Er Rússland glæparíki?

BBC World NewsÉg horfði á fréttir á BBC World sem oftar í gær og ein frétt vakti athygli mína umfram aðrar. Þar sagði bandarískur fjárfestir, Bill Browder, sem verið hefur með starfsemi í Rússlandi síðan 1990, farir sínar ekki sléttar og fullyrti í viðtali við BBC að Rússland væri algjört glæparíki. Sú saga er reyndar langt í frá ný af nálinni og margar frásagnir til af því hvernig kaupin gerast á þeirri eyri. En þessi saga Browders var sérlega óhugnanleg þar sem hann hélt því fram að yfirvöld í Rússlandi hefðu látið lögmann sinn deyja í fangelsi, fárveikan, og neitað honum um læknishjálp.

Ég skoðaði viðtöl við Bill Browder á BBC-vefnum en gúglaði hann ekkert frekar. Hjá BBC kenndi ýmissa grasa og með því að renna yfir fréttir af Browder þar er hægt að fá grófa heildarmynd af deilum mannsins og Rússanna. Hér er viðtal frá 2002 þar sem hann segir frá upphafi fjárfestinga sinna í Rússlandi, Asíukreppunni 1997 og áhrifum hennar o.fl. Hér er brot úr viðtali við Browder frá júlí 2008 um ásakanir hans á hendur Rússum og hér er langt viðtal við hann í Hardtalk-þættinum frá september 2008 (afleit myndgæði) þar sem hann talar um viðskipti sín við Rússa og hvernig hann var hrakinn þaðan af yfirvöldum og eignir hans teknar af honum.

Hér er síðan fréttin sem vakti athygli mína í gær, nema hvað sjónvarpsviðtalið við hann í fréttatímanum var mun lengra, þarna er bara birt örlítið brot af því en stiklað á því helsta í rituðu máli. Eins og sjá má segir Bill Browder frá því að lögmaður hans, Sergei Magnitsky, hafi verið handtekinn fyrir ári og stungið í fangelsi. Þar hafði hann dúsað við illan aðbúnað og án ákæru þar til hann lést. Hann reyndi ítrekað að biðja um læknishjálp en fékk ekki og lést að því er virðist af völdum veikindanna. Browder segir að hann hafi verið gísl og að honum hafi verið refsað fyrir að vera ógnun við spillta stjórnmála- og embættismenn.

Ég fann myndband á YouTube þar sem Browder segir söguna, í stórum dráttum heyrist mér, og mér sýnist myndbandið vera gert af fyrirtæki Browders, Hermitage Capital. Ef ég hef skilið vogunarsjóði rétt virðist þetta vera einn slíkur. En lítum á myndbandið sem er alveg makalaust ef satt er.

 

Rússaspjall hefur verið talsvert hér á Íslandi í þónokkur ár, en blossað upp eftir hrun. Talað er um peningaþvætti og fleira miður fallegt. Skemmst er að minnast viðtals á Sky við Boris Berezovsky, útlægan ólígarka búsettan í London, þar sem hann fullyrti að Rússar hefðu þvegið sínar óhreinu brækur í íslenskum bönkum. Sigrún Davíðsdóttir flutti þennan fína pistil um Berezovsky í febrúar sl. þar sem fram kemur að karlinn er ekki barnanna bestur og mannorðið kannski ekki Arion Ultra hvítt (eða var það Ariel?). En eins og segir á frummálinu "It takes one to know one", sem þýðir í þessu samhengi að maður þurfi að vera skúrkur til að bera kennsl á hina skúrkana. Hann ætti því að hafa hugmynd um hvað hann er að tala. Og í sjálfu sér gerði karlinn ekkert annað en að staðfesta orðróm sem hafði verið á kreiki ansi lengi hér á landi. Ég skrifaði um þetta litla færslu í febrúar, en rifjum upp viðtalið við Boris Berezovsky á Sky.

 

Þetta leiðir vitaskuld hugann að sögusögnunum um Íslendingana, greinaflokknum úr Ekstrablaðinu frá 2006 og viðtali Arnars Steinþórssonar við danska blaðamanninn sem rannsakaði viðskipti nokkurra af íslensku útrásardólgunum sem ég birti í heild sinni hér. Í myndaalbúminu um greinarnar í Ekstrablaðinu má sjá sögur frá Rússlandi í tengslum við íslenska auðmenn. Ég er löngu búin að fá sendan afganginn af greinunum, en það hefur farist fyrir hjá mér að útbúa og setja afganginn inn. En lítum á eina viðbót hér sem gæti þótt áhugaverð í tengslum við mál Browders, lögmanns hans og orð Berezovskys. Þessi grein fjallar m.a. um morð á rússneskum bankamanni.

Og höfum í huga að verið er að tala um að fá stórt lán frá Rússum, þeir vilja reisa hér olíuhreinsistöð og eflaust koma þeir víðar við á landinu. Getur verið að ekki hafi tekist að koma öllum hreinu nærfötunum úr landi áður en gjaldeyrishöftin voru sett á? Í því samhengi má líka spyrja fyrir hverja "gjaldeyrisglugginn" var skömmu eftir hrun - þegar leyfð voru gjaldeyrisviðskipti í nokkra daga áður en lokað var fyrir aftur. Heyrst hefur af Armaniklæddum mönnum á leið úr landi með heilu ferðatöskurnar fullar af seðlum. Ætli skýrsla Rannsóknarnefndarinnar komi eitthvað inn á svona mál eða eru þau of hættuleg til að snerta á þeim? Maður spyr sig...

Ekstrablaðið -  8. nóvember 2006 - smellið þar til læsileg stærð fæst

Ekstrablaðið 8. nóvember 2006

Ekstrablaðið 8. nóvember 2006


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Sæl Lára Hanna

Skrifaði nokkra glósukafla snemma í haust með yfirskriftinni:  Var peningaþvætti stundað á Íslandi.

Leyfi mér hér að setja inn lokakaflann í þeirri samantekt.

Seinna í haust hitti ég minn (gamla) prófessor Þorvald Gylfason, og spjallaði við hann í heilan dag, á meðan við heimsóttum slóðir Stephans G Stephanssonar.

Þetta skrifaði Þorvaldur síðan á síðuna mína.

"Fjárböðunarpistlarnir þínir eru magnaðir, las þá af athygli. Með beztu kveðjum og óskum,

Þorvaldur Gylfason"

Í mínum huga er ekki spurning hvort "rússneskt peningaþvætti" hafi verið einn meginn áhrifavaldur hrunsins,  heldur hversu mikinn þátt.

Ef þetta kemur ekki fram í "sannleiksskýrslunni" þá er hún annars konar þvottur; hvítþvottur.

Þorvaldur Gylfason (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 20:29 "

Jenný Stefanía Jensdóttir, 24.11.2009 kl. 04:35

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Tek það fram að ummæli Þorvaldar gilda einungis um bláletruðu setninguna.  Restin skrifa ég sjálf undir, með fullu nafni. 

Jenný Stefanía Jensdóttir, 24.11.2009 kl. 04:36

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Rússland er glæparíki, og örugglega meira glæparíki en Ísland, en landið er líka miklu stærra og fjölmennara en Ísland! Medevev sem nefndur er í myndlingi Hermitage, er ótíndur glæpamaður. Starf hans hér áður fyrr var að njósna um Norðurlandamenn sem komu til Sovéts. 

Gaman að sjá að þú minnist frétta í Ekstra Bladet um íslensku viðundrin, þar sem öllu var blandað í belg og biðu.

Ég hringdi nýlega í Skattaráðuneyti Dana og spurði út í þessa miklu rannsókn sem Kristian Jensen lofaði. Lítið hefur nú sést til hennar og aðeins hefur verið svokölluð Kapitalfondsundersøgelse sem nú er til athugunar i Landskatteretten. Fróðir menn hér í landi segja mér að sú rannsókn verði ekki opinberuð nema að litlum hluta til.  

Ivar Norland deildarstjóri í Skattaráðuneyti Dana upplýsti mig um það áðan, að íslensk yfirvöld hefðu ekki haft samband við dönsk yfirvöld vegna viðskipta Íslenskra fjármálamanna í Danmörku. Á því sést væntanlega hvað úr verður..... EKKERT! Danir vilja ekki grafa í skít, því nóg er af honum í Danmörku líka.

Íslendingar munu því aldrei fá neitt á hreint um umsvif íslenskra glæpamanna í Danaveldi. Það drægi of feitan dilk á eftir sér!

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 24.11.2009 kl. 08:05

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Fréttir af Mafíunni í Rússlandi birtust vikulega í íslensku pressunni fyrir fáum árum. Lengi höfum við vitað að í Nigeríu er spillingin slík að enginn treystir Nigeriumanni og fólki er kennt að varast öll samskipti við fólk af því þjóðerni.

Nú skilst mér að eins sé komið fyrir okkur Íslendingum. Og gerendurnir spranga um hnakkakertir meðal okkar með þóttasvip á kókfésinu.

Árni Gunnarsson, 24.11.2009 kl. 10:24

5 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Hevvví dæmi !

Hildur Helga Sigurðardóttir, 24.11.2009 kl. 23:34

6 identicon

En Lára, er Ísland glæparíki? Eru Bandaríki Norður Ameríku ekki glæparíki? Hvernig skildi Mafían vinna í Bandaríkjunum. Auðvitað eru glæpir í Rússlandi eins og annarsstaðar. Hinsvegar er ekki ástæða að gera því skóna að í Rússlandi séu allir glæpamenn.

Haraldur Aðalbjörn Haraldsson (IP-tala skráð) 25.11.2009 kl. 15:13

7 identicon

Í þessu sambandi má líka minnnast hinnar stórundarlegu heimsóknar rússneskra auðmanna til Íslands rétt eftir hrun. Það var ákaflega undarlegt allt saman og aldrei kom fram nein skynsamleg skýring á þeirri heimsókn.

Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 27.11.2009 kl. 10:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband