Færsluflokkur: Vefurinn

Húmor á Mogganum - nú hló ég!

Hinn nafnlausi Víkverjapistill í Morgunblaðinu sl. sunnudag vakti óskipta athygli mína. Þar var fjallað um hve blogg er ómerkilegt og illa skrifað. Ég tók pistlinum sem argasta gríni og minn gamli vinur, Sigurður Þór Guðjónsson, skrifaði um hann litla bloggfærslu í sínum persónulega stíl.

Mér fannst pistillinn svo skondinn að ég sendi Víkverja dagsins tölvupóst og þakkaði fyrir í þeim anda sem ég tók skrifum hans. Ekki bjóst ég við að fá svar, en rakst svo á það í morgun að bréfið mitt var birt í blaðinu - í Velvakanda á bls. 27. Ég skellihló þegar ég sá þetta og kann vel að meta húmorinn sem í því felst að birta bréfið frá mér.

En hver var þessi Víkverji sunnudagsins? Á Morgunblaðinu vinna margir eðalblaðamenn og sjálfsagt eru fjölmargir þeirra húmoristar. Var þetta Agnes? Ragnhildur? Kolbrún Bergþórs? Freysteinn? Steinþór? Marga fleiri mætti nefna. Hver er "snyrtipinni og safnar ekki drasli"? Ég hef ekki hugmynd um það - og mér er svosem slétt sama. Það sem mér finnst mest um vert er að Morgunblaðið hafi húmor og leyfi okkur hinum að njóta hans. Nóg er af alvörumálum í samfélaginu. Það er gott að fá að brosa og hlæja líka.

En Mogginn sleppti að birta hluta af undirskrift minni sem mér finnst auðvitað alveg ótækt, því þar kemur fram að ég er sjálf bloggari og fell augljóslega undir hina málefnalegu og skemmtilegu alhæfingu Víkverja, sem og eigið háð. Ég undirritaði bréfið nefnilega svona:

Lára Hanna Einarsdóttir
www.larahanna.blog.is
hvar hún hefur ekkert fram að færa

 Velvakandi - 2. júlí 2008Víkverji - 29. júní 2008


Auglýsingar á Moggabloggi

Mér var bent á fréttina hér að neðan í Fréttablaðinu í morgun og ég varð mjög kát að lesa þessi ummæli Árna Matthíassonar. Sjálf er ég alfarið á móti auglýsingunum og hef lokað á þær í mínum tölvum svo ég sé þær ekki. Það er mjög auðveld aðgerð sem hefur þann kost í för með sér að loka á allt sem hreyfist - því hreyfiauglýsingar þoli ég alls ekki af líkamlegum ástæðum sem ég kann ekki að skýra. Ég fæ einhvers konar riðu eða jafnvægistruflun sem veldur því að ég get ekki skoðað vefsíður með hreyfiauglýsingum. Fyrir nú utan það sem bloggvenzli mitt, Steingrímur Helgason, skrifar um hér og ég tek heilshugar undir.

Fleiri hafa skrifað um þessi auglýsingamál og þar fer þar fremstur meðal jafningja annað venzli mitt og gamall vinur, Sigurður Þór Guðjónsson með þessari færslu sem ég er líka innilega sammála. Sumir láta sér hins vegar fátt um finnast og segjast ekki taka eftir þessu.

Enn aðrir hafa hætt að skrifa á Moggabloggið og þeir eru fleiri en þessir fjórir eða fimm sem Árni nefnir í viðtalinu. Auk þess sem nokkrir hafa sett Moggabloggið á "skilorð" - ætla að hætta að skrifa ef auglýsingin verður ekki fjarlægð innan einhvers ákveðins tíma.

Alveg væri ég til í að borga hóflegt árgjald fyrir bloggsíðuna mína auglýsingalausa þótt ekki hafi ég bloggað mikið eða lengi. Ekki væri úr vegi að miða t.d. við árgjaldið á 123.is blogginu sem er rétt innan við 3.000 krónur á ári.

Ég skora á forsvarsmenn mbl.is og blog.is að leyfa bloggurum að velja um hóflegt árgjald fyrir síðuna sína annars vegar - eða auglýsingar hins vegar!

Moggablogg_augl


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband