Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Ólíkt hafast þeir að

Eignarhald fjölmiðla hefur verið mikið rætt og áhrif þess eignarhalds á umfjöllunarefni í miðlunum. Eins og ástandið er í þjóðfélaginu þurfum við bráðnauðsynlega á góðum, heiðarlegum fjölmiðlum að halda sem fjalla á gagnrýninn hátt um það sem aflaga hefur farið, fletta ofan af misgjörðum, svikum, falsi og öllu því sem átti þátt í efnahagshruninu. Mogginn hefur staðið sig ótrúlega vel, sem og ýmsir netmiðlar eins og Smugan og Eyjan. Fréttablaðið/Vísir.is á líka góða spretti og DV hefur verið að gera marga mjög góða hluti. RÚV er svo alveg sérkapítuli og stendur sig einna best í ljósvakafréttamiðluninni með fjölbreytta þætti í útvarpi og sjónvarpi. En ég hef þó á tilfinningunni að sameining fréttastofa útvarps og sjónvarps eigi eftir að slípast betur. Og þótt vefur RÚV hafi lagast mjög vantar mikið upp á að hann sé eins og ég vil hafa hann a.m.k.

Við eigum ógrynni af frábærum blaða- og fréttamönnum sem nú gætu notið sín sem aldrei fyrr ef þeim væru skapaða aðstæður til að vinna og rannsaka mál ofan í kjölinn. Fjöldi reyndra og góðra blaða- og fréttamanna hefur fengið reisupassann á meðan haldið er í ung, óreynd, ótalandi og óskrifandi ungmenni sem varla geta flutt fréttir af öðru en hneykslismálum um Britney Spears, kynsjúkdóm kærasta Parísar Hilton eða afturenda Kirstie Alley. Þetta er nokkuð sem ég skil ekki. Má ég heldur biðja um alvörufréttamenn sem flytja alvörufréttir.

Við höfum tvær sjónvarpsstöðvar, hvora með sinni fréttastofunni og um hálftíma löngum fréttatengdum þætti á eftir fréttum. Sú var tíðin að maður varð var við samkeppni milli Kastljóss og Íslands í dag og jafnvel milli fréttastofanna en sú samkeppni virðist vera - ef ekki dauð þá í dauðateygjunum. Heyrst hefur jafnvel að til standi að leggja fréttastofu Stöðvar 2 niður. Hvort það er af sparnaðarástæðum eða vegna þess að einhverjir stjórarnir haldi að "fólk hafi ekki áhuga" á slíkum óþarfa sem fréttum veit ég ekki.

Ótalin er litla sjónvarpsfréttastofan hjá Mogganum - Mbl-Sjónvarp - þar sem Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, Magnús Bergmann og fleiri vinna vinnuna sína og það frábærlega vel. Ef fréttastofa Stöðvar 2 leggur upp laupana, sem vonandi verður aldrei, mætti stórefla Mbl-Sjónvarp í staðinn.

En tökum dæmi frá í kvöld með innskotum úr Fréttablaðinu og Mogganum. Hvað var efst á baugi og hvernig eru málin meðhöndluð? Höfum í huga að fjölmiðlar eru mjög skoðanamyndandi og margir fá alla sína heimsmynd úr þeim.

Fréttir RÚV

 

Fréttablaðið

Milljarðar í súginn vegna aðgerðarleysis - Fréttablaðið 31. mars 2009

Kastljós - Ríkisskattstjóri um skattaskjól, lagaumhverfi o.fl. Viðtal við Aðalstein Hákonarson hjá RSK frá í desember er hér og desember-Tíundin hér.

 

Morgunblaðið amson greiddi fé til Tortóla - Moggi 31. mars 2009

Mbl-Sjónvarp - Steingrímur J. um Samson

 

Rúsínan í pylsuendanum er Ísland í dag. Á meðan aðrir fjölmiðlar eru með vitræna umræðu og upplýsingar sem skipta máli var Ísland í dag með... Já, notalega Nærmynd af Björgólfi Thor, þeim hinum sama og fjallað er með einum eða öðrum hætti um í hinum fjölmiðlunum - en á gjörólíkum nótum. Áður hafa verið sýndar notalegar Nærmyndir af Róberti Wessman og Ólafi Ólafssyni. Er það þetta sem fólk vill sjá, auðjöfrana sem komu okkur á hausinn gljáfægða, pússaða og mærða af vinum og vandamönnum? Eða er það út af þessu sem enginn horfir á Ísland í dag lengur og þátturinn fær ekkert áhorf? Maður spyr sig...

 


Þetta líst mér vel á!

Bankakreppan hefur haft ýmsar hliðar. Meðal annars þá, að um tíma vissi enginn hvað yrði um sín bankaviðskipti, innistæður eða skuldir og ekki er búið að gera allt upp enn . Átti maður að fara eða vera? Flýja - og þá hvert? Það var alls staðar sama sukkið, sama óráðsían, vafasamir eigendur og bankastjórar.

Ég er búin að sjá ljósið. Það voru ekki allir að sukka og svalla og þenja sig út óverðskuldað. Ef dæmið hjá MP með SPRON gengur upp ætla ég að flykkjast þangað og vona að fleiri geri slíkt hið sama, þótt ekki sé nema til að sýna velþóknun á ráðdeild stjórnendanna og stuðning í verki. Ekki sakar að stuðla að því í leiðinni að fleiri starfsmenn SPRON haldi vinnunni. Ég vona bara að þeir taki við mér þótt ég eigi ekki ónýta krónu með gati. Ég leik bara í auglýsingu fyrir þá í staðinn... eða eitthvað.

Mér líkar vel við svona menn með slíkan málflutning!


Silfur dagsins

Það var engin þreyta í Silfrinu í dag. Og ekki verður næsta Silfur síðra ef marka má gestina sem Egill nefndi í lok þáttar. Það verða John Perkins, sá sem skrifaði bókina Confessions of an economic hitman og bandaríkski hagfræðingurinn Michael Hudson. En hér er Silfur dagsins.

Vettvangur dagsins 1 - Dögg Páls, Svanborg Sigmars, Gunnar Smári og Bjarni Harðar

 

Vettvangur dagsins 2 -  Haraldur L. (umrædd grein hér), Andri Geir og Gunnar Axel

 

Jónas Kristjánsson

 

Bandaríski lögmaðurinn Tom Spahn

 


Geir kyssir á bágtið

Það var einhver geðklofabragur á samkundu Sjálfstæðisflokksins í morgun þegar Geir Haarde sté í pontu og bar blak af Vilhjálmi, vini sínum. Geir mótmælti orðum foringjans frá í gær - án þess að nefna hann á nafn - og sama hjörðin og hyllti foringjann ógurlega undir og eftir ræðu hans í gær stóð nú upp og tók undir ávítur Geirs á þennan sama foringja. Ég botna ekkert í þessu fólki.


Mín að telja afrek öll...

Oft hefur besti vinur Hannesar Hólmsteins lagst lágt - ótrúlega lágt - en aldrei sem nú. Ef til vill var þetta síðasta ræða hans á landsfundi flokksins sem ól hann við barm sér og kom honum til æðstu metorða. Hann hélt þeim sama flokki, og þjóðinni allri, í járnkrumlu sinni í tvo áratugi og neitaði að sleppa. Allt sem íslenska þjóðin á nú við að stríða er hans verk að einu eða öðru leyti. Samherjar jafnt sem andstæðingar óttuðust hann því hann skirrtist ekki við að misbeita valdi sínu ef hann taldi sér misboðið eða ef honum var mótmælt. Þeir óttuðust hárbeitta, háðslega eiturtungu hans sem hann beitti óspart til að upphefja sjálfan sig með því að niðurlægja aðra. Það var - og er - hans stíll og stjórnunaraðferð.

Ég hélt... nei, ég vonaði að þessi mögulega kveðjuræða hans yrði á vitrænum, skynsömum nótum - því maðurinn er langt frá því að vera illa gefinn - og ákvað því að hlusta í beinni í dag. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum og satt best að segja afskaplega döpur. Hann hafði þarna kjörið tækifæri til að kveðja með reisn en greip það ekki. Þess í stað kaus hann að skjóta eitruðum lygaörvum í allar áttir, ýja að og gefa í skyn eins og hans er reyndar siður, uppnefna fólk og hæðast að því. Hann gerði ekkert upp, horfði ekki til framtíðar, veitti enga von - ekki einu sinni flokksmönnum sínum. Þetta var sorglegt og jafnvel enn sorglegra að sjá hjörðina klappa og hlæja að skítnum og soranum sem vall upp úr þessum fyrrverandi leiðtoga hennar.

Miðað við nánast ævilangt álit mitt á manninum hefði mér átt að finnast þetta bara ágætt. Alveg í stíl við allt hitt. Hann sýndi enn og aftur sitt rétta andlit. En mér fannst þetta dapurleg endalok á löngum ferli manns, sem hefði getað orðið stórmenni en endaði sem lítill, bitur, reiður karl með Messíasarkomplex sem getur ekki með nokkru móti sætt sig við og horfst í augu við veruleikann, hvað þá sjálfan sig. Og þjóðin er rústir einar eftir valdatíð hans.

Þegar hann lauk máli sínu kom mér vísa í hug, sem er í gamalli bók sem ég á í fórum mínum, og fannst hún eiga glettilega vel við tilefnið. Hún mun hafa verið ort í orðastað hrokafulls valdsmanns fyrir um 100 árum.

Mín að telja afrek öll
ekki' er nokkur vegur!
Ég hef ístru, ég hef böll
ég er guðdómlegur.

Fleiri gullkorn af landsfundi

Það er svosem ekkert leyndarmál að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið auðlindum sjávar undanfarna áratugi í samvinnu við Framsóknarflokkinn - með skelfilegum afleiðingum. Þessir flokkar stóðu að einkavæðingu auðlindarinnar, heimiluðu síðan brask með hana og veðsetningar á henni. Kvótinn og óveiddur fiskur mun nú vera veðsettur mörg ár fram í tímann, skuldirnar taldar í hundruðum milljarða og sagt er að "tæknilega" sé kvótinn nú meira og minna í eigu erlendra lánadrottna bankanna. Þetta mun heita "skynsamleg nýting auðlinda" hjá sjálfstæðis- og framsóknarmönnum.

Eins og sjá má af myndbrotinu hér að neðan þykir eðlilegt og sjálfsagt innan Sjálfstæðisflokksins að hann hafi yfirráð yfir auðlindum sjávar. Enda er sagt að a.m.k. annar formannsframbjóðandinn sé tryggur fulltrúi og þjónn útgerðarmanna og kvótaeigenda. Þjóðareign - hvað?


Hógværð og lítillæti sjálfstæðismanna

Nú skilur maður betur hvernig Sjálfstæðisflokknum tókst að steypa þjóðinni í glötun. Var það kannski bæði stefnan OG fólkið eftir allt saman...? Hér er nú aldeilis ekki lítillæti eða hógværð fyrir að fara og eitthvað fleira virðist vanta upp á. Ætlar fólk að kjósa þetta?

Ræðubrot landsfundarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins

 
 Skrif landsfundarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins Guð er Sjálfstæðismaður - Ásdís Sigurðardóttir, sjálfstæðiskona

Minntist einhver á trúarbrögð og ofstæki?


Heimska eða vísvitandi misbeiting valds?

Við erum í djúpum skít, Íslendingar... það er óumdeilt. Fjárglæframenn hafa steypt þjóðinni í skuldafen með dyggri aðstoð sinnulausra eftirlitsaðila og rænulausra stjórnmálamanna. Frá upphafi hruns hefur verið hamrað á meintum björgunarhring okkar - auðlindunum - sem við eigum... eða hvað?

Nei, málið er ekki svo einfalt. Auðlindir hafsins voru gefnar frá okkur fyrir löngu. Þegar síðan leyft var að braska með þær voru þær endanlega glataðar og nú er svo komið að fiskurinn í sjónum er veðsettur mörg ár fram í tímann og skuldir sjávarútvegsins eru taldar hundruðir milljarða. Ekki beysinn björgunarhringur það.

Óspillt náttúra er auðlind sem vart verður metin til fjár. Engu að síður hefur verið einblínt á að eyðileggja hana með því að virkja fallvötnin og jarðgufuna til að selja rafmagn til stóriðju í hrávinnslu - og söluverðið er svo lágt að það má ekki segja frá því. Virkjanirnar eru reistar fyrir erlent lánsfé en arður álrisanna fluttur úr landi. Engin skynsemi, engin forsjálni. Væntanlega borgar almenningur brúsann með hækkuðu raforkuverði. Náttúrunni og andrúmsloftinu blæðir, hreina loftið okkar er mengað af útblæstri og eiturgufum og fólk er blekkt með loforðum um svo og svo mörg (hundruð eða þúsund) störf og blómlega byggð sem sannað hefur verið að gengur ekki eftir. Glæsilegur björgunarhringur, eða hitt þó heldur.

Svo er það vatnið sem nóg hefur verið af á Íslandi. Vatn er ein af verðmætustu auðlindum jarðar. Hin nýja olía, segja sumir. Mánudaginn 16. mars sl. hófst alþjóðleg vatnsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Istanbúl - sú fimmta í röðinni. Menn sjá ástæðu til að halda ráðstefnur um vatnsbúskap heimsins vegna þess að vatnið er forsenda lífs. Án vatns þrífst ekkert neins staðar, svo mikilvægt er að fara varlega og vel með það. Miðað við þá einföldu staðreynd eru Íslendingar auðjöfrar á heimsmælikvarða. Hér er frétt Borgþórs Arngrímssonar fréttamanns frá 16. mars og hlustið nú vel.

Tókuð þið eftir þessu: "Vatn verður sífellt verðmætara og eftirsóttara og ýmsir óttast að stór, alþjóðleg fyrirtæki reyni að læsa klónum í þessa auðlind."

Færa má rök fyrir því að stór, alþjóðleg fyrirtæki hafi klófest hluta af náttúruauðlindum Íslendinga með nýtingu á jarðvarma og fallvötnum fyrir álver. En hvað með vatnið? Hvernig ætlum við að stýra því? Ef ég skil rétt hefur gildistöku svokallaðra Vatnalaga - eða breytinga á þeim - verið frestað um óákveðinn tíma, og ég er ekki vel inni í efni þeirra. En eitt veit ég: Lítil sveitarfélög hafa hvorki burði né getu til að taka einhliða ákvarðanir um ráðstöfun verðmætra auðlinda, bera kostnað af viðamiklum rannsóknum og hafa eftirlit með framkvæmdum.

Ég skrifaði pistil í maí í fyrra sem fjallaði m.a. um hin umdeildu Skipulagslög frá 1997 og tilraunir til breytinga í átt að landsskipulagi. Þar kemur glögglega fram hve fáránlegt er að dvergvaxin sveitarfélög megi taka gríðarlega stórar og afdrifaríkar ákvarðanir sem hafa áhrif langt út fyrir þeirra svæði, jafnvel á allt landið og þjóðina í heild. Í pistlinum vitna ég í skipulagsstjóra ríkisins sem sagði í blaðagrein sem birt er í pistlinum: "Land er takmörkuð auðlind og nýting og notkun þess verður að hafa hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi."

Nú hefur DV vakið athygli á mjög vafasömum gjörningi í Snæfellsbæ, þar sem bæjarstjórnin, með nýjan oddvita Sjálfstæðisflokksins í NV kjördæmi í fararbroddi, hefur selt kanadískum fjárglæframanni vatnsréttindi til 95 ára - það er næstum heil öld! Fyrir 9 árum sögðust þeir ætla að vernda vatnsbólin, en nú er þessi maður kominn með klærnar í þau. Fyrsta fréttin sem ég fann um málið er hérSkessuhorn 17. ágúst 2007. Þar er lofað störfum og rífandi gangi, eigi síðar en í mars 2008. Nú líður og bíður og í janúar sl. er þessi frétt í Mogganum. Enn er rætt við sama Íslendinginn, Sverri Pálmarsson, sem virðist vera frontur Kandamannsins Ottós Spork. Hér er mjög upplýsandi umfjöllun um bæði Ottó þennan og fleira er varðar vafasama umsýslu með þessa miklu auðlind, vatnið, og hættuna sem þjóðum stafar af gráðugum bröskurum.

Í viðbót við dæmin sem ég tók í áðurnefndum pistli er hér komið enn eitt dæmið um agnarsmátt sveitarfélag sem ráðskast með auðlind þjóðar og selur afnotin í tæpa öld. Ef við notum þá þumalputtareglu að 25 ár séu milli kynslóða eru þetta hvorki meira né minna en 4 kynslóðir afkomenda okkar.
Íbúafjöldi Snæfellsbæjar 1. des. 2008:
  1.717.
Atkvæði á bak við meirihluta Sjálfstæðisflokks:  596.
Fjórir sjálfstæðismenn með 596 atkvæði á bak við sig taka í hæsta máta vafasama ákvörðun um að selja erlendum fjárglæframanni hluta af vatnsauðlind Íslendinga í heila öld. Þetta getur ekki með nokkru móti talist eðlilegt - hvað þá skynsamlegt.

Hér er fyrri grein DV sem birtist í fyrradag og hér fyrir neðan sú seinni sem birtist í blaðinu í dag. Eins og sjá má bíta sveitarstjórnarmenn Snæfellsbæjar höfuðið af skömminni með því að neita að gefa upp ákvæði samningsins. Slík leynd er alltaf vafasöm og býður heim grunsemdum um spillingu og mútur, sem er slæmt ef menn eru saklausir af slíku. Hvernig getur Ásbjörn Óttarsson ætlast til að vera kosinn á þing sem oddviti Sjálfstæðismanna í kjördæminu með svona mál í farteskinu?

Leynisamningur um vatnsréttindi - DV 26. mars 2009


Hvað í andskotanum á þetta að þýða?!

Það fauk hressilega í mig þegar ég sá þessa frétt í gær. Undir venjulegum kringumstæðum myndi ég ekki verja þetta en... Hvað líður réttlætinu á Íslandi? Er þetta réttlætið í hnotskurn?

Hann var tekinn og dæmdur.

Vísir 24. mars 2009

 Þau (og fleiri) ganga laus og njóta lífsins á okkar kostnað
- hafa ekki einu sinni verið yfirheyrð!

 

Hvað í andskotanum á þetta að þýða?


Vítin eru til að varast þau

Eða svo segir máltækið. Það er aðeins mánuður til kosninga og margir hafa ekki ákveðið hvað kjósa skal. Stundum er auðveldara að átta sig á hvað maður vill ekki en hvað maður vill. Þá kemur útilokunaraðferðin að góðum notum.

Svona auglýsti Sjálfstæðisflokkurinn fyrir síðustu kosningar - Nýir tímar á traustum grunni:

Við vitum öll hvaða nýju tíma við fengum og á hve feysknum grunni var byggt. En "það var ekki stefnan sem brást, heldur fólkið" - segja sjálfstæðismenn. Þannig virðist sama stefnan eiga að vera rekin áfram - og meira að segja að mestu leyti framfylgt af sama fólkinu: Bjarna Ben., Kristjáni Þór, Illuga Gunnars, Guðlaugi Þór, Þorgerði Katrínu, Sigurði Kára, Birgi Ármanns og félögum þeirra. Vill fólk meira af því sama?

Sjálfur aðalfrjálshyggjupostulinn var í viðtali í Íslandi í dag í september 2007. Viðtalið hefur flogið víða um netheima undanfarnar vikur. Minna hefur borið á afneitun erfðaprinsins frá 3. mars sl. Ég klippti þá félaga saman og skaut inn nokkrum fréttaskotum héðan og þaðan - svona til að setja hlutina aðeins í samhengi.


Samviskuspurning: Viljið þið stefnuna OG fólkið aftur til valda?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband