Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Að standa við fögur fyrirheit

Þjóðfundurinn sem haldinn var um síðustu helgi sendi skýr skilaboð. Eftir á að koma í ljós hvernig unnið verður úr þeim og hve mikið mark verður tekið á þeim af stjórnvöldum og almenningi. Gildin og framtíðarsýnin komu a.m.k. mér ekkert á óvart, en einnig á eftir að koma í ljós hvort þjóðfundargestum var alvara og hvort sömu stjórnvöld og almenningur eru tilbúin í þá hugarfarsbreytingu sem þarf til að gera fögur fyrirheit og göfugar hugsjónir að veruleika.

Fyrsti prófsteinninn er fram undan - ákvörðun um eignarhald Haga. Verður stórleikurunum í hruninu, Baugsfeðgum, leyft að halda yfirráðum í fyrirtækinu, 60% eignarhaldi, með því að útvega 5 eða 7 milljarða gegn því að afskrifa 50 milljarða? Hvernig kemur það heim og saman við gildi Þjóðfundarins, s.s. "heiðarleika, réttlæti og ábyrgð"?

Önnur spurning: Hvernig getur almenningur sýnt hug sinn í þessu máli með gildi Þjóðfundarins að leiðarljósi? Svar: Með því að hætta að versla í Bónus og Hagkaup. Erum við tilbúin til þess? Erum við tilbúin til þess að bera ábyrgð á eigin gjörðum með því að beina viðskiptum okkar annað og greiða þannig atkvæði með heiðarleika, réttlæti og ábyrgð? Hugsum málið, hlustum á réttlætiskenndina og breytum samkvæmt eigin samvisku. Leggjum okkar lóð á vogarskálarnar. Við getum nefnilega haft áhrif.

Baráttan um Baugsveldið

 

 Vinir í banka


Stóra Landspítalamálið

Það er svo margt sem ég botna ekkert í. Eitt af því er bygging svokallaðs "hátæknisjúkrahúss" (sem er reyndar fáránleg nafngift), staðsetning þess og fyrirhugaður rekstur. Ævinlega er hamrað á því, að heilbrigðiskerfið sé allt of dýrt. Mismikill niðurskurður eða sparnaður er árviss viðburður, deildum er lokað á sumrin og undanfarin 10 til 15 ár hefur æ meiri kostnaður færst yfir á sjúklingana sjálfa - alveg burtséð frá fjárhag þeirra eða greiðslugetu. Ég hef alltaf litið á það sem fyrstu skrefin í að láta draum Sjálfstæðisflokksins um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins rætast.

Okkur er gjarnan sagt að þjóðfélagið hafi ekki efni á að reka heilbrigðiskerfið svo vel sé. Við eigum mikinn fjölda af mjög hæfu heilbrigðisstarfsfólki. Það verðskuldar eflaust betri starfsskilyrði og sjúklingar betri aðbúnað - en er málið nýtt "hátæknisjúkrahús" á stað sem margir vilja meina að sé kolómögulegur? Af hverju þykir svona brýnt að ráðast í bygginguna á þessum síðustu krepputímum þegar verið er að segja upp fólki, til dæmis í heilbrigðiskerfinu? Þess á milli er manneklan slík að ekki er hægt að reka spítalana. Er talið að atvinnulaust heilbrigðisstarfsfólk fari í byggingarvinnuna, eða hvað? Fyrir hverja er verið að skapa störfin og af hverju eiga lífeyrissjóðir landsmanna að verja lífeyrissparnaði fólks í meinta óarðbæra byggingu? Ég næ þessu ekki alveg.

Mér skilst að samkvæmt lögum þurfi að bjóða svona stórframkvæmdir út á EES-svæðinu. Erlendir verktakar gætu fengið verkið og miðað við reynsluna af Kárahnjúkum og viðsnúninginn þar má alveg eins gera ráð fyrir að vinnuaflið verði innflutt. Í hverra þágu er þessi framkvæmd og hvað veldur staðarvalinu? Fyrst varla er hægt að reka heilbrigðiskerfið nú þegar - til hvers að reisa nýtt sjúkrahús fyrir tugmilljarða í stað þess að nota peningana til að rétt af hallann og reka kerfið með reisn? Þetta minnir mig svolítið á að þegar gríðarlegur skortur var á starfsfólki í leikskóla á höfuðborgarsvæðinu fyrir nokkrum árum var tekið á það ráð að byggja nýja. Það vantar eitthvað í þetta púsluspil í mínum huga. En kannski hef ég bara ekki fylgst nógu vel með.

Hér er upptaka úr Silfri Egils og tvær blaðagreinar sem varpa einhverju ljósi á málið með staðsetningu nýja sjúkrahússins. Seinni greinin er í andstöðu við málflutning Guðrúnar Bryndísar Karlsdóttur í Silfrinu og leiðara Páls Baldvins Baldvinssonar í Fréttablaðinu. Hún er skrifuð af tveimur embættismönnum Landspítalans sem horfa greinilega á málið með öðrum gleraugum, en það er fróðlegt að skoða þetta í samhengi.

Guðrún Bryndís Karlsdóttir í Silfri Egils 8. nóvember 2009

Nýr staður brýnn - Páll Baldvin Baldvinsson - Fréttablaðið 18. nóvember 2009

Löngu ákveðið að sameina Landspítala við Hringbraut - Ingólfur Þórisson og Jóhannes M. Gunnarsson - Morgunblaðið 19. nóvember 2009


Lágkúrufjölmiðlun

Um daginn var mikið talað um lágkúrufjölmiðlunina sem hefur færst mikið í vöxt undanfarin ár. Slík tegund fjölmiðlunar birtist einkum í raunveruleikaþáttum og fíflagangi í sjónvarpi, gaspri og flissi í útvarpi og skrifum í ýmsa miðla um ófarðaðar stjörnur að kaupa í matinn, fitukeppi, appelsínuhúð eða lafandi brjóst svo eitthvað sé nefnt. Svo ekki sé minnst á auglýsingarnar sem fylgja þessum ósköpum.

Ímyndasmiðir nútímans koma úr ýmsum áttum og keppast við að stýra neyslu fólks og útliti og búa til gerviþarfir til að selja óþarfa. Oft er höfðað til lægstu hvata mannskepnunnar og allt er leyfilegt. Gjarnan er þeim mest hampað sem eru kjaftforastir, hneyksla mest og ganga lengst og þau gerð að ímyndum "fallega fólksins", "sannra karlmanna", "kynþokka" og þar fram eftir götunum. Þegar þetta fólk opnar munninn kemur ekki óbrenglað orð út úr því og ekki vottar fyrir heilbrigðu lífsviðhorfi, skynsemi eða sæmilega virkri heilastarfsemi. Um eitt þessara fyrirbæra kvenkyns var sagt nýverið: "Verðugur fulltrúi klámkynslóðarinnar, sem hlutgerir kvenlíkamann og lætur ungum stúlkum líða eins og þær þurfi að afklæðast til að hljóta viðurkenningu." Séðogheyrtþáttur Stöðvar 2 hefur verið iðinn við að kynna þessa tilteknu konu ásamt fleira svona fólki og hampa því sem fyrirmyndum... ja, hverra? Unglinganna? Maður spyr sig...

Þeir sem standa fyrir svona fjölmiðlun afsaka sig með því að þetta vilji fólk horfa og hlusta á eða lesa um. Þó var ritstjóri Vísis ansi vandræðalegur í viðtali um málið við Kastljós um daginn og í mikilli vörn. Ef það er satt sem þau segja - hvað er það í mannlegri náttúru sem gerir það að verkum að fólk nýtur þess að sjá náungann niðurlægðan? Getur einhver sagt mér það?

Kastljós 26. október 2009

 

Ég fjallaði um þessa lágkúrufjölmiðlun í Morgunvaktarpistlinum fyrir viku, föstudaginn þrettánda. Hljóðskrá viðfest neðst í færslunni.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Hvað er það í eðli mannskepnunnar sem veldur því að hún gleðst yfir óförum annarra? Það hlakkar í fólki þegar einhver er niðurlægður og margir borga jafnvel háar upphæðir fyrir að horfa á sjónvarpsefni þar sem fólk er ýmist rifið niður eða troðið í svaðið.

Fjölmiðlar hafa verið einn mesti áhrifavaldur undanfarinna áratuga og eru enn. Áhrifum fylgir ábyrgð og hún er afar vandmeðfarin. Þess vegna vakti mikla furðu í þjóðfélaginu þegar Stöð 2 tók upp á því, aðeins þremur mánuðum eftir efnahagshrunið, að gera fréttamagasínþáttinn Ísland í dag að ábyrgðalausu þunnildi. Einmitt þegar þjóðin þurfti sem mest á beittri og gagnrýninni fjölmiðlun að halda.

Raunveruleikaþættir, sem margir ganga út á að niðurlægja fólk á einhvern hátt, hafa tröllriðið sjónvarpsdagskrám. Á fjölmiðlunum situr fólk á fullum launum við að gera grín að appelsínuhúð, lafandi brjóstum eða fitukeppum á þekktum einstaklingum. Svo ekki sé minnst á of litla eða of stóra rassa eða óeðlilegan hárvöxt á viðkvæmum stöðum. Sérstaklega er svo tekið fram ef myndir af ósköpunum fylgja.

Sumir fjölmiðlar hafa verið duglegir við að reka sitt reyndasta og oft besta fólk í nafni niðurskurðar, en ráða í staðinn óreynd, ótalandi og óskrifandi ungmenni sem væntanlega er auðveldara að stjórna. Í september sagði einn fjölmiðillinn meira að segja upp blaðamönnum á sjötugsaldri sem áttu eftir örfá ár í eftirlaun og höfðu alið mestallan sinn starfsaldur hjá blaðinu. Siðleysið var algjört.

Ég hef spurt marga hvað óábyrgum stjórnendum þessara fjölmiðla gangi til. Hvers vegna hið vitræna sé skorið niður á meðan hlaðið er undir lágkúru og fíflagang. Margir botna ekkert í þessu frekar en ég og enn aðrir segja: "Þetta er það sem fólk vill." En það er ég alls ekki sannfærð um. Hefur fólk eitthvað val?

Ég held stundum að með því að halda þessari tegund fjölmiðlunar að almenningi séu óprúttnir aðilar meðvitað að búa til einhvers konar heilalaust lágkúrusamfélag með það fyrir augum að ef hægt er að koma í veg fyrir að fólk hugsi sé auðveldara að stjórna því. Segja því hvað það vill og hvað ekki, hvað má og hvað ekki - og hverjir mega hvað og hverjir ekki. Láta fólk svífa gagnrýnis- og hugsunarlaust í gegnum lífið, til þess eins að vera örsmátt tannhjól í æðra ætlunarverki valdhafanna.

Unga fólkið er sérstaklega viðkvæmt fyrir slíkri fjölmiðlun. Við hverju er að búast af fullorðnum einstaklingi sem alinn er upp við endalaust gláp á raunveruleikaþætti í sjónvarpi og útlitsfjölmiðlun, sem rífur látlaust niður sjálfstraust fólks og veikir sjálfsmynd þess? Valdhafa sem hegna fólki fyrir að hugsa og gagnrýna í stað þess að ýta undir heilbrigð skoðanaskipti og rökhugsun.

En mannskepnan hlær að niðurlægingu náungans og í höfði hennar bærist engin hugsun.

*********************************************

Jóhann Hauksson skrifaði frábæra bloggfærslu á svipuðum nótum um daginn sem hann svo breytti og bætti og birti í DV. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Höfum það krassandi og afgerandi - Jóhann Hauksson - DV 28. október 2009


"Óhemjukórinn syngur"

Enn halda vísir menn áfram að reyna að koma vitinu fyrir virkjana- og álverssinna, í þetta sinn er það Guðmundur Páll Ólafsson, náttúrufræðingur, sem skrifar. Treglega gengur að fá suma til að skilja hve mikið feigðarflan fyrirhuguð álver, virkjanir og raflínuskógar eru. Hver sönnunin á fætur annarri er dregin fram sem sýnir að næg orka er ekki til, brennisteinsvetniseitri spúð yfir þéttbýlasta svæði landsins, raflínum á að troða á vatnsverndarsvæði Reykvíkinga með ófyrirsjáanlegum afleiðingum - og svona mætti halda áfram.

Óhemjukórinn syngur - Guðmundur Páll Ólafsson - Fréttablaðið 12. nóvember 2009

Hér er frétt frá því á þriðjudaginn sem ekki var gert mikið úr en er grafalvarleg. Ég minni á að allt er þetta af völdum aðeins einnar virkjunar, Hellisheiðarvirkjunar, sem þó á eftir að stækka. Svo er áætlað að bæta við virkjunum í Krýsuvík, Hverahlíð (á Hellisheiði) á Ölkelduhálsi (Bitruvirkjun) og tvær virkjanir í Þrengslunum eru á teikniborðinu. Þótt ein virkjun sé farin að spúa eitri ofan í lungu íbúa suðvesturhornsins á að bæta mörgum við - og til hvers? Til að knýja eitt álver sem fær raforku á gjafverði og flytur gróðann úr landi. Er nema von að þjóðir heims vilji ekki lána þjóð fjármuni sem fer svona með auðlindirnar sínar!

Brennisteinsvetni mælist yfir mörkum - Fréttablaðið 17. nóvember 2009

Hér eru samanklipptar tvær fréttir frá í hádeginu á þriðjudag - önnur af Bylgjunni og hin Ríkisútvarpinu. Hlustið.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

"Kvarnir í stað heila"?

Hann kynnir sig sem fyrrverandi sjálfstæðismann og spyr hvort þurfi að skipta út hæstvirtum kjósendum næst. Ég tek undir hvert einasta orð í þessari frábæru grein.

Kvarnir í stað heila - Sverrir Ólafsson - Morgunblaðið 11. nóvember 2009


Hlédrægni og hallelúja

 

Vondur málstaður illa varinn

KSÍ - Knattspyrnusamband ÍslandsOft er gaman að fylgjast með á Fésinu þegar hlutirnir gerast. Minnisstætt er þegar fólk var að segja upp Mogganum í september og lét ýmislegt flakka. Nú fljúga ummælin sem aldrei fyrr og mörg eru óborganleg. Fólk er að fjalla um kynlífsreynslu knattspyrnumannsins, fyrirmyndar barna og unglinga af báðum kynjum, sem sofnar yfir fatafellum á  klámbúllum í erlendum höfnum. Borgar svo fyrir "lúrinn" með greiðslukorti vinnuveitandans sem styrktur er af almannafé og virðist hafa drjúga úttektarheimild miðað við gjaldfærðar upphæðir. Ferðafélagi hans og yfirmaður, nokkuð úthaldsminni að eigin sögn, kom í Kastljósið í gærkvöldi og gerði illt margfalt verra. Snilldin draup af hverju orði eins og t.d.þegar hann sagði að umræðan væri að skaða KSÍ. Og ég sem hélt að það væri framferði starfsmannsins! Hér eru sýnishorn af Fésbókarummælum - kyngreind:

"Aldrei hefur vondur málstaður verið varinn jafn illa." (Karl) Sá sem hér skrifar segist hafa sótt sér vasaklút þegar leið á Kastljóssviðtalið.

"Fréttamaður RÚV sagði að knattspyrna teldist tæplega vera 'undirliggjandi sjúkdómur...' Ja, það er orðið álitamál hvort svo sé ekki - miðað við KSÍ kallana..." (Karl) Þarna var verið að vísa í frétt í Tíufréttum RÚV þar sem sagt var frá að belgískir knattspyrnumenn hefðu fengið svínaflensusprautu á undan forgangshópum þar í landi.

"Maður getur nú orðið þreyttur á svona strippbúllum, þurft smálúr og breitt kreditkortin sín ofan á sig svo það slái ekki að manni." (Kona)

"Ég myndi líka leggja mig ef ég vissi að einhver straujaði fyrir mig á meðan." (Kona)

"Skipulögð glæpastarfsemi: Kunningjamafían sem slær skjaldborg um kunningjana, fela sannleikann og jafnvel ljúga fyrir kunningjana, verði þeir uppvísir að misferli og öðrum lögbrotum..." (Karl)

"K S Í = KUNNINGJARNIR sem slá SKJALDBORG um ÍÞRÓTTAMENN sem fara á hóruhús á kostnað barnanna sem safna dósum..." (Karl)

"Þetta hafa verið kurteisir þjófar þrátt fyrir að hafa verið bendlaðir við hryðjuverk í viðtalinu áðan." (Kona) Þeir skiluðu nefnilega kortinu eftir að hafa fyrst "stolið" því.

Margt fleira hefur verið látið fjúka og sumt þess eðlis að ég hef það ekki eftir. En hér er þetta magnaða Kastljóssviðtal við Geir Þorsteinsson, formann KSÍ. Það hlýtur að koma sterklega til greina sem viðtal ársins hjá Baggalútum.

Kastljós 9. nóvember 2009

 


Ólöglegur dómur og réttarglæpur?

Ég er núna fyrst að kíkja á Silfrið frá í gær. Er ekki búin að horfa á allan þáttinn ennþá, en hnaut hressilega um þennan kafla sem - að því ólöstuðu sem ég er búin að sjá - er alveg stórmerkileg umræða og upplýsandi með eindæmum.

Hér talar Sveinn Valfells tæpitungulaust um nýgenginn dóm Hæstaréttar í  Glitnismáli Vilhjálms Bjarnasonar. Nokkuð var fjallað um dóminn eftir að hann féll og ef ummælin eru tekin saman (Spegilsumfjöllun viðfest neðst í pistlinum) er deginum ljósara hvers konar furðuverk er hér á ferðinni. Óskiljanlegur gjörningur. Og dómurinn vekur upp ýmsar spurningar um framtíðina eins og Sveinn kemur inn á.

Það eru svona dómar sem ég átti m.a. við þegar ég sagði í þessum pistli: "Að lokum legg ég til að íslensk lög og dómar íslenskra dómstóla snúist um réttlæti." Því er flaggað í tíma og ótíma að við búum í réttarríki. Það hefur enga þýðingu ef dómar snúast ekki um réttlæti öllum til handa, ekki bara sumum.

Silfur Egils 8. nóvember 2009

 

Annað sem Sveinn talaði um er hin furðulega ráðstöfun með Haga, afskriftirnar og eignarhaldið. Eins og við höfum reyndar alltaf vitað er ekki sama Jón og séra Jón - og enn síður nú um stundir en nokkru sinni. Spaugstofan var með þetta á laugardaginn og ég trúi ekki að almenningur á Íslandi - og stjórnvöld - ætli að láta þetta viðgangast.

Úr Spaugstofunni 7. nóvember 2009

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Aurasálin og Spákaupmaðurinn

Eins og sjá mátti hér og hér hef ég verið að grúska í gömlum blöðum. Upphaflega í leit að ákveðnu máli en eins og gengur leiddi leitin mig út og suður og að lokum mundi ég varla að hverju ég var að leita í byrjun. Svona grúsk er tímafrekt en alveg ótrúlega fróðlegt. Ég rakst t.d. á þessa mögnuðu pistla sem birtust í Markaði Fréttablaðsins 1. mars 2006.

Ég las aldrei það blað og fylgdist ekkert með "markaðnum" þótt sumum fréttum af honum hafi verið troðið ofan í kokið á manni, nauðugum viljugum. En í ljósi þess hvernig farið var með þjóðina er merkilegt að kynna sér móralinn og siðferðið sem óð uppi á þessum tíma - og hrokann. Ef til vill kemur einhver með þá athugasemd að þessir pistlar séu skrifaðir í gríni. Ég held reyndar ekki og hef a.m.k. ekki húmor fyrir þeim þó svo væri.

Aurasálin og Spákaupmaðurinn - Markaðurinn 1. mars 2006

Í sama blaði heyrðist rödd skynseminnar sem furðaði sig á því sem var að gerast í viðskiptaheiminum.

Ótroðnar slóðir - Gylfi Magnússon - Markaðurinn 1. mars 2006


Auðmenn, tjáningarfrelsi og réttlæti

"Íslenskir útrásarvíkingar hafa umsvif í Bretlandi, þar sem meiðyrðalöggjöf er miklu strangari en á Íslandi og útgjöld vegna meiðyrðamála eru nánast óbærileg venjulegum launþegum. Til þess að höfða mál gegn íslenskum ríkisborgurum þarf aðeins að koma því í kring, að ummæli, sem stefna á fyrir, birtist einhvers staðar á ensku, til dæmis á netinu. Íslenskur auðmaður með hagsmuni í Bretlandi þarf því aðeins að sjá um slíka birtingu og höfða síðan mál í Bretlandi, og þá er þess ekki langt að bíða, að sá, sem hann stefnir, verði gjaldþrota, hvort sem hann tekur til varna eða ekki og hvort sem hann vinnur málið eða tapar því."

Þannig hefst annar hluti fréttaskýringar Eyjunnar um Auðmenn, málfrelsi og lögsögu meiðyrðamála sem birt var í gær. Fyrsti - eða fyrri hlutinn, Eiga auðmenn að geta þaggað niður gagnrýni? birtist á fimmtudaginn.

Málið sem fjallað er um í þessum fréttaskýringum er grafalvarlegt og gæti haft háskalegar afleiðingar ef ekki verður brugðist við af löggjafanum á Íslandi. Ég fjallaði um þetta í föstudagspistlinum á Morgunvakt Rásar 2 og hvet alla til að lesa líka Eyjupistlana tvo sem vísað er í hér að ofan. Hljóðskrá viðfest neðst að venju.

Morgunvaktin á Rás 2

Ágætu hlustendur...

Mér hefur orðið tíðrætt um málfrelsið; tjáningarfrelsið sem hefur blómstrað undanfarið, einkum á netmiðlum og bloggi. Ég hef sagt, og stend við það, að þeir sem ekki lesa netmiðla og blogg fái ekki nægilega góða heildarmynd af því sem er að gerast í samfélaginu, atburðunum sem leiddu til hrunsins og því sem gengið hefur á þetta ár sem liðið er síðan.

Einhvern tíma gilti löggjöf hér á landi sem kvað á um að ekki mætti vega að æru opinberra starfsmanna. Ekki einu sinni þótt sagt væri satt. Ef sannleikurinn var talinn skaða æru viðkomandi átti að þegja. Af hverju heiður opinberra starfsmanna var álitinn heilagri en annarra veit ég ekki, en lögunum var breytt, meðal annars vegna þrýstings frá Þorgeiri heitnum Þorgeirsyni.

Nýverið féll hæstaréttardómur í máli þar sem blaðamaður var gerður ábyrgur fyrir orðum viðmælanda síns um starfsemi afar umdeilds athafnamanns á höfuðborgarsvæðinu. Fordæmalaus dómur sem vakti furðu og óhug en hefur nú verið áfrýjað til Mannréttindadómstóls Evrópu. Eins og prentlögin eru nú, ræður kærandinn hverjum hann stefnir - viðmælanda, blaðamanni eða útgefanda - en því og fleiru mun eiga að breyta með nýjum fjölmiðlalögum.

En nú virðist íslenskum blaðamönnum og öðrum sem tjá sig á opinberum vettvangi stafa ógn af meiðyrðalöggjöf í Bretlandi, sem mun vera strangari en gerist og gengur víða á Vesturlöndum. Netmiðillinn Eyjan sagði í gær frá hótun íslensks auðmanns um að stefna miðlinum fyrir breska dómstóla vegna skrifa blaðamanns um sig og starfsemi sína á Íslandi. Hann sagði að Eyjupistillinn, sem auðvitað var á íslensku, yrði bara þýddur yfir á ensku og Eyjunni stefnt fyrir að skaða viðskiptahagsmuni sína í Bretlandi - hverjir sem þeir eru.

Nokkuð hefur verið fjallað um þessa kæruleið í íslenskum og erlendum fjölmiðlum og viðbrögð til dæmis Bandaríkjamanna við bresku dómunum - en þeir neita að taka mark á þeim og líta á þá sem þöggun eða skerðingu tjáningarfrelsis.

Málaferli sem þessi eru rándýr og mun kostnaðurinn talinn í tugum milljóna. Hinn ákærði þarf að kosta vörn sína sjálfur og sanna mál sitt, en kærandinn virðist ekki þurfa að sanna neitt.  Honum virðist nægja að dylgja um meintan skaða. Slík málaferli eru ekki á færi annarra en auðmanna, og ef ekki verður tekið fyrir þetta strax stafar tjáningarfrelsi á Íslandi - og annars staðar í heiminum - stórhætta af.

Ef ekki verður brugðist við aðförinni er hætt við að íslenskir útrásardólgar og auðmenn verði jafn ósnertanlegar og heilagar kýr eins og opinberir starfsmenn forðum og þaggi niður alla gagnrýni í krafti misvel fenginna fjármuna sinna og lagatæknilegra brellna í erlendum höfnum.

Að lokum legg ég til að íslensk lög og dómar íslenskra dómstóla snúist um réttlæti.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband