Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Peningar um peninga frá peningum til hvers?

Ég birti þennan bloggpistil fyrir tæpu ári. Endurbirti hann að gefnu tilefni í júlí með örlítilli viðbót. Mér sýnist að pistillinn eigi betur við nú en nokkru sinni og hann hefur verið mér hugleikinn undanfarnar vikur. Allt er þegar þrennt er - þetta er útgáfan frá í júlí. Við þá birtingu fékk ég athugasemd sem ég svaraði með þessum pistli.
                _________________________________________

Þetta var yfirskrift pistils sem ég skrifaði 5. desember sl. og fjallaði m.a. um hina yfirgengilegu peningadýrkun í samfélaginu. Hún kemur fram alls staðar - það er varla til neinn þáttur í umhverfinu sem ekki er smitaður af peningadýrkun sem ég vil frekar kalla græðgisvæðingu.

Peningar Í framhaldi af myndbandinu í síðasta pistli varð mér hugsað til þess sem ég skrifaði fyrir tæpum 8 mánuðum - fyrir gengisfall, hrun á verð- og hlutabréfamarkaði, svokallaðan samdrátt og krepputal - en eftir a.m.k. eitt stjörnuhrap. Ég ákvað að endurbirta pistilinn og um leið vara við hugtakinu "fjárfestir" og tengdum orðum - hvort sem sá er innlendur eða erlendur. Fjárfestum fylgir alltaf krafan um hámarkshagnað af viðkomandi fjárfestingu og þar eru hagsmunir almennings aldrei hafðir í huga. Svokölluð samkeppni verður fyrr en varir að fákeppni, verð hækkar og þjónusta versnar. Slíkt virðist vera eðli einkavæðingar þrátt fyrir fögur fyrirheit einkavæðingarsinna um annað.

Í þessu sambandi bendi ég á athugasemdir nr. 1 og 11 við síðasta pistil eftir þá Sævar og Bjarna. Ef þetta er satt sem þeir segja voru óprúttnir menn ansi nálægt því að selja og einkavæða orkuauðlindir okkar. Hrollvekjandi tilhugsun. Verum á verði, vörumst spillta stjórnmálamenn og gráðuga, samviskulausa eiginhagsmunaseggi. Eins og Ásgeir segir í athugasemd nr. 8 við áðurnefndan pistil er það OKKAR að breyta ástandinu með aðhaldi, þrýstingi og atkvæðum okkar.
                 _________________________________________________

 Peningar um peninga frá peningum til hvers?

Ég hef lengi furðað mig á fréttamati fjölmiðla hvað varðar peninga og auðmenn. Allt annað í lífinu virðist vera hjóm eitt hjá því hver græðir hve mikið og á hverju, hver hlutabréfavísitalan er eða hvað þær nú heita þessar úrvalsauravísitölur, hvað hefur hækkað og hvað lækkað hverju sinni.

Sérstök innslög eða fréttatímaaukar eru um "markaðinn" eins og t.d. hjá Peningar Stöð 2 í kringum hádegið - kl. 12:15 í dag var Markaðurinn hádegi og kl. 12:31 var Hádegisviðtal markaðarins. Síðan var Markaðurinn kl. 18:20.

Bankar og aðrar fjármálastofnanir eru með fréttir oft á dag um hvernig peningamarkaðurinn er að gera sig þá stundina og fréttir af hve margar milljónir, milljónatugir eða milljarðar gengu kaupum og sölum þann daginn tröllríða öllum fréttatímum á öllum fjölmiðlum. Það þótti auk þess tilefni í sérstaka frétt þegar viðskiptaþátturinn Í lok dagsféll niður kl. 16:20 þann 3. des. sl. eins og sjá má hér.

Í gærkvöldi var fyrsta frétt í sjónvarpsfréttum Ríkissjónvarpsins mannaskipti auðmanna hjá FL Group. Það var þriðja frétt í kvöldfréttum Stöðvar 2 og fyrsta frétt í sexfréttum Ríkisútvarpsins.

FL Group Menn hverfa frá störfum með tugmilljóna starfslokasamninga, sagt er frá þeim nýjasta hér. Þó var maðurinn sagður með 4 milljónir á mánuði á meðan hann gegndi starfinu og hefði líkast til getað lagt aura til hliðar fyrir mögru árin eins og við hin þurfum að gera.

Á sama tíma les maður þetta... og þetta... og þetta... svo dæmi séu nefnd. Þessar sögur nísta í gegn um merg, bein og hjarta og maður spyr sig hvað þarf til að snerta við réttlætiskennd almennings og fjölmiðlafólks. Af hverju er svona mikið fjallað um auðmennina í fjölmiðlum en svona lítið um fátæktina... um þá sem minna mega sín og þjóðfélagið kemur illa fram við?

Ísland best í heimi... hvað?

Ég hef verið að reyna, ásamt mörgum öðrum, að benda á þá firring Borholur á Skarðsmýrarfjalli u sem á sér stað í virkjanafíkn og stóriðjuæði vissra aðila í þjóðfélaginu og afleiðingar þeirrar skammsýni. Afleiðingarnar snerta hvert einasta mannsbarn á Íslandi í formi loftmengunar, lyktmengunar, eyðileggingar á þeirri dásamlegu náttúru sem við höfum öll hlotið í arf frá forfeðrum okkar og -mæðrum ásamt þenslu, verðbólgu, hækkandi vöxtum, innflutningi tugþúsunda erlendra verkamanna og almennt versnandi lífskjörum. Fáir hlusta og fjölmiðlar sofa á verðinum. Enginn fjölmiðill virðist tilbúinn til að kryfja málið og fjalla um það á vitrænan hátt og í heildstæðu samhengi. Fréttablaðið hefur gert heiðarlegar tilraunir, en þær nægja ekki til að gera svo gríðarlega alvarlegu og yfirgripsmiklu máli nauðsynleg og verðskulduð skil.

Ég minni á að fyrir síðustu alþingiskosningar var eftir því tekið að upp spruttu umhverfisverndarsinnar í öllum flokkum sem mærðu náttúruvernd og lofuðu öllu fögru. Nauðsynlegt er að breyta lögum, að minnsta kosti tvennum, en hver er að sinna því? Enginn á þingi eftir því sem ég best veit.

Andræði Árið 2004 kom út merkileg ljóðabók eftir Sigfús Bjartmarsson sem hann kallaði Andræði. Bókin er leikur með orð og Sigfús leikur af mikilli snilld. Bókin skiptist í 11 kafla og hver kafli hefur inngangsljóð. Ég ætla að leyfa mér að birta hér tvö ljóð ásamt inngangsljóðum hvors kafla. Það var erfitt að velja því ljóðin eru hvert öðru betra og beinskeyttara.

 

5
Svo mælti
maður við annan mann
sem hjá hlutafjármarkaðarins hástökksmethafa
í flokki hörmangarafélaga vann:
Sá skal mæra samkeppnina
sem hana kaupir upp.

Og ljóðið sjálft er svona og ég tileinka það Hannesi Smárasyni og öðrum tugmilljóna-auðmönnum:

Vit er
veraldar
gengi.

Og
gott
er hátt
gengi en
hættar þó
en lágu við
að lækka
lengi.


vit er
vandmeðfarið
og valt.

Kúlið
getur óðara
orðið svo
kalt.

9
Svo mælti
maður við annan mann
sem hjá innsta aðstoðarkoppi æðstaráðsritara
landseigendaflokksins vann:
Fjórðungi bregður til flokks
en frekar bregður hinum
til hagsmuna
hans.

Ljóðið hljóðar svo - ég tileinka það Alþingi og ríkisstjórn, sem með réttu ættu að fara með stjórnartaumana - og sem lofa öllu fögru fyrir kosningar:

Í upphafi
skal efndirnar
skoða.


fagurt
galar formaður
sem fögnuðinn vill
fólki sínu
boða.

Og
ljúft er
að leggja svo
með lygasögnum
slag eftir
slag.


sjaldan
lifir kosningaloforð
kjördag.

Og
marga
mun sverja
eiðana sá
sem alla
svíkja
má.


enginn
tryggir atkvæðin
eftir á.


Geir H. Haarde - drottningarviðtöl ársins

Hann var í Kastljósinu áðan. Ég varð fyrir vonbrigðum með hann og svörin - ef svör skal kalla. Ákveðnastur var hann þegar hann svaraði Sigmari því, að hann ætlaði EKKI að víkja stjórn Seðlabankans frá. Hann er greinilega ekki ennþá farinn að hlusta á erlenda og innlenda sérfræðinga - og fólkið í landinu. Honum hafa heldur ekki borist til eyrna öll ummælin í erlendum blöðum og hjá ýmsum alþjóðastofnunum þar sem þeir Davíð hafa gert sig og þjóðina að athlægi og rúið trausti. Það traust verður ekki endurheimt fyrr en fagfólk tekur við Seðlabankanum. Og hann vék sér undan því að viðurkenna nokkur mistök, líkt og bankastjórarnir undan ábyrgð eins og kom fram í fréttum RÚV í gærkvöldi (sjá myndbandasafn undir "nýjustu myndböndin" vinstra megin á síðunni).

Um daginn fór ég í gegnum gagnasafnið og klippti út þau drottningarviðtöl ársins við Geir sem ég fann og átti á lager. Ef einhver man eftir fleirum má gjarnan benda mér á þau. Athygli vekur hvað sum eru nálægt hvert öðru í tíma. Margir muna að Geir var hvumpinn við fjölmiðlafólk lengi vel. Ég fjallaði um það hér, hér, hér og síðan um sinnaskiptin hér.

Það er fróðlegt að fara í gegnum þetta og hér koma viðtölin í tímaröð:

Silfur Egils 17. febrúar 2008

Mannamál 24. febrúar 2008

Ísland í dag 3. júlí 2008

Silfur Egils 14. september 2008

Mannamál 28. september 2008

Kastljós 29. september 2008

Kastljós 22. október 2008


Lifnaðarhættir landans


Ætli það sé ekki rétt að halda þessu til haga eins og þessu hér.


Útrásarsöngur Davíðs Oddssonar

Fyrst sagði Davíð: "Við verðum að hrópa húrra fyrir þessum mönnum!"
Nú segir Davíð: "Ég söng aldrei þennan útrásarsöng. Ég hef aldrei verið að bera lof á þessa útrás
. Mér fannst hún alltaf vera mikið furðuverk."


Þjóð í gíslingu

Það er með ólíkindum hvað forystumenn og -konur þjóðarinnar eru forhert og þagmælsk þessa dagana. Þau tala í gátum, segja sem minnst, svara helst engu. Í besta falli fáum við náðarsamlegast að vita að þessi eða hin sagan sé ósönn. Við lesum um hvað er að gerast á Íslandi í erlendum blöðum, heyrum það á erlendum sjónvarpsstöðvum eða í þýddum greinum eftir útlendinga. Ótal spurninga er spurt en engin fáum við svörin. Okkur hefur verið haldið í óbærilegri spennu síðan Glitnir féll þann 29. september. Á meðan engu er svarað og ekkert gerist er þjóðin í sálrænni og fjárhagslegri gíslingu. Hver er leikstjóri þessarar sýningar?

Vonandi sáu allir Kompás í gærkvöldi. Þetta var mjög athyglisverður þáttur sem fjallaði um útrásina, fólkið, bankareikningana í Karíbahafinu og fleira.

Minnst var á ársgamlan Kompás - nánar til tekið frá 20. nóvember 2007. Þar var fjallað um Seðlabankann, vexti, verðbólgu og fleira. Hann er skylduáhorf til upprifjunar.

Svo var viðtal við Þorvald Gylfason í Íslandi í dag í gærkvöldi. Hann hafði þetta að segja:

Ég klippti tvo magnaða kafla út úr viðtalinu við Jón Baldvin í Silfrinu á sunnudaginn. Það var erfitt að velja, hann var frábær, en þetta varð fyrir valinu núna:

RÚV var með viðtal við Robert Z. Aliber, prófessor við háskóla í Chicago, í tíufréttum í gærkvöldi. Hann kallar stjórnvöld og stjórn Seðlabankans flón og er ekkert að skafa ofan af hlutunum. Ég set spurningamerki við lokaorð Alibers og vil fara miklu lengra aftur í tímann en 2-3 ár.

Að lokum er hér greinin eftir Aliber úr Mogganum í gær sem var fjallað um í flestum fjölmiðlum og vakti gífurlega athygli. Ekki fá stjórnvöld góða einkunn hjá þessum ágæta manni. Smellið til að stækka.

Aliber -Staða efnahagsmála - Mbl. 20.10.08

 


Hver kann ekki að telja?

Mótmæli á Austurvelli - Ljósm.: Helgi Jóhann HaukssonMótmælafundurinn á Austurvelli á laugardag var mjög fjölmennur miðað við mótmælafundi almennt á Íslandi. Ég var þarna og sá með eigin augum. Í ljósi tregðu Íslendinga við að taka þátt í mótmælum sem ég skrifaði um hér var mætingin undraverð. Í sama pistli talaði ég um þann stimpil sem fólk hefur fengið á sig í gegnum tíðina taki það þátt í fjöldamótmælum. Í ljósi þeirra ummæla hefur verið fróðlegt að lesa skrif og athugasemdir á ýmsum bloggum og bloggsetrum. Ég fékk grun minn rækilega staðfestan auk þess sem ég furða mig á hvernig fólk snýr útúr hlutunum og skortir getu til að skoða þá í samhengi og tengja.

En mesta furðu mína vekja íslenskir fjölmiðlar. Þeir löptu upp tölu lögreglunnar um að 500 manns hefðu verið á fundinum. Það er fjarri lagi og þar sem fulltrúar margra fjölmiðla voru á staðnum hefðu þeir átt að vita betur. Vísir sagði "nokkur hundruð manns"; í pínulítilli frétt í Fréttablaðinu á sunnudag er talað um "fjölda fólks". Í vefútgáfu Moggans á laugardag var haft eftir lögreglunni að "á fimmta hundrað manns" væri á Austurvelli en það er sama hvað ég leita - ég finn ekki orð um mótmælin í Sunnudagsmogganum. Þar er ekki minnst einu orði á þessi fjölmennu mótmæli, en aftur á móti er þar frétt um mótmæli gegn Vísindakirkjunni einhvers staðar í Ameríku.

Það er alkunn staðreynd að þegar um einhvers konar mótmæli er að ræða Mótmæli á Austurvellii - Ljósm.: Jóhann Þröstur Pálmasonsem yfirvöldum eru ekki þóknanleg dregur lögreglan verulega úr þeim fjölda sem tekur þátt í þeim. Að sama skapi er bætt við ef viðkomandi samkunda er yfirvöldum þóknanleg, s.s. 17. júní og Menningarnótt.

Björn Bjarnason er æðsti yfirmaður lögreglunnar, einn af dyggustu bandamönnum Davíðs Oddssonar. Allir vita á hvaða forsendum ríkislögreglustjóri fékk sitt embætti og það mun vera altalað að lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins sé hlynntur Flokknum þótt ég hafi ekki vitað það fyrr en ég fór að leita upplýsinga. Mér var líka sagt frá flokkshollustu ýmissa annarra hátt settra í lögreglunni sem ég nefni ekki hér.

Hvernig dettur fjölmiðlafólki í hug að tölur lögreglunnar séu réttar? Af hverju nota fréttamenn ekki eigin heilbrigða skynsemi til að áætla tölurnar sjálfir. Það mátti öllum vera ljóst sem voru á staðnum eða sáu myndir af mannfjöldanum að þetta voru margfalt fleiri en tölur lögreglunnar gáfu til kynna. Er verið að stýra umræðunni? Hæðast að almenningi - þeim sem mættu - og ljúga að þeim sem ekki mættu? Ef svo er þykir mér það ótrúlega bíræfið í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu.

Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingurÍ janúar skrifaði ég pistil um mótmælin í ráðhúsinu og vitnaði þar í ummæli Einars Mar Þórðarsonar, stjórnmálafræðings, í þættinum Vikulokunum á Rás 1. Þáttarstjórnandi spurði Einar: "Var þetta vanvirða við lýðræðið?" og Einar Mar svaraði á þessa leið: "Nei, veistu ég held ekki. Ég er nú svolítið hrifinn af svona mótmælum og þegar almenningur lætur til sín taka. Við köllum þetta "óhefðbundna stjórnmálaþátttöku"... (innsk.: borgaralega óhlýðni) ...eða "borgaralega óhlýðni" í stjórnmálafræðinni. Íslendingar eru alveg rosalega latir að láta til sín taka og alveg ómögulegir í þessari borgaralegu óhlýðni. Þannig að ég eiginlega bara dáist að fólki þegar það mætir svona og lætur í sér heyra. Mér finnst það bara hið besta mál." Ég er innilega sammála.

Ég bendi á myndir hjá Helga Jóhanni og Jóhanni Þresti sem báðir voru á staðnum og ljósmynduðu. Fyrr í kvöld heimsótti ég bloggið hennar Kristjönu, bloggvinkonu minnar, og sá að hún hafði sett inn slóð að Reuters-frétt sem hafði farið fram hjá mér. Þar kom fram að á Austurvelli voru um 2.000 manns. Það er miklu nær þeirri tölu sem við Kristjana, og fleiri sem voru þarna, hefðum giskað á.

Ég klippti saman fréttir RÚV, Stöðvar 2 og Reuters til samanburðar. Meti svo hver sem vill hvor talan er réttari - 500 eða 2.000.

 

Ég set líka hér inn myndband sem ég klippti saman eftir RÚV fréttirnar í kvöld. Mér blöskraði svo að sjá viðbrögð Árna Mathiesen við spurningum fjölmiðla að ég gat ekki orða bundist. Þótt Árni sé dýralæknir að mennt á að heita að hann gegni starfi fjármálaráðherra þjóðarinnar. Hann fær í það minnsta borgað fyrir það. Um þessar mundir er þjóðin skelfingu lostin og ævareið. Hún er á barmi gjaldþrots eftir gríðarlegar hremmingar í efnahagsmálum og enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Hvernig vogar maðurinn sér að koma svona fram, snúa baki við okkur, sérstaklega undir þessum kringumstæðum? Er hægt að lítilsvirða þjóðina öllu meira?



Viðbót: Einhver ágætur maður eða kona benti á þetta myndband á YouTube í athugasemd við pistilinn.


Svona hljóðar ein athugasemdin við myndbandið:
 
"That protest looks very civilised and gentle. If the political placards weren't there, I would have confused it with a folk music event! Considering what's happened to Iceland's financial system and what will inevitably happen to its economy, I'm surprised the citizens aren't much more angry with the governors of their central bank."

Silfur Egils í dag

Góður þáttur. Enn gerir Egill lítið út mótmælunum í gær, blessaður. Og ég skil ekki af hverju Dr. Gunni lagði nafn sitt við mótmælin miðað við hvernig hann talaði um þau. Kristján Þór og Kristrún áttu bágt. Þau geta ekki varið flokkana sína á trúverðugan hátt - enda kannski ekki hægt. Úlfar var frábær! Ég tek undir allt sem hann sagði.

Vettvangur dagsins

 Einar Már Guðmundsson - alltaf góður

Jón Baldvin Hannibalsson - fer á kostum

 

Einar Már - Morgunblaðið 16. október 2008 - smellið til að stækka

Einar Már Guðmundsson - Mbl. 16. okt. 2008


Eru ekki örugglega allir búnir að sjá þetta?

 
Til öryggis og upprifjunar verður þetta myndband geymt hér
 

Íslenska þjóðin er skrýtin skepna

Þannig hóf Bergþóra pistil sinn sem ég hef oft vitnað í. Svo satt, svo sárt að játa. Sárt að líta í eigin barm og viðurkenna hvað við erum þýlynd og undirgefin. Látum allt yfir okkur ganga möglunarlítið. Við nöldrum, muldrum í barminn og snúum okkur því næst að einhverju skemmtilegra, vitandi mætavel að það verður níðst á okkur aftur og aftur og aftur - af því við segjum aldrei neitt, gerum aldrei neitt, beitum aldrei þrýstingi, mótmælum aldrei, refsum ekki einu sinni fyrir illa meðferð á okkur þegar við fáum tækifæri til.

Mótmæli í útlöndumSvo horfum við á fréttir í sjónvarpinu og göpum yfir myndum sem sýna fjöldamótmæli í útlöndum þar sem þau þykja sjálfsögð. Myndum sem sýna tugþúsundir borgara þramma um götur og torg með spjöld hrópandi skoðanir sínar og vilja til að beita yfirvöld lýðræðislegum þrýstingi. Við erum ýmist full aðdáunar eða fyrirlitningar en rumskum og rísum upp við dogg þegar í ljós kemur að mótmælin í útlöndum báru árangur. Spyrjum: Af hverju gerum við aldrei neitt svona? Já, af hverju? Af hverju eru Íslendingar svona frábitnir mótmælum en fagna samt þegar einhver gerir eitthvað eins og flutningabílstjórar fyrr á árinu? Ísland á að heita frjálst þjóðfélag þar sem við megum segja skoðun okkar og mótmæla ef á okkur er brotið - en við gerum það ekki. Við kunnum ekki að meta frelsið til að mótmæla en vorkennum þeim þjóðum sem hafa það ekki.

Það hefur verið mjög lærdómsríkt fyrir mig að hafa útlending á heimiÁrni - Davíð -Geirlinu í nokkur ár. Útlending frá þroskuðu lýðræðisríki þar sem fólk mótmælir hástöfum sé það órétti beitt; þar sem stjórnmálamenn og aðrir eru umsvifalaust látnir segja af sér embættum verði þeir uppvísir að vísvitandi lygum, bruðli með almannafé eða öðrum mistökum í starfi; þar sem kjósendur hika ekki við að refsa yfirvöldum í kosningum sem verður til þess að þingmenn og ráðherrar reyna að gæta sín, vinna vel og hlusta á þjóð sína vilji þeir vera áfram á þingi eða við stjórn.

Útlendingurinn minn fylgist vel með málum hér og hefur skoðanir. Hann skilur ekki sinnuleysi almennings. Hann trúði varla úrslitum kosninganna í fyrra þegar sá flokkur sem hefur níðst einna mest á almenningi og barist harðast fyrir misrétti fékk flest atkvæðin og heldur enn í stjórnartaumana. Hann skilur ekki af hverju það verður ekki allt vitlaust þegar stjórnvöld, hvort sem er ríki eða borg, verða hvað eftir annað uppvís að grófri spillingu og vítaverðu bruðli með almannafé. Alltaf er eitthvað að koma upp og alltaf er hann jafn undrandi á aðgerðarleysi landsmanna.

Nú er hann furðu lostinn yfir því, að haldið skuli hlífiskildi yfir þeim sem verst hafa farið með þjóðina. Yfir þeim sem vissu en gerðu ekkert. Þeim sem blekktu þjóðina. Þeim sem finnst ekkert athugavert við að menn, sem brutu gróflega af sér - jafnvel um langt árabil - skuli sitja óáreittir í sínum feitu embættum. Þeim sem vissu og flýttu sér að selja hlutabréfin sín til að þeir sjálfir myndu ekki tapa krónu en hirtu ekki um alla hina. Þeim sem hlustuðu ekki á viðvaranir og létu stinga skýrslum undir stól. Þeim sem láta hagsmuni stjórnmálaflokka ganga fyrir hagsmunum heillar þjóðar. Þeim sem voru tilbúnir til að fórna þjóð sinni fyrir einkaþotur og lúxussnekkjur. Þeim sem velja frekar skammtímahagsmuni en langtímasjónarmið. Þeim sem vilja fórna einstakri Hannes - Jón Ásgeir -Bjarnináttúru Íslands, sem er eina auðlindin sem þjóðin á eftir fyrir utan mannauðinn, á altari erlendra álrisa og olíufursta.

Útlendingurinn minn hefur þráspurt mig HVERS VEGNA? Þessir menn eru í vinnu hjá þjóðinni en láta hagsmuni vinnuveitandans lönd og leið og skara bara eld að eigin köku. Hvers vegna fyllast ekki götur og torg af fólki sem finnst á sér brotið? Fólki sem finnst starfsmenn þjóðarinnar, stjórnvöld og embættismenn, hafa svikið sig - sinnt starfinu með afbrigðum illa, vanrækt skyldur sínar og verðskulda brottrekstur. Hvers vegna það sé liðið að á meðan gjaldeyrir fæst ekki til að flytja inn mat fyrir börnin okkar geti útrásarbarónar, bankastjórar og aðrir auðmenn arðrænt þjóðina, siglt um á glæsisnekkjum og sötrað kokkteila fyrir þennan sama gjaldeyri sem þeir stálu frá þjóðinni? Ná engin lög yfir slíka glæpi? Mér vefst tunga um tönn. Hvernig er hægt að útskýra tregðu Íslendinga til að taka þátt í mótmælum? Tregðu þeirra til að krefjast þess á afgerandi hátt að hinir brotlegu beri ábyrgð á gjörðum sínum.

Ég er ekki sagnfræðingur og get ekki útskýrt tregðuna í sögulegu samhengi en ég get þó ályktað upp að vissu marki. Á Íslandi hefur umræðunni alltaf verið vandlega stýrt af hagsmunaöflum og réttlætisraddir kaffærðar í mykjuhaugum flokkspólitískra hagsmuna. Ef nokkrar hræður komu saman til að mótmæla valdníðslu voru þær umsvifalaust stimplaðar með því hræðilega orði - kommúnistar! - eða einhverju þaðan af verra. Múgur, skríll, hyski, pakk og meira að segja lýður, sem upprunalega þýddi í einfaldleika sínum aðeins þjóð eða fólk. Mótmælin á fundi borgarstjórnar í janúar voru kölluð skrílslæti af þeim sem þola ekki lýðræði og tjáningarfrelsi. Tungumálinu var lævíslega beitt til að sverta þá sem vildu umbætur eða mótmæla ranglæti. Hvaða sómakær borgari vildi láta hafa um sig slík orð eða vera hluti af einhverjum ruslaralýð sem var hæddur og fyrirlitinn? Þá var nú betra að hafa hægt um sig, þegja og vona það besta. Halda áfram að strita í sveita síns andlitis og þagga niður í mjóróma röddum hið innra sem kröfðust réttlætis öllum til handa, ekki bara sumum.

Áður óþekktar hamfarir ganga nú yfir heiminn en líklega einkum íslensku Helgi Hóseasson - mótmælandi Íslandsþjóðina. Hamfarir sem ekki sér fyrir endann á. Mikið er búið að óskapast og kalla á aðgerðir. Búið er að benda á mann og annan en stjórnvöld eru söm við sig. Við megum ekki "stunda nornaveiðar", eigum ekki að "leita sökudólga" - segja sjálfir sökudólgarnir og beita tungumálinu lymskulega. Auðvitað vill enginn bera ábyrgð frekar en venjulega og þar af leiðandi axlar enginn ábyrgð. Það myndi kannski þjóna hagsmunum almennings ef viti bornir sérfræðingar tækju við, en það þjónar örugglega ekki hagsmunum Flokksins. Hann ætlar að sitja áfram við völd en býðst til að axla ábyrgð í kosningunum eftir þrjú ár. Að mati ráðamanna hefur almenningur aðeins rétt til að segja skoðun sína á fjögurra ára fresti en á að steinhalda kjafti þess á milli og gefa þeim frítt spil. Við lútum höfði í þýlyndu þakklæti.

Á morgun, laugardag klukkan 15, er boðað til mótmæla á Austurvelli. Fólk er hvatt til að vera þátttakendur, ekki þolendur. Þetta eru ekki flokkspólitísk mótmæli, ekki skotgrafahernaður, ekki kommúnistar, múgur, skríll eða hyski heldur ofurvenjulegt fólk, almenningur á Íslandi að láta skoðun sína í ljós með því að mæta. Að krefjast þess að gert verði hreint í skúmaskotum rotinna innviða stjórnsýslunnar. Að krefjast þess að hagur þjóðarinnar verði tekinn fram yfir flokkshagsmuni og hagsmuni örfárra, útvalinna einstaklinga sem hafa plantað sér í dúnmjúk, vellaunuð hásæti og neita að standa upp. Að krefjast réttlætis í stað ranglætis.

Það er með ólíkindum að ferðast um netið og lesa ummæli um þennan mótmælafund. Þar eru ótrúlega margir á villigötum. Agli Helga finnst mótmælin helst til þröngt skilgreind því afsögn Davíðs Oddssonar er þar í forgrunni. Egill á að vita betur. Hann á að hafa meiri tilfinningu fyrir bæði stjórnkerfinu og þjóðarsálinni. Hann á að vita að Davíð er bara byMótmæli á Austurvellirjunin, samnefnarinn, sá sem fyrstur þarf að víkja til að hægt sé að byrja að ná tökum á ástandinu. Það er vita gagnslaust að skipta um bankastjóra, forsætisráðherra, fjármálaráðherra, forstjóra Fjármálaeftirlits eða hvern sem er í stjórnkerfinu ef Davíð Oddsson situr áfram sem Seðlabankastjóri, deilir og drottnar úr hásæti sínu og kippir í hvern flokkspólitíska spottann á fætur öðrum. Hér er ekki verið að hengja bakara fyrir smið, síður en svo. Egill veit þetta vel og þess vegna skil ég ekki þessa bloggfærslu hans. Ég skil heldur ekki hvaða hugsun býr að baki sumra athugasemda við færsluna en þegar ég las þær varð ég afskaplega döpur. Heldur fólk virkilega að aðstandendur mótmælanna séu svo þröngsýnir að telja Davíð einn sekan þótt þeir geri sér grein fyrir hvar þarf að byrja hreingerninguna? Af hverju þráast fólk við að skilja? Eða er það kannski ég sem misskil þetta allt saman?

Þegar leitað er að mótmælum á Íslandi er fátt um fína drætti. Í Wikipediu er minnst á ein mótmæli - mótmæli vörubílstjóra 2008. Þau eru líka flokkuðMótmæli í Ráðhúsi Reykjavíkur undir óeirðir á Íslandi, sem og óeirðirnar á Austurvelli 1949 þegar Ísland gekk í NATO og svo Gúttóslagurinn 1932. Hér er það sem sagt er um Gúttóslaginn: "Gúttóslagurinn var baráttutengdar götuóeirðir í miðbæ Reykjavíkur 9. nóvember 1932. Slagsmál brutust út milli lögreglumanna og verkamanna við Góðtemplarahús Reykjavíkur (Gúttó) en þar voru bæjarstjórnarfundir haldnir. Á fundi bæjarstjórnar þennan dag var tekin til afgreiðslu tillaga um að lækka kaupið í atvinnubótavinnu á vegum bæjarins en þá höfðu áhrif kreppunnar miklu orðið til þess að auka atvinnuleysi á landinu mikið. Mikill mannfjöldi safnaðist saman við Gúttó og mótmæli byrjuðu inni í húsinu og færðust út á götu. Slagsmálunum lauk með því að lögregla hörfaði og hætt var við tillöguna. Verkalýðurinn vann." Segið svo að samstaða borgi sig ekki þótt engin verði slagsmálin og sérsveit Björns Bjarnasonar fullkomlega óþörf!

Ég vona að fólk fjölmenni á fundinn á Austurvelli á morgun. Allir sem vilja breytt vinnubrögð stjórnvalda, betra siðferði, meira réttlæti, sannleika, hæfa stjórnendur í ábyrgðarstöðum og heiðarleika í stjórnkerfinu. Allir sem vilja að stjórnvöld taki hagsmuni þjóðarinnar fram yfir eigin- eða flokkshagsmuni. Allir sem hafa fengið nóg af spillingu og hagsmunatengslum. Allir sem vilja tjá hug sinn - til þess eru mótmæli. Mætum og sýnum samstöðu.

Þetta sagði Einar Már Guðmundsson m.a. um samstöðu í Mannamáli 9. desember 2007. Þótt Einar Már sé þarna að tala um samstöðu launamanna og minnist á Gúttóslaginn er samstaða nú sama eðlis og alveg jafn nauðsynleg:



Ekki lesa allir athugasemdir við bloggpistla og ég ætla því að birta hér mjög athyglisverða athugasemd sem komin er við pistilinn. Hún er frá Elfu, íslenskri konu sem búsett er erlendis og horfir á þjóðmálin frá þeim sjónarhóli. Elfa segir:

Heyr heyr !

Ég bý í Danmörku. Danir eru kjaftbit á Íslendingum. Fyrst fyrir að fokka málum svona rosalega upp ... marga grunaði að eitthvað gæti farið illa, en ekki að við myndum gera svona myndarlega uppá bak. Síðan líður og bíður og enginn axlar ábyrgð. Ekkert gerist. EKKERT. Danir góna bara yfir þessu. Hér eru menn vanir því að hirða pokann sinn ef þeir standa sig ekki ... og hika ekki við að láta fólk fara ef upp koma mistök. Anders Fogh forsætisráðherra er búinn að víkja nokkrum ráðherra sinna frá vegna vandamála sem þættu aldeilis smávægileg á Íslandi.

Vegna þess að enginn víkur, enginn er látinn axla ábyrgð, lítur alheimur svo á að allir Íslendingar kvitti uppá að þetta sé í góðu lagi og standi að baki fjárglæfrum og óstjórn ... þess vegna eru ekki bara íslensk yfirvöld rúin trausti ... heldur allir Íslendingar og íslensk fyrirtæki.

Undir venjulegum kringumstæðum myndi þetta vera lítið mál vegna þess að enginn hefur haft minnsta áhuga á Íslandi. En núna er allur heimurinn að horfa á okkur og fylgist grannt með hvernig við tökum á málum.

Og hvað gerum við ... við tökum EKKI á málum.

Af því það er svo ókúl að mótmæla, fólk gæti haldið að maður væri kommi eða lúser. Þessi aumingjaskapur og manndómsskortur er það sem ég á erfiðast með að líða. Það er mér þungbærara en að lífeyrissjóðurinn minn er farinn fjandans til.

Í fyrsta skipti á ævinni skammast ég mín fyrir að vera Íslendingur.


Eins og talað út úr mínu hjarta

Stundum er tekið fram fyrir hendurnar á manni, ýmist í eiginlegri eða óeiginlegri merkingu. Ég var byrjuð að skrifa pistil fyrir nokkrum dögum - í síðustu viku raunar. Byrjuð að klippa saman ummæli úr sjónvarpi pistlinum til stuðnings en ekki komin langt. Svo birtist grein í Morgunblaðinu í dag og ég sá strax að ég þurfti ekki að klára pistilinn minn. Í greininni var næstum allt sem ég vildi sagt hafa til viðbótar við það sem ég sagði hér. Ég hefði líklega ekki orðað þetta svona pent og vel en ég er heldur ekki eðalrithöfundur eins og skríbentinn.

Bestu þakkir fyrir greinina, Jón Kalman. Mæltu manna heilastur!

Jón Kalmann Stefánsson - Mbl. 17.10.08


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband