Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Er hún Gaga alveg gaga?

Hún flutti í götuna mína fyrir nokkrum mánuðum - í haust, minnir mig. Kannski aðeins fyrr. Ég geng mjög oft fram hjá húsinu og gluggarnir hjá henni drógu mig til sín eins og segull. Ég gat varið löngum stundum bara að skoða það sem var í gluggunum. Svo færði ég mig upp á skaftið og kíkti inn. Þar kenndi heldur betur ýmissa grasa. Mér finnst alltaf gaman að skoða fallega hluti án þess að finna hjá mér þörf fyrir að eignast þá. Og hjá henni eru svo sannarlega flottir og frumlegir hlutir, algjör veisla fyrir augað.

Hún heitir Guðrún Gerður og notar listamannsnafnið Gaga Skorrdal. Hún er listræn, bjartsýn, skemmtileg og hefur alveg sérlega góða nærveru. Það er óskaplega gaman að líta inn til hennar, skoða og spjalla. Einu sinni gekk ég út frá Gögu með nýja peysu í poka - peysu sem hún hafði hannað, þessa hér...

Gögupeysan mín

Síðast þegar ég leit inn til hennar sagðist hún hafa keypt vefnaðarvöruverslunina Seymu sem var einu sinni á Laugavegi en flutti svo til Hafnarfjarðar. Hún hafði heyrt að það ætti að loka Seymu, fór til að kaupa sér efni á elleftu stundu og endaði með því að kaupa búðina! Á þessum síðustu og verstu lítur þessi kona bjartsýn til framtíðarinnar og gefur bara í. Nei, hún er aldeilis ekki gaga hún Gaga.

Á morgun ætlar Gaga að kynna starfsemi sína og búðina að Vesturgötu 4 - þar sem áður var Blómálfurinn og þar áður Verslun Björns Kristjánssonar, VBK, sem allir Reykvíkingar sem komnir eru "til vits og ára" muna eftir. Ég hvet alla sem leið eiga um miðbæinn á morgun, 1. maí, til að líta inn til Gögu Skorrdal og skoða búðina hennar... eða eiginlega eru þetta 4 búðir í einni. Viðfest neðst í færslunni er viðtal sem Hanna G. Sigurðar tók við Gögu og útvarpað var í þættinum hennar, Víðu og breiðu, miðvikudaginn 29. apríl sl.

Gaga Skorrdal - DV 30.4.09 - Smellið þar til læsileg stærð fæst


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Er Ísland gjaldþrota?

Hver er staða þjóðarbúsins? Er Ísland gjaldþrota? Við gengum til kosninga um helgina án þess að vita svör við þessum spurningum, merkilegt nokk. Upplýsingar sem fram hafa komið eru afar misvísandi, svo ekki sé meira sagt, og hagspekingar virðast ganga út frá mismunandi forsendum í útreikningum sínum. Stjórnmálamenn forðast umræðuna.

Þann 16. febrúar sl. var Borgarafundur í Háskólabíói undir yfirskriftinni Staðan-Stefnan-Framtíðin. Þar var einn frummælenda Haraldur Líndal Haraldsson, hagfræðingur. Haraldur var tvisvar í Silfri Egils í vetur, sjá hér og hér. Í erindi sínu á Borgarafundinum birti hann og rökstuddi mjög vel ískyggilegar tölur um stöðu þjóðarbúsins. Glærur úr erindi Haraldar hafa verið aðgengilegar hér.

Sama kvöld var viðtal við Tryggva Þór Herbertsson í Kastljósi, sjá hér. Hann nefndi tölur sem voru svo miklu lægri en tölur Haraldar að salurinn í Háskólabíói bókstaflega hristist af hlátri þegar það var upplýst - að mig minnir af fundarstjóra. Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, var í pallborði og sagði aðspurður eitthvað á þá leið að rétt tala væri líklega mitt á milli - færi eftir hvaða forsendum menn gengju út frá. Sem er auðvitað grundvallaratriði.

Í gær var haldinn fundur í Félagi viðskipta- og hagfræðinga undir yfirskriftinni Hver er staða þjóðarbúsins? Er Ísland gjaldþrota? Þar fluttu þeir erindi, Haraldur Líndal og Tryggvi Þór. Fleiri voru í pallborði og lesa má um fundinn á bloggsíðu Marinós G. Njálssonar. Fundurinn fékk eina og hálfa mínútu í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi en ekki var minnst á hann á RÚV...

Hann fékk svolítið pláss í Mogganum í dag en heilsíðu (myndir innifaldar) í Fréttablaðinu...

Mikill vaxtakostnaður - Moggi 29.4.09

Segir skuldir bankanna þjóðinni ofviða - Fréttablaðið 29.4.09

Að lokum fékk fundurinn 9 mínútur og 17 sekúndur í Speglinum í gærkvöldi, sjá viðhengi neðst í færslunni. Svo mörg voru þau orð og svo mikill áhugi á að miðla almenningi sannleikanum um stöðu þjóðarbúsins og því, hvort Ísland sé gjaldþrota.

Ég ætla því að gera svolitla tilraun sem ég veit ekki til að hafi verið gerð áður á neinu bloggi. Haraldur Líndal Haraldsson hefur góðfúslega fallist á að svara spurningum áhugasamra hér í athugasemdum við þessa færslu í kvöld milli kl. 20 og 22. Þau sem vilja bera fram spurningar eru beðin að kynna sér það efni sem tiltækt er - m.a. eru hér glærur Haraldar frá fundinum í gær. Ég bendi líka á greinar Ragnars Önundarsonar hér,  Andrésar Magnússonar hér (einkum Naust), bloggsíðu Tryggva Þórs hér og hvaðeina sem fólki dettur í hug að benda á og tengist þessu umræðuefni. Ef einhver treystir sér til að grafa upp upplýsingar á vefsíðu Seðlabankans er hún hér.

Það verður gaman að vita hvernig til tekst. Haraldur er ekki bloggvanur, athugasemdakerfið stundum viðsjált - einkum fyrir þá sem ekki eru á Moggablogginu - og ég gæti þurft að koma svörum hans til skila í athugasemdirnar, en við sjáum til hvernig gengur. Ég bið þá sem vilja taka þátt í þessari tilraun að reyna að hafa spurningar stuttar og hnitmiðaðar. Spyrja og svara eins og verið sé að útskýra málin fyrir 10 ára barni (mér, t.d.). Við erum ekki öll talnaglögg og glúrin í hagfræði.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fagmenn og fúskarar

Þessi auglýsing er með því ógeðfelldasta sem ég hef séð og sést þó margt ósmekklegt á vettvangi auglýsinganna. Og hvað er svo verið að auglýsa? Jú... faglærða iðnaðarmenn. Smiði, pípara, rafvirkja og aðra fagmenn í iðngreinum. Ef enginn væri textinn væri ekki mögulegt að giska á það. Ekki séns. Mér varð bumbult þegar ég sá þetta og vonandi birtist þessi "auglýsing" aldrei nokkurs staðar aftur.

Auglýsing Samtaka iðnaðarins - Fréttablaðið 29.4.09

Viðbót:  Var að sjá þetta á Eyjunni.

Samtök iðnaðarins draga auglýsingu til baka - Eyjan 29.4.09


Fyrirmyndarframbjóðandi með allt á hreinu

Ég þurfti að spóla hvað eftir annað til baka þegar ég horfði á þetta viðtal. Bíðum við... hvað var hann að enda við að segja? Og nú segir hann þetta! Hann var í mótsögn við sjálfan sig hvað eftir annað og tvískinnungurinn hrópaði á mig nánast í hverri setningu. Burtséð frá málefninu var þetta ótrúlegt viðtal. Ég gat ekki stillt mig um að hlæja þótt málefnið væri í raun grafalvarlegt.

Ástþór Magnússon hefur farið mikinn og kennt öllum öðrum en sjálfum sér um afspyrnulélegt fylgi Lýðræðishreyfingarinnar, einkum RÚV og Agli Helgasyni. Eflaust hefur verið ágætisfólk í framboði fyrir hreyfingu Ástþórs en ég óttast að Geiri á Goldfinger hafi ekki laðað að hreyfingunni mörg atkvæði. Ég er ósköp sátt við að þessi þriðji maður á lista Lýðræðishreyfingarinnar í Suðvesturkjördæmi mun ekki sitja á Alþingi Íslendinga alveg á næstunni.

Viðtal ársins í Íslandi í dag 28. apríl 2009

 

Á að banna nektardansstaði á Íslandi? - fólkið á götunni og ráðherrann

 


Sigurvegarar

Nú keppast allir flokkar við að lýsa yfir sigri eftir kosningarnar og nálgast þá niðurstöðu frá ýmsum hliðum, sumum furðulegum. Að mínu mati eru þetta stærstu sigurvegararnir. Það er ekkert lítið afrek að ná þessum árangri á svona stuttum tíma - án fjármagns. Vonandi bera þau gæfu til að hafa áhrif fyrir hönd okkar allra.


ESB eða ekki ESB?

Ísland í ESB?Auðvitað var ekkert bara verið að kjósa um Evrópusambandið. Halda stjórnmálamenn það virkilega? Sér er nú hver þröngsýnin, segi ég nú bara. Við upplifðum efnahagshrun í haust, flest hefur gengið á afturfótunum, atvinnuleysi í sögulegu hámarki, fyrirtæki og heimili að hrúgast á hausinn, spilling grasserar hjá flokkum og frambjóðendum og fólk lætur aðildarviðræður við ESB flækjast fyrir stjórnarmyndun. Þvílíkt rugl.

Ég sæi launþega og atvinnurekendur í anda gera slíkt hið sama. Setjast bara alls ekki að samningaborði af því þeir væru búnir að gefa sér fyrirfram að samningar næðust ekki eða yrðu óhagstæðir öðrum hvorum aðilanum. Eða bara hvaða aðilar sem er þar sem sættir eru samningsatriði.

Auðvitað eigum við að fara í viðræður með ákveðin samningsmarkmið og bera síðan útkomuna undir þjóðina. Mér finnst það einhvern veginn segja sig sjálft. Verið getur að kostirnir vegi margfalt þyngra en gallarnar og mig grunar að svo sé fyrir allan almenning til lengri tíma litið. Hugsum um framtíð barnanna okkar og barnabarnanna. Hér er samantekt um mögulega kosti, galla og óvissuþætti sem stemmir ekki við það sem kemur fram í þættinum hér að neðan. Kosning um hvort við eigum að fara í viðræður er fullkomlega tilgangslaus þar sem ekki væri vitað um hvað væri í raun verið að kjósa. Ekki möguleiki að réttlæta kostnað við slíka atkvæðagreiðslu.

Verið er að endurskoða sjávarútvegsstefnu ESB. Hún hefur ekki virkað sem skyldi og ekki er hægt að afskrifa fyrirfram að ný stefna muni henta okkur. Aðrar auðlindir, þ.e. orkuauðlindir okkar, yrðu áfram í okkar eigu. Það er þegar ljóst. Eins og fram kemur í myndbandinu hér að neðan eiga t.d. Bretar sína olíu sjálfir og Finnar eiga skógana sína. Og ekki hef ég orðið vör við að Portúgalar séu eitthvað minni Portúgalar eða Ítalir minni Ítalir þótt löndin séu í ESB. Af hverju ættum við að verða minni Íslendingar? Svona umræða er bara bull. Reyndar væri okkur líkt að verða bara ennþá meiri Íslendingar og kaupa enn meira af íslenskri framleiðslu. Kæmi mér ekki á óvart. Og ef verðtryggingin myndi hverfa með aðild - væri þá ekki öllum sama hvort myntin heitir króna eða evra? Vill fólk halda áfram að láta lánin og verðlagið sveiflast upp og niður með gengi krónunnar? Ekki ég.

Kjarni málsins er að við vitum ekki hvað fælist í aðild. Umræða um ESB var bönnuð á Íslandi í stjórnartíð Hins Mikla og Ástsæla Leiðtoga. Síðan fór hún í skotgrafir og virðist föst þar. Umræðan ber keim af trúarofstæki og er afskaplega ómarkviss. Hlustum á Pál, Vigdísi og Hjálmar í þessum Krossgötuþætti og íhugum vandlega hvort ekki sé kominn tími á vitrænar, upplýstar rökræður í stað slagorðakenndra fullyrðinga og sleggjudóma. Takk fyrir.

Þennan fína þátt um ESB eða ekki ESB gerði sólargeisli Stöðvar 2, Lóa Pind Aldísardóttir. Hann var sýndur í Íslandi í dag 8. apríl sl. Horfið, hlustið og hugsið málið.


Silfur og kosningaúrslitin

Silfur dagsins litaðist eðlilega svolítið af kosningunum. Í síðustu færslu setti ég inn myndbrot af tveimur atburðum sem vöktu sérstaka athygli mína, öðrum ástleitnum en hinum verulega ógeðfelldum og ósanngjörnum. En hér er Silfrið og neðst set ég inn hádegisþátt fréttastofu RÚV um úrslit kosninganna, en hann var að hluta til inni í Silfrinu.

Vettvangur dagsins - Þóra Kristín, Gunnar Smári, Eyþór Arnalds og Andri Geir

 

Stjórnmálin -  Össur, Ögmundur, Þorgerður Katrín, Siv og Þráinn
(takið eftir hve heitt Siv biðlar til S og VG - Framsókn alltaf til í allt)

 

Ólafur Arnarson um nýja bók sína um hrunið - ég þarf að ná mér í hana

 

Jón Gunnar Jónsson

 

Kosningasjónvarp - niðurstöður

 


Tilhugalíf og siðferði í Silfrinu

Silfrið er í vinnslu en mig langar að benda á tvö atriði sem þar komu fram áður en lengra er haldið.

Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson voru ægilega sætir í blússandi tilhugalífi og kærleikurinn milli þeirra var nánast áþreifanlegur. Enda gat Össur ekki á sér setið undir lok umræðunnar, greip þéttingsfast í hönd Ögmundar og horfði á hann kærleiksríku augnaráði. Ég er viss um að það er auðvelt að láta sér þykja vænt um Ögmund en minnist þess ekki að hafa séð svona umbúðalausa tjáningu í Silfrinu áður.

Tilhugalífstjáning í beinni - Silfur Egils 26. apríl 2009

Hér er örstutt úrklippa af kærleikshandtaki Össurar

Ég hrökk eiginlega í kút við þessi ummæli Þorgerðar Katrínar og mig langar að biðja einhvern sem þekkir hana (ef hún les þetta ekki sjálf) að benda henni á Krossgötuþáttinn í færslunni hér á undan og umræðurnar þar. Að þessi kona í þessum flokki með afar vel þekkt, alltumlykjandi siðleysi skuli voga sér að ýja að siðferði manns sem var kosinn á þing fyrir nokkrum klukkutímum. Það segir mér að hún hafi ekkert lært og muni ekkert læra. Bendi á skilmerkilega frásögn Þráins um tilkomu heiðurslaunanna hér.


Hugleiðingar heiðursfólks

Páll Skúlason og Vigdís Finnbogadóttir voru gestirVigdís Finnbogadóttir Hjálmars Sveinssonar í Páll SkúlasonKrossgötum í dag. Þennan þátt þurfa allir að hlusta á - og það vandlega. Þau koma víða við - ræða t.d. um skort á almennilegri rökræðu á Íslandi og rökræðuhefð. Þau koma inn á hræðslu við að ástunda og tjá gagnrýna hugsun og hið hættulega vald pólitíkurinnar. Þau tala líka um þátt fjölmiðla í umræðunni og ótalmargt fleira.

"Þurfum við á hugtakinu þjóð að halda?" spyr Hjálmar. Hlustið á svarið. Hlustið á Pál, Vigdísi og Hjálmar. Frábær þáttur.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Burt með þá!

Burt með þá - Illugi Jökulsson - Moggi 25. apríl 2009

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband