Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Tilhugalíf og siðferði í Silfrinu

Silfrið er í vinnslu en mig langar að benda á tvö atriði sem þar komu fram áður en lengra er haldið.

Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson voru ægilega sætir í blússandi tilhugalífi og kærleikurinn milli þeirra var nánast áþreifanlegur. Enda gat Össur ekki á sér setið undir lok umræðunnar, greip þéttingsfast í hönd Ögmundar og horfði á hann kærleiksríku augnaráði. Ég er viss um að það er auðvelt að láta sér þykja vænt um Ögmund en minnist þess ekki að hafa séð svona umbúðalausa tjáningu í Silfrinu áður.

Tilhugalífstjáning í beinni - Silfur Egils 26. apríl 2009

Hér er örstutt úrklippa af kærleikshandtaki Össurar

Ég hrökk eiginlega í kút við þessi ummæli Þorgerðar Katrínar og mig langar að biðja einhvern sem þekkir hana (ef hún les þetta ekki sjálf) að benda henni á Krossgötuþáttinn í færslunni hér á undan og umræðurnar þar. Að þessi kona í þessum flokki með afar vel þekkt, alltumlykjandi siðleysi skuli voga sér að ýja að siðferði manns sem var kosinn á þing fyrir nokkrum klukkutímum. Það segir mér að hún hafi ekkert lært og muni ekkert læra. Bendi á skilmerkilega frásögn Þráins um tilkomu heiðurslaunanna hér.


Páskahugvekja í Íslendingasagnastíl með goðafræðiívafi

Hún er hádramatísk, páskahugvekjan í ár. Klassísk minni sem prýða Biblíuna, Íslendingasögurnar, goðafræðina og spennusögur ýmislegar skjóta upp kollinum. Bakarar eru hengdir fyrir smiði, krossfestingar njóta vaxandi vinsælda (enda páskar), vegið er grimmt úr launsátri, öldungar tala í óráðnum gátum og vita lengra en nef þeirra nær, safnað er liði og fylkingar berjast að Sturlunga sið. Sjálfskipaðir Gissurar, Kolbeinar, Sturlur, Sighvatar og Eyjólfar ofsar eru stokknir á svið og nú bíður lesandinn/áhorfandinn þess hverjir liggja í valnum að bardaga loknum. Og hvernig unnið verður úr lyktum hans.

"Þau tíðkast hin breiðu spjótin," sagði Atli Ásmundsson þegar Þorbjörn öxnamegin rak hann í gegn með fjaðraspjótinu í Grettis sögu. Gera má ráð fyrir að nú sé spjótum af ýmsum breiddum veifað í Valhöll af miklum móð. Að einhverjir liggi að lokum í valnum eða hverfi alblóðugir af orrustuvellinum og mæli djarflega af munni fram: "Þær tíðkast hinar breiðu axlirnar". Á baki þeirra hangir skilti hvar stendur skýrum stöfum: "To be continued..."

Þannig var nefnilega til forna að Óðinn safnaði þeim sem dóu í bardaga til bústaðar síns, Valhallar. Þeir börðust síðan á Iðavelli á daginn en á kvöldin átu þeir kjöt af geltinum Sæhrímni og drukku mjöð úr spenum geitarinnar Heiðrúnar. Ef ég man rétt þótti þetta eftirsóknarvert hlutskipti í þá daga.

En nú um stundir er athæfi þetta kallað "að græða á daginn og grilla á kvöldin" og hefur verið afar vinsælt hjá vissum hópi þjóðarinnar. Ef heldur sem horfir snarfækkar í þeim hópi dag frá degi eftir því sem ljóstrað er upp um blekkingarnar, hverja á fætur annarri.

Þetta voru fyrstu kaflar páskahugvekjunnar 2009. Bætt verður við eftir því sem fram vindur sögunni. Miðað við efnistök hugvekjunnar má búast við að sumarsmellurinn í ár fjalli um styrki til einstakra frambjóðenda í öllum flokkum, jafnt í prófkjörum, alþingis- og sveitastjórnarkosningum undanfarinna ára. Við bíðum spennt.


Guðfaðir efnahagskreppunnar?

Hann Baldvin benti mér á þetta myndband og þegar ég byrjaði að spila það hélt ég að þetta væri grínþáttur og skellti upp úr. Þið sjáið strax hvers vegna. En svo kom í ljós að þarna sat amerískur hrokagikkur og talaði yrir hausamótunum á þremur yngissveinum og einum kunnuglegum þáttarstjórnanda. Sá ameríski er með allt á hreinu og gerir lítið úr öðrum spekingum, fræðimönnum og kenningum. Aðeins hans eigin á rétt á sér. Kunnuglegt stef.

Maðurinn minnir óþægilega á lærisveina hans hér á landi sem við þekkjum öll mætavel og hafa átt stóran þátt í efnahagshruninu. Ónefnd Járnfrú í Bretlandi hafði víst líka miklar mætur á honum. Ekki ætla ég að dæma um hvort hagfræði spekingsins er alvöruhagfræði eins og lærisveinarnir segja eða þvættingur eins og allir hinir segja en hún er að minnsta kosti í ætt við svæsin trúarbrögð. Og trúarbrögð eru alltaf vandmeðfarin og geta verið stórhættuleg ef þeim er stýrt af misvitrum besservisserum.


Nappaði þessari frá Jóni Steinari - frábær mynd sem gæti heitið "Lærisveinarnir" eða "Þrír vinir og einn í fríi"

Lærisveinarnir Davíð og Geir - á myndina vantar Hannes Hólmstein

Hátíð kristni eða sólstöðuhátíð

Vetrarsólstöður (eða vetrarsólhvörf) eru á tímabilinu 20. - 23. desember.  Breytileiki dagsetningarinnar mun fyrst og fremst stafa af hlaupársdögum en oft er einfaldlega miðað við 21. desember í daglegu tali.  Á vetrarsólstöðum er dagurinn stystur, síðan fer hann að lengja smátt og smátt og það grillir í vorið handan við sjóndeildarhringinn þótt erfiðir og jafnvel hundleiðinlegir vetrarmánuðir séu fram undan.  Hér er skemmtileg umfjöllun Almanaks Háskóla Íslands um hænufetið, en ein merking orðsins er einmitt lenging sólargangsins dag frá degi eftir vetrarsólstöður.

Sumum líkar myrkrið vel, öðrum illa, mörgum er slétt sama um það.  Myrkrið í umhverfinu má auðveldlega lýsa upp en þeir eru verr settir sem upplifa myrkur í sálartetrinu líka.  En hver hefur líklega sinn háttinn á að eiga við það eins og annað.

Kannski væri öllum hollt að setja ytra myrkrið sem við upplifum í samhengi við söguna.  Ísland hefur verið byggt í rúm 1100 ár.  Við höfum haft rafmagn í tæp 100 ár.  Það er um 9% af þeim tíma sem landið hefur verið í byggð.  Vetrarmyrkrið sem við búum við í raflýstri veröld nútímans hefði líklega verið sem sólbjartur sumardagur í augum forfeðra okkar.  Við erum lánsöm og okkur ber að þakka þeim sem byggðu þetta land og þraukuðu í kulda og myrkri með því að bera tilhlýðilega virðingu fyrir sögunni í víðasta skilningi þess orðs.

Forfeður okkar, frumbyggjar Íslands, vissu hvað um var að vera í náttúrunni á þessum árstíma og héldu hátíð sem síðar breyttist í kristna jólahátíð.  Það er svo sem sama hvaðan gott kemur og upplagt að gleðjast í skammdeginu og fagna hækkandi sól, hvað sem við köllum þessa ágætu hátíð.

Gleðileg jól, njótum sólstöðuhátíðarinnar.


Við skulum ekki vetri kvíða

Við skulum ekki vetri kvíða,
vænn er hann á milli hríða.
Skreyttur sínum fannafeldi,
fölu rósum, stjörnueldi
dokar hann við dyrastaf.
Ekkert er á foldu fegra,
fagurhreinna, yndislegra
en nótt við nyrzta haf.

Við skulum ekki vetri kvíða,
vorið kemur innan tíða.
Undan fargi ísaþagnar
eyjan græna rís og fagnar,
líkt og barn, sem lengi svaf.
Kviknar landsins ljósa vaka.
Ljóð og söngva undir taka
himinn, jörð og haf.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.  Síðustu ljóð, 1966.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband