Færsluflokkur: Bloggar

Getur einhver útskýrt þetta?

Nú skil ég hvorki upp né niður og bið lesendur um aðstoð. Eins og alþjóð veit eru tveir framsóknarmenn í Noregi að kynna stöðu efnahagsmála á Íslandi. Kannski að fiska eftir láni. Stóru láni. Fram kom í fréttum RÚV í gærkvöldi að þeir hafi hitt fulltrúa allra flokka á norska stórþinginu. Þeir eru sem sagt í Noregi sem stjórnmála- og alþingismenn, ekki einkaaðilar. Lítum á fréttina.

 

Ég er með ómanngleggri manneskjum og á yfirleitt erfitt með að púsla saman nöfnum og andlitum. Þetta er genetískur galli. Ekki að ég hafi þekkt þessa náunga, það gerði ég ekki. En mér barst tölvupóstur frá lesanda sem benti á þetta og ég kannaði málið. Ég sé ekki betur en að ábendingin sé réttmæt.

Í júní 2007, á hápunkti gróðærisins, var stofnaður vogunarsjóður (hedge fund) sem heitir Boreas Capital. Eins og sjá má ef smellt er á linkinn er þetta platsíða. Ekkert á bak við hana frekar en síðu þessa fyrirtækis, sem ku hafa velt milljörðum en er nú gjaldþrota. Maður fær því upplýsingar á erlendum síðum og innlendum, því hér er nýleg frétt um að fjárfestingar sjóðsins hafi skilað 70% ávöxtun í miðju hruni. Hér er enn nýrri frétt um gagnrýni sjóðsstjóra vegna olíumála Íslendinga - ímyndaðra eða raunverulegra. Strákarnir hafa líklega ætlað að græða á olíuauðlindinni. Lái mér hver sem vill, en ég er tortryggin gagnvart svona fréttum eftir það sem á undan er gengið.

Boreas Capital vogunarsjóðurinn mun tengjast Landsbankanum og/eða Landsvaka í gegnum einhvers konar umboðsmennsku. Ég kann þó ekki að greina frá þeim tengslum frekar og læt mér fróðari um það. En vert er að kynna sér skilgreiningu á hvað vogunarsjóðir eru og hætturnar af þeim hér.

Stjórnarformaður Boreas Capital er Frank Pitt og einn af stjórnarmönnum, eigendum og stofnendum vogunarsjóðsins er Ragnar Þórisson. Báðir hafa þeir ýmis tengsl við banka og einstaklinga, m.a. segir hér að þeir séu vinir og viðskiptafélagar Björgólfs Thors, eins aðaleiganda gamla Landsbankans.

Og þá er það stóra spurningin: Hvað voru tveir forsvarsmenn þessa vogunarsjóðs að gera með framsóknarmönnunum Sigmundi Davíð og Höskuldi í Osló í gær? Ef til vill er til eðlileg skýring á því og þá væri auðvitað mjög fróðlegt að heyra hana. Einhver?

Framsóknarmenn með vogunarsjóði í Osló

Frank Pitt lengst til vinstri og tvær smámyndir - Ragnar Þórisson næstur og ein smámynd.

*******************************************

Ábending frá lesanda: Boreas Capital er skráð til húsa að Hellusundi 6 í Reykjavík. Þar er einnig til húsa fjárfestingarfélagið Teton, en stjórnarformaður þess er Gunnlaugur Sigmundsson, faðir Sigmundar Davíðs.


Ég fann mikið til...

...með Birni Þorra, alveg eins og Marinó, þegar hann sat andspænis samfylkingarþingmanninum Magnúsi Orra Schram í Kastljósi í gærkvöldi til að ræða aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna. Það er erfitt að vera í þeirri aðstöðu. Ætla mátti að Magnús Orri neitaði að skilja. Hann ruddi út úr sér utanbókarlærðum frösum og maður fékk á tilfinninguna að hann hefði ekki grænustu glóru um hvað hann var að tala. Hann heyrði ekki í Birni Þorra, skildi hann líklega ekki, og hélt bara áfram í frasafílingnum. Minnti óhugnanlega á Árna Pál.

Magnús Orri SchramVeit Magnús Orri ekki hvað höfuðstóll er? Skilur hann ekki að vextir og kostnaður er reiknaður af höfuðstóli lána? Fattar hann ekki að verðtryggingin bætist við höfuðstólinn? Veit hann ekki að húsnæðis- og bílalán í erlendri mynt líta allt öðruvísi út í dag en fyrir rúmu ári, hvað þá tveimur? Nær hann ekki að það er ekki sök lántakenda, heldur auðmanna, bankamanna, fyrri ríkisstjórna og annarra gráðugra áhættufíkla? Sama má segja um vísitölutryggðu lánin þótt þau hafi ekki hækkað nándar nærri eins mikið. Skilur Magnús Orri ekki að það er grundvallaratriði að leiðrétta höfuðstólinn? Meira að segja ég skil það - og er ég þó ekki efnahagslega vaxin. Ég beini þeim tilmælum til Samfylkingarinnar að senda næst einhvern sem veit hvað hann er að tala um þegar mál, sem eru lífsspursmál fyrir mestalla þjóðina, eru til umfjöllunar. Ekki smástrák á rangri hillu sem vanvirðir heilbrigða skynsemi. Eru kannski "lausnir" ríkisstjórnarinnar í stíl?

Hagsmunasamtök heimilanna hafa unnið gríðarlega mikilvægt og óeigingjarnt starf fyrir skuldsettar fjölskyldur í landinu - hvað allir athugi! Samtökin ályktuðu um "lausnir" ríkisstjórnarinnar. Þar innanborðs er fólk sem hefur mikla þekkingu á því sem við hin og botnum ekkert í. Einn af þeim er Marinó G. Njálsson sem skrifaði bloggpistil eftir Kastljósið og bókstaflega valtaði yfir Magnús Orra og málflutning hans. Ég hvet alla til að lesa pistil Marinós sem er skýr og skilmerkilegur eins og allt sem hann lætur frá sér fara. Lesið líka styttri pistil Baldvins Jónssonar. Þarna er Baldvin að tala um niðurfærslu lána milli gömlu og nýju bankanna.

Ef einhver veit ekki hvað þar fór fram er hér dæmi: Jósafat skuldaði gamla Landsbankanum 20 milljónir í húsnæðislán. Nýi Landsbankinn "kaupir" skuldina af þeim gamla á 10 milljónir. Það er 50% niðurfærsla eða afskrift. EN... Nýi Landsbankinn rukkar Jósafat ekki um 10 milljónirnar, heldur 20 eins og upprunalega skuldin kvað á um. Jósafat nýtur því í engu niðurfærslunnar eða afskriftarinnar, heldur ætlar nýi bankinn að innheimta skuldina sem hann fékk á hálfvirði í topp. Mér skilst að þannig sé farið um öll húsnæðislán bankanna.

Á meðan þessu fer fram fá vildarvinir skilanefnda gömlu bankanna afskrifaðar milljarðaskuldir og halda fyrirtækjum sínum og eignum. Er nema von að fólki sé misboðið?

Kastljós 8. október 2009

 

Viðbót: Talað var við Marinó G. Njálsson og Árna Pál Árnason í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Marinó skrifaði pistil um málflutning Árna Páls og ég hengi upptöku með viðtölunum við þá hér fyrir neðan.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ef árgalli kemur í siðu

Mig langaði bara að minna á þennan mann og málflutning hans.

Fréttablaðið 8. október 2009

Ef árgalli kemur í siðu - Njörður P. Njarðvík - Fréttablaðið 8. október 2009

 Njörður P. Njarðvík í Silfri Egils 11. janúar 2009

 

Njörður P. Njarðvík í Silfri Egils 3. maí 2009

 


Framsýni, virðing og óábyrgt raup

Það er ekki seinna vænna að setja þennan Morgunvaktarpistil hér inn því nýr kemur á morgun. Hann var hluti af baráttunni í síðustu viku en ég steingleymdi að birta hann. Pistillinn stendur engu að síður fyrir sínu þótt fresturinn til að gera athugasemdir við Bitruvirkjun sé útrunninn. Hljóðskrá er viðfest neðst.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Tvær helstu sjálfstæðishetjur Íslendinga voru samtímamenn. Þetta voru 19. aldar mennirnir Jón Sigurðsson, kallaður forseti, og Jónas Hallgrímsson, skáld. Margar kynslóðir Íslendinga hafa alist upp við undurfögur ljóð Jónasar Jónas Hallgrímssonog frásagnir af  hvatningarorðum og skörungsskap Jóns.

Meðal þess sem einkenndi ljóð og málflutning þessara tveggja manna var framsýni, ættjarðarást og umhyggja fyrir komandi kynslóðum - okkur, meðal annars. Þeir boðuðu virðingu fyrir náttúrunni og frelsi þjóðarinnar.

Ólíkt hafast menn að nú til dags. Það er ótrúlegt að horfa upp á hamslausa frekju og yfirgang misvitra stjórnmálamanna, hagsmunaafla og þrýstihópa. Ekki hvarflar að þessum mönnum að sýna framsýni eða skynsemi gagnvart landinu og komandi kynslóðum. Eigin stundargróði er það eina sem kemst að hjá þeim þó að ljóst megi vera hverjum sem nennir að kynna sér málin, að fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir fyrir tvö álver þurrausi orkuauðlindir okkar nær algjörlega og ekkert verði eftir í aðra atvinnustarfsemi eða handa afkomendum okkar.

Ómar Ragnarsson, sá mæti baráttumaður, hefur oft sagt söguna af því þegar hann spurði - fyrir margt löngu - einn helsta ráðamann þjóðarinnar sem var illa haldinn af virkjanafíkn, hvað gerðist þegar orkan væri öll uppurin. Sá svaraði um hæl: "Það verður vandamál þeirra sem þá verða uppi." Mig hryllir við slíkum hugsunarhætti sem afhjúpar sérgæsku, fyrirhyggjuleysi og fullkomið virðingarleysi fyrir komandi kynslóðum.

Ég er alin upp við mikla ást og aðdáun á Íslandi og móðir mín þrJón Sigurðssoneyttist aldrei á að tala um hve heppin við værum að vera Íslendingar, eiga þetta dásamlega land með hreinu lofti, tæru vatni og óviðjafnanlegri náttúru. Mér var líka kennt að við ættum landið öll saman og séum samábyrg fyrir framtíð þess. Rétt eins og íbúum á landsbyggðinni kemur við hvað gert er í höfuðborginni þeirra, þá kemur mér við hvernig þeir fara með landið mitt. Svo einfalt er það.

Nú biðla ég til þjóðarinnar - eða þess hluta hennar sem lætur sér annt um náttúruna, tæra vatnið og hreina loftið - Bitruvirkjun er aftur komin á dagskrá. Sveitarfélagið Ölfus er enn með á prjónunum að breyta náttúruperlunni Ölkelduhálsi í iðnaðarsvæði. Frestur til að skila inn athugasemdum við gjörninginn rennur út á morgun, 3. október. Þið getið lesið allt um málið á bloggsíðunni minni - larahanna.blog.is - og ég hvet alla sem þykir vænt um landið sitt og vilja ekki gera Ísland að sóðalegri verksmiðju þakið háspennumöstrum, til að taka þátt í andófinu.

Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur, skrifaði stórfína grein í vefritið Smuguna í gær og sagði meðal annars: "Því miður er það svo að stóri sannleikurinn um hinar miklu orkulindir Íslands er tómt plat. Þetta eru skýjaborgir sem byggðar eru á raupi óábyrgra manna sem ógerlegt er að vita hvort eða hvað hugsa. Það er fráleitt að æða út í framkvæmdir við álver eins og gert er í Helguvík og halda að það "reddist einhvern veginn" þegar fyrirsjáanlegt er að það reddast ekki."

Stöndum með okkur sjálfum, landinu okkar og komandi kynslóðum Íslendinga.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Við borgum ekki!

Alltaf er hollt og nauðsynlegt að rifja upp. Það er nefnilega gert ráð fyrir því að við gleymum og höfum ekki aðgang að upplýsingum. Nú er það Kastljósviðtalið fræga 7. október 2008. Í tengslum við þetta bendi ég á bloggfærslur Vilhjálms Þorsteinssonar og Egils Helgasonar og athyglisverðar umræður í athugasemdakerfum þeirra.

Kastljós 7. október 2008



Viðbót: Hengi neðst í færsluna hljóðupptöku úr þættinum Víðu og breiðu á Rás 1 frá mánudeginum 5. október. Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri, er þar í siðfræðispjalli um Icesave. Umsjónarmaður þáttarins er Hanna G. Sigurðardóttir. Þetta er athyglisvert spjall... hlustið.

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Dúllurassinn Davíð

Síðast þegar ég reyndi að grínast og vera kaldhæðin misheppnaðist það gjörsamlega. Kjarni pistilsins fór alveg fram hjá lesendum og ég tók á það ráð að endurbirta hann næstum strax. Ég var tekin alvarlega og hét sjálfri mér að reyna þetta aldrei aftur. Þetta er því ekki kaldhæðinn pistill. Seiseinei. Algjör misskilningur.

Davíð Oddsson dúllurassEn Davíð Oddsson er dúllurass. Ég komst að því á sunnudaginn var þegar ég las leiðarann hans í Mogganum sem bar yfirskriftina "Um bloggara og gleðigjafa". Þessi elska var að dásama bloggara, þar á meðal mig. Ég tók þetta allt til mín... eðlilega. Ég fékk auðvitað bakþanka vegna þess sem ég hef skrifað um Davíð og spurði sjálfa mig hvort ég ætti að fá samviskubit. Hvernig getur mér mislíkað Davíð fyrst hann er svona hrifinn af mér?

Í leiðaranum kallar Davíð mig skynsama og velmeinandi og segir að bloggið mitt sé læsilegt og að ég sé góður penni. Hann segir mig grandvara og fróða og að ég komi að upplýsingum í skrifum mínum sem ekki hafi ratað inn í venjulega fjölmiðla. Að umræður sem spinnast af skrifum mínum hafi í einstökum tilfellum haft áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru í þjóðfélaginu eða opni augu manna fyrir nýjum sannindum.

Og Davíð heldur áfram að mæra mig af sinni alkunnu snilld. Hann segir að ég haldi úti vefsíðu af miklum myndarskap og hafi með skarplegum athugasemdum heilmikil áhrif á umræðuna.

Ég roðnaði þegar ég las þetta. Var upp með mér og fann svolítið til mín. Svona eins og þegar barni er hrósað fyrir að taka fyrstu skrefin. Þessi elska erfir ekki alla skammarpistlana mína og finnst ég bara helvíti góð. Aldrei hefði ég trúað þessu upp á þennan krúttmola. En svo bregðast krosstré...

Leiðari Morgunblaðsins 4. október 2009 Morgunblaðið 4. október 2009 - Leiðari Davíðs Oddssonar


Í tilefni dagsins

Ógleymanlegur dagur, ógleymanlegt ávarp og lokaorðin greypt í vitund flestra landsmanna.

Ávarp forsætisráðherra, Geirs H. Haarde, 6. október 2008

 

 129 dögum síðar - 12. febrúar 2009


Hugvekja Björns og fulltrúar framtíðar

Það fór ekki mikið fyrir litlu sendinefndinni sem afhenti hluta af andmælabréfum, athugasemdum og mótmælum gegn fyrirhugaðri Bitruvirkjun í Þorlákshöfn í gær. En athöfnin var engu að síður táknræn þar sem tvö börn, fulltrúar og orkunotendur framtíðarinnar, afhentu skjölin. Fyrir litla hópnum fór Björn Pálsson, sem hefur barist ötullega fyrir verndun Hengilssvæðisins sem útivistarsvæðið fyrir ofan Hveragerði er hluti af. Björn flutti stutta, innihaldsríka hugvekju sem hann leyfði birtingu á hér. Athugið, að tölurnar sem hann nefnir eru fyrir utan þau bréf sem berast í pósti og tölvupósti. Neðst í færsluna hengi ég við hið magnaða athugasemdabréf Björns og Ingibjargar Elsu Björnsdóttur, sem vakið hefur mikla athygli.

************************************************

Ræða flutt við afhendingu andmæla þann 5. okt. 2009.

Ágætu áheyrendur!

Í tilefni þess að hér eru nú afhent 977 bréf, þar sem 1061 einstaklingar og þar af 712 með búsetu í Hveragerði mótmæla auglýstri breytingu á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss, vil ég gera stutta grein fyrir aðkomu minni að þeim málum.

Þessi mótmæli beinast einkum að ætlaðri Bitruvirkjun, líklegum eituráhrifum frá henni og þeirri eyðileggingu á lítt spilltri náttúru sem bygging hennar mun valda á umhverfi sínu. Þar hef ég, frá upphafi búsetu í Hveragerði 1974, notið margra góðra stunda, einn eða með fjölskyldu og vinum. Eðlislæg forvitni mín um örnefni, sögu, og tilurð fyrirbæra í umhverfinu hefur valdið því að ég er oftlega kallaður til leiðsagnar á þessu svæði. Nefna má eignaréttarmál fyrir Óbyggðanefnd og héraðsdómi Suðurland þar sem Sveitarfélagið Ölfus hefur meðal annars þurft að verja hagsmuni sína Björn Pálssonfyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Í þeim átökum sýnist mér að sannleikurinn þurfi oft að víkja og sú buddunnar lífæð sem í brjóstinu slær ráði för.  

Skemmtilegra er mér þó að leiðbeina göngufólki um þau svæði sem í flestum andmælunum er lagt til að verði friðlýst. Þar eru börnin einlægustu ferðafélagarnir. Hvaða faðir, móðir, afi, amma eða leiðsögumaður getur vænst betri launa en þegar fimm ára gamalt barn segir: „Hingað verðum við að koma fljótt aftur". Því er vel við hæfi að ung móðir, sem hefur lagt á sig ómælda sjálfboðavinnu við söfnun andmæla, afhendi þau hér í fylgd tveggja barna sinna. Þeirra er framtíðin og ég vona að þeir sem nú ráða för í landsmálum verði ekki í hlutverkum þeirra þjóðarsona, sem síðustu gripunum farga  úr gullabúri íslenskrar náttúru. 

Allt frá því að hamfarir, tilbúnar af sérhyggju og græðgi, skullu yfir okkur fyrir ári hef ég óttast að í kjölfarið fylgdu þær fjölþjóða hræætur sem ætið eru tilbúnar til að gæða sér á hinu ósjálfbjarga fórnarlambi. Það vekur mér ugg þegar frændur mínir og sýslungar fyrrum í Norðurþingi kalla eftir stuðningi alþjóðlegs álrisa til byggingar gufuaflsvirkjunar þar. Upplýsingar um að nýtanleg háhitaorka frá Reykjanestá til Hengils geti í besta falli dugað til 66% orkuþarfar álvers í Helguvík lofar heldur ekki góðu. Atburðarrás um eignarhald á HS-orku vekur einnig ugg um eignarhald á orkuverum. Er hugsanlegt að álrisar í harðvítugri samkeppni á alþjóðamarkaði muni fljótlega kaupa skuldsett íslensk orkuver? Hvað verður þá um þjóðareign á íslenskum orkuauðlindum? Þá spurningu ættu íbúar Þorlákshafnar, sem vilja halda aflakvóta í sinni heimabyggð, að íhuga. Reynslan sýnir að undirrituð fyrirheit um vinnslu í heimabyggð hafa ekki reynst traust. Ætli svo geti ekki einnig orðið um vilyrði um nýtingu orku í heimabyggð? Og hvað þá um loforð um eyðingu eiturefna frá gufuaflsvirkjunum?

Ágætu hlustendur! Þennan pistil hef ég samið í nokkurri samvinnu við Þorstein Erlingsson skáld. Hann studdi Sigríði í Brattholti í baráttu hennar fyrir verndun Gullfoss og kvæðið, Við fossinn, mun Þorsteinn hafa ort eftir að hafa lesið Dettifosskvæði Einars Benediktssonar. Við Fossinn, kvæði Þorsteins, ætti að vera skyldulesning á náttborðum allra stóriðjusinna nú. Lokaerindið verður niðurlag tölu minnar hér:

Og því er nú dýrlega harpan þín hjá
þeim herrum til fiskvirða metin,
sem hafa það fram yfir hundinn að sjá,
að hún verður seld eða jetin;
sem hálofa „guðsneistans" hátignarvald
og heitast um manngöfgi tala,
en átt hefur skríðandi undir sinn fald
hver ambátt sem gull kann að mala.
Og föðurlandsást þeirra fyrst um það spyr,
hve fémikill gripur hún yrði,
því nú selst á þúsundir þetta sem fyr
var þrjátíu peninga virði.

Ég þakka áheyrnina.

Fréttir RÚV 5. október 2009

 

Hvaðan Ólafur Áki hefur þessar tölur sem hann nefnir er mér hulin ráðgáta. Og ef honum finnst skemmdarverk þau, sem hljótast af stórri virkjun eins og Bitruvirkjun með öllu tilheyrandi í ósnortinni náttúru vera "að taka tillit til náttúrunnar" - ja... þá vildi ég ekki sjá hvernig umhverfið liti út ef sýnt væri tillitsleysi!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Áríðandi skilaboð!

Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem litið hefur hingað inn síðastliðna viku að Bitruvirkjun er aftur á dagskrá. Ég hef fengið upplýsingar um að senda megi athugasemdir í tölvupósti til kl. 16 í dag þar sem 3. október bar upp á laugardag. Enda er þeim í Ölfusi ekki stætt á að hafna athugasemdum í tölvupósti þegar allir aðrir taka slíkt sem sjálfsagðan nútíma samskiptamáta. Það er nú einu sinni 21. öldin - ekki sú 19.

Því skora ég á alla sem ekki vilja láta eitra andrúmsloftið fyrir sér og sínum; sem vilja eiga náttúruperluna Ölkelduháls og nágrenni ósnortna; sem ekki vilja láta hljóð-, sjón- og loftmengun eyðileggja upplifun sína af einu fegursta landsvæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins; sem vilja mótmæla rányrkju og misnotkun á orkuauðlindum Íslendinga - til að senda athugasemd til Sveitarfélagsins Ölfuss NÚNA. Viðfest hér að neðan eru nokkur tilbúin bréf sem öllum stendur til boða að nota. Veljið eitt - vistið það - opnið (breytið ef þið viljið) - skrifið nafn, kennitölu og heimilisfang - vistið aftur. Sendið síðan sem viðhengi á netfangið: sigurdur@olfus.is - og jafnframt afrit (cc.) á olfus@olfus.is og til öryggis á skipulag@skipulag.is. Ég bið starfsfólk Skipulagsstofnunar forláts - en allur er varinn góður.

Ekki ætla ég að endurtaka eina ferðina enn það sem komið hefur fram í fyrri pistlum. En eitt vil ég benda á sem hvergi hefur komið fram - hvorki hjá mér né annars staðar mér vitanlega. Það er samanburður á fjarlægðum. Ég hef minnst á eiturgufurnar frá jarðhitavirkjunum og hve nálægt Hveragerði fyrirhuguð Bitruvirkjun er. Rétt rúmlega 4 km frá suðaustustu borholunni að byggð í Hveragerði. Ég veit ekki hvort lesendur hafa upplifað að standa hjá borholu í blæstri - það er sérstök upplifun. Annars vegar upplifir maður orkuna - kraftinn sem dælt er upp úr jörðinni. Hins vegar hávaðann - ógurlegan, yfirgnæfandi, ærandi hávaðann sem orkudælingunni fylgir. Þessum krafti fylgir óumdeilanlega gríðarleg eiturefnamengun sem spúð er yfir allt nágrennið og svífur með vindinum víða. Ég hef fjallað ítarlega um hana í fyrri pistlum.

En hvað eru rúmir 4 km mikil fjarlægð? Hvað segðu íbúar Þorlákshafnar um að fá yfir sig hávaðann og eitrið sjálfir? Gera þeir sér grein fyrir hvað þeir ætla að bjóða Hvergerðingum upp á? Hér eru afstöðumyndir af Bitruvirkjunarsvæðinu - annars vegar frá Hveragerði og hins vegar frá Þorlákshöfn. Greinilega sést hér hve nálægt Hveragerði virkjanasvæðið er og Þorlákshöfn í samanburði. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Bitruvirkun - fjarlægð frá Hveragerði vs. Þorlákshöfn

Bitruvirkjun - afstöðumynd - Hveragerði og Þorllákshöfn

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu gera sér litla grein fyrir fjarlægðum í kílómetrum innan borgarmarkanna, flestir hverjir. Ég tók á það ráð til að gefa kost á samanburði að setja fjarlægðina í samhengi við hluta af höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða tæplega 4,2 km. Og ég spyr: Viljum við hafa eiturspúandi gufuaflsvirkjun svona stutt frá heimilum okkar, skólum barnanna, vinnustöðum okkar og daglegu lífi? Ekki ég! En svona nálægt Hveragerði er fyrirhuguð Bitruvirkjun. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Reykjavík NV - 4,2 km

Reykjavík NV - samanburður á fjarlægðum - Bitruvirkjun-Hveragerði

Kópavogur-Garðabær- 4,2 km

Kópavogur/Garðabær - samanburður á fjarlægðum - Bitruvirkjun-Hveragerði


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hinar miklu orkulindir Corporate Iceland

Hér er sérlega athyglisverð grein sem birtist fyrst í Smugunni 1. október sl. og höfundur leyfði mér að birta hana. Ég hef það fyrir satt að höfundurinn, Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur, verði einn gesta Egils í Silfrinu í dag svo það er ekki úr vegi fyrir þá sem ætla að horfa á Silfrið að kynna sér efni greinarinnar - fyrir eða eftir Silfur. Fjölmargir vöktu athygli á henni á Facebook, sem og þeirri sem ég set inn fyrir neðan þessa. Enda frábærar greinar skrifaðar af sérfræðingum sem vita hvað þeir syngja.

*****************************************************

Hinar miklu orkulindir Íslands

Getum við virkjað endalaust?

Í tengslum við efnahagshrun og núverandi ástand í atvinnulífi þjóðarinnar er iðulega vitnað til þess að styrkur Íslands liggi í hinum miklu auðlindum þjóðarinnar, orkunni í fallvötnum og jarðhita. Ýmsir alþingismenn, sveitastjórnarmenn og svonefndir framámenn í atvinnulífinu lýsa því reglulega yfir að það eina sem bjargað geti ástandinu séu nýjar virkjanir og álver. Fullyrt er að þetta sé eina leiðin til að koma hjólum atvinnulífsins af stað á ný. Almenningur sem hlustar á þennan málflutning gerir væntanlega ráð fyrir að þessir aðilar fjalli um málið af þekkingu.

Annar hópur fólks, sem samanstendur m.a. af þingmönnum og svonefndum umhverfisverndarsinnum, en síður af sveitarstjórnarmönnum og fólki úr atvinnulífinu, leggst gegn því að ráðist verði í frekari stóriðju. Rökin gegn stóriðjunni eru af ýmsum toga, m.a. þau að orkulindirnar séu takmarkaðar.

En hvernig má þetta vera? Um áratuga skeið hafa ráðamenn þjóðarinnar klifað á því að mikil orka sé fólgin í vatnsföllum Íslands. Og eftir að vandræðunum við Kröfluvirkjun lauk bættist við fjöldinn allur Jarðhiti á Íslandi - Sigmundur Einarssonaf háhitasvæðum sem sýndust vænlegir virkjunarkostir þannig að orkuforðinn virtist orðinn nær óþrjótandi. Fyrir örfáum árum var síðan bætt um betur þegar sá kvittur kom upp að með djúpborunum mætti fimm- eða tífalda þá orku sem unnt væri að ná úr háhitasvæðunum. Er nema von að fólk velti því alvarlega fyrir sér hvort ástæða sé til að leiða rafmagn um sæstreng til Bretlandseyja?

En hver skyldi raunveruleikinn vera? Þegar möguleg orkuöflun fyrir álver í Helguvík er skoðuð ofan í kjölinn kemur í ljós að Orkuveita Reykjavíkur og HS Orka geta að líkindum útvegað álverinu um 360 MWe rafafl. Álver með 250 þús. tonna afkastagetu eins og upphaflega var áætlað þarf 435 MWe en nú er ætlunin að byggja 360 þús. tonna álver. Hvað skyldi þurfa til að slökkva orkuþorsta þess? Það þarf heil 630 MWe. Hér vantar um 270 MWe og sú orka er einfaldlega ekki til á Suðvesturlandi. Uppsett afl þriggja virkjana í neðri hluta Þjórsár er áætlað 255 MWe. Það dugar ekki til!

Ef orkuöflun fyrir álver á Bakka við Húsavík er skoðuð á svipuðum nótum kemur í ljós að fyrirhuguð orkuver á háhitasvæðum norðanlands nægja ekki til að útvega 346 þús. tonna álveri nauðsynlegt rafafl. Til að svo megi verða þarf að bæta við orkuveri í háhitasvæðinu í Fremrinámum í Ketildyngju og þar með yrði allur háhiti á Norðurlandi fullvirkjaður. Meira rafafl er ekki að hafa á þeim vígstöðvum.

Miðað við forsendur höfundar hreinsar bygging 360 þús. tonna álvers í Helguvík upp alla fyrirliggjandi og væntanlega virkjunarkosti á Suðvesturlandi og að auki alla mögulega orku frá virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Álver á Bakka hreinsar á sama hátt upp alla virkjunarkosti á öllum háhitasvæðum á Norðurlandi. Þessi niðurstaða fæst með því að víkja öllum umhverfissjónarmiðum til hliðar.

Hér á eftir er gerð nánari grein fyrir því hvernig þessar niðurstöður eru fengnar.

Orkan á suðvesturhorni landsins

Samkvæmt lögum nr. 51/2009 um heimild til samninga um álver í Helguvík, sem samþykkt voru á Alþingi í apríl sl. (í tíð ríkisstjórnar Geirs Haarde), er gert ráð fyrir 360 þús. tonna ársframleiðslu þegar álverið verður fullbyggt. Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur, höfundur greinarinnarSama framleiðslugeta er tilgreind á heimasíðu Norðuráls. Þrátt fyrir ábendingar um að orkan á suðvesturhorninu muni ekki nægja og jafnvel þurfi að sækja orku austur í Þjórsá hafa hvorki stjórnvöld né framkvæmdaraðilinn, Norðurál, borið við að skýra málið. Þá verðum við einfaldlega að skoða málið sjálf. Við finnum allar nauðsynlegar upplýsingar á netinu eins og fram kemur í heimildaskrá.

Byrjum á orkuþingi árið 2006. Þar kynnti Orkustofnun nýtt mat á stærð þeirrar orkulindar sem fólgin er í háhitasvæðum landsins. Sveinbjörn Björnsson flutti þar erindi sem hann nefndi Orkugeta jarðhitae (Niðurskrifað e fyrir aftan MW merkir að um sé að ræða framleiðslu rafafls til aðgreiningar frá varmaafli t.d. er áætlað að Hellisheiðarvirkjun muni framleiða um 300 MWe (rafafl) og um 400 MWth (varmaafl)). (Sveinbjörn Björnsson 2006). Afl háhitasvæðanna, miðað við sjálfbæra nýtingu, var reiknað út frá víðáttu svonefnds háviðnámskjarna undir miðju þeirra. Víðáttan er fundin með mælingum á rafleiðni í jarðlögum. Í 1. töflu er sýnt hversu mikið rafafl er áætlað að tæknilega megi vinna úr háhitasvæðunum á suðvesturhorninu og er það samkvæmt mati Orkustofnunar. Einnig er sýnt hversu mikið hefur þegar verið virkjað og eru þær tölur fengnar af heimasíðum orkufyrirtækjanna. Þá er sýnt hversu mikið er eftir óvirkjað. Tölurnar sýna afl mælt í megavöttum eða MW

1.    tafla. Tæknilega vinnanlegt, virkjað og óvirkjað rafafl frá háhitasvæðunum á Reykjanesskaga og við Hengil. Heimild: Sveinbjörn Björnsson (2006), HS Orka hf. (2009), Orkuveita Reykjavíkur (2009a, 2009b).

Svæði

 

Tæknilega vinnanlegt afl (MWe)Virkjað afl 2009 (MWe)Óvirkjað afl 2009 (MWe)
Reykjanes200100100
Eldvörp/Svartsengi1207545
Krýsuvík (Trölladyngja, Sandfell, Seltún, Austurengjar)4800480
Brennisteinsfjöll40040
Hengill (Hellisheiði, Hverahlíð, Bitra, Nesjavellir, Grændalur o.fl.)600333267
Samtals1440508932

Samkvæmt aftasta dálki töflunnar ætti tæknilega að vera hægt að virkja 932 MWe á háhitasvæðunum í Reykjanesfjallgarði og í nágrenni Hengils til viðbótar við þau 508 MWe sem þegar eru virkjuð. Þetta lítur óneitanlega vel út.

Orka fyrir álver í Helguvík

Norðurál hyggst reisa álver í Helguvík með 360 þús. tonna ársframleiðslu. Til samanburðar er framleiðslugeta Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði 346 þús. tonn og afl Kárahnjúkavirkjunar sem nærir álverið er 690 MWe. Upplýsingar um fyrirætlanir Norðuráls í Helguvík er helst að sækja í matsskýrslu um álver í Helguvík frá árinu 2007 (HRV Engineering 2007) en þá var miðað við 250 þús. tonna álver sem þarf 435 MWe rafafl. Í fyrsta áfanga (150 þús. tonn) var miðað við að HS (Hitaveita Suðurnesja, nú HS Orka) útvegaði allt að 150 MWe og OR (Orkuveita Reykjavíkur) allt að 100 MWe samkvæmt viljayfirlýsingu. Í matsskýrslunni segir einnig að samkvæmt viljayfirlýsingunni sé gert ráð fyrir að orkuframleiðendurnir reyni að afla allt að 435 MWe orku fyrir stækkun í 250 þús. tonna afkastagetu. Álver með 360 þús. tonna afkastagetu þarf síðan vart minna en 630 MWe en ekki hefur verið gerð grein fyrir því hvaðan frekari orku er vænst.

Orka til Helguvíkur frá Orkuveitu Reykjavíkur

Í matsskýrslu fyrir 250 þús. tonna álver í Helguvík (HRV Engineering 2007, tafla 11.2 á bls. 65) er fjallað um líklegustu virkjunarkosti HS og OR. Þar er áætlað að OR afhendi alls 100 MWe frá Bitruvirkjun og Hverahlíðarvirkjun á árunum 2010 og 2011 til fyrri áfanga álversins (150 þús. tonn) og síðar 75 MWe frá þessum sömu virkjunum ásamt stækkun Hellisheiðarvirkjunar til annars áfanga álversins (250 þús. tonn). Þá verður heildarframleiðsla raforku á Hengilssvæði orðin 333+100+75=508 MWe. Inn í þessar tölur vantar um 90 MWe stækkun Hellisheiðarvirkjunar sem virðist ætluð Norðuráli í Hvalfirði skv. matsskýrslunni fyrir Helguvík. Hengilssvæðið verður þá fullvirkjað (600 MWe) miðað við mat Orkustofnunar (Sveinbjörn Björnsson 2006) .

Orka til Helguvíkur frá HS Orku

Í matsskýrslu fyrir 250 þús. tonna álver í Helguvík (HRV Engineering 2007) komu fram alvarlegar athugasemdir frá Landvernd vegna hugmynda í frummatsskýrslu um að virkja fjögur svæði á Krýsuvíkursvæðinu, hvert með 100 MW uppsettu afli sem myndi þurrmjólka svæðin á 35-40 árum, þannig að vinnslan yrði ekki sjálfbær. Framkvæmdaraðili setti fram eftirfarandi lista í matsskýrslunni (bls. 64) og segir þar að mögulegir virkjunarkostir HS séu eftirfarandi:

  • Stækkun Reykjanesvirkjunar (3. túrbína) 50 MW
  • Reykjanesvirkjun með tvívökva vinnslurás (ens. binary plant) 70-90 MW
  • Eldvörp/Svartsengi 30-50 MW
  • Krýsuvík I a. (Seltún) 50 MW
  • Krýsuvík II a. (Trölladyngja/Sandfell) 50 MW
  • Krýsuvík I b. 50 MW
  • Krýsuvík II b. 50 MW

Samtals                                                                                          350-390 MW

Í matsskýrslunni um álver í Helguvík er þetta skýrt nánar (tafla 11.2 á bls. 65) og gerð frekari grein fyrir þeim 260 MWe rafafls sem HS ætlar að útvega. Nokkurt hlaup er í tölum varðandi afl frá einstökum svæðum en ætla má að 75 MWe eigi að koma frá Reykjanesi, 25 MWe frá Svartsengi/Eldvörpum og 160 MWe frá Krýsuvíkursvæðinu, samtals 260 MWe. Samanlagt útvegar OR þá 175 MWe og HS 260 MWe, alls 435 MWe, sem er talið nægja fyrir 250 þús. tonna álver.

Eru þessar hugmyndir um 435 MWe til Helguvíkur raunhæfar?

Skyldi þessi framsetning orkukosta standast skoðun? Samkvæmt mati Orkustofnunar á tæknilega vinnanlegu rafafli á Reykjanesskaga og í Hengli er óvirkjað afl á svæðinu 932 MWe.

Ef litið er á framlag Orkuveitu Reykjavíkur verður framleiðsla á Hengilssvæðinu komin í um 600 MWe þegar orka hefur verið afhent til 2. áfanga álvers í Helguvík. Miðað við mat Orkustofnunar (Sveinbjörn Björnsson 2006) verður Hengissvæðið þá fullvirkjað (sbr. 1. töflu). Í þessu sambandi er ástæða til að benda á að í matsskýrslu fyrir Hverahlíðarvirkjun (VSÓ Ráðgjöf 2008) kemur fram að Orkustofnun hefur gert athugasemdir við túlkun OR á orkugetu Hengissvæðisins. Orkustofnun telur rétt að miða við 475 MWe til 100 ára. Fram kemur í matsskýrslunni að OR telur að 475 MW hámark sjálfbærrar vinnslu sem Orkustofnun tilgreinir sé sérlega varfærið. Hér verður ekki tekin afstaða til þessarar deilu og áfram miðað við 600 MWe orkugetu Hengilssvæðisins í samræmi við mat Orkustofnunar frá 2006 (Sveinbjörn Björnsson 2006).

Horfum þá á framlag HS. HS Orka hefur nýlega lokið við matsskýrslu vegna fyrirhugaðrar stækkunar Reykjanesvirkjunar (VSÓ Ráðgjöf 2009). Þar er gerð grein fyrir athugasemdum frá Orkustofnun, en þar segir m.a. „Að öllu samanlögðu er þetta vinnslusvæði fjarri því að standa undir fyrirhugaðri tvöföldun Reykjanesvirkjunar í 200 MWe til lengri tíma". Það eru því takmarkaðar líkur á að af stækkun Reykjanesvirkjunar verði, a.m.k á allra næstu árum. Orkustofnun mat það reyndar svo árið 2006 (Sveinbjörn Björnsson 2006) að tæknilega vinnanlegt afl í Reykjanessvæðinu væri 200 MWe. Svo er að sjá sem svæðið ætli ekki að standa undir væntingum og að mati Orkustofnunar er skýringin talin liggja í misleitni jarðlaga, þ.e. því hve jarðhitinn er bundinn við afmarkaðar sprungur (VSÓ Ráðgjöf 2009). Jarðhitasvæðið í Eldvörpum og Svartsengi (jafnan talið eitt og sama svæðið) virðist vera að ná jafnvægi eftir langvarandi þrýstingslækkun vegna Svartsengisvirkjunar. Þar er ætlunin að vinna um 25 MWe. Vart getur talist ráðlegt að vinna meiri hrávarma úr svæðinu en höfundi er ekki kunnugt um hvort þess gerist þörf vegna fyrirhugaðrar stækkunar. Eftir stækkunina verður svæðið nánast fullvirkjað samkvæmt mati Orkustofnunar (sjá 1. töflu) og ekki líklegt að þar verði frekari orku að hafa.

Langstærsta álitamálið eru hugmyndir HS um virkjanir á Krýsuvíkursvæðinu. Það er stundum flokkað upp í minni svæði s.s. Trölladyngju, Sandfell, Seltún eða Sveifluháls (sem flestir þekkja sem Krýsuvík) og Austurengjar. Um 1970 voru boraðar fjórar rannsóknarholur á Krýsuvíkursvæðinu. Hæsti hiti í borholum mældist um 230°C á tiltölulega litlu dýpi en neðar lækkaði hitinn í holunum. Þessi sérkennilegi árangur varð til þess að ekkert var borað á svæðinu um liðlega 30 ára skeið. Á síðustu árum hefur HS borað tvær holur við Trölladyngju. Árangur virðist ekki lofa góðu og hefur alltént ekki leitt til frekari framkvæmda á svæðinu. Þekking á Krýsuvíkursvæðinu er enn takmörkuð en saga rannsókna þar sýnir að svæðið er í þessu tilliti sýnd veiði en ekki gefin.

Þó að Orkustofnun hafi metið það svo að tæknilega sé unnt að vinna þar allt að 480 MWe er það mat höfundar að í ljósi reynslunnar þurfi að gera ráð fyrir verulega minni vinnslu á svæðinu. Í frummatsskýrslu Norðuráls (HRV Engineering 2007) var sagt að HS vænti þess að geta unnið 4x100 MWe á Krýsuvíkursvæði en eftir athugasemdir var þessi tala lækkuð í 4x50 MWe í matsskýrslu (HRV Engineering 2007). Að lokum var gert ráð fyrir allt að 160 MWe afli frá svæðinu til álvers í Helguvík. Að mati höfundar er skynsamlegt að reikna með að 100 til 200 MWe geti fengist af Krýsuvíkursvæðinu en vart mikið meira. Í þessu sambandi má benda á að Krýsuvíkursvæðið er um margt ólíkt öðrum háhitasvæðum á landinu. Takmörkuð virkni á yfirborði er dreifð um stórt svæði og eini hitinn á yfirborði sem eitthvað kveður að er í Sveifluhálsi við Seltún. Vegna óvenjulegra aðstæðna er því vel líklegt að reiknilíkan Orkustofnunar (Sveinbjörn Björnsson 2006) og forsendur þess henti ekki vel fyrir mat á tæknilega vinnanlegu afli háhitans á Krýsuvíkursvæði. Skýringin liggur einkum í misleitinni vatnsleiðni jarðlaga, þ.e. því að jarðhitinn er bundinn við afmarkaðar sprungur en ekki var gert ráð fyrir þeim þætti í reiknilíkaninu. Þetta á líklega við um öll háhitasvæðin á Reykjanesskaga.

2. tafla. Mat á virkjanlegu afli virkjunarkosta sem tilgreindir eru í matsskýrslu Norðuráls fyrir álver í Helguvík. Heimild: HRV Engineering (2007).

VirkjunÁætlað afl skv. matsskýrslu (MWe)Mat höfundar (MWe)Byggt á:
Hellisheiðarvirkjun (stækkun)2525Orkustofnun
Bitruvirkjun7575Orkustofnun
Hverahlíðarvirkjun7575Orkustofnun
Reykjanesvirkjun (stækkun)750Orkustofnun
Eldvörp/Svartsengi (stækkun)2525Orkustofnun
Sandfell (Krýsuvík)5050höf.
Trölladyngja (Krýsuvík)00höf.
Seltún (Krýsuvík)5050höf.
Austurengjar (Krýsuvík)6060höf.
Samtals435360 

Mat á virkjunarkostum á Reykjanesskaga og í Hengli er sýnt í 2. töflu. Það mat sem leiðir til niðurskurðar er sótt í athugasemdir frá Orkustofnun (VSÓ Ráðgjöf 2009). Miðað er við að Hengissvæðið í heild þoli fyrirhugaða stækkun en ekki er reiknað með viðbótarorku frá Reykjanesi. Áætlað er að 160 MWe fáist af Krýsuvíkursvæði. Öll verndarsjónarmið eru lögð til hliðar og ekki er lagt mat á það hvort samningar takist um orkuvinnslu í landi Krýsuvíkur.

Sé tekið mið af mati Orkustofnunar frá 2006 (sjá 1. töflu) má vænta þess að tæknilega vinnanlegt afl til framleiðslu rafafls á háhitasvæðum á suðvesturhorninu sé um u.þ.b. 932 MWe. Ekki virðist líklegt að það mat standist. OR getur afhent sinn hluta með því að fullvirkja Hengilssvæðið en 75 MWe vantar upp á til að HS geti staðið við sinn hluta. Og hér er verið að fjalla um 250 þús. tonna álver en ekki áformaða 360 þús. tonna verksmiðju!

Hvernig má það vera að í stað 497 MWe umframafls (932alls-435virkjað=497 MWe) á suðvesturhorninu vantar nú 75 MWe til að unnt sé að fóðra 250 þús. tonna álver í Helguvík? Hér munar 497 MWóvirkjað +75 MWReykjanes=572 MWe. Hvað varð um þau? Höfundur hefur skorið orkugetu á Krýsuvíkursvæði niður um 320 MWe, Orkustofnun hefur skorið Reykjanessvæðið niður um 100 MWe (75+25) og höfundur sker Eldvörp/Svartsengi niður um 20 MWe. Þá reyndust 90 MWe vera eyrnamerkt álveri á Grundartanga og 40 MWe eru eftir óhreyfð í Brennisteinsfjöllum (320Krýs+100Reykjanes+20Eldvörp+90Grundart+40Brennist=570). Tvö MWe standa útaf á Hengilssvæði.

Miðað við ofangreint er ljóst að það vantar 75 MWe til að jarðgufuvirkjanir á suðvesturhorninu nægi til að fóðra 250 þús. tonna álver í Helguvík og ekki meira að hafa. Og hvað skyldi þurfa til að slökkva raforkuþorsta 360 þús. tonna álvers? Það vantar 200 MWe til viðbótar. Samtals vantar því um 275 MWe. Nú kynni einhver að halda að einfaldast væri að skreppa austur í Þjórsá og Tungnaá til að sækja meira rafmagn. Viðbótarorku mætti t.d. fá frá vatnsaflsvirkjunum á Suðurlandi. Þar er gert ráð fyrir Búðarhálsvirkjun í Tungnaá með 80 MWe en þau ku vera eyrnamerkt stækkun álvers í Straumsvík. Í Þjórsá neðan við Búrfell er gert ráð fyrir 80 MWe frá Hvammsvirkjun, 50 MWe frá Holtavirkjun og 125 MWe frá Urriðafossvirkjun. Þar mætti því fá 255 MWe. Niðurstaðan er sú að orkan frá neðri hluta Þjórsá dugar ekki til.

Það kann að þykja bíræfni að skera niður orkugetuna á Reykjanesskaga um sem nemur tæplega einu fullvöxnu álveri. En hver skyldi vera ástæða þess að HS vill taka áhættu af að þrautpína jarðhitasvæðin á Reykjanesi og í Eldvörpum/Svartsengi fremur en að virkja við Trölladyngju?

Miðað við forsendur höfundar er ljóst að bygging 360 þús. tonna álvers í Helguvík hreinsar ekki bara upp alla fyrirliggjandi og væntanlega virkjunarkosti á Suðvesturlandi, heldur líka á Suðurlandi.

Orka til álvers á Bakka við Húsavík

Í framhaldi af þessum vangaveltum um orkuöflun fyrir álver í Helguvík er óhjákvæmilegt að líta á virkjunarhugmyndir vegna álvers á Bakka og kanna stöðuna á þeim bæ. Samkvæmt drögum að tillögu að matsáætlun fyrir álver á Bakka við Húsavík (Mannvit 2009b) er gert ráð fyrir 346 þús. tonna framleiðslugetu. Álverið þarf því ámóta mikið rafafl og álver í Helguvík eða um 630 MWe. Ekki hefur verið gerð full grein fyrir því hvaðan orkan á að koma en gera má ráð fyrir að ætlunin sé að hún fáist einkum úr háhitasvæðum á Norðurlandi sbr. 3. töflu.

3.    tafla. Orkuvinnslusvæði fyrir álver á Bakka, tæknilega vinnanlegt rafafl og stærð virkjana. Heimildir: Mannvit (2009b), Sveinbjörn Björnsson (2006), Hönnun hf. (2003).

VirkjunTæknilega vinnanlegt afl (MWe) skv. mati Orkustofnunar 2006Afl fyrirhugaðrar virkjunar (MWe)
Þeistareykir240200
Gjástykki6045
Krafla (stækkun)samtals 24040
Krafla II-150
Bjarnarflag9090
Samtals630525

Samkvæmt töflunni nægir öll tæknilega vinnanleg orka svæðanna nokkurn veginn fullvöxnu áveri á Bakka. Aftasti dálkurinn sýnir hugmyndir framkvæmdaraðila um virkjanir. Hér eru tiltekin 525 MWee til að rafaflið nægi. Sé tekið mið af gögnum sem lögð eru fram í frummatsskýrslu vegna rannsóknarborana í Gjástykki (Mannvit 2009a) er margt sem bendir til að þar sé ekki feitan gölt að flá. Borun rannsóknarholu þar á síðasta ári gefur ekki fögur fyrirheit og því getur ekki talist skynsamlegt að gera ráð fyrir orku þaðan. En hvort sem virkjað verður í Gjástykki eða ekki mun álver á Bakka taka til sín allt virkjanlegt rafafl háhitasvæðanna á Norðurlandi suður í Námafjall og það dugar varla til. Án Gjástykkis vantar um 70 MWe. Eitt háhitasvæði til viðbótar er á Norðurlandi, Fremrinámar í Ketildyngju, sem liggur um 25 km sunnan við Námafjall. Að mati Orkustofnunar (Sveinbjörn Björnsson 2006) er tæknilega vinnanlegt afl þar 120 MWe. Allir virkjunarkostir á háhitasvæðum á Norðurlandi gætu því dugað fyrir 346 þús. tonna álver á Bakka ef tekst að ná mestum hluta af öllu tæknilega vinnanlegu afli en rétt er að hafa í huga að orkuöflun við Kröflu hefur löngum gengið brösuglega. og vantar um 100 MW

Hér hefur sem fyrr verið horft framhjá öllum ágreiningi vegna umhverfismála (það á líka við um Gjástykki sem er vafasamt á öðrum forsendum).

Orkan fyrir okkur og samgöngurnar

Í lokin er rétt að líta á stöðuna eftir þessi tvö álver. Orkunotkun almennings vex um 2% árlega og við viljum kannski eiga til orku til að framleiða eldsneyti á skipa- og bílaflotann og jafnvel fyrir flugvélar. Og var ekki verið að tala um gagnaver og netþjónabú og kísilverksmiðju o.fl. o.fl. Í 4. töflu eru talin upp þau háhitasvæði á hálendinu sem eftir standa þegar frá hefur verið tekin orka fyrir álver í Helguvík og á Bakka.

4.      tafla. Tæknilega vinnanlegt afl í háhitasvæðum utan friðaðra svæða á miðhálendinu samkvæmt Orkustofnun (Sveinbjörn Björnsson 2006).

SvæðiTæknilega vinnanlegt afl (MWe)
Kerlingarfjöll240
Köldukvíslarbotnar120
Samtals360

Tæknilega vinnanlegt afl á háhitasvæðum miðhálendisins er metið 360 MWe. Auk þess er rétt að minna á 40 MWe í Brennisteinsfjöllum. Einhverjir kynnu að sakna hér Torfajökulssvæðisins en það er að mestu innan Friðlands að Fjallabaki og er ekki til umfjöllunar hér fremur en Gullfoss þegar fjallað er um vatnsafl. Og þótt Geysir njóti engrar verndar hefur því svæði einnig verið sleppt af augljósum ástæðum. Það var einnig gert í mati Orkustofnunar árið 2006.

Þessi yfirferð um hinar glæstu og nær óþrjótandi orkulindir íslenskrar þjóðar er að sjálfsögðu fjarri því að vera tæmandi eða fullkomin. En hvort sem okkur líkar betur eða verr þá lítur heildarmyndin nokkurn veginn svona út. Ef reist verða umrædd tvö álver eigum við líklega eftir möguleika á 360 MWe á hálendinu. Og svo eru eftir nokkrir vatnsaflskostir, flestir umdeildir, auk smávirkjana.

Nú er unnið að öðrum áfanga rammaáætlunar á vegum ríkisstjórnarinnar. Um hvað skyldi hún snúast? Af öllum þeim háhitasvæðum sem hér hefur verið lýst sem virkjunarkostum eru aðeins þrjú sem ekki hefur verið gefið út rannsóknarleyfi fyrir. Það eru Brennisteinsfjöll, Kerlingarfjöll og Fremrinámar. Það hefur verið borað í öll hin.

Niðurlag

Álver í Helguvík og á Bakka myndu soga til sín nær alla orkuna frá orkulindum á Suður-, Suðvestur- og Norðausturlandi, ekki bara frá jarðvarmavirkjunum heldur einnig frá vatnsaflsvirkjunum. Þar með er farin nánast öll hagkvæmasta orkan í landinu. Utan miðhálendisins væri þá eftir einn sæmilega stór orkukostur sem er Skatastaðavirkjun í Skagafirði. Vissulega eru virkjunarkostirnir fleiri en þeir eru allir minni og hafa ekki verið taldir sérlega hagkvæmir sem sést af því að þeir hafa ekki verið virkjaðir fyrir stóriðju. Það merkir líklega að þeir séu óhagkvæmir en gætu verið fullgóðir fyrir okkur, pöpulinn.

Því miður er það svo að stóri sannleikurinn um hinar miklu orkulindir Íslands er tómt plat. Þetta eru skýjaborgir sem byggðar eru á raupi óábyrgra manna sem ógerlegt er að vita hvort eða hvað hugsa. Það er fráleitt að æða út í framkvæmdir við álver eins og gert er í Helguvík og halda að það „reddist einhvern veginn" þegar fyrirsjáanlegt er að það reddast ekki.

Sigmundur Einarsson

Helstu heimildir

HRV Engineering 2007. Álver við Helguvík. Ársframleiðsla allt að 250.000 t. Matsskýrsla. http://www.hrv.is/hrv/AlveriHelguvik [skoðað 23.9.2009].
HS Orka hf 2009. http://www.hsorka.is/HSProduction/HSProductionStartPage.aspx?tabnumber=2
[skoðað 24.9.2009].
Hönnun hf. 2003: Bjarnarflagsvirkjun 90 MWe og 132 kV Bjarnarflagslína 1 í Skútustaðahreppi.
Mat á umhverfisáhrifum. Matsskýrsla http://www.landsvirkjun.is/media/mat-a-umhverfisahrifum/MAU_Bjarnarflag_2003_skja.pdf [skoðað 23.9.2009]
Mannvit 2009a: Rannsóknarboranir í Gjástykki Þingeyjarsveit. Frummatsskýrsla. LV-2009/061. http://www.mannvit.is/media/PDF/Rannsoknarboranir_i_Gjastykki_Thingeyjarsveit_Frummatsskyrsla.pdf [skoðað 23.9.2009].
Mannvit 2009b. Álver á Bakka við Húsavík, Þeistareykjavirkjun, Kröfluvirkjun II og háspennulínur frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík. Sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum, Drög að tillögu að matsáætlun. http://www.mannvit.is/media/PDF/Tillaga_matsaaetlun_DROG_netid_200209.pdf
[skoðað 23.9.2009].
Orkuveita Reykjavíkur 2009a. http://www.or.is/UmOR/Veiturogveitusvaedi/Virkjanir/Hellisheidarvirkjun/ [skoðað 24.9.2009].
Orkuveita Reykjavíkur 2009b. http://www.or.is/UmOR/Veiturogveitusvaedi/Virkjanir/Nesjavallavirkjun/ [skoðað 24.9.2009].
Sveinbjörn Björnsson 2006. Orkugeta jarðhita. Í Orkuþing 2006: Orkan og samfélagið - vistvæn lífsgæði. Samorka, bls. 332-342. http://soloweb.samorka.is/Apps/WebObjects/Samorka.woa/1/swdocument/1000810/Orku%C3%BEingsb%C3%B3kin.pdf?wosid=false [skoðað 24.9.2009].
VSÓ Ráðgjöf 2008. Hverahlíðarvirkjun. Allt að 90 MWe jarðvarmavirkjun. Matsskýrsla. http://www.or.is/media/PDF/sk080325-HV_matsskyrsla.pdf [skoðað 24.9.2009]
VSÓ Ráðgjöf 2009. Stækkun Reykjanesvirkjunar og frekari nýting jarðhitavökva. Matsskýrsla. http://vso.is/MAU-Gogn/4-1-mau-staekkun-reykjanesvirkjunar/skjol-og-myndir/09-08-20-endanleg-matsskyrsla.pdf [skoðað 24.9.2009]

 ***************************************************

Guðmund Pál Ólafsson hef ég minnst á áður hér á síðunni. Guðmundur Páll er líffræðingur að mennt, náttúrufræðingur og einn af ötulustu, núlifandi baráttumönnum fyrir íslenskri náttúru. Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 2. október.

Corporate Iceland - Guðmundur Páll - Fréttablaðið 2. október 2009

 *************************************************

Að lokum vek ég athygli á þessari frétt sem birtist í Fréttablaðinu í gær, 3. október. Hér koma fram upplýsingar sem ýmsir hafa bent á, s.s. hve hrikalega dýrt hvert starf í stóriðju er. Mörgum er í fersku minni úttekt Indriða H. Þorlákssonar á efnahagslegum áhrifum stóriðju á Íslandi sem hann birti í febrúar sl. (sjá viðhengi neðst í færslunni). Niðurstöður Indriða eru sláandi - lesið skjalið. Lokasetning Indriða hljóðar svo: "Í pólitískri umræðu, m.a. um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu, eru allir sammála um að náttúruauðlindirnar séu eign þjóðarinnar og að tryggja beri yfirráð yfir þeim. Það er holur hljómur í þeirri umræðu á sama tíma og náttúruauðlindunum er ráðstafað í þágu útlendinga og þeim gefinn arðurinn af þeim." Er hægt að vera ósammála þessu? Þegar við bætist það sem Finnbogi segir hér að neðan, að stóriðjustörf séu dýrustu störf í heimi, er þá ekki nokkuð ljóst að við erum að borga stórfé með stóriðju - og þá er ekki metin til fjár eyðilegging náttúru landsins?

Stóriðjustörf dýrust í heimi - Fréttablaðið 3. október 2009


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband