Færsluflokkur: Bloggar
19.5.2009
Æmt og skræmt í eldhúsinu
Það er ekki oft að ég nenni að horfa og hlusta á eldhúsdagsumræður - sem ég held að heiti "Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra" á virðulegu þingmáli í messu með hálstau. En það gerði ég í gærkvöldi - frá upphafi til enda. Vaðallinn í sumum fór reyndar inn um annað og út um hitt og mér finnst ótrúlegt að hlusta á fáfengilegt röflið í fulltrúum þeirra stjórnmálaflokka sem áttu stærstan þátt í að koma þjóðinni á hausinn. Þeir skjóta eiturörvum út og suður og kvarta sáran yfir að ekki sé búið að moka flórinn sem flokkarnir þeirra sáu um að dreifa í tonnavís í 12 til 18 ár. Eins og það sé hægt á örfáum vikum eða mánuðum.
Þessi tvískinnungur minnir óneitanlega á framferði auðjöfranna og furðulegt nöldrið í þeim um "þjóðnýtingu" og "ríkissósíalisma" eins og Egill bendir á hér. Bjarni Ben var líka fyrirsjáanlegur þegar hann eyddi mestöllum ræðutíma sínum í að tala máli kvótakónganna. Ekkert nýtt þar.
Sigmundur Davíð kom mér á óvart... og þó ekki. Framsókn er Framsókn hvort sem um er að ræða nýja vendi eða gamlar, úr sér gengnar og rispaðar plötur. Hann var fram úr hófi æstur og einkennilega ómálefnalegur miðað við efni og aðstæður. Ef marka má framgöngu og orð Bjarna og Sigmundar Davíðs er lítil von um að allir flokkar taki höndum saman og bjargi þjóðinni. Þeir ætla ekki að vera samvinnufúsir og Bjarni er harðákveðinn í að vernda kvótakóngana sína.
Ég vil annars leiðrétta leiðan misskilning sem víða veður uppi. Margir tala um að búsáhaldabyltingin hafi breytt öllu. Sagt er að allt hafi gerst 20. janúar fyrir framan Alþingishúsið og síðan fyrir utan Þjóðleikhúsið... var það ekki kvöldið eftir? Að þessir atburðir hafi valdið stjórnarslitunum. Þetta er röng söguskoðun. Frá því í byrjun október stóð Hörður Torfason á hverjum degi á Austurvelli og mótmælti. Þau mótmæli þróuðust síðan í laugardagsfundina sem héldu áfram viku eftir viku, mánuð eftir mánuð.
Hægt er að rekja sögu laugardagsfundanna á blogginu mínu, ég hef skrifað um þá velflesta, held ég. Þessi pistill er frá 17. október og þar furða ég mig á slakri mætingu og viðhorfi til mótmæla. Þennan skrifaði ég 3 dögum seinna og gagnrýni fjölmiðlaumfjöllun og talningu. Hér er pistill um 21. janúar, búsáhaldabyltinguna, og hér skrifa ég um laugardagsfundinn þar á eftir, þann 25. janúar, sem var líklega sá fjölmennasti fram að því.
Kjarni málsins er, að mótmælin byggðust upp og mögnuðust. Róuðust í jólamánuðinum en urðu síðan æ öflugri og náðu hámarki í lok janúar. Samt fannst mér aldrei nógu margir mæta og ég skildi ekki af hverju öll þjóðin kom ekki á Austurvöll. En Búsáhaldabyltingin, Kryddsíldarmótmælin á gamlársdag og Þjóðleikhúsmótmælin voru afleiðing, ekki orsök. Það má ekki gleyma laugardagsfundunum á Austurvelli og hlutverki þeirra - og Harðar Torfasonar - þegar talað er um byltinguna. Svo ekki sé minnst á alla frábæru Borgarafundina sem Gunnar Sigurðsson og félagar stóðu fyrir. Og það var ekki bara fólkið í Borgarahreyfingunni eða kjósendur hennar sem gerðu þessa byltingu. Hreyfingin getur ekki eignað sér hana þótt fólkið innan hennar hafi verið duglegt að mótmæla og tala á fundum. Á mótmæla- og borgarafundina mætti fólk úr flestum flokkum, ef ekki öllum. Ævareiðir Íslendingar sem fannst á sér brotið og kröfðust réttlætis. Sem við höfum reyndar ekki fengið ennþá. En við sem mættum og létum í okkur heyra eigum öll hlutdeild í búsáhaldabyltingunni - hvort sem við erum innan flokka eða utan, hægri-, vinstri- eða miðjusinnuð. Eða bara ópólitísk með öllu.
En hér eru eldhúsdagsumræðurnar - klippt eftir flokkum. Sumir æmta og skræmta, aðrir tala af skynsemi og yfirvegun. Dæmi hver fyrir sig.
Borgarahreyfingin
Vinstri hreyfingin - grænt framboð
Samfylkingin
Framsóknarflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
17.5.2009
Síðasta Silfrið á sólríkum sumardegi
Ég er löngu búin að klippa og hlaða inn Silfrinu en hef hikað við að skrifa og birta færsluna. Átta mig ekki alveg á af hverju. Kannski af því þetta var síðasti þátturinn í bili - þangað til í haust. Kannski finnst mér einhver punktur vera settur aftan við eitthvað, að kafla í lífinu ljúki þegar ég hef komið þessu frá mér. Ég veit það ekki, en hitt veit ég - að ég á eftir að sakna Egils og Silfursins hans alveg óskaplega. Og það er einhver óhugur í mér við tilhugsunina um að Egill fari í frí með Silfrið... og jafnvel bloggið sitt líka. Það er sem mig gruni að óprúttnir aðilar sjái sér leik á borði í fjarveru hans. En sjálfsagt er það nú bara ímyndun og ég sé fram á að eiga sjálf frí á sunnudögum næstu vikur og mánuði.
Í mínum huga hefur Egill Helgason, Silfrið hans á RÚV og bloggið hans á Eyjunni gegnt gríðarlega mikilvægu lykilhlutverki frá því hrunið varð í haust. Ég er sannfærð um að flestir hugsandi Íslendingar eru sammála því - hvort sem þeir eru alltaf sammála Agli og nálgun hans eða ekki. Eða getur einhver hugsað sér liðinn vetur án Silfursins? Ekki ég. Ekki frekar en mótmælafunda Harðar Torfa á Austurvelli og Borgarafunda Gunnars og félaga í Iðnó, á Nasa og í Háskólabíói. Ef við horfum á heildarmyndina og samspil allra þessara þátta - auk frétta, Kastljóss, Íslands í gær, netmiðla og bloggs - þá sést glögglega hve miklu umfjöllun allra þessara miðla, fjölmiðlafólks, bloggara og samtakamáttur almennings hefur áorkað í vetur.
En betur má ef duga skal. Eins og kom glögglega fram í máli margra í Silfrinu í dag eru ennþá ótalmargir pottar brotnir og ástandið skelfilegt. Ég minni á greinar Ólafs Arnarsonar sem ég benti á í gær í þessari færslu og minnst er á í fyrsta kafla Silfursins - og bókina hans. Mér skilst að fljótlega sé von á annarri bók um hrunið eftir sagnfræðinginn Guðna Th. Jóhannesson.
Ég bendi líka á þennan pistil Baldurs McQueen um pólitíska ábyrgð - og skort á henni hjá íslenskum stjórnmálamönnum. Við vitum ekki einu sinni ennþá hvaða íslensku stjórnmálamenn voru í fjárhagslegum tengslum við bankamenn og útrásarauðmenn en kjósum þá samt aftur til trúnaðarstarfa á þingi. Án þess að vita sannleikann um... ja... nokkurn hlut raunar. Það er enn svo margt óupplýst og leyndinni er vandlega viðhaldið.
Mig langar að nota þetta tækifæri og þakka Agli fyrir veturinn. Þakka honum fyrir að standa vaktina svona vel. Og fyrir að fá í þáttinn til sín allt þetta frábæra fólk sem þar hefur upplýst okkur og frætt, leitt okkur ýmislegt fyrir sjónir, bent á og útskýrt, huggað og hughreyst. Takk fyrir mig.
Vettvangur dagsins 1 - Ólafur Arnarson, Sveinn Aðalsteins, Andri Geir og Sigrún Davíðs
Vettvangur dagsins 2 - Lára Ómars og Eiríkur Stefáns
Bloggar | Breytt 18.5.2009 kl. 01:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
17.5.2009
Nærmynd af Jóhönnu Guðrúnu
Ég held það sé við hæfi að birta þessa nærmynd af Jóhönnu Guðrúnu úr Íslandi í dag 17. febrúar sl. - eftir að hún hafði unnið íslensku forkeppnina.
Svo er rétt að bæta þessu við - Fréttir RÚV 17. maí 2009.
Og auðvitað Kastljósinu sem efnt var til í tilefni dagsins.
Bloggar | Breytt 18.5.2009 kl. 00:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2009
Kolbrún og smásálirnar
Sú var tíðin að Kolbrúnu Bergþórsdóttur tókst hvað eftir annað að koma mér á óvart í pistlum sínum. Það var einkum mannfyrirlitning hennar sem mér fannst undarleg, sem og sýn hennar á íslensku þjóðarsálina. En ei meir, ei meir. Ég hef líklega metið Kolbrúnu rangt - á einn eða annan hátt. Svona hljóðar pistill hennar í Mogga dagsins. Nú er þjóðarsál í kreppu orðin smásál dauðans að hennar mati. Æ, æ, Kolla...
Svona skrifaði Kolbrún í desember.
Og hér ver Kolbrún ofurlaunin - réttlætir þau m.a. með ábyrgð. Hvaða ábyrgð?
Fleiri pistla Kolbrúnar má sjá hér. Ég uppfæri öðru hvoru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
16.5.2009
2. sætið á 10 ára fresti...
...og úti þess á milli? Ég er einn minnsti Júróvisjónsérfræðingur landsins en þekki þó stigagjöfina nokkuð vel. Enda er hún það eina sem ég hef fylgst með nokkuð lengi. Fátt kom á óvart við stigagjöfina í kvöld en þó var ekki eins eindregin slagsíða á henni og undanfarin ár. Kannski er það vegna hins breytta fyrirkomulags.
Svo vill til að einu lögin sem ég hafði lagt mig eftir og hlustað/horft á voru einmitt íslenska og norska lagið. En í kvöld var maður í stofunni hjá mér sem kallaði og hrópaði álit sitt á hinum lögunum sem ég sinnti þrifnaði, svalaskrúbbi, gluggaþvotti og öðrum skemmtilegheitum. Hann hefur haft tónlist að aðalatvinnu mestallt sitt líf og honum fannst norska lagið langbest - tónlistarlega séð. Var reyndar líka mjög ánægður með það íslenska.
Ég er ekki viss um að allir hafi áttað sig á því, að Rybek - flytjandinn sjálfur - samdi bæði lag og texta norska lagsins. Hann var vel að sigrinum kominn, guttinn.
Ég hafði spáð íslenska laginu 3. - 7. sæti svo 2. sætið kom skemmtilega á óvart. Þökk sé Norðmönnum. En í ár eru einmitt 10 ár síðan Selma lenti líka í 2. sætinu, munið þið...? Heyrir einhver samhljóm með því og íslenska laginu í ár?
Hér eru sigurlögin tvö - það norska og íslenska - og lokahnykkur atkvæðagreiðslunnar.
Bloggar | Breytt 17.5.2009 kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.5.2009
Sofandi að feigðarósi - aftur?
Bók Ólafs Arnarsonar, Sofandi að feigðarósi, hefur verið mjög umtöluð síðan hún kom út fyrir nokkrum vikum. Í gær hitti ég konu sem hefur lesið hana og hún sagði að undiraldan í bókinni - það sem látið er ósagt en lesa megi á milli línanna - væri ekki síður áhugavert en sjálfur texti bókarinnar.
Ólafur var gestur í Silfri Egils 26. apríl sl.
Ólafur skrifaði vægast sagt athyglisverða grein í Pressuna sl. fimmtudag og var auk þess gestur Björns Inga Hrafnssonar í Markaðnum á Stöð 2 sama kvöld. Hann fylgdi greininni eftir með þessu ákalli í gær - Í guðs bænum opnið augun!
Markaðurinn með Birni Inga 14. maí sl.
Í kjölfarið skrifaði Jón Baldvin Hannibalsson opið bréf til viðskiptaráðherra í gær sem ráðherrann svarar á sama vettvangi í dag og útilokar ekki skuldaafskriftir. Öll þessi umræða fer fram á Pressunni.
Mér virðist almenningur búinn að skipta um gír og vera hálfdottandi á verðinum. Eftir hamfarir vetrarins er eins og margir hafi lagst í dvala. Þetta gerðist fyrst eftir að minnihlutastjórnin tók við í byrjun febrúar. Þá var eins og mörgum hafi fundist málin leyst, þeir hættu að mæta á mótmæla- og borgarafundi og vísir að fyrra sinnuleysi fannst greinilega. Mánuðinn fyrir kosningar komst lítið annað að en undarlegur, flokkspólitískur skotgrafahernaður og hann hefur haldið áfram eftir kosningar.
Furðuleg, einskis verð mál eins og eignarhald þingflokksherbergja, sykurskattur, hneykslan yfir að nokkrir þingmenn hafi ekki mætt í messu fyrir þingsetningu og fleira í þeim dúr hafa keyrt ýmsa mikilvægari umræðu í kaf. Svo virðist sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur ætli að vera á móti góðum málum á þingi - bara af því þeir eru í stjórnarandstöðu og "hefðin" kveður á um að þá eigi þeir að vera á móti málum stjórnarflokkanna. Þetta er auðvitað algjört rugl. En Borgarahreyfingin virðist ekki ætla að detta í þennan fúla pytt flokkspólitísks skotgrafahernaðar á kostnað þjóðarinnar. Vonandi sjá hinir flokkarnir að sér og styðja góð mál stjórnarinnar. Og öfugt. Stjórnarflokkarnir verða líka að átta sig á því, að ekki er allt alslæmt sem frá stjórnarandstöðuflokkunum kemur og gefa málum þeirra tækifæri - ef þau eru þess virði.
Pólitískar eða persónulegar flokkaerjur, svo ekki sé minnst á siðlausa og gjörspillta hagsmunagæslu örfárra auðmannahópa í samfélaginu er allsendis óviðeigandi eins og ástandið í íslensku þjóðfélagi er um þessar mundir. Við verðum ÖLL að gera þá kröfu til ráðherra og alþingismanna að þeir láti hagsmuni almennings ganga fyrir - alltaf, í öllum málum. Enn og aftur bendi ég á þennan Krossgötuþátt og hvet alla til að hlusta. Ég mæli líka með að fólk rifji upp þennan pistil, horfi og hlusti á viðtölin við Vilhjálm Árnason, heimspeking og prófessor, þar sem hann segir stjórnmálin líða fyrir valdhroka.
Og fjölmiðlarnir verða að standa vaktina. Fréttamenn verða að vera þeir hliðverðir lýðræðisins sem Óðinn Jónsson, fréttastjóri RÚV, segir þá vera í þessum pistli sínum. Þetta Lykla-Péturshlutverk frétta- og blaðamanna er með mikilvægustu hlutverkum í því þjóðfélagslega leikriti lífsins sem leikið er af íslensku þjóðinni um þessar mundir og þeir mega ekki klikka. Ábyrgð þeirra er slík að frammistaðan getur skipt sköpum fyrir framtíð þjóðarinnar. Við megum ekki fljóta sofandi að feigðarósi - aftur!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Frumgerðin frá 1991 (þarna er hljómsveitin ennþá - allt annað líf!)
Eftirlíkingin - norskur húmor 2008 (góðir!) - Lagið er greinilega klassík
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.5.2009
Ógleymanlegt bréf til Egils
Eins og þeir vita sem lesa blogg Egils Helgasonar reglulega birtir hann oft bréf sem hann fær. Stundum nafnlaus, stundum fylgja nöfn bréfritara. Þau eru misjöfn, þessi bréf. Sum eru stútfull af upplýsingum, góðum pælingum og öllum mögulegum fróðleik. Önnur lýsa persónulegum upplifunum fólks og snerta mann á annan hátt. Öll skipta þau máli í umræðunni og Egill velur þau yfirleitt af kostgæfni, að því er virðist.
Á hádegi í gær birti Egill nokkur bréf. Eitt þeirra hefur verið að velkjast í huga mér síðan og ég losna ekki við það úr huganum. Ég er búin að lesa bréfið þrjátíu sinnum og það er með ólíkindum. Bréfið vekur upp í mér gríðarlega reiði, nístandi sárindi, óskaplega skömm og djúpa sorg. Ég hef þráspurt sjálfa mig síðan ég las það hvers konar samfélag hefur fóstrað svona fólk. Hvort þeir séu margir sem hugsa svona. Hvernig hægt sé að vera svona þenkjandi í þessu litla samfélagi okkar. Svona eigingjarn og sérgóður á meðan þjóðinni blæðir út. Hvers konar siðferði hefur mótað slíka sérhagsmunagæslumenn sem gefa skít í allt og alla nema sjálfa sig?
Bréfið segir mikla og stóra sögu í látleysi sínu. Takið eftir eignarhaldi jöklabréfanna. (Vill einhver fjölmiðill vinsamlegast komast að eignarhaldi þeirra!) Ég skil mætavel niðurstöðu og ákvörðun bréfritara. Spurning hvort maður fetar í fótspor hans. Svona hljóðar bréfið:
"Ég var í samkvæmi um helgina. Þar var maður sem sagðist eiga nokkur hundruð milljónir í jöklabréfum skráð á félag á Tortóla. Hann sagðist ekki sjá ástæðu til þess að gefa tommu eftir, hann hefði jú fjárfest í góðri trú. Stuttu seinna fóru umræðurnar að snúast um afturköllun aflaheimilda. Útgerðarmaður í hópnum hló að þessar ríkisstjórn og sagði að þeir myndu fljótlega ganga á vegg með þetta. Þarna töluðu allir digurbarkalega um að verja rétt sinn og aflandseyjar.
Í dag opnaði ég netbankann minn. Teygjulánið var komið inn (skipti um íbúð rétt fyrir hrun og náði ekki að selja hina). Það sem á að bætast aftan við lánið er sett í reitinn VANSKIL. Mér sortnaði fyrir augum, það hvarf hjá mér öll löngun til að hjálpa þessu landi. Ég hafði jú fengið erlent lán hjá bankanum, en nokkrum vikum seinna hringdi sami bankinn og bað mig um að setja allan sparnaðinn í sjóð 9 því að það væri svo pottþétt.
Ég hef vel undan að borga en löngunin er horfin. Ég hringdi í lögfræðing og ætla að skipuleggja þrot mitt fram í tímann."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
14.5.2009
Það ku vera gott að búa í Kópavogi
Enda vita Kópavogsbúar alltaf hvernig útsvarinu þeirra er varið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.5.2009
Athyglisverð umræða
Hér eru tveir menn heldur betur á öndverðum meiði. Ég veit ekki hvers vegna (jújú, ég veit það alveg), en ég trúi ekki einu orði sem frá kvótakóngunum og LÍÚ-grátkórnum kemur. Frá því ég man eftir mér hafa útgerðarmenn vælt og volað endalaust. En ég get ekki með nokkru móti séð að þeir hafi það skítt. Ekki bera þyrlukaup, bílafloti, laxveiðar og aðrir lifnaðarhættir það með sér. Hefur einhver spáð t.d. í "eignasafn" Samherjamanna? Eða er þetta kannski allt út á krít eins og hjá útrásarauðmönnum - og við sitjum uppi með skuldir þeirra ef illa fer? Kvótinn ku jú vera veðsettur fyrir hundruði milljarða mörg ár fram í tímann - vegna græðgi kvótakónganna. Þetta verður að stöðva.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)