Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Harmleikur í Ráðhúsinu

Tragíkómedía í ótal þáttum.
Varúð! Ekki fyrir stjórnmálamenn eða viðkvæmar sálir.
Aðgangur ókeypis fyrir landsbyggðarfólk
en innifalinn í útsvari Reykvíkinga.

Kynningarmyndband (Trailer) - stutt útgáfa

 

 Kynningarmyndband fyrir lengra komna, fréttafíkla og fullorðna - löng útgáfa


Auðmannablús og bankastjóraraunir

Þeir sem lesa bloggið mitt reglulega muna kannski eftir þessum pistli sem ég skrifaði 20. apríl sl. Þar var ég meðal annars að spá í hvaða menn væri verið að vernda og þóknast með "innspýtingu í efnahagslífið" sem helst virðist felast í því að reisa sem flestar virkjanir, álver og jafnvel olíuhreinsistöð. Einstakri, dýrmæti náttúru Íslands skal fórnað fyrir rándýra jeppa, sumarbústaði, utanlandsferðir, munað, óhóf og einkaþotur auðmanna. Ég vitnaði í atriði úr Spaugstofunni...

"Munið þið eftir vel klædda manninum (Pálma) sem stóð á gangstétt í Ingólfsstræti (hjá Sólon) og þusaði þessi ósköp um ástandið í landinu og skort á viðbrögðum stjórnvalda við því? Hann sagði:

Lúxusjeppi Það er bara hreinlega að verða deginum ljósara að það er ekki búandi í þessu þjóðfélagi. Það virðast ekki vera nein takmörk fyrir því hvernig hægt er að fara með okkur þegnana. Ég er til dæmis nýbúinn að kaupa mér 8 milljón króna jeppa og hjólhýsi á afborgunum. Og þegar þetta bætist við afborganirnar af nýja eldhúsinu mínu og heita pottinum og hérna... já, og lánið af sumarbústaðnum... og flatskjáinn og snjósleðann minn og fjórhjólið og frúarbílana... þá bara ræð ég ekkert við þetta lengur! Og svo hækka þeir vextina til að gera endanlega út af við mann. Og hvað gera stjórnvöld? Ekki neitt! Þetta á ekki að líðast í siðmenntuðu þjóðfélagi!"

Ég var að leita að grein í Morgunblaðinu í kvöld og rakst þá á þetta litla viðtal frá 2. júlí sl. Hér er verið að fjalla um kvótaniðurskurðinn.

Magnús Kristinsson í Mbl. 2. júlí 2008Takið sérstaklega eftir þessari setningu: "Efnahagsumhverfið er þannig að maður er á mörkum þess að geta lifað lífinu..." HA?!  W00t  Er þetta ekki auðmaðurinn og útgerðarmaðurinn úr Eyjum sem á meðal annars Toyota umboðið og svífur milli staða á landinu á einkaþyrlu? Hann segist vera á mörkum þess að geta lifað lífinu! Hamingjan góða! Hvernig er hægt að bjarga þessum vesalings manni? Er þyrlueldsneytið orðið svona dýrt? Söfnun, einhver...?

Ég hafði ekki áhuga á að fletta upp í sköttum fólks og keypti ekki skattablað - en veit einhver hvað þessi maður borgaði í skatta? Það væri fróðlegt að vita í ljósi þessara ummæla. Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta!

Annar maður hefur tjáð sig um orkusölu Íslendinga til útlendinga - það er bankastjóri Landsbankans, Sigurjón Þ. Árnason. Ég man eftir útvarps- og  sjónvarpsviðtölum þar sem hann tjáði sig hvað eftir annað um að Íslendingar eigi að nýta sér hátt orkuverð í heiminum og selja útlendingum orku til að bjarga efnahagsástandinu. Þó græða bankarnir á tá og fingri. Ég hugsaði með mér: "Hvaða hagsmuna eiga hann eða Landsbankinn að gæta? Er Landsbankinn kannski viðskiptabanki Norðuráls? Hluthafi í Geysi-Green? Af hverju er bankastjóri að tjá sig um virkjanir og stóriðjuframkvæmdir og hvetja til þess að Íslendingar selji auðlindina sína úr landi? Er eitthvað annað á bak við orð hans en einskær umhyggja fyrir almenningi, viðskiptavinunum?" Ég fann ekki í fórum mínum þessi viðtöl þrátt fyrir langa og tímafreka leit en ég fann vitnað í orð hans víða þegar ég gúglaði, t.d. hér og hér. Og ég fann þetta líka. Ein setning í þessari frétt fékk mig til að glotta við tönn og hugsa til orða margnefnds Stefáns Arnórssonar í títtnefndu Spegilsviðtali (sjá tónspilara).

Í fréttinni, sem fjallar um félag Landsbankans og Landsvirkjunar um endurnýjanlega orkuvinnslu erlendis, segir: "Fáar þjóðir í heiminum búa yfir jafnmikilli þekkingu á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og Íslendingar" og á þessari fádæma miklu þekkingu virðist samningurinn byggja.

En ef hlustað er á viðtalið við Stefán heyrum við þetta í niðurlagi viðtalsins:Stefán Arnórsson, jarðefnafræðingur
Stefán: ...þannig að Íslendingar þurfa að taka á þessum umhverfismálum á
miklu, miklu breiðari hátt en gert hefur verið til þessa.
Jón Guðni: En nú erum við alltaf að tala um að kenna heiminum að nýta jarðhitann þannig að við þurfum þá kannski að fara að taka okkur tak, eða hvað?
Stefán: Ég veit nú ekki hvað ég á að segja um þetta, en mér finnst stundum að Íslendingar ofmeti sig svolítið. Í hvert einasta skipti sem er heimsmeistarakeppni í handbolta þá ætlum við á verðlaunapall, ef ekki að verða heimsmeistarar - og mér finnst að við högum okkur alveg eins í þessum efnum, í okkar viðhorfum eins og í handboltanum.

Það skyldi þó aldrei vera að Íslendingar hafi ekki eins mikla þekkingu á jarðhitaorkumálum og þeir halda? Verðum við kannski Ólympíumeistarar í handbolta innan skamms?

Nú er búið að tala yfir okkur kreppu mánuðum saman og telja fólki trú um að allt sé á beinni leið til andskotans nema því aðeins að við seljum erlendum auðhringum orkuauðlindina okkar - eins og hún leggur sig. Þessir menn eru ekki að hugsa um atvinnuhorfur einstaklinga á Norðurlandi eða Vestfjörðum - hag og kjör íbúa þar. Ekki aldeilis. Almenningur er að kikna undan vöxtum, verðbótum (fer beint í hagnað bankanna) og vöruverði og þá kvartar maður eins og Magnús Kristinsson, sem líklega veit ekki aura sinna tal, um að hann geti ekki lifað lífinu. Og bankastjórar, sem hafa meiri tekjur á mánuði en almenningur getur skilið og ausa í sjálfa sig enn meira fé í formi kaupréttarsamninga hvetja til þess að framtíð komandi kynslóða sé seld úr landi, þjóðarbúið ofurselt á klafa erlendrar stóriðju og börnin okkar og barnabörnin bundin þjónkun við erlend ál- eða olíufyrirtæki um ókomna framtíð. Og til hvers? Hvert er aðalatriði málsins? Þetta kannski?


Eru menn, sem tala og haga sér þannig, verðir trausts okkar? Erum við tilbúin til að selja landið okkar til að þóknast þeim og gera þá enn ríkari? Hvað myndi gerast ef við gengjum í ESB? Fengjum við þá tækifæri til að skipta við erlenda banka og losna undan ofurvaldi og kverkatökum þessara? Treystir fólk stjórnmálamönnunum sem spila með þeim? Óttast þeir inngöngu í ESB af því þá missa þeir einhver völd og jafnvel kverkatakið á þjóðinni? Á hvaða refilstigu er gróðahyggja og skammtímahugsun nokkurra valda- og fégráðugra manna að leiða íslensku þjóðina sem fylgir þeim þögul og niðurlút eins og lamb til slátrunar?


Máttur athugasemdanna - einlægur pistill ungrar konu

Á þessum níu mánuðum sem ég hef bloggað hafa verið skrifaðar ótalmargar, stórkostlegar athugasemdir við pistlana mína. Sumar langar, aðrar stuttar en svo innihaldsríkar margar hverjar að þær ættu heima sem sjálfstæðir pistlar. Svo dettur maður stundum inn á pistla annarra sem skrifa athugasemdir við manns eigin - og þannig var það í þessu tilfelli.

Þann 28. júní sl. skrifaði ég pistilinn Var "Fagra Ísland" tálvon eða blekking? og birti þar myndband sem ég hafði klippt saman. Örstutt athugasemd við hann leiddi mig áfram að þessum sem ég birti hér. Ég ætlaði að birta hann fyrir löngu og fékk leyfi höfundar, en tíminn hefur hlaupið ansi hratt í sumar og annir verið miklar svo ég er núna fyrst að drífa í þessu.

Dagný ReykjalínHöfundur pistilsins er ung kona, Dagný Reykjalín. Í tölvupósti sem hún sendi mér þegar ég bað um leyfi til að birta pistilinn sagði hún m.a.: "Þessi grein er reyndar skrifuð út frá sjálfri mér og minni túlkun á þessari kynslóð og því hvernig ég þekkti afa minn. Ég er ekki að reyna að leggja honum orð í munn og ég vona að enginn túlki það þannig. Það er hins vegar hollt að hugsa til þess hvernig kynslóðin sem byggði landið hugsaði um framtíðina og horfa svo á það hvernig við erum að fara með hana."

En pistill Dagnýjar, sem eins og sjá má er skrifaður daginn eftir náttúrutónleika Bjarkar og Sigur Rósar, hljóðaði svona:

Framtíðin sem byggir á fortíðinni

Ég vaknaði eldsnemma í býtið, allt var með kyrrum kjörum hérna heima en ég gat ekki sofnað aftur. Tónleikarnir í gærkvöldi voru í fersku minni, ég fylgdist með þeim á netinu. Tónlistin var frábær, stemmningin greinilega skemmtileg en mér fannst samt pínulítið vanta uppá að þau segðu milli laga hver áherslan í baráttunni væri. Kannski var nægur áróður á staðnum sem skilaði sér ekki yfir netið, og líklega voru þessi 30.000 manns nokkuð viss á málstaðnum. En árla morguns fór ég eitthvað að hugsa, og setti saman þessa færslu:

Afi minn var Haraldur Guðmundsson, rafvirki á Dalvík. Hann var maður síðustu aldar, einna mestu tæknibreytinga og framfara í Íslandssögunni. Hann var fæddur í Skagafirði þann 28. apríl 1920, menntaður í Iðnskólanum á Akureyri og var um tíma kallaður Halli Edison fyrir færni sína við að gera við ýmis rafmagnstæki.

Hann var samtímamaður Halldórs Laxness og um tíma herbergisfélagi Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Hann var sjálfstæðismaður í gegn enda sjálfstæðisbarátta Íslendinga í algleymi á mótunarárum hans. Sjálfstæðisbaráttan snerist um að vera óháður skilningssljóu yfirvaldi og það að nýta krafta einstaklingsins í þágu allrar þjóðarinnar. Í þá daga var þjóðernishyggjan nauðsynleg í baráttunni fyrir sjálfstæði.

Í sjálfstæðisbaráttunni endurspeglaðist stolt yfir náttúrunni og auðmýkt yfir kröftum hennar. Þegar við náðum að tendra rafmagnsljós komumst við út úr vetrarmyrkrinu og þar var einn sigur á náttúrunni unninn. Margir sigrar fylgdu í kjölfarið; heita vatnið úr jörðinni kynti húsin okkar og betri farartæki gerðu okkur kleift að klífa fjöll og sigla firði. Maðurinn vann sífellt nýja sigra á annars ógnarvaldi náttúrunnar. Þetta ógnarvald bar með sér óttablandna virðingu.

Gullfoss á frímerkiHalli afi var virkjunarsinni af gamla skólanum. Á ferðum sínum um landið mat hann ár og vatnsföll í megavöttum, sama hversu litlar sprænurnar væru. Hann starfaði m.a. við að reisa Blönduvirkjun á sínum tíma og virkjaði einnig bæjarlækinn sem enn í dag veitir æskuheimili hans orku til daglegra starfa. Öll nýting á landsins gæðum átti hins vegar að fela í sér virðingu fyrir náttúrunni og öflum hennar. Þess vegna var hann ekki síður ákaflega mikið og einlægt náttúrubarn, og jafnvægi í náttúrunni var honum mikilvægt. Það fól í sér hógværa nýtingu. Hann var veiðimaður, sem lá bæði á greni í marga sólarhringa til að vernda fuglavarpið og veiddi hæfilegt magn af rjúpu í jólamatinn.

Ég er sannfærð um að þrátt fyrir að Halli afi hafi verið hlynntur því að nýta náttúrunnar gæði fyrir fólkið í landinu þá gæti hann í engu móti samþykkt svo gerræðislegar framkvæmdir sem framundan eru.

Í fyrsta lagi vegna þess að þær hafa ekki þjóðarhag að leiðarljósi heldur þjóna fyrst og fremst fjárhagslegum hvötum alþjóðlegra stórfyrirtækja sem í eðli sínu leita þangað sem orkan er ódýrust. Það þýðir að íslenska þjóðin fær eins lítið og mögulegt er fyrir orkuna en fórnar því sem er henni verðmætast af öllu, því sem mótaði sjálfsmynd hennar.

Í öðru lagi vegna þess að þær sýna hvorki hógværð né virðingu fyrir íslenskri náttúru eða landslagi. Frá hinu stærsta til hins smæsta.

Í þriðja lagi vegna þess að þær rýra framtíðarmöguleika komandi kynslóða og binda þær til þjónustu við alþjóðleg stórfyrirtæki sem eru ekki þekkt fyrir að aumka sig yfir litla manninn ef það þjónar ekki hagsmunum þeirra. Hvers vegna ættum við að vera eitthvað öðruvísi í þeirra augum en aðrir, annarsstaðar í heiminum.

Þegar ég hugsa um öll þau ferðalög um landið sem ég fór með afa og ömmu, þar sem afi þekkti nærri hverja þúfu, skil ég betur hvernig 20. aldar þjóðin hugsaði. Við í nútímanum erum hins vegar komin langt úr takti við þennan hugsunarhátt og erum að missa tengslin við það sem mótaði okkur.

Kannski er náttúruvernd of rómantískt hugtak fyrir okkur nútímafólkið sem erum knúin áfram af efnislegum gæðum, þrátt fyrir að það hafi verið helsti drifkraftur sjálfstæðisbaráttunnar á síðustu öld og gerði okkur að því sem við erum í dag.

Halli afi lést á þjóðhátíðardaginn 17. júní árið 2000, daginn sem íslensk jörð skalf undir fótum okkar.

 --------------------------------------------------------------------

Í seinni athugasemd sinni, þegar ég var búin að svara henni, segir Dagný m.a.: "... ég er ekki í nokkrum vafa um hvað 20. aldar sjálfstæðismaðurinn hefði valið stæði hann frammi fyrir þessum spurningum núna. Hann hefði hugsað laaaangt fram í tímann, miklu lengra en það sem er verið að gera núna, og hefði hugsað um hag afkomenda sinna langt framar síns eigin.

En þetta væri samt sem áður erfitt vegna þess að krafan um praktískar skyndilausnir er svo rík. Glópagullinu er veifað framan í okkur. En við eigum ekki að hlusta á vælið í þeim sem halda því fram að allt falli hérna í eymd og volæði ef við förgum ekki Íslandi. Þeir sem hafa sterka sjálfsmynd, hafa val og kunna að forgangsraða ná að bjarga sér sjálfir. Ef við virkjum allt sem hægt er að virkja fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki sem senda gróðann úr landi, höfum við ekki aðeins misst þetta val heldur líka fórnað því sem býr til sjálfsmyndina. Hvar verðum við þá?

Við höfum alltaf verið rík af því stoltið yfir landinu og fólkinu okkar höfum við ekki getað metið til fjár, og sennilega ekki kært okkur um það fyrr en núna. Þetta eru allt siðferðilegar spurningar eins og Stefán segir í viðtalinu góða."

Þarna í lokin er Dagný að vísa í Spegilsviðtalið við Stefán Arnórsson (sjá tónspilara) sem ég nefndi meðal annars í síðasta pistli. Á meðan við eigum ungt fólk sem hugsar og skrifar eins og Dagný er enn von.


Náttúran og rányrkjan - Ísland til sölu

Mér hefur fundist æði fróðlegt og á köflum hrollvekjandi að fylgjast með umræðunni sem hefur átt sér stað í fjölmiðlum undanfarna viku um úrskurð umhverfisráðherra um að heildstætt mat á umhverfisáhrifum fari fram vegna fyrirhugaðs álvers á Bakka og tengdra framkvæmda. Þar hefur hver á fætur öðrum komið fram með ótrúleg gífuryrði, ýmist krítað hressilega eða farið með pólitískar möntrur og hagrætt sannleikanum til að réttlæta sinn málstað. Mér er spurn: Trúir almenningur þessu fólki?

Guðni ÁgústssonEinkum hefur mér fundist málflutningur framsóknarforkólfanna Guðna og Valgerðar furðulegur - en þó svosem ekki búist við bitastæðari "rökum" úr þeirri átt. Ef ég hefði tíma til þess gæti ég líklega tekið ummæli þeirra og fleiri sem hafa tjáð sig um málið og tætt í mig nánast hverja setningu - en því miður hef ég minni en engan tíma. Þó verð ég að játa að ég er ekki sérfróð um framkvæmdirnar fyrir norðan og ég hef aldrei séð t.d. Gjástykki með eigin augum, bara á myndum. Vildi óska þess að fá einhvern tíma að skoða svæðið með Ómari Ragnarssyni og skemmtilegum jarðfræðingum. Kannski verður mér að þeirri ósk minni þótt síðar verði.

Ég hef áður minnst á móður mína í pistlum á þessu bloggi - þá vitneskju sem hún ól okkur systur upp í um hve heppnar við værum að hafa fæðst á þessu yndislega fallega landi með sína undursamlegu náttúru, hreina lofti og tæra vatni. Því betur sem ég hef kynnst hinum stóra heimi, af eigin raun eða í gegnum fjölmiðla, því betur hef ég áttað mig á hvað hún var Ljósm.: Kjartan Pétur Sigurðssonmeina. Mér er enda fyrirmunað að skilja það fólk sem er tilbúið til að fórna landinu, fegurð þess, hreinleika, gæðum, auðlindum, ásýnd, orðspori og efnahag á altari Mammons. Á altari græðgi og stundargróða. Þegar upp er staðið er þetta nefnilega spurning um siðferði eins og lesa má um hér.

Mamma dáði Ómar Ragnarsson mjög. Ekki fyrir að vera fyndinn skemmtikraftur eða snjall laga- og textasmiður heldur fyrir að sýna henni - og okkur öllum - náttúru Íslands frá ótalmörgum hliðum í sjónvarpinu. Hún missti aldrei af Stikluþætti eða hvaða þætti sem var þar sem Ómar sýndi náttúru Íslands og gjarnan staði sem enginn hafði tök á að komast á og sjá með eigin augum - nema hann. Mömmu langaði alltaf að fara í flugferð með Ómari og þess iðrast ég mest að hafa aldrei haft samband við Ómar og beðið hann að fara með þessa elsku í flugferð yfir hennar heittelskaða land. Ég hefði borgað honum stórfé fyrir. Nú er það of seint.

En aftur að Bakka, álverum og virkjunum. Ég botna ekkert í því, hvað sem ég reyni, hvernig fólk getur mögulega haft á móti því að vanda vinnubrögð og gera allt sem í þess valdi stendur til að raska sem minnst okkar einstæðu náttúru - því einstæð er hún. Heildstætt mat á umhverfisáhrifum ætti að vera sjálfsagt, alltaf, alls staðar, því allt er þetta jú samhangandi. Ég reyndi ítrekað að benda á þetta í pistlum um Helguvík og Bitruvirkjun. Það er ekkert við því að segja að reist sé hús og það kallað álver - þ.e. byggingin sem slík - ef fólk vill hafa hana í bakgarðinum og dást að þeim kumbalda. En álver þarf orku og orkuflutningsleiðir. Og í tilfelli Helguvíkur til dæmis er seilst inn á svæði annarra sveitarfélaga og heimtað að þar verði virkjað, náttúran eyðilögð og háspennulínur lagðar um víðan völl og ekki eru þær neitt augnayndi. Það verður að skoða hlutina í samhengi, annað er einfaldlega fáránlegt.

Jóhann Ísak PéturssonÉg minnist þess að mér fannst jarðfræðin ekkert spennandi þegar ég var í skóla í den. Enda bækur fátæklegar, engar eða fáar skýringarmyndir og aldrei farið í vettvangsferðir. Maður botnaði ekkert í þessum fræðum og kennarar oft illa til þess fallnir að kenna þau. Svo fór ég í Leiðsöguskóla Íslands. Eina námsefnið sem kennt var báðar annirnar var jarðfræði - og ekki að ástæðulausu. Kennarinn, Jóhann Ísak Pétursson, skipti sköpum. Hann var sjálfur svo áhugasamur og fullur aðdáunar á námsefninu að það skilaði sér rækilega til nemendanna. Jóhanni Ísak tókst á einum vetri að gera okkur öll, um 30 manns, að einlægu jarðfræðiáhugafólki og það voru áhöld um það hvor aðilinn skemmti sér betur í tímum, kennarinn eða nemendurnir. Fyrirlestrarnir og framsetning Jóhanns Ísaks var með eindæmum skemmtileg og fróðleg. Þennan jarðfræðivetur hjá honum lærði ég enn betur að meta sérstöðu Íslands og hafi hann ævinlega þökk fyrir. 

Mér varð hugsað til hans þegar ég hlustaði á viðtal við Ómar Ragnarsson í Ómar RagnarssonMorgunútvarpi Rásar 1 á föstudagsmorgunn (sjá tónspilara). Þar talar Ómar um Gjástykki og hve einstakt það er í veröldinni. Ómar segir m.a. eftir að hafa útskýrt sérstöðu svæðisins á heimsvísu: "Fyrir Gjástykki eru menn að vonast til að fá 30 MW. Það mun útvega 20 störf í álverinu á Bakka. Þessi 20 störf hafa góðir menn reiknað út að gefi virðisauka á við 7 störf í sjávarútvegi." Og Ómar spyr hvort við séum tilbúin til þess að fórna þessum heimsverðmætum fyrir 20 störf í álveri á Bakka. Ekki ég.

Hvernig stendur á því að Íslendingar eru á fjórum fótum, skríðandi fyrir amerískum auðhringum, tilbúnir til að fórna fyrir þá einstæðri náttúru Íslands þegar þessir sömu Ameríkanar geta hæglega virkjað sín eigin háhitasvæði og fallvötn, til dæmis í Yellowstone, og reist álverin sín heima hjá sér? Þeir eiga feikinóg af orku bæði í jarðhita og fallvötnum. En þeir vilja það ekki. Af hverju ekki? Af því þeir gera sér grein fyrir því hvaða verðmæti eru fólgin í háhitasvæðunum og fallvötnum og þeir vilja ekki menga meira heima hjá sér. Þess vegna veifa þeir dollurum framan í fávísa Íslendinga sem kunna ekki að meta landið sitt og einblína á skyndigróða. Og selja þeim auk þess orkuna á útsöluverði. Þeir eru klókir, Kanarnir, og vita sem er að alltaf er nóg af fólki með dollaramerki í augum, djúpa vasa og jafnvel drauma um pólitíska framtíð sem er tilbúið til að loka augum og eyrum og láta slag standa. Selja landið... og ekki hæstbjóðanda, heldur lægstbjóðanda, alþjóðlegum auðhringum sem svífast einskis og bera ekki virðingu fyrir nokkrum hlut nema peningum.

Ég minni á að Norðmenn hættu við að reisa álver á Reyðarfirði af umhverfisástæðum.

Annað sem opnaði augu mín fyrir því hve jarðfræði Íslands er stórmerkileg var þegar ég byrjaði að keyra og leiðseigja erlendum ferðamönnum. Á hverju ári koma hingLjósm. Kjartan Pétur Sigurðssonað jarðfræðikennarar, jarðfræðinemar, jarðfræðingar og aðrir vísindamenn í þeim fræðum til að virða fyrir sér fræðin með eigin augum. Hér er allt sem þeir hafa verið að kenna, læra og rannsaka uppi á yfirborðinu, sýnilegt með berum augum. Ísland er draumaland þessa fólks og ég skil ekki af hverju við gerum ekki meira út á einmitt það. Mér er t.d. minnisstæður portúgalskur jarðfræðikennari í framhaldsskóla sem ég sótti á flugvöllinn og keyrði á hótel í Reykjavík. Hann hafði dreymt um í 30 ár að koma til Íslands og loksins var draumurinn að rætast. Hann ætlaði að leigja bíl og var búinn að kortleggja þriggja vikna ferð af mikilli kostgæfni. Konan hans, sem var með honum, sagði að hann hefði varla sofið dúr af spenningi í fleiri vikur fyrir brottför. Þau voru vopnuð góðum myndavélum og hann ætlaði að nota afraksturinn við kennsluna. Þessi maður átti ekki nógu sterk lýsingarorð yfir það, hve Ísland væri mikið draumaland allra sem fengjust við jarðvísindi því hér væri hægt að sjá ALLT. Sköpunarsögu jarðarinnar frá A til Ö. Þessu eru sumir Íslendingar tilbúnir til að fórna fyrir fáein störf og nokkrar krónur í vasann.

Málflutningur stjórnmálamanna í þessum málum finnst mér vægast sagt brjóstumkennanlegur og einkennast af hreppapólitík og/eða atkvæðaveiðum. Verið er að slá sjálfum/sjálfri sér upp með klisjukenndum ummælum en rök og málefnaleg umræða látin lönd og leið. Hér er samantekt úr fréttum RÚV og Stöðvar 2 frá 31. júlí til 6. ágúst. Þetta er langt myndband, rúmar 18 mínútur, en ég bið fólk að hlusta með gagnrýnum huga. Útvarpsfréttir um málið eru samanklipptar  eftir dagsetningu í tónspilaranum merkt - Heildarmat Bakki 1, 2, 3 og 4.

 

Hér er stutt úrklippa úr Kastljósþætti fyrir kosningar með ummælum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar. Bara til upprifjunar. Hún minnist reyndar ekki á Bakka en hún minnist á Helguvík og rammaáætlun áður en haldið er áfram með virkjanir og álver. Og hún talar um ábyrgð stjórnvalda en nú fela allir ráðherrar sig á bak við ákvörðunarrétt sveitarfélaga. Svikin kosningaloforð?

  

Mér fannst þessi umræða í Kastljósi 5. ágúst sl. furðuleg - af beggja hálfu. Guðni fullur af innihaldslausum frösum og Katrín kom út eins og argasti stóriðju- og virkjanasinni. Kannski er hún það. Hún var í bullandi vörn í stað þess að vera stolt af sínum ráðherra, og hún tekur ansi stórt upp í sig þegar hún fullyrðir að það sé mikill stuðningur við álver á Bakka í Samfylkingunni! Össur segir það reyndar líka. Er þetta virkilega rétt? Hvað segja félagar í Samfylkingunni? Hvað segja kjósendur Samfylkingarinnar? Hvenær ætlar fólk að átta sig á því að stuðningur við álver þýðir líka stuðningur við virkjanir og þá eyðileggingu og mengun sem af þeim hlýst? 

 

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, stóð sig með eindæmum vel í Kastljósi kvöldið eftir, þann 6. ágúst. Henni tókst að skýra mál sitt vel og skilmerkilega - en það sem eftir stóð engu að síður var hve ferlið er skelfilega flókið. Jóhanna reyndi hvað eftir annað að hanka Þórunni sem svaraði fimlega og útskýrði eins vel og hægt var auk þess að þurfa hvað eftir annað að leiðrétta Jóhönnu. Þótt Jóhanna hafi greinilega reynt að undirbúa sig, og enginn frýr henni vits, var augljóst að hún skildi ekki þetta ferli og ég lái henni það ekki. En Þórunn vissi nákvæmlega hvað hún var að segja og gera og ég tek ofan fyrir henni fyrir það.

 

Að lokum vara ég fólk eindregið við að trúa hinum endalausa áróðri um "hreina og endurnýjanlega" jarðhitaorku. Þessu er slengt framan í okkur í tíma og ótíma þegar réttlæta á virkjanaæðið. En þessi vinsæli, ofnotaði frasi stenst ekki nánari skoðun. Ekki ef virkja á eins ágengt og fyrirhugað er - ég vil kalla það rányrkju - bæði á Norðurlandi og fyrir sunnan. Það er nefnilega ekki sama hvernig og hve mikið er virkjað í þessu sambandi. Ég kom lauslega inn á þetta mál í þessum pistli og enn og aftur vísa ég í Spegilsviðtal í tónspilaranum við Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði. Hlustið á Stefán og vonandi hef ég tök á að fjalla nánar um þetta síðar.

Stefán segir nefnilega "...að tvö sjónarmið séu ríkjandi um nýtingu jarðvarma. Annað er að nýta hann með hámarkságóða í huga yfir ákveðið tímabil og þá er gjarnan miðað við afskriftatíma mannvirkja sem nýta orkuna. Hitt er að nýta hann með sem næst sjálfbærum hætti þótt full sjálfbærni náist aldrei. Full sjálfbærni þýðir að nýting hefur engin umhverfisáhrif og þannig er ekki hægt að nýta auðlindir í jörðu. Það er hins vegar hægt að hafa það að leiðarljósi, að auðlindirnar nýtist sem lengst - ekki aðeins núlifandi kynslóðum, heldur komandi kynslóðum einnig. Þegar upp er staðið er það siðferðileg spurning hvort sjónarmiðið er haft að leiðarljósi." Það er kjarni málsins.


Stórfrétt sem féll í skuggann

Þegar mikið er að gerast hér heima og erlendis vill stundum fara svo að fréttir falla í skuggann á þeim sem metnar eru stærri hjá fréttastofum fjölmiðlanna. Það er svosem eðlilegt, tíminn er naumur og mannafli skorinn við nögl. En ég vona að það verði meiri umfjöllun um þessa frétt og ég hvet alla til að hafa augu og eyru opin. Þetta er stórmerkileg frétt... finnst mér.

Sameinuðu þjóðirnarÉg fann umfjöllun um málið í fréttum Stöðvar 2 þann 1. ágúst og svo var nokkuð löng frétt um það í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær, 3. ágúst. Getur einhver bent mér á fleira? Útvarpsfréttin er í tónspilaranum - merkt Fréttir - RÚV - Áhyggjur S.þ. af kynjamisrétti, vægum dómum o.fl. - og hana má einnig hlusta á hér. Ég þarf að hlaða inn myndböndum í gegnum YouTube í augnablikinu þar sem ekki er búið að laga þann möguleika hjá Moggabloggi eftir bilunina.

Hér er verið að fjalla um mismunun og ofbeldi gagnvart konum, vægar refsingar í kynferðisbrotamálum, mansal, umtalsverðan launamun kynjanna og fleira. Á Íslandi. Verslunarmannahelgin má ekki stela senunni frá slíkum fréttum svo ég bíð eftir frekari umfjöllun fjölmiðla því fréttin verðskuldar mikla athygli.

Viðbót: Stöð 2 fjallaði aftur um þetta mál í fréttum í kvöld, 4. ágúst. Ég bætti þeirri frétt aftan við hina og uppfærði myndbandið.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband