Áríðandi skilaboð!

Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem litið hefur hingað inn síðastliðna viku að Bitruvirkjun er aftur á dagskrá. Ég hef fengið upplýsingar um að senda megi athugasemdir í tölvupósti til kl. 16 í dag þar sem 3. október bar upp á laugardag. Enda er þeim í Ölfusi ekki stætt á að hafna athugasemdum í tölvupósti þegar allir aðrir taka slíkt sem sjálfsagðan nútíma samskiptamáta. Það er nú einu sinni 21. öldin - ekki sú 19.

Því skora ég á alla sem ekki vilja láta eitra andrúmsloftið fyrir sér og sínum; sem vilja eiga náttúruperluna Ölkelduháls og nágrenni ósnortna; sem ekki vilja láta hljóð-, sjón- og loftmengun eyðileggja upplifun sína af einu fegursta landsvæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins; sem vilja mótmæla rányrkju og misnotkun á orkuauðlindum Íslendinga - til að senda athugasemd til Sveitarfélagsins Ölfuss NÚNA. Viðfest hér að neðan eru nokkur tilbúin bréf sem öllum stendur til boða að nota. Veljið eitt - vistið það - opnið (breytið ef þið viljið) - skrifið nafn, kennitölu og heimilisfang - vistið aftur. Sendið síðan sem viðhengi á netfangið: sigurdur@olfus.is - og jafnframt afrit (cc.) á olfus@olfus.is og til öryggis á skipulag@skipulag.is. Ég bið starfsfólk Skipulagsstofnunar forláts - en allur er varinn góður.

Ekki ætla ég að endurtaka eina ferðina enn það sem komið hefur fram í fyrri pistlum. En eitt vil ég benda á sem hvergi hefur komið fram - hvorki hjá mér né annars staðar mér vitanlega. Það er samanburður á fjarlægðum. Ég hef minnst á eiturgufurnar frá jarðhitavirkjunum og hve nálægt Hveragerði fyrirhuguð Bitruvirkjun er. Rétt rúmlega 4 km frá suðaustustu borholunni að byggð í Hveragerði. Ég veit ekki hvort lesendur hafa upplifað að standa hjá borholu í blæstri - það er sérstök upplifun. Annars vegar upplifir maður orkuna - kraftinn sem dælt er upp úr jörðinni. Hins vegar hávaðann - ógurlegan, yfirgnæfandi, ærandi hávaðann sem orkudælingunni fylgir. Þessum krafti fylgir óumdeilanlega gríðarleg eiturefnamengun sem spúð er yfir allt nágrennið og svífur með vindinum víða. Ég hef fjallað ítarlega um hana í fyrri pistlum.

En hvað eru rúmir 4 km mikil fjarlægð? Hvað segðu íbúar Þorlákshafnar um að fá yfir sig hávaðann og eitrið sjálfir? Gera þeir sér grein fyrir hvað þeir ætla að bjóða Hvergerðingum upp á? Hér eru afstöðumyndir af Bitruvirkjunarsvæðinu - annars vegar frá Hveragerði og hins vegar frá Þorlákshöfn. Greinilega sést hér hve nálægt Hveragerði virkjanasvæðið er og Þorlákshöfn í samanburði. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Bitruvirkun - fjarlægð frá Hveragerði vs. Þorlákshöfn

Bitruvirkjun - afstöðumynd - Hveragerði og Þorllákshöfn

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu gera sér litla grein fyrir fjarlægðum í kílómetrum innan borgarmarkanna, flestir hverjir. Ég tók á það ráð til að gefa kost á samanburði að setja fjarlægðina í samhengi við hluta af höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða tæplega 4,2 km. Og ég spyr: Viljum við hafa eiturspúandi gufuaflsvirkjun svona stutt frá heimilum okkar, skólum barnanna, vinnustöðum okkar og daglegu lífi? Ekki ég! En svona nálægt Hveragerði er fyrirhuguð Bitruvirkjun. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Reykjavík NV - 4,2 km

Reykjavík NV - samanburður á fjarlægðum - Bitruvirkjun-Hveragerði

Kópavogur-Garðabær- 4,2 km

Kópavogur/Garðabær - samanburður á fjarlægðum - Bitruvirkjun-Hveragerði


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Bíddu ég er ekki inn í málin,eru íbúar Þorlákshafnar með þennan gjörning. Sonur minn býr þar,er hann (ofl) að bjóða Hvergerðingum upp eiturtrakteringar,ég verð nú að fara og heyra í honum hljóðið,þó mér sé meinilla við að trufla hann,Þar sem hann er að ljúka námi í Mannauðsstjórnun.    

Helga Kristjánsdóttir, 5.10.2009 kl. 03:51

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Hæ Lára,

Fínt að skoða hlutina í samhengi við annað. En það er eitt sem ég hef áhuga á að skoða saman og þú veist kannski eitthvað um. Það er að bera saman virkjanasvæðið Svartsengi og svo virkjanasvæði Bitru. Það eru að ég held sams konar virkjanir. Af hverju heyrum við ekkert um að Grindvíkingar kvarti yfir mengun þaðan, er engin mengun þar? Þeir hafa að vísu notað iðnaðarúrganginn þar í túrisma og kalla hann Bláa lónið. En á þessu svæði þá stendur hótel eitthvað um 40 metrum frá borholu eða væntanlegri borholu. Sjá hérna frá skipulagsstofnun.  Þetta er hótelið Northern Light Inn. Ég fæ ekki betur séð en það hótel beinlínis markaðssetji sig í túristabransanum einmitt vegna þess að það sé þarna á virkjanasvæðinu.

Af hverju ætti það að hafa hrikaleg áhrif í Hveragerði á ferðamennskutengdan iðnað að vera 4000 metra  frá virkjunarsvæði þegar það beinlínis er notað til að  lokka að ferðamenn í Svartsengi að vera hótel  sem er í 40 metra fjarlægð frá borholu. 

Af hverju er hundraðsinnum meiri fjarlægð frá virkjun í Hveragerði heldur en Grindavík talið hættuleg? 

Vil taka undir áhyggjur af brennisteinsvetni, ég skrifaði  einmitt á sínum tíma grein um brennisteinsvetni á íslensku wikipedia, sjá greinina hérna. Það munu vera til lausnir til að lágmarka það og við eigum auðvitað að krefjast þess við virkjanir að sem öflugust tækni sé notuð til að sporna við mengun.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 5.10.2009 kl. 07:23

3 identicon

Ósköp er nú gott að sjá hér önnur sjónarmið en þau sem síðueigandi og kórfélagar hennar hafa.  Takk fyrir það Salvör. 

Lesandi (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 08:45

4 Smámynd: Gerður Pálma

 Kæri lesandi, væri óskandi að þú værir líka hugsandi.

Ég mun reyna mig besta að vekja fólk til meðvitundar á að enn er hægt að senda inn mótmæli.  Afleiðing Bitruvirkjunar yrði stórkostlegur efnahagslegur skaði fyrir þjóðina þar sem stærsta atvinnutækifæri landsins er það sjálft.

Bæjarfélögin ættu að athuga með að taka á móti og vinna með viðskiptahugmyndum varðandi aðra uppbyggingu hver á sínu svæði sem þeir gætu stutt og fjárfest í þar sem tillit er tekið til þarfa þjóðfélagsins, sem eru lítil fyrirtæki, fjölskyldufyrirtæki t.d. sem skapa örugga vinnu og sjáanlega stefnu til uppbyggingar.  Með slíkri uppbyggingu skapast GRUNNUR sem allir geta byggt á. Við erum smáþjóð og þurfum aðeins brotabrot af t.d. heilsuiðnaðinum sem er tilvalin í Ölfusi, auglysir sig sjálfur. Hvað eruð þið að hugsa?

Gerður Pálma, 5.10.2009 kl. 09:14

5 Smámynd: Dystópía

Ég sendi mínar athugasemdir með pósti á föstudeginum.  Ég hringdi á pósthúsið og mér var sagt að sendingar innanlands eigi að komast til skila næsta virka dag ... en gæti tekið upp í 3 virka dag. Ég ætla að senda athugasemdirnar í tölvupósti til öryggis.

Dystópía, 5.10.2009 kl. 11:09

6 identicon

Skilst að það sé mun minna af H2S í Svartsengi af náttúrunnar hendi.

Solveig (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 11:54

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Tek undir með Gerði Pálma. Við eigum að byggja þetta litla samfélag okkar upp innan frá.

Árni Gunnarsson, 5.10.2009 kl. 15:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband