptilboð í 14,7% hlut Hafnarfjarðarbæjar og fékk bærinn frest til áramóta til að ákveða hvort hann tæki tilboðinu. Þessi viðskipti fóru fram á genginu 7. Tilgangur kaupa Orkuveitunnar var að gæta hagsmuna almennings með því að halda Hitaveitunni í almenningseigu.

Hafnarfjörður tók tilboði Orkuveitunnar fyrir lok árs, en í millitíðinni hafði Samkeppniseftirlitið lýst því yfir að kaup Orkuveitunnar í Hitaveitunni yrðu skoðuð með tilliti til samkeppnislaga. Úrskurður Samkeppniseftirlitsins féll svo í mars 2008 og varð niðurstaðan sú að Orkuveitan mætti aðeins eiga 3% í Hitaveitunni. Orkuveitan kærði úrskurðinn áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem úrskurðaði að Orkuveitan gæti átt 10%.

Orkuveitan taldi sér því meinað að kaupa hlutinn af Hafnarfjarðarbæ. Því vildi bærinn ekki hlíta og stefndi Orkuveitunni vegna málsins eftir árangurslausar samningaviðræður. Í mars síðastliðnum dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur Orkuveituna  til  að kaupa hlutinn. Þeim dómi hefur Orkuveitan áfrýjað til Hæstaréttar.

Magma býður í hlutinn

Síðastliðinn föstudag bárust fréttir af því að kanadíska orkufyrirtækið Magma Energy hefði gert Orkuveitu Reykjavíkur tilboð í hlut fyrirtækisins í Magma EnergyHS orku auk hlutar Hafnarfjarðarbæjar, samtals 31,3%, í fyrirtækinu á genginu 6,3. Það fól  í sér að Orkuveitan skyldi kaupa hlut Hafnarfjarðar á genginu 7 og áframselja hann svo á genginu 6,3. Mismunurinn á þessum viðskipum yrði 1,3 milljarður sem Orkuveita Reykjavíkur þyrfti að taka á sig. Magma Energy gaf stjórn Orkuveitunnar frest fram á fimmtudag - á morgun - til að svara tilboðinu. Stjórn Orkuveitunnar hefur boðað fund um málið eftir hádegi á morgun.   Magma Energy hefur einnig boðið í hluti Sandgerðis, Voga og Garðs auk þeirra 0,7% sem Hafnarfjörður hélt  utan við kaupsamninginn við Orkuveituna.

Engar tekjur en áfram ábyrgð

Ef svo fer sem horfir verður HS orka komin að fullu í eigu einkaaðila á næstu dögum.   Þar með er  nýtingarréttur  á íslenskri náttúruauðlind HS Orkahorfinn úr höndum almennings á Íslandi til 130 ára og kominn til einkaaðila. Sala bankanna á sínum tíma virðist ekki duga til að kvikni á viðvörunarljósum vegna þessa.  Þar var þjóðarhagur ekki að leiðarljósi.  Er ástæða til að ætla að svo sé nú?

Þrátt fyrir einkavæðingu orkufyrirtækisins er bent á að auðlindin sé  áfram í opinberri eigu. Það varðar almenning þó  engu ef nýtingarétturinn hefur verið framseldur rétt eins og gert var með fiskinn í sjónum.  Gjaldið fyrir nýtingarréttinn er ennfremur það lágt að tekjur af auðlindinni skipta almenning ekki nokkru máli. Auðlindarentan mun renna til eigenda HS orku en ekki almennings.  Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað hverju það breytir að auðlindin sé áfram eign hins opinbera. Skyldi íslenska þjóðin þá bera ábyrgð á auðlindinni, rétt eins og hún bar ábyrgð á einkavæddu bönkunum?  Ef auðlindin verður ofnýtt eða eyðilögð á hvers ábyrgð verður það?  Augljóslega má orkufyrirtæki í almannaþágu  ekki fara á hausinn.  Það kemur því í hlut íslenska ríkisins að taka á sig skellinn ef illa fer.

Skólabókardæmi um afsal þjóðareignaThe Shock Doctrine - Naomi Klein

Í bókinni The Shock Doctrine setur höfundurinn, Naomi Klein, fram kenningu um að þegar samfélög verða fyrir stóráföllum nýti risafyrirtæki og aðrar valdablokkir tækifærið til að hrinda í framkvæmd markvissri stefnu þar sem eigur almennings eru færðar einkaaðilum á silfurfati fyrir smánarverð.  Margt  bendir til þess að einmitt núna sé verið að nýta erfiða stöðu orkufyrirtækjanna í kjölfar hrunsins og skáka í skjóli athygli sem beinst hefur að Icesave-málinu einu  til að ljúka með hraði  einkavæðingarferli Hitaveitu Suðurnesja. Ferlinu sem Árni Mathiesen, fjármálaráðherra og Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ  og embættismenn þeirra,  hófu  fyrir rúmum tveimur árum.  Vandséð er  að hér sé verið að gera neitt annað en að afsala dýrustu framtíðarverðmætum  íslensks almennings til einkaaðila á tombóluprís.

Nýlegir pistlar um sama mál:
Hugleiðingar um einkavæðingu - áríðandi skilaboð
Eru auðlindirnar okkar ekki sexí?
VARÚÐ - Nýtt REI-mál í uppsiglingu
Svikamyllan á Suðurnesjum

Hin fallna þjóð og afsal auðlinda
Fjöregginu fórnað


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessir klíkubræður hafa bara eitt markmið þ.e. að stela því sem kynslóðir hafa önglað fyrir með blóði svita og tárum.  Fyrst var það kvótinn, sveitarfélaga og nú orkan.

http://www.smugan.is/steinsmugan/nr/2303

Hvað þarf til að stoppa þessa menn?

TH (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 14:00

2 identicon

Ein af framsýnustu greinum Íslandssögunar má lesa hér           http://vf.is/leita/default.aspx

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 14:02

3 identicon

 Hér kemur greinin   http://vf.is/Adsent/22155/default.aspx

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N. (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 14:06

4 identicon

Flottur pistill. En thetta (ad Magma kaupi yfir 30 % hlut i HS Orku) er sem betur fer ekki buid ad gerast og thetta ma bara einfaldlega ekki gerast.

Mer heyrdist a Steingrimi i speglinum i gær að verið se ad skoda alla tha möguleika sem hægt er til thess ad thetta haldist i almanna eign.

En thad er megn skitalykt af thessu mali, virdist sem mörgum se i mun ad thetta gerist hratt og rikinu og sveitarfelögunum stillt upp vid vegg...   Thad er enginn astæda fyrir thvi ad lata Magma storka ser til thess ad vinna thetta mal hratt og illa.   Thad verdur einfaldlega ad fara yfir thetta mal vandlega, breyta lögunum, og tryggja ad allar orkuaudlindirnar verdi i almanna eign um okomna framtid.  Fyrri sölur á hlutum voru og eru alvarleg mistök.

Hvernig geta verið til islensk lög sem leyfa ekki OR ad eiga meira enn 10 %, enn erlent einkafyriritæki ma eiga allt ad 48 % ?   Sem  betur fer hlytur VG ad hafa goda samningsstöðu innan rikistjórnarinnar í þessu máli, með tilliti til þess að þeir hafi þurft að lúffa í öðrum stórum málum. En ég er rosalega skúffuð á Samfylkingunni í þessu máli, það hefur ekkert heyrst í iðnaðarráðherra annað enn að henni litist vel á kaupin...!!!

Því miður held ég að margir íslendingar geri ser ekki grein fyrir því sem er að gerast, og heldur að þetta sé allt í lagi, hér eru við að fá erlent fé inn i hagkerfið... En það er bara ALDREI hagkvæmt að selja auðlindir, þær eru peningamyllur til fleiri hundruð ára. Var á fyrirlestri med norskum orkuverkfræðingi sem var med flott reiknisdæmi fyrir vatnsaflsvirkjanir, en þær geta eins og jarvarmavirkjanir búið til rafmagn í fleiri tugi ef ekki hundruðir ára: Það er einfaldlega ekkert verð nógu hátt til þess að réttlæta sölu! En mörg erlend fyrirtæki hafa verið á höttunum eftir að kaupa norsku vatnsorkuverin, en það hefur sem betur fer ekki tekist og orkufyritækin eru eign sveitarfélaganna og ríkisins.   Hrein orka er af skornum skammti í heiminum og þetta er okkar helsta auðlind. 

Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 15:02

5 Smámynd: Baldvin Jónsson

Ég er að vona svo innilega að Steingrímur J. hafi séð hættu málsins og sé að reyna að vinna að því með öllum ráðum (ef að hann hefur tíma utan Icesave þjónkunarinnar) að koma í veg fyrir þetta og láta ríkið jafnvel kaupa hlutinn. Það væri óskandi.

Ég tek undir með Dofra Hermannssyni, hvernig geta fulltrúar kjörnir til fjögurra ára í senn, framselt réttindi til 130 ára?

Baldvin Jónsson, 21.8.2009 kl. 15:02

6 identicon

Komdu sæl Þorhildur.

Stórmerkilegur punktur hjá þér að í Noregi berjist fjöldinn allur af fyrirtækjum að fá keypt orkuauðlindir. þar í landi.  Í ljósi þessa sætir furðu að á Íslandi sem býður fjárfestum auðævi hér á landi fyrir slikk vegna bára stöðu króunnar skulli aðeins eitt fyrirtæki sína áhuga að fjárfesta í þessum hlut  í H.S. Í þeim merkilegu lögum sem er EES samningurinn sem var upphafið á því að hægt væri að setja íslenska þjóð á höfuðið en þar stendur að óheimilt er að hafa lokuð útboð þegar um opinbera aðila er um að ræða og upphæðin nær 500 milljónir islenskar króna. Því ber að auglýsa þennan hlut í H.S. á öllu EES svæðinu og sem víðast. Þá gæti gerst því miður fyrir ákveðna aðila að það fengist hækkra verð þannig er nú það. 

Baldvin Nielsen Reykjanesbæ

B.N (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 15:24

7 Smámynd: ThoR-E

Spillingarlyktin af þessu er stæk.

ThoR-E, 21.8.2009 kl. 15:55

8 identicon

,,Undanfarna mánuði hafa Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn skýrt mikla andstöðu sína við Icesavesamningana að hluta  með því að samningarnir gætu leitt til afsals Íslendinga á auðlindum þjóðarinnar.  Samhliða þessum málflutningi hafa bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og  fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar í borgarstjórn Reykjavíkur unnið markvisst að gerð samninga sem afsala almenningi yfirráðum yfir orkuauðlindum á Reykjanesi fyrir gjafverð."

Hvers vegna hefur engin sem á að vinna á alþingi minnst á þetta og spurt framsóknarmenn og sjálfstæðismenn um þetta mál ?

Spillingaröflinn innan framsóknar og sjálfstæðisflokksins halda svo lengi áfram , að engin nenni að gera athugsemdir við vinnubrögð þeirra !

JR (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 16:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband