Svívirða, sársauki, sorg og söknuður

Ég hef verið að velta ýmsu fyrir mér, rifja upp, pæla í þjóðarsálinni, merkingu orðanna, skilning okkar á þeim og samhengi hlutanna. Ég hef verið að hugsa um fólk og hvernig það upplifir kreppuna. Ég hitti lítinn hóp af góðu fólki eitt kvöldið í vikunni. Þar sagði ung kona: "Þetta er velmegunarkreppa". Það má til sanns vegar færa - a.m.k. hjá sumum. Önnur kona sagði reynslusögu. Hún var í apóteki og fyrir framan hana í röðinni var gömul kona að sækja lyfin sín. Þegar verið var að afgreiða gömlu konuna fór hún að skjálfa - hún grét. Þarna stóð hún með aleiguna í höndunum, 12.000 krónur. Lyfin kostuðu 9.000. Átti hún að borga lyfin og eiga bara 3.000 krónur til að lifa af út mánuðinn eða...? Þessi gamla kona var ekki að upplifa velmegunarkreppu.

Eflaust er þetta veruleiki margra þótt eldri borgarar séu kannski í meirihluta af því þeir hafa ekki tök á að auka tekjur sínar á neinn hátt. En þetta er gömul saga og ný. Það hefur alltaf verið til fátækt á Íslandi og alltaf hefur verið stéttskipting í okkar "stéttlausa", litla þjóðfélagi. Kannski er þetta meira áberandi nú en alla jafna, ég veit það ekki. Maður spyr sig hvers vegna í ósköpunum ekki er hægt að jafna lífsgæðin betur í örsamfélagi eins og okkar - af hverju þeir sem hafa yfrið nóg og gott betur geta ekki hunskast til að hjálpa sínum minnstu bræðrum og systrum. Af hverju nokkrum einstaklingum finnst bara sjálfsagt að velta sér upp úr peningum eins og Jóakim aðalönd á meðan aðrir eiga ekki til hnífs og skeiðar.

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki slíkan þankagang - hef aldrei gert og mun aldrei gera. Mér finnst þetta svívirðilegt og óafsakanlegt.

Svo er það sársaukinn. Við vorkennum okkur alveg óskaplega. Okkur finnst illa með okkur farið af alþjóðasamfélaginu svokallaða. Fólk, sem fætt er með silfur- eða jafnvel gullskeiðar í munni og hefur ekki hugmynd um hvað það er að líða skort eða þurfa að neita sér um nokkurn hlut, lætur eins og heimurinn sé að farast af því það fær ekki sínum prívatvilja framgengt í öllum málum svo það geti hlaðið enn meira undir sig og sína.

Mér hefur æ oftar, í öllum ósköpunum sem hafa gengið á, orðið hugsað til forsíðumyndar á tímariti sem ég kom auga á fyrir margt löngu. Ég keypti tímaritið og geymdi forsíðumyndina. Ég gerði það til að minna sjálfa mig á hvað ég hef það helvíti gott - hvað sem á gengur og þrátt fyrir allt og allt. Til að minna sjálfa mig á hve kvartanir okkar Íslendinga yfir léttvægum, efnislegum lífsgæðum eru í raun fáránlegar þegar upp er staðið. Þetta var í ágúst árið 1992 og myndin var á forsíðu The Economist. Stríðið í Bosníu var í algleymingi og þar átti fólk um sárt að binda. Ég gróf þessa forsíðu upp og skannaði hana inn í tölvuna. Sjáið þið það sem ég sá þá og sé enn? Hvað erum við að kvarta?

The Economist - forsíða - ágúst 1992

Ég hef líka verið að hugsa um stjórnmálin og stjórnmálamennina og -konurnar. Reyni öðru hvoru að fylgjast með umræðunum á Alþingi en gefst alltaf upp. Þvílíkur farsi! Þvílíkar gervimanneskjur og gervimálstaður sem þar er á ferðinni! Hvaða fólk er þetta eiginlega sem kosið var til að leiða þjóðina á erfiðum tímum? Gjammandi gelgjur og útblásnar blaðurskjóður? Það er undantekning ef einhver kemur í ræðustól og talar af hugsjón, skynsemi og sannfæringu. Þá hugsa ég til Vilmundar Gylfasonar og hans stutta en minnisstæða ferils á þingi. Og ég sakna heiðarlegra hugsjónamanna og -kvenna sem hægt er að treysta.

Vilmundur lést langt fyrir aldur fram og hans var sárt saknað af ótalmörgum. Blöðin voru uppfull af minningargreinum um hann, en ein er mér minnisstæðust þeirra allra. Það var persónulegasta og stórkostlegasta minningargrein sem ég hafði lesið á þeim tíma, og hún var eftir Guðrúnu Helgadóttur sem þá sat á þingi fyrir Alþýðubandalagið.

Guðrún sagði m.a. í minningargrein sinni, sem bar hinn einfalda titil Til Vilmundar og birtist í Þjóðviljanum á útfarardegi Vilmundar 28. júní 1983: "Þú þoldir svo miklu meira en ætla mátti, vegna þess að þú varst svo heiðarlegur og sanntrúaður á málstað þinn, og svo ótrúlega lítið kænn. Fyrir þá eiginleika kveðja þig í dag þúsundir Íslendinga í einlægri sorg. Þeir vita að við eigum kappnóg af kænu fólki." Svo segir Guðrún seinna: "Sannleikann í þér tókst þér aldrei að dylja. Þess vegna þótti svo mörgum vænt um þig, og þess vegna var ýmsum ekkert hlýtt til þín. Sannleikurinn er ekki öllum fýsilegur fylgisveinn." (Af hverju tengi ég þessi orð við Bjarna Ben og Sigmund Davíð... og fleiri af þeirri sort?) Í grein sinni minnist Guðrún á ræðu ræðanna á Alþingi - ræðu sem enn þann dag í dag er talin sú besta sem þar hefur verið flutt. Takið eftir ummælum Vilmundar um nýja stjórnarskrá og varðhunda valdsins. Ég hengi ræðuna neðst í færsluna.

Það er þetta með stjórnmálamenn, heiðarleikann og sannleikann. Hve marga stjórnmálamenn sem nú sitja á þingi væri hægt að skrifa slík eftirmæli um?

Til Vilmundar - Guðrún Helgadóttir - Þjóðviljinn 28. júní 1983


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Þakka kærlega fyrir pistilinn og Vilmundarræðuna, sem er stórkostleg en því miður, í tíma og rúmi, gæti þessi ræða hafa verið flutt í gær, með örlitlum staðfæringum.  Það eina sem hefur breyst er að ástandið er verra,  spillingin er meiri, og enginn á þingi fyrirfinnst ennþá með þvílíka hugsjón og heiðarleika sem Vilmundi var í blóð borinn.  Allavega hefur ekki heyrst píp í þeim þingmanni enn.

Falleg, opinská og sönn var líka kveðja Guðrúnar Helgadóttur.    

Jenný Stefanía Jensdóttir, 23.10.2009 kl. 07:20

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ekki næ ég því hvernig þú finnur tengingu við Bjarna Ben og Sigmund í ræðu vilmundar.  Hann gagnrýnir harðlega tækifærismennsku og spillingu Alþýðuflokksins, sem hann er að skilja við. (Krataflokkurinn, sem er ígildi Samfylkingarinnar í dag) Hann ber þó traust til Sighvatar Björgvinssonar sem mögulegan í utanþingsstjórn og merkilegt nokk, Halldórs Ásgrímssonar. (það hefði vafalaust rjátlað af, hefði hann fengið að lifa lengur)  Hann gagnrýnir einnig harðlega Alþýðubandalagið, sjálfsþjónkandi og spilltri verkalýðshreyfingu og sérstaklega valdgræðgi og hroka Svavars Gestssonsr. (sumt breytist þá ekki) Hann nefnir ekki Sjálfstæðisflokkinn, enda óþarfi, þar sem hann var og er undiralda spillingarinnar og nepotismans í landinu. (nokkuð sem hann stendur fyllilega undir í dag) Þeir eru með klærnar í öllum kimum, öllum ráðum og ráða því hverjir verði ofaná og hverjir ekki.

Að lokum virðist mér að módel hans fyrir bandalagi Jafnaðarmanna hafi verið það sama og Borgarahreyfingin lagði upp með, en sveik svo eftirminnilega.

Það er óþarfi að fara í grafgötur með fjórflokkinn og gera upp á milli. Hann er eitt afl.  Afl sem þjónar útvöldum, spilltur og rotinn. Það er engum að treysta í stjórnmálum í dag og það er engu líkast að það sé ætlunin. Allir flokkarnir eru tvöfaldir í roðinu, svo fólk veit ekki sitt rjúkandi ráð, þegar að kemur að kosningum. Allir hafa þeir eitthvað málefni, sem fólk er sammála um og styður en á móti hafa þeir allir eitthvað, sem kemur heildinni illa og engin leið er að sætta sig við. Allir reka þeir mál, sem samstaða er um og allir hafa þeir í sömu andrá annað markmið, sem fæstir styðja. Nota á popúlismann til að nauðga öðru að, sem ekki er þjóðinni að skapi. Við höfnum evrópusambandinu segir einn, en þá verðið þið að samþykkja að selja orkuna í hendur auðhringum. Við lofum jöfnuði og skjaldborg um hagsmuni alþýðunnar, en þá verðið þið að kyngja því að afsala ykkur fullveldinu í hendur erlendra lénsherra. Sá þiðji segis ætla að vera gegn evrópusambandinu og Icesave en vernda auðlindirnar. Sér svo ekki einu sinni þörf á því að standa við neitt, vegna þess að fyrr skal þjóðin glatast en að þeir sleppi langþráðu tækifæri til stjórnarsetu. 

Við eigum varla í nein hús að venda. Allir sjálfstæðir kostir til verndar sjálfstæði, fullveldi og mannréttindum, eru vegin út af andhverfum markmiðum. Raunverulegum markmiðum um að svíkja þjóðina til að fóðra vasa sína og tryggja sér þægileg embætti til frambúðar. Við skiptum engu í því samhengi. Loforðin sætu eru bara agn. Við þau verður ekki staðið, en hin huldu markmið blífa. Þessi tvöfelni hefur att þjóðinni saman og skapað sundrung og það er það sem menn vilja. Nú munu þeir hrifsa völdin hver af öðrum næsta áratuginn með spuna og lygum. Engu verður beyett. Ekki fjölmiðlavaldinu, ekki stjórnarskránni, ekki háleitum markmiðum um frelsi til handa öllum. Ísland er helsjúkt af þessu krabbameini og ég veit hreinlega ekki hvað er til ráða.  Ég treysti engum. Ef ég styð eitt, þá kalla ég yfir mig annað illt. Það er dilemmað. Það virðist óleysanlegt, vegna þess að allur vilji virðist vera til að viðhalda því.

Jón Steinar Ragnarsson, 23.10.2009 kl. 07:45

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

virkilega góður pistill Lára Hanna og ekki var svarið hans Jóns Steinars síðra :)

Óskar Þorkelsson, 23.10.2009 kl. 08:31

4 Smámynd: Kolbrún Heiða Valbergsdóttir

Guð hvað ég er sammála honum Jóni Steinari. Maður veit hreinlega ekki sitt rjúkandi ráð.

Kolbrún Heiða Valbergsdóttir, 23.10.2009 kl. 08:55

5 identicon

Thakka godan pistil Lara Hanna, eins og alltaf hja ther.

Einhverrahluta vegna nae eg EKKI thingraedu Vilmundar, er nokkur leid ad thu gaetir sent mer hana a annan hatt ?

Bestu kvedjur

Islendingur (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 09:58

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Jón Steinar... Það var þessi setning í grein Guðrúnar sem varð til þess að mér duttu BB og SD (og fleiri) í hug: "Sannleikurinn er ekki öllum fýsilegur fylgisveinn."

Lára Hanna Einarsdóttir, 23.10.2009 kl. 10:45

7 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Takk fyrir þetta Lára Hanna. Vil mæla með bókinni Löglegt en Siðlaust,  stjórnmálasögu Vilmundar Gylfasonar eftir Jón Orm Halldórsson, sem skyldulesningu fyrir alla áhugamenn um íslenska pólitík.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 23.10.2009 kl. 11:05

8 identicon

Ég er svo hjartanlega sammála þér, Lára Hanna.  Andstæðurnar eru óskaplegar.  Meðan sumir lifa velmegunarkreppu höfum við víða átakanleg dæmi um fátækt eins og þetta sem þú nefnir um gömlu konuna. Slík dæmi, þar sem fólk líður verulegar þjáningar vegna fátæktar, eru mörg í kringum okkur núna.

Gervimennskan og yfirborðsmennskan er ótrúleg meðal stjórnmálastéttarinnar. Við horfum á fólk í sjónvarpi sem augljóslega veit ekkert hvað það er að segja eða meinar ekkert með því sem það er að segja.

En sjáum við ekki líka bregða fyrir stjórnmálafólki talar frá hjartanu, fólki sem elskar landið og þjóðina og virðist leyfa sér að finna til, eins og Vilmundur gerði? Eða er ég að láta blekkjast eina ferðina enn?

Í snilldarlegu svari Jóns Steinars birtist sannleikur sem ég og eflaust margir aðrir höfum átt erfitt með að koma í orð. Við vitum ekki okkar rjúkandi ráð í þessu helsjúka ástandi sem ríkir meðal þjóðarinnar. Við erum mörg sem sitjum uppi með þá líðan að okkur finnst sem við treystum engum lengur. 

Egill Hallgrímsson (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 12:53

9 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Takk fyrir þessa frábæru hugleiðingu kæra Lára Hanna, ég er sammála hverju orði.

Sigrún Jónsdóttir, 23.10.2009 kl. 12:55

10 Smámynd: Tryggvi Gunnar Hansen

þessi kreppa er bara nýjasta útslagið á hörmungarstjórnarfari sem hefur verið alla tíð frá því um landnám og jafnvel fyrr, um það er of lítið vitað því sögufölsun er ekki ný af nálinni og jafnvel nú... eftir þessar hamfarir er varla meira en mikill minnihluti sem hefur uppgötvast... eina leiðin til þess bjarga þjóðinni úr þessum klóm... auðhyggjuliðsins... er að skapa samráðsform sem er réttlátt og þar sem peningafólk hefur ekki undirtökinn... dreyfa valdinu á alla jafnt... beint lýðræði sem öll þjóðin tekur þátt í... ár hvert er valið lókalt og svo fara þeir allir öll á þjóðþing einusinni á ári og kjósa svo stjórn... ræða saman í 100 manna hópum og kynnast... kjósa svo án áróðurs fjölmiðla... þá sem menn treysta best... en bara til árs...   fyrst að skapa slíkt þing jafnhliða hinu af grasrótinni og svo tekur hið nýja þing við... stjórnmálamenn og báknið virðist ekki hafa áhuga á svo róttækum breytingum... en sumsé... það er eina leiðin út úr þessari sjálfheldu sem er gegnum heil og mun verða sátt um.

Tryggvi Gunnar Hansen, 23.10.2009 kl. 13:01

11 identicon

Flott grein og margt rétt í því sem Jón Steinar segir,en er ekki vandamál stjórnmálana í dag að menn ákveða það snemma að gerast stjórnmálamenn og eru í flokksapparatinu frá því að þeir eru óharnaðir unglingar? Menn sjá þá ekki út fyrir flokkslínunar.

Hér áður þá fóru menn kanski í pólitík til að berjast fyrir einu málefni og fóru þá fram sem óháðir einstaklingar ekki einn sem hefur verið alinn upp innan flokksrammans.

Eins og við sáum þegar Ómar bauð sig fram.Þar fór hann fram í sínum eigin krafti.sem fullmótaður einstaklingur með áratuga reynslu af margskonar atvinnuvegum og ómælda lífsreynslu.

Sjáið svo formann Sjálfstæðisflokksins hve gamall var hann þegar hann byrjaði í flokksstarfi? Hvaða lífsreynslu hefur hann? Veit hann hvernig fólk hefur það á Íslandi?

Ef flokkarnir ætla að lifa þá verða þeir að breyta sér þeir eiga að vera til fyrir fólkið ,en fólkið á ekki að vera til fyrir þá. Menn verða að hætta að taka inn óharnaða unglinga og hálf heilaþvo þá. Ég tel að enginn ætti að vera þar inni sem hefur ekki kosningaaldur.

Við eigum en nokkra stjórnmálamenn af gamla skólanum en eftir tvennar kosningar þá verða bara svona flokksgæðingar eftir en enginn sem hugsar út fyrir flokksrammann.

fjölnir baldursson (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 13:29

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Fyrirgefði Lára mín. Ég hef eitthvað misskilið. Annars finnst mér þessi setning eiga við ansi mikið breiðari hóp þarna á þinginu, ekki síst þá sem stjórnina skipa. Fólk sem er hvað eftir annað staðið af lygi og rangfærslum og ekki síst hræðsluáróðri og ýkjum þegaar það hentar og svo hvóitvaski og fegrun, þegar það ehtar.  Það er einna helst Ögmundur, sem ég sé fylginn orðum sínum og sá maður virðist þó einhverja samhyggð og samvisku hafa, þótt vafalaust sé hann ekki flekklaus.  Það er t.d. ekki útséð um það hvort afsögn hans muni snúa málunum okkur í hag, þótt hún hafi vafalaust verið vel meint.  Jafnvel hann segir ekki allt sem hann veit um aðdraganda þeirrar uppsagnar.

Jón Steinar Ragnarsson, 23.10.2009 kl. 17:10

13 Smámynd: Þórbergur Torfason

Eins og alltaf, naglinn sleginn á höfuðið Lára Hanna. Svo sannarlega vantar og hefur lengi vantað sterka rödd eða raddir í pólitíkina hér. Það hefur varla heyrst orð af viti síðan Steingrímur J var í stjórnarandstöðu. Leiðinlegar upphrópanir stjórnarandstöðunnar kalla á einhverskonar samlíkingamál. Mér datt í hug hópur leikskólabarna þegar frammíköllin glumdu hvað háværast þegar Icesave frumvarpið hið síðasta var lagt fram. Lengi hefur maður gert sér grein fyrir veikum málstað einkavæðingarinnar en þvílíka skelfingu eru Sjálfstæðimenn og Framsóknarmenn að verja þessa dagana. Svo rekur mann í rogastans þegar skoðanakannarnir sýna svo ekki verður um villst hvars konar skyndiminni hrjáir margan Íslendinginn.

Þórbergur Torfason, 23.10.2009 kl. 21:51

14 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Frábær færsla Lára Hanna, sumt breytist hreinlega ekki ... m.a. snilldarpistlarnir þínir. Einhverra hluta vegna missti ég af pistlinum þínum um Vilmund í nóvember í fyrra, en mikið var þetta hressandi lesning. Hafðu kæra þökk.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 23.10.2009 kl. 22:40

15 identicon

Í bókinni Stríð og söngur, eftir Matthías Viðar Sæmundsson, sem kom út hjá Forlaginu árið 1985 er viðtal við Guðrúnu Helgadóttur þar sem Vilmundur kemur við sögu. Guðrún Helgadóttir hefur orðið:„Stjórnmálalmenn eru haldnir þeirri villurtrú, að tilfinningalíf og stjórnviska fari ekki saman. Flestu fólki hættir raunar til þess að skipta daglegu lífi sínu í hólf þar sem ekki er innangegnt á milli. Á daginn nota menn vitið, á nóttinni ástian, og listina við sýningaropnun á laugardagseftirmiðdögum. En vit ástar og lista er engin viska, ekki heldur stjórnviska.            Þær konur sem gagna inn í heim þeirra stjórnmála, sem karlmenn hafa búið sér til, ættur að forðast þetta sundurhólfaða líf. Við eigum einmitt að opna á milli hólfanna. Það er enginn ástæða til að vera eins og heil hreppsnefnd í framan þó að maður sé á þingi. Því síður er það fólk traustvekjandi sem miss hefur lífnestann úr augunum.             En lífsneistinn er kulnaður, að því að allir eru að þykjast. Auðvitað eru allir að skrökva, að sjálfum sér og öðrum. Engri manneskju er þetta líf eðlilegt, en fæstir þora að opna á milli. Hvers vegna skyldi ekki geta verið gaman að sitja á Alþingi? Alþingi ætti að vera staður gleði og tilhlökkunar. Til hvers erum við þarna? Til þess að gera líf fólksins gott og fallegt. Eða hvað?            Nei. Aðallega eru þarna ábúðarmikilir karlar að lesa hver öðrum tölur úr Fjárhagstíðindum og skýrslum Þjóðhagsstofnunar, dauðir í augunum. Orð eins og börn, konur, list, ást hamingja, fá menn til að fara hjá sér, þau bera tilfinningasemi vott. Og tilfinningar eiga ekki heima á Alþingi. Innst inni finnst þeim konur ekki eiga að vera þar heldur. Þeir eru svo hræddir um að við gleymum vitinu heima á morgnana og komum með ástina með okkur í vinnuna.            Stundum sakna ég Vilmundar. Hann átti það til að taka vitlausa tösku.

Sólveig Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 23:08

16 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Lára Hanna. Takk innilega fyrir þessa færslu. Hún getur svo sannarlega hjálpað okkur mikið sem erum ráðvillt og rugluð í fyrrverandi svika-klíku-bankakerfi þessa annars ágæta lands, sem er hluti af allri jörðinni þó ekki hafi allir skilning á því. En úr því má að sjálfsögðu bæta með opinni og jákvæðri umræðu.

Þessi færsla þín þyrfti að vera vikuleg skyldulesning fyrir alla Íslendinga þangað til þeir eru farnir að nota sinn eigin heila til að ákveða hvað þeim sjálfum finnst réttlátt í hjarta sínu.
Það myndi hjálpa þeim sem vilja raunverulegt réttlæti að standa við sína sýn á betra landi og betri heim. Við erum ekki ein í heiminum og það vill gleymast og er ég ekki nein undantekning.

Þeir sem alls ekki vilja hlusta og taka tillit til annara flokka og fólks sjónarmiða eru væntanlega að sinna aðeins hluta þjóðarinnar sem þeir eru samkvæmt lögum  kosnir til.

Nú orðið hef ég öðlast þá skoðun eftir allskonar lífsreynslu í gegnum mörg ár (sem ég er gríðarlega þakklát fyrir í dag)  að það þarf að sinna öllum sjónarmiðum ef réttlæti (lýðræði) á að nást. Því miður virðast ekki allir skilja þetta sem eiga að vinna að velferð Íslands og Íslendinga í sammvinnu við umheiminn. Við megum ekki gleyma að við erum hluti af heiminum. Það slær greinilega réttlátt hjarta í þínu brjósti og heillinn er greinilega samtengdur því.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 23.10.2009 kl. 23:32

17 identicon

Það eru allt of margar ásláttarvillur í textanum hér að ofan, sem er svo undurfallegur - þið verðið að virða mér til vorkunnar að ég var að flýta mér....

Sólveig Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 23:42

18 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Sólveig... kærar þakkir fyrir þetta innlegg - setti þetta í sérfærslu. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 24.10.2009 kl. 01:12

19 identicon

Mér fannst Vilmundur vera "nýtt ljós" á sínum tíma.  Og enn vantar okkur svona hugsjónamenn á Alþingi.  Okkur sárvantar þá núna.........................

Vigdís Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 11:30

20 identicon

Almenningur ætti að vita upp á sig sökina. Þegar ég sem barn ólst upp við að heira fólk kappræða um stjórnmál þá heirði ég oft þessa setningu "Þetta eru allt aumingjar á alþingi. Það þorir enginn að standa upp í hárinu á þessum köllum og segja sína meiningu". Svo kom Vilmundur og þorði að segja það sem honum fannst. Man eftir því þegar hann sagði við Óla Jó, þáverandi dómsmálaráðherra í kastljósi sjónvarpsins: "semsagt löglegt en siðlaust". Þá kom það mér mjög á óvart að sama fólkið hneykslaðist á Vilmundi.

Ætli sú upptaka sé til? Hvað var það sem Vilmundi fannst löglegt en siðlaust? Það var gert grín að þessu í áramótaskaupi og þar var hann nefndur "Vélmundur"

Man eftir því að hægri menn, sem ég umgekkst, töluðu um Vilmund sem friðarspilli og uppvöðslusegg á alþingi. Þeir vilja sennilega ekki viðurkenna það í dag.

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 17:45

21 identicon

Það er sárt til þess að hugsa að fólk þurfi að deyja eða vera dáið til að tekið sé mark á eða tekið eftir því sem það hafði að segja í  lifanda lífi. Ég  verð að viðurkenna að ég beygði af er ég las um gömlu konuna sem var í apótekinu til að leysa út lyfin sín, ég fann svo mikla sorg í hjarta mínu. Þarna var þessi gamla kona sem hafði verið með í uppbyggingu Íslands og komið okkur úr moldarkofunum þreytt og lúin grátandi og skjálfandi vegna auraleysis. Afhverju þarf alltaf að skera niður hjá þeim sem  minnst eiga .Gamla fólkið hefur verið hin þögli hópur og tekið sínum örlögum oftast  án þess að kvarta en kannski eins og þessi góða kona farið að gráta þegar útséð var um að peningarnir myndu ekki duga mánuðinn.

 En svo eru aðrir sem geta bara stofnað einkahlutafélög  farið á kennitöluflakk og skilið skuldir eftir í gömlu?fyrirtækjum

og byrjað upp nýtt og  og gefið almenningi sem situr þá væntanlega uppi með reikninginn langt nef, þvílíkt siðleysi.

Er ekki ennþá búin að  skilja hversvegna þetta getur viðgengist,það er búið að tala um þetta í meira en tvo tugi ára að þetta ætti ekki að vera hægt, og að fyrirtækjaeigendur eigi að taka ábyrgð á sínu fyrirtæki standa og falla með því. en ekki þurrmjólka það og skilja það svo eftir fyrir almenning að borga .

Skuldir geta aldrei verið settar sem eignir, það vita þeir sem hafa eitthvað í höfðinu . Kannski ættu allir þeir sem skulda bönkunum eða íbúðalánasjóð  íbúðalán  sækja um að fá nýja kennitölu , setja íbúðina á nýju kennitöluna og kæra sig kollótta hvað gerist með þá gömlu..... Lenskan hefur verið hér  rétt er rangt og rangt er rétt.  Þegar að þeir sem mest hafa stuðlað að hruninu eru ekki látinir sæta ábyrgð og eru þess vegna farnir að færa sig uppá skaftið aftur, þarf svo sannarlega að koma í veg fyrir það. 

Guð blessi Ísland

Jenný Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 22:13

22 identicon

Og konan sem skrifar svona fallega um Vilmund er tengdamóðir Bjarna Ármannssonar.. Kaldhæðni örlaganna?

Heiða B Heiðars (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband