Dauðadjúpar sprungur

Nú eru liðnir 14 mánuðir frá hruni. Það er meðgöngutími barns og fyrstu 5 mánuðirnir af ævi þess. Það þætti viðkomandi foreldrum langur tími. Tímaskynið er stórskrýtið því að sumu leyti finnst manni eins og hrunið hafi gerst í gær en jafnframt að það sé óralangt síðan. Við höfum verið í einhvers konar undarlegu tómarúmi - að bíða eftir flóðbylgjunum. Þær eru að skella á og munu sópa burt fólki og fémæti. Sumt er óhjákvæmilegt, annað alls ekki. Sumt er sanngjarnt, annað hræðilega ósanngjarnt. En mannfórnirnar eru aldrei réttlætanlegar. Aldrei.

Hver einasti fréttatími er uppfullur af siðleysi, sóðaskap og sukki. Bæði fyrr og nú. Þeir hafa verið það allt frá hruni. Fréttafíklar eiga bágt þessa dagana og vikurnar. Eru á barmi taugaáfalls mörgum sinnum á dag - en lesa, horfa og hlusta og geta ekki annað. Fjölmargir sem ekki eru haldnir þessari fíkn eru hættir að fylgjast með fréttum. Búnir að loka augum og eyrum til að vernda geðheilsuna. Þeir geta ekki meira. Fréttafíklarnir ekki heldur - en þeir geta ekki hætt. Ég er einn af þeim.

Þann 21. nóvember upplifði ég svolítið nýtt... Ég brast í grát yfir fyrstu frétt á bæði Stöð 2 og RÚV - sem var sama fréttin. Hún nísti inn að hjartarótum,  og ég fann vonleysi hellast yfir mig af miklum þunga. Mér fannst ég illa svikin og ég hugsaði með mér hvað heilbrigð skynsemi, skotheld rök og framsýni hafa lítið að segja á leiksviði gróðahyggju, sérhagsmuna og skammsýnna stjórnmála sem sjá aldrei lengra en fram að næstu kosningum. Ólíklegasta fólk lætur undan frekju, yfirgangi og þrýstingi þótt augljóst sé að verið er að keyra á fullri ferð ofan í hyldýpisóráð. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki búin að jafna mig á fréttinni ennþá og er ekki tilbúin til að fjalla um málið af þeim sökum. Geri það örugglega seinna. En ætli það sé til einhver meðferð við fréttafíkn?

Ég ætla að benda á og birta hér þrjár af ótalmörgum fréttum úr sjónvarpi undanfarna daga. Sú fyrsta er úr tíufréttum RÚV á fimmtudagskvöldið og fjallar um misfjölmennar nefndir Vinnumálastofnunar. Og ég spyr hvort verið sé að borga þessu fólki fyrir nefndarsetur með fé úr atvinnuleysistryggingasjóði. Fer tryggingagjald misilla launaðra einyrkja m.a. í að borga hálaunuðum verkalýðsforingjum og fulltrúum atvinnurekenda fyrir að deila og drottna í sjóðum Vinnumálastofnunar? Stjórnarformaður Vinnumálastofnunar t.d. fær greiddar 45.198 kr. á mánuði fyrir stjórnarformennskuna. Það gera 542.376 kr. á ári. Jafnframt er sagt í fréttinni að algeng þóknun fyrir stjórnarsetu hjá stofnuninni séu 20.000 krónur á mánuði. Nú þegar hafa þessar stjórnir kostað tæpar 22 milljónir króna og árið er ekki búið. Ég spyr aftur: Hver borgar?

Tíufréttir RÚV 26. nóvember 2009

 

Takið sérstaklega eftir svokölluðum "Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga". Mikil saga er á bak við þennan sjóð sem stofnaður var með lögum á vormánuðum 1997. Páll Pétursson, þáverandi félagsmálaráðherra, lagði fram frumvarp um stofnun hans um miðja nótt 2 eða 3 dögum fyrir jól 1996. Málið átti að ganga hratt í gegn en svo varð ekki af vissum ástæðum og Páll varð víst trítilóður var mér sagt þá.

Á Íslandi eru um 30.000 sjálfstætt starfandi einstaklingar, eða einyrkjar sem stunda mjög fjölbreytta starfsemi. En þessi tiltekni tryggingasjóður er eingöngu ætlaður þremur starfsstéttum og hefur verið frá upphafi: Bændum, smábátasjómönnum og vörubílstjórum. Aðrar starfsstéttir mega sækja um inngöngu en verða að vera að lágmarki 500 til að fá þar inni. Hvaða starfsstétt einyrkja uppfyllir þá kröfu? Hve margir einyrkjar eru í einhverjum hagsmunasamtökum sem mögulega gætu sótt um?

Alþingismenn eru undarleg stétt fólks. Ef maður kannaðist ekki við þá marga persónulega gæti maður haldið að þetta væru geimverur sem aldrei hefðu komist í tæri við venjulega jarðarbúa. Stór hluti þeirra leikur nú sama leikinn og í sumar - að koma upp í pontu til skiptis og segja nákvæmlega ekki neitt í mörgum orðum. Tefur fyrir því að almenningur í landinu geti raðað saman mölbrotnu lífi sínu, lagfært skaddaða sjálfsmynd, rétt úr svínbeygðri reisn og horft til framtíðar. Á meðan einhver hundruð manns funduðu fyrir utan þinghúsið og kröfðust sjálfsagðra leiðréttinga og mannlegra lífskjara kvörtuðu þeir sáran undan hungri í miðju blaðrinu og málþófinu. Leyfðu sér að auki að segja að skortur á matarhléi væri mannréttindabrot - á meðan fjöldi fólks í samfélaginu á ekki til hnífs og skeiðar og er að missa heimili sín í gin ómennskra ríkisbanka! Ég hef ekki eftir hugsanir mínar en segi bara: Af hverju hætta þeir þá ekki að leggja stein í götu almennings í landinu og drífa sig í mat? Hvað á svona fíflagangur að þýða? Þetta fólk ætti að skammast sín og ná jarðsambandi! Við borgum þeim ekki laun fyrir að tala niður til okkar og niðurlægja okkur á þennan hátt.

Fréttir Stöðvar 2 - 28. nóvember 2009

Flestir muna þegar einvaldurinn mikli veiktist og fór á spítala. Þegar hann braggaðist upplýsti hann um hugljómun sem hann fékk í veikindunum: Það bráðvantaði nýtt Hátæknisjúkrahús. Sem nú er sem betur fer kallað Háskólasjúkrahús, er mér sagt. Ég sem hélt að Landspítalinn væri búinn að vera Háskólasjúkrahús í þó nokkuð marga áratugi. En hvað um það. Síminn var seldur að eigendum hans forspurðum - þjóðinni. Fyrir slikk og með grunnnetinu, illu heilli. Nota átti andvirði Símans, eða hluta af því, til að byggja H-sjúkrahúsið. Og þótt ekkert bóli á því ennþá og Síminn hafi verið keyptur með lánum er samt búið að eyða næstum 100 milljónum í H-sjúkrahúsið. Margir hafa spurt í hvað Símapeningarnir hafi farið. Hér sjáum við það.

Fréttir Stöðvar 2 - 28. nóvember 2009

Eitt af því sem ég er döprust yfir og hefur snert mig einna mest í öllum uppljóstrununum eftir hrunið er hve margir landar mínir eru á kafi í eiginhagsmunum og spillingu og hve djúpt þeir eru sokknir. Ég á mjög erfitt með að sætta mig við að svo stór hluti þjóðarinnar minnar, sem ég hafði svo mikla trú og álit á, sé svona spilltur og samfélagsfjandsamlegur. Við erum svo fá og megum alls ekki við þessum þankagangi. Ég held að nauðsynlegt sé að skilgreina mjög vandlega hvað er spilling og hvað ekki, hvað er siðleysi og hvað ekki og hvað viðunandi framganga og hvað óviðunandi. Teitur Atlason skrifaði fjári góðan pistil sem fjallar um þetta að hluta. Lesið hann endilega. Og í tilefni af síðasta pistli mínum um banka, afskriftir og illa meðferð á fólki bendi ég á pistilinn Þekkti mann eftir Sigurjón M. Egilsson. Ég tárfelldi þegar ég las hann.

Þær eru víða, hinar dauðadjúpu sprungur. Hver hverfur í gin þeirrar næstu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Takk fyrir góðan pistil Lára Hanna,

Fréttafíkn; var léttvæg fíkn þar til fyrir 14 mánuðum.  Einlægar kveðjur til alla fíkla; eins og með alla aðra fíkn, þá læknast hún ekki, nema maður láti af "neyslunni".

Hvernig er það hægt, á meðan "fréttafíknasalarnir" ganga lausir og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist!

Stjórnvöld,  dómsvald, löggjafarvald, fjórða, fimmta og sjötta vald,  þurfa alvaralega að íhuga óþolið og spennuna sem magnast upp með hverjum degi sem líður.   Bylting kennd við búsáhöld var 2009, byltingin 2010 verður kennd við eitthvað allt annað.  Óttast það með töluverðum þyngslum.

Baráttukveðjur.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 29.11.2009 kl. 02:54

2 Smámynd: GRÆNA LOPPAN

Stjórnsýslan er okkur mikilvæg sem og störf Alþingis.

Flokksvaldið drepur upplýsta umræðu á Alþingi; hvert einasta orð virðist litað af flokkshagsmunum en ekki þjóðarhagsmunum. Ekki nokkur leið að trúa því sem þingmenn segja því allt hljómar sem flokkslygi. Karp þingmanna í fjölmiðlum hljómar eins og hróp úr umræðuleysinu á þingi og virkar eins og þingmennirnir þekki ekki hlutverk sitt. Áhugaleysi fjölmiðla og almennings á þingstörfum almennt er ógnvekjandi. Fréttirnar frá þinginu eru í ætt við mbl.is fréttir eins og þær eru orðnar núna: náttúruhamfarir, hneyksli, innbrot og íþróttir. Fréttin frá Alþingi fellur í hneykslisliðinn.

Það var opinn fundur allsherjarnefndar með umboðsmanni Alþingis 24. nóvember. Ekkert um það á mbl.is, ekkert á visir.is en loks frétt á ruv.is klukkutíma eftir að fundurinn hófst. Ég fyrir mitt leyti tel aðgengið að þessum fundi afar mikilvægt og mæli með honum (sjá Opnir nefndarfundir).

GRÆNA LOPPAN, 29.11.2009 kl. 09:15

3 identicon

Ég er svo gjörsamlega dolfallin yfir þeim umræðum sem voru á Alþingi í gær og yfirlýsingar þingmanna um svengd og matartíma að ég á ekki til eitt aukatekið orð! Það hlýtur að vera að það vanti nokkra kafla í heilabú þessara einstaklinga. Alþingi sem á að vera ein virtasta stofnun landsins er orðin eins skólastofa fyrir illa uppalin börn. Að voga sér að standa í pontu og lýsa því yfir fyrir landsmönnum að hungrið sé farið að gera vart við sig er eiginlega mjög mikill skortur á dómgreind. Væri ekki hægt að setja komandi frambjóðendur í einhverskonar gáfnapróf þannig að sauðsvartur almúgurinn viti smávegis um gáfnafar þeirra alþingismanna sem á að kjósa um?

Venjulegt fólk hér á landi berst í bökkum þessa dagana og margir eiga vart til hnífs og skeiðar. Fólk er búið að missa atvinnu í þúsundatali, þúsundir sjá fram á að missa húsnæði á næstunni og jafnvel að flýja land og þeir einstaklingar sem sitja á Alþingi gera ekkert annað en þrasa fram og aftur um ekki neitt. Getum við liðið þetta mikið lengur?

Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 09:49

4 identicon

Heyrðuð þið þáttinn hjá Sigurjóni Egilssyni í morgun????Nákvæmlega kom fram þar hversu spillt,´ótrúverðugt og rotið sumt fólk í pólitíkinni er.Með allri virðingu fyrir Sigurjóni og þætti hans þá er mér gjörsamlega fyrirmunað að skilja hversu oft kúlulánsdrottningin fær að koma fram í fjölmiðlum.Konan sem vissi ekki um viðskiptatengsl eiginmanns síns og það kom henni bara ekki við. Hún er lögfræðingur.Röflar og tuðar yfir því að það sé verið að hækka skatta til þess að borga skuldir HENNAR .Henni finnst allt í lagi að taka risalán,stofna eignarhaldsfélag vitandi að við drullupakkið og almúginn munum borga ef að illa fer eins og nú er komið í ljós.Mér og fleirum er svo misboðið gagnvart þessu gegnumspillta stjórnmálaliði.Í gær kvarataði þingkona á Alþingi um það að hún væri svöng og gæti ekki fengið matartíma.Hún hefði átt að hugsa til krabbameinsveika fólksins sem kemur í göngudeildina til að fá lyfin sín og fær ekkert að borða á meðan.Verður að taka með sér nesti.Nei þetta lið er ótrúlegt.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 12:13

5 identicon

Takk Lára fyrir einstaklega gott blogg. Í öllum þessum vitfyrrtu fréttum þarna heima, sem að því er virðist enginn kippir sér uppvið er huggun í að lesa bloggið þitt og sjá að það er ennþá til fólk þarna heima sem lætur sig málin varða.  Er engu að síður gjörsamlega niðurbrotin eftir lestur pistils Sigurjóns M. Egilssonar.

LK (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 21:15

6 Smámynd: GRÆNA LOPPAN

Það er þingmanna að auka tiltrú á þingstörfum með heilindum. Annars finnst mér alltaf undarlegt þegar þingmenn tala um "innihaldsríka" ræðu, hreint eins og það sé alls óvanalegt.

Nú var ég að taka eftir því að krækjan á opna nefndarfundi á alþingisvefnum virkar ekki. Reyni aftur: opnir nefndarfundir.

GRÆNA LOPPAN, 1.12.2009 kl. 19:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband