Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Rifjum aðeins upp...

Þóra Arnórsdóttir um Enron : The Smartest Guys in the Room
Silfur Egils 1. mars 2009

 

Enron : The Smartest Guys in the Room

1. hluti

 

2. hluti

 

3. hluti

 


Landráð af vítaverðu gáleysi?

Magma Energy Corp.Í dag rennur út frestur sá er Magma Energy veitti ríkinu til að íhuga sölu á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. Mér er fyrirmunað að skilja af hverju nokkrir Reykvíkingar, Hafnfirðingar og Reyknesingar geta ekki sest niður og samið um málið sín á milli í stað þess að ganga að fráleitu kauptilboði Magma. Hafa samráð við Samkeppnisstofnun og leysa málið. Þetta eru jú allt Íslendingar fyrst og fremst og þeim ber skylda til að halda auðlindinni í þjóðareigu. Ég hef skrifað mikið um þetta mál í sumar og síminn hefur ekki stoppað hjá mér og tölvupósti rignt yfir mig. Fólk er að vakna til vitundar um hvað er að gerast þarna - og það eru skelfilegir hlutir.

Skoðanir fólks á málinu má til dæmis sjá í fréttum Eyjunnar sem hefur verið duglegt að fjalla um auðlindasöluna undanfarið. Ég bendi t.d. á þessa frétt, þessa, þessa og þessa. Og ég hvet alla til að lesa athugasemdirnar við allar þessar fréttir. Í þeim kemur ótalmargt fróðlegt fram. Flokksráð VG ályktaði um að HS Orka ætti að vera í samfélagslegri eigu, en Samfylkingin virðist ekkert skipta sér af málinu eða veita ráðherrum sínum nokkurt aðhald. Einstaklingar innan flokksins hafa tjáð sig um það, t.d. Ólína og Dofri. Að öðru leyti virðist Sigrún Elsa, fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn OR, fá lítinn stuðning við sinn málflutning, a.m.k. opinberlega. 

Tveir af yngri kynslóð Samfylkingar skrifuðu hvor sína greinina um Samfylkinginmálið fyrir helgi. Magnús Orri telur að þrátt fyrir samning á ystu nöf ef ekki beinlínis ólöglegan milli Reykjanesbæjar og HS Orku, eigi ríkið ekki að stíga inn í kaup Magma og hindra söluna. Skúli Helgason skrifar bloggpistil í sama dúr og athyglisvert er að lesa athugasemdirnar við hann. Þar endurspeglast skoðun fólks á þessum gjörningi prýðilega. Skúli ber því m.a. við að ríkið eigi ekki þessa 12 milljarða sem um ræðir. Bíðum við... Hér kemur fram að það kosti 13-14 milljarða að ljúka við tónlistarhúsið. En það eru ekki til 12 milljarðar til að halda afnotum af einni gjöfulustu orkuauðlind Íslendinga í meirihlutaeigu almennings. Er ekki eitthvað öfugsnúið við þennan forgang? Má ég þá heldur biðja um að tónlistarhúsinu verði frestað og haldið verði í auðlindir okkar, þótt ekki sé nema vegna komandi kynslóða. Við höfum ekkert leyfi til að einkavæða eða selja þær frá afkomendum okkar. Samfylkingin vill selja.

Svo er mérGeysir Green Energy hugleikin sú spurning hver á Geysir Green Energy, hinn eiganda HS Orku sem mun líklega sameinast Magma ef af kaupunum verður. Hér fór ég yfir eignarhald GGE og fæ ekki betur séð en þetta sé skel utan um gjaldþrota menn og fyrirtæki, væntanlega í umsjá skilanefnda bankanna. Við vitum að margt er undarlegt við skilanefndirnar og þær virðast frekar hafa hagsmuni vina, vandamanna, klíkubræðra og samflokksmanna að leiðarljósi en hagsmuni þjóðarinnar. Hvernig í ósköpunum stendur á því að skilanefndirnar eru ekki búnar að ganga að veðum eigenda Geysis Green Energy og yfirtaka reksturinn? Hvernig í ósköpunum stendur á því að gjaldþrota auðmönnum er leyft að ráðskast með auðlindirnar okkar og selja þær til að redda sjálfum sér fyrir horn og halda í sveitasetrin, snekkjurnar og ljúfa lífið? Getur einhver svarað því? Vill einhver rannsóknaraðili svo gjöra svo vel að fara ofan í saumana á fjármálum vissra stjórnmálamanna, bæjarstjóra, forstjóra og fleira fólks sem að auðlindasölunni standa? Athuga bankareikninga þeirra hérlendis og erlendis, möguleg skúffufyrirtæki í þeirra eigu og fleira í þeim dúr? Takk fyrir.

Forstjóri Magma Energy, Ross Beaty, var í Kastljósviðtali í síðustu viku. Hann skrúfaði frá kanadíska sjarmanum, elskaði land og þjóð og vildi endilega hafa hagsmuni okkar að leiðarljósi þegar hann, og skúffufyrirtækið sem hann notar til að komast bakdyramegin inn, fengi kúlulánið hjá OR til að kaupa HS Orku. Ég var búin að lesa mér svo mikið til um manninn og málefnið að mér varð beinlínis óglatt við að hlusta á hjalið í honum. Og ég hefði viljað fá miklu gagnrýnni spurningar. Ef ég hef einhvern tíma séð úlf í sauðargæru var það þegar ég horfði og hlustaði á þetta viðtal.

Kastljós 26. ágúst 2009

 

Ég skrifaði Bréf til Beaty og flutti það á Morgunvakt Rásar 2 á föstudaginn. Vonandi hefur einhver þýtt það fyrir hann en ef það hefur farið fram hjá hinum íslensku aðstoðarmönnum hans þá bæti ég úr því hér. Ross Beaty segist nefnilega vilja kaupa auðlindirnar í sátt við íslensku þjóðina. Ekki vera í stríði við neinn. Ef aðstoðarmenn hans eru starfi sínu vaxnir þýða þeir allar athugasemdir við fréttirnar sem ég benti á hér að ofan, sem og annað sem skrifað hefur verið um málið. Hljóðskrá er viðfest neðst að venju.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Ef ykkur er sama ætla ég ekki að tala til ykkar í dag. Ég ætla að ávarpa Ross Beaty, forstjóra Magma Energy, sem vill ólmur krækja í orkuauðlindirnar okkar. Hann var í viðtali í Kastljósinu í fyrrakvöld og ég fékk ofbirtu í augun frá geislabaugnum sem hann hafði fest yfir höfði sér fyrir viðtalið. En hér er bréf til Beaty.

Sæll vertu, Ross,

Þú varst flottur í Kastljósinu, maður. Tungulipur, ísmeygilegur og útsmoginn. Örugglega hafa einhverjir látið glepjast af sjarmerandi yfirborðinu og fagurgalanum. En ekki náðirðu að hrífa mig. Ég sá bara úlf í sauðargæru. Einhver virðist hafa sagt þér frá andstöðunni gegn áætlunum þínum í íslensku samfélagi. Ummæli þín um að þú hafir heillast af Íslandi frá fyrstu sýn voru afar ósannfærandi. Haft er eftir þér í viðtölum erlendis að þú njótir þess að skapa auð fyrir þig og hluthafana þína. Að þú farir fram úr á morgnana til að græða. Vertu bara ærlegur og segðu eins og er: að þú hafir heillast af gróðamöguleikum auðlindanna á Íslandi. Það væri bæði heiðarlegra og sannara.

Yfirlýsingar þínar um jarðhitaorku í ýmsum viðtölum eru alveg ótrúlegar. Sem jarðfræðingur áttu til dæmis að vita, að jarðvarmi er ekki endalaus og eilífur eins og þú segir í einu viðtalinu og nú hef ég eftir þér í lauslegri þýðingu: "...Ég held að jarðvarmi sé eitt besta svarið við orkuskortinum. Hann er hreinasta form orku, ódýrasta, hann er stöðugur og forðinn er ókeypis... Þetta er bara ofboðslega frábær bissness. Jarðvarminn er eilífur og tiltækur víða í heiminum." Ross þó! Maður með jarðfræðimenntun á að vita að endurnýjanleikinn er háður jarðfræðilegri óvissu og endingin fer eftir því hve mikið og hratt auðlindin er nýtt. Og af því þú lifir fyrir að gera sjálfan þig og vini þína ríka, áttu líka að vita að enginn verður ríkur á að nýta orkuna eins og á að gera - skynsamlega.

Einn af okkar fremstu jarðvísindamönnum, Stefán Arnórsson, sagði í útvarpsviðtali fyrir nokkru að tvö sjónarmið væru ríkjandi um nýtingu jarðvarma. Annað er að nýta hann með hámarkságóða í huga yfir ákveðið tímabil og þá er gjarnan miðað við afskriftatíma mannvirkja sem nýta orkuna. Hitt er að nýta hann með sem næst sjálfbærum hætti þótt full sjálfbærni náist aldrei. Það er hins vegar hægt að hafa það að leiðarljósi, að auðlindirnar nýtist sem lengst - ekki aðeins núlifandi kynslóðum heldur komandi kynslóðum einnig. Þegar upp er staðið er það siðferðileg spurning hvort sjónarmiðið er haft að leiðarljósi. Þetta sagði Stefán. Kjarni málsins er siðferði, Ross, og við vitum að græðgina skortir allt siðferði.

Þú ert ekki kominn til Íslands til að vera eins og þú sagðir í Kastljósi. Þú vinnur ekki þannig. Þú ert hingað kominn til að gera viðskiptasamning sem tryggir þér afnot af verðmætri auðlind til 130 ára. Þú ætlar að búa til söluvarning - eftirsóknarvert viðskiptamódel - selja svo hæstbjóðanda og græða feitt. Kannski selurðu Kínverjunum sem keyptu námurnar þínar, hver veit? Mér þætti líka fróðlegt að vita hvort það er tilviljun að þú hefur verið með námur í ýmsum löndum þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur verið að væflast.

Nei, ég hreifst ekki af hjali þínu í Kastljósi og bið þig lengst allra orða að hverfa af landi brott tómhentur sem allra fyrst. Hér mun aldrei ríkja friður um auðlindakaup þín. Við Íslendingar höfum fengið meira en nóg af spákaupmönnum og gróðapungum og græðgi þeirra.

Vertu blessaður.

**********************
Nokkrir pistlar um málið:
Hugleiðingar um einkavæðingu - áríðandi skilaboð
Eru auðlindirnar okkar ekki sexí?
VARÚÐ - Nýtt REI-mál í uppsiglingu
Svikamyllan á Suðurnesjum

Hin fallna þjóð og afsal auðlinda
Fjöregginu fórnað
Auðlindir á tombólu
"Þetta snýst allt um auðlindir"
Salan á auðlindum Íslendinga er hafin
Hafa ráðamenn ekkert lært?
Stórslys í uppsiglingu á Suðurnesjum

Agnar Kristján:
Einka(vina?)væðing HS
Skuggaverk á Suðurnesjum I
Skuggaverk á Suðurnesjum II
Spurningar varðandi tilboð Magma og ársreikning HS

Alda Sigmundsdóttir:
While we're looking the other way...
More on that ludicrous Magma HS Orka deal
Magma Energy and the second coming

Ótal pistlar hjá Hannesi Friðrikssyni

Ég stóðst ekki mátið að hafa orðið landráð í fyrirsögn þessa pistils, þótt það sé mér ekki tamt í munni, vegna þessarar bloggfærslu Egils Helga og athugasemdanna þar. Mér finnst enda kominn tími til að skilgreina þetta orð og hvað það raunverulega merkir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Með kveðju frá Bakkabræðrum

Hvað ætli slíkt hið sama eigi við um marga útrásardólga? Hvað kallar maður svona framkomu?

Kæru skattgreiðendur...


Lýðræðisleg rökræða og gagnrýnin hugsun

Ég sé að orð mín í síðustu færslu um að þjóðin sé kannski ekki nógu þroskuð og skynsöm til að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu hafa farið fyrir brjóstið á einhverjum. En setjið þau í samhengi við það sem ég segi aðeins seinna um hvernig ástatt er fyrir þjóðarsálinni. Þessi hugleiðing mín á  ekkert skylt við "þið eruð ekki þjóðin" né heldur vil ég gera lítið úr Íslandlýðræðinu. Langt í frá. Ég bíð spennt eftir efndum um stjórnlagaþing, nýja stjórnarskrá og virkara lýðræði.

Ég veit ekki hvort ég get útskýrt almennilega hvað ég á við og þar spilar ýmislegt inn í. Ég heyrði sagt eða datt sjálfri í hug um daginn að "þar sem tveir Íslendingar koma saman, þar er ágreiningur". Gott og vel - við erum fólk með miklar og sterkar skoðanir. En hvaðan koma þessar skoðanir? Hafa þær mótast og styrkst í framhaldi af upplýsingum og rökræðum? Hafa þær myndast í framhaldi af öflugum fréttaflutningi, góðum upplýsingum og útskýringum á flóknum fyrirbærum svo allir skilji? Höfum við þær skoðanir af því einhver einstaklingur eða hópur sem við tilheyrum hefur þær? Höfum við mótað skoðanir okkar út frá eigin hagsmunum, flokkshagsmunum eða samfélagslegum hagsmunum? Höfum við þessar skoðanir af því einhver leiðtogi sem við dýrkum sagði okkur að hafa þær? Höfum við þær "bara af því bara"? Fleiri möguleika mætti eflaust tíunda.

Umræðan í þjóðfélaginu hefur ekki verið beysin undanfarin ár og áratugi. Það vita allir sem vilja vita. Hér hefur ríkt þöggun, bæði meðal almennings og fjölmiðla. Ekki mátti fjalla um viss mál af því valdhöfum hugnaðist það ekki. Ekki mátti segja sannleikann um viss mál af því eigendum fjölmiðla þóknaðist það ekki. Fólki var (og er?) refsað harkalega ef það sagði eitthvað sem kom stjórnvöldum (yfirmönnum, flokki o.s.frv.) illa eða gekk gegn stefnu þeirra. Hér var hræðsluþjóðfélag og enn eimir töluvert eftir af því. Netmiðlar og blogg hafa þó opnað umræðuna mjög og upplýsingastreymið er orðið meira og hraðara en nokkru sinni. Vonandi til frambúðar.

Það eru einkum skoðanakannanir og niðurstöður þeirra undanfarið sem hafa valdið mér heilabrotum. Og reyndar líka að hluta úrslit kosninganna í vor. Ég hélt fyrir kosningar að nokkuð ljóst væri hverjir og hvað olli hruninu. Engu að síður fengu "hrunflokkarnir" ótrúlega mikið fylgi þótt ekki hafi þeir náð meirihluta. Fjölmargir kjósendur virðast halda með "sínum flokki" eins og fótboltaliði - gjörsamlega burtséð frá því hvaða stefnu Kosningaúrslit 2009flokkurinn hefur, hverjir eru þar í forystu, hvaða fortíð bæði menn og málefni hafa og hvaða framtíð þeir sjá fyrir sér. Ég hef þekkt fólk árum og áratugum saman sem kýs sinn flokk jafnvel þótt það sé hundóánægt bæði með fólkið og stefnuna. En að kjósa hann ekki væru einhvers konar drottinsvik. Þetta skelfir mig.

Það er þetta allt sem ég á við þegar ég tala um að þjóðin sé ekki nógu þroskuð og skynsöm til að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um mál eins og t.d. Icesave. Það er svo stórt og flókið og afleiðingar þess - hvort sem um er að ræða að hafna samningnum eða samþykkja hann - eru svo gríðarlegar að ég leyfi mér að efast um að við gerum okkur almennt grein fyrir því. Erum við nógu upplýst um lagatæknileg atriði, alþjóðasamninga, EES-vinkilinn og ýmsar aðrar hliðar samningsins til að taka afstöðu? Hverjir hafa verið mest áberandi í umræðunni og hvaða hagsmuni hafa þeir aðilar haft að leiðarljósi? Eiginhagsmuni, flokkshagsmuni eða afdrif íslensks samfélags? Hvernig stendur á því að þeir sem upphaflega skrifuðu upp á ábyrgðina hafna henni nú? Flokkspólitískar skotgrafir og lýðskrum eða einlæg sannfæring? Hverjir hafa verið fremstir í flokki og stýrt umræðunni um Icesave, haft hæst og því kannski náð til flestra? Hvernig er fréttamat fjölmiðla og hverjir hafa náð eyrum þeirra - og þar með þjóðarinnar? Maður spyr sig...

Ísland er ungt lýðveldi og fróðir menn segja að hér hafi lýðræðisleg rökræða og gagnrýnin hugsun aldrei fengið að þroskast sem skyldi. Flokkspólitískir- og eiginhagsmunir "elítunnar" og peningaaflanna hafi ráðið mestu um þróun umræðunnar og enn eru þeir hagsmunir firnasterkir. En fólk er farið að sjá þetta og skynja. Umræðan í vetur hefur borið þess merki. Æ fleiri hafa fengið tækifæri til að taka þátt í umræðu um aðskiljanlegustu mál, einkum í gegnum bloggið og netmiðlana. En stundum er þó ansi stutt í upphrópanir, ofstæki, flokkspólitíska sleggjudóma og rökþrot. Sumir halda því fram að þeir sem ekki eru hagfræðimenntaðir eigi ekki að tjá sig um eða hafa skoðanir á efnahagsmálum eins og hér sést. Þetta er dæmi um hættulega skoðanakúgun þar sem þess er krafist að "faglegur bakgrunnur" verði að vera til staðar til að geta tjáð sig um mál af skynsemi og gert lítið úr skoðunum þeirra sem ekki hafa þann bakgrunn. Ég er ekki hagfræðingur, stjórnmálafræðingur eða guðfræðingur og hef ekki faglegan bakgrunn í þeim fræðum. Má ég þá ekki tjá mig um eða hafa skoðun á efnahagsmálum, stjórnmálum eða trúmálum?

Ef ég ætti að kjósa um Icesave-samninginn í nánustu framtíð væri ég í vandræðum. Þó hef ég fylgst nokkuð vel með umræðunni þótt ég hafi ekki blandað mér í hana. Ég hef ekki ennþá hugmynd Icesaveum hvað það myndi þýða fyrir framtíð okkar ef ég samþykkti hann - né heldur ef ég hafnaði honum. Á okkur öllum hafa dunið misvísandi upplýsingar og afar ólíkar skoðanir. Og við vitum ekki ennþá hvort allar upplýsingar hafa komið fram - hvort einhverju er enn haldið leyndu. Ennþá, tæpu ári eftir hrunið, erum við sár og reið. Við höfum ekki ennþá séð glitta í réttlæti og nær daglega fáum við fréttir af þjófnaði, misnotkun, spillingu, siðleysi og óréttlæti. Ekki hefur verið hróflað við þeim sem bera ábyrgð á Icesave - eða hruninu yfirleitt. "Af hverju eigum við að gjalda gjörða þeirra," spyrjum við réttilega og reiðin magnast með hverjum deginum. Mér líður a.m.k. þannig og eflaust ansi mörgum.

Við erum þjóð í uppnámi. Að mörgu leyti stöndum við nú í rústum samfélags sem afar okkar og ömmur, langafar og langömmur og aðrir forfeður þræluðu sér út til að byggja upp. Flestum sárnar hvernig farið hefur verið með samfélag sem var að mörgu leyti mjög gott þótt á því hafi verið stórir gallar - en hefði getað orðið enn betra ef öðruvísi hefði verið staðið að málum. Ef annars konar "trúarbrögð" og annað fólk hefði ráðið för. Ef stakkur hefði verið sniðinn eftir vexti. En svo fór sem fór og ég horfi með hryllingi á allt of marga hugsa og framkvæma eins og ekkert hafi í skorist og sjálfsagt sé að halda áfram á sömu braut. Sjáið bara Magma og HS Orku málið.

En kannski á þetta með þroskann og skynsemina aðeins við um sjálfa mig, ekki aðra. Ef ég hef sært einhverja með þessum orðum biðst ég afsökunar. En ég mæli með hlustun á þessi viðtöl hér að neðan til frekari áréttingar meiningum mínum.

Vilhjálmur Árnason í Silfri Egils 9. nóvember 2008

 

Páll Skúlason hjá Evu Maríu á RÚV 28. desember 2008

 

Viðtal við Vilhjálm Árnason á kosningavef RÚV í byrjun apríl


Þjóðaratkvæðagreiðsla eða ekki

Íslenski fáninnÉg hef aldrei tekið þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um neitt mál frekar en aðrir Íslendingar, enda hafa þær aldrei farið fram. Eftir heiftúðugar umræður undanfarinna mánaða - ef umræður skal kalla - um tvö stórmál, ESB og Icesave, finnst mér stór spurning hvort þjóðin sé nógu þroskuð og skynsöm fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Fólk hefur verið gífuryrt og sleggjudómar og svívirðingar tröllriðið umræðunni. Líkast til hafa þeir stóryrtustu fælt fleiri frá sínum málstað en þeir hafa laðað að. Öfgar á báða bóga hafa yfirgnæft skynsemisraddir og heilbrigða, hófstillta umræðu.

Eins og fram kom í Krossgátuþætti 25. apríl sl. þar sem Páll Skúlason og Vigdís Finnbogadóttir veltu vöngum yfir ýmsu, skortir Íslendinga sárlega rökræðuhefð. Sá skortur hefur svo sannarlega endurspeglast í pontu á Alþingi þjóðarinnar þar sem hver þingmaðurinn á fætur öðrum hefur stigið fram til að gaspra og gjamma, sletta skít á báða bóga og tapað sér í tittlingaskít. Á þessu hafa þó verið heiðarlegar undantekningar, sem betur fer.

Ég fékk bréf í gær frá Hirti Hjartarsyni, baráttumanni miklum og talsmanni þess að forseti Íslands samþykki ekki Icesave-lögin. Mér er ljúft og skylt að birta bréfið hans. Ég er sammála mörgu sem í því stendur þótt ég sé ekki sannfærð um að þjóðaratkvæðagreiðsla sé tímabær eins og ástatt er fyrir þjóðarsálinni. Vonandi mun ástandið lagast áður en ESB-samningur verður kynntur og lagður í dóm þjóðarinnar. Talan sem Hjörtur nefnir er frá í gær, margir hafa bæst við síðan.

***************************************

Meirihluti þingmanna hefur samþykkt frumvarpið um ríkisábyrgð vegna Icesave-hneykslisins. Málið er þar með úr höndum Alþingis. Á vefsíðunni www.kjosa.is er safnað undirskriftum við áskorun til forseta Íslands um að synja frumvarpinu staðfestingar þannig að almenningur geti gert út um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Meginrökin eru þríþætt: Fjárskuldbindingin sem frumvarpið gerir ráð fyrir að þjóðin gangist undir er fordæmalaus, bæði stærð  skuldbindingarinnar og hvernig til hennar var stofnað. Þótt líta megi svo á að almenningur á Íslandi beri ábyrgð á „bankastarfseminni" að baki Icesave, þá verður tæplega sagt að almenningur eigi sök á henni. Sama er að segja um stórfellda vanrækslu íslenskra stjórnmálamanna og embættismanna, en allt er þetta efniviður í langvinnt ósætti. Í öðru lagi á almenningur kvölina af Icesave-hneykslinu, hvort sem ríkisábyrgðinni verður hafnað eða hún samþykkt. Í þriðja lagi virðist fullreynt að nHjörtur Hjartarson - Fréttir Stöðvar 2á sæmilegri sátt meðal þjóðarinnar um málið eftir hefðbundnum leiðum. Hver þessara röksemda, útaf fyrir sig, nægir til þess að réttlæta þjóðaratkvæðagreiðslu. Tvær fyrst nefndu snúast um sanngirni og réttlæti. Síðast talda röksemdin lýtur að sátt. Í einu orði mætti nefna þetta lýðræði. Röksemdirnar sem tilteknar eru í áskoruninni eru ekki fleiri, en hin sögufræga gjá milli þings og þjóðar er látin liggja milli hluta. Hún er vel kunn. 

Sé litið til ástandsins í samfélaginu, þyngjast enn rökin fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Hér ríkir ógnvænlegt vantraust á stjórnmálamönnum, stjórnmálaflokkum, embættismönnum og stjórnsýslustofnunum. Vantraust sem líklega er fordæmalaust í „vestrænu lýðræðisríki". Stjórnmálastéttin hefur að formi til umboð þjóðarinnar í málinu, en ekkert umfram það. Reiðin kraumar. Icesave-krísan er orðin að táknmynd hrunsins og almenningur verður að fá að gera út um hana sjálfur beint og milliliðalaust. Að öðrum kosti verður Icesave-gremjan viðvarandi næstu árin til stórkostlegs skaða fyrir íslenskt samfélag og lífsnauðsynlega endurlausn þess. Farsæl niðurstaða í Icesave-deilunni er sú sem þjóðin nær sátt um. Niðurstaða sem magnað ósætti ríkir um er röng. Við þurfum að jafna ágreininginn um Icesave í samfélaginu, og það gerum við með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þeir eru sannarlega til sem vonast eftir gruggugu vatni að fiska í.

Forsætisráðherra sagði Icesave „eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar fyrir og síðar." Hvað þarf til á Íslandi þannig að almenningur fái að gera sjálfur út um mál, milliliðalaust? Af hverju er almenningur á Íslandi aldrei spurður um neitt? Okkur stafar ekki hætta af lýðræði. Ekki af því að almenningur fái meiru ráðið um örlög sín. Það var ekki lýðræði sem keyrði samfélagið í þrot. Íslenskt samfélag er statt þar sem það er statt vegna ofríkis íslenskra stjórnmálaflokka og tortryggni stjórnmálamanna í garð lýðræðishugmynda og vantrú þeirra lýðræðislegum vinnubrögðum. Kerfið sem þeir byggja völd sín á er komið að fótum fram.

Forsetaembættið getur ekki tekið afstöðu til málsins. Embættið getur aðeins gert þjóðinni kleift að eiga síðasta orðið, samanber 26. gr. stjórnarskrárinnar. Aumt væri að gefa frá sér baráttulaust stjórnarskrárvarinn rétt sem almenningur á til þess að taka mál í sínar hendur. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Vel á fimmta þúsund manns hefur þegar skorað á forseta Íslands að vísa málinu
„í okkar hendur". Það eru um 1,5% kjósenda, en á Ítalíu og í Sviss, til dæmis, myndi það duga ríflega til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál. Áskorunin er sett fram í trausti þess að forseti Íslands fallist á röksemdirnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Við vonum samt og treystum á framtakssemi almennings - þeirra sem munu borga Icesave-reikninginn. Tíminn er naumur.

Hjörtur Hjartarson,
talsmaður
„Í okkar hendur" á vefsíðunni www.kjosa.is

**********************************

Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 28. og 29. ágúst 2009


Hetjudýrkun dauðans

Allir vita hver hann er. Ferill hans er skrautlegur og afar umdeildur. Hann hefur verið hæddur, spottaður og fyrirlitinn af stórum hluta þjóðarinnar áratugum saman. Ekki varð Laxnessmálið honum heldur til álitsauka. Margir hafa samt haft gaman af honum svipað og trúðum eða hirðfíflum í aldanna rás. Ég hafði t.d. fregnir af því fyrir löngu að það ætti við um samkennara hans í Háskóla Íslands. Sjálf skrifaði ég þennan pistil fyrir 19 mánuðum - í janúar 2008 - og sagði þar: "Ég verð að viðurkenna, þótt Hannes Hólmsteinn og hetjan hans - Grapevine 13/2009það sé mér þvert um geð, að ég hef lúmskt gaman af þeim báðum [honum og Gunnari í Krossinum] en verð engu að síður óskaplega pirruð þegar ég hlusta á þá. En á eftir finnst mér ég vera alveg einstaklega heilbrigð, víðsýn, fordómalaus og skynsöm. Að því leytinu láta þeir mér líða vel."

Hann hefur fengið að hafa skoðanir sínar í friði og prédika trúarbrögð frjálshyggjunnar óáreittur í háskólasamfélaginu í á þriðja áratug. Á launum hjá þjóðinni. Hann hefur alla tíð lifað góðu lífi á skattpeningum okkar hjá Háskóla Íslands og fengið ýmsa launaða bitlinga að auki á vegum FLokksins til að drýgja tekjurnar. Einnig á kostnað skattgreiðenda. Engu að síður prédikar hann einkavæðingu alls sem hönd á festir svo ætla mætti að hann vildi helst leggja ríkið niður. Samkvæmt þessu er hann með námskeið um Sjálfstæðisflokkinn í Háskólanum. Ég get ekki séð að aðrir stjórnmálaflokkar fái um sig sérstök námskeið. Eða finnur einhver t.d. Framsóknarflokkinn á listanum - eða gamla Alþýðuflokkinn sem á sér nú mikla sögu á Íslandi. En kannski er þetta ekki námskeiðalisti, hvað veit ég?

Í vor fékk hann milljón króna styrk til að rannsaka íslenska kommúnista þótt líklega séu fáir verr til þess fallnir af augljósum ástæðum. En það var flokksbróðir hans sem veitti styrkinn, svo þá var ekki að sökum að spyrja. Enda búið að koma FLokknum hans frá völdum, sparka honum sjálfum úr stjórn Seðlabankans og hann vantaði aukatekjur. Illugi heldur að niðurstaða rannsóknar hans verði sú að kommúnistar hafi verið þjóðhættulegir menn. Ég tek undir þá skoðun Illuga.

berast þær fregnir að hann muni kenna og leiðbeina í málstofu um heimskreppuna og framtíð kapítalismans á haustmisseri Háskóla Íslands. Heimskreppuna og framtíð kapítalismans. Vill einhver giska á hvernig kennslan verður? Hverjar áherslurnar verða, hverjum kennt verður um kreppuna? Getur einhver ímyndað sér hver framtíð kapítalismans er í meðförum hans? Örugglega.

Í tæpt ár, frá hruninu, hafa verið uppi háværar kröfur um að tekið verði rækilega til í kerfinu. Skipt út óhæfum banka-, embættis- og stjórnmálamönnum því nóg framboð hefur verið af þeim. En hvað með háskóla- og fræðasamfélagið? Er ekki rétt að gera kröfur um tiltekt á þeim vettvangi líka? Erum við sátt við að skattpeningunum okkar sé sóað í að menga huga unga fólksins okkar? Er ekki rétt að gera meiri kröfur til Háskóla Íslands? Þetta er niðurlæging fyrir menntakerfið. Ég bendi enn á pistla Illuga sem ég er svo innilega sammála - þennan og þennan.

Svo sá ég þetta á DV.is - Hrunið varð af því Davíð fór frá - forsíðuviðtal við hann í Reykjavík Grapevine. Hetjudýrkunin á sér engin takmörk og þetta viðtal svarar því á hvaða nótum málstofan í Háskólanum verður; hvernig söguskoðunin hljómar í meðförum hans. Ég stóðst ekki mátið - klippti viðtalið út og hvet alla til að lesa það. En ég vara fólk við - mér varð bumbult við lesturinn og neita að axla ábyrgð á mögulegri líðan annarra. Lesist á eigin ábyrgð og smellið þar til læsileg stærð fæst. Góða skemmtun.

Hannes Hólmsteinn - Grapevine 13/2009 - Forsíða

Hannes Hólmsteinn - Grapevine 13/2009 - Viðtal - 1

Hannes Hólmsteinn - Grapevine 13/2009 - Viðtal - 2


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Heilræði herramanna

Tveir eldri herramenn vöktu athygli mína og ég lagði við hlustir. Annar var í Kastljósinu í kvöld og hinum var sagt frá í Speglinum á þriðjudagskvöld. Báðir eru hoknir af reynslu og eins og segir í máltæki úr Bandamannsögu: Hafa skal heil ráð, hvaðan sem koma. Það er ástæða til að hvetja ráðamenn og aðra sem koma að íslenskri endurreisn til að hlusta vandlega á svona menn.

Í Kastljósinu var rætt við Tormod Hermansen, norskan hagfræðing, sem tók þátt í uppbyggingu bankakerfisins í Noregi fyrir um 20 árum. Bankakreppan þar í landi hafði skapast við umskipti úr ströngu eftirliti með bankakerfinu yfir í frjálsara markaðsfyrirkomulag. Frelsið vefst víðar fyrir bankamönnum en á Íslandi og í raun stórmerkilegt að þessi dæmi, sem menn höfðu fyrir augunum - reynsla Norðmanna, Finna og Svía - hafi ekki verið íslenskum banka- og ráðamönnum víti til varnaðar. Svona er nú græðgin öflug.

Ýmsir hafa verið fengnir til skrafs og ráðagerða eftir hrun. En það er vitagagnslaust að leita ráða hjá reynsluboltum ef svo er ekki hlustað eða farið að ráðum þeirra. Ómar Ragnarsson er með snögga yfirferð yfir viðtalið við Tormod Hermansen í pistli sem hann kallar "Íslenska efnahagsundrið" tætt í sundur í Kastljósi". Lesið pistil Ómars og hlustið á Hermansen.

Tormod Hermansen í Kastljósi 27. ágúst 2009

 

Horst-Eberhard RichterHinn herramaðurinn er þýskur sálfræðingur sem sagt var frá í Speglinum á þriðjudaginn, Horst-Eberhard Richter. Formáli Spegilsins hljóðar svona: "Einn af þekktustu núlifandi fræðimönnum Þjóðverja, sálfræðingurinn Horst-Eberhard Richter, heldur því fram að það sé til marks um siðferðilega hnignun vestræns samfélags, að ekki sé hægt að draga stjórnendur banka og annarra fjármálastofnana, sem hafi komið heilum samfélögum á vonarvöl, fyrir lög og dóm. Richter segir að markaðshyggja nútímans hafi snúist upp í "rándýrskapítalisma" sem einkennist af græðgi og félagslegu skeytingarleysi." Mér fannst þetta hljóma ansi kunnuglega eftir reynslu undanfarinna áratuga á Íslandi. Margt fleira er haft eftir Richter, meðal annars ummæli um konur sem heyrðust oft fyrst eftir hrun. Hlustið á Richter - hljóðskrá er viðfest hér fyrir neðan.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Stórslys í uppsiglingu á Suðurnesjum

Grein eftir Öldu Sigmundsdóttur í Fréttablaðinu í dag. Ég hvet alla til að lesa bloggpistlana hennar - og ekki síður athugasemdirnar sem eru margar hverjar afar fróðlegar og sumar sláandi eins og hún nefnir dæmi um hér. (Smellið þar til læsileg stærð fæst.)

Stórslys í uppsiglingu á Suðurnesjum - Alda Sigmundsdóttir - Fréttablaðið 27.8.09


Mig setti hljóða...

...þegar ég hlustaði á þetta viðtal í Kastljósi í gærkvöldi. Ég spurði sjálfa mig hvenær röðin kæmi að manni sjálfum. Þvílík meðferð og niðurlæging. Hver hefur hag af að koma svona fram við fólk? Á meðan er ekki snert við stærstu skuldurunum, sjálfum auðmönnunum sem bera ábyrgðina - hvað þá stjórnmálamönnunum.

Guðbjörg Þórðardóttir í Kastljósi 25. ágúst 2009

 

Mogginn 25. ágúst 2009

Á vanskilaskrá í greiðsluaðlögun - Moggi 25.8.09

Lilja Mósesdóttir í Kastljósi 25. ágúst 2009

 

Ekki voru allir með há eða óyfirstíganleg bílalán og mánaðargreiðslur voru líklega vel viðráðanlegar hjá flestum. Nú hafa eftirstöðvar lánanna hækkað langt umfram verðmæti bílanna og afborganir óyfirstíganlegar - líka á lágu lánunum. Hvað er nefndin sem á að leysa málið að gera?

Fréttir Stöðvar 2 - 26. ágúst 2009

 


Hafa ráðamenn ekkert lært?

Frá Samstöðufundi um orkuauðlindir í Grindavík 25.8.09Ég fjallaði um auðlindasöluna í pistlinum á Morgunvaktinni síðasta föstudag. Hlutirnir gerast nú hratt og þrýst er á um enn meiri hraða. Við eigum að afsala okkur orkuauðlindinni á Reykjanesi án umhugsunar. Þetta eru fáránleg vinnubrögð. Ross Beaty, forstjóri Magma Energy og talsmaður skúffufyrirtækisins Magma í Svíþjóð líka, segist vilja arðræna íslensku þjóðina í fullri sátt við hana. Bjartsýnn maður, Beaty.

Á Vísi er sagt að Samfylkingarfólk sjái mikla annmarka á að ríkið kaupi hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku - þann hinn sama og Beaty vill kaupa - og AGS gæti haft eitthvað við það að athuga. Þetta ítrekar síðan Eyjan í skelfilegri frétt. Hjartað í mér tók kipp - en þetta passar samt alveg við það sem okkur hefur verið sagt um AGS. Skoðið t.d. þetta, horfið á þetta og meðtakið þetta. Óhugnanlegt. Þetta má ekki gerast.

Ég fór á samstöðufundinn í Grindavík í gærkvöldi sem ég sagði frá hér. Hann var fjölmennur og afar fróðlegur. Erindi Guðbrands Einarssonar, bæjarfulltrúa Frá Samstöðufundi um orkuauðlindir í Grindavík 25.8.09 - Guðbrandur Einarssonminnihlutans í Reykjanesbæ, var sérlega athyglisvert og glærusýning hans er hér. Hengi hana líka neðst í færsluna. Fram kom í máli Guðbrands að ótrúlega margt er gruggugt við samninga Reykjanesbæjar, kaup, sölu, eignarhald, lánamál og margt fleira. Eftir að hlusta á Guðbrand spurði ég sjálfa mig forviða hvernig þetta hafi getað gerst! Þetta er svo sannarlega ein, stór svikamylla. Lesið um skuggaverkin hjá Agnari Kristjáni.

Á fundinum settu margir spurningamerki við fjárhagslegt hæfi Geysis Green Energy til þátttöku í milljarðaviðskiptum með tilheyrandi fjárhagslegum skuldbindingum. Fyrirtækið er mjög skuldsett og sumir helstu eigenda þess eru í meðferð skilanefnda gömlu bankanna. Forsvarsmenn fundarins fá áheyrn fjármálaráðherra í dag og það verður fróðlegt að heyra hvað hann segir.

Fundurinn  samþykkti einróma eftirfarandi yfirlýsingu: " Samstöðufundur haldinn í Grindavík þann 25. ágúst 2009 skorar á ríkisstjórn Íslands og sveitarfélög að koma í veg fyrir að fram gangi kaup Magma Energy á hlutum Ræðumenn á Samstöðufundi - Guðbrandur, Jóna Kristín og Þorleifurí HS orku og tryggja þannig áframhaldandi opinbert eignarhald á þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins. Framsal auðlindarinnar í jafn langan tíma og gert er ráð fyrir í tilboði Magma ber að líta á sem varanlegt auk þess sem því fylgir augljós áhætta á að auðlindin verði uppurin að framsalstímanum liðum. Við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu er brýnt að lausafjárvandi samfélagsins sé ekki leystur með bráðræðislegum gjörningum þar sem stórum hagsmunum er fórnað. Fundurinn vill því heita á ríkisstjórn Íslands að standa vörð um sameiginlegar auðlindir landsmanna með langtíma hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi þar sem við ráðstöfun og nýtingu sé horft til þess að hámarka samfélagslegan og þjóðhagslegan ávinning af auðlindinni í sátt við náttúruna."

Ef það er rétt sem Vísir og Eyjan segja, að AGS þrýsti á um söluna og banni ríkinu (les. almenningi) að eiga auðlindir sínar og njóta arðsins af þeim verðum við að losa okkur við AGS. Svo einfalt er það. Eignaupptaka heilu þjóðanna er sérgrein sjóðsins og Íslendingar virðast vera næstir. Það sem mér sárnar einna mest er að nokkrir Íslendingar taka þátt í plottinu með sjóðnum. Væntanlega sjá þeir gróðavon fyrir sjálfa sig og þeim virðist vera skítsama um okkur hin og afkomendur okkar. Maður spyr sig hvað þeir fá mikið í aðra hönd fyrir auðlindasöluna. Gleymum ekki því sem kom fram í myndinni The Big Sellout (Einkavæðingin og afleiðingar hennar). En hér er Morgunvaktarpistillinn frá 21. ágúst.

Morgunvaktin á Rás 2

Ágætu hlustendur...

Nú er vindurinn farinn að gnauða úti fyrir, haustið er í augsýn og farið að skyggja enn á ný. Við þurfum að kveikja ljósin fyrr og hækka hitann á ofnunum. Rafmagn og hiti eru meðal grunnþarfa samfélagsins og við værum illa stödd án orkunnar og heita vatnsins.

Við erum heppnir, Íslendingar. Við eigum auðlindir sem veita okkur orku og heitt vatn til húshitunar og annarra grunnþarfa. Þótt ekki sé hægt að segja að við höfum alltaf farið vel með orkuauðlindir okkar, höfum við þó hingað til getað kennt okkur sjálfum um. Þær hafa verið í okkar eigu.

Fyrir tveimur árum tók bæjarstjóri Reykjanesbæjar fyrsta skrefið í að selja þessa sameign þjóðarinnar og grunnstoð samfélagsins einkaaðilum. Það var í samræmi við frjálshyggjustefnu ráðandi afla í bæjarstjórn og landsmálum - allt átti að einkavæða. Helst einkaVINAvæða eins og bankana. Þriðjungur í Hitaveitu Suðurnesja var afhentur einkaaðilum. Álver í Helguvík var á dagskrá og menn sáu mikla gróðavon í orkunni - og gera enn.

Haustið 2007 var fróðlegt viðtal um 'íslenska efnahagsundrið' við Hannes Hólmstein Gissurarson, frjálshyggjupostula Íslands og einn arkitekta gróðahyggjunnar. Honum var þar tíðrætt um dautt fjármagn - fé án hirðis. Verðmæti sem voru lífguð við með því að afhenda þau einkaaðilum og leyfa þeim að veðsetja þau. Við vitum öll hvernig það endaði. Bankarnir hrundu og auðlindir sjávar eru veðsettar upp í rjáfur. Enda hafa kvótakóngar og bankamenn  það bara bærilegt, hafa svifið um loftin blá í þyrlum og einkaþotum og hlaðið vel undir sig og sína.

En frjálshyggju- og einkavæðingarsinnar eru aldeilis ekki hættir. Nú stendur til að feta í fótspor bæjarstjórans í Reykjanesbæ og selja enn stærri hluta orkuauðlinda frá þjóðinni. Útlendingar eru komnir á bragðið - þeir finna eflaust peningalyktina. Fyrsta skrefið var tekið 2007 og með dyggri aðstoð íslenskra ráðgjafafyrirtækja er Orkuveita Reykjavíkur um það bil að stíga næsta skref. Ef það skref verður stigið munu einkaaðilar, þar á meðal kanadíska skúffufyrirtækið Magma í Svíþjóð, eignast nærri helmingshlut í allri orkuvinnslu á Reykjanesi. Hlutnum fylgja afnot af orkuauðlindinni í allt að 130 ár. Í 130 ár, um það bil fimm kynslóðir Íslendinga, munu erlendir og innlendir auðmenn geta blóðmjólkað auðlindina - ef hún endist svo lengi.

Iðnaðarráðherra Samfylkingar er hlynntur þessari aðför að auðlind þjóðarinnar og ber fyrir sig tæplega ársgömlum lögum um að auðlindin sé í þjóðareign. Hvað stoðar það þegar yfirráð yfir henni og afnotaréttur af henni er í einkaeign og arðurinn fer úr landi? Endar jafnvel á Tortólum heimsins.

Ráðherra ber líka fyrir sig að gott sé að fá erlent fjármagn inn í hagkerfið á þessum erfiðu tímum. En hve mikið kemur inn, spyrjum við þá? Heilir 6 milljarðar! Það er rúmur helmingur af bónuskröfum starfsmanna Straums og 12% af skuld Magnúsar kvótakóngs sem talað var um að yrði mögulega afskrifuð. Þvílík innspýting í efnahagslíf þjóðarinnar! Getur ekki einhver með heilbrigða skynsemi komið vitinu fyrir Katrínu Júlíusdóttur og sagt henni söguna af Sigríði í Brattholti?

Hafa íslenskir ráðamenn ekkert lært?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband