"Haltu þér saman!"

Unnur Brá Konráðsdóttir...hrópaði ég í tví- eða þrígang þegar ég reyndi að horfa og hlusta á vettvang dagsins í Silfrinu í dag. Þar sat kona sem greip hvað eftir annað fram í fyrir öðrum gestum, stal orðinu og þvaðraði botnlaust bull. Ein af þessum óþolandi gjammgelgjum á þingi sem kann enga mannasiði. Kom upp um fáfræði sína, vanþekkingu og getuleysi til að segja nokkurn skapaðan hlut af viti og ruddi út úr sér utanbókarlærðum frösum - kannski úr stjórnmálaskóla eða einhæfu skoðanaumhverfi. Svona framkoma er ekki bjóðandi áhorfendum og konan má skammast sín fyrir að eyðileggja umræðuna í eina þættinum af þessum toga sem boðið er upp á í íslensku sjónvarpi. Og því miður var hún eini fulltrúi kvenþjóðarinnar í þessum þætti.

Ég held að það sé misskilningur að opna Silfrið fyrir stjórnmálamönnum aftur. Mér er mjög minnisstæður feginleikinn sem greip um sig í þjóðfélaginu fyrir ári þegar þeim var úthýst og "venjulegu fólki" boðið að koma og ræða málin. Á meðan sá háttur var hafður á fengu allir að ljúka máli sínu, sýndu hver öðrum og þáttastjórnanda almenna kurteisi og áhorfendum þá sjálfsögðu virðingu að gjamma ekki eins og fífl, grípa orðið, tala ofan í aðra, leyfa fólki ekki að ljúka máli sínu og almennt að haga sér eins og illa upp aldar gelgjur. Áhorfendur Silfursins fengu miklu meira út úr umræðuköflum þáttanna og þeir sem voru hættir að horfa á Silfrið, að mestu leyti vegna fyrrgreindra gjammara, fóru að horfa aftur og líkaði vel.

Tveir viðmælendur Egils í dag voru með glærur. Þetta virkar ekki nógu vel - a.m.k. ekki fyrir mig. Mér finnst ekki gott að sjá hvað á glærunum stendur, jafnvel þótt skjárinn sé stór. Ég varð vör við á Fésinu í dag að fleiri voru á þessari skoðun, svo ég fékk glærur Jóns F. Thoroddsen sendar í tölvupósti og er búin að stækka þær og setja inn í þetta albúm. Fólk getur þá opnað þar og stækkað hverja glæru fyrir sig á meðan það horfir aftur á umfjöllun Jóns um gervimarkaðinn sem hér viðgekkst í fjármálalífinu. Ég vonast til að fá glærur Hjálmars Gíslasonar líka og meðhöndla þær þá á sama hátt með þeim kafla Silfursins.

Jón F. Thoroddsen í Silfri Egils 25. október 2009


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Hver er þessi kona ? Nei ég spyr á fésinu

Ragnheiður , 25.10.2009 kl. 21:28

2 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Mikið óskaplega er ég sammála þér! Algjörlega óþolandi!

Ingibjörg Hinriksdóttir, 25.10.2009 kl. 22:03

3 Smámynd: Sigríður B Svavarsdóttir

Mikið er ég hjartanlega sammála þér, ég held að ég hafi hrópað þegi þú 5 eða 6 sinnum.. Konan var óþolandi. Annars var umræðan góð í dag að mínu mati. Egill verður að geta stjórnað fólki þarna.

Sigríður B Svavarsdóttir, 25.10.2009 kl. 22:05

4 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Lára Hanna. Nú finnst mér þú skjóta vel yfir markið með þessu hörðu persónulegu ummælum um umrædda þingkonu. Þó að hún sé annarrar skoðunar en þú í flestu og að orð annarra gesta Egils hafi hugnast þér betur þá finnst mér þessi dómharka þín fram úr öllu hófi. Kannski undirstrikar þetta þá miklu hörku sem er orðin staðreynd í stjórnmálaumræðunni þar sem umburðarlyndi fyrir andstæðum skoðunum er á undanhaldi.

Jón Baldur Lorange, 25.10.2009 kl. 22:10

5 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Jón Baldur...  Í rauninni hefur þetta ekkert með skoðanir að gera, heldur framkomu. Dónaskap og frekju. Í þessu tilfelli vildi reyndar svo til að mér fannst ég vera að hlusta á bilaða plötu með sömu röddinni og ég hef heyrt svo margoft áður. Rödd hríðskotatalanda sjálfstæðiskvenna sem nota allar sömu orðin, sömu frasana, hafa eftir eitthvað sem þær virðast hafa lært utanbókar og ekki örlar á sjálfstæðri hugsun. Það er mjög auðvelt að heyra (og sjá) hvort fólk talar af einlægni og meinar það sem það segir - eða ryður út úr sér frösum sem það skilur varla einu sinni sjálft.

Ég skrifaði pistil um mjög svipað mál hér - þar var um að ræða tvo karla, einn úr Framsókn og annan úr Samfylkingu.

Lára Hanna Einarsdóttir, 25.10.2009 kl. 22:22

6 Smámynd: Sveinbjörn Ragnar Árnason

Algjörlega sammála Láru. Ósjálfstæð í óSjálfstæðisflokknum. Frasakelling.

Sveinbjörn Ragnar Árnason, 25.10.2009 kl. 22:28

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Svo var ég ekki að tala um persónuna, Jón Baldur. Nefndi hana ekki einu sinni á nafn. Ég var að gagnrýna ruddalega framkomu þingmanns (konu reyndar) í umræðuþætti í sjónvarpi sem mér fannst auk þess ekki hafa nokkurt vit á því sem um var rætt.

Ég minntist ekki á orð annarra gesta eða hvort þau hugnuðust mér betur eða verr en hennar. Konan truflaði hina gestina og gerði þeim ekki kleift að ljúka máli sínu.

Lára Hanna Einarsdóttir, 25.10.2009 kl. 22:32

8 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Ég var farinn að halda að Þorgerður Katrín hefði farið í strekkingu og fyllingu.

En, sorrý bara enn ein copy-paste síbyljan frá Sjálfstæðisflokknum.

Níels A. Ársælsson., 25.10.2009 kl. 22:35

9 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þetta var pínlegt fyrir Egil, en hann er pínuhræddur eftir tiltalið frá Birni..

Eg er sammála Láru Hönnu, þessar kerlingar eru eins og grjót í flagi, þeim skolaði á þing með vorleysingunum afþví enginn ómakaði sig við að henda þeim í burtu

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 25.10.2009 kl. 22:39

10 Smámynd: Bryndís G Friðgeirsdóttir

Mér leið einmitt eins og þér Lára, mig langaði til að heyra hvað viðmælendurnir væru að segja en það var mjög erfitt því konan greip stöðugt frammí og jafnvel talaði látlaust meðan aðrir höfðu í raun orðið og voru að svara spurningum Egils. Þetta er alveg óháð því sem hún hafði að segja, ég er sammála þér Lára um það. 

Svo mætti Egill jafna hlutföllin með því að hafa fleiri konur í silfrinu.

Bryndís G Friðgeirsdóttir, 25.10.2009 kl. 22:43

11 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

p.s og ég get alveg nafngreint þær: Ragnheiður Elín, Þorgerður Katrín, Vigdís Hauks, Eygló Harðar, Unnur Brá, Birgir Ármanns og svo framvegis.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 25.10.2009 kl. 22:44

12 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það er nú alveg satt að sumir þingmenn eða frambjóðendur, og þetta á sérstaklega við sjallaflokk, hafa dáldið sérstaka framsetningu eða tjáningarmáta - sem hlýtur bara að vera kenndur í einhverjum "skóla" eða svoleiðis.  Uppeldisstöð.

 Þetta er sirka svona stíll:  Bla bla babb babb bla bla babb babb etc útí hið óendanlega.   Flatt, yfirborðskennt, tilbreytingar og innihaldslaust.

Þetta er nefnilega soldið áberandi með sjalla í yngri kantinum.

Og eg er ekki frá því að það sé farið að bera á þessu í öðrum flokkum líka.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 25.10.2009 kl. 23:26

13 Smámynd: Eygló

Mér finnst rakinn dónaskapur að grípa frammí hvað eftir annað.

Þáttarstjórnandi verður að hafa hemil að þátttakendum.

Ólíðandi.

Eygló, 26.10.2009 kl. 00:43

14 Smámynd: Þórólfur Ingvarsson

Ég er samál þér í því Lára að konan var dóni en mér finnst þetta segja nokkuð um það að Egill hafði ekki stjórn á þættinum, honum var alveg í vald sett að stoppa dömuna af hefði hann viljað. Kannski var það ætlun Egils að lata hana verða sér til skammar og sé það raunin þá tókst það.

Þórólfur Ingvarsson, 26.10.2009 kl. 00:56

15 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr konan var óþolandi. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.10.2009 kl. 01:01

16 Smámynd: Eygló

Góð pæling hjá Þórólfi: "Kannski var það ætlun Egils að lata hana verða sér til skammar".  Þekkt aðferð og útsmogin. Vona að það hafi verið ráðagerðin.

Eygló, 26.10.2009 kl. 01:16

17 identicon

Þessi kona var algerlega óþolandi og eyðilagði umræðuna. Það er nú ekki oft sem ég tala við sjónvarpið en í þetta sinn datt út úr mér: Værirðu til í að halda þér saman f..... þitt.

Sigríður Halldórsdóttir (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 02:06

18 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mér fannst pro AGS, pro IceSave og Pro alþjóðarvæðingarslagsíðan verri í þessum þætti en nokkru sinni fyrr.  Ég held að Egill megi alveg taka þá gagnrýni til sín, sem hann hefur fengið.  Hún er uppi fyrir ástæðu, þótt sumir fari í heldur miklar hæðir með það.  Sama Samfylkingarslagsíðan er raunar víðar hjá RUV.

Rök þessarar frasastelpu fyrir virkjunum voru þau að við þyrftum að fá erlenda fjárfestingu til að skapa störf??? Fyrir það fyrsta var henni bent á að ekki væri til orka og að orkunotkun til Áliðju væri mesta sóun á auðlindum, sem hugsast getur , auk þess sem nefna máað störfin eru afar takmörkuð og að það er enginn áhugi á fjárfestingu hér nema aðvið látum allt fyrir ekkert. Seinna í þættinum var raunar sýnt að allt góðærið var nánast engin erlend fjárfesting hér nema að takmörkuðu leyti í tveim fyrirtækjum, restin af verðbréfamarkaðnum eða wooping 80% var blöðrumaskína þriggja samtvinnaðra banka.

Þór var sáeini, sem talaði þarna af einhverju viti og yfirvegun og ekki er ég fyrstur til að mæra hann.  Séra Baldur var kjammalamandi hrokafullur og yfirlætisfullur og lét eins og hann gæti talað niður til allra í geistlegu umboði. Má ég frábiðja mérþann gapuxa meir. Svona innihaldslausum sleggjudómum er nóg af á blogginu. Ég hafði respektfyrir þessum mani hér áður, en nú er hann eitt mesta erkifíflið íþessari umræðu. Sorry Baldur. Þú ert bara algerlega búinn að missa það.

Jón Steinar Ragnarsson, 26.10.2009 kl. 03:54

19 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Og Egill er að sjálfsögðu að missa það líka. Sorry Egill. Þú ert ekki í neinum tengslum við þjóðarpúlsinn lengur. Ég skora á þig að sýna meiri skaligheit...

Jón Steinar Ragnarsson, 26.10.2009 kl. 03:57

20 Smámynd: Sævar Einarsson

Ég hef aldrei skilið orð af því sem Egill segir, hann minnir mig alltaf á "Erlend" í Spaugstofunni

Sævar Einarsson, 26.10.2009 kl. 06:51

21 identicon

Þessi Vettvangur dagsins er kominn í gamla farið. Íslenskir flokkshestar eru það fyrirsjáanlegasta sem er til. Það er nóg að sjá hver eru mætt í settið til Egils - og skrúfa svo niður hljóðið og bíða eftir framhaldinu. Nú eru það viðtölin ein sem fleyta þættinum áfram.

Við þetta bætist að Egill er alltof blíður karakter til að tjónka eitthvað við frekjur og dóna.

Hvernig væri að við skoruðum öll á hann að leggja Vettvanginn annað hvort niður eða bjóða til hans aðeins þeim sem ekki koma úr frasaskólum flokkanna? Eins og hann gerði með góðum árangri fyrstu mánuðina eftir hrun.

"Umræður" eins og þessar eru ekki boðlegar, svo kurteislega sé til orða tekið.

Magnús Jónsson (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 07:53

22 identicon

Hvaða gjammandi ljóska var þarna eiginlega á ferð ? Var hún kanski send þarna inn af Birni Bjarnasyni ? 

Stefán (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 08:56

23 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Mörður er nú frægur fyrir einmitt að gjamma frammí fyrir ræðumönnum, nú var hann yfirtrompaður og röggsemi þingmannsins fór auðsjáanlega fyrir brjóstið á vinstra liðinu og nú er gripið til þekktra frasa úr herbúðum þeirra.  Hún hefur ekkert ,,vit" á málefninu, hún er búin til í stjórnmálaskóla og svo framvegis.

Hvað með svarkana Ingibjörgu og fl.  Hvað voru þær??

Varla verða þær kallaðar dannaðar og kurteisar.

 Þetta er auðvitað bara birtingamynd hræðslu við stelpur með töggum í  af hægri kantinum.

Nú fá vinstrið smá smjörþef af sínum meðulum.

Mibbó

Bjarni Kjartansson, 26.10.2009 kl. 09:39

24 identicon

Það sama gerðist hjá mér, ég öskraði á hana að halda kjafti. Og ég er fremur dagfarsprúð kona. Þór var rosa góður enda sá eini að benda á mikið óréttlæti. Enginn annar gat talað um það eða réttlætt. Ekki einu sinni kjaftaskurinn Mörður.

Blaða- og fréttamenn hafa ekki greind til að fara ofan í saumana á þessum nýsamþykktu lögum. Það sem var kippt út á síðustu stundu, var bara heimild til að skattleggja ekki niðurfellingu fyrir kúlulánþega. Inni er niðurfelling fyrir kúlulánþega, bara skattlagningin ekki.

Og gert er ráð fyrir að bankarnir og lánastofnanirnar séu ráðgefandi aðilar í þessum greiðsluaðlögunum. Fjölskyldur þurfa sem sagt að leita ráðgjafar hjá þjónustufulltrúunum sem ráðlögðu þeim að taka öll þessi lán árin fyrir hrun. Þá gagnaðist það bönkunum því skuldir voru reiknaðar sem eign bankanna og hjálpuðu bönkum að fá lán erlendis.

Rósa Halldórs (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 09:45

25 identicon

Skil ekki hvað þú ert að draga hana sérstaklega út, gat ekki betur séð en að hún og Mörður gjömmuðu hvort ofan í annað í þættinum. Síðan er mér fyrirmunað að skilja af hverju þú svo gott sem kallar hana heimska, allavega fáfróða bara af því að hennar skoðanir samrýmast ekki þínum eigin. En þetta er þitt blogg, gott og vel.

Ég ætla líka að leyfa mér að efast um að feginleiki hafi gripið um sig í þjóðfélaginu öllu yfir þeim viðmælendum sem Egill valdi til sín síðasta vetur. Ég mæli allavega fyrir sjálfan mig og marga sem ég þekki að við hættum að horfa á Silfrið, eftir að hafa haldið tryggð við það síðan það var á Skjáeinum. Bölsýnin og dramatíkin var einfaldlega orðin of mikil og alveg hreint djöfullega leiðinleg.

M.b.k.

Þórður Ingi

Þórður Ingi (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 10:02

26 identicon

Alveg steríótýpan af sjálfstæðiskonu. Frasakennd, ósjálfstæð ef ekki klárlega heimsk.

Tönnlaðist á blessuðum störfunum þrátt fyrir að það sé tæpast kreppa á atvinnumarkaði. Það er kreppa á fjármálamarkaði. Ítrekað bent á þá sóun í orkunýtingu sem liggji á bakvið hvert starf í áliðnaði. Ítrekað bent á að flest atriði varðandi orkuöflun og línulagnir sé óklárað og óvíst en málið sé keyrt áfram að þrýstihópum.
Já ég bað hana líka vinsamlegast um að halda kjafti og vonandi að það bæði heyrist og sjáist sem minnst til hennar í framtíðinni.

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 10:56

27 identicon

Það er náttúrulega alveg óþolandi þegar hægri  menn grípa fram í, vita þeir ekki að það eru bara vinstri menn sem meiga grípa fram í.

Loori (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 11:37

28 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Stjórnmálaskoðanir og kyn fólks skiptir ekki máli þegar um svona ruddalega framkomu er að ræða, Loori. Kíktu t.d. á pistilinn sem ég bendi á með slóð í athugasemd nr. 5. Þar er verið að tala um karla í Samfylkingu og Framsókn.

Lára Hanna Einarsdóttir, 26.10.2009 kl. 11:49

29 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Skilaboð þín Lára Hanna til kvenna með þessu bloggi eru þau sömu og samfélagið hefur sent til kvenna í margar aldir.

Skilaboð þín eru "Haltu kjafti og vertu sæt".

Vissulega var þingkonan hvimleið þegar hún greip orðið í byrjun þáttar og hélt því eins lengi og hún gat og passaði sig alltaf á því að tala hratt og viðstöðulaust og gefa helst engum kost á að komast að. Þetta er hins vegar ekki hennar uppfinning. Þetta er orðræðuklækir sem margir stjórnmálamenn hafa notað, John F. Kennedy var snillingur í því að halda orðinu og tala hratt svo ég nefni eitthvað dæmi. Þingkonan hefur eflaust fengið leiðsögn hjá fjölmiðlafólki á vegum Sjálfstæðisflokksins áður en hún fór í þennan þátt og þetta var hennar taktík og hún virkaði alveg. Hún greip orðið og hélt því.  Það var nú bara flott. Hún stóð sig nokkuð vel ef ræðukeppni-framhaldsskólanna mælikvarði er settur á þetta.

Gallinn var hins vegar að hún hafði lítið sem ekkert að segja og talaði eins og þú segir í frösum. Því er ég  sammála. Hins vegar tala bæði  Illugi Gunnarsson og Bjarni Benediktsson og margir fleiri stjórnmálamenn líka alltaf í frösum. Þorgerður Katrín og Katrín Júl. iðnaðarráðherra virðast líka alltaf tala í frösum svo ég gæti jafnræðis og telji upp jafn margar konur og karla í frasapólitíkinni.

Það er raunar einkenni á frekar mörgum stjórnmálamönnum sérstaklega í Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni að þeir tala í frösum. Sérstaklega gildir þetta þar sem mikil hjarðhegðun er og ekki er þolað að einstakir þingmenn hafi sjálfstæðar skoðanir. 

Það fer í taugarnar á þér að sú sem var duglegust í að grípa orðið var ekki nógu kurteis að koma öðrum að, öðrum sem þér fannst segja eitthvað skynsamlegra.  Það er skrýtið  að þú skulið ekki vilja horfa á kynjaða hlið á þessu og horfast í augu við hve dómhörð þú ert á það ef kona dirfist að nota sömu aðferðir og sömu orðræðu (hversu vitleysisleg sem hún er) og strákarnir

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 26.10.2009 kl. 12:26

30 identicon

Ég vil taka tvennt fram.  Annars vegar horfði ég á þáttinn rétt í þessu og hins vegar er ég enginn sérstakur aðdáðandi Sjálfstæðisflokksins (auk þess mun langur tími líða þar til eg tel hann kosningahæfan).  Ég er á öðru máli en þú Lára.  Vitaskuld greip hún frammi fyrir öðrum en ekki í neinu stórkostlegu óhófi.  Mér finnst einnig frekar djúpt í árina tekið að segja að hún hafi "þvaðrar botnlaust bull" sem einkenndist af vanþekkingu.  En þetta er bara mín upplifun.  Það getur vel verið að aðrir hafi upplifað þetta með öðrum hætti.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 12:31

31 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Nei, Salvör - þú misskilur gjörsamlega skilaboð mín til kvenna með þessum pistli - og karla reyndar líka. Ætli ég væri nú ekki með þeim síðustu sem viðhefði "Haltu kjafti og vertu sæt" ummælin. Ég vísaði sérstaklega í athugasemd nr. 5 í þennan pistil þar sem ég skamma tvo karla fyrir þessa sömu framkomu. Vanvirðingu við hvor annan, stjórnanda þáttarins og áhorfendur með eilífum framígripum og gjammil. Svona framkoma einskorðast alls ekki við konur, nema síður sé, en vissulega beita stjórnmálamenn og -konur svona "taktík" í meira mæli en aðrir - hver svo sem tilgangurinn er og hvaðan sem taktíkin er upp runnin.

Ég veit að þetta er auðvitað ekki hennar uppfinning, sbr. tilvitnaðan pistil um svipað mál, en þessi tjáningarmáti finnst mér óþolandi, hver sem beitir honum. Þetta eru hvorki samræður né rökræður og ég hef í mörgum pistlum gagnrýnt þennan framhaldsskóla-Morfís-ræðukeppnisstíl sem íslenskir stjórnmálamenn og -konur nota í málflutningi sínum. Bæði karlar og konur og fólk úr öllu pólitíska litrófinu. Það fer ekki síður í taugarnar á mér þegar fólk sem ég er sammála beitir slíkum aðferðum. Mér finnst þetta alltaf dónaskapur enda var mér kennt af foreldrum mínum frá blautu barnsbeini að maður grípur ekki fram í fyrir fólki. Samkvæmt því væri ég handónýt í pólitík.

Er nema von að komið sé fyrir íslenskri þjóð eins og raun ber vitni þegar boðið er upp á "málflutning" af þessu tagi þar sem frasarnir fljúga, aldrei er hlustað á mótherja og engin rök færð fyrir nokkrum hlut. Og hér skiptir engu máli hvort kynið á í hlut.

Lára Hanna Einarsdóttir, 26.10.2009 kl. 12:58

32 Smámynd: Haraldur Hansson

Í athugasemd númer 7 segist bloggari ekki vera að tala um persónuna. "Nefndi hana ekki einu sinni á nafn".

Það þarf ekki að nefna nöfn þegar birt er mynd af persónunni og fyrir ofan myndina stendur "Haltu þér saman!". Eftir að hafa séð fáeina mínútur ákvað ég að eyða ekki meiri tíma í Silfrið. Þær mínútur sem ég sá var jafntefli í frammígjammi milli Marðar og konunnar sem er ekki einu sinni nefnd á nafn. Ákvað að nota frekar tímann til að lesa þetta frumvarp.

Haraldur Hansson, 26.10.2009 kl. 13:03

33 identicon

Hjartanlega sammála þér Lára Hanna.  Þessi kona var gersamlega ólíðandi og á sama stigi og margir fleiri þingmenn/konur í yngri kantinum sem þvaðra látlaust einhverja upplærða frasa sem, einsog þú réttilega segir, hafa lært utanbókar í ungliðahreyfingum flokkanna.

Ágúst Marinósson (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 13:16

34 identicon

Ha ha ha...konan mín skildi ekkert í því hvað ég var að bölva fyrir framan skerminn, "kommon helv.....dóni ertu , hvar eru mannasiðirnir hleiptu hinum að kelling". Ég hef sjaldan séð annan eins "ruðning".

Vilhjálmur (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 13:29

35 identicon

Ég verð nú að segja að ég naut þess að horfa hana blaðra yfir mótorkjaftinn hann Mörð þarna mætti hann ofjarli sínum í "fram í blaðri" og þeirri list að halda orðinu. Það er ekki oft sem maður sér blaðrarann hann Mörð vera blaðraður í kútinn.

Loori (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 13:52

36 identicon

Hjartanlega sammála - konan var algerlega óþolandi!  Þvílíkir frasar!!!!  Svo klikti hún út með frasa dauðans;  stjórnmálamenn eru í stjórnmálum AF HUGSJÓN !!!! Já einmitt - ha ha ha ha ha ha ha ha - ekki fólki bjóðandi.

Ömurleg og konum til háborinnar skammar.  Vona að Egill leyfi henni ALDREI að koma í þáttinn aftur - og engu svona frasaliði sem gjabbar einhvern fyrirfram ákveðin áróður sem svar við öllu - svona náhirðar frasar - vantar ekkert nema HÆL DAVÍÐ OG HÆGRI HÖND Á LOFT!

Margrét (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 14:06

37 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

Þessi umræða minnir mig á ástandið á Alþingi. Ég man ekki í aðra tíð eftir framíköllum og skrílslátum eins og nú tíðkast þar. Nú vikunni stóð Unnur Brá sig reydar manna best í að reyna að stemma stigu við þessu úr forsetastóli.

Meðal annarra orða: Finnst ykkur að þeir sem oftast koma í pontu Alþingis séu þeir sem hafa mest til málanna að leggja?

Guðl. Gauti Jónsson, 26.10.2009 kl. 14:11

38 identicon

Þetta er nú meira níðbloggið.

Ég vona að þetta grói áður en þú giftir þig Lára mín.

Borat (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 14:14

39 Smámynd: Héðinn Björnsson

Hún gerir ekkert annað en þingmennirnir á undan henni hafa alltaf gert, en við erum kannski ekki vön að heyra kvennmann grípa fram í til jafns við karlana. Væri annsi gott að hvíla þingmennina aftur í silfrinu.

Héðinn Björnsson, 26.10.2009 kl. 14:17

40 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Hefðir þú skrifað þetta, Lára Hanna, ef á ferðinni hefði verið þingmaður Samfylkingar eða VG? Held ekki. Þessir flokkar hafa þó sent ófáa gjammara í gegnum tíðina í Silfrið og aðra umræðuþætti. OG síðustu ár hefur einmitt Mörður verið hvað duglegastur að gjamma. Var þó stilltur í gær.

Sigurjón Sveinsson, 26.10.2009 kl. 14:57

41 Smámynd: Helgi Már Bjarnason

Bíddu Lára, ég hélt að þú værir hætt á Mogga blogginu.  Æ já, þú hefur líklega verið farin að ókyrrast vegna þess að fólk hætti að taka eftir þér. :)

Mörður er nú meistari í dylgjum og órökstuddum lúmskum aðdróttunum.  "Að gera hlutina tortryggilega..." öðlast nýja merkingu hjá Merði Árnasyni og hefur alltaf gert. :)   Og svo ræðst þú á nýjan þingmann sjálfstæðisflokksins....og kynsystur þína í þokkabót. Undirstrikar enn og aftur hvað þú ert alltaf biazed. 

Helgi Már Bjarnason, 26.10.2009 kl. 15:35

42 identicon

Glærurnar úr Silfri Egils í dag:

Silfur Egils 2009 10 25
(í réttum litum og 3-4 glærur sem .. náði ekki að fara yfir)

http://twitter.com/hjalli/status/5157610858

Sigurdór Guðmundsson (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 16:00

43 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Mér fannst hún nú bara skelegg og ef þið þolið ekki frammíköll ættuð þið ekki að hlusta á Silfur Egils. Egill Helgason er einn mesti frammíkallarinn sem sést hefur í sjónvarpi og frægur að eindæmum að því að hann leyfir oft viðmælendum sínum ekkert að tjá sig heldur heldur einræður. Mörður er líka frægur fyrir þetta. Þarna hittu skrattar ömmu sína. Hún var líka eina skynsama röddin í þættinum.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 26.10.2009 kl. 16:44

44 identicon

Mér þætti vænt um Adda Þorbjörg ef þú gætir útskýrt fyrir mér og fleirum hvaða "skynsemi" hljómaði úr hennar munni.
Það fór nefnilega algjörlega framhjá mér!

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 17:06

45 Smámynd: Óðinn Þórisson

Ætli gagnrýni þín hafi eitthvað að gera með það að Unnur Brá er þingkona Sjálfstæðisflokksins - nei það getur ekki verið -

Óðinn Þórisson, 26.10.2009 kl. 18:22

46 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það er auðvitað ekki hægt að líta framhjá því að mikil aðför hefur verið gerð af Sjöllum að umræddum þáttastjórnenda undanfarið eins og kunnugt er.  Hann sé "ólöglegur" samkv. sjallalögum og eg veit ekki hvað.

Nú, einn Sjálfstðismaðurinn lýsti því yfir ekki fyrir svo löngu að "Egil fífl Helgason ætti að hengja í nærsta ljósastaur"  (Eg er ekki að ljúga þessu)

það gæti verið planið hjá sjallakurfum að reyna að eyðileggja þáttinn svona.  Þ.e. haga sér bara eins og asnar í honum því það má víst ekki vera svona þáttur nema einhver sjallakurfur sé þar.  Annað er sjálfsagt "ólöglegt" 

En náttúrulega ættu sjallar að biðja Egil afsökunnar á framferði sínu. 

Ómar Bjarki Kristjánsson, 26.10.2009 kl. 18:44

47 identicon

Ég geri fastlega ráð fyrir að þessi manneskja (Unnur Brá) mun ALDREI stiga fæti aftur inn í sett Silfur Egils. Hún var fyrst og fremst sjálfri sér til skammar, engum öðrum. Hvílíkur frekjugangur. Og það versta var, ekkert vitrænt kom upp úr henni. Er ég að borga af mínu skattfé til að halda uppi svona jólasveini. JAHÉRNA!!!

Doddi (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 19:37

48 Smámynd: Roger Ebert (í þýðingu Hrannars Baldurssonar)

Silfur Egils hefur verið eini þátturinn sem ég hef nennt að horfa á í sjónvarpi, og það var einmitt þegar fólk með vandaðar skoðanir fór að koma sínum hugmyndum á framfæri án þess að hafa hagsmuni að gæta. Því miður virðist þátturinn vera að detta niður í sama gamla farið. 

Spurning um að fá fólk sem getur rökstutt skoðanir sínar um til dæmis Evrópumálin og AGS, svona til að dýpka umræðuna frekar en að sundra henni.

Roger Ebert (í þýðingu Hrannars Baldurssonar), 26.10.2009 kl. 20:10

49 identicon

Sigurjón Sveinsson skrifar:

"Hefðir þú skrifað þetta, Lára Hanna, ef á ferðinni hefði verið þingmaður Samfylkingar eða VG? Held ekki. Þessir flokkar hafa þó sent ófáa gjammara í gegnum tíðina í Silfrið og aðra umræðuþætti. OG síðustu ár hefur einmitt Mörður verið hvað duglegastur að gjamma. Var þó stilltur í gær"

Hún hefur skrifað svipaða gagnrýni um amk þingmann Samfylkingar.

Og Helgi Már Bjarnason:

Hvaðan hefur þú það að Lára Hanna hafi verið hætt að blogga á moggablogginu? Dreymdi þig það eða..?

og ef Adda Þorbjörg telur Unni hafa verið rödd skynseminar þá hlýtur hún að hafa farið hrapalega á mis við skynsemi allt sitt líf.

Heiða B Heiðars (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 21:42

50 identicon

Auðvita verða stjórnmálamenn að fá að koma fram í silfrinu eins og aðrir. Hitt er svo annað mál að silfrið verður líklega að gjalli ef Egill grípur ekki í taumana. Mér fannst allavega gamla Kastljós með tómum pólitíkusum og ráðherrum vera tóm þvæla hér á árunum áður, en það er önnur saga. Einhvernveginn finnst mér hefðbundin pólitík, hugmyndalega séð, orðið gjaldþrota laungu áður en æseif fyrst leit dagsins ljós. Skil eginlega ekkert í því að nokkur maður með fullu viti nenni þessari vitleysu lengur.

The Outlaw (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 21:52

51 Smámynd: Billi bilaði

Dapurlegt að sjá hvað margir skrifa athugasemdir án þess að lesa það sem skrifað hefur verið. T.d. athugasemdir 40 og 45.

Billi bilaði, 26.10.2009 kl. 22:26

52 identicon

Vel til fundið að taka þetta mál fyrir. Sammála því að þingkonan var með óþolandi gjamm og frammíköll en hitt var þó ekki skárra að það vantaði öll málaefnaleg rök hjá konukindinni. Finnst þetta vera orðið nokkuð áberandi hjá íhaldinu. Málflutningur án raka.

HF (IP-tala skráð) 26.10.2009 kl. 22:29

53 identicon

Sæl, Lára Hanna.

Ég ætla bara að hafa þetta einfallt. Ég man ekki eftir öðrum eins yfirgangi á nokkurri persónu í viðmælendaþætti og þessum þú tiltekur. Það var eins og hún væri að koma úr margra mánuða einangrun ! 

Ég er algjörlega sammála þér. Kveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 03:59

54 identicon

Ég er hjartanlega sammála gagnrýni þinni Lára Hanna og styð þig fyllilega. Ég slökkti einfaldlega á sjónvarpinu því ég þoldi ekk hávaðann. En mig langar til að koma hér inn með smá vangaveltur varðandi val Egils Helgasonar á viðmælendum. Ég tek það fram að ég hef ekki haft sjónvarp á mínu heimili í 7- 8 undangengin ár og treysti ekki íslenskum fjölmiðlum, vegna hagsmunatengsla þeirra og oft augljósra tilhneiginga til leti og vinsældaveiða. Mín aðferð var að fylgjst með því sem var að gerast á Íslandi í gegnum erlenda netmiðla. En nú hef ég fengið mér sjónvarp. Íslensk blöð nenni ég vart að lesa. Ég fylgist þó með blogginu þínu og verð að votta mér samúð mína að þurfa að vera inni á Mogganum. Vonandi kemstu burt þaðan sem fyrst. En að efninu. En takk fyrir framlag þitt til heilbrigðra skoðanaskipta.
Seinni hluta nóvember í fyrra hringdi til mín kona og benti mér á að Silfur Egils hefði stórbatnað eftir að hann fór að draga ræðufólk af mótmælafundunum á Austurvelli inn í þáttinn. "Loksin var aftur orðið horfandi á þáttinn" sagði konan.

Nú eru engir mótmælafundir á Austurvelli og þátturinn setur niður í gamla farið. - Umhugsunarvert.

Hörður Torfason (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 05:26

55 identicon

Heyrðuð þið í (Lyga-) Merði í´"íslandi í bítið" á Bylgjunni í morgunn,  ansi fróðlegt.

Loori (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 09:19

56 identicon

Er sammála því að þingmaðurinn var ókurteis og vakti furðu mína hvað Egill hafði litla stjórn á blessaðri konunni. Um síðustu helgi fékk tollþjóninn líka að valta yfir Ómar Ragnarsson að vild. Hvað er að gerast hjá Agli?

Sigrún P (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 12:25

57 Smámynd: SeeingRed

Vona bara að Egill hætti snarlega að hleypa raunveruleykafirrtum stjórnmálafígúrum í þáttinn svo að horfandi sé á hann áfram, þær hafa ekkert fram að færa af viti og þátturinn minnir á kjánalegar morfísæfingar sem senda aulahroll um allan búkinn...sem er eitthvað sem við þurfum og ættum síst af öllu að þurfa að horfa upp á og heyra þessi misserin, af merkingarlausu gjammi og froðusnakki flokksjálka höfum við fengið nóg og á það við allra flokka pótintáta.

SeeingRed, 27.10.2009 kl. 19:10

58 identicon

Mér finnst þetta dónaleg bloggfærsla hjá þér. Þessi kona var ekkert verri eða betri en aðrir pólitíkusar sem sjást í sjónvarpi. Ég hef eins og þú, oft gargað á fólk í sjónvarpinu sem sýnir yfirgang og frekju í útsendingu. T.d Mörð - sem er gjammari af guðs náð, Ingibjörgu Sólrúnu, Þorgerði Katrínu og meira að segja Egil Helgason... en eitt er að agnúast út í þá sem eru á andstæðum meiði í pólitík en annað að birta mynd af þeim og með svona upphrópunum eins og "Haltu þér saman"!  Þessi orð hitta þig sjálfa fyrir.

Soffía (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 21:45

59 Smámynd: SeeingRed

Soffía, ef þú hefðir lesið pistilinn hefðir þú séð að Lára átelur fólk úr fleyri flokkum fyrir það sama...lesa fyrst, kommentera síðan.

SeeingRed, 27.10.2009 kl. 22:56

60 Smámynd: halkatla

Erfiðasti gesturinn sem ég þurfti að hlusta á og horfa á í þættinum hjá Agli hér í den - svo um munar - var HANNA BIRNA BORGARSTJÓRI, það var ekki eðlilegt hvað hún gat öskrað hátt og talað hratt og mikið um ekki neitt. Það var alltaf einsog hún væri stjórnlaus af reiði og ósátt við allt og alla! Ég gat ekki einu sinni öskrað á hana til baka því eyrun á mér urðu strax dofin við það að sjá að hún væri mætt. Ég kallaði hana alltaf öskurapann, hún var með endalausa frasa og frekju og froðufellandi yfir alla, það var ógeðslegt að horfa uppá hana en gat líka verið pínulítið fyndið, í mjög miklu hófi. Þessi Unnur Brá hefur sennilega lært sína sjónvarpsframkomu af henni... en hávaðinn, díses kræst, mig dreymdi um eyrnatappa þegar HB var GJAMMANDI sitt vanheilaga ofstæki! Sem betur fer fyrir hana þá hefur hún aðeins skánað síðan hún fékk völd og hætti að vera kjölturakki. En ég fæ ennþá hroll niður eftir bakinu þegar ég sé hana eða heyri í henni, hún gæti verið að raula vögguvísu og ég myndi samt fá noju.

halkatla, 28.10.2009 kl. 12:39

61 identicon

Er einhver hér, sem hefur akkúrat ekkert að gera af viti, sem nennir að telja frammíköll Unnar og hinna viðmælendanna?  Sjálfur nenni ég þessu tæplega.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 19:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband