Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Ótrúlegur yfirgangur og ósvífni

SumarhúsMig hefur aldrei langað að eignast sumarbústað. Kannski ekki gefin fyrir að fara alltaf á sama staðinn. En ég myndi þó gjarnan þiggja að hafa aðgang að bústað svona einu sinni, tvisvar á ári. Ekki væri verra að hafa fallegt umhverfi en fyrst og fremst myndi ég vilja ró og næði. Eina tónlistin sem ég myndi vilja heyra væri söngur náttúrunnar. Engin önnur hljóð fyrir utan þetta bráðnauðsynlegasta - bíl í fjarska (miklum fjarska) og kannski óm af mannamáli í álíka miklum fjarska. En helst ekki samt. Best þætti mér að vera óralangt frá öllum mannabústöðum og njóta algjörrar kyrrðar.

"Er allt falt fyrir peninga á Íslandi?" spyr Jenný Anna í fínum pistli umÞingvellir þetta sama mál. Fólki er leyft að troða niður sumarbústöðum, eða ætti maður frekar að segja glæsivillum, á helgasta blett okkar Íslendinga, þjóðgarðinn á Þingvöllum. Svæði sem er sameign þjóðarinnar og ætti að vera friðhelgt og verndað fyrir ágangi sem þessum. En nei, allt virðist falt fyrir peninga á Íslandi og samkvæmt þessari frétt á mbl.is er verið að reisa þó nokkar nýjar villur rétt við það allra helgasta og þar er fólk ekkert að spá í að fara eftir reglum.

ÞyrlaAð þurfa að upplifa hávaða frá þyrlum á þessum stað eru í mínum huga helgispjöll og það mjög alvarleg. Hávaðinn og áreitið í umhverfinu, þar á meðal frá þyrlum, er alveg nóg svo ekki sé ruðst með þessi tæki inn á þau svæði þar sem fólk vill vera í friði og ró með náttúrunni.

Í fréttinni á mbl.is segir m.a.: "Þingvallanefnd hefur kynnt eigendum sumarhúsalóða innan þjóðgarðsins á Þingvöllum drög að nýjum reglum um sumarhús. Þar er lagt bann við nýbyggingum og girðingum um einkalóðir." Ég hélt satt að segja að löngu væri búið að setja þessar reglur því það er svo langt síðan ég heyrði um þær fyrst. Þingvallanefnd virðist ekki vera sérlega snör í snúningum og spurning hvernig eftirlitinu er háttað hjá nefndinni.

En hér er fréttin og viðtalið við Bjarna Harðarson, alþingismann. Hann er greinilega ekki par ánægður með ástandið og það sem hann hefur séð þarna þótt hann sé varkár í tali. Ætli hann sé í Þingvallanefnd? Að öðru leyti vísa ég í áðurnefndan pistil Jennýjar Önnu.

 

Viðbót: Þetta myndband birtist með frétt á mbl.is í dag. Þarna er farið allt aftur til ársins 1980 og rifjað upp hvað var verið að tala um á þeim tíma. Kannski ekki furða að ég hafi haldið að löngu væri búið að setja reglurnar en nú spyr ég: Hvað er Þingvallanefnd eiginlega að gaufa?

Viðbót 2: Þetta gerðist þriðjudaginn 15. júlí - Þingvallanefnd bannaði þyrluflug í þjóðgarðinum á Þingvöllum til 1. október nk. Nefndin tók við sér eftir að kvartanir bárust.


Forsætisráðherra ráðið heilt

Ég ætla að vera hógvær og ekkert að eigna mér neinn heiður af þessari umfjöllun, enda hafa fleiri fjallað um málið. Ég ætla ekki einu sinni að vísa í þennan pistil með myndbandinu og ekki þennan heldur. Seiseinei. En mér var nokkuð skemmt yfir frétt Stöðvar 2 í kvöld þar sem Ólafur Hauksson, almannatengill og flokksbróðir forsætisráðherra, ráðleggur honum að breyta framkomu sinni við fjölmiðla.

Geir HaardeÓlafur er sammála mér og segir Geir annálað prúðmenni - það er hann líka. Þess vegna kemur þessi framkoma hans mjög á óvart. Ólafur segir ekki gott fyrir stjórnmálamann, hvað þá forsætisráherra, að vera svona hvumpinn. Ég tek undir það.

Fyrir nokkrum árum, kannski svona 6 eða 7, var haft eftir fréttamanni einum að Geir væri einn af tveimur eða þremur uppáhalds stjórnmálamönnunum hans - sem fréttamanns. Ástæðan var sú að það var auðvelt að ná í hann og hann svaraði alltaf spurningum fréttamanna, skýrt og án málalenginga. Ekkert þvaður og blaður út í loftið. Mig minnir að Geir hafi verið fjármálaráðherra þá.

Vonandi hlustar forsætisráherra á Ólaf og hverfur aftur til sinnar eðlislægu framkomu sem öllum fellur svo vel í geð - og það kemur skoðunum hans, flokknum og pólitík ekkert við. Það er bara þroskaðra, kurteisara og prúðmannlegra auk þess sem framkoma hans undanfarið veldur því að bæði fólki og fréttamönnum finnst hann tala niður til sín. Það er ekki vænlegt til árangurs.


Breskur húmor, myndbönd og efnahagsmál

BBC-ITVBretar eru miklir húmoristar, það held ég að sé nokkuð óumdeilt. Við sjáum allt of lítið af bresku efni í íslensku sjónvarpi. Amerískir veruleikaþættir hafa tröllriðið dagskrá flestra sjónvarpsstöðva undanfarin ár. Það er helst Ríkissjónvarpið sem býður upp á breskt efni, bæði drama og grín, og það er geysivinsælt. En meðalaldur sjónvarpsáhorfenda er að hækka eins og fram kom í þessari frétt, svo væntanlega endurspeglar dagskráin það fljótlega með þáttum fyrir fullorðna.

Bretar ganga oft mjög langt í sínu gríni og miðað við viðbrögð sumra við gríni hérlendis yrðu þeir líklega snarvitlausir ef okkar grínistar myndu hamast jafn miskunnarlaust á jafnvel viðkvæmum málum og þeir bresku gera gjarnan. Þeim virðist fátt vera heilagt.

Ekki hafa Bretar farið varhluta af efnahagskreppunni sem geisað hefur þótt Baugur Groupþær vaxta- og verðbólgutölur sem þeir glíma við séu snöggtum lægri en þær sem við Íslendingar sjáum hér. Í ljósi þess er kannski skiljanlegt að eitt stærsta fyrirtæki landsins hafi séð sér leik á borði og flutt aðsetur sitt til Englands þótt ekki sé það stórmannlegt. Eigendurnir fleyttu rjómann af góðærinu en stinga svo af þegar kreppir að. Þannig lítur málið út í mínum augum, en ég viðurkenni að vera illa að mér í völundarhúsi fjárfestinga og Group-mála, svo vel má vera að þetta sé rangt mat.

Bankar, verktakar og ýmis fyrirtæki emja líka sáran. Á meðan græðgin réð för og allt lék í lyndi, bankar græddu á tá og fingri, verktakar færðust allt of mikið í fang og fyrirtækin slógu lán á báða bóga var íhlutun eða afskipti ríkisvaldsins harðlega fordæmd. Allt átti að vera svo einkavætt og frjálst, öllum heimilt að gera það sem þeim sýndist í opnu hagkerfi og frjálsu samfélagi. Ríkisvaldið mátti hvergi koma þar nærri - ekki einu sinni til að vara menn við því að óráðsían væri feigðarflan og farin úr böndunum. Ríkinu kom þetta bara ekkert við... þá.

PeningarSvo sprakk blaðran eins og hún hlaut auðvitað að gera eftir allt sukkið. Þá kom skyndilega allt annað hljóð í strokkinn. Nú á ríkið (við skattborgarar) að redda hlutunum, slá erlend lán upp á hundruð milljarða á gengi dagsins, bjarga óforsjálum verktökum frá gjaldþroti vegna offjárfestinga, breyta gjaldmiðlinum, ganga í ESB og síðast en ekki síst - virkja allar orkuauðlindir okkar strax til að byggja verksmiðjur ("mannaflsfrekar framkvæmdir", svokallaðar). Fyrirhyggjuleysið kristallast í orðum talsmanns greiningardeildar Glitnis sem lesa má í þessu morgunkorni þar sem fyrirhuguð eyðilegging á íslenskri náttúru er dásömuð af því hún færir aur í kassann hjá bönkunum:

"Segja má að álframleiðsla og annar orkufrekur iðnaður sé leið Íslendinga Glitnirtil að flytja út orku með hliðstæðum hætti og olíuríki selja afurðir sínar á heimsmarkaði, og hátt orkuverð er að öðru óbreyttu jákvætt fyrir arðsemi af slíkum orkuútflutningi. Í því ljósi, og með hliðsjón af því hversu fjárfestingarstig í hagkerfinu virðist nú lækka hratt, má segja að ofangreindar framkvæmdir séu heppilegar og líklegar til þess að vega gegn verulegum samdrætti í innlendri eftirspurn á næstu misserum."

Takið eftir niðurlaginu - það er verið að tala um misseri, ekki ár eða áratugi. Framtíðarsýn peningaaflanna er aðeins nokkur misseri. Bankarnir bara að bjarga sjálfum sér fyrir horn. Þetta er óhugnanlega dæmigert fyrir íslenskan hugsunarhátt og pólitík. Stjórnmálamenn hugsa í kjörtímabilum, þá helst aðeins um sitt eigið kjördæmi og eru á stanslausum atkvæðaveiðum. Hagsmunir og framtíð heildarinnar hverfa í skuggann á pólitískum skammtímaframa stjórnmálamanna. Bankar og önnur fyrirtæki - og reyndar almenningur líka - hugsa bara um morgundaginn, í besta falli næsta ársuppgjör eða næstu mánaðamót. Ég vildi óska að hér ríkti meiri langtímahugsun í stjórn landsins, viðhorfi banka, fyrirtækja og almennings og umhyggja fyrir heildarhagsmunum í stað sérhagsmuna. Það er ekki vænlegt til árangurs að hugsa alltaf eingöngu um rassinn á sjálfum sér.

En ég ætlaði ekki að skrifa svona mikið heldur koma með sýnishorn af breskum húmor. Þau tengjast öll efnahagskreppunni og þarfnast ekki frekari skýringa. Þriðja og síðasta myndbandið birti ég hér fyrir nokkrum mánuðum - en góð vísa er sjaldan of oft kveðin.




Leyndarmál og lygar - bréf til Norðlendinga og Vestfirðinga

24Nú gengur maður undir manns hönd að skrifa blaðagreinar og dásama fyrirhugað álver á Bakka og gósentíðina sem það mun hafa í för með sér fyrir byggðarlagið. Oddviti Sjálfstæðismanna í Norðurþingi skrifaði í 24stundir í gær og sveitarstjóri Norðurþings í Morgunblaðið. Þeir eiga ekki nógu hástemmd lýsingarorð til að dásama mannlífið í kringum væntanlegt álver og bjarta framtíð ef það verður reist. Gjarnan er bent á hve blómlegt er nú á Austfjörðum eftir byggingu virkjunarinnar miklu og tilkomu álversins á Reyðarfirði. Allt annað líf... eða hvað?

Sannleikurinn virðist vera allt annar. Sem dæmi má nefna eru Morgunblaðiðverktakafyrirtæki á förum eða farin, Síminn lokaði einu verslun sinni á Austurlandi, ritstjórnarskrifstofu Morgunblaðsins á Austurlandi var lokað fyrir um mánuði (opnaði 2003), RÚV sagði upp manni á Austurlandi sl. mánudag og Iceland Express hætti beinu flugi frá Egilsstöðum til útlanda. Bætið við dæmum ef þið hafið þau. Það er ekki ýkja langt síðan ég sá frétt á annarri sjónvarpsstöðinni þar sem farið var um Austfirði og talað við fólk sem bar sig fremur illa. Það sagði eitthvað á þá leið að ef það vildi ekki flytja til Reyðarfjarðar og vinna í álinu hefðu þessar framkvæmdir engin áhrif á þeirra byggðarlag, því það er auðvitað langt í frá að allir Austfirðir séu eitt atvinnusvæði. Það eru Vestfirðir ekki heldur.

Viðbót: Ég bað um fleiri dæmi og ætla að bæta þeim inn hér sem koma fram í athugasemdum við aðra pistla vegna heimildagildis. Hildur Helga nefndi ágætt dæmi í athugasemd við þennan pistil (sjá alla athugasemdina þar) sem hljóðar svo:

"Sá þig auglýsa á amk einum stað eftir fleiri dæmum um það, sem ekki hefur gengið eftir í kjölfar virkjana í fyrirheitna landinu á Austfjörðum. Nógu mörg slík dæmi hafa nú bæði þú og aðrir talið upp, en ég bendi samt á nýlega frétt um stóraukna tíðni hjónaskilnaða fyrir austan. (Sjónvarp; RÚV eða Stöð 2)."

Það virðist semsagt ekkert vera að gerast á Austurlandi lengur. Búið að reisa Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði og þá er pakkað saman, læst á eftir sér og lyklinum væntanlega fleygt í uppistöðulón. Hvað stóð gósentíðin lengi yfir? Fjögur ár? Kannski fimm? Hve miklir peningar skiluðu sér í kassann af öllum erlendu verkamönnunum sem sendu hýruna sína heim og fóru svo? Það er erfitt að játa að maður hafi haft rangt fyrir sér og Austfirðingar eru almennt ekki tilbúnir til þess ennþá. En hinkrum aðeins - þeir leysa frá skjóðunni fyrr eða síðar.

Af öllum þeim atburðum sem þessum framkvæmdum hafa fylgt er mér tvennt efst í huga: Eyðilegging náttúrunnar og meðferðin á erlendu farandverkamönnunum. Verkalýðsfélög höfðu sig mjög í frammi og mótmæltu hástöfum en ég veit ekki hvort lögum og reglum hafi verið breytt til að koma í veg fyrir að slík níðingsverk verði framin aftur við næsta verkefni, hvert sem það verður.

Kveikjan að þessum pistli var grein eftir unga konu frá Austurlandi sem birtist í Morgunblaðinu miðvikudaginn 2. júlí, Hildi Evlalíu Unnarsdóttur, og hún segir ekki fagra sögu af ástandinu á Austfjörðum. Hún segist hafa flutt frá Austfjörðum á Suðvesturhornið til að stunda frekara nám eftir framhaldsskóla. Henni þykir augljóslega vænt um sína heimabyggð og hver veit nema hún hefði verið um kyrrt ef henni hefði staðið til boða að stunda sitt nám fyrir austan? Hvað hefur ekki háskólinn á Akureyri gert fyrir Norðurland? Hafa Austfirðingar engan áhuga á að lokka ungt fólk til sín eða halda í unga fólkið sitt með því að bjóða því upp á menntunarmöguleika í heimabyggð? Ég held að það væri nær - og ekki bara fyrir Austfirðinga. Eða hve margir starfsmenn álversins á Reyðarfirði eru áður brottfluttir Austfirðingar sem eru að koma aftur heim? Það væri gaman að vita. En hér er þessi athyglisverða grein Hildar Evlalíu.

Moggi 2. júlí 2008 - Hildur Evlalía

 

Þeir sem talað hafa máli olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum hafa uppi svipaðan málflutning og Norðlendingar um álverið á Bakka. Þeir minnast ekki á þau gríðarlegu, skaðlegu áhrif sem framkvæmdirnar hafa, heldur veifa framan í Vestfirðinga "500 störfum og enn fleiri afleiddum störfum". Það er greinilega vel geymt leyndarmál að í fyrsta lagi yrðu störfin aldrei svona mörg miðað við fjölda starfa í öðrum olíuhreinsistöðvum, einkum þeim nútímalegu og tæknivæddu sem þeir dásama svo mjög.

Olíuhreinsistöð í EnglandiÍ öðru lagi hefur hvergi verið minnst á hve mörg störf glatast ef olíuhreinsistöð yrði reist á Vestfjörðum því hún yrði í mikilli andstöðu við ýmsa aðra atvinnustarfsemi. Væntanlega yrðu þó nokkuð margir annað hvort að loka sinni sjoppu og fara - eða vinna í olíuhreinsistöð. Hefur einhver gert könnun á því hve margir Vestfirðingar vilja í raun vinna í olíuhreinsistöð sjálfir? Eða yrði að manna stöðina með erlendum farandverkamönnum eins og byggingu hennar? Við skulum ekki láta okkur dreyma um að hún verði reist með innlendum mannafla - það þætti allt of dýrt. Munum Kárahnjúka.

Svo eru það goðsagnirnar. Ein gengur út á það, að ef olíuhreinsistöð verði reist á Vestfjörðum fái Íslendingar ódýrt eldsneyti.  W00t  Lesið um það hjá Ylfu Mist hér. Hvernig konunni datt þetta í hug veit ég ekki. Skyldi einhver hafa logið þessu að henni til að kaupa velvild hennar? Konan getur lítið gert annað en að skammast í sínu horni þegar hún er búin að greiða atkvæði með olíuhreinsistöðinni og kemst síðan að því að hún fær ekki krónu í afslátt af bensínverðinu.

Lífseigasta goðsögnin fjallar um hve stór hluti álútflutningur er af tekjum þjóðarbúsins. Sagt hefur verið að hann sé meiri en af fiskveiðum og margfaldur á við ferðaþjónustuna. Það var vel geymt leyndarmál að þetta er lygi, en var afhjúpað í 24stundum í gær með afgerandi hætti. Auk þess seljum við þessum fyrirtækum hina verðmætu orkuauðlind okkar á útsöluverði í blússandi orkukreppu! Ég ímynda mér að svipað myndi gilda um olíuhreinsistöð þar sem, eins og í álinu, hvorki hráefnið né unna afurðin verður í eigu Íslendinga - og heldur ekki stöðin sjálf. En hér er fréttin sem afhjúpaði leyndarmálið og lygarnar.

Álver skila litlu í þjóðarbúið

 

Kæru Vestfirðingar og Norðlendingar - hugsið málið, setjið hlutina í samhengi og látið ekki ljúga að ykkur lengur. Áttið ykkur á að þessi mál snúast um svo miklu, miklu meira en að reisa eitt álver eða eina olíuhreinsistöð. Fórnirnar eru ótrúlega miklar, eyðileggingin gríðarleg og að flestu leyti óafturkræf. Ekki láta blekkjast af fagurgala manna sem hafa það eitt að leiðarljósi að hagnast sjálfir og er alveg sama um ykkur og okkur hin og látið ykkur ekki detta í hug að við fáum ódýrt eldsneyti þótt hér verði reist olíuhreinsistöð.

Hugsið um þau tækifæri sem þið væruð að svipta komandi kynslóðir með því að ganga svo á orkuauðlindir landsins að ekkert yrði eftir handa þeim eða stofna fiskimiðum, fuglabjörgum og hreinni ímynd Íslands í stórhættu. Hlustið á málflutning manna eins og Stefáns Arnórssonar sem ég vitnaði í hér og þið getið hlustað á í Spegilsviðtali í tónspilaranum ofarlega til vinstri á þessari síðu. Skoðið hug ykkar og íhugið orð Stefáns sem segir að þegar upp er staðið sé þetta spurning um siðferði.

Og þið getið verið viss um að eftir fjögurra til fimm ára fjör hjá fáum og fullt af peningum í vasa enn færri - ef af framkvæmdum verður - fer fyrir ykkur eins og Austfjörðunum og þá er betur heima setið en af stað farið.

Viðbót: Það var gaman að lesa grein Dofra Hermannssonar í Morgunblaðinu í morgun, en þar skrifar hann á svipuðum nótum og ég í þessum pistli, þótt hann beini augum að álveri í Helguvík. Dofri setti greinina á bloggið sitt áðan - sjá hér.


Forsætisráðherra og fjölmiðlarnir

Það var aldrei meiningin að fara út í mikla myndbandagerð, en ég ræð ekkert við hugmyndaflæðið; fjölmiðlarnir og þjóðmálin eru endalaus uppspretta hugmynda og gagnrýni. Ég hef ekki tíma til að vinna úr nema brotabroti af öllum þeim hugmyndum sem ég fæ. Oft spilar margt saman og í þetta sinn var það lítill pistill á baksíðu 24stunda þriðjudaginn 1. júlí og nokkrar fréttaúrklippur af viðtölum við forsætisráðherra.

Í mars sl. skrifaði ég þennan pistil, sem ég kallaði "Fjölmiðlar, fjórða valdið og fyrirlitning í framkomu ráðamanna". Tilefnið var tilsvar forsætisráðherra þegar fréttakona spurði hann spurningar - eða réttara sagt, reyndi að ganga á eftir því að hann svaraði spurningu. Forsætisráðherra var aldeilis ekki á því og hreytti í hana ónotum. Hann hefur verið áberandi ergilegur undanfarið, blessaður, og gjarnan svarað með skætingi.

Svo sá ég þennan pistil á baksíðu 24stunda á þriðjudaginn og ákvað að búa til nýtt myndband.

 Atli Fannar um forsætisráðherra

 

Mér til dálítillar furðu bættist við enn eitt myndbrotið áður en ég byrjaði á myndbandinu - í hádegisfréttum Stöðvar 2 í gær, miðvikudag. Að sjálfsögðu tók ég það með. Athygli vekur að svona myndbrot hafa aðeins birst í fréttum Stöðvar 2. Hvað þýðir það? Að forsætisráðherra svari ekki fréttamönnum Ríkissjónvarpsins á þennan hátt - eða eru tilsvör hans bara ekki sýnd þar? Það langar mig að vita.

Geir HaardeGeir Haarde er vel gefinn maður og hér áður fyrr naut hann álits, trausts og virðingar langt út fyrir raðir síns flokks. Er valdið að fara svona með hann eða er eitthvað annað að gerast? Af hverju sér þessi áður fyrr prúði og kurteisi maður sig knúinn til að koma fram eins og forveri hans í embætti sem kunni sér ekkert hóf í framkomu sinni og talaði alltaf niður til þjóðarinnar? Ég neita að trúa að Geir sé strengjabrúða seðlabankastjóra, sem virðist ráða því sem hann vill ráða þótt hann eigi að heita hættur í stjórnmálum. Breytir hann hegðan sinni fyrir næstu kosningar? Verður hann þá eins og Halldór Ásgrímsson sem sást aldrei brosa nema í kosningabaráttu? Eða er Geir búinn að fá leið á vinnunni sinni eins og George Constanza sem Atli Fannar skrifar um?

Með samsetningu þessa myndbands vil ég hvetja fjölmiðlafólk til að láta stjórnmálamenn ekki komast upp með að svara ekki spurningum eða hreyta í það ónotum þegar það reynir að gera skyldu sína gagnvart almenningi - að upplýsa þjóðina um atburði líðandi stundar. Og birta svör þeirra eins og Stöð 2 hefur gert. Fjölmiðlar eru fjórða valdið í þjóðfélaginu og þeim ber að sinna skyldu sinni gagnvart þjóðinni. Vonandi ber þeim gæfa til að inna það starf eins vel af hendi og kostur er.

 


Húmor á Mogganum - nú hló ég!

Hinn nafnlausi Víkverjapistill í Morgunblaðinu sl. sunnudag vakti óskipta athygli mína. Þar var fjallað um hve blogg er ómerkilegt og illa skrifað. Ég tók pistlinum sem argasta gríni og minn gamli vinur, Sigurður Þór Guðjónsson, skrifaði um hann litla bloggfærslu í sínum persónulega stíl.

Mér fannst pistillinn svo skondinn að ég sendi Víkverja dagsins tölvupóst og þakkaði fyrir í þeim anda sem ég tók skrifum hans. Ekki bjóst ég við að fá svar, en rakst svo á það í morgun að bréfið mitt var birt í blaðinu - í Velvakanda á bls. 27. Ég skellihló þegar ég sá þetta og kann vel að meta húmorinn sem í því felst að birta bréfið frá mér.

En hver var þessi Víkverji sunnudagsins? Á Morgunblaðinu vinna margir eðalblaðamenn og sjálfsagt eru fjölmargir þeirra húmoristar. Var þetta Agnes? Ragnhildur? Kolbrún Bergþórs? Freysteinn? Steinþór? Marga fleiri mætti nefna. Hver er "snyrtipinni og safnar ekki drasli"? Ég hef ekki hugmynd um það - og mér er svosem slétt sama. Það sem mér finnst mest um vert er að Morgunblaðið hafi húmor og leyfi okkur hinum að njóta hans. Nóg er af alvörumálum í samfélaginu. Það er gott að fá að brosa og hlæja líka.

En Mogginn sleppti að birta hluta af undirskrift minni sem mér finnst auðvitað alveg ótækt, því þar kemur fram að ég er sjálf bloggari og fell augljóslega undir hina málefnalegu og skemmtilegu alhæfingu Víkverja, sem og eigið háð. Ég undirritaði bréfið nefnilega svona:

Lára Hanna Einarsdóttir
www.larahanna.blog.is
hvar hún hefur ekkert fram að færa

 Velvakandi - 2. júlí 2008Víkverji - 29. júní 2008


Stjórnarslit í aðsigi?

Það skyldi þó aldrei vera að stjórnarslit væru í aðsigi? Fréttin hér að neðan var í tíufréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld og vitnað í grein eftir Robert Wade sem birtist í Financial Times í kvöld. Lesið hana endilega. Hér talar greinilega maður sem þekkir til efnahagslífsins á Íslandi - og þar með stjórnmálanna.

Niðurlag greinarinnar er athyglisvert innlegg í umræðuna. Wade segir að ef blásið yrði til nýrra kosninga gæti Samfylkingin fengið nægt fylgi til að mynda stjórn með einum af minni flokkunum og... "...afleiðingin gæti orðið sú, að efnahagsstefna Íslands færi að líkjast þeirri hjá frændþjóðum í Skandinavíu, þar sem fjármálastofnanir ráða ekki öllu og óstöðugleiki er tekinn alvarlega."

Hér er frétt um málið á Vísi og hér í Viðskiptablaðinu.

Það hlýtur að koma í ljós innan skamms hvort Wade hefur rétt fyrir sér.

 


Fuglalíf og svolítil nostalgía

Ég var að horfa á og taka upp tíufréttirnar í Ríkissjónvarpinu áðan og heillaðist af lokamínútunum. Þar voru lómur og kjói við Héraðsflóa í aðalhlutverki ásamt ungunum sínum. Mér finnst að báðar sjónvarpsstöðvarnar mættu sýna svona náttúrulífsbrot í lok allra fréttatíma í sjónvarpi. Á báðum stöðvunum vinna kvikmyndatökumenn sem geta, ef sá gállinn er á þeim og þeir fá tækifæri til, verið listamenn á sínu sviði eins og þetta myndbrot ber með sér.

Mér varð hugsað til bernskunnar og lags sem ég grét yfir í hvert sinn sem það var spilað í útvarpinu. Mikið svakalega fannst mér það sorglegt. Það var á þeim árum þegar útvörp voru risastórar mublur, helst úr tekki, og maður var sannfærður um að fólkið sem talaði eða söng væri inni í tækinu. En aldrei skildi ég hvernig heilu hljómsveitirnar og kórarnir komust þar fyrir - og skil ekki enn.

Lagið setti ég í tónspilarann - það er gullaldarlagið "Söngur villiandarinnar", sungið af Jakob Hafstein af yndislegri innlifun og tilfinningu. Ég gleymi aldrei hvernig mér leið þegar ég hlustaði á það "í den". Og það vill svo skemmtilega til að sonur og alnafni söngvarans er nú afskaplega kær fjölskylduvinur.

 

 


 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband