Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Kjölfestubandalagið

Í Mogganum í dag, sunnudag, birtist loks ný grein eftir Einar Má Guðmundsson sem hann kallar Kjölfestubandalagið. Einar Már hefur látið okkur bíða í tæpan mánuð eftir nýrri grein, sú síðasta birtist 25. janúar. En greinarnar hans eru þess virði að bíða eftir þeim. Fleiri greinar eftir Einar Má eru hérKjölfestubandalagið - smellið þar til læsileg stærð fæst.

Kjölfestubandalagið - Einar Már - Moggi 22.2.09


Við megum ekki gefast upp!

Ég ætla ekki að skrifa um siðlausa reikninga manna í skilanefndum og jafnsiðlausar lúxusferðir þeirra á kostnað almennings sem á ekki fyrir nauðsynjum og er með kvíðahnút yfir morgundeginum. Ég ætla heldur ekki að skrifa um fleipur forsetans sem hefur valdið þjóðinni ómældu tjóni á erlendri grundu. Ég lít á það mál sem létta smjörklípu, alvarlega þó, en vil taka á því seinna og einbeita mér að því að koma frá manninum sem hefur valdið okkur enn meira tjóni og enginn treystir, hvorki innanlands né utan, hvers rass hvílir enn í mjúkum stól á okkar kostnað í Svörtuloftum.

Ég ætla að skrifa um það sem ég mótmæli á Austurvelli í dag klukkan þrjú. Ég hef alltaf sagt að ég mæti á mótmælafundina á mínum eigin forsendum. Lít þannig á að með nærveru minni þar sé ég að mótmæla því ranglæti sem hefur átt sér stað í þjóðfélaginu undanfarin ár og olli efnahagshruninu og hvernig tekið hefur verið á því - eða bara alls ekki tekið á því. Mikill árangur hefur náðst en ennþá er óralagt í land og margt sem þarf að gera.

Að þessu sinni ætla ég til dæmis að krefjast þess, að tekið verði á málum auðmannanna sem rændu okkur. Þessara "þrjátíumenninga" sem settu heila þjóð á hausinn með fullkomlega siðlausum athöfnum og sérgæsku. Ég ætla að krefjast þess að lagt verði hald á eignir þeirra, þeir handteknir og yfirheyrðir með réttarstöðu grunaðra. Við vitum að rökstuddur grunur er fyrir því að þeir hafi allir haft rangt við og flutt stórar fjárhæðir úr landi og inn á einkareikninga í skattaparadísum úti í heimi. Í því sambandi minni ég á, að einn alræmdasti glæpamaður Bandaríkjanna, Al Capone, var loks dæmdur fyrir skattsvik en ekki morð, sprúttsölu eða aðra glæpi. Sáuð þið þetta?

Segið svo að þeir eigi ekki nægar eignir til að leggja hald á. Ég hlusta ekki á þá rökleysu að ekki megi hrófla við þeim af því það væri brot á mannréttindum þeirra. Brutu þeir ekki á mannréttindum okkar með því að ræna okkur aleigunni, stoltinu og ærunni? Af hverju ættu mannréttindi 30+ auðkýfinga að vega þyngra en mannréttindi, afkoma og framtíð heillar þjóðar - 300.000 manns? Yfirvöld eiga aldrei í neinum vandræðum með að haldleggja alls kyns góss sem þau grunar að sé þýfi eða stinga mönnum inn fyrir "rökstuddan grun" um fíkniefnasmygl eða -sölu, innbrot eða þjófnað á lifrarpylsu úr matvöruverslun. Hvers vegna má ekki snerta við þessum mönnum sem hafa stolið hundruðum ef ekki þúsundum milljarða? Hverjir vernda þá og af hverju? Það vil ég vita.

Ég flokka bankamennina með þessum hópi. Þeir bera gríðarlega ábyrgð á efnahagshruninu og eins og sést á myndbandinu hér að ofan lifðu þeir í vellystingum praktuglega - og gera væntanlega enn. Tortólaþýfið verður að endurheimta og nú hefur stærsti banki Sviss, UBS, ákveðið að aflétta bankaleynd og greiða Bandaríkjastjórn 780 milljónir dollara í bætur fyrir að hafa aðstoðað bandaríska skattgreiðendur við að svíkja undan skatti. Á móti fellur Bandaríkjastjórn frá ákæru fyrir aðstoð við skattsvik. Hlustið hér. Þetta er hægt - er einhver að vinna í þessu máli fyrir íslenskan almenning? Af hverju má ekki aflétta bankaleynd á Íslandi til að upplýsa stórfellda glæpi þegar meira að segja svissneskur banki ætlar að gera það?

Í myndbandinu hér að ofan er minnst á Enron-málið fræga í Bandaríkjunum. Ótrúleg svikamylla sem skaðaði fjölda manns. Þar voru menn handteknir, yfirheyrðir, dæmdir og fangelsaðir. Hvernig í ósköpunum stendur á því að slíkt er ekki gert hér? Heil þjóð sett á hausinn og enginn einu sinni yfirheyrður, hvað þá annað! Ég hlakka til að sjá myndina á RÚV 1. mars með íslenskum texta og hvet alla til að sitja um hana - en þangað til er hún hér í þremur hlutum - ótextuð. Takk, Unnsteinn, fyrir að benda mér á hana um daginn þótt það hafi kostað mig blóð, svita og tár að koma henni hingað inn.

Enron - The Smartest Guys in the Room
Fyrsti hluti

 

Annar hluti

 

Þriðji hluti

 

Annað mál sem ég vil leggja áherslu á og mæti á Austurvöll til að krefjast er kvótinn. Margir halda því fram að upphaf ógæfu Íslands hafi verið að einkavæða auðlindina í hafinu og heimila síðan að veðsetja kvótann og braska með hann á allan hátt. Nú er svo komið að kvótinn er veðsettur mörg ár fram í tímann. Bankarnir eiga hann því í raun og þjóðin á bankana. Ég vil endurheimta kvótann, gera hann aftur að þjóðareign, úthluta honum aftur og dreifa á sanngjarnan hátt um landið. Ég vil að óheimilt verði að framselja hann eða veðsetja. Þessi auðlind á að skapa atvinnu allt í kringum landið og vera í heimabyggð til frambúðar. Munið þið hvað Ingólfur sagði hér?

Ég ætla líka að krefjast þess að eitthvað mikið verði gert í verðtryggingunni. Þegar þjóðarsáttin var gerð í kringum 1990 var talað um að afnema hana þegar verðbólgan hefði lækkað og efnahagurinn kæmist í jafnvægi. Það var þó aldrei gert. Ég er af þeirri kynslóð sem er að lenda í klóm verðtryggingarinnar í annað sinn á ævinni. Neyddist til að selja ofan af mér fyrir um 18 árum vegna verðtryggingar og nú hækkar húsnæðislánið mitt með stjarnfræðilegum hraða - aftur. Ef verðtryggingin tengist beinlínis gjaldmiðlinum okkar vil ég skipta um gjaldmiðil sem fyrst. Hvaða máli skiptir hvað gjaldmiðillinn heitir ef við losnum við verðtrygginguna? Rifjum upp hvað Gunnar Tómasson sagði. Hann byrjar að tala um hana um mitt viðtal. Þar á eftir talar Gunnar um kvótann. Hlustið vel.

Ég mæti á fundinn á Austurvelli í dag á þessum forsendum - meðal annarra. Réttlætiskennd minni hefur verið misboðið árum saman en aldrei sem nú.  Eru fleiri sammála mér? Gerið þið sömu kröfur og ég - og svo margir aðrir? Mætið þá á Austurvöll klukkan þrjú í dag. Stöndum saman og gefumst ekki upp. Við erum að berjast fyrir framtíð okkar, barnanna okkar og barnabarnanna. Það gerir það enginn fyrir okkur. Sjáumst á Austurvelli, við megum ekki gefast upp!


Opið bréf til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar

Lítill tími hefur gefist til að skoða blöðin upp á síðkastið, hvað þá að klippa úr þeim greinar og slíkt. En þar sem ég er að undirbúa sérstaka færslu las ég þessa grein í Mogganum á miðvikudag. Gaman verður að sjá hvort svar berst á sama vettvangi og hvernig það hljóðar. Greinin sem vitnað er í eftir Jón Ásgeir er í tvennu lagi hér og hér.

Opið bréf til JÁJ - Moggi 18.2.09


Djöflast gegn persónukjöri

Ég heyrði þetta í hádegisfréttum á Bylgjunni og sá svo á Vísi áðan. Ég legg til að fólk taki eftir því hvaða þingmenn leggjast gegn persónukjöri í kosningunum - þvert á háværar kröfur og vilja almennings. Ég legg líka til að frumvarp stjórnarinnar þar að lútandi gangi lengra og að flokkunum verði það ekki í sjálfsvald sett hvort þeir taki þátt í því. Að lokum legg ég til að þið lesið þennan pistil Andrésar Jóns um þetta mál. Ég fæ ekki betur séð en að Andrés sé reiður. Það er ég líka.

Djöflast gegn persónukjöri


Ég stenst ekki mátið...

Nú dynja á okkur fréttir um nýja frambjóðendur í öllum flokkum sem og um þingmenn og ráðherra sem ætla að hætta og fara að gera eitthvað annað. Einar Mar  heldur utan um hverjir ætla að hætta eða reyna aftur. Mér líst misvel á nýja frambjóðendur flokkanna, sumum fagna ég en öðrum vantreysti ég. Enn aðra þekki ég ekki neitt og get engan veginn metið. Ekkert bólar enn á nýjum framboðum, enda er tíminn naumur og ekki víst að það náist að koma neinu saman. Ég vona það samt, ekki veitir af.

XMér leist ekkert á blikuna þegar Þráinn Bertelsson lýsti yfir framboði fyrir Framsókn í Reykjavík og ég hafði á orði einhvers staðar að þar færi góður biti í hundskjaft. Samt var leiðinlegt að lesa þetta í gær þótt það hafi ekki komið mér neitt sérlega á óvart. Einkum hlýtur þetta að vera skítt fyrir reykvíska framsóknarmenn og varla verða svona vinnubrögð flokknum til framdráttar.

Nú sakna ég þess að tillaga Vilmundar Gylfasonar og Bandalags jafnaðarmanna frá 1983 um persónukjör þvert á lista sé ekki enn orðin að veruleika. Sú tillaga var á þá leið að kjósendur gætu valið frambjóðendur af öllum listum - X marga alls - sama hvar á listunum þeir væru. Ég gæti nefnilega alveg hugsað mér að kjósa einhverja af öllum listum því alls staðar leynist gott fólk - en líka síðra. Svo raðast fólk ekkert endilega í þau sæti sem manni finnst að það ætti að gera.

Ekki ætla ég að kynna sérstaklega frambjóðendur neinna flokka á þessari síðu - með einni undantekningu þó. Ég hef kynnst Bergi Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Landverndar, í gegnum baráttuna gegn Bitruvirkjun og ég hoppaði hæð mína í loft upp þegar ég heyrði að hann ætlaði í framboð. Mér hefði verið slétt sama fyrir hvaða flokk þótt þetta val hans komi samt ekki á óvart. Bergur er heiðarlegur og heilsteyptur maður sem ég treysti mjög vel til góðra verka fyrir land og þjóð auk þess sem hann er einlægur umhverfis- og náttúruverndarsinni. Bergur býður sig fram í Suðurkjördæmi og ég skora á kjósendur að velja hann. Takið eftir því að ekki þarf að vera búsettur eða eiga lögheimili í kjördæminu til að geta tekið þátt í prófkjörinu - það þarf bara að skrá sig í VG félag í Suðurkjördæmi fyrir klukkan 17 föstudaginn 20. febrúar - semsagt strax. 

Ég óska Bergi Sigurðssyni alls hins besta í prófkjörinu og vona innilega að hann nái árangri.

Bergur Sigurðsson í framboð


Siðleysi, spilling eða siðspilling?

Flestir muna eftir þessari þekktu ráðningu, eða hvað? Þingmaður ræður sér aðstoðarmann í nóvember - mánuði eftir efnahagshrun þegar sýnt var að niðurskurður á öllu væri framundan.

Einar Bárðarson ráðinn aðstoðarmaður Kjartans Ólafssonar - Fbl. 6.11.08

En þremur mánuðum seinna, í lok janúar, gerði göfuglyndi vart við sig og aðstoðarmaðurinn afþakkaði launin sín ganske pent. Góður, fórnfús gæi, ha?

Einar Bárðarson afþakkar laun - Mbl. 27.1.09

En viti menn! Hálfum mánuði síðar gerist þetta:

Einar Bárðarson fær Offiseraklúbbinn - Víkurfréttir 16.2.09

Einskær tilviljun eða "pólitísk greiðasemi" = spilling? Maður spyr sig... Og sjáið bara hvað Smugan er umburðarlynd og ó-kaldhæðin! Annars er þetta nú ótrúlega gegnsætt og viðkomandi aðilar virðast treysta alfarið á gullfiskaminni almennings. Og skyldi svosem engan furða eftir niðurstöður skoðanakönnunar um fylgisaukningu Sjálfstæðisflokksins. Þeir sem vilja komast á spenann hafa öllu gleymt nema eigin skinni - og vilja "vera memm"... eða hvað? Hver er skýringin á fylgisaukningunni?


Dæmigerð siðblinda

Heyrðuð þið í Óskari Bergssyni í Kastljósi í kvöld? Við fengum sýnishorn af dæmigerðum, siðblindum stjórnmálamanni. Ég dáðist að stillingu Þóru. Hún reyndi hvað eftir annað að koma Óskari í skilning um að einkaboð fyrir samflokksmenn væru eitt og almenn boð á vegum borgarstjórnar væri allt annað. Óskar annað hvort skildi hana ekki eða kaus að leiða þessa augljósu staðreynd hjá sér.

Eins og sá sanni framsóknarmaður sem Óskar er, sér hann ekkert athugavert við að láta Reykvíkinga borga áfengi og snittur ofan í 25 framsóknarmenn úr hópi sveitarstjórnarmanna á fundi um sparnað og þrengingar í efnahagsmálum.

Réttlæting 1: Hann er forseti borgarstjórnar og má bjóða þeim sem honum sýnist í móttökur.
Réttlæting 2: Einhver annar flokkur gerði þetta árið 2004.

Eftir efnahagshrun og í miðjum niðurskurði á öllum sviðum hefur Óskar Bergsson ekki nægilegt siðferði til að átta sig á að auðvitað átti þessi framsóknarmannafundur að vera í boðið Framsóknarflokksins, ekki útsvarsgreiðenda í Reykjavík. Í því sambandi bendi ég á þennan pistil þar sem fram kemur m.a., að af 64.895 atkvæðum Reykvíkinga í síðustu sveitarstjórnarkosningum hlaut flokkur Óskars aðeins 4.056 atkvæði. Óskar Bergsson hafði lent í 3. sæti og strangt til tekið er umboð hans til valda nánast ekkert.

Ég vona að Óskari Bergssyni detti ekki í hug að bjóða sig aftur fram í Reykjavík eða annars staðar. Svona stjórnmálamenn með hans tegund af siðferði eru einmitt sú sort sem verið er að mótmæla hástöfum, almenningur hefur fyrirlitningu á og sem við viljum ekki sjá í pólitík framtíðarinnar - hvar í flokki sem þeir hreiðra um sig.


Basil fursti fallinn og Öldungaráð Eiríks

Eiríkur Guðmundsson - Öldungaráðið - Pistlar

Enn og aftur bendi ég á Víðsjárpistil eftir Eirík Guðmundsson. Þessi er frá í gær og Eiríkur kallar hann Öldungaráðið. Hér er Eiríkur með tillögu að lausn á vissu vandamáli í íslensku þjóðfélagi. Pistillinn er í tónspilaranum, næst neðst, merktur Víðsjá - Öldungaráðið - Eiríkur Guðmundsson. Hann er líka viðfestur neðst í færslunni. Takið sérstaklega eftir laginu á eftir pistlinum.

Öldungaráðið

Hvað er hægt að bjóða einni þjóð upp á mikið? Hvað er hægt að leggja á eitt stykki landslýð? Hvað er annars í fréttum, ég hef ekkert heyrt af Íslandi, hverjir fá sýslurnar og hvað um brauðveitingar, hvað um skólann og alþing, og hvurnig var haustið, og hvernig hefur heyjast? Málaferli, hvalrekar, nýjar uppgötvanir, draugar og svo framvegis?

Adenauer - De Gaulle - Deng XiaopingÍ fréttum, kæri Jónas, þú spyrð, hvað er í fréttum? Ég veit ekkert um það, ég hef engan hitt og ekkert heyrt, ekkert Heklugos og enginn manndauði hér, en nú er svo komið að þjóðin sameinast ekki um annað en eitt: einhvers konar andúð á einum manni, sem neitar að hætta í vinnunni sinni, þótt búið sé að reka hann. Sameiningartákn þjóðarinnar er maður sem neitar að standa upp úr stólnum sínum, við höfum hér annan mann í hárri stöðu sem hefur ekki við að leiðrétta skrif erlendra blaðamanna, sá þriðji, er afgamall orðinn en með fiðring og vill ólmur verða forsætisráðherra, að minnsta kosti formaður í flokki.

Mikla raun höfum við nú af vorum gömlu mönnum; mönnum hinna gömlu flokka sem þeir kenndu ýmist við alþýðu eða sjálfstæði. Getur verið að Ólafur Ragnar Grímsson, Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson séu orðnir elliærir? Nei, til þess eru þeir varla nógu gamlir. En ef maður dregur ályktun af því sem birtist í fjölmiðlum, þá haga þeir sér eins og elliærir menn. Einn segir tóma vitleysu við erlenda blaðamenn, annar heldur að hann sé til skiptis De Gaulle og Deng Sjaó Ping, sá þriðji neitar að standa upp, þótt allir vilji að hann standi upp, og gott betur en það. Og ég spyr mig: Getur verið að þessir gömlu hrókar úr pólitíkinni, these old dudes, hafi allir misst vitið, sirkabát á sama augnablikinu; að þeir séu hreinlega orðnir geggjaðir? Öldungar hafa gefist vel, sagði Jón Baldvin um helgina, þegar hann boðaði endurkomu í pólitík; Adenauer hafi verið 69 ára þegar hann varð kanslari, De Gaulle um áttrætt og Deng Sjaó Ping um nírætt - og gafst vel, sagði Jón.

Nei, engu illu vill maður trúa; en stundum læðist að manni sá grunur, að allir þessir menn lifi í heimi sem snýst öðru fremur um þá sjálfa, töfra þeirra, og visku, pólitíska fortíð, framtíð, arfleifð, virðingu, urðu þeir allir glórulausir árið 1991, og hafa þeir, verið spirillíbúbb, allar götur síðan, í heil 18 ár? - þú mátt ekki misskilja mig, Jónas, ég hef gaman af þessum mönnum, sérstaklega Jóni, mér finnst þeir segja margt spaugilegt, án þess endilega að þeir ætli sér það. En það sorglega, er að þjóðin má varla við meira spaugi en orðið er; þetta er komið gott. Við þolum ekki meira grín, ekki meiri Matthildi; við erum sem hengd upp á þráð, út af ástandinu, sjáðu til.

En það er kunnara en frá þurfi að segja að fólk sem á við geðræn vandamál að stríða, heldur gjarnan að það sé einhver annar en það er, gjarnan verður Jesús Kristur fyrir valinu, og það er eðlilegt. Sagan segir að gárungarnir kalli Davíð Oddsson Winston Light, með tilvísun í gamla bretatröllið, Winston Churchill. Og kannski upplifa vorir gömlu herrar sig sem nett stórmenni sem þeir hafa lesið um í sögubókum, og spegla sig í slíkum góðum degi; De Gaulle Ligth, Abraham Lincoln, Ghengis Kahn, Maó, Lenín, og Thatcher; það er árið 2009 og við erum enn að fást við þessa gömlu herra, sem sigldu með hatta út í Viðey fyrir löngu, og virðast halda að þeir séu hitt og þetta; við erum enn að fást við Alþýðubandalagsmann sem breyttist í fursta, manninn sem innleiddi frjálshyggjuna á Íslandi, og náungann sem heldur að hann sé til skiptis De Gaulle og Deng Sjaó Ping! Og við þurfum enn að hlusta á náunga sem verja vitleysuna, á meðal þeirra eru karakterar sem ætlast til að þeir verði kosnir á alþingi í vor.

En héðan er svosem ekkert að frétta, annað en það að Davíð - Jón Baldvin - Ólafur RagnarSjálfstæðisflokkurinn íhugar að bjóða fram til Alþingis í vor, engin tíðindi, önnur en þau að ég hef lausn: það þarf ekki stórt fley undir vora gömlu herra, varla meira en skektu, setjum á þá hatta, og sendum þá aftur út í Viðey, þar sem þetta byrjaði allt saman; Ólafur getur fengið að vera forseti ... Viðeyjar, Jón Baldvin sá forsætisráðherra sem hann hefur alltaf dreymt um að vera, forsætisráðherra ... í Viðey, og Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, ...Viðeyjar! Við sendum þessa dára úr landi, sail away, ekki of langt, þannig að við getum áfram fylgst með þeim, úr fjarlægð, og haft af þeim nokkuð gaman, þegar aftur hýrnar yfir okkur hér á fróni, eftir allt helvítis fokkings fokkið!

Fylgismenn þeirra mega fylgja þeim út í eyjuna, og geta sest þar að, unað þar glaðir við sitt, þarna eru húsakynni frá miðri 18. öld. Þar geta vorir gömlu herrar haft sína aðstoðarmenn og einkabílstjóra, þeir geta skipað í allar þær stöður sem þeim hentar, það má jafnvel senda til þeirra einn og einn blaðamann, við og við, ljósmyndara, það má jafnvel láta þessa blaðamenn tala erlend mál, svo að vorir gömlu herrar haldi áfram að finna til sín, og það er sjálfsagt að borga þeim einhver laun, úr gamla útvegsspilinu, matadorpeninga, það er hvort eð er ekki svo mikill munur á krónunni og spilapeningum. Þarna mætti jafnvel prenta dagblað, það er hefð fyrir prentsmiðju í Viðey; það mætti jafnvel prenta þrjú blöð, Mogga, Þjóðvilja og Alþýðublað, svo allir fái nú eitthvað kunnuglegt fyrir sig. Davíð getur hækkað og lækkað stýrivexti að vild, jafnvel hótað að fara aftur út í pólitík! Jón Baldvin getur gengið inn og út úr Evrópusambandinu, alveg eins og honum hentar; hann getur vaknað á morgnana sem De Gaulle, leikið Adenauer um miðjan dag, og lagst til svefns sem Deng Sjaó Ping, og Ólafur Ragnar, hann getur myndað margar ríkisstjórnir á dag, eins margar og hann vill, og ráðið ríkisstjórnarsáttmálunum í þeim öllum, rifjað upp sögu Alþýðubandalagsins og útrásarinnar, verið í senn heimsborgari með hatt í húsakynnum Skúla Magnússonar, og sveitamaður, búandkarl í fámennu landi, eyju, og húðskammað einhverja konu, fyrir að segja sannleikann - þetta verður allt í lagi, og mun ekkert káfa upp á okkur, hér uppi á fastalandinu.

Jón Baldvin sagðist um helgina ekkert vera gamall miðað við marga aðra - og það er rétt hjá Jóni! ég hef séð eldri menn en þá Jón Baldvin, Ólaf Ragnar og Davíð Oddsson. En enginn þessara gömlu manna hélt að hann væri De Gaulle, Adenauer eða Deng Sjaó Ping, ekki einu sinni í hinsta óráðinu!

Hvað er að frétta? Engin tíðindi, ég skrifa þér á morgun, með bréfpósti, ég er frískur, Bryndís segir að ég sé við hestaheilsu, en heimilislæknirinn minn er löngu dauður, þú lasinn, vesalingur, gleddu þig við vorið og góða von. En ég segi: Öldungana út í Viðey! Bye bye, good old boys!

Við hin getum reynt að halda eitthvað áfram, tekið einhver hænuskref, ég veit reyndar ekki hvert, en eitthvað þurfum við að gera.

Víðsjá, 16. febrúar, 2009


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Flokkurinn lagði undir sig Ísland

DV - 17. feb. 2009

"Mér þykir leitt hvað þið eruð vitlaus"

Davíð neitar að hætta : "Mér þykir leitt... hvað þið eruð vitlaus"

Greinin birtist upphaflega á ensku á HuffingtonPost.com, 11. febrúar undir heitinu: "I'm sorry You're so Stupid:"Head of Iceland's Central Bank refuses to step down

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur, eins og kunnugt er, óskað eftir því við bankastjóra Seðlabankans að þeir segi upp störfum sínum svo að unnt sé að endurvekja traust erlendra fjárfesta á stofnuninni.

Íris ErlingsdóttirAðeins einn af bankastjórunum þremur varð við beiðni Jóhönnu; Eiríkur vill hætta 1. júní, en Davíð sendi forsætisráðherranum bréf þar sem hann beinlínis úthúðaði henni fyrir að voga sér að vilja „kanna hvort vilji sé til þess af yðar hálfu að biðjast lausnar frá embætti nú þegar..." (Davíð ætti að vera þakklátur fyrir að Jóhanna hafði ekki gömul bréf hans sér til hliðsjónar við skrifin; þá hefði hún sennilega sagt að ef Davíð ekki segði upp myndi hún "sjá til þess...að menn komi að bankanum sem viti hvað þeir eru að gera...ég mun ekki sitja lengur kyrr.")

Hógværari maður en Davíð hefði ef til vill minnst orða De Gaulle, að kirkjugarðarnir eru fullir af ómissandi einstaklingum, og ákveðið að láta málið öðrum eftir. En í augum Davíðs snýst íslenska efnahagskreppan því miður fyrst og fremst um hann sjálfan (og Davíð er ekki einn um þennan misskilning). Hann virðist, rétt eins og ákveðinn bandarískur forseti, álíta það vera ófyrirgefanlegan veikleika að viðurkenna mistök. Eina afsökunin sem hann virðist vera fær um er af "Mér þykir leitt... að þið skulið vera svona vitlaus" taginu.

Davíð hefur rétt fyrir sér að einu leyti. Seðlabankanum er ætlað að vera óháð stofnun sem staðið geti vörð um fjármuni þjóðarinnar óháð pólitískum áhrifum. Að verða við ósk Jóhönnu gæfi til kynna að Seðlabankinn væri bara enn opinber stofnun sem starfaði eftir duttlungum stjórnmálamanna.

En allir vita að pólitískt sjálfstæði Seðlabankans er nafnið eitt (íslenskir skattborgarar halda uppi þremur pólitískt ráðnum seðlabankastjórum, svo allir angar flokksræðisófreskjunnar fái sitt).  Davíð hafði hvorki menntun né þjálfun í hagfræði eða fjármálavísindum; hann var fremsti stjórnmálamaður landsins og hélt áfram að ráða lögum og lofum í Sjálfstæðisflokknum eftir að hann varð Seðlabankastjóri árið 2005. Til samanburðar væri meistaragráða í fyrrnefndum sérgreinum fyrsta skilyrði fyrir ráðningu í embætti nýs Seðlabankastjóra.

Davíð neitar einnig að viðurkenna að undir stjórn hans hefur Seðlabankanum algerlega mistekist þau grundvallarverkefni bankans að ná stöðugleika í gengi krónunnar og að hafa stjórn á verðbólgu, sem í janúar rauk upp í 18.6%. Hann sá ekki til þess að treysta gjaldeyrisforða Íslands til að vega á móti þenslu viðskiptabankanna erlendis. Krónan hefur tapað helminginum af verðgildi sínu á síðustu mánuðum og það er aðeins vegna þess að IMF hefur notað milljarða dala til að halda krónunni í gjörgæslu að hún er ekki í frjálsu falli.

Þessi deila skaðar enn frekar stöðu Íslands í augum erlendra fjárfesta, samkvæmt Financial Times, og gæti stefnt áætlunum alþjóðagjaldeyrissjóðsins til bjargar landinu í hættu.

Að stíga niður úr valdastól með reisn er án efa list út af fyrir sig. Í mannkynssögunni eru óteljandi dæmi um leiðtoga sem ákváðu að það væri Davíð Oddssontímabært og viðeigandi að axla ábyrgð og hörfa og lögðu þannig drög að endurkomu sinni. Davíð mun ekki ávinna sér virðingu meðal Íslendinga með því að sýna embætti forsætisráðherra virðingarleysi. Það mun aðeins gera þeirri ríkisstjórn sem kjörin verður í komandi kosningum erfiðara fyrir. Ef leiðtogi Sjálfstæðisflokksins neitar að fara að tilmælum ríkisstjórnar sem samanstendur af öðrum stjórnmálaflokkum í landinu, hvers vegna ættu leiðtogar þeirra flokka að gegna ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins?

Grundvallarskilyrði fyrir réttlátu og virku lýðræðisríki er að viðurkenna að embættið er æðra einstaklingnum, að þjóðin er mikilvægari en flokkurinn.

Mótmælendurnir sem felldu ríkisstjórn Geirs Haarde trúa því ekki lengur að íslenskir leiðtogar beri virðingu fyrir lögum og reglum. Þeir sjá smáklíku sem uppsker gríðarleg verðmæti fyrir sig og sína og stefnir efnahagslegu öryggi þjóðarinnar í stórhættu. Þeir spyrja hvers vegna enginn hefur verið sóttur til saka fyrir fjármálaglæpi vegna efnahagshrunsins; hvers vegna aðilar innan bankanna sem tóku lán fyrir hlutabréfakaupum þurfa ekki að standa við skuldbindingar sínar, hvers vegna embættismenn sem vanræktu að hafa eftirlit með bönkunum voru enn í starfi mánuðum eftir hrun bankanna. Þessir mótmælendur berja nú potta og pönnur fyrir framan Seðlabankann til að reyna að fá bót á þessu ástandi.

Þó bréf Davíðs til Jóhönnu hafi verið meira Mugabe en Churchill, má enn vona að hann íhugi málið betur og ákveði að láta hagsmuni þjóðarinnar ganga fyrir sínum eigin. Ef hann vill fá endurlausn getur hann að lagt mál sitt fyrir þjóðina þegar gengið verður til kosninga í apríl. Umsáturs-hugarfar Davíðs smánar aðeins hann sjálfan og stefnir efnahag okkar í hættu.

Íris Erlingsdóttir fjölmiðlafræðingur og fyrrverandi ritstjóri Gestgjafans og fréttamaður á Stöð 2 býr í Bandaríkjunum. Hún er dálkahöfundur fyrir bandaríska vefmiðilinn Huffington Post, þar sem þessi grein birtist fyrst á ensku.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband