Færsluflokkur: Tónlist

Nýr vettvangur fyrir Egil Helga

Mikið hefur verið rætt og ritað í dag um orð Björns Bjarnasonar um Egil Helgason og meinta hlutdrægni hans. Á undan Birni tjáðu sig einnig tveir flokksbræður hans, þeir Hannes Hólmsteinn og Sturla Böðvarsson um Egil, Silfrið hans og bloggið. Þessum mönnum hugnast ekki að sannleikurinn komi upp á yfirborðið og almenningur fái tækifæri til að gagnrýna það sem honum þykir gagnrýnivert.

En Egill þarf engu að kvíða. Í fyrsta lagi verður ekki hlustað á þessi skelfingarviðbrögð fyrrverandi valdamanna sem þrá það eitt að halda áfram að stýra umræðunni, eins og þeir hafa gert um árabil, og beita þöggun að eigin geðþótta. Í öðru lagi sýndi Egill í gærkvöldi að hans bíður nýr og glæstur ferill kjósi hann að skipta um vettvang. Það er aldrei of seint að prófa eitthvað nýtt.

Afmælisskaup - Skjár 1 - 20. október 2009

 

Hér er sama lag flutt af Willy Nelson og Ray Charles

 


Framsýni, virðing og óábyrgt raup

Það er ekki seinna vænna að setja þennan Morgunvaktarpistil hér inn því nýr kemur á morgun. Hann var hluti af baráttunni í síðustu viku en ég steingleymdi að birta hann. Pistillinn stendur engu að síður fyrir sínu þótt fresturinn til að gera athugasemdir við Bitruvirkjun sé útrunninn. Hljóðskrá er viðfest neðst.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Tvær helstu sjálfstæðishetjur Íslendinga voru samtímamenn. Þetta voru 19. aldar mennirnir Jón Sigurðsson, kallaður forseti, og Jónas Hallgrímsson, skáld. Margar kynslóðir Íslendinga hafa alist upp við undurfögur ljóð Jónasar Jónas Hallgrímssonog frásagnir af  hvatningarorðum og skörungsskap Jóns.

Meðal þess sem einkenndi ljóð og málflutning þessara tveggja manna var framsýni, ættjarðarást og umhyggja fyrir komandi kynslóðum - okkur, meðal annars. Þeir boðuðu virðingu fyrir náttúrunni og frelsi þjóðarinnar.

Ólíkt hafast menn að nú til dags. Það er ótrúlegt að horfa upp á hamslausa frekju og yfirgang misvitra stjórnmálamanna, hagsmunaafla og þrýstihópa. Ekki hvarflar að þessum mönnum að sýna framsýni eða skynsemi gagnvart landinu og komandi kynslóðum. Eigin stundargróði er það eina sem kemst að hjá þeim þó að ljóst megi vera hverjum sem nennir að kynna sér málin, að fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir fyrir tvö álver þurrausi orkuauðlindir okkar nær algjörlega og ekkert verði eftir í aðra atvinnustarfsemi eða handa afkomendum okkar.

Ómar Ragnarsson, sá mæti baráttumaður, hefur oft sagt söguna af því þegar hann spurði - fyrir margt löngu - einn helsta ráðamann þjóðarinnar sem var illa haldinn af virkjanafíkn, hvað gerðist þegar orkan væri öll uppurin. Sá svaraði um hæl: "Það verður vandamál þeirra sem þá verða uppi." Mig hryllir við slíkum hugsunarhætti sem afhjúpar sérgæsku, fyrirhyggjuleysi og fullkomið virðingarleysi fyrir komandi kynslóðum.

Ég er alin upp við mikla ást og aðdáun á Íslandi og móðir mín þrJón Sigurðssoneyttist aldrei á að tala um hve heppin við værum að vera Íslendingar, eiga þetta dásamlega land með hreinu lofti, tæru vatni og óviðjafnanlegri náttúru. Mér var líka kennt að við ættum landið öll saman og séum samábyrg fyrir framtíð þess. Rétt eins og íbúum á landsbyggðinni kemur við hvað gert er í höfuðborginni þeirra, þá kemur mér við hvernig þeir fara með landið mitt. Svo einfalt er það.

Nú biðla ég til þjóðarinnar - eða þess hluta hennar sem lætur sér annt um náttúruna, tæra vatnið og hreina loftið - Bitruvirkjun er aftur komin á dagskrá. Sveitarfélagið Ölfus er enn með á prjónunum að breyta náttúruperlunni Ölkelduhálsi í iðnaðarsvæði. Frestur til að skila inn athugasemdum við gjörninginn rennur út á morgun, 3. október. Þið getið lesið allt um málið á bloggsíðunni minni - larahanna.blog.is - og ég hvet alla sem þykir vænt um landið sitt og vilja ekki gera Ísland að sóðalegri verksmiðju þakið háspennumöstrum, til að taka þátt í andófinu.

Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur, skrifaði stórfína grein í vefritið Smuguna í gær og sagði meðal annars: "Því miður er það svo að stóri sannleikurinn um hinar miklu orkulindir Íslands er tómt plat. Þetta eru skýjaborgir sem byggðar eru á raupi óábyrgra manna sem ógerlegt er að vita hvort eða hvað hugsa. Það er fráleitt að æða út í framkvæmdir við álver eins og gert er í Helguvík og halda að það "reddist einhvern veginn" þegar fyrirsjáanlegt er að það reddast ekki."

Stöndum með okkur sjálfum, landinu okkar og komandi kynslóðum Íslendinga.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hver er þessi Guðjón?

Hann stóð vaktina fyrir okkur og með okkur í allan fyrravetur. Lék eitt aðalhlutverkið í andófi fjöldans gegn ástandinu, spillingunni, stjórnvöldum og öllu því sem á okkur brann. Við stóluðum á hann - og hann brást okkur aldrei. Hann studdi okkur og gaf okkur von. Var vakandi og sofandi yfir mannréttindum okkar og tjáningarfrelsinu sem hefur blómstrað sem aldrei fyrr eftir hrunið mikla. Hann gerði þetta allt í sjálfboðavinnu. Var launalaus allan tímann. Það veit ég, því ég kynntist honum vel í baráttunni fyrir betra samfélagi. Og þess vegna veit ég að nú þarf hann á okkur að halda. Nú er komið að okkur að styðja hann. Við klikkum ekki á því, er það?

Hörður Torfason, sá mikli baráttumaður og fánaberi mannréttinda, heldur sína 33. hausttónleika í Borgarleikhúsinu annað kvöld, þriðjudagskvöld. Ég hef farið nokkrum sinnum á tónleikana hans og þeir eru alltaf bráðskemmtileg upplifun - sambland af tónlist og leiklist. Frábærlega útfærð tjáning. Stórskemmtilegir textar og grípandi músík.

Ég hef verið að leita að fjölmiðlaumfjöllun um tónleikana, en það eina sem ég fann var viðtal við Hörð á Morgunvaktinni á fimmtudaginn. Þetta hefur komið mér svolítið á óvart, einkum í ljósi þess hve stóru hlutverki hann gegndi í búsáhaldabyltingunni í vetur, aðdraganda hennar og í hve mikilli þakkarskuld þjóðin stendur við Hörð Torfason. Til samanburðar þarf Bubbi bara að prumpa og kvarta um dýrtíð og er þá umsvifalaust í viðtölum í  öllum fjölmiðlum. Mér datt í hug hvort þetta væri hluti af þögguninni en trúi því bara ekki upp á fjölmiðlafólkið. Það hlýtur að hafa eitthvert frumkvæði og sjálfstæði. Engu að síður - maður spyr sig...

En hvað sem því líður - sjáumst í Borgarleikhúsinu annað kvöld, þriðjudagskvöld klukkan 20! Miðar fást hér og í Borgarleikhúsinu.

 
Ég hef glímt við þessa spurningu áratugum saman: Hver er þessi Guðjón? Getur einhver svarað því?
 
 

Lag: Hörður Torfason, Ljóð: Þórarinn Eldjárn

Guðjón lifir enn í okkar vonum
enginn getur flúið skugga hans.
Þér er sæmst að halla þér að honum
hann er gróin sál þíns föðurlands.
Þig stoðar lítt með gulli og glysi að skarta
þú ert sjálfur Guðjón innst í hjarta.

 Ungan léstu sverta þig og svíkja
þú sást ei þá hve margt er blekking tál.
Á fúnu hripi rak þig milli ríkja
hver rakki fékk að snuðr'í þinni sál.
Drjúptu höfði því að það er meinið
þú ert sjálfur Guðjón innvið beinið.

Þannig varstu hrakinn land úr landi
lítilsigldur fóli, aumur, smár.
En nú er burtu villa þín og vandi
þú viknar hrærður, fellir gleðitár.
Þótt illur sért er síst of seint þig iðri
þú ert sjálfur Guðjón undir niðri.

 Brátt mun skína í Guðjón gegnum tárin
gróður lífsins vex úr þeirri mold.
Einhverntíma seinna gróa sárin
er svik við Guðjón brenndu íslenskt hold.
Senn mun koma sá er hlýtur völdin
þú ert sjálfur Guðjón bakvið tjöldin.

Hörður Torfa - Hausttónleikar 2009


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Málefnið er...

Ja, um hvað snerist Málefnið? Icesave eða Davíð? Þátturinn á Skjá einum vakti gríðarlega athygli, svo mikla að Morgunblaðið sagði að Davíð Oddsson hefði sett skjáinn á hliðina. Ég náði a.m.k. engu sambandi við Skjáinn á meðan sýningu stóð og sá ekki þáttinn fyrr en daginn eftir.

En ætla mætti að þátturinn hafi snúist um Davíð Oddsson en ekki Icesave... sem ég held að hafi nú reyndar verið ætlun Sölva og félaga. Mikið hefur verið fjallað um persónu Davíðs eftir sýningu þáttarins, en minna um það sem þar kom fram um Icesave-samninginn. Vissulega kom Davíð inn á Icesave, en virtist búinn að gleyma ýmsu, þar á meðal eigin ábyrgð sem forsætisráðherra og síðan seðlabankastjóra. Sumum reynist erfiðara en öðrum að líta í spegil og enn aðrir virðast ekki eiga neinn spegil. Er ekki rétt að horfa aftur á þáttinn.

Fréttaskýringin um Icesave-málið

 

Davíð Oddsson

 

Árni Páll,  Bjarni Ben, Sigmundur Davíð og Steingrímur Joð

 


Eva Joly, réttlætið og fimmta valdið

Stundum er sagt að allt sem þurfi sé pólitískur vilji til að eitthvað sé framkvæmt. Vel má vera að svo sé á stundum, en oft er það ekki nóg. Það þarf vilja fimmta valdsins, embættismanna í opinberum stofnunum og ráðuneytum.

Nú er staðan til dæmis þannig, að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur hafa verið við völd nokkuð lengi. Þeir flokkar hafa reyndar verið við völd stóran hluta síðustu aldar og fyrstu sjö ár þessarar. Sá ósiður hefur tíðkast á Íslandi, og ekki aðeins í opinbera geiranum, að í lykilstöður eru skipuð flokkssystkin, vinir eða venslafólk. Hæfni og menntun kemur málinu yfirleitt ekkert við þótt á því séu eflaust heiðarlegar undantekningar. Líkast til á þetta við alla flokka, en það hefur reynt meira á suma en aðra.

Æ sér gjöf til gjalda. Þessir pólitískt skipuðu embættismenn, og jafnvel nánir vinir fyrri valdamanna, hafa tögl og hagldir í kerfinu. Þeim er í lófa lagið að leggja stein í götu nýrrar ríkisstjórnar þar sem þeim hugnast ekki að aðrir flokkar en þeirra séu við völd. Þannig koma nýir ráðherrar til starfa í ráðuneyti sem er kannski með pólitíska andstæðinga þeirra í lykilstöðum sem hafa allt aðrar hugmyndir en ráðherrann um menn og málefni. Þetta er afleitt kerfi sem verður að breyta. Afnema verður æviráðningar og gera ráðherrum kleift að hafa í kringum sig fólk sem þeir geta treyst.

Eva JolyÞessar hugsanir hafa leitað á mig undanfarna daga og hvort þetta sé ástæða þess að Evu Joly hefur ekkert orðið ágengt í störfum sínum hér. Hún virðist hafa gengið á veggi og orðið fyrir ýmsum hindrunum. Á hana hefur ekki verið hlustað. Þetta er hneisa og skömm. Ég neita að trúa því að stjórnin sem nú situr vilji ekki rannsaka hrun bankanna. Ef þingmenn hafa lagt við hlustir í dag vita þeir að það hefur allt verið brjálað vegna þeirrar stöðu sem Eva Joly er í og orða hennar. Það þarf ekki annað en stikla í gegnum athugasemdir við þessa bloggfærslu Egils Helgasonar og þessa frétt á Eyjunni. Flest annað ber að sama brunni. Nú þarf ríkisstjórnin að vanda sig. Ragna brást skjótt við og skipaði nýjan ríkissaksóknara í málum sem snúa að þessari rannsókn. Nú bíðum við eftir auknu fjármagni í rannsóknina og fleiri saksóknurum eins og Eva Joly bað um. Illugi Jökulsson skrifaði frábært bréf til ríkisstjórnarinnar á blogginu sínu - sjá hér. Ég tek undir hvert einasta orð í þessu fína bréfi Illuga. Hengi líka neðst í færsluna Spegilsviðtal við undirritaða frá því fyrr í kvöld sem á rætur í bréfi mínu til ríkisstjórnarflokkanna - sjá hér.

Ég klippti saman fréttir RÚV og Stöðvar 2 í kvöld um mál Evu Joly. Fréttin á Stöð 2 er stórfurðuleg. Þar talar "fréttakonan" um að "stjórnvöldum sé stillt upp við vegg" og að Joly vilji að "dælt sé peningum í rannsóknina". Tíundað er hver kostnaður af störfum Joly sé við rannsóknina og svo er klykkt út með  að Eva Joly hafi neitað viðtali við Stöð 2 í dag. Hljómar dálítið eins og fréttin hafi verið sett upp sem hefnd fyrir það. Hún fór reyndar heldur ekki í viðtal hjá fréttastofu RÚV - bara í Kastljós. Og myndmálið er augljós skilaboð líka. Tveir karlar sýndir ábúðarmiklir við skrifborðin sín með tölvurnar fyrir framan sig. Svo er Eva Joly sýnd í förðun og hárgreiðslu fyrir sjónvarpsupptöku eins og tildurrófa og súmmað inn á rós í vasa. Hvað ætli "fréttakonunni" hafi gengið til? Þetta fannst mér ekki faglega unnin frétt.

Fréttir RÚV og Stöðvar 2 - 10. júní 2009

 

Eva Joly í Kastljósi 10. júní 2009

Meira um Evu Joly til upprifjunar.

Silfur Egils 8. mars 2009

 

 Fréttir RÚV 8. mars 2009

Mbl-Sjónvarp 9. mars 2009

NRK2 - Eva Joly um Ísland í norska útvarpinu 12. mars 2009

Hjá Önnu Grosvold í NRK 13. mars 2009

 

 Formlega ráðin - Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 28. mars 2009

 Fyrirspurn til dómsmálaráðherra - Alþingi 8. júní 2009

Norsk heimildarmynd um Evu Joly - fyrri hluti

 

Heimildarmynd - seinni hluti

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gullkorn mannanna

Ef þú vilt vera þjófur skaltu hlusta vel á mig,
steldu nógu miklu og þá semja þeir við þig.
Sá sem stelur litlu skilur ekki baun
í hvernig kerfið virkar
og að lokum lendir inni á Litla Hrauni.

Hljómar sannleikanum samkvæmt, ekki satt? Þetta er brot úr texta á plötu sem kemur út um miðja næstu viku. Lagið sem textinn er úr heitir Þjóðarskútan. Ég hef verið í forréttindahópi undanfarna daga, sem er fátítt en í þessu tilfelli mjög gefandi og skemmtilegt. Ég fékk að hlusta á alla nýju Mannakornsplötuna - Von. Hún er algjört gullkorn.

Eini tónlistarmaðurinn sem hefur komist næst því að vera tónlistarlegt átrúnaðargoð í lífi mínu er Ómar Ragnarsson. Þá var ég um 10 ára og Ómar að hefja feril sinn. Cliff Richard komst ekki með tærnar þar sem Ómar hafði hælana á þeim tíma nema hvað mér hefur líklega fundist Cliff sætari en Ómar. Þó er það alls ekki víst.

Pálmi GunnarssonFyrir utan þetta hefur aðallega tvennt staðið að ráði upp úr í tónlistarsmekk mínum. Mér fannst, og finnst enn, Dark side of the moon með Pink Floyd besta plata allra tíma. Og mér finnst Pálmi Gunnarsson besti söngvari á Íslandi - og eru þeir þó ansi margir mjög góðir. Það er eitthvað töfrandi og seiðmagnað við raddbeitingu Pálma. Hvernig hann tjáir hvað sem hann syngur. Hvernig hann kemur textanum frá sér, svo skýrt en þó eðlilega. Minnir mig á hvernig Hilmir Snær gat látið texta Shakespeares hljóma eins og nútímatalmál á fjölum Þjóðleikhússins um árið. Pálmi er og hefur verið minn uppáhaldssöngvari í fleiri áratugi en ég kæri mig um að muna.

Hitt Mannakornið er auðvitað Magnús Eiríksson. Í augnablikinu man ég ekki eftir öðru eins eintaki af tónlistarmanni. Manni sem getur allt í senn - samið ódauðleg lög og texta, spilað, sungið og líka tekið ljóð skáldanna og samið ógleymanleg lög við þau. Ég er sannfærð um að margir átta sig ekki á hve löng og glæsileg afrekaskrá Magnúsar er. Við heyrum lögin, þau sitja í okkur en við pælum ekkert sérstaklega í hver samdi þau. Man einhver eftir lögum eins og Ég er á leiðinni, Ræfilskvæði, Jesús Kristur og ég, Göngum yfir brúna, Braggablús... Svona mætti halda áfram lengi. Allt lög eftir Magnús og textar eftir hann, Stein Steinarr, Vilhjálm frá Skáholti. Man einhver eftir þessu textabroti:

Ofmetnastu ekki
af lífsins móðurmjólk.
Kirkjugarðar heimsins
geyma ómissandi fólk.
(Ómissandi fólk - lag og texti Magnús Eiríksson)

Einn aðalstyrkur Magnúsar Eiríkssonar sem textahöfundar er að hann hittir Magnús Eiríkssonmann í hjartastað og sem lagahöfundar að lagið hverfur ekki úr huga manns, gleymist ekki. Sumir eru annaðhvort góðir lagahöfundar eða textahöfundar - en Magnús er snillingur í hvoru tveggja.

Þegar þessir tveir leggja saman, Pálmi og Magnús, getur ekki annað en komið út úr því frábær tónlist. Því höfum við fengið að kynnast í hvað... 30 ár? Ég man ekki hvað þeir hafa unnið lengi saman. Ég hef notið þess í tætlur að hlusta á nýju plötuna, Von, aftur og aftur og aftur. Þetta eru fjölbreytt lög - tregi, húmor, rómantík, sorg, ástríða, gagnrýni, háð... Þeir spila á allan skalann. Eitt lagið, Kraftaverk, hefur hljómað á Rás 2 (veit ekki um aðrar útvarpsstöðvar) og ég kannaðist strax við það. Platan verður reyndar plata vikunnar á Rás 2 alla næstu viku. Leggið við hlustir.

Ég beitti öllum mínum sannfæringarkrafti - sem getur verið allnokkur þegar mikið liggur við - við útgefandann til að fá að skrifa um plötuna og birta einn texta og lag. Það tókst og ég þakka fyrir góðfúslegt leyfið, sem er ekki sjálfgefið að fá. Ætli Jens Guð kalli þetta ekki að skúbba. Ég hef aldrei skrifað um tónlist, aldrei langað til þess fyrr. Er enda enginn sérfræðingur eða tónlistarspekúlant og nýt tónlistar með tilfinningunum og hjartanu, ekki höfðinu. En mig langaði að segja frá þessari plötu því tónlistin snerti mig svo innilega. Og ég má til með að nefna umslagið. Það er listaverk, enda eftir Ólöfu Erlu sem ég man eftir að fjallað var um í sjónvarpinu í vetur. Þvílík listakona! Sjáumst í Salnum í Kópavogi á fimmtudaginn - það verður gaman!

Von - Mannakorn - Útgáfutónleikar í Salnum 28. maí 2009

Farðu í friði

Við fæðumst til að ferðast meira,
fæðing dauði er ferðalag.
Margra bíður sultur seyra
en sumum gengur allt í hag.

Öll við fáum okkar kvóta
af meðlæti og mótlæti.
Flest við munum einnig hljóta
okkar skerf af ástinni.

Farðu í friði góði vinur
Þér fylgir hugsun góð og hlý.
Sama hvað á okkur dynur
aftur hittumst við á ný.

Úr hjarta mínu hverfur treginn
er ég hugsa um hlátur þinn.
Bros þitt veitti birtu á veginn
betri um stund varð heimurinn.

Farðu í friði góði vinur
Þér fylgir hugsun góð og hlý.
Þar til heimsins þungi dynur
þokar okkur heim á ný.

Sólin skín á sund og voga
sumar komið enn á ný.
Horfið burt í bláum loga
stjörnublik á bak við ský.

Lag og texti: Magnús Eiríksson


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Síðasta Silfrið á sólríkum sumardegi

Ég er löngu búin að klippa og hlaða inn Silfrinu en hef hikað við að skrifa og birta færsluna. Átta mig ekki alveg á af hverju. Kannski af því þetta var síðasti þátEgill Helgason - Ljósm. Mbl. Kristinnturinn í bili - þangað til í haust. Kannski finnst mér einhver punktur vera settur aftan við eitthvað, að kafla í lífinu ljúki þegar ég hef komið þessu frá mér. Ég veit það ekki, en hitt veit ég - að ég á eftir að sakna Egils og Silfursins hans alveg óskaplega. Og það er einhver óhugur í mér við tilhugsunina um að Egill fari í frí með Silfrið... og jafnvel bloggið sitt líka. Það er sem mig gruni að óprúttnir aðilar sjái sér leik á borði í fjarveru hans. En sjálfsagt er það nú bara ímyndun og ég sé fram á að eiga sjálf frí á sunnudögum næstu vikur og mánuði.

Í mínum huga hefur Egill Helgason, Silfrið hans á RÚV og bloggið hans á Eyjunni gegnt gríðarlega mikilvægu lykilhlutverki frá því hrunið varð í haust. Ég er sannfærð um að flestir hugsandi Íslendingar eru sammála því - hvort sem þeir eru alltaf sammála Agli og nálgun hans eða ekki. Eða getur einhver hugsað sér liðinn vetur án Silfursins? Ekki ég. Ekki frekar en mótmælafunda Harðar Torfa á Austurvelli og Borgarafunda Gunnars og félaga í Iðnó, á Nasa og í Háskólabíói. Ef við horfum á heildarmyndina og samspil allra þessara þátta - auk frétta, Kastljóss, Íslands í gær, netmiðla og bloggs - þá sést glögglega hve miklu umfjöllun allra þessara miðla, fjölmiðlafólks, bloggara og samtakamáttur almennings hefur áorkað í vetur.

En betur má ef duga skal. Eins og kom glögglega fram í máli margra í Silfrinu í dag eru ennþá ótalmargir pottar brotnir og ástandið skelfilegt. Ég minni á greinar Ólafs Arnarsonar sem ég benti á í gær í þessari færslu og minnst er á í fyrsta kafla Silfursins - og bókina hans. Mér skilst að fljótlega sé von á annarri bók um hrunið eftir sagnfræðinginn Guðna Th. Jóhannesson.

Ég bendi líka á þennan pistil Baldurs McQueen um pólitíska ábyrgð - og skort á henni hjá íslenskum stjórnmálamönnum. Við vitum ekki einu sinni ennþá hvaða íslensku  stjórnmálamenn voru í fjárhagslegum tengslum við bankamenn og útrásarauðmenn en kjósum þá samt aftur til trúnaðarstarfa á þingi. Án þess að vita sannleikann um... ja... nokkurn hlut raunar. Það er enn svo margt óupplýst og leyndinni er vandlega viðhaldið.

Mig langar að nota þetta tækifæri og þakka Agli fyrir veturinn. Þakka honum fyrir að standa vaktina svona vel. Og fyrir að fá í þáttinn til sín allt þetta frábæra fólk sem þar hefur upplýst okkur og frætt, leitt okkur ýmislegt fyrir sjónir, bent á og útskýrt, huggað og hughreyst. Takk fyrir mig.

Vettvangur dagsins 1 -  Ólafur Arnarson, Sveinn Aðalsteins, Andri Geir og Sigrún Davíðs

 

Vettvangur dagsins 2 - Lára Ómars og Eiríkur Stefáns

 

Paul Bennet

 

Jóhannes Björn

 


2. sætið á 10 ára fresti...

...og úti þess á milli? Ég er einn minnsti Júróvisjónsérfræðingur landsins en þekki þó stigagjöfina nokkuð vel. Enda er hún það eina sem ég hef fylgst með nokkuð lengi. Fátt kom á óvart við stigagjöfina í kvöld en þó var ekki eins eindregin slagsíða á henni og undanfarin ár. Kannski er það vegna hins breytta fyrirkomulags.

Svo vill til að einu lögin sem ég hafði lagt mig eftir og hlustað/horft á voru einmitt íslenska og norska lagið. En í kvöld var maður í stofunni hjá mér sem kallaði og hrópaði álit sitt á hinum lögunum sem ég sinnti þrifnaði, svalaskrúbbi, gluggaþvotti og öðrum skemmtilegheitum. Hann hefur haft tónlist að aðalatvinnu mestallt sitt líf og honum fannst norska lagið langbest - tónlistarlega séð. Var reyndar líka mjög ánægður með það íslenska.

Ég er ekki viss um að allir hafi áttað sig á því, að Rybek - flytjandinn sjálfur - samdi bæði lag og texta norska lagsins. Hann var vel að sigrinum kominn, guttinn.

Ég hafði spáð íslenska laginu 3. - 7. sæti svo 2. sætið kom skemmtilega á óvart. Þökk sé Norðmönnum. En í ár eru einmitt 10 ár síðan Selma lenti líka í 2. sætinu, munið þið...? Heyrir einhver samhljóm með því og íslenska laginu í ár?

 Hér eru sigurlögin tvö - það norska og íslenska - og lokahnykkur atkvæðagreiðslunnar.



Ég má til með að setja hér inn íslenska framlagið frá 1989 - svona til að afsanna 10 ára "regluna". Takk fyrir að benda á þetta, Emil. Fengum við ekki 0 stig það árið?


Frumgerðir, eftirlíkingar og klassískur Júrósmellur

Frumgerðin frá 1991 (þarna er hljómsveitin ennþá - allt annað líf!)

 

Eftirlíkingin - norskur húmor 2008 (góðir!) - Lagið er greinilega klassík

 


Ég kolféll fyrir honum þessum

Ég held að ég hafi aðeins einu sinni áður sett hér inn tónlistarmyndbrot úr Kastljósi, jólalag Baggalúts fyrir síðustu jól. Og ég held að ég hafi heldur aldrei sett tónlist í tvær færslur í röð - en ég stenst ekki mátið núna.

Ég kolféll fyrir þessu sjarmatrölli og hæfileikabúnti sem kom fram í Kastljósi kvöldsins. Hann heitir Helgi Hrafn Jónsson og það skein í gegn hve mjög hann nýtur þess sem hann gerir. Það hefur áhrif.

Annars er ég að undirbúa svolítið stórmál fyrir morgundaginn. Stand by me... Wink


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband