Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Kaupthinking - Kaupsinking

Ég fékk skemmtilegan tölvupóst í gær með tilbrigði af Kaupþingsmyndbandinu sem ég birti fyrir nokkrum dögum og vakti gríðarlega mikla athygli. Í tilbrigðinu er verið að leika sér með orð og framburð þeirra - og merkingu. Vel klippt og skemmtileg hugmynd. Læt frumgerðirnar fylgja með til samanburðar.

Tilbrigði við Kaupthinking > Kaupsinking

 

Frumgerð Kaupthinking

 

Frumgerð Thinking - Sinking

 


Salan á auðlindum Íslendinga er hafin

Magma EnergyHún hófst þegar Árni Sigfússon og félagar seldu GGE hlut í HS Orku árið 2007. Vatnið á Snæfellsnesi var líka selt og einn sölumannanna kjörinn á þing í vor. Og nú á að bæta um betur. Klára dæmið á Reykjanesi. Ennþá virðist enginn vita með vissu hverjir eru á bak við Magma Energy sem vill kaupa allar orkuauðlindir okkar á Reykjanesi. Margar sögur eru í gangi um það, flestar svipaðar. Forstjóri Magma, Ross Beaty, fundar með fjármálaráðherra í dag til að þrýsta á söluna. Hann vill fá afnotaréttinn í 130 ár ásamt Geysi Green Energy sem enginn virðist heldur vera með á hreinu hverjir eiga þótt eignarhaldið þar sé ögn ljósara en á Magma. Þeir vilja líka fá kúlulán hjá OR. Ekkert út og restin eftir minni? Þá geta þeir borgað sér og sínum arð í mörg herrans ár áður en þeir þurfa að borga hlutinn sinn. Svo þegar rányrkjunni er lokið, engin orka eftir, þá er kúlulánið verðlaust og þjóðin situr uppi með tapið. Arðurinn fór á Tortólurnar. Við þekkjum ferlið, vitum hvernig þetta virkar, er það ekki?

Ég hef haldið því fram að þetta sé allt ein svikamylla - nýtt REI-mál - og fer ekki ofan af því. Það eru peningar í orkunni, hún verður verðmætari með hverju árinu sem líður, og þegar græðgin er annars vegar verður engu eirt og engum hlíft. Við ættum að vita það að fenginni skelfilegri reynslu. Af hverju haldið þið að öll þessi "Glacier" og "Energy" fyrirtæki hafi verið stofnuð í gróðærinu? Vatnið okkar og orkan. Dollaramerki í augum, allt á að selja, mikill gróði. En gróðann á að einkavæða og fáir að njóta góðs af. Alls ekki þjóðin.

Hvort sem Ross Beaty er frontur útrásardólga eða ekki þá er hann talsmaður og stofnandi Magma Energy. Hann er "gullgrafari" í þeirri merkingu orðsins að hann sækist eftir auði. Hann vill gera sig og sína ríka. Haft er eftir honum í grein á netinu: "I just love creating wealth for shareholders through building resource companies from the ground up. It's what gets me out of bed in the morning." Hann nýtur þess að gera hluthafana sína ríka - og sjálfan sig í leiðinni. Með því að arðræna þjóðir sem eru ríkar af auðlindum eins og Ísland. Við erum blönk og liggjum vel við höggi. Nú er lag. Svona menn virka sem segull á aðra gróðapunga.

Dettur einhverjum í hug að þessi maður og hans líkar þyrmi auðlindunum eða hafi hagsmuni þjóðarinnar og komandi kynslóða að leiðarljósi? Látið ykkur dreyma. Fyrir nú utan aðrar afleiðingar þess að grunnþjónusta er einkavædd eins og sjá má á athugasemdum við bloggpistil Öldu Sigmunds. Þar koma fram alvarlegar viðvaranir frá fólki með reynslu. Mjög alvarlegar.

Nú þegar er byrjað að ofnýta orkuna á Reykjanesi. Engu að síður kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að nú þegar er búið að ákveða að tvöfalda orkuvinnsluna. Orkan er ekki endalaus auðlind, hún klárast. Hve fljótt fer eftir því hve mikið og hratt hún er nýtt. Hér ætla menn að klára hana sem fyrst, láta skammtímahagsmuni og gróða ráða ferðinni. Og ein af perlum Íslands, Krýsuvík, er líka í húfi.

Vilji einhverjir senda Steingrími J. línu fyrir fundinn með Magmaforstjóranum er þetta netfangið: steingrimur.j.sigfusson@fjr.stjr.is. Honum þykir örugglega vænt um að fá stuðning við að hafna erindi forstjórans.

Ef einhvern tíma hefur verið þörf á samstöðu íslenskrar þjóðar þá er það nú. Við hvorki getum né megum láta óprúttna menn hafa af okkur orkuauðlindirnar - arðræna okkur. Minnumst orða Johns Perkins: "Þetta er landið ykkar. Þið búið í því. Forfeður ykkar hafa verið hér í mörg hundruð ár og hugsað um það. Þið megið ekki selja auðlindirnar til annarra og láta arðræna ykkur svona. En það verður að koma frá ykkur. Þegar upp er staðið verðið þið að krefjast þessa..." Við verðum að krefjast þess að auðlindum okkar verði ekki fórnað á altari Mammons.

Framtakssamt fólk hefur boðað til samstöðufundar í Saltfisksetrinu í Grindavík í kvöld, þriðjudaginn 25. ágúst, klukkan 18. Eins og segir í fundarboðinu sem ég festi við neðst í færslunni: "Árið 1974 var Hitaveita Suðurnesja stofnuð af sveitarfélögunum á Suðurnesjum og ríkinu. Allar götur síðan hefur fyrirtækið verið hornsteinn í samfélagi Suðurnesjamanna, séð fyrir yl og birtu, skapað störf og arð. Verði úr kaupum Magma Energy á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs væri verðmætum í almannaeigu fórnað fyrir óljósan ávinning einhverra aðila. Framsal auðlindarinnar, hvort heldur sem er í 65 eða 130 ár, er í reynd varanlegt þar sem slíkum nýtingaráformum fylgir sú augljósa áhætta að auðlindin verði upp urin áður en framsalstíminn er liðinn." Mætum öll á þennan fund og sýnum að okkur sé ekki sama. Það verða nokkur sæti laus í mínum bíl.

Þetta kemur okkur öllum við. Um er að ræða sölu á hlut Reykvíkinga í HS Orku sem og glapræði bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Hér er fréttaflutningur af málinu í sumar í þremur hlutum.

Auðlindasala á Reykjanesi - 1

 

Auðlindasala á Reykjanesi - 2

 

Auðlindasala á Reykjanesi - 3

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Óður til Hannesar Hólmsteins

Ó, þú mikli trúarleiðtogi sem leiddir þjóðina á vit hinnar helgu græðgi í gervi ofurkapítalisma og frjálshyggju. Þinn var mátturinn og þín var dýrðin. Þú gjörðir ei rangt enda handhafi hins eina Sannleika. Þú og vinir þínir eruð saklausir dæmdir og þráið það eitt að komast aftur að hljóðnemum valdsins til að geta klárað hið heilaga ætlunarverk ykkar. Ykkur sárnar að þjóðin sé hætt að hlusta, en slík eru ævinlega örlög hinna misskildu snillinga. Þið vitið sem er, að ÞIÐ gerðuð ekkert rangt, bara allir hinir. Verstir eru þeir sem nú rembast í sjálfumgleði sinni við að hreinsa kúkinn ykkar úr lauginni. Þeir fatta ekki að þetta er heilagur kúkur! Þeir kunna heldur ekki að græða á daginn og grilla á kvöldin. Mammon veri sál þeirra miskunnsamur. Fólk er fífl. Amen.

 
 

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Framtíð lýðræðis og fjölmiðlarnir

Ævar Kjartansson - Ljósm.: Örlygur HnefillÞátturinn Framtíð lýðræðis er nú fjórða sumarið í röð á Rás 1 í umsjón hins góðkunna útvarpsmanns Ævars Kjartanssonar og Ágústs Þórs Árnasonar, lektors við Háskólann á Akureyri. Í sumar hafa efnistök þáttarins eðlilega litast mjög af hruninu, aðdraganda þess og afleiðingum. Ég var að enda við að hlusta á þáttinn frá í morgun sem var jafnfrábær og hinir. Ævar og Ágúst Þór fá til sín einn viðmælanda í hverjum þætti og að öllum öðrum eðalútvarpsþáttum ólöstuðum er innihald þessara þátta með því málefnalegasta í útvarpi.

Ég þekki af eigin reynslu hvernig þeir Ævar og Ágúst Þór Ágúst Þór Árnasonvinna, því ég var hjá þeim í einum þættinum. Mér fannst allsendis fráleitt að ég ætti nokkurt erindi í þennan þátt þegar Ágúst Þór hringdi í mig í maí. Hló bara í símann og sagði furðu lostin: "ÉG?!" Ég hafði hlustað á nokkra þætti undanfarin sumur og sá engan flöt á því að ég hefði neitt til málanna að leggja. En ég lét sannfærast og þegar við settumst niður í stúdíói í Efstaleitinu með ferðagræjurnar hans Ævars hafði ég þann vara á að ég gæti örugglega ekki talað í þær 50 mínútur sem þátturinn stæði yfir. Svo hófst notalegt spjall við þá félaga um hinn nýja vettvang skoðanaskipta sem netið og bloggið er og þátt þess vettvangs í framtíð lýðræðisins. Fyrr en varir voru mínúturnar 50 liðnar, það var svo gaman að tala við þá. Og ég sem átti svo margt eftir ósagt! Þegar þættinum var útvarpað 19. júlí og ég hlustaði á hann fannst mér ég alls ekki hafa svarað nægilega vel, einkum tveimur eða þremur spurningum Ágústs Þórs. Bæti kannski úr því seinna en hengi þáttinn neðst í færsluna.

Gestur þeirra í morgun var Jón Ólafsson, heimspekiprófessor. Hann var Jón Ólafsson, heimspekingur alveg frábær. Kom víða við og talaði meðal annars um skotgrafarhernað stjórnmálamanna. Jón sagði t.d.: "Kannski er ég bara svona bjartsýnn, en ég held að það sé meiri tilfinning fyrir þessari nauðsyn að pólitík sé ekki bara hanaslagur þar sem hlakkar í andstæðingnum yfir ákvörðun sem hann veit að á eftir að koma þeim sem tekur hana illa - jafnvel þó að það sé líka mjög slæmt fyrir þjóðina að svo sé. Þarna erum við að sjá, að mínu mati, breytingu á pólitískum kúltúr." Ég er bæði sammála og ósammála þessari fullyrðingu Jóns. Ég held að tilfinningin fyrir þessari nauðsyn sé vissulega mjög mikil hjá almenningi, en minni hjá þeim sem hafa verið fastir á klafa flokkanna - og eru enn. Bæði stjórnmálamönnum og helstu áhangendum trúarkenninga þeirra. En vonandi leiðir tíminn í ljós að Jón hafi rétt fyrir sér.

Í síðasta hluta þáttarins talaði Jón um fjölmiðlana - skort á fagmennsku í fjölmiðlum, hlutverk þeirra í fortíð, nútíð og framtíð - og hvernig þeir hafa spilað með í hanaslag stjórnmálamanna. Og hræðsluna. Hvort sem maður tekur undir skoðanir Jóns eða ekki er þetta mjög umhugsunarverð umræða. Ég klippti þann kafla úr þættinum og hengi við hér neðst í færslunni. Þátturinn allur er hér. Mér finnst að allir fjölmiðlamenn eigi að hlusta sérstaklega á þennan kafla viðtalsins - helst allt viðtalið svo ekki sé minnst á alla þætti þeirra félaga um Framtíð lýðræðis. Rifjum líka upp viðtal Egils í Silfrinu við þennan sama Jón Ólafsson frá 18. janúar sl.

Jón Ólafsson í Silfri Egils 18. janúar 2009

 

Svo er hægt að hlusta á þættina Framtíð lýðræðis aftur í tímann á hlaðvarpi RÚV hér.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Draumar og veruleiki

Í umræðunni um sölu auðlindanna og einkavæðingu grunnstoða þjóðfélagsins verður mér æði oft hugsað til viðtalsins við spekinginn hér að neðan. Draumar hans rættust rækilega - eða a.m.k. stór hluti þeirra. Við glímum við veruleikann eftir frjálshyggju- og einkavæðingarsukkið, sitjum eftir með brostnar vonir og þungar áhyggjur af börnunum okkar og barnabörnunum. Við verðum að átta okkur á því að enn eimir eftir af þessum trúarbrögðum og það töluvert. Látum þá ekki hirða af okkur orkuauðlindirnar líka. Aldrei.

Ísland í dag 13. september 2007

Ég lék mér svolítið með viðtalið og birti í pistli 25. mars, mánuði fyrir kosningar, til að sýna mótsagnirnar. Við vitum öll hvað var gert, hverjir voru þar í fararbroddi og hvaða afleiðingar það hafði. Það þýðir ekkert að reyna að blekkja okkur lengur. Eða hvað? Viljum við að það fari eins fyrir orkuauðlindunum okkar og bönkunum? Ég efast ekki eitt augnablik um að illa fari ef þær verða afhentar einkaaðilum - á silfurfati, fyrir slikk og jafnvel með kúluláni.

 
 ***********************************************
Magma vill kúlulán - Fréttablaðið 22.8.09

"Þetta snýst allt um auðlindir"

Sagði John Perkins í Silfri Egils 5. apríl. Hann sagði ennfremur að málið snúist um: "...stjórn á íbúunum af því þannig nær maður valdi á auðlindunum. Þegar íbúarnir standa uppi í hárinu á manni, eins og í nokkrum ríkjum rómönsku Ameríku, getur maður ekki lengur ráðið yfir auðlindunum. Þetta snýst því um auðlindirnar. En þetta snýst líka um að stjórna fólkinu svo maður geti nálgast auðlindirnar".

Seinna í viðtalinu segir Perkins: "Þetta [andstaðan] verður að koma frá fólkinu. Þrælahaldi í Bandaríkjunum lauk ekki af því Abraham Lincoln vildi það heldur þjóðin. Við fórum ekki frá Víetnam af því Nixon væri andsnúinn stríði heldur af því þjóðin krafðist þess. Þetta kemur alltaf frá fólkinu. Við getum ekki búist við að leiðtogarnir búi yfir kjarki eða getu til að koma á breytingum nema við, fólkið, krefjumst þess. Hér á Íslandi verða Íslendingar að krefjast þess að þið eigið auðlindirnar. Þetta er landið ykkar. Þið búið í því. Forfeður ykkar hafa verið hér í mörg hundruð ár og hugsað um það. Þið megið ekki selja auðlindirnar til annarra og láta arðræna ykkur svona. En það verður að koma frá ykkur. Þegar upp er staðið verðið þið að krefjast þessa..."

Nú er verið að selja auðlindirnar á Reykjanesi - og það fyrir slikk. Ætlar íslenska þjóðin virkilega að láta það óátalið? Eins og John Perkins segir þá er það undir okkur, fólkinu í landinu komið. Við verðum að beita yfirvöld, ríkisstjórn og sveitastjórnir, slíkum þrýstingi að þau finni aðra lausn. Við verðum að endurheimta hlut Geysis Green Energy í HS Orku og hafna Magma Energy. Svo einfalt er það.

John Perkins í Silfri Egils 5. apríl 2009

 

John Perkins í Íslandi í dag 7. apríl 2009

 

John Perkins - fyrirlestur í Háskóla Íslands 6. apríl 2009
fyrri hluti

 

seinni hluti

 

John Perkins - The secret history of the American Empire

 

John Perkins - The Economic Hitman - How to destabilize countries legally

 

Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds í kvöld þegar ég last bloggið hennar Öldu Sigmundsdóttur sem skrifar Iceland Weather Report. Hún skrifaði pistil á fimmtudaginn um söluna á HS Orku sem hún kallar And while we're looking the other way, our resources are peddled off at bargain prices. Bloggið hennar er lesið víða um heim því það er á ensku. Mjög margar athugasemdir hafa verið skrifaðar og ég hvet alla til að lesa þær. Margar hverjar eru ógnvekjandi og eru skrifaðar af fólki í löndum þar sem meðal annars orkan hefur verið einkavædd.


Kapítalismi - Ástarsaga

 

 


Auðlindir á tombólu

Hér er stórfínn pistill Bjargar Evu af Smugunni - með hennar leyfi.

Auðlindir á tombólu

Fyrsta orkufyrirtækið  á Íslandi sem verður einkavætt að fullu, verður að stórum hluta til í erlendri eigu.  Magma Energy heitir kanadíska fyrirtækið sem vill eignast 32 prósenta hlut í Hitaveitu Suðurnesja á móti Geysi Green Energy.

Björg Eva ErlendsdóttirTilboð Magma Energy rennur út á morgun, en í því er gert ráð fyrir að Orkuveitan kaupi hlut Hafnarfjarðar sem Orkuveitan má ekki eiga samkvæmt úrskurði Samkeppniseftirlitsins.  Orkuveitan tapar 1,3 milljörðum króna á viðskiptunum, en HS orka sem verður þá að nærri hálfu í eigu erlendra aðila leigir nýtingarrétt orkunnar til allt að 130 ára.  Auðlindin verður að öllu leyti úr höndum almennings í talsvert á aðra öld og HS orka greiðir 30 milljónir á ári í leigu fyrir auðlindina. Það svarar húsaleigu fyrir sæmilegt skrifstofuhúsnæði á þokkalegri hæð í miðbænum.  Það er tíu sinnum lægri upphæð en réttlætanlegt þótti að greiða einum útrásarvíkingi fyrir að fallast á að taka að sér stjórnunarstarf  í banka.

Undanfarna mánuði hafa Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn skýrt mikla andstöðu sína við Icesavesamningana að hluta  með því að samningarnir gætu leitt til afsals Íslendinga á auðlindum þjóðarinnar.  Samhliða þessum málflutningi hafa bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og  fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar í borgarstjórn Reykjavíkur unnið markvisst að gerð samninga sem afsala almenningi yfirráðum yfir orkuauðlindum á Reykjanesi fyrir gjafverð.

Reykjanesbær framselur nýtingarréttinn

Í júlí seldi Reykjanesbær 34,7% hlut sinn í HS orku til fyrirtækisins Geysir Green Energy, sem þekkt varð  í átökunum um  Reykjavík Energy Invest, REI málinu,  á genginu 6,3. Geysir Green seldi  í kjölfarið 10% hlut til Geysir Green Energykanadíska fyrirtækisins Magma Energy á sama gengi og varð Magma Energy þar með fyrsti erlendi eigandinn í íslensku orkufyrirtæki.

Í viðskiptunum fólst einnig sala á auðlindum HS orku til Reykjanesbæjar til þess að tryggja að auðlindirnar yrðu í opinberri eigu.  Sömuleiðis varð gerður samningur um framsal Reykjanesbæjar á nýtingaréttinum á auðlindinni til HS orku. Samningurinn er 65 ára með möguleika á framlengingu um 65 ár til viðbótar - í raun samningur til 130 ára. Nýtingarréttinn leigir HS orka  af Reykjanesbæ fyrir 30 milljónir króna á ári. Með einkavæðingu HS orku verða 30 milljónirnar einu tekjur almennings af auðlindinni  sem fyrirtækið virkjar til orkusölu. Tekjur HS orku, sem eru að mestu tilkomnar vegna orkusölu, voru rúmir 5,4 milljarðar króna í fyrra.

Eftir viðskiptin var HS orka komin í meirihlutaeigu einkaaðila, fyrst íslenskra orkufyritækja. Geysir Green átti tæp 56,7% og Magna Energy 10,7%. Orkuveita Reykjavíkur átti 16,6%, Hafnarfjörður 15,4 og Grindavíkurbær, Sandgerðisbær, Garður og Vogar samanlagt um 1,3%.

Einakvæðing án umræðu

Í byrjun mars 2007 auglýsti fjármálaráðuneytið 15,2% hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja til sölu. Í auglýsingunni var það tekið sérstaklega fram að vegna samkeppnissjónarmiða mættu Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur ekki ekki bjóða hlutinn. Hæsta tilboðið kom frá nýstofnuðu fyrirtæki, Geysir Green Energy, sem lýsti sig tilbúið til að kaupa hlutinn á genginu 7,1. Árni SigfússonTilboðinu var tekið og þann 3. maí undirritaði þáverandi fjármálaráðherra, Árni Mathiesen, samning um söluna. Þar með stefni í að Geysir Green yrði fyrsti einkaaðilinn til þess að eiga í íslensku orkufyrirtæki.

Mikil umræða skapaðist um kaup Geysis Green á hlutnum vegna þess að þar var orkufyrirtæki að færast í hendur einkaaðila. Í byrjun júlí ákváðu Grindavíkurbær og Hafnarfjarðarbær að nýta sér forkaupsrétt sinn í hlut ríkissins og selja hann  til Orkuveitunnar.  Jafnframt  ákvað Grindavík að selja 8,51% hlut sinn til Orkuveitunnar.  Auk þess gerði Orkuveitan bindandi kauptilboð í 14,7% hlut Hafnarfjarðarbæjar og fékk bærinn frest til áramóta til að ákveða hvort hann tæki tilboðinu. Þessi viðskipti fóru fram á genginu 7. Tilgangur kaupa Orkuveitunnar var að gæta hagsmuna almennings með því að halda Hitaveitunni í almenningseigu.

Hafnarfjörður tók tilboði Orkuveitunnar fyrir lok árs, en í millitíðinni hafði Samkeppniseftirlitið lýst því yfir að kaup Orkuveitunnar í Hitaveitunni yrðu skoðuð með tilliti til samkeppnislaga. Úrskurður Samkeppniseftirlitsins féll svo í mars 2008 og varð niðurstaðan sú að Orkuveitan mætti aðeins eiga 3% í Hitaveitunni. Orkuveitan kærði úrskurðinn áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem úrskurðaði að Orkuveitan gæti átt 10%.

Orkuveitan taldi sér því meinað að kaupa hlutinn af Hafnarfjarðarbæ. Því vildi bærinn ekki hlíta og stefndi Orkuveitunni vegna málsins eftir árangurslausar samningaviðræður. Í mars síðastliðnum dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur Orkuveituna  til  að kaupa hlutinn. Þeim dómi hefur Orkuveitan áfrýjað til Hæstaréttar.

Magma býður í hlutinn

Síðastliðinn föstudag bárust fréttir af því að kanadíska orkufyrirtækið Magma Energy hefði gert Orkuveitu Reykjavíkur tilboð í hlut fyrirtækisins í Magma EnergyHS orku auk hlutar Hafnarfjarðarbæjar, samtals 31,3%, í fyrirtækinu á genginu 6,3. Það fól  í sér að Orkuveitan skyldi kaupa hlut Hafnarfjarðar á genginu 7 og áframselja hann svo á genginu 6,3. Mismunurinn á þessum viðskipum yrði 1,3 milljarður sem Orkuveita Reykjavíkur þyrfti að taka á sig. Magma Energy gaf stjórn Orkuveitunnar frest fram á fimmtudag - á morgun - til að svara tilboðinu. Stjórn Orkuveitunnar hefur boðað fund um málið eftir hádegi á morgun.   Magma Energy hefur einnig boðið í hluti Sandgerðis, Voga og Garðs auk þeirra 0,7% sem Hafnarfjörður hélt  utan við kaupsamninginn við Orkuveituna.

Engar tekjur en áfram ábyrgð

Ef svo fer sem horfir verður HS orka komin að fullu í eigu einkaaðila á næstu dögum.   Þar með er  nýtingarréttur  á íslenskri náttúruauðlind HS Orkahorfinn úr höndum almennings á Íslandi til 130 ára og kominn til einkaaðila. Sala bankanna á sínum tíma virðist ekki duga til að kvikni á viðvörunarljósum vegna þessa.  Þar var þjóðarhagur ekki að leiðarljósi.  Er ástæða til að ætla að svo sé nú?

Þrátt fyrir einkavæðingu orkufyrirtækisins er bent á að auðlindin sé  áfram í opinberri eigu. Það varðar almenning þó  engu ef nýtingarétturinn hefur verið framseldur rétt eins og gert var með fiskinn í sjónum.  Gjaldið fyrir nýtingarréttinn er ennfremur það lágt að tekjur af auðlindinni skipta almenning ekki nokkru máli. Auðlindarentan mun renna til eigenda HS orku en ekki almennings.  Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað hverju það breytir að auðlindin sé áfram eign hins opinbera. Skyldi íslenska þjóðin þá bera ábyrgð á auðlindinni, rétt eins og hún bar ábyrgð á einkavæddu bönkunum?  Ef auðlindin verður ofnýtt eða eyðilögð á hvers ábyrgð verður það?  Augljóslega má orkufyrirtæki í almannaþágu  ekki fara á hausinn.  Það kemur því í hlut íslenska ríkisins að taka á sig skellinn ef illa fer.

Skólabókardæmi um afsal þjóðareignaThe Shock Doctrine - Naomi Klein

Í bókinni The Shock Doctrine setur höfundurinn, Naomi Klein, fram kenningu um að þegar samfélög verða fyrir stóráföllum nýti risafyrirtæki og aðrar valdablokkir tækifærið til að hrinda í framkvæmd markvissri stefnu þar sem eigur almennings eru færðar einkaaðilum á silfurfati fyrir smánarverð.  Margt  bendir til þess að einmitt núna sé verið að nýta erfiða stöðu orkufyrirtækjanna í kjölfar hrunsins og skáka í skjóli athygli sem beinst hefur að Icesave-málinu einu  til að ljúka með hraði  einkavæðingarferli Hitaveitu Suðurnesja. Ferlinu sem Árni Mathiesen, fjármálaráðherra og Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ  og embættismenn þeirra,  hófu  fyrir rúmum tveimur árum.  Vandséð er  að hér sé verið að gera neitt annað en að afsala dýrustu framtíðarverðmætum  íslensks almennings til einkaaðila á tombóluprís.

Nýlegir pistlar um sama mál:
Hugleiðingar um einkavæðingu - áríðandi skilaboð
Eru auðlindirnar okkar ekki sexí?
VARÚÐ - Nýtt REI-mál í uppsiglingu
Svikamyllan á Suðurnesjum

Hin fallna þjóð og afsal auðlinda
Fjöregginu fórnað


Finnur er fundinn - og þvílíkur fengur!

Það hefur verið hljótt um Finn Ingólfsson í vetur. Undarlega hljótt miðað við undirliggjandi vitneskju um mikla þátttöku hans í ýmsum viðskiptum - svo ekki sé minnst á fortíð mannsins. Ég skrifaði pistil um daginn sem ég kallaði Fé án hirðis fann Finn og Framsókn. Í ljósi umræðunnar um HS Orku og kaup Geysis Green Energy og Magma Energy er líka vert að minna á þessa grein sem birtist í DV 10. júlí sl. Auðvitað eru framsóknarmenn líka á bak við einkavæðingu auðlindanna, nema hvað!

Hvítbókin er orðin ómissandi heimild um persónur og leikendur í hrun(a)dansinum og hún er vitaskuld með síðu um Finn. Litla Ísland er óðum að færa sig upp á skaftið með því að skrá tengsl og feril glæpamannanna sem hafa vaðið uppi á Íslandi undanfarin ár. Þeir fundu Finn auðvitað líka. Hér er köngulóarvefur Litla Íslands um Finn Ingólfsson. (Smellið til að stækka.)

Finnur Ingólfsson - www.litlaisland.net

Tvær skemmtilegar fréttir birtust um Finn Ingólfsson á netmiðlum í dag - DV og Eyjunni - og þar kemur fram hin sérkennilega "heppni" Finns í viðskiptum. Í DV-fréttinni segir m.a. þetta: "En þótt syrt hafi í álinn hjá Finni er hann ekki persónulega ábyrgur fyrir sukkinu í Langflugi og þarf því ekki að borga." Takið síðan eftir samningi Finns við vin sinn og flokksbróður Alfreð Þorsteinsson, sem var einvaldur í Orkuveitu Reykjavíkur um langt skeið. Í þessari frétt DV kemur fram að samningurinn hafi verið gerður árið 2001. Samningurinn er til ársins 2112 (103 ár eftir af honum? Prentvilla?) og hann færir Finni 200 milljónir króna á ári. Það er nú ekki eins og Finnur sé ekki aflögufær - en þjóðin fær að borga. Ég spyr sjálfa mig hvort Alfreð sé á prósentum og bendi jafnframt á, að enn er framsóknarmaður stjórnarformaður OR - sá sem var 14. maður á lista flokksins í Reykjavík þar sem flokkurinn rétt slefaði inn með einn mann. Íslenskt lýðræði í hnotskurn?

Vesalings Finnur - DV.is 20.8.09

Í Eyjufréttinni kemur fram að endurskoðandi hins gjaldþrota Langflugs var Lárus Finnbogason sem nú er formaður skilanefndar Landsbankans, stærsta kröfuhafa þrotabúsins. Ég minni í því sambandi á tvo pistla um skilanefndirnar - Hver stjórnar Íslandi? og Skúrkar og skilanefndir. Þetta er sjúkt og verður að taka fastari tökum en gert er. Skilanefndirnar virðast vera ríki í ríkinu og innanborðs fólk með æði vafasöm tengsl.

Finnur Ingólfsson og gjaldþrot Langflugs - Eyjan


Skúrkar og skilanefndir

Ég var ansi reið þegar ég skrifaði þennan pistil um skilanefndir bankanna. Bara nokkuð rækilega fjúkandi og er enn á því að reiði mín - og annarra - hafi verið fullkomlega réttlát. Í kvöld og í fyrrakvöld bættist enn í skilanefndaskjóðuna góðu.

Í kvöld var frétt á Stöð 2 um forstjóra Straums, sem mér skildist að skilanefnd bankans hafi ráðið þegar bankinn fór í þrot. Hann er með 4 milljónir á mánuði sem gerir 48 milljónir á ári. Samkvæmt fréttinni var það einmitt þessi forstjóri sem lagði til að starfsmenn fengju 11 milljarða í bónusgreiðslur fyrir að innheimta skuldir bankans? Hver borgar laun bankastjórans? Við? Hvernig er siðferðinu háttað hjá svona fólki? Maður spyr sig...

Fréttir Stöðvar 2 - 20. ágúst 2009

 

Í áðurnefndum pistli birti ég umfjöllun Kastljóss um skilanefndir bankanna frá í síðustu viku. Annar hluti kom í Kastljósi í fyrrakvöld. Ég veit ekki hvort þeir verða fleiri, en birti hér báða kafla. Hvað finnst fólki um þetta?

Kastljós um skilanefndir - 12. ágúst 2009

 

Kastljós um skilanefndir - 18. ágúst 2009

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband