Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Annað borgarabréf til Strauss-Kahn hjá AGS

Í byrjun nóvember sagði ég frá bréfi sem hópur áhyggjufullra Íslendinga skrifaði Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Strauss Kahn svaraði stuttlega eins og sjá má hér og nú hefur hópurinn sent honum annað bréf - svar við svarinu. Þetta bréf er öllu lengra en hið fyrra og með skýringamyndum. Til glöggvunar hengi ég öll þrjú bréfin í enskri útgáfu neðst í færsluna líka.

Hér er íslenska útgáfan af bréfinu sem sent var til Strauss Kahn nú fyrir stundu. Hann fékk að sjálfsögðu enska útgáfu. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Svarbréf Strauss-Kahn - bls. 1

Svarbréf Strauss-Kahn - bls. 2

Svarbréf Strauss-Kahn - bls. 3


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Dauðadjúpar sprungur

Nú eru liðnir 14 mánuðir frá hruni. Það er meðgöngutími barns og fyrstu 5 mánuðirnir af ævi þess. Það þætti viðkomandi foreldrum langur tími. Tímaskynið er stórskrýtið því að sumu leyti finnst manni eins og hrunið hafi gerst í gær en jafnframt að það sé óralangt síðan. Við höfum verið í einhvers konar undarlegu tómarúmi - að bíða eftir flóðbylgjunum. Þær eru að skella á og munu sópa burt fólki og fémæti. Sumt er óhjákvæmilegt, annað alls ekki. Sumt er sanngjarnt, annað hræðilega ósanngjarnt. En mannfórnirnar eru aldrei réttlætanlegar. Aldrei.

Hver einasti fréttatími er uppfullur af siðleysi, sóðaskap og sukki. Bæði fyrr og nú. Þeir hafa verið það allt frá hruni. Fréttafíklar eiga bágt þessa dagana og vikurnar. Eru á barmi taugaáfalls mörgum sinnum á dag - en lesa, horfa og hlusta og geta ekki annað. Fjölmargir sem ekki eru haldnir þessari fíkn eru hættir að fylgjast með fréttum. Búnir að loka augum og eyrum til að vernda geðheilsuna. Þeir geta ekki meira. Fréttafíklarnir ekki heldur - en þeir geta ekki hætt. Ég er einn af þeim.

Þann 21. nóvember upplifði ég svolítið nýtt... Ég brast í grát yfir fyrstu frétt á bæði Stöð 2 og RÚV - sem var sama fréttin. Hún nísti inn að hjartarótum,  og ég fann vonleysi hellast yfir mig af miklum þunga. Mér fannst ég illa svikin og ég hugsaði með mér hvað heilbrigð skynsemi, skotheld rök og framsýni hafa lítið að segja á leiksviði gróðahyggju, sérhagsmuna og skammsýnna stjórnmála sem sjá aldrei lengra en fram að næstu kosningum. Ólíklegasta fólk lætur undan frekju, yfirgangi og þrýstingi þótt augljóst sé að verið er að keyra á fullri ferð ofan í hyldýpisóráð. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki búin að jafna mig á fréttinni ennþá og er ekki tilbúin til að fjalla um málið af þeim sökum. Geri það örugglega seinna. En ætli það sé til einhver meðferð við fréttafíkn?

Ég ætla að benda á og birta hér þrjár af ótalmörgum fréttum úr sjónvarpi undanfarna daga. Sú fyrsta er úr tíufréttum RÚV á fimmtudagskvöldið og fjallar um misfjölmennar nefndir Vinnumálastofnunar. Og ég spyr hvort verið sé að borga þessu fólki fyrir nefndarsetur með fé úr atvinnuleysistryggingasjóði. Fer tryggingagjald misilla launaðra einyrkja m.a. í að borga hálaunuðum verkalýðsforingjum og fulltrúum atvinnurekenda fyrir að deila og drottna í sjóðum Vinnumálastofnunar? Stjórnarformaður Vinnumálastofnunar t.d. fær greiddar 45.198 kr. á mánuði fyrir stjórnarformennskuna. Það gera 542.376 kr. á ári. Jafnframt er sagt í fréttinni að algeng þóknun fyrir stjórnarsetu hjá stofnuninni séu 20.000 krónur á mánuði. Nú þegar hafa þessar stjórnir kostað tæpar 22 milljónir króna og árið er ekki búið. Ég spyr aftur: Hver borgar?

Tíufréttir RÚV 26. nóvember 2009

 

Takið sérstaklega eftir svokölluðum "Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga". Mikil saga er á bak við þennan sjóð sem stofnaður var með lögum á vormánuðum 1997. Páll Pétursson, þáverandi félagsmálaráðherra, lagði fram frumvarp um stofnun hans um miðja nótt 2 eða 3 dögum fyrir jól 1996. Málið átti að ganga hratt í gegn en svo varð ekki af vissum ástæðum og Páll varð víst trítilóður var mér sagt þá.

Á Íslandi eru um 30.000 sjálfstætt starfandi einstaklingar, eða einyrkjar sem stunda mjög fjölbreytta starfsemi. En þessi tiltekni tryggingasjóður er eingöngu ætlaður þremur starfsstéttum og hefur verið frá upphafi: Bændum, smábátasjómönnum og vörubílstjórum. Aðrar starfsstéttir mega sækja um inngöngu en verða að vera að lágmarki 500 til að fá þar inni. Hvaða starfsstétt einyrkja uppfyllir þá kröfu? Hve margir einyrkjar eru í einhverjum hagsmunasamtökum sem mögulega gætu sótt um?

Alþingismenn eru undarleg stétt fólks. Ef maður kannaðist ekki við þá marga persónulega gæti maður haldið að þetta væru geimverur sem aldrei hefðu komist í tæri við venjulega jarðarbúa. Stór hluti þeirra leikur nú sama leikinn og í sumar - að koma upp í pontu til skiptis og segja nákvæmlega ekki neitt í mörgum orðum. Tefur fyrir því að almenningur í landinu geti raðað saman mölbrotnu lífi sínu, lagfært skaddaða sjálfsmynd, rétt úr svínbeygðri reisn og horft til framtíðar. Á meðan einhver hundruð manns funduðu fyrir utan þinghúsið og kröfðust sjálfsagðra leiðréttinga og mannlegra lífskjara kvörtuðu þeir sáran undan hungri í miðju blaðrinu og málþófinu. Leyfðu sér að auki að segja að skortur á matarhléi væri mannréttindabrot - á meðan fjöldi fólks í samfélaginu á ekki til hnífs og skeiðar og er að missa heimili sín í gin ómennskra ríkisbanka! Ég hef ekki eftir hugsanir mínar en segi bara: Af hverju hætta þeir þá ekki að leggja stein í götu almennings í landinu og drífa sig í mat? Hvað á svona fíflagangur að þýða? Þetta fólk ætti að skammast sín og ná jarðsambandi! Við borgum þeim ekki laun fyrir að tala niður til okkar og niðurlægja okkur á þennan hátt.

Fréttir Stöðvar 2 - 28. nóvember 2009

Flestir muna þegar einvaldurinn mikli veiktist og fór á spítala. Þegar hann braggaðist upplýsti hann um hugljómun sem hann fékk í veikindunum: Það bráðvantaði nýtt Hátæknisjúkrahús. Sem nú er sem betur fer kallað Háskólasjúkrahús, er mér sagt. Ég sem hélt að Landspítalinn væri búinn að vera Háskólasjúkrahús í þó nokkuð marga áratugi. En hvað um það. Síminn var seldur að eigendum hans forspurðum - þjóðinni. Fyrir slikk og með grunnnetinu, illu heilli. Nota átti andvirði Símans, eða hluta af því, til að byggja H-sjúkrahúsið. Og þótt ekkert bóli á því ennþá og Síminn hafi verið keyptur með lánum er samt búið að eyða næstum 100 milljónum í H-sjúkrahúsið. Margir hafa spurt í hvað Símapeningarnir hafi farið. Hér sjáum við það.

Fréttir Stöðvar 2 - 28. nóvember 2009

Eitt af því sem ég er döprust yfir og hefur snert mig einna mest í öllum uppljóstrununum eftir hrunið er hve margir landar mínir eru á kafi í eiginhagsmunum og spillingu og hve djúpt þeir eru sokknir. Ég á mjög erfitt með að sætta mig við að svo stór hluti þjóðarinnar minnar, sem ég hafði svo mikla trú og álit á, sé svona spilltur og samfélagsfjandsamlegur. Við erum svo fá og megum alls ekki við þessum þankagangi. Ég held að nauðsynlegt sé að skilgreina mjög vandlega hvað er spilling og hvað ekki, hvað er siðleysi og hvað ekki og hvað viðunandi framganga og hvað óviðunandi. Teitur Atlason skrifaði fjári góðan pistil sem fjallar um þetta að hluta. Lesið hann endilega. Og í tilefni af síðasta pistli mínum um banka, afskriftir og illa meðferð á fólki bendi ég á pistilinn Þekkti mann eftir Sigurjón M. Egilsson. Ég tárfelldi þegar ég las hann.

Þær eru víða, hinar dauðadjúpu sprungur. Hver hverfur í gin þeirrar næstu?


Bankar, afskriftir og ill meðferð á fólki

Ég hlustaði á viðtal í Bítinu á Bylgjunni á miðvikudagsmorguninn. Þar lýstu hjón því hvernig bankinn þeirra, Kaupþing, hafði komið fram gagnvart þeim og farið illa með þau - svo ekki sé meira sagt. Ég held að það sé sama fólkið og viðtal er við í helgarblaði DV, en vegna galla í skjalinu á vefþjóni DV kemst ég ekki inn á tölvuútgáfu blaðsins til að sannreyna það. Vonandi verður það lagað.

Pistillinn minn á Morgunvakt Rásar 2 í gærmorgun fjallaði um óréttlætið sem viðgengst í þjóðfélaginu í boði bankanna og hvernig þeir virðast vera ríki í ríkinu - bæði þeir gömlu og nýju. Þótt við séum ekki að biðja um pólitíska stýringu á bönkunum eins og tíðkaðist hér áður fyrr ætti yfirvöldum að vera í lófa lagið að berja í borðið og segja hingað og ekki lengra! Hljóðskrá viðfest neðst auk upptöku af áðurnefndu viðtali á Bylgjunni og Spegilsumfjölluninni sem vísað er í í pistlinum.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Réttlæti hefur verið mér mjög hugleikið og réttlætiskennd minni er gróflega misboðið nær daglega. Það virðist ætla að vera ansi djúpt á réttlætinu í íslensku samfélagi. Skuldsettur almenningur sem berst í bökkum þarf að horfa upp á bankana afskrifa tugmilljarða af skuldum helstu gerenda hrunsins. Í bönkunum sitja svo skuldlausir kúlulánþegar, deila og drottna og hóta starfsfólki sínu atvinnumissi ef það lendir í fjárhagserfiðleikum í efnahagshruni sem kúlulánþegarnir áttu sjálfir þátt í að skapa. Miskunn og mennska virðist ekki vera til þegar fégræðgi er annars vegar. Þetta er ekki réttlæti.

Ég hlustaði á viðtal í Bítinu á Bylgjunni á miðvikudagsmorgun. Þar var talað við hjón sem sögðu farir sínar ekki sléttar í viðskiptum sínum við nýja Kaupþing og skilanefnd gamla Kaupþings. Saga hjónanna virðist vera dæmigerð fyrir meðferðina sem hinn almenni borgari fær í bankakerfinu. Húsnæðislánin snarhækka, líka þau verðtryggðu í íslenskum krónum, fólk ræður ekki lengur við afborganir, selur ofan af sér en stendur þó uppi með milljóna- eða jafnvel tugmilljónaskuldir, húsnæðislaust og jafnvel atvinnulaust. Á meðan fá stórleikarar hrunsins að halda öllu sínu og bankarnir keppast við að afskrifa milljarðaskuldir þeirra. Þetta á ekkert skylt við réttlæti.

Almenningur maldaði í móinn í fyrravetur og sýndi mátt og megin fjöldasamstöðu. Ýmislegt gerðist, við fengum kosningar og nýja stjórn sem reynir að moka flórinn en sér ekki til botns. En yfirvöld virðast annaðhvort ekki fylgjast með því hvernig bankarnir fara með fólk eða ekki hafa völd til að gera neitt í því. Það er furðulegt og fullkomlega óviðunandi, enda eiga bankarnir að heita í ríkiseigu og ætla mætti að ráðherrar geti haft áhrif á það, sem fram fer þar innanhúss - og krafist réttlætis.

Langlundargeð og skortur á viðbrögðum Íslendinga eftir hrunið mikla hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana. Einn af innistæðueigendum Icesave í Hollandi var hér á landi fyrr í vikunni. Hann var í Silfri Egils á sunnudaginn og Spegilsmenn hjá RÚV spjölluðu líka við hann á mánudaginn. Mér var brugðið þegar ég hlustaði á endursögn Spegilsins á orðum Hollendingsins, meðal annars þetta: "Og hann undrar sig líka á því hve rólegir Íslendingar séu í tíðinni að taka á helstu gerendum hrunsins, sem kannski sé ekki stærri hópur en 30 manns. Víðast hvar annars staðar í heiminum hefðu einhverjir tekið sér fyrir hendur að koma þeim fyrir kattarnef væru þeir ekki komnir á bak við lás og slá. Hann tók fram að þetta væri ekki sín óskhyggja, heldur kalt mat. Hér byggju Íslendingar líklega að jákvæðum skorti, þ.e. á stríðshefð."

Já, við erum svo sannarlega öðruvísi, Íslendingar, og fyrr má nú vera jákvæði skorturinn. Í stað þess að refsa gerendum hrunsins og meðreiðarsveinum þeirra skipum við þá í bankastjóra- og skilanefndastöður, gerum þá að ritstjórum, alþingismönnum og aðstoðarmönnum ráðherra, afskrifum skuldirnar þeirra og bjóðum þeim að gjöra svo vel að halda áfram að arðræna okkur.

Er ekki kominn tími á hugarfarsbyltingu svo réttlætið nái fram að ganga?

************************************************
Þessu tengt:  Hagsmunasamtök heimilanna og Nýtt Ísland halda útikröfufund á Austurvelli í dag klukkan 15. Helstu kröfur eru:
 
1. Leiðrétting höfuðstóls lána.
2. Afnám verðtryggingar.
3. Að veð takmarkist við veðandlag.
4. Að skuldir fyrnist á 5 árum.
 
Ræðumenn eru Ólafur Garðarsson, varaformaður HH, Björn Þorri Viktorsson, lögmaður og Lúðvík Lúðvíksson frá Nýju Íslandi. Drífa sig! Sameinuð sigrum við.

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Rússatengsl íslensku auðjöfranna

Halldór Halldórsson, blaðamaður, skrifaði athugasemd við síðasta pistil sem ég sé ástæðu til að vekja sérstaka athygli á. Áður var ég búin að birta greinar Halldórs úr DV frá í haust og hugleiðingar um glæparíkið Rússland og hugsanleg tengsl þess við íslenska auðjöfra. Þessi mál þarf að skoða í samhengi og því meiri upplýsingar sem koma upp á yfirborðið, því betur er hægt að gera sér grein fyrir hvað hefur verið á seyði í fjöldamörg ár. En líkast til er þetta allt bara toppurinn á ísjakanum og alls óvíst hvort öll þessi mál upplýsast, sbr. orð Halldórs í lok pistilsins. Gefum Halldóri orðið:

Halldór Halldórsson, blaðamaðurUpphaf fjárstreymis græðgiáranna á milli Íslands og Rússlands með viðkomu í Lúxemborg, á Kýpur og Brezku Jómfrúreyjum (Tortola) má rekja til fyrsta ársins, sem Björgólfur seníor átti tíð erindi til Pétursborgar, þar sem hann var verktaki hjá gosdrykkjaverksmiðjunni Baltic Bottling Plant. Íslendingar, sem hittu Björgólf í Pétursborg 1993, hafa sagt frá því að BG hafi stoltur greint þeim frá þessum nýja reynsluheimi sínum, m.a. hvernig samskiptum við borgaryfirvöld og fleiri væri háttað. Fram kom, að hann hefði "hörkumann" innan borgarkerfisins á sínum snærum og hann þyrfti að borga honum mútur uppá 200-300 Bandaríkjadali á mánuði.

Annar heimildarmaður minn segir mér, að mútugreiðslur til embættismanna hefðu verið nauðsynlegar á þessum árum, en upphæðir fyrir góð sambönd hefðu verið a.m.k. 500 dollarar. Í DV-greinum mínum sem birtust í lok september og í upphafi október fjallaði ég svolítið um tengsl Björgólfsfeðga og Magnúsar Þorsteinssonar við borgaryfirvöld í Pétursborg og nefndi sérstaklega til sögunnar Yakovlev, sem var aðstoðarborgarstjóri Pétursborgar, en tók við borgarstjórastarfinu af Pútín, þegar hann tók við stjórn Rússlands. Þessi Yakovlev var á mynd, sem birtist í DV, en hún var tekin þegar gosdrykkjaverksmiðja BBP var opnuð. 

En tengsl Björgólfsfeðga og MÞ við valdamenn í svokallaðriLeonid Reiman, fyrrverandi símamálaráðherra Rússa Pétursborgarklíku voru víðtækari og má nefna Leonid Reiman, forspilltan fyrrverandi símamálaráðherra Rússlands, sem Pútín neyddist til að láta fara fyrir röskum tveimur árum. Reiman var sá ráðherra, sem Pútín hélt lengst hlífiskildi yfir af spilltum ráðamönnum í Moskvu og lét hann komast upp með að sanka að sér símafyrirtækjum út um Rússland, þvert og endilangt, og stofna Megafon, sem var með um 70% af allri símaþjónustu í landinu. Reiman þessi hafði útsjónarsaman lögmann, Galmond að nafni, Dana, sem sá um að koma gróðanum af fjársvikastarfi Reimans í skattaskjól. Svo vill til, að Galmond þessi var lögmaður Björgólfsfeðga í málaferlum BBP gegn þeim í Rússlandi - og sinnti öðrum verkefnum fyrir þá, t.d. þegar þeir breyttu nafni BBP verksmiðjunnar í Bravo International þrátt fyrir að eignatilfærslan byggði á meintum fölsuðum skjölum skv. átta dómum, sem féllu um málið í Rússlandi og tveimur í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Tengslin teygja sig vítt og breitt um valdakerfi Rússlands, og ekki leikur minnsti vafi á góðum samböndum Samson-þremenninganna í Pétursborg og Moskvu. Magnús Þorsteinsson á einnig ríka hagsmuni í Pétursborg og víðar. Prentsmiðjan, sem Þorgeir í Odda keypti fyrir að sögn 20 milljónir dollara er gjarnan nefnd. Hún heitir MDM Pechat. Skiptastjóri Landsbankans hefur sagt Björgólf tengjast henni í gegnum sitt eigið eignarhaldsfélag. Af því, sem nefnt hefur verið opinberlega er þó athyglisverðast að huga að stórfelldum hafnarframkvæmdum Björgólfs eldra og Magnúsar Þorsteinssonar í Pétursborg. Höfnin þótti ákaflega erfið og hægvirk og missti borgin viðskipti til Murmansk og svo annarra hafna við Eystrasalt.

Til þess að koma yfirleitt til greina sem þátttakandi í endurbyggingu eins af sex stórum svæðum hafnarinnar, tugmilljarðaverkefni, segir sig sjálft að þeir Björgólfur og Magnús hefðu ekki komið til álita án þess að hafa mjög öflug og traust sambönd hjá stjórnendum borgarinnar. Fyrir utan að nota mútur til að liDavíð Oddsson afhendir Samson-hópnum viðurkenningu árið 2002ðka fyrir þjónustu embættismanna og kaupa frið frá mafíu, þá skipti mjög miklu máli í nýfrjálsu Rússlandi í kringum 1992-3, þegar opnað var á fjárfestingar útlendinga samhliða einkavæðingu ríkisfyrirtækja að hafa fína titla. Sem dæmi má nefna að Björgólfur Thor varð ræðismaður Íslands þegar hann dvaldi í Pétursborg og við embættinu tók svo Magnús Þorsteinsson! Magnús var sviptur þessu embætti, þegar hann varð gjaldþrota og flýði til Rússlands

Samson-félagarnir voru á kafi í rússneskum viðskiptum og margt bendir til þess, að 350 milljóna dollara kaupverð Heineken á Bravo International bjórverksmiðjunni hafi að stórum hluta setið eftir í höndum lánardrottna og samverkamanna þremenninganna í Pétursborg. Málið er víst svo flókið að skiptastjóri Landsbankans gaf í skyn, að skiptastjórnin væri að gefast upp á því að eltast við Rússlandstengslin. Það má ekki verða. Í mjög athyglisverðri frétt í Morgunblaðinu þ. 31.marz s.l. undir fyrirsögninni Samson greiddi fé til Tortola sagði í upphafi fréttarinnar: "Samson eignarhaldsfélag greiddi (lánaði? innsk.: HH) 580 milljónir króna til félags sem heitir Opal Global Invest og er skráð á Tortola-eyju, lánaði tengdu félagi, Bell Global Lux, 1,5 milljarða króna til að kaupa hlutabréf í hafnarverkefni í Pétursborg og lánaði félögum í eigu Björgólfs Guðmundssonar 2,5 milljarða króna til að kaupa hlutabréf í Árvakri hf., útgáfufélagi Morgunblaðsins. Auk þess fékk fjárfestingarfélagið Grettir, sem er einnig í eigu Björgólfs, 393 milljóna króna lán."Lykillinn að "gátunni" um Rússagull o.fl. felst að nokkru leyti í ofangreindri setningu og þessari setningu úr skýrslu skiptastjóra Landsbankans frá því í febrúar:

"Af skýrslunni að dæma virðast flestar eignir Samson í dag vera lán til annarra félaga í eigu Björgólfsfeðganna."

***************************************

Í síðasa pistli sagði ég frá bók um hrunið á íslandi, Meltdown Iceland, eftir breska blaðamanninn Roger Boyes. Ég vissi ekki fyrr en í dag að Sigrún Davíðsdóttir var með viðtal við hann og pistil í Speglinum á RÚV í gærkvöldi. Pistilinn má lesa og hlusta á hér - en til öryggis hengi ég líka við hljóðskrá hér fyrir neðan með pistli Sigrúnar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Meira um Rússagull og peningaþvætti

Meltdown Iceland - Roger BoyesÉg fjallaði um hvort Rússland væri glæparíki í þessum pistli og um íslensku tengslin í þessum. Í einni athugasemd var bent á þessa athyglisverðu grein um víkingainnrás nýrrar kynslóðar. Og ég fékk þónokkra tölvupósta. Í einum þeirra var ábending um ummæli í bók sem virðast ekki hafa vakið neina athygli, merkilegt nokk! Bókin kom út í byrjun október, heitir Meltdown Iceland og er eftir Roger Boyes. Lítið hefur verið fjallað um hana hér á Íslandi en margt verið skrifað um hana erlendis. Mogginn segir frá henni 3. október og Andri Geir skrifar um hana. Ég fann ekki mikið fleiri umsagnir um bókina á íslensku en vonandi er það mín handvömm. Höfundur bókarinnar skrifaði grein í Times með nöturlegri fyrirsögn: "Ísland afhjúpað: Hvernig heilli þjóð var sturtað niður í klósettið". Þótt þetta sé ógeðfelldur titill er hann í eðli sínu dagsannur. Hér er umsögn Sunday Times um bókina og mér virðist á öllu sem ég hef lesið um hana að Davíð nokkur Oddsson fái þar skelfilega útreið. En ég hef ekki fundið neitt um ummælin sem hér um ræðir í neinum skrifum um bókina og fjalla um Rússana og peningaþvættið.

Ég fór á stúfana og reyndi að ná mér í bókina. Öll eintök (veit ekki hve mörg) Borgarbókasafnsins voru í útláni, Mál og menning hafði aldrei haft hana á boðstólum og í Eymundsson var hún uppseld - en 4 eintök til í Bókval á Akureyri. A.m.k. eitt er á leiðinni til mín núna í boði einstaklega elskulegs starfsmanns í Eymundsson í SPRON-húsinu á Skólavörðustíg.

En mér áskotnaðist skannað eintak af kaflanum sem hér um ræðir. Það er 4. kafli, hann heitir "Virðing" (Respect) og fjallar um dekurdrengi Davíðs, Björgólfsfeðga. Ég klippti úr honum það sem ég vil sérstaklega benda á.

Meltdown Iceland - Roger Boyes - 4. kafli Respect - bls. 55 og 56

Samkvæmt þessu var sendur hingað sérstakur njósnari árið 2005, alls ótengdur sendiráðinu, til að grennslast fyrir um Rússatengsl og peningaþvætti. Og ekki bara Rússagull, heldur einnig hryðjuverkapeninga. A.m.k. Bretar og Danir, sem vissu líklega einna mest um hvað gerðist á bak við tjöldin í íslensku bönkunum, höfðu þungar áhyggjur en tókst greinilega ekki að sanna neitt... ennþá. En eins og við vitum nú orðið - þegar peningar eru annars vegar þá vega siðferði og heiðarleiki ekki mjög þungt.

Sem minnir mig á það... Hryðjuverkamenn þurfa vopn. Munið þið eftir Tchenguiz-bræðrum sem voru í nánum tengslum við Kaupþing? Prófið að gúgla Vincent Tchenguiz og athugið hvað þið sjáið. Kannski var alls ekki að ástæðulausu að sett voru hryðjuverkalög á íslensku bankana í fyrrahaust... eða hvað?

Eins og flestir vita er London full af rússneskum ólígörkum, ýmist útlægum eða ekki. Minni spámenn hafa verið myrtir, aðrir lifa í stöðugum ótta. Rússarnir drepa þó fleiri heima hjá sér, s.s. blaðamenn sem tala illa um þá og óþæga bankamenn eins og kom fram í umfjöllun Ekstrablaðsins. Ég ræð auðvitað ekki við hugrenningartengslin og minnist orða Davíðs í byrjun Kastljóssviðtalsins fræga frá 7. október 2008. Þar talar hann um meint Rússalán - sem kom öllum á óvart jafnt innanlands sem utan - og segir Geir Haarde hafa lagt drög að því um sumarið. Flestir muna eftir orðum Geirs korteri fyrir hrun þegar hann sagðist alltaf hitta Björgólf Thor þegar hann væri á landinu. Til hvers? Var það Björgólfur Thor sem lofaði Rússaláninu?

 

Í bók sinni segir Roger Boyes m.a. að íslensku ólígarkarnir hafi keypt stjórnmálamennina og sú fullyrðing kemur ekkert á óvart. En vissu þeir fyrir hvernig fengið fé var greitt? Ég ætla að leyfa mér að efast um það en maður spyr sig engu að síður...


Einyrkjar og tryggingagjaldið

Ég hef verið svokallaður einyrki, eða "sjálfstætt starfandi einstaklingur" í um 20 ár. Einyrkjar borga tryggingagjald, sem er skattur á launagreiðslur, eins og fyrirtæki. Einyrkjar á Íslandi skipta tugum þúsunda. Þeir eiga engan talsmann eða stéttarfélag. Hvorki Samtök atvinnulífsins né ASÍ gæta hagsmuna þeirra. Hve margir vita í hvað tryggingagjaldið er notað og hvaða réttindi einyrkinn fær í staðinn? Einhver?

Einyrkjar og tryggingagjaldið - Halldór Baldursson - 2. nóvember 2009


Rússagull, peningaþvætti og hrunið

PeningaþvættiÉg á heima næstum beint undir aðflugslínu norður-suðurbrautar Reykjavíkurflugvallar. Flugvöllurinn á að heita lokaður frá kl. 23:30 og frávik á aðeins að leyfa í undantekningartilfellum - sjúkraflugi og slíku. Veruleikinn var hins vegar sá, að á gróðærisárunum var mjög algengt að einkaþotur lentu klukkan 1, 2 eða 3 eftir miðnætti og hávaðinn var ærandi. Ég sakna þeirra nákvæmlega ekki neitt, en man að ég hugsaði oft með mér að tollverðir hlytu að fá gríðarlega mörg næturútköll. Eða hvað? Voru einkaþoturnar alltaf tollskoðaðar? Maður spyr sig...

Í síðasta pistli sagði ég frá hugrenningatengslum sem mynduðust þegar ég sá frétt á BBC World þar sem bandarískur fjárfestir sagði farir sínar ekki sléttar í samskiptum við Rússa. Margt var ósagt látið og verður svo enn um sinn, en ýmislegt vil ég þó benda á sem hreinlega komst ekki fyrir í pistlinum. Höldum hugrenningatengslunum áfram og fjöllum um peningaþvætti.

Þann 16. febrúar sl. birti Egill Helgason eitt af mörgum bréfum sem hann hefur birt frá Gunnari Tómassyni, hagfræðingi, sem búsettur er í Bandaríkjunum og hefur látið mikið frá sér heyra opinberlega, bæði fyrir og eftir hrun. Í þessu mjög svo athyglisverða bréfi fjallar Gunnar um mögulegan þátt peningaþvættis í bóluhagkerfinu á Íslandi í gróðærinu og spyr afar áleitinna spurninga sem enn hefur ekki verið svarað. Ég hvet fólk eindregið til að lesa bréf Gunnars.

Ég fylgist með öðru auganu með enska boltanum og hlustaði af athygli á pistil Sigrúnar Davíðsdóttur um fótbolta og peningaþvætti í byrjun júlí í sumar. Pistillinn vakti auðvitað viss hugrenningatengsl í ljósi þess hvaða Íslendingar eiga enskt fótboltalið og hvaða þjóðhöfðingjar hafa farið á leiki í boði rússneskra auðjöfra.

Í september skrifaði Jenný Stefanía Jensdóttir, viðskiptafræðingur, búsett í Kanada, fimm mjög fróðlega pistla um peningaþvætti. Jenný leitaði víða heimilda og vísar í greinar og viðtöl. Ég mæli með lestri á öllum pistlum Jennýjar sem fjalla um peningaþvætti frá ýmsum hliðum. Þeir bera allir yfirskriftina Var peningaþvætti stundað á Íslandi? og eru hver öðrum fróðlegri, ekki síst niðurstaða Jennýjar: 1. kafli, 2. kafli, 3. kafli, 4. kafli, 5. kafli. Í 5. og síðasta kaflanum fjallar Jenný m.a. um viðtalið við Boris Berezovsky, sem ég birti í síðasta pistli ef einhver vill rifja það upp eftir lestur á pistlum Jennýjar. Mjög athyglisvert, svo ekki sé meira sagt.

Í lok september og byrjun október skrifaði Halldór Halldórsson, blaðamaður, mjög ítarlegar og upplýsandi greinar í DV um uppgang Björgólfsfeðga og samstarfsmanns þeirra og umsvifin í Rússlandi. Sem áttu að hafa endað með risasölu á brugghúsi og gríðarlegum fjármunum sem þeir áttu að hafa notað meðal annars til að kaupa sér banka hér á Íslandi. En í ljós kom að þeir fengu hluta fjárins að láni í öðrum íslenskum banka og hafa ekki greitt það enn. Hvorki var hlustað á viðvaranir þeirra sem þekktu til né litið á forsögu Björgólfs eldri, enda feðgarnir sérstakir gæludrengir þáverandi forsætisráðherra, síðar seðlabankastjóra og nú ritstjóra. Hann minnist enda ekki á þá eða umsvif þeirra þá og nú í blaði sínu þessa dagana en einbeitir sér að öðrum landráðamönnum í svipuðum styrkleikaflokki. Fyrsta greinin er eftir blaðamann DV, en mér virðist hún vera byggð á gögnum Halldórs miðað við það sem á eftir kemur. Það á við um allar greinarnar - að smella þar til læsileg stærð fæst.

DV 23. september 2009

Ingimar varaði við Björgólfsfeðgum - DV 23. september 2009

Þá eru það greinar Halldórs Halldórssonar. Einhvern veginn fær maður á tilfinninguna að ýmislegt sé enn ósagt. Það vantar stykki í púsluspilið. Kannski eiga fleiri greinar eftir að birtast. Mig grunar það.

Halldór Halldórsson - DV 25. september 2009

Björgólfsfeðgar, bjórinn og mafían - Halldór Halldórsson - DV 25. september 2009

Halldór Halldórsson - DV 2. október 2009

Björgólfsfeðgar, hótanir og bankakaup - Halldór Halldórsson - DV 2. október 2009

Eftir allan þennan lestur - og það verður að lesa þetta allt, ekki síst pistla Jennýjar - situr eftir spurningin: Hve stór hluti af hruni efnahagskerfisins á Íslandi var afleiðing peningaþvættis? Ekki hvort.


Er Rússland glæparíki?

BBC World NewsÉg horfði á fréttir á BBC World sem oftar í gær og ein frétt vakti athygli mína umfram aðrar. Þar sagði bandarískur fjárfestir, Bill Browder, sem verið hefur með starfsemi í Rússlandi síðan 1990, farir sínar ekki sléttar og fullyrti í viðtali við BBC að Rússland væri algjört glæparíki. Sú saga er reyndar langt í frá ný af nálinni og margar frásagnir til af því hvernig kaupin gerast á þeirri eyri. En þessi saga Browders var sérlega óhugnanleg þar sem hann hélt því fram að yfirvöld í Rússlandi hefðu látið lögmann sinn deyja í fangelsi, fárveikan, og neitað honum um læknishjálp.

Ég skoðaði viðtöl við Bill Browder á BBC-vefnum en gúglaði hann ekkert frekar. Hjá BBC kenndi ýmissa grasa og með því að renna yfir fréttir af Browder þar er hægt að fá grófa heildarmynd af deilum mannsins og Rússanna. Hér er viðtal frá 2002 þar sem hann segir frá upphafi fjárfestinga sinna í Rússlandi, Asíukreppunni 1997 og áhrifum hennar o.fl. Hér er brot úr viðtali við Browder frá júlí 2008 um ásakanir hans á hendur Rússum og hér er langt viðtal við hann í Hardtalk-þættinum frá september 2008 (afleit myndgæði) þar sem hann talar um viðskipti sín við Rússa og hvernig hann var hrakinn þaðan af yfirvöldum og eignir hans teknar af honum.

Hér er síðan fréttin sem vakti athygli mína í gær, nema hvað sjónvarpsviðtalið við hann í fréttatímanum var mun lengra, þarna er bara birt örlítið brot af því en stiklað á því helsta í rituðu máli. Eins og sjá má segir Bill Browder frá því að lögmaður hans, Sergei Magnitsky, hafi verið handtekinn fyrir ári og stungið í fangelsi. Þar hafði hann dúsað við illan aðbúnað og án ákæru þar til hann lést. Hann reyndi ítrekað að biðja um læknishjálp en fékk ekki og lést að því er virðist af völdum veikindanna. Browder segir að hann hafi verið gísl og að honum hafi verið refsað fyrir að vera ógnun við spillta stjórnmála- og embættismenn.

Ég fann myndband á YouTube þar sem Browder segir söguna, í stórum dráttum heyrist mér, og mér sýnist myndbandið vera gert af fyrirtæki Browders, Hermitage Capital. Ef ég hef skilið vogunarsjóði rétt virðist þetta vera einn slíkur. En lítum á myndbandið sem er alveg makalaust ef satt er.

 

Rússaspjall hefur verið talsvert hér á Íslandi í þónokkur ár, en blossað upp eftir hrun. Talað er um peningaþvætti og fleira miður fallegt. Skemmst er að minnast viðtals á Sky við Boris Berezovsky, útlægan ólígarka búsettan í London, þar sem hann fullyrti að Rússar hefðu þvegið sínar óhreinu brækur í íslenskum bönkum. Sigrún Davíðsdóttir flutti þennan fína pistil um Berezovsky í febrúar sl. þar sem fram kemur að karlinn er ekki barnanna bestur og mannorðið kannski ekki Arion Ultra hvítt (eða var það Ariel?). En eins og segir á frummálinu "It takes one to know one", sem þýðir í þessu samhengi að maður þurfi að vera skúrkur til að bera kennsl á hina skúrkana. Hann ætti því að hafa hugmynd um hvað hann er að tala. Og í sjálfu sér gerði karlinn ekkert annað en að staðfesta orðróm sem hafði verið á kreiki ansi lengi hér á landi. Ég skrifaði um þetta litla færslu í febrúar, en rifjum upp viðtalið við Boris Berezovsky á Sky.

 

Þetta leiðir vitaskuld hugann að sögusögnunum um Íslendingana, greinaflokknum úr Ekstrablaðinu frá 2006 og viðtali Arnars Steinþórssonar við danska blaðamanninn sem rannsakaði viðskipti nokkurra af íslensku útrásardólgunum sem ég birti í heild sinni hér. Í myndaalbúminu um greinarnar í Ekstrablaðinu má sjá sögur frá Rússlandi í tengslum við íslenska auðmenn. Ég er löngu búin að fá sendan afganginn af greinunum, en það hefur farist fyrir hjá mér að útbúa og setja afganginn inn. En lítum á eina viðbót hér sem gæti þótt áhugaverð í tengslum við mál Browders, lögmanns hans og orð Berezovskys. Þessi grein fjallar m.a. um morð á rússneskum bankamanni.

Og höfum í huga að verið er að tala um að fá stórt lán frá Rússum, þeir vilja reisa hér olíuhreinsistöð og eflaust koma þeir víðar við á landinu. Getur verið að ekki hafi tekist að koma öllum hreinu nærfötunum úr landi áður en gjaldeyrishöftin voru sett á? Í því samhengi má líka spyrja fyrir hverja "gjaldeyrisglugginn" var skömmu eftir hrun - þegar leyfð voru gjaldeyrisviðskipti í nokkra daga áður en lokað var fyrir aftur. Heyrst hefur af Armaniklæddum mönnum á leið úr landi með heilu ferðatöskurnar fullar af seðlum. Ætli skýrsla Rannsóknarnefndarinnar komi eitthvað inn á svona mál eða eru þau of hættuleg til að snerta á þeim? Maður spyr sig...

Ekstrablaðið -  8. nóvember 2006 - smellið þar til læsileg stærð fæst

Ekstrablaðið 8. nóvember 2006

Ekstrablaðið 8. nóvember 2006


"Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi!"

Fyrir um það bil tveimur árum ætlaði ég að skrá öll málblómin og ambögurnar sem ég las og heyrði í fjölmiðlunum. Ég gafst fljótlega upp, þetta hefði verið full vinna. Þó var þetta löngu fyrir hrun og ekki hætt að prófarkalesa texta í jafnmiklum mæli og nú. Þegar peningar eru annars vegar og gróðinn minnkar er byrjað á að spara "ósýnilegu" störfin. Gallinn er bara sá að þá verða ambögurnar sýnilegri og skera augu og hlustir svo hvín í.

Ég hef marga hildi háð við íslenskuna á 22ja ára ferli við þýðingar, einkum skjátextagerð. Þó finnst mér ég ekki hafa náð nema þokkalegum árangri og öðlast sæmilegan orðaforða. Íslenskunám er ekki eitthvað sem maður afgreiðir þegar grunnskóla eða framhaldsnámi lýkur - það er lífstíðarglíma ef vel á að vera og bóklestur er þar besta námið. Ef bókin er vel skrifuð eða vel þýdd.

Flestir muna eftir umræðunni þegar bankamenn vildu gera ensku að ráðandi máli í bönkunum og jafnvel fleiri fyrirtækjum á Íslandi og alþingismaður nokkur stakk upp á að enska yrði jafnrétthá íslensku í stjórnsýslunni á Íslandi. Skiptar skoðanir voru um þetta en mig minnir að langflestum hafi þótt þetta fáránlegar hugmyndir - sem betur fer.

Þegar ég fór að lesa blogg kom mér skemmtilega á óvart hve margir voru vel ritfærir. Maður las ljómandi góðan texta eftir bláókunnugt fólk sem hafði loksins öðlast vettvang til að tjá sig opinberlega í rituðu máli. Það var verulega ánægjulegt að sjá hve margir lögðu metnað í að koma skoðunum sínum frá sér á góðri íslensku. Að sama skapi er sorglegt að lesa eða hlusta á fólk sem kemur varla frá sér óbrenglaðri setningu og grípur jafnframt hvað eftir annað til enskunnar þegar því er orða vant á móðurmálinu. Þetta er hættuleg gryfja sem smitar út frá sér og sorglegast er að verða vitni að þessu daglega í fjölmiðlunum. Enginn fjölmiðill er þar undanskilinn, en enginn er heldur fullkominn og ekki ætlast til þess. Slangur og slettur geta átt fullan rétt á sér í skemmtilega skrifuðum eða fluttum texta en þegar maður heyrir hluti eins og um "fráskildan" mann og að fólk hittist "í persónu" í fréttatímum er eiginlega of langt gengið. Öll gerum við mistök í meðferð móðurmálsins, það er óhjákvæmilegt og ekkert til að skammast sín fyrir. En er þetta ekki orðið of mikið... eða er ég bara svona gamaldags?

Ég flutti svolítinn pistil um íslenskuna á Morgunvaktinni á föstudaginn, hljóðskrá fylgir neðst. Ég gerði meira að segja mistök í þessum málfarspistli sem einn ágætur hlustandi benti mér á í tölvupósti og ég var honum mjög þakklát.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur,

Á tyllidögum er talað fjálglega um mikilvægi íslenskrar tungu og þátt hennar í menningu okkar, sjálfstæði og þjóðlegri reisn. Lögð er áhersla á nauðsyn þess að viðhalda tungunni og margar nefndir eru starfandi til að finna eða búa til ný íslensk orð yfir hvaðeina sem skýtur upp kollinum í tæknivæddu samfélagi nútímans. Sum nýyrðin verða töm á tungu og festa sig í sessi, en önnur hverfa og gleymast.

Semsagt - íslenskan er talin vera einn mikilvægasti þjóðarauður Íslendinga og eitt af því sem gerir okkur að þjóð. Gott og vel.

Ég efast ekki um að þjóðhöfðingjum og öðrum sem leggja áherslu á mikilvægi íslenskrar tungu í fortíð, nútíð og framtíð og lofa hana í hástert, sé alvara með orðum sínum. En gallinn er sá, að boðskapurinn nær sjaldnast lengra en í hástemmdar ræðurnar og honum er aðeins  hampað á eina degi ársins sem tileinkaður er íslenskunni, 16. nóvember, afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar, þjóðskálds. Meira að segja þeir sem hafa vald til að gera eitthvað sitja með hendur í skauti og hafast ekki að til varnar móðurmálinu. Sagt var frá því, daginn fyrir Dag íslenskrar tungu fyrr í vikunni, að íslenska sé ekki lengur hluti af skyldunámi kennaranema. Það er dæmigert fyrir það kæruleysi og dugleysi sem einkennir allt sem snýr að verndun og viðhaldi tungunnar.

Í hinum áhrifamiklu fjölmiðlum er okkur boðið upp á málvillur, ambögur, stafsetningarvillur og ýmiss konar fáránlegan framburð og framsögn með ankannalegum og óþægilegum áherslum. Enda er prófarkalestri og málfarsráðgjöf ekki gert hátt undir höfði í fjölmiðlunum og víða virðist slíkum meintum óþarfa hreinlega hafa verið úthýst með öllu. Metnaður fjölmiðla til að vanda mál og framsetningu virðist vera að hverfa - þrátt fyrir áðurnefnd tyllidagaerindi og þennan eina dag á ári sem helgaður er móðurmáli Íslendinga.

Áhyggjur af framtíð íslenskunnar eru ekki nýtilkomnar. Fyrir rúmum 160 árum, í febrúar árið 1848, lét bæjarfógetinn í Reykjavík festa upp auglýsingu í bænum þar sem á var ritað: "Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi". Til áhersluauka gengu menn um bæinn, börðu bumbur og hrópuðu þessi hvatningarorð. Um kvöldið voru gefnar út nýjar reglur þar sem sagði meðal annars: "Næturvörður skal hrópa á íslenskri tungu við hvert hús". Á þessum tíma var íbúafjöldi í Reykjavík um ellefu hundruð manns og ýmsir höfðu áhyggjur af áhrifum dönsku herratungunnar á íslenskuna.

Svona uppákomur til málhreinsunar þættu hjákátlegar nú á dögum, en engu að síður er bráðnauðsynlegt að gera miklu meiri kröfur til móðurmálskunnáttu þeirra, sem tjá sig á opinberum vettvangi og þá einkum í útbreiddum fjölmiðlum. Stjórnendur miðlanna verða að gera sér grein fyrir áhrifamætti þeirra og gera íslenskri tungu mun hærra undir höfði en nú er gert. Málfarslegur sóðaskapur dregur úr trúverðugleika alls boðskapar - ekki síst frétta.

Enginn biður um fullkomnun, hún er ógerleg. Og lifandi tungumál breytist í áranna rás, þróast og þroskast. Það er ofureðlilegt. En öllu má ofgera og þegar kynslóðir eru hættar að skilja hver aðra og orðaforði, málskilningur og máltilfinning unga fólksins að hverfa, þá er mál að staldra við og hugsa sinn íslenskugang.

Við eigum að hafa 365 daga á ári Daga íslenskrar tungu og vernda móðurmálið okkar.

***********************************************

Spaugstofan gantaðist með þetta á laugardaginn eins og sjá má og heyra.

Spaugstofan 21. nóvember 2009

 

Þetta var útfærsla Spaugstofunnar á þekktu lagi eftir Atla Heimi Sveinsson við texta Þórarins Eldjárn. Það var notað í auglýsingu Mjólkursamsölunnar sem hefur verið dugleg við að hampa íslenskunni. Hér er frumgerðin, söngkonan unga heitir Alexandra Gunnlaugsdóttir.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hræddir Íslendingar

Grein úr DV frá 6. janúar 2001 eftir Hallgrím Helgason. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Hræddir Íslendingar - Hallgrímur Helgason - DV 6. janúar 2009


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband