Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Löglegt en siðlaust... eða kolólöglegt og siðlaust í þokkabót?

Þennan pistil skrifaði ég 10. desember 2007. Eftir umræðuna um mútur til sveitarstjórna og aðra óáran í tengslum við virkjanir í neðri hluta Þjórsár er athyglisvert að bera málin saman. Þar var um að ræða Landsvirkjun, hér er það Orkuveita Reykjavíkur.

*************************************

Hér fyrir neðan er samkomulag það, sem Orkuveita Reykjavíkur og Sveitarfélagið Ölfus gerðu með sér í apríl 2006 þar sem OR kaupir blygðunarlaust samvinnu sveitarstjórnar og loforð þess efnis að Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri Ölfussframkvæmdaleyfi verði veitt fyrir virkjunum og greitt fyrir flýtimeðferð gegn því að OR kosti ýmsar framkvæmdir í Ölfusi. Samkomulagið er gert löngu áður en lögbundið ferli hófst við umhverfismat og breytingu aðalskipulags sem krafist er við svona miklar framkvæmdir, svo ekki sé minnst á hvað þær eru umdeildar.

Samkomulagið er metið á 500 milljónir króna sem eru greiddar úr vasa Reykvíkinga - þeir eiga jú Orkuveitu Reykjavíkur. Ekki lækka orkureikningar þeirra við það. Matsupphæðin er fengin úr fundargerð Sveitarfélagsins Ölfuss sem sjá má hér undir lið g.

Í viðtali í kvöldfréttum Sjónvarpsins 1. desember sl. gagnrýndi Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, sveitarstjórnir harðlega fyrir að taka ekki nægilegt tillit til náttúruverndarsjónarmiða við skipulagsákvarðanir. Hún sagði jafnframt að náttúrunni væri of oft fórnað fyrir atvinnusjónarmið. Orðrétt sagði Þórunn einnig: "Ég fæ ekki séð hvernig fyrirtæki, hvort sem það er ríkisfyrirtæki eða annað, geti lofað þjónustubótum sem eru í raun á hendi ríkisins."

Samkomulag OR og Ölfuss er nákvæmlega svona. Þarna er opinbert fyrirtæki í eigu Reykvíkinga að lofa sveitarfélagi ljósleiðara, uppgræðslu, hesthúsum, raflýsingu á þjóðvegum og fleiru og fleiru til að horft verði fram hjá skaðsemi framkvæmdanna og öllu ferlinu flýtt eins og kostur er.

Nú þegar hefur verið bent á gríðarlega lyktarmengun sem hljótast mun af þessu virkjanaæði. Ólíft getur orðið í Hveragerði 70 daga á ári. Reykvíkingar hafa nú þegar fundið fyrir töluverðri lyktarmengun og magn brennisteinsvetnis í mælingum við Grensásveg hefur farið yfir hættumörk þótt enn sé aðeins búið að reisa tvær virkjanir af fimm eða sex fyrirhuguðum. Virkjanirnar endast ekki nema í 40 ár, nýting þeirra einungis 12-15% þannig að 85-88% fer til spillis og aðeins er fyrirhugað að framleiða rafmagn, ekki heitt vatn til húshitunar eða annarra verkefna. Þetta eru því jarðgufuvirkjanir, ekki jarðvarmavirkjanir.

En hér er samkomulagið - dæmið sjálf hvort þetta séu siðlausar mútur eða eðlileg meðferð á fjármunum Reykvíkinga. Ég ætla að taka fyrir einstakar greinar í seinni færslum og kryfja þær nánar. Allar frekari upplýsingar, studdar gögnum, væru vel þegnar.

___________________________________________

Samkomulag milli Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagsins Ölfuss um ýmis mál sem tengjast virkjun á Hellisheiði

1. grein
Orkuveita Reykjavíkur er að reisa fyrsta áfanga Hellisheiðarvirkjunar og stefnir að enn frekari uppbyggingu orkuvera á Hellisheiði og Hengilssvæðinu.  Um er að ræða framkvæmdir vegna stækkunar virkjunar og framkvæmdir vegna nýrra virkjana til raforku- og varmaframleiðslu.  Fyrirséð eru mannvirki tengd vélbúnaði og stjórnstöð, borteigar, safnæðar, skiljustöðvar, aðveituæðar, kæliturnar og önnur mannvirki aukist á
Orkuveita Reykjavíkursvæðinu.  Framkvæmdin felur í sér vinnslu jarðhita, vegi, borholur, vatnsöflun, gufuveitu, stöðvarhús, kæliturna, niðurrennslisveitu og efnistökusvæði.  Framkvæmdatími getur numið allt að 30 árum og stærð virkjana orðið samtals um 600 - 700 MW.

2. grein
Bæjarstjórn Ölfuss veitir framkvæmdaleyfi og greiðir fyrir skipulagsmálum eins hratt og unnt er vegna umræddra framkvæmda enda byggi þær á lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrir hvern áfanga og viðkomandi verkþætti.  Orkuveita Reykjavíkur greiðir Sveitarfélaginu Ölfuss skv. 11. grein fyrir aukið álag og vinnu sem framkvæmdirnar kalla á hjá sveitarfélaginu.  Þetta gerir sveitarfélaginu kleift að hraða öllum umsögnum og leyfisveitingum sem þörf er á.

3. grein
Orkuveita Reykjavíkur sér um og ber allan kostnað af hugsanlegum málaferlum og skaðabótakröfum sem rekstur og framkvæmdir tengdar Orkuveitu Reykjavíkur leiða til, sama hvaða nafni þær nefnast.  Þetta á einnig við um hugsanleg skaðabótamál á hendur Sveitarfélaginu Ölfuss sem rekja má til virkjunarframkvæmda og orkuvera á Hellisheiði.

4. grein
Aðilar eru sammála um að sérstök ráðgjafanefnd sem skipuð verði um uppgræðsluverkefni skili tillögum til beggja aðila um uppgræðslu í Sveitarfélaginu Ölfusi.  Ráðgjafanefndin verði skipuð þremur aðilum, einum frá Orkuveitu Reykjavíkur, einum frá Sveitarfélaginu Ölfusi og aðilar koma sér saman um einn fulltrúa eftir nánara samkomulagi.  Fulltrúi Sveitarfélagsins Ölfuss verður formaður nefndarinnar.  Um er að ræða uppgræðsluverkefni í sveitarfélaginu, til að mæta bæði því raski sem verður vegna virkjana og til almennra landbóta.  Miðað er við að Orkuveita Reykjavíkur verji til þessa verkefnis 12,5 milljónum á ári fram til 2012.  Þá verði leitast við að fá fleiri aðila að verkinu.  Þá mun Orkuveita Reykjavíkur leggja að auki til starf unglinga til landbóta í sveitarfélaginu.  Haft verður í huga í landgræðsluverkefnunum að vinna gegn losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

5. grein
Vegna framkvæmda Orkuveitu Reykjavíkur tekur hún að sér að byggja upp nýja fjárrétt og hesthús við Húsmúla sem notuð er til smölunar á afrétti Ölfusinga skv. fyrirliggjandi teikningum.  Orkuveita Reykjavíkur mun annast viðhald þessara mannvirkja.  Þessi aðstaða nýtist fyrir ferðamennsku á svæðinu í annan tíma.  Þá sér Orkuveita Reykjavíkur um að byggja upp og lagfæra það sem snýr að smölun og afréttarmálum sem virkjunarframkvæmdirnar hafa áhrif á.  Miða skal að 1. áfanga verksins þ.e.a.s. bygging fjárréttar, verði lokið fyrir göngur haustið 2006.

6. grein
Orkuveita Reykjavíkur gerir Sveitarfélaginu Ölfuss tilboð í lýsingu vegarins um Þrengsli, frá Suðurlandsvegi í Þorlákshöfn fyrir 14 milljónir á ári (verðtryggt með neysluvísitölu, janúar 2007).  Innifalið er lýsing á veginum með ljósum sem eru með 50 m millibili, allur fjármagnskostnaður, orka og viðhald er innifalið í tilboðinu.  Fylgt verður kröfum og reglum Vegagerðarinnar.  Verkinu verði lokið á árinu 2006 að því tilskyldu að öll leyfi liggi tímanlega fyrir.

7. grein
Orkuveita Reykjavíkur mun greiða Sveitarfélaginu Ölfuss fyrir jarðhitaréttindi í afréttinum á Hellisheiði samkvæmt sömu reglum og notaðar voru við önnur landa- og réttinda kaup af landeigendum í Ölfusi.  Þetta verður gert ef og þegar óbyggðanefnd eða eftir atvikum dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að afrétturinn sé fullkomið eignarland sveitarfélagsins, allur eða að hluta.  Náist ekki samkomulag um bætur skal úr skorið af 3 manna gerðardómi þar sem hvor aðili skipar einn mann en oddamaður verði tilnefndur af sýslumanni Árnessýslu.

8. grein
Verði niðurstaða óbyggðanefndar, eftir atvikum dómstóla, sú að afrétturinn allur eða að hluta sé þjóðlenda mun Orkuveita Reykjavíkur bæta tjón vegna
Alfreð Þorsteinsson, þáverandi stjórnarformaður ORjarðrasks, missi beitilanda, umferðarréttar, og röskunar á afréttinum eftir nánara samkomulagi.  Náist ekki samkomulag um bætur skal úr skorið af þriggja manna gerðardómi þar sem hvor aðili um sig skipi einn mann en oddamaður verði tilnefndur af sýslumanni Árnessýslu.

9. grein
Á árinu 2008 hafi Orkuveita Reykjavíkur lokið lagningu ljósleiðara um þéttbýli í Þorlákshöfn og fyrir árið 2012 verði lagningu ljósleiðara lokið um aðgengilegan hluta dreifbýlis Ölfuss skv. nánara samkomulagi er liggi fyrir áramót 2006/2007.

10. grein
Kannað verði til hlítar hvort aðkoma Orkuveitu Reykjavíkur að Sunnan 3 sé áhugaverður kostur fyrir verkefnið og þá aðila sem að verkefninu standa.  Markmið verkefnisins er að nota rafrænar lausnir til að efla búsetuskilyrði á svæðinu.

11. grein
Aðilar eru sammála um að bæjarstjórn Ölfuss þurfi að fylgjast með reglubundnum hætti með virkjunarframkvæmdum innan sveitarfélagsins m.a. til að geta svarað spurningum sem upp kunna að koma og beint verður til bæjarstjórnar.  Í þessu skyni koma aðilar sér saman um að halda reglulega fundi á framkvæmdatíma, allt að 4 fundum á ári, þar sem m.a. verður farið í skoðunarferðir um vinnusvæðið.  Aðilum er ennfremur ljóst að umsvif og álag á bæjarstjórn og bæjarstjóra Ölfuss mun fyrirsjáanlega aukast meðan framkvæmdir við virkjanir á Hengilssvæðinu standa yfir í sveitarfélaginu.  Samkomulag er um að Orkuveita Reykjavíkur greiði Sveitarfélaginu Ölfusi fyrir þann kostnað sem af þessu hlýst með fastri heildargreiðslu, kr. 7,5 milljónir á ári árin 2006 til 2012, 1. september ár hvert.  Þessar greiðslur verða notaðar til að kappkosta við að afgreiðsla umsagna og leyfa verði eins hröð og hægt er. 

Ölfusi 28. apríl 2006

Undir skrifa Ólafur Áki Ragnarsson og Hjörleifur Brynjólfsson fyrir hönd Ölfuss og Guðmundur Þóroddsson og ólæsileg rithönd fyrir hönd OR. (Ólæsilega rithöndin reyndist vera Alfreð Þorsteinsson.) _____________________________________________

Ég kref Orkuveitu Reykjavíkur svara við því, hvernig hún telur sig þess umkomna að gefa Sveitarfélaginu Ölfusi 500 milljónir - hálfan milljarð - af peningum Reykvíkinga. Orkuveita Reykjavíkur er opinbert fyrirtæki í eigu útsvarsgreiðenda í Reykjavík og þeir eiga heimtingu á að fá skýr svör frá OR.

Svo væri einnig mjög fróðlegt að vita nákvæmlega í hvað gjafaféð sem þegar hefur verið reitt af hendi hefur farið. Það þykir mér forvitnilegt og nú stendur upp á sveitarstjórn Ölfuss að gefa nákvæmar skýringar á hverri einustu krónu.

Eins og fram kom í einni af fyrri færslum mínum er meirihlutinn í Sveitarstjórn Ölfuss skipaður 4 einstaklingum sem hafa alls 495 atkvæði á bak við sig. Athugasemdir við og mótmæli gegn fyrirhugaðri Bitruvirkjun voru rétt um 700. Ef allt er talið snertir ákvörðunin um virkjanir á Hellisheiði og Hengilssvæðinu um það bil 200.000 manns beint í formi spilltrar náttúru, lyktar-, loft- og sjónmengunar og alla landsmenn í formi ofurþenslu, verðbólgu og vaxtahækkana.

Ég lýsi eftir lýðræðinu í þessum gjörningi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Úr útivistarsvæði í iðnaðarsvæði?

Petra Mazetti, upphafsmaður Hengilssíðunnar sem beint er gegn Bitruvirkjun haustið 2007 og sem er enn á fullu í baráttunni, bjó til þetta plakat hér fyrir neðan með aðstoð okkar hinna. Við létum prenta nokkur þúsund eintök og sendum í pósti inn á heimili allra íbúa í Sveitarfélaginu Ölfusi og Hveragerði. Helst hefðum við viljað senda það inn á heimili allra landsmanna en höfðum ekki efni á því. Þetta kemur okkur öllum við og allir, hvar sem þeir búa á landinu, geta sent inn athugasemd!

Mig langar að biðja lesendur að láta plakatið ganga - hvort sem er að senda slóðina að þessari færslu, benda á hana í bloggum, setja hana á Facebook eða vista plakatið, birta það hjá sér, senda það áfram í tölvupósti eða á annan hátt. Smellið til að stækka.

Úr útivistarsvæði í iðnaðarsvæði?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þrjár greinar - ekkert hefur breyst

Fréttablaðið 11. nóvember 2007

Upplýsingum haldið leyndum - Fréttablaðið 11. nóvember 2007

Fréttablaðið 19. nóvember 2007

Fékk níu daga... - Fréttablaðið 19. nóvember 2007

 Fréttablaðið 22. nóvember 2007

Hroki og hræðsluáróður - Fréttablaðið 22. nóvember 2007


Látum ekki stela frá okkur landinu!

Ég skrifaði mína fyrstu bloggfærslu hér 1. nóvember 2007 með þessari sömu fyrirsögn. Bloggfærslan leit svona út og er líklega sú stysta sem ég hef skrifað. Og ég kunni ekki þá allt sem ég kann nú og nota í blogginu.:

1.11.2007

Látum ekki stela frá okkur landinu!

Kynnið ykkur fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir á Hengilssvæðinu og takið afstöðu.
www.hengill.nu

*******************************************

Ég byrjaði að blogga gagngert til að vekja athygli á þeirri tilgangslausu eyðileggingu á undursamlegri náttúru sem fyrirhuguð var - og er - með því að reisa gufuaflsvirkjun á Ölkelduhálsi, Bitruvirkjun. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og umbylting orðið í þjóðfélaginu - en ekkert hefur breyst hvað þetta mál varðar. Við vorum fjögur sem ýttum úr vör, höfðum öflugt bakland og fyrr en varði vatt þetta allt upp á sig svo um munaði. Baráttan gegn Bitruvirkjun varð öflug og ótalmargir tóku virkan þátt í henni á ýmsan hátt. Fjöldi fólks hefur farið um þær slóðir sem yrðu lagðar í rúst og mega ekki til þess hugsa. Í tvígang slógum við athugasemdamet. Fyrst í nóvember 2007 með athugasemdum við mat á umhverfisáhrifum og síðan í maí 2008 með athugasemdum við breytingu á deiliskipulagi þar sem óspjallaðri náttúru, að hluta til á náttúruminjaskrá, átti að breyta í iðnaðarsvæði. Skoðið myndirnar hér og hér.

Skipulagsstofnun sendi frá sér álit á fyrirhuguðum framkvæmdum 19. maí 2008. Þar sagði m.a.: "Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að bygging Bitruvirkjunar sé ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Um er að ræða lítt snortið, fjölsótt útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlis/höfuðborgarsvæðisins og býr svæðið yfir stórbrotnu landslagi sem m.a. einkennist af fjölbreyttri hveravirkni. Fyrirhuguð Bitruvirkjun myndi breyta landslagsásýnd þessa lítt raskaða svæðis í ásýnd iðnaðarsvæðis."

Í framhaldi af þessu áliti Skipulagsstofnunar var fyrirhugaðri virkjun frestað um óákveðinn tíma af hálfu Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagið Ölfus sló skipulagsbreytingum á frest. Hér er stiklað á stóru um baráttuna gegn Bitruvirkjun 2007-2008:

Mér finnst allt of lítið gert af því að skoða og fjalla um fórnirnar sem færðar eru fyrir nokkra kerskála sem kallaðir eru álver. Hvað þarf til að keyra risaálver eins og fyrirhugað er að reisa í Helguvík. Og sem sumir vilja reisa á Bakka. Orkusóunina, náttúruspjöllin og fjárfestingar fyrir risastór erlend lán til þess eins að skapa örfá, rándýr störf í álverksmiðju sem flytur gróðann úr landi og borgar litla sem enga skatta. Til að knýja hið öfluga álver sem fyrirhugað er í Helguvík þarf alla fáanlega orku á suðvesturhorni landsins að neðri hluta Þjórsár viðbættum. Varla yrði eitt megavatt eftir í aðra atvinnustarfsemi. Sjáið bara þetta:

Fréttir Stöðvar 2 - 5., 6. og 9. janúar 2009

 

Hvaða vit er í svona nokkru? Það þarf að þurrausa alla orku á þéttbýlasta svæði landsins til að keyra eitt einasta álver! Svo er fólk að láta sig dreyma um gagnaver og alls konar aðra atvinnustarfsemi. Jafnvel bílaflota sem gengur fyrir rafmagni. Gleymið því. Orkan fer öll í álverið - ef af verður.

Næstu daga ætla ég að rifja upp það sem ég skrifaði í áður - því baráttan gegn Bitruvirkjun er hafin aftur. Sveitarfélagið Ölfus auglýsti enn á ný breytingu á skipulagi og rennur athugasemdafrestur út 3. október nk. - á laugardaginn. Brettum upp ermarnar og söfnum liði, gott fólk! Það er skammur tími til stefnu. Þeir sem voru með síðast kannast við ferlið.

Neðst í hverri einustu færslu út vikuna verða viðfestar tillögur að mismunandi athugasemdabréfum sem öllum er frjálst að nota að vild - annaðhvort óbreytt eða með eigin breytingum. Það þarf að prenta athugasemdabréfið út og senda það í pósti á tilgreint heimilisfang. Svo hengi ég líka við stórmerkilega úttekt Björns Pálssonar og Ingibjargar Elsu Björnsdóttur sem þau tóku saman og sendu frá sér í gær.

Úr fyrri baráttu - Fréttir Stöðvar 2 - 12. maí 2008

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Síðbúin afsökunarbeiðni

Hvort sem Magnús Þór Sigmundsson er álfur eður ei, þá er hann frábær listamaður. Margir hrifust mjög af laginu sem hann flutti í þættinum Á rás fyrir Grensás á föstudagskvöldið. Ég fæ ennþá gæsahúð þegar ég hlusta á lagið. Eins og fram kemur í þessari hressilegu frétt á vef Önfirðingafélagsins (af bb.is) samdi hann lagið fyrir vestfirska karlakórinn Fjallabræður, sem flytja lagið með honum auk stórfínna tónlistarmanna.

Í fréttinni kemur fram að Magnús Þór hafi búið m.a. í Keflavík og á Flateyri, en búi nú í Hveragerði. Hann og fjölskylda hans eru því meðal þeirra sem fá yfir sig eiturgufurnar úr borholum Bitruvirkjunar ef hún verður reist.

Ég hringdi í Magnús Þór til að fá leyfi hans til að birta lagið og var það auðfengið. Hann sagði mér að lagið væri síðbúin afsökunarbeiðni. Síðbúin afsökunarbeiðni til landsins, náttúrunnar, auðlindanna... alls þess, sem nú er ýmist verið að selja og/eða eyðileggja. Arfleifðar okkar og afkomenda okkar.

En hér er lag Magnúsar Þórs, Freyja, flutt af honum sjálfum, vestfirska karlakórnum Fjallabræðrum og vel völdum tónlistarmönnum. Þetta er glæsilegur flutningur á frábæru lagi og mögnuðum texta sem ég skrifaði niður eftir eyranu. Náði honum vonandi réttum.


Freyja

Fyrirgefðu mér
undir fótum ég fyrir þér finn
ég man
þú varst mín
hér eitt sinn.

Kæra Freyja mín
á ég skilið að eiga þig að
eftir að hafa þér
afneitað?

Ég seldi þig
fiskinn í sjónum og fjöreggin mín
grundirnar, fjöllin og vötnin þín
fyrir hvað?

Já, ég seldi þig
skelina, legginn og manndóminn
skildi við fjallkonuna
gulllin mín - fyrir hvað?

Fyrirgefðu mér
ég fyllti upp í dali með fjöllunum
ég heyrði ekki söng þinn og seið
mér varð á.

Já, ég skammast mín
er þú sál mína særir til þín
þar sem tár þinna jökla og fjallasýn
kveðast á.

Já, ég seldi þig,
fiskinn í sjónum og fjöreggin mín
grundirnar, fjöllin og vötnin þín
fyrir hvað?

Já, ég seldi þig
skelina, legginn og manndóminn
skildi við fjallkonuna
gulllin mín - fyrir hvað?

Kæra Freyja mín,
á ég skilið að eiga þig að
eftir að hafa þér
afneitað?

Höfundur:  Magnús Þór Sigmundsson

Með birtingu þessa lags og texta hefst baráttan gegn Bitruvirkjun hér á síðunni - aftur. Látið boð út ganga!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Andað léttar

Mikið var ég fegin þegar ég heyrði í fréttunum í kvöld að ummælin um ónýtu spólurnar hafi verið villandi. Þar af leiðandi er færslan hér á undan líka villandi - eða texti hennar - þó að myndbrotin standi vitaskuld fyrir sínu. En rétt skal vera rétt og hér með leiðréttist þetta. Um leið vil ég benda á fína athugasemd (nr. 25) frá Gunnlaugi Lárussyni sem hafði spurst fyrir um málið og sent Páli Magnússyni tölvupóst. Gunnlaugur birtir ekki sinn póst til Páls en fékk þetta svar: "Þakka þér kærlega fyrir hressilega áminningu - þetta verður athugað!"

Svo fékk Gunnlaugur svohljóðandi póst frá Óðni Jónssyni, fréttastjóra:

"Því miður var frásögn fréttamanns villandi. Það er rétt að sérstakar upptökur stúdíói misfórust þessa daga sem um ræðir. Flestar fréttir voru síðan keyrðar af klippistæðum og inn á harðan disk og band þegar mistökin uppgötvuðust. Nánast allar frumtökur úti á vettvangi á þessu tímabili eru til á millisafni fréttastofu. Aðalatriðið er þó að allt efnið er til á DVD, ekkert er glatað eða týnt! Öll útsending RÚV er til á DVD, beinar útsendingar o.s.frv. Hitt er svo annað mál að varðveislumál okkar mættu vera betri, vegna fjárskorts erum við ekki enn að fullu komin inn í stafrænu öldina. Þá er ég sammála þér um það að fréttaupptökur þyrftu að vera aðgengilegar miklu lengur á netinu. Vonandi fáum við úrbætur á því fljótlega."

Við þetta vil ég bæta að það væri skömm að því ef nefskatturinn skilar sér ekki allur til að reka RÚV eins og ýjað hefur verið að.

Hin villandi ummæli og leiðréttingin - RÚV 27. og 28. september 2009


Litið um öxl - ár liðið frá hruninu

Undanfarna daga hefur fréttastofa RÚV rifjað upp ársgamlar fréttir af aðdraganda hrunsins. Þórdís Arnljótsdóttir sagði í fréttunum í kvöld að engin upptaka væri til af fréttum þessarar örlagaríku helgar í fyrra því spóla hafi eyðilagst. Þótt mínar netupptökur séu ekki tækar á sjónvarpsskjáinn geta þær kannski fyllt aðeins í einhverjar eyður. Það er geysilega fróðlegt að rifja upp þessar fréttir af efnahagsmálunum - sem reyndust vera hrunfréttir þótt við höfum ekki vitað það þá - í kringum þessa helgi í lok september fyrir ári. Set Kastljósið þann 29. inn líka.

Fréttir RÚV föstudaginn 26. september 2008

 

Fréttir RÚV laugardaginn 27. september 2008

 

Fréttir RÚV sunnudaginn 28. september 2008

 

Fréttir RÚV mánudaginn 29. september 2008

 

Tíufréttir RÚV mánudaginn 29. september 2008

 

Kastljós 29. september 2008 - Geir H. Haarde

 

Kastljós 29. september 2008 - Stoðir, Hreiðar Már, Gylfi Magnússon

 

Kastljós 29. september 2008 - Ögmundur Jónasson og Árni Páll Árnason

 


Er þetta mögulegt... eða ekki?

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Ég lýsi eftir samfélagsvitund og samstöðu þjóðar. Þeirri hugsun, að við búum hér saman og eigum að skipta lífsins gæðum og arði af auðlindum á milli okkar á sanngjarnan og sem jafnastan hátt. Eftir hrunið heyrðust bjartsýnisraddir sem sögðu að hörmungarnar myndu þjappa þjóðinni saman líkt og eftir náttúruhamfarir, allir myndu hjálpast að, fagmennska verða tekin fram yfir flokksskírteini, siðleysið hverfa og siðferðisstaðlarnir verða eðlilegir eða viðunandi.

En nei - ó, nei. Þvílíkur endemis barnaskapur! Ekkert slíkt hefur gerst, að minnsta kosti ekki meðal þeirra sem enn vaða uppi í bönkum, skilanefndum, stjórnsýslu og stjórnmálum. Þar eru ennþá sérvaldir menn í hverju rúmi sem hygla vinum, vandamönnum, klíku- og flokksbræðrum á kostnað skattborgaranna og maka krókinn. Þeir afskrifa skuldir forríkra, skattlausra glæpamanna um leið og þeir setja þumalskrúfu á skattpíndan almenning og fangelsa smákrimma. Þeir selja eignarhluti þjóðarinnar í auðlindum hennar og komandi kynslóða til valdra braskara í heilu lagi eða hlutum. Svo ekki sé minnst á útrásardólgana sem allir ganga lausir. Þeir senda þjóðinni fingurinn, segja ábyrgðarleysi að borga skuldir sínar við hana, fá sér dæetkók með glott á vör og siðblinduglampa í augum og hækka verð á matvöru meira en góðu hófi gegnir til að fá nú örugglega nóg í sína vasa.

Eva Joly sagði að mjög mikilvægt væri að komast að sannleikanum, taka á vandanum og leita réttlætis. Öðru vísi yrði mjög erfitt að byggja upp og búa við samfélagssáttmála í framtíðinni. En Eva Joly sagði líka að réttarkerfi Vesturlanda væri sniðið til að halda hlífiskildi yfir þeim ríku og valdamiklu en dæma aðeins almenning í lægri lögum samfélagsins. Hún sagði að efnahagsglæpamenn væru mjög sjaldan teknir og látnir svara til saka. Þetta hljómar eins og óyfirstíganlegur vítahringur og súrrealískur veruleiki í eyrum fólks með óbrenglaða réttlætiskennd.

En hvað er til ráða? Hvernig er hægt að efla samstöðu þjóðarinnar, samfélags- og siðferðisvitund hennar og fá hin svokölluðu efri lög samfélagsins - þá sem stjórna og ráðskast með eigur og auðlindir þjóðarinnar - til að hafa hagsmuni okkar allra í huga í stað örfárra, gírugra einstaklinga?

Fjölmiðlarnir eiga að leika stórt hlutverk í þessu ferli því vald þeirra er mikið og áhrifin gríðarleg. En vegna fjárskorts og niðurskurðar hafa mörg vopn verið slegin úr höndum þeirra. Og nú er ljóst að eitt elsta og áður virtasta dagblað landsins, Morgunblaðið, er úr leik í opinni, heiðarlegri umræðu þar sem fjölmörgum reyndum og góðum fagmönnum úr blaðamannastétt hefur verið fórnað á altari gjörspilltra flokkshagsmuna, yfirgangs og sérhagsmuna þeirra sem græða stórfé á auðlind sjávar - á kostnað þjóðarinnar.

Ég skora á brottrekið fjölmiðlafólk allra miðla að stofna öflugan, ópólitískan og heiðarlegan fjölmiðil sem beiti sér í þágu þjóðarinnar allrar.

************************************************

 Hljóðskrá viðfest hér fyrir neðan.

************************************************

Hlustum á Pál Skúlason í Silfrinu 13. september sl.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Er þetta kóngablæti?

Ég er hér enn sjálf. Geir H. Haarde hefur ekki ennþá tekið við þessari síðu til að skrifa söguútgáfu þeirra Davíðs og ekki vitað hvenær það verður. Ætli ég noti þá ekki tækifærið og birti meira efni eftir sjálfa mig á meðan færi gefst. Skrifa mína eigin sögu.

Íslensk fjallasala - Andrés 1999 - Lesbók Morgunblaðisins 10. apríl 1999

Mér finnst umræðan um ráðningu Davíðs Oddssonar í stól ritstjóra Morgunblaðsins svolítið undarleg. Sumir eru fullir umburðarlyndis og finnst rétt að "gefa honum séns" og "leyfa honum að sanna sig". Sjá lítið sem ekkert athugavert við ráðninguna og segja að Davíð beri ekki einn ábyrgð á hruninu. Líkja henni saman við ráðningu Þorsteins Pálssonar sem ritstjóra Fréttablaðsins. Segja að eigendur Morgunblaðsins ráði því hvern þeir láti ritstýra blaðinu - og svo framvegis. Er aðdáun sumra á Davíð Oddssyni einhvers konar kóngablæti? Arfur frá liðinni tíð? Maður spyr sig...

Íslendingar hafa gefið Davíð Oddssyni sénsa í rúm 30 ár - endalausa sénsa. Hann hefur alltaf þegið laun sín frá skattborgurum. Fyrst sem skrifstofu- og framkvæmdastjóri Sjúkrasamlagsins frá 1976, síðan borgarstjóri, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og að lokum seðlabankastjóri. Davíð hefur alltaf stjórnað því sem hann vill og farið fram af hörku. Hann innleiddi hér hræðsluþjóðfélag þar sem mönnum var refsað fyrir að vera ósammála honum, stofnanir lagðar niður ef þær reiknuðu gegn vilja hans, mönnum vísað úr nefndum fyrir smásagnaskrif sem hugnuðust honum ekki. Ótalmargt fleira mætti nefna og lesendur geta bætt við í athugasemdum.

Davíð Oddsson gerði íslenska þjóð ábyrga fyrir innrásinni í Írak 2003 og hörmungunum þar sem ekki sér fyrir endann á ennþá. Það var vægast sagt  umdeildur gjörningur og þar kom Davíð rækilega aftan að þjóðinni. Sumir hafa kallað hann stríðsglæpamann síðan. Þá sem ekki voru sáttir við áframhaldandi þátttöku í svokallaðri "endurhæfingu" Bandaríkjamanna í Írak kallaði Davíð afturhaldskommatitti í frægri ræðu á Alþingi. Þar talaði hann ekki bara niður til eins flokks, heldur stórs hluta þjóðarinnar sem hafði alla tíð verið andsnúinn veru Íslands á stríðslistanum. Það var og er stíll Davíðs að niðurlægja þá sem ekki eru á sömu skoðun og hann, hæðast að þeim og ljúga upp á þá - í þeim tilgangi að upphefja sjálfan sig.

Verjendur Davíðs og verka hans í íslensku samfélagi hamra gjarnan á því að hann sé ekki einn ábyrgur fyrir hruninu. Það er enginn að segja það. Mjög margir eru ábyrgir. En óumdeilanlegt er að Davíð Oddsson lék eitt af aðalhlutverkunum í frjálshyggju- og einkavinavæðingunni, sem og  aðdraganda hrunsins og fyrstu viðbrögðum við því. Sú staðreynd að fleiri voru þar að verki gerir ábyrgð hans engu minni. Að þessu leyti er ógerlegt að bera ráðningu Davíðs til Moggans nú saman við ráðningu Þorsteins Pálssonar til Fréttablaðsins. Þorsteinn var aldrei sami áhrifavaldur og Davíð í íslensku samfélagi og hafði hætt beinum afskiptum af pólitík mörgum árum áður en hann settist í ritstjórastól. Davíð hélt hins vegar bæði FLokknum og þjóðinni í járnkrumlum einvaldsins fram á síðasta dag og harðneitaði að sleppa.

Davíð Oddsson er ekki bara "einhver maður" og Morgunblaðið er ekki bara "eitthvert blað". Þó að til sanns vegar megi færa að eigendur blaðsins "megi ráða og reka þá sem þeim sýnist" er lágmarkskurteisi gagnvart þjóð sem liggur í blóði sínu í ræsi kreppunnar að ráða ekki manninn sem í huga þjóðarinnar er holdgervingur hrunsins. Það er lágmarkskrafa að fjölmiðlar axli samfélagslega ábyrgð og hjálpi þjóðinni að rísa á fætur í stað þess að hleypa í valdastól aftur manni, sem á eftir að henda sprengjum inn í samfélag sem þegar hefur verið sprengt í loft upp.

Við þekkjum Davíð Oddsson. Hann hefur fengið að margsanna sig í 30 ár. Við þekkjum eiturtunguna, ofsann, hrokann, ráðríkið og valdafíknina. Ég sé enga ástæðu til að gefa honum fleiri sénsa til að sanna sig enn frekar. Mig grunar að hlutverk Davíðs sem ritstjóri Morgunblaðsins verði að stýra stríði gegn vilja þjóðarinnar. Stríði gegn endurheimt þjóðarinnar á auðlindum til sjós og lands. Stríði gegn þeim vilja meirihlutans að halda grunnstoðum þjóðfélagsins í þjóðareigu. Enda fjallaði annar leiðari fyrsta blaðsins undir hans stjórn um ágæti einkasjúkrahúsa.

Stríð sjálfstæðismanna er hafið. Það sést á ýmsum vígstöðvum, ekki bara í ráðningu ritstjórans. Látum ekki blekkjast, þeir ætla að ná aftur völdum og við vitum hvað það þýðir. Við erum velflest fórnarlömb þessa fólks. Neitum að kyssa vöndinn.



Að vera eða ekki vera...

...á Moggablogginu. Af þessu að dæma er búið að taka ákvörðun um það fyrir mína hönd.  LoL

Nýjar sögubækur - Henrý Þór Baldursson - Gula pressan - 25.9.09


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband