Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Leppar og leynifélög - 1. hluti

 Þetta er með ólíkindum... ætli það sé sannleikanum samkvæmt?
 

Forsætisráðherra fabúlerar

Undirtitill á engilsaxnesku: "Bullshit". Sáu þetta allir? Set inn til öryggis. Ekki minnst einu orði á eftirlaunaósómann sem veitir - þrátt fyrir örlitlar breytingar - þingmönnum, ráðherrum og fleirum margfalt meiri kjarabætur en skerðing t.d. lífeyrisþega verður nú. Sumir eru svo sannarlega jafnari en aðrir, einkum jafnaðarmenn. Er nokkur furða að bananalýðveldi heimsin vilji ekki láta spyrða sig við Ísland? Og nú eru þau farin í frí í mánuð - í miðri óviðráðanlegri kreppu! Hvaða sveitastörfum þarf að sinna á þessum árstíma?

 
 Jólafrí þingmanna - Fréttablaðið 22.12.08
 
Henrý Þór lýsir eftirlaunaósóma jafnaðarmanna svona:
 
Henrý Þór - Eftirlaunin hólpin

Jólamyndin í ár - Dýrabær

George Orwell var Breti, hét réttu nafni Eric Arthur Blair, fæddist árið 1903 og lést aðeins 47 ára að aldri árið 1950. Þekktustu ritverk hans eru líklega Animal Farm (útg. 1945) og 1984 (útg. 1949). Báðar bækurnar eru klassískar og eiga alveg jafn vel við nú og þegar þær voru skrifaðar, enda hefur mannlegt eðli ekkert breyst.

Mér datt í hug að setja hér inn Animal Farm, eða Dýrabæ, til samanburðar við það sem er að gerast í íslensku þjóðfélagi nú um stundir. Tilvísanirnar í nútímann eru margar og margvíslegar. Þetta er gömul og góð teiknimynd og er hér í átta hlutum. Það er hollt að rifja söguna upp, einkum þingmönnum, ráðherrum og (óhæfum) embættismönnum.

1. hluti af 8

2. hluti af 8

3. hluti af 8

4. hluti af 8

5. hluti af 8

6. hluti af 8

7. hluti af 8

8. hluti af 8


Til hvers er Alþingi?

Frábær grein birtist í Fréttablaðinu í dag. Hún er eftir Njörð P. Njarðvík og er mjög sönn frá upphafi til enda. Þingræðið á Íslandi er fótum troðið, þingmenn eru eins og puntudúkkur sem segja það sem Flokkurinn leyfir, þegja um það sem Flokkurinn vill þagga niður og greiða atkvæði eins og þeim er fyrirskipað. Ákvæði 48. greinar stjórnarskrárinnar um að þingmenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína er hunsað algjörlega. Enda þingsætið í húfi, eða hvað? Þingmenn skirrast ekki við að svíkja bæði eigin sannfæringu og kjósendur sína til að halda þingsætinu í von um að fenni yfir orð, gjörðir og aðgerðaleysi. Þeir beygja sig undir ofurvald flokksforystunnar því aldrei má spyrjast að ólíkar skoðanir um hin ýmsu mál eigi heima undir kúrekahatti flokkanna þótt það sé í hæsta máta eðlilegt.

Til hvers er Alþingi - Njörður P. Njarðvík - Fréttablaðið 21. desember 2008

Hér er svo grein eftir Sverri Jakobsson sem birtist í Fréttablaðinu 29. febrúar sl. og fjallar um sama efni. Takið eftir tölunum sem Sverrir nefnir um að árið 2007 hafi ríflega 90% af samþykktum lögum á Alþingi verið úr smiðju ríkisstjórnar. Þingmannafrumvörp og ályktanir fara beint ofan í skúffu og eiga sér enga lífsvon - frumvörp frá fólkinu sem beinlínis er kosið til þess að semja og setja lög. Hverslags víðáttuvitleysa er þetta eiginlega?

Paradís framkvæmdavaldsins - Sverrir Jakobsson - Fréttablaðið 29. febrúar 2008

Hér er svo samanklippt svolítil umræða um einmitt þetta mál í Silfri Egils 9. mars og fréttum RÚV 10. september sl. Takið eftir tölunum sem Katrín nefnir. Sláandi. Þessu verður að breyta! Er það ekki á valdi þingmanna sjálfra með því að hafna flokksræðinu og ofríki framkvæmdavaldsins og fylgja sannfæringu sinni?


Hávær þögn

Það er nú meira hvað þögn getur verið hávær. Ærandi. Það var hún svo sannarlega á Austurvelli í gær. Eiginlega háværari en púið að þögn lokinni. Mörg hjón eða pör kannast við það sem kallað er "the silent treatment" sem mun vera verri en nokkurt rifrildi. Ég trúi því alveg.

Eftir þögnina og púið hentu nokkrir skóm að Alþingishúsinu að Arabasið. Þótt það tíðkist ekki í okkar menningarheimi má líta á það sem táknrænt engu að síður. Við Massimo hans Harðar tókum þá skó sem lentu á gangstéttinni og röðuðum þeim snyrtilega á efri tröppur hússins með sólana upp. Svo kom maður með fullan poka af banönum og raðaði þeim álíka snyrtilega á neðri tröppuna. Líka táknrænt.

Skömmu seinna, á heimleiðinni, hitti ég gamlan vin minn og bekkjarbróður sem hefur mætt á alla fundina. Það er orðið ritúal hjá honum og tveimur vinum hans á laugardagseftirmiðdögum. Einn þeirra ber heimatilbúið skilti sem á stendur: "Út með ruslið!" Hann sagði að boð hefðu borist frá öllum bananalýðveldum heims þar sem þau frábiðja sér þá niðurlægingu að vera líkt við Ísland. Mér fannst það mjög skiljanlegt.

Ég er að spá í hvað ég á af mér að gera í dag - það verður ekkert Silfur! Egill er farinn í jólafrí. Kannski gefst loksins tími til að ná í aðventukransinn niður í geymslu og byrja að skreyta og kaupa jólagjafir. Ekki seinna vænna. Gísli bakaði smákökur og afaðist heil ósköp í gær eins og hann segir frá á blogginu sínu. Ég bað hann að selja mér smákökur af því ég hef ekki eldhúsgen, kann hvorki að elda né baka og slasa mig yfirleitt við eldhúsverk. Hann svarar mér kannski með tilboði og samþykkir að vera afi minn líka, enda held ég að hann sé heimsins besti afi.

En hér er sjónvarpsfréttaumfjöllun gærkvöldsins frá fundinum og nokkrar myndir sem ég tók og ein úr vefmogganum, skásta myndin sem ég fann í netmiðli. Annars eru fundirnir á Austurvelli orðnir eins og félagsheimili. Ég hitti alltaf fullt af góðu fólki sem ég ýmist þekki eða þekki ekki og kynnist þá bara. Það er hið jákvæða við þetta.

 
Mótmæli - 20.12.08 - Ljósm. Mbl.
Austurvöllur 20.12.08
Austurvöllur 20.12.08 Austurvöllur 20.12.08
 Austurvöllur 20.12.08

Trúir fólk nú?

Þetta voru fjölmargir búnir að segja - hamra á þessu reyndar. Ætli nú verði hlustað og trúað fyrst sannleikurinn kemur að utan, frá sjálfum Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Auðvitað er virkjana- og áldrottningin ekki sammála, enda ábyrgðin hennar meðal annarra.

Virkjanir orsök ofþenslu - Fbl. 20.12.08

Í framhaldi af þessu er kannski vert að íhuga orðspor og sjálfsvirðingu íslensku þjóðarinnar.

Orðspor og sjálfsvirðing þjóðar - Fbl. 20.12.08


Bragð er að þá Finnur finnur...

Ég dáist að snillingum eins og Henrý Þór, Halldóri, Baggalút og Spaugstofunni. Vonandi flýr enginn þeirra land, við þurfum á þeim að halda með beitt skopskynið og tjáningarmáta sem ekki er öllum gefinn.

Ég man ekki hver sagði það fyrst - en ef spillingarfnykur fannst varð fljótlega fleygt orðtakið: "Finndu Finn" (Ingólfsson). Finni var gefinn banki fyrir nokkrum árum af því hann var Framsóknarmaður og í vinfengi við þáverandi bankamála- og viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins, Valgerði Sverrisdóttur. Í dag veit hann ekki aura sinna tal og mér hefur fundist vanta hann og félaga hans, þyrluflugmanninn og óðalsbóndann Ólaf Ólafsson, inn í umræðuna. Henrý Þór lyfti orðtakinu Finndu Finn í nýjar hæðir, breytti því í Finnur fann, og afhjúpar framtíðardrauma Finns og fleiri innan Flokksins.

Henrý Þór - Bragð er að þá Finnur finnur


Znilld - þeir klikka aldrei

Jólalag Baggalúts 2008

 


Þeir brillera dag eftir dag

Sumir skrifa sig hása um ástand og horfur - aðrir lýsa því sem er að gerast í nokkrum dráttum á sinn persónulega hátt.

Halldór í Mogga í dag Halldór Baldursson - Mbl. 19.12.08

Henrý Þór á síðunni sinni og Smugunni í dag Henrý Þór - henrythor.blogspot.com


Græðgisvæðingin - varist endurtekningar!

Ég birti þessa færslu 10. október - það var sennilega of snemmt. Sjálfsagt voru fáir farnir að gera sér grein fyrir því þá hve alvarlegt ástandið væri. Það er full ástæða til að birta þetta allt aftur og vara við. Nú hefur komið í ljós að auðmennirnir sem gerðu þjóðina gjaldþrota eru að sölsa undir sig eignir - aftur - þeir fá skuldir afskrifaðar og koma undan feldi eins og óspjallaðar meyjar. Líka skuldsettir útgerðarmenn sem fengu auðlind þjóðarinnar gefins, léku sér með hana og veðsettu hana rétt eins og aðrir fengu bankana upp í hendurnar og keyrðu þá - og þjóðina - í þrot á örfáum árum.

Við VERÐUM að standa vörð um orkuauðlindirnar svo þær fari ekki sömu leið! Þarna segir m.a.: The rules will need to be rewritten - það verður að setja nýjar reglur. Er verið að því? Er einhver á þingi að beita sér fyrir því að setja ný lög og reglur svo sami leikurinn geti ekki endurtekið sig? Ég hef ekki orðið vör við það. Hvað er að gerast með Hitaveitu Suðurnesja og Geysir Green Energy? VARÚÐ! En hér er færslan - texti og myndbönd. Í öllum bænum gefið ykkur tíma til að horfa og hlusta:

 _____________________________________________

Viltu verða ríkur? Svona gerum við...

Þátturinn The Greed Game sem sýndur var á BBC nýverið vakti mikla athygli. Í honum er farið yfir aðferðir hinna ofurríku við að græða peninga, ótrúlegar fjárhæðir, aðstöðunni sem þeir hafa skapað sér með aðstoð góðra manna og í hvað þeir eyða peningunum. Þátturinn virðist vera gerður eftir að "efnahagshrunið mikla" hófst og í honum kemur ýmislegt fram sem er fróðlegt að vita. Gera má ráð fyrir að hinir íslensku auðmenn eða "útrásarvíkingar" hafi notað svipaðar aðferðir þegar þeir komu ár sinni fyrir borð um leið og þeir stóðu að hruni íslensku bankanna og  þjóðarinnar allrar.

Lokaorð þáttarstjórnanda eru athyglisverð: "So there are still plenty of opportunities for the super-rich to increase their fortunes. Even though the global financial system is in intensive care and our prosperity is threatened. With the Greed Game still being played, if we're not going to end up losers again, the rules will need to be rewritten." Það sem á undan kom sýndi fram á að þessir menn geta haldið áfram græðgisleiknum nánast  endalaust miðað við þann skort á regluverki sem ríkir. Er ekki rétt að benda íslenskum stjórnvöldum á þetta?

Þátturinn er hér í 7 hlutum svo fólk getur farið rólega í þetta og tekið einn í einu. Neðst er síðan skýringarmynd úr sænsku netblaði sem sýnir a.m.k. hluta eignatengsla íslensku auðjöfranna. Mér finnst nú samt að einhverja og eitthvað vanti inn í þetta net. En hvað varð af þessum mönnum? Geta þeir nokkurn tíma látið sjá sig á landinu framar.

1. hluti

 

2. hluti

 

3. hluti

 

4. hluti

 

5. hluti

 

6. hluti

 

7. hluti

 

Eignatengsl íslenskra auðmanna


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband